Hæstiréttur íslands
Mál nr. 346/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Ölvunarakstur
- Vátryggingarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 23. janúar 2003. |
|
Nr. 346/2002. |
Tryggingamiðstöðin hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) gegn Bæring Jóni Skarphéðinssyni (Gestur Jónsson hrl.) |
Bifreiðir. Ölvunarakstur. Vátryggingarsamningur.
Bifreið í eigu B skemmdist í umferðaróhappi. Var vátryggingarfélagið T hf. ekki talið hafa leitt nægar líkur að því að B, sem var ölvaður þegar óhappið átti sér stað, hefði sjálfur ekið bifreiðinni umrætt sinn. Var T hf. því dæmt til að greiða B bætur fyrir tjón á bifreiðinni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júlí 2002. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi krefst stefndi þess að áfrýjanda verði gert að greiða sér kostnað af viðgerð skemmda, sem urðu á bifreið stefnda PZ 736 aðfaranótt 5. júlí 2000 þegar henni var ekið á umferðarmerki við Oddagötu á Skagaströnd, en hún var húftryggð hjá áfrýjanda. Stefndi, sem var ölvaður þegar atvik þetta gerðist, kveðst hafa verið farþegi í bifreiðinni, sem annar nafngreindur maður hafi ekið. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður ekki fallist á að áfrýjandi hafi leitt nægar líkur að því að stefndi hafi sjálfur ekið bifreiðinni umrætt sinn. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnda, Bæring Jóni Skarphéðinssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2002.
I
Mál þetta var höfðað 26. nóvember 2001 og dómtekið 17. maí 2002. Stefnandi er Bæring Jón Skarphéðinsson kt. 111081-4419, Ránarbraut 23, Skagaströnd en stefndi er Tryggingamiðstöðin hf. kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda 681.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 25. ágúst 2000 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Til vara gerir hann kröfur um að stefnda verði gert að greiða stefnanda 664.365 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 25. ágúst 2000 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi þess að tekið verði fram í dómsorði að dráttarvöxtum skuli bætt við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 25. ágúst 2001 en síðan árlega þann dag. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í aðalkröfu krefst hann málskostnaðar en hvað snertir varakröfu krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður.
II
Málsatvik eru þau, að aðfararnótt miðvikudagsins 5. júlí 2000 lenti bifreiðin PZ-736 í umferðaróhappi er henni var ekið á umferðarmerki á Oddagötu á Skagaströnd og skemmdist hún töluvert. Bifreið þessi var í eigu stefnanda og hafði hann keypt kaskótryggingu hjá stefnda vegna hennar. Óumdeilt er að tjón stefnanda vegna óhappsins nemi fyrst og fremst viðgerðarkostnaði á bifreið hans að fjárhæð 664.365 krónur en stefndi hefur, verði hann dæmdur bótaskyldur, mótmælt kröfu um bankakostað að fjárhæð 16.635 krónur, auk þess sem hann krefst frádráttar vegna sjálfsáhættu stefnanda að fjárhæð 96.000 krónur. Þá er einnig óumdeilt í málinu að stefnandi var ölvaður þegar umrætt atvik átti sér stað.
Stefnandi heldur því fram að umrædda nótt hafi hann vegna ölvunar ekki ekið bifreið sinni heldur hafi hann fengið vin sinn Guðjón Hall Sigurbjörnsson til að aka henni fyrir sig og hafi það verið Guðjón sem ók bifreiðinni er óhappið varð. Stefndi byggir á því hins vegar að stefnandi hafi sjálfur ekið bifreiðinni umrætt sinn og þar sem hann hafi ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis, hafi hann fyrirgert rétti til bótagreiðslna úr hendi stefnda.
Málið var rannsakað sem ölvunarakstursmál hjá sýslumanninum á Blönduósi. Í frumskýrslu Kristófers Sæmundssonar lögreglumanns, sem var annar þeirra lögreglumanna sem komu á vettvang eftir óhappið, kemur fram að hringt hafi verið í lögreglu frá Skagaströnd umrædda nótt, á tímabilinu klukkan 3:15 til 3:20 og tilkynnt að stefnandi hafi verið að aka bifreið sinni undir áhrifum áfengis og ekið á staur eða umferðarmerki við húsið Bjarg við Hólanesveg. Hafi lögreglumennirnir komið á staðinn um klukkan 3:45 og hafi bifreið stefnanda þá verið mannlaus, læst og töluvert skemmd. Í kjölfarið hafi lögreglumennirnir farið heim til stefnanda og bankað hjá honum. Í fyrstu hafi þeir ekki orðið varir við umgang innandyra og því litið inn um stofuglugga sem var við hlið hurðarinnar. Undir glugganum hafi stefnandi legið á grúfu fyrir framan sófa, með GSM síma í höndunum og að mati lögreglunnar var greinilegt að stefnandi hringdi og talaði svo í símann. Eftir nokkra stund hafi stefnandi síðan opnað fyrir lögreglumönnunum og hafi hann verið talsvert ölvaður.
Kemur fram í frumskýrslunni að stefnandi hafi aðspurður borið að Guðjón Hall Sigurbjörnsson hafi ekið bifreið hans þegar óhappið varð. Hafi þeir félagar skilið við bifreiðina fyrir utan hús Hallbjörns Hjartarsonar við Hólanesveginn. Hafi stefnandi svo verið handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur, með hliðsjón af tilkynningunni til lögreglu um að hann væri að aka ölvaður, staðsetningu bifreiðarinnar og því hve mjög stefnanda hafi verið í mun að skýra það út hver hafi ekið bifreiðinni án þess að sá aðili væri til staðar. Voru tekin blóð- og þvagsýni úr stefnanda vegna alkóhólrannsóknar og honum síðan ekið heim. Niðurstaða úr þessum rannsóknum sýndu að alkóhól í blóði reyndist vera 1,76 0/00 og í þvagi 2,4 0/00.
Að þessu loknu kveðst lögreglan hafa farið heim til Guðjóns Hall Sigurbjörnssonar og vakið hann. Hafi hann sagst hafa ekið bifreið stefnanda og misst stjórn á henni og hafi hann staðfest það sem fram hafi komið hjá stefnanda um að þeir hafi skilið við bifreiðina fyrir utan hús Hallbjörns Hjartarsonar. Kemur fram hjá lögreglunni að þeim hafi þótt frásögn Guðjóns ótrúverðug og hafi þeir haldið áfram að spyrja hann nánar út í atburðinn og hafi hann þá viðurkennt í þeirra beggja eyru að hann hafi ekki ekið bifreiðinni, heldur verið heima hjá sér sofandi þegar stefnandi hafi hringt í hann og beðið hann um að segjast hafa ekið.
Báðir lögreglumennirnir sem komu á vettvang, Kristófer Sæmundsson og Vilhjálmur K. Stefánsson komu fyrir dóminn og staðfestu það sem fram kemur í skýrslum þeirra um viðræður þeirra við stefnanda og Guðjón Hall Sigurbjörnsson umrædda nótt.
Í lögregluskýrslu sem tekin var af stefnanda daginn eftir óhappið upplýsti hann að umrætt kvöld hafi hann ásamt vinnufélögum sínum verið í grillveislu og síðar um kvöldið hafi hann lent þar í slagsmálum. Hafi hann meiðst og verið ekið til Blönduóss til að láta gera að sárum sínum og hafi hann að því búnu farið heim til sín. Hann hafi síðar um nóttina viljað fara út í sundlaug þar sem hann taldi að einhverjir væru þar að skemmta sér og hafi hann hringt í Guðjón Hall Sigurbjörnsson og beðið hann að aka sér þangað. Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður og kvaðst Guðjón sennilega hafa lent í því að missa bifreiðina út úr beygju og lent uppi á gangstétt og á umferðarskiltið á gatnamótum Oddagötu og Hólanesvegar. Hafi Guðjón stöðvað bifreiðina, líklega fyrir utan hjá Hallbirni Hjartarsyni. Hafi stefnandi sagt Guðjóni að fara heim og hann síðan farið sjálfur heim en skilið bifreiðina eftir opna með lyklana í, en sprungið hafi verið á bifreiðinni. Daginn eftir hafi verið búið að færa bifreiðina frá þeim stað sem þeir félagar hefðu skilið við bifreiðina á þann stað sem lögreglan fann hana.
Stefnandi bar nokkuð á sömu lund um málavexti fyrir dómi og hann hafði gert hjá lögreglu. Hann upplýsti að fyrrgreind slagsmál sem hann lenti í hafi verið við bræðurna Þröst Árnason og Svan G. Árnason. Þá bar hann að hann hafi farið aftur í veisluna eftir að gert hafði verið að meiðslum hans, en þá hafi staðið til að fara í sund en hann hafi ekki vegna meiðsla sinna getað farið í sund og hafi félagar hans ekki viljað taka hann með. Hann hafi þá farið heim og hringt í vitnið Guðjón og beðið hann að skutla sér í sundlaugina en á leiðinni þangað hafi óhappið orðið. Stefnanda fannst lögreglan sýna sér ókurteisi og taldi það stafa vegna fyrri kynnum þeirra af sér, en hann kvaðst áður hafa átt það til að lenda í slagsmálum en það sé nú liðin tíð. Stefnandi hafði ekki skýringu á því hvers vegna bifeið hans fannst á öðrum stað en hann og Guðjón segðust hafa skilið við hana.
Skýrsla var einnig tekin daginn eftir óhappið af Guðjóni Hall Sigurbjörnssyni og staðfesti hann það sem stefnandi hafði borið um atburðinn og að hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar er umrætt óhapp varð. Taldi hann líklegt að bifreiðin hafi lent á umferðarskiltinu þótt hann hefði ekki tekið eftir því og hafi hann stöðvað hana fyrir utan hús Hallbjarnar Hjartarsonar. Hann hafi orðið skelkaður og farið rakleitt heim og skilið bifreiðina eftir og lyklana í honum. Aðspurður um heimsókn lögreglu til hans nóttina áður kvað hann þá hafa spurt sig um ferðir sínar. Hafi hann sagt þeim eins og var en lögreglan hafi lagt hart að sér að segja að stefnandi hafi ekið bifreiðinni og haft fyrir sér meðal annars það að bifreiðin hafi ekki verið á þeim stað sem hann hafi sagt auk þess sem einhver hefði sagst hafa séð stefnanda aka bifreiðinni á skiltið. Hann ítrekaði það að hann hafi ekið bifreiðinni. Vitnið Guðjón bar mjög á sömu lund fyrir dómi og hann gerði hjá lögreglu og bar þeim saman um málavexti honum og stefnanda. Hann neitaði því alfarið að hafa sagt við lögregluna að hann hefði ekki ekið bifreiðinni eins og greinir í frumskýrslu lögreglunnar. Hins vegar hafi lögreglunni verið mikið í mun að fá hann til að segja það þar sem þeir hafi verið búnir að ákveða að stefnandi hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn. Hann gat ekki frekar en stefnandi gefið skýringu á því hvers vegna bifreiðin fannst á öðrum stað en þeir félagar hafi skilið við hana.
Þann 5. júlí 2000 var tekin skýrsla hjá lögreglu af Svani G. Árnasyni vegna málsins. Kom fram hjá honum að hann hefði verið að skemmta sér með skipsfélögum þar á meðal stefnanda. Hafi menn ákveðið að fara í heita pottinn í sundlauginni og ekki viljað hafa stefnanda með þar sem hann hafi verið búinn að vera með leiðindi um kvöldið og þeir lent í átökum við hann. Hafi stefnandi verið mjög ölvaður og orðið mjög reiður vegna þessa og farið heim. Hann hafi síðan ásamt fleirum farið til Jónasar Þorvaldssonar að Ægisgrund 3 og verið þar fyrir utan er heyrst hafi miklir skruðningar og högg í bifreið stefnanda og hafi hann hlaupið fyrir horn hússins og séð bifreið stefnanda stopp á Hólanesveginum og biðskyldumerkið hafi legið niðri. Hafi stefnandi komið út úr bifreiðinni ökumannsmegin og hafi Sigurjón Ingólfsson verið með honum í bílnum. Kvað Svanur að hann ásamt framangreindum Jónasi, Reyni Lýðssyni og Rögnu eiginkonu Jónasar hafi farið að bifreiðinni og þau hin rætt við stefnanda. í lögregluskýrslunni: Hann hafi síðan farið heim og tilkynnt þetta til lögreglu og farið að sofa. Fullyrti Svanur að stefnandi hafi ekið bifreiðinni og Guðjón hafi hvergi verið þar nærri.
Fyrir dómi bar vitnið Svanur að hann hafi verið fyrir utan heimili Jónasar Þorvaldssonar og hafi hann heyrt skruðninga og litið fyrir hornið en ekkert séð. Hann hafi síðan farið á bifreið sinni og ekið á staðinn þar sem bifreið stefnanda var og hafi stefnandi verið fyrir utan hana og grátið. Hann bar fyrir dómi að hann hafi sagt ósatt í lögregluskýrslu 5. júlí 2000 um að hafa séð stefnanda koma út úr bifreiðinni ökumanns megin. Þá neitaði hann því að hafa tilkynnt lögreglu að stefnandi væri að aka ölvaður. Hann hafi heldur ekki séð stefnanda aka bifreiðinni umrætt sinn. Hann kvað ástæðu þess að hann hefði sagt ósatt vera þá að honum hafi á þessum tíma verið mjög illa við stefnanda sem hefði fyrr um kvöldið lent í áflogum við bróður vitnisins.
Sigurjón Ingólfsson bar hjá lögreglu að hann myndi ekki hvort hann hafi verið farþegi í bifreið stefnanda umrædda nótt eins og Svanur hafði haldið fram í skýrslu sinni hjá lögreglu. Mundi hann lítið eftir atburðum sökum ölvunar.
Reynir Lýðsson kvað nokkra grillveislugesti hafa komið heim til hans um nóttina þar sem slagsmál hafi brotist út milli stefnanda og Þrastar Árnasonar og þeir í kjölfarið verið fluttir á sjúkrahúsið á Blönduósi. Síðar um nóttina hafi hann ásamt fleirum gengið niður að Ægisgrund 3 þar sem Jónas Þorvaldsson búi og hafi þeir staðið í innkeyrslunni og hann verið að tala við Vilhjálm Jónsson og Jónas er heyrst hafi skruðningar og taldi hann tíu mínútur hafa getað liðið frá því hávaðinn heyrðist þar til þeir gengu niður götuna. Hafi þeir séð bifreið stefnanda skemmda og gengið að henni. Taldi hann aðspurður að meira en tíu mínútur og minna en þrjátíu mínútur hafi liðið frá því skruðningarnir heyrðust þar til þeir komu að bifreiðinni sem staðið hafi á gatnamótum Hólanesvegar og Fjörubrautar og hafi enginn verið við bifreiðina þegar hann hafi komið þar að. Með honum í för hafi verið Jónas Þorvaldsson og Vilhjálmur Jónsson og hugsanlega gæti Svanur hafa verið með í för en hann hafi verið með þeim fyrir utan hús Jónasar. Vildi hann þó ekkert fullyrða um hvort Svanur hafi farið með þeim alla leiðina að bifreiðinni. Vitnið gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti það sem fram kom í lögregluskýrslu hans og að hann minnti að Svanur hafi verið fyrir utan hús Jónasar þegar þeir heyrðu hávaðann frá bifreið stefnanda.
Jónas Fanndal Þorvaldsson bar hjá lögreglu að hann og Ragna eiginkona hans, Vilhjálmur Jónsson, Reynir Lýðsson og Svanur Árnason hafi umrædda nótt staðið fyrir utan heimili hans og hafi þau heyrt hávaða og gengið út á Oddagötuna til að kanna hvað hefði komið fyrir. Hafi þau séð að ekið hafði verið á umferðarskilti og síðan hafi þau gengið aðeins lengra og séð bifreið stefnanda standa mannlausa á gatnamótum Fjörubrautar og Hólanesvegar og engan að sjá í nágrenni hennar. Vitnið bar á sömu lund fyrir dómi en kvaðst aðspurður ekki muna hvort Svanur hafi verið með þegar komið var að bifreið stefnanda.
Þann 24. júlí 2000 var tekin lögregluskýrsla af Rögnu H. Magnúsdóttur og kvaðst hún hafa farið með eiginmanni sínum Jónasi í veislu til Reynis Lýðssonar þar sem átök hafi brotist út milli stefnanda og Þrastar Árnasonar. Síðar hafi hún farið ásamt manni sínum heim að Ægisgrund 3 og þangað hafi Reynir, Vilhjálmur og Sigurjón komið. Ekki mundi hún eftir Svani en hélt að hann hefði ekki komið. Síðan hafi þau heyrt hávaða frá bifreið og talið að eitthvað hafi komið fyrir. Hafi svo liðið nokkur stund þar til þau hafi gengið út á Oddagötuna til að kanna hvað hefði gerst. Hafi þau svo séð bifreið stefnanda á Fjörubraut við Hólanesveg. Hún kvaðst ekki hafa séð neinn við bifreiðina. Hún staðfesti þennan framburð fyrir dómi.
Lögreglan hefur eftir Hafsteini A. Björnssyni að hann hafi heyrt í bifreið stefnanda og síðan séð hana mannlausa við Fjörubraut og Hólanesveg.
Með bréfi sýslumannsins á Blönduósi 11. október 2000 var stefnanda tilkynnt að kæra á hendur honum vegna meints brots hans á 45. gr. umferðarlaga væri fellt niður.
III
Stefnandi kveðst hafa haft tryggt bifreið sína hjá stefnda en stefndi hafi neitað greiðsluskyldu þar sem stefnandi hafi verið ölvaður við akstur bifreiðarinnar er tjónið varð. Telur stefnandi að stefnda sé ekki stætt á þessari synjun á greiðsluskyldu þar sem ljóst sé að stefnandi hafi ekki ekið bifreiðinni.
Stefnandi kveðst hafa þurft að láta fara fram viðgerð á bifreiðinni sem kostað hafi 664.365 krónur. Reikning þennan hafi stefnandi þurft að greiða sjálfur að hluta til með því að taka víxillán og hafi kostnaður af þeim sökum aukist um 16.635 krónur og sundurliðist krafan því svo:
Reikningur 664.365
Bankakostnaður víxils 16.635
Samtals 681.000
Hafi stefndi neitað að greiða tjón stefnanda að fullu og boðist til að greiða helming þess. Það hafi stefnandi ekki getað sætt sig við og því sé málssókn þessi óhjákvæmileg. Hafi stefndi gert samning við stefnanda þess efnis að stefndi skuldbindi sig til að greiða stefnanda það tjón sem kynni að verða á bifreið hans og við þann samning hafi hann ekki staðið. Vísist um þetta til laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga einkum II. kafla meðal annars. 35. og 36. gr. Þá byggi hann á vátryggingarskilmálum stefnda einkum grein nr. 4.1. Þá vísar hann til almennra reglna samninga og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Stefndi kveður að þegar óhapp það sem mál þetta snúist um hafi orðið hafi stefnandi haft í gildi kaskótryggingu hjá stefndu vegna bifreiðarinnar PZ-736. Um trygginguna hafi gilt skilmálar félagsins nr. 230 um kaskótryggingu ökutækja. Í 11. grein sé fjallað um undanskildar áhættur og í grein 11.1 segi að félagið greiði ekki bætur þegar vátryggður vegna undanfarandi neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja teljist ekki geta stjórnað ökutækinu örugglega eða vera óhæfur til þess sbr. ákvæði umferðarlaga.
Telur stefndi að gögn málsins sýni fram á að stefnandi hafi ekið bifreiðinni í umrætt sinn og þar sem hann hafi verið ölvaður eigi hann ekki rétt á bótum fyrir tjón úr hendi stefnda. Í fyrsta lagi skuli bent á að vitnið Svanur G. Árnason hafi hringt til lögreglunnar á Blönduósi til að tilkynna það sérstaklega að stefnandi sé að aka bifreið sinni undir áhrifum áfengis.
Í öðru lagi komi fram í frumskýrslu lögreglunnar að þegar lögreglan hafi farið heim til stefnanda eftir tjónið hafi hann ekki svarað strax þótt hann hafi augljóslega verið vakandi, enda hafi komið í ljós að hann hafi legið á grúfu á gólfinu fyrir framan sófa og verið að hringja eða tala í GSM síma og telur stefndi þetta sýna að stefnandi hafi verið að reyna að fela sig fyrir lögreglunni.
Þá kveður stefndi að í þriðja lagi hafi Guðjón Hall Sigurbjörnsson viðurkennt fyrir lögreglunni að hafa ekki ekið bifreið stefnanda umrætt skipti heldur hafi hann sagst hafa gert það að beiðni stefnanda vegna upphringingar frá honum um nóttina. Þetta staðfesti tveir lögreglumenn. Telur stefndi skýringu vitnisins á breyttum framburði sínum daginn eftir að lögreglumenn hefðu beitt hann þrýstingi fráleita og ótrúverðuga.
Þá telur stefndi að í fjórða lagi sé framburður stefnanda og vitnisins Guðjóns um viðskilnað við bifreiðina og lýsing Guðjóns á ökuferðinni ótrúverðuga. Þá liggi fyrir framburður vitnisins Svans G. Árnasonar þar sem hann beri að hafa séð stefnanda stíga út úr bifreiðinni ökumannsmegin eftir óhappið og hafi vitnið Guðjón hvergi verið þar nærri.
V
Óumdeilt er að þegar óhapp það sem mál þetta fjallar um varð, hafði stefnandi í gildi kaskótryggingu hjá stefnda fyrir bifreið sína PZ-736. Ágreiningur í máli þessu lýtur hins vegar að því hvort réttur stefnanda til tryggingabóta hafi fallið niður vegna þess að hann hafi ekið bifreiðinni ölvaður þegar óhappið varð.
Samkvæmt skilmálum hins stefnda félags nr. 230 um kaskótryggingu ökutækja, segir í 11. gr. að félagið greiði ekki bætur þegar vátryggður vegna undanfarandi neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja teljist ekki geta stjórnað ökutækinu örugglega eða vera óhæfur til þess sbr. ákvæði umferðarlaga.
Það liggur fyrir í málinu og er ágreiningslaust að stefnandi var ölvaður þegar óhappið átti sér stað og var það staðfest með alkóhólrannsókn að beiðni sýslumannsins á Blönduósi. Aðila greinir hins vegar á um hvort stefnandi ók bifreið sinni í því ástandi, þegar óhappið varð.
Stefndi kveður mörg atriði styðja fullyrðingar hans um að stefnandi hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn. Í fyrsta lagi hafi vitnið Svanur G. Árnason hringt til lögreglu og tilkynnt að stefnandi væri að aka bifreið sinni undir áhrifum áfengis. Þá hafi sami aðili borið hjá lögreglu að hann hafi séð stefnanda stíga út úr bifreiðinni ökumannsmegin og hafi vitnið Guðjón Hall Sigurbjörnsson hvergi verið nærri.
Fyrir dómi dró vitnið Svanur til baka framburð sinn hjá lögreglu og kvaðst hafa sagt ósatt um að hafa séð stefnanda koma út úr bifreiðinni ökumannsmegin og að hann hafi ekið bifreiðinni. Þá neitaði hann því að hafa tilkynnt lögreglu að stefnandi hefði ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis eins og lögreglan heldur fram.
Skýringu á hinum ranga framburði sínum hjá lögreglu kvað vitnið vera þá að honum hafi verið illa við stefnanda eftir slagsmál stefnanda og Þrastar bróður vitnisins fyrr um kvöldið. Sú staðreynd að vitnið Svanur dró til baka framburð sinn hjá lögreglu rýrir trúverðugleika vitnisburðar hans enda skýring hans á því hvers vegna hann sagði ósatt léttvæg þegar litið er til þess hversu alvarlegur hlutur það er að bera rangar sakargiftir á menn. Verður vitnisburður hans í málinu því að engu hafður og ekki á honum byggt, hvorki því sem hann bar hjá lögreglu né fyrir dómi.
Þá telur stefndi í öðru lagi að háttsemi stefnanda eins og henni sé lýst í frumskýrslu lögreglu um það þegar lögreglan fór heim til hans styðja það að hann hafi ekið bifreiðinni. Hafi allt háttarlag stefnanda borið þess merki að hann væri að reyna að fela sig fyrir lögreglunni. Sem merki um þetta telur stefndi vera þær fullyrðingar lögreglunnar að stefnandi hafi legið á gólfinu og ekki opnað strax þegar lögreglan bankaði. Það kom fram í skýrslutöku fyrir dómi af vitninu Vilhjálmi K. Stefánssyni lögreglumanni að aðeins hafi liðið nokkrar mínútur frá því þeir bönkuðu þar til stefnandi opnaði fyrir þeim og er ekkert í málinu sem styður það að stefnandi hafi dregið óeðlilega lengi að opna dyrnar fyrir lögreglunni. Þá kemur fram í upplýsingaskýrslu vitnisins Vilhjálms K. Stefánssonar að þegar lögreglan stóð fyrir utan dyrnar hjá stefnanda hafi þeir séð inn um glugga við útidyrnar að stefnandi hafi legið á gólfinu og verið að tala í síma, “og ekki á lágu nótunum.” Í því ljósi fær sú fullyrðing, að stefnandi hafi verið að reyna að fela sig fyrir lögreglunni, ekki staðist.
Í þriðja lagi telur stefndi það styðja það að stefnandi hafi ekið bifreiðinni að vitnið Guðjón Hall Sigurbjörnsson hafi viðurkennt í eyru beggja lögreglumannana að hann hafi ekki ekið bifreiðinni umrætt sinn heldur hafi stefnandi beðið hann að segja það. Þessu hefur vitnið Guðjón alfarið mótmælt og bar fyrir dómi að hann hafi aldrei sagt þetta og ekki séð þessa skýrslu lögreglunnar áður, en hér er ekki um að ræða skýrslu af vitninu Guðjóni heldur einungis skýrslu lögreglunnar sjálfrar og upplifun hennar af atburðum. Vitnið Guðjón hefur staðfastlega haldið því fram, bæði þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn. Er það mat dómsins að skýrsla vitnisins fyrir dómi, sem staðfesti fyrri skýrslu vitnisins hjá lögreglu, vegi þyngra sem sönnunargagn í máli þessu heldur en frumskýrsla lögreglu.
Í fjórða lagi telur stefndi framburð stefnanda og vitnisins Guðjóns um hvar bifreiðin hafi verið skilin eftir ótrúverðugan en þeir halda því báðir fram að þeir hafi skilið við bifreiðina annars staðar en hún síðar fannst en lyklarnir hafi verið í henni. Fullyrðir stefnandi að hún hafi verið færð úr stað eftir að þeir yfirgáfu hana. Af gögnum málsins er ljóst að bifreið stefnanda var við Fjörubraut þegar lögreglan fann hana og ber öllum þeim vitnum, sem komu að bifreiðinni þessa nótt eftir óhappið, saman um að þar hafi hún staðið. Þá ber öllum vitnunum, nema vitninu Svani, saman um að hún hafi staðið á þessum stað og verið mannlaus og enginn nálægur, en vitnið Svanur heldur því fram að stefnandi hafi verið fyrir utan bifreiðina þegar hann hafi komið þarna að. Ekki liggur fyrir svo óyggjandi sé hversu langur tími leið frá því að fyrrgreind vitni heyrðu hávaðann frá bifreiðinni og þar til þau komu á staðinn. Það má þó ráða af myndum og uppdrætti af svæðinu að stuttur spölur er milli þessara tveggja staða og ekki útilokað að að einhver hafi fært hana úr stað á þeim tíma sem leið frá óhappinu þar til vitnin komu að bifreiðinni, en stefnandi og vitnið Guðjón hafa borið að lyklarnir hafi verið í bifreiðinni. Þykir því sú staðreynd að bifreiðin var ekki á þeim stað sem stefnandi og vitnið Guðjón bera að hún hafi verið skilin eftir ekki renna stoðum undir þær fullyrðingar stefnda að stefnandi hafi ekið bifreiðinni.
Þá þykir stefnda ótrúverðugt að ökumaður hafi ekki orðið þess var að hafa ekið á umferðarskilti eins og vitnið Guðjón hafi haldið fram og telur stefndi þetta benda til þess að hann hafi ekki ekið bifreiðinni umrætt sinn. Eins og fram kemur í gögnum málsins missti ökumaður stjórn á bifreiðinni í títtnefndu óhappi og snerist hún á götunni og fór upp á gangstétt og slóst utan í umferðarskilti. Ekki verður fallist á það með stefnda að þótt vitnið Guðjón segðist ekki hafa orðið þess sérstaklega var að hafa lent á umferðarskiltinu sé útilokað að hann hafi ekið bifreiðinni. Hafa bæði stefnandi og vitnið Guðjón borið að vitnið Guðjón hafi orðið skelkaður við óhappið og við þær aðstæður er ekki óeðlilegt að eitthvað fari fram hjá þeim sem í óhappinu lendir.
Í gögnum málsins kemur fram að lögreglu hafi borist upplýsingar um tjónsatburðinn þannig að þeim hafi verið tilkynnt að stefnandi hafi verið að aka bifreið sinni undir áhrifum áfengis og síðan fengu þeir það staðfest að hann var drukkinn. Virðist sem lögreglan hafi við svo búið gefið sér að stefnandi hafi ekið bifreiðinni enda ber rannsóknin þess glögglega merki. Þessu til stuðnings má benda á nokkur atriði í frumskýrslu lögreglunnar en þar kemur meðal annars fram að stefnanda hafi verið mjög í mun að skýra frá því hver hafi ekið bifreiðinni og að lögreglunni þyki frásögn Guðjóns ótrúverðug. Þá er bókað meðal annars í dagbók lögreglu að skýrsla hafi verið tekin af Jónasi Fanndal, hann viti ekkert og hafi ekkert séð. Sé nokkuð ljóst að hann segi einungis það sem komi stefnanda vel. Um framburð eiginkonu hans Rögnu sé ljóst að hann sé sniðinn að framburði hinna. Þessar athugasemdir þykja til þess fallnar að draga nokkuð úr sönnunargildi þessara gagna.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er ljóst að enginn sá stefnanda aka bifreiðinni þegar umræddur tjónsatburður átti sér stað og eru einungis stefnandi og vitnið Guðjón til frásagnar um hvað gerðist en þeir hafa báðir borið á sama veg um málsatvik hjá lögreglu og fyrir dómi. Hefur stefnda ekki tekist, gegn eindreginni neitun stefnanda, að sýna fram á það svo óyggjandi sé að stefnandi hafi ekið bifreið sinni er margnefndur tjónsatburður átti sér stað. Verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Ekki er ágreiningur um reikning þann sem stefnandi þurfti að greiða fyrir viðgerð á bifreið sinni. Hins vegar verður ekki fallist á það með stefnanda að hann eigi rétt á að fá aðrar bætur en sem nemur þeim kostnaði og verður stefndi ekki dæmdur til greiðslu bankakostnaðar eins og stefnandi krefst þótt hann hafi valið að fjármagna viðgerðina á þann hátt sem gerði. Þá þykir verða að fallast á það með stefnda að eigin áhætta í kaskótryggingu stefnanda sem samkvæmt gögnum málsins er 96.000 krónur verði dregin frá bótagreiðslu. Verður stefndi því dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð 568.365 krónur auk dráttarvaxta eins og getur í dómsorði en dráttarvaxtakröfu stefnanda hefur ekki verið mótmælt.
Í ljósi þessarar niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 160.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl. en af hálfu stefnda Guðmundur Pétursson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. greiði stefnanda Bæring Jóni Skarphéðinssyni 568.365 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. ágúst 2000 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 160.000 krónur í málskostnað.