Hæstiréttur íslands
Mál nr. 522/2008
Lykilorð
- Skuldamál
- Málsástæða
- Kröfugerð
- Dráttarvextir
|
Þriðjudaginn 7. apríl 2009. |
|
|
Nr. 522/2008. |
Ryn ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn IcePharma hf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Skuldamál. Málsástæða. Kröfugerð. Dráttarvextir.
I krafði R um greiðslu sex reikninga vegna áfengiskaupa fyrir veitingastað R. Ekki var ágreiningur um móttöku vörunnar, magn og verð. R hélt því hins vegar fram að hann hefði átt rétt til afsláttar sem ekki hefði verið reikningsfærður og næmi afslátturinn hærri fjárhæð en samtölu hinna umkröfðu reikninga. Krafðist hann sýknu af kröfu I. Var talið að R hefði ekki sannað gegn mótmælum I að við hann hefði verið gerður samningur um afslátt þess efnis sem hann hélt fram. Var R því dæmdur til að greiða umkrafða reikninga. Þá hélt R því fram að þrjár nánar tilgreindar innborganir frá honum, samtals 294.028 krónur, hefðu ekki verið færðar inn á viðskiptin og bæri að lækka kröfuna sem því næmi. Var talið að andmæli I við þessu væru of seint fram komin og því yrði krafa hans lækkuð sem þessari fjárhæð næmi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. júlí 2008. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 27. ágúst 2008 og var áfrýjað öðru sinni 23. september sama ár. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara lækkunar á henni. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms með þeirri breytingu að um dráttarvexti verði vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Krafa stefnda, sem þá hét Austurbakki hf., er byggð á sex reikningum vegna áfengiskaupa áfrýjanda fyrir veitingastaðinn Kaffi Reykjavík. Er ekki ágreiningur um móttöku vörunnar, magn og verð. Áfrýjandi heldur því hins vegar fram að hann hafi átt rétt til afsláttar sem ekki hafi verið reikningsfærður á tímabilinu frá ágúst 2003 til og með desember 2005. Nemi afslátturinn hærri fjárhæð en samtölu hinna umkröfðu reikninga og beri því að sýkna hann af kröfu stefnda. Fyrrum forstjóri Austurbakka hf., Árni Þór Árnason, lýsti því í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að ekki hefði verið gerður samningur um afslátt við áfrýjanda. Hann hefði hins vegar notið annars konar fyrirgreiðslu hjá fyrirtækinu. Hefur áfrýjandi ekki sannað gegn mótmælum stefnda að við hann hafi verið gerður samningur um afslátt þess efnis sem hann heldur fram.
Þá heldur áfrýjandi því einnig fram að þrjár nánar tilgreindar innborganir frá honum á árinu 2004, samtals 294.028 krónur, hafi ekki verið færðar inn á viðskiptin og beri að lækka kröfuna sem því nemi. Þessi málsástæða er nægilega fram komin í greinargerð áfrýjanda í héraði og vísar hann þar um í endurfært viðskiptayfirlit. Gaf þetta stefnda tilefni til þess að mótmæla málsástæðunni í héraði, en ekki verður séð að hann hafi þar sett fram þær skýringar sem er að finna í greinargerð hans fyrir Hæstarétti, þess efnis að samkomulag hafi verið um að greindur mismunur skyldi færður á viðskiptareikning félagsins Öðlings ehf. Eru andmæli stefnda við þessu of seint fram komin og verður krafa hans því lækkuð sem þessari fjárhæð nemur eins og nánar greinir í dómsorði.
Í stefnu í héraði krafðist stefndi dráttarvaxta án nánari tilgreiningar í sjálfri kröfunni, en tók fram í kafla um lagatilvísanir að krafan væri studd við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í greinargerð til Hæstaréttar hefur hann breytt þessu og krefst nú dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Talið verður í samræmi við fordæmi Hæstaréttar að tilvísunin til III. kafla nefndra laga í stefnunni hafi verið fullnægjandi og stefnda sé leiðréttingin heimil.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað sem ákveðst í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Ryn ehf., greiði stefnda, IcePharma hf., 3.162.990 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 11.896 krónum frá 10. nóvember 2005 til 24. sama mánaðar, af 335.891 krónu frá þeim degi til 30. sama mánaðar, af 816.785 krónum frá þeim degi til 5. desember sama ár, af 1.451.323 krónum frá þeim degi til 6. sama mánaðar, af 3.052.185 krónum frá þeim degi til 7. sama mánaðar, en af 3.162.990 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. apríl 2008, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af IcePharma hf., kt. 620269-6119, Lynghálsi 13, Reykjavík, gegn Ryn ehf., kt. 529603-3950, pósthólf 1462, Reykjavík, með stefnu sem birt var 4. janúar 2007.
Dómkröfur stefnanda eru að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.457.018 kr., ásamt dráttarvöxtum af 305.924 kr. frá 10.11.2005 til 24.11.2005, af 629.919 kr. frá 24.11.2005 til 30.11.2005, af 1.110.813 kr. frá 30.11.2005 til 05.12.2005, af 1.745.351 kr. frá 05.12.2005 til 06.12.2005, af 3.346.213 kr. 06.12. 2005 til 07.12.2005 og af 3.457.018 kr. frá 07.12.2005 til greiðsludags. Vísað er til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu varðandi kröfu um dráttarvexti. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda að svo stöddu. Til þrautavara er krafist verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Málskostnaðar er krafist úr hendi stefnanda að mati dómsins stefnda að skaðlausu.
Stefnandi lýsir málsatvikum og málsástæðum sínum á þann veg að krafan sé samkvæmt 6 reikningum, dagsettum á tímabilinu 10. nóvember 2005 til 7. desember 2005, útgefnum af Austurbakka hf. á hendur Ryn ehf., sem rekur Kaffi Reykjavík, vegna kaupa á áfengi, bjór o.fl. Reikningarnir eru sundurliðaðir þannig:
|
Nr. |
Útgáfudagur |
Gjalddagi |
Fjárhæð |
|
1. |
10.11.2005 |
10.11.2005 |
305.924 kr. |
|
2. |
24.11.2005 |
24.11.2005 |
323.995 kr. |
|
3. |
30.11.2005 |
30.11.2005 |
480.894 kr. |
|
4. |
05.12.2005 |
05.12.2005 |
634.538 kr. |
|
5. |
06.12.2005 |
06.12.2005 |
1.600.862 kr. |
|
6. |
07.12.2005 |
07.12.2005 |
110.805 kr. |
Samtals nemi framangreindar fjárhæðir 3.457.018 kr., sem sé stefnufjárhæð málsins auk dráttarvaxta og kostnaðar. Gjalddagi í viðskiptum aðila hafi verið útgáfudagur reikninga og miðist dráttarvaxtakrafan við það tímamark. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Greint er frá því að samkvæmt 3. gr. „framlagðrar samrunaáætlunar dags 3. maí 2006“ renni allar eignir og skuldir Austurbakka hf. inn í IcePharma hf., þ.m.t. viðskiptakröfur, og sé því IcePharma hf. stefnandi í máli þessu.
Stefndi rekur málavexti og málsástæður sínar með eftirfarandi hætti:
Stefndi rekur veitingahúsið Kaffi Reykjavík að Vesturgötu 2. Stefndi átti fjölþætt viðskipti við Austurbakka h.f. sem var stór innflytjandi á áfengum drykkjum og aðföngum til reksturs veitingahúsa. Stefndi var með stærstu viðskiptaaðilum Austurbakka h.f. og átti að njóta bestu viðskiptakjara og hæsta afsláttar í reikningskaupum. Afslátt á að tilgreina í reikningi þannig að hann verði sýnilegur og staðreyndur. Austurbakki h.f. hafði veitt stefnda ábyrgð á framkvæmdaláni, sbr. dskj. nr. 12 og var sammæli aðila að reikningsfæra afslátt í yfirlit er lánið væri uppgreitt. Lánið var uppgreitt sumarið 2005 en afsláttur var ekki reikningsfærður. Afsláttur af sterkum vínum átti að vera 8%, 12% afsláttur af léttum vínum og kr. 30,oo á lítra í bjór. Heildarviðskipti málsaðila til ársloka 2005 nam ríflega kr. 50.000.000. Stefndi taldi að inneign hans í afslætti næmi hærri fjárhæð en viðskiptaskuld hans og með hliðsjón af því er sýknukrafa sett fram.
Viðskipti málsaðila voru frá árinu 2003 til ársloka 2005, en Austurbakki h.f. sameinaðist þá stefnanda og hætti sölu áfengis. Stefndi hefur fengið bókhaldsþjónustu Gunnars ehf. (en það félag hefur veitt stefnda bókhaldsþjónustu) til þess að færa viðskiptayfirlit hvers árs, þ.e. áranna 2003 2006, sbr. dskj. nr. 8, 9. 10 og 11 og reikna afslátt skv. samningi á dskj. nr. 7 eftir hverjum reikningi fyrir sig. Á árinu 2003, sbr. dskj. nr. 8, hafði Austurbakki h.f. einhliða fært yfirlit afslátt sem var lægri en samkomulag málsaðila gerði ráð fyrir. Stefndi hefur í yfirliti leiðrétt afslátt með vísan til dskj. nr. 7 vegna árs 2003 og nemur leiðrétting samtals kr. 614.756 og bakfært vexti kr. 120976, samtals 735.732 kr. Þá hefur stefndi með sama hætti fært umsaminn afslátt á viðskiptayfirlit árs 2004, sbr. dskj. nr. 9, er nemur kr. 2.039.420 auk þess bakfært vexti kr. 121.770 eða samtals 2.161.190.
Þá hefur stefndi leiðrétt í yfirliti vanbókaðar greiðslur frá stefnda á árinu 2004 samtals kr. 294.028, sbr. og dskj. nr. 9.
Í yfirliti árs 2005, sbr. dskj. nr. 10, er ófærður afsláttur þess árs kr. 2.051.645 auk þess sem bakfærðir vextir vegna afsláttar nema kr. 135.420 eða samtals kr. 2.187.065. Skv. þessu reikningsyfirliti þá nam inneign stefnda hjá Austurbakka h.f., að teknu tilliti til afsláttar og leiðréttinga, í árslok 2005 kr. 776.044.
Samkvæmt viðskiptayfirliti árs 2006, sbr. dskj. nr. 11, að teknu tilliti til innborgana 3. janúar og 2. febrúar 2006, nam inneign stefnda hjá stefnanda hinn 31.12.2006 kr. 1.639.007. Með vísan til fyrirliggjandi telur stefndi að hann skuldi stefnanda ekkert og áskilur sér rétt til þess að sækja inneignina í dómsmáli.
Bakfærðir vextir, vantaldar greiðslur stefnd og ófærður afsláttur samkvæmt samkomulagi nemur samtals kr. 5.083.575 og er þessi krafa stefnda að hluta til höfð uppi gegn kröfum stefnanda.
Varakrafa stefnda um sýknu að svo stöddu er á því reist að stefnandi hefur ekki fært leiðréttingar í reikningsyfirlit.
Þrautavarakrafa stefnda til lækkunar á kröfum stefnanda tekur mið af leiðréttingum í málatilbúnaði stefnanda.
Krafa stefnda um málskostnað á hendur stefnanda tekur mið af grunnrökum málskostnaðarákvæða einkamálalaga nr. 91/1991.
Valur Magnússon, forsvarsmaður stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að frá árinu 2003 hafi stefndi keypt svo til allt vín, allan bjór og tengdar vörur af Austurbakka. Austurbakki hafi gengið í ábyrgð fyrir stefnda á láni hjá Landsbanka að fjárhæð 10.000.000 kr. Þegar þau viðskipti hófust hafi munnlega verið samið um að stefndi keypti allt vín sem félagið gæti frá Austurbakka og fengi afslátt af því, mismunandi eftir því hvort um sterkt eða létt vín var að ræða frá 8% upp í 14%. Á þeim árum sem um er að ræða hafi stefndi keypt af Austurbakka fyrir 60.000.000 til 70.000.000 kr. Stefndi hafi verið einn stærsti viðskiptavinur Austurbakka.
Þegar Austurbakki var seldur kvaðst Valur hafa spurt um afsláttinn sem hann átti inni hjá félaginu, en hann hafi ekki viljað krefja félagið um það meðan hann átti eftir að gera upp lánið hjá Landsbankanum. Eftir að hann gerði það upp, hafi hann fengið þau svör, að þetta væri að koma og þetta yrði fært inn á viðskiptareikning hans. Hann hafi hins vegar aldrei séð það. Seinni hluta árs 2005 hafi hann gengið frekar eftir þessu vegna þess að um mikla fjárhæð var að ræða. Hann eigi inni hjá stefnanda tvöfalda þá fjárhæð sem stefnandi krefji stefnda um.
Spurt var hvernig hann hefði bókfært viðskiptin sem hér um ræðir. Valur sagði að þetta hafi allt verið greitt upp. Um hafi verið að ræða „eftirágreiddan afslátt“ sem greiða átti. Haldið hafi verið utan um þetta í bókhaldinu hjá „okkur“.
Valur sagði að í samskiptum sínum við Austurbakka hafi hann rætt við Árna, forstjórann, mág hans og systur, framkvæmdastjóra víndeildar og sölumenn o.fl. Allir hefðu vitað að hann ætti að vera með hámarks afslátt þarna, það hefði verið viðurkennt. Hann hefði verið stærsti viðskiptavinur þeirra.
Spurt var hvort rétt væri að IcePharma hf., sem keypti Austurbakka, hafi hætt innflutningi á vínum. Valur kvaðst halda að svo hafi verið.
Lagt var fyrir Val dskj. nr. 12, sem er myndrit af samningi Austurbakka hf. við stefnda, dags. 18. júlí 2003. Vísað var til greinar 2 í samningnum þar sem segir: Greiðslur frá kreditkortafyrirtækjum til Ryn ehf. vegna veitingasölu á Kaffi Reykjavík, renna inní reikning nr. 101-26-313888. Landsbanki Íslands er með handveð í þessum reikningi, og greiðast afborganir af ofangreindu láni úr honum, áður en fjármunum er ráðstafað þaðan til Ryn ehf. Valur sagði að hann hefði greitt upp viðskiptakröfur frá Austurbakka og síðan hafi hann greitt upp lánið. Framkvæmdin hafi verið þannig að milli hans og gjaldkera Austurbakka hverju sinni hafi verið ákveðið hvaða reikningar voru greiddir.
Gunnar Már Kristófersson gaf skýrslur fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hafi séð um bókhaldsþjónustu fyrir stefnda frá stofnun félagsins. Hann kvaðst þekkja til viðskipta stefnda við Austurbakka. Vísað var til dskj. nr. 8-11, sem eru svokölluð viðskiptayfirlit milli Austurbakka hf. og Ryn ehf. frá 1. janúar 2003 til 31. desember 2006, unnin af Bókhaldsþjónustu Gunnars ehf. Gunnar staðfesti að viðskiptayfirlitið væri verk sitt.
Gunnar kvaðst hafa starfað við bókhaldsþjónustu í rúmlega þrjá áratugi. Hann kvaðst ekki vera löggiltur endurskoðandi. Hann kvaðst vera stýrimannaskólagenginn, með vélstjórapróf og menntum frá Háskólanum í Reykjavík í bókhaldi.
Gunnar sagði að afsláttur hefði ekki verið færður á reikninga Austurbakka eins og hann hafi talið að ætti að gera samkvæmt samkomulagi, en hann hafi vitað um samkomulag Austurbakka hf. og Ryn ehf. Hann hefði rætt það við yfirmenn sína og síðan hefði hann hringt tvisvar eða þrisvar til forsvarsmanna Austurbakka og óskað eftir að fá reikning fyrir afslættinum eða kreditreikninga fyrir viðskiptunum svo unnt væri að færa þetta eðlilega skv. bókhaldslögum. Þá hafi honum verið sagt að búið væri að senda reikningana til stefnda. Í seinna skiptið, sem hann hringdi, hafi honum verið sagt að þessu yrði kippt í liðinn en ekkert hefði gerst. Hann kvaðst ekki muna nöfn þeirra manna hjá Austurbakka, sem hann talaði við. Hann hefði beðið um viðtal við þá sem hefðu með þetta að gera. Hann hafi skilið það af svörum þessara manna að stefndi ætti rétt á afslætti en að eftir væri að færa hann.
Hann kvaðst hafa unnið viðskiptayfirlitið eftir öllum reikningum um viðskipti aðila og afreiknað afslátt í samræmi við það samkomulag aðila sem hann taldi vera í gildi.
Lagt var fyrir Gunnar dskj. nr. 7, sem stefndi lagði fram undir heitinu staðfesting stefnanda um afslátt. Gunnar sagði að þar væri greint frá afslættinum sem hann lagði til grundvallar í viðskiptayfirlitinu.
Vísað var til dskj. nr. 8, viðskiptayfirlit 01.01.2003 til 31.12.2003. Gunnar sagði að þar væri niðurstaðan um vanfærðan afslátt 614.756 kr. Þá væru bakfærðir vextir að fjárhæð 120.976 kr.
Vísað var til dskj. nr. 9, viðskiptayfirlit 01.01.2004 til 31.12.2004. Gunnar sagði að þar væri niðurstaðan um vanfærðan afslátt 2.039.420 kr. Þá væru bakfærðir vextir að fjárhæð 121.770 kr. Þá hafi komið í ljós að á yfirliti Austurbakka voru á árinu 2004 vanbókaðar greiðslur, greiðsla frá 02.09.2004 að fjárhæð 1.129.576. Austurbakki hafi fært þetta sem 1.029.576 kr., sbr. dskj. nr. 13, sem er reikningsyfirlit um viðskipti aðila sem lagt var fram af hálfu stefnanda.
Vísað var til dskj. nr. 10, viðskiptayfirlit 01.01.2005 til 31.12.2005. Gunnar sagði að þar væri niðurstaðan um vanfærðan afslátt 2.051.645 kr. Þá væru bakfærði vextir að fjárhæð 135.420 kr.
Vísað var til dskj. nr. 11, viðskiptayfirlit 01.01.2006 til 31.12.2006. Gunnar sagði að þar kæmu fram síðustu færslurnar um viðskipti aðila, innborganir og vaxtafærslur.
Gunnar kvaðst hafa unnið umrædd viðskiptayfirlit nokkurn veginn jafnóðum vegna þess að hann hafi verið að reyna að fá fram hjá Austurbakka leiðréttingu á þessum afsláttarreikningum. Hann hefði hringt og beðið um að honum yrðu sendir kreditreikningar eða afsláttarreikningar fyrir þessum afslætti. Hann hafi byrjað fyrst á árinu 2005. Á miðju ári hefði hann verið að ljúka ársreikningum 2004. Spurt var um orðin Afreiknaður afsláttur samkv. samkomulagi í dskj. nr. 9 og 10. Gunnar sagði að samkomulagið, sem þar um ræði, komi fram á dskj. nr. 7, sem áður var getið. Auk þess hefðu yfirmenn hans sagt honum að þessi afsláttur ætti að vera.
Bent var á að dskj. nr. 7 hefði ekki verið til fyrr en í mars 2006. Gunnar sagði að yfirmenn sínair hefðu sagt sér hver prósentan var og hann hefði farið eftir því.
Óðinn Jóhannsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hafi verið starfsmaður Austurbakka hf. í átta ár frá 1998 þar til í september eða október 2005. Hann kvaðst hafa starfað sem sölumaður hjá félaginu. Hann kvaðst hafa átt viðskipti við Kaffi Reykjavík eða Ryn hf. sem sölumaður hjá Austurbakka hf. Um mikil viðskipti hefði verið að ræða. Kaffi Reykjavík hafi verið einn stærsti viðskiptavinur víndeildar Austurbakka hf. á veitingahúsamarkaðinum.
Óðinn sagði að vínin væru á listaverði hjá fyrirtækinu. Hann kvaðst hafa skrifað reikningana í flestum tilfellum. Hann hafi tekið við pöntunum og í flestum tilfellum fært reikningana sjálfur. Í tilfelli Kaffi Reykjavíkur hefði ekki verið færður afsláttur á reikningum. Í flestum tilfellum hefði afsláttur verið færður á reikning en margs konar samningar væri í gangi í þessum viðskiptum. Sumir hafi verið með „eftirágreiddan“ afslátt en aðrir með afslátt á reikning eða með „fyrirframgreiddan“ afslátt.
Óðinn sagði að viðskipti við stefnda við Austurbakka hf. hafi verið með þeim hætti að reikningar voru færðir án afsláttar. Hann kvaðst ekki hafa verið í samningamálum fyrir Austurbakka hf. Hann sagði að allir fengju einhvern afslátt í þessum viðskiptum en misjafnt væri hvernig hann væri færður. Hann hefði talið að Kaffi Reykjavík fengi afslátt.
Lagt var fyrir Óðinn dskj. nr. 7, sem áður var getið, og spurt var hvort hann þekkti afslætti, er þar er greint frá. Óðinn taldi að um eðlilega afslætti væri að ræða.
Óðinn sagði að eftir að hann skrifaði reikningana hafi þeir farið í bókhald fyrirtækisins. Hann hafi skráð þá og varan farið og reikningarnir endað uppi í bókhaldi. Ekki hefði verið í hans verkahring sem sölumanns að skipta sér frekar af því.
Óðinn kvaðst muna eftir því að Valur bað um að fá gögn um afslátt. Valur hefði margbeðið hann um það. Kvaðst hann hafa komið því til skila þangað sem það átti heima til starfsmanns sem sá um þessa útreikninga. Þegar það gekk ekki eftir þá hefði hann tvisvar talað við forstjórann um þetta. Forstjórinn hefði tjáð honum að þetta yrði gert.
Óðinn kvaðst ekki hafa haft hugmynd um hvort stefndi hafði fyrirframgreiddan afslátt eða ekki á þessum tíma. Aðrir hefðu séð um samningagerð og sagt honum hvað ætti að standa á reikningum. Hann hefði fært fullt verð sem síðan var reiknað út af öðrum.
Árni Þór Árnason, fyrrverandi forstjóri Austurbakka hf., gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði verið forstjóri Austurbakka hf. á árinu 2003 til í loka apríl 2005. Hann hefði ekki unnið hjá Austurbakka hf. eftir það. Hann hefði verið á launum eitthvað aðeins lengur en ekki starfað fyrir félagið eða komið nálægt rekstri félagsins eftir apríllok 2005. Fyrirtækið hefði verið selt Atorku eða Yrslu, dótturfyrirtæki Atorku, sem keypti öll hlutabréfin í Austurbakka hf., og þar með hafi afskiptum hans af því lokið. Fyrirtækið hafi síðar verið sameinað IcePharma hf.
Árni Þór kvaðst þekkja Val Magnússon. Kaffi Reykjavík hefði átt töluverð viðskipti við Austurbakka hf. Kaffi Reykjavík hefði verið með stærstu viðskiptavinum í sambandi við áfengiskaup. Alls konar samningar hefðu verið í gangi í viðskiptum félagsins. Hann kvaðst hafa gert einn samning með afslætti við Kaffi Reykjavík, samning um Boru vodka. Það hefði verið eini samningurinn í þessa veru sem hann gerði við Val Magnússon.
Árni Þór sagði að Austurbakki hf. hefði gengið í ábyrgð á 10.000.000 kr. láni stefnda hjá Landsbanka Íslands. Í tilfelli Vals hafi það verið það sem Austurbakki gerði fyrir hann.
Lagt var fyrir Árna Þór dskj. nr. 7, sem áður var getið. Árni kvað tölurnar vera trúverðugar. Hann kvaðst ekki muna eftir viðræðum við Val um afslátt. Hann hafi ekki tekið þátt í neinum slíkum viðræðum. Einungis hann og Valdimar Ólsen fjármálastjóri hefðu haft heimild til að gera samninga fyrir félagið og veita afslátt á kaupverði eða önnur vildarkjör.
Árni Þór sagði að þegar afsláttur væri fyrirframgreiddur væri honum náð inn á eftir. Væri þá greitt fullt verð fyrir vöruna og væri það eðlilegt.
Spurt var hvort hann teldi að veittur væri afsláttur þegar um svo mikil viðskipti væri að ræða eins og Ryn ehf. eða Kaffi Reykjavík hefðu við Austurbakka hf. Árni Þór sagði að þeir hefðu átt mjög góð viðskipti við hann [Val Magnússon] og þeir hafi komið með mikil viðskipti til þeirra. Fyrirgreiðsla þeirra [hjá Austurbakka hf.] til þeirra [Vals, Ryn ehf. eða Kaffi Reykjavík] hafi aðallega verið í formi þess að þeir [hjá Austurbakka hf.] ábyrgðust umrædda skuld stefnda við Landsbanka Íslands. Þegar leið að því að ljúka greiðslu lánsins hafi menn verið farnir að tala um hvað yrði gert í framhaldinu með afslátt og annað.
Lagt var fyrir Árna Þór dskj. nr. 3, sem er myndrit af sex reikningum Austurbakk hf. á Kaffi Reykjavík-Ryn ehf. sem dómkrafa stefnanda er byggð á. Spurt var hvort þar væri tilgreint umrætt listaverð. Árni Þór kvaðst ekki vita það.
Ályktunarorð: Fyrir liggur í málinu að stefndi fékk reikninga frá Austurbakka hf. sem krafa stefnanda er byggð á, sbr. dskj. nr. 10 og 13. Stefndi neitar ekki að hafa keypt af Austurbakka hf. og móttekið þær vörur sem reikningarnir greina frá, sbr. dskj. nr. 3. Stefndi byggir hins vegar á því að eiga inni hjá stefnanda hærri fjárhæð í formi afsláttar sem munnlega hafi verið samið um og beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.
Fyrrverandi forstjóri Austurbakka hf., Árni Þór Árnason, bar fyrir rétti að aðeins einn samningur um afslátt hafi verið gerður við stefnda, samningur um Boru vodka. Ekki liggja fyrir í málinu nein haldbær gögn um að forsvarsmenn Austurbakka hf. hafi samið við stefnda um að veita honum frekari aflsátt en þar greinir. Af dskj. nr. 7, sem stefndi lagði fram og kallar staðfestingu stefnanda um afslátt verður ekki ráðið að stefnandi hafi staðfest, að stefndi eigi inni hærri fjárhæð í formi afsláttar hjá stefnanda, en stefnandi krefur stefnda um með þessari málsókn.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnaði, allt eins og í dómsorði segir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Ryn ehf., greiði stefnanda, IcePharma hf., 3.457.018 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 305.924 kr. frá 10.11.2005 til 24.11.2005, af 629.919 kr. frá 24.11.2005 til 30.11.2005, af 1.110.813 kr. frá 30.11.2005 til 05.12.2005, af 1.745.351 kr. frá 05.12.2005 til 06.12.2005, af 3.346.213 kr. 06.12. 2005 til 07.12.2005 og af 3.457.018 kr. frá 07.12.2005 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.