Hæstiréttur íslands
Mál nr. 246/2007
Lykilorð
- Víxill
- Greiðslustaður
- Kröfugerð
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2008. |
|
Nr. 246/2007. |
Fasteignamiðlunin Múli ehf. ogSverrir Kristjánsson(Baldvin Hafsteinsson hrl.) gegn Jóni Ellert Lárussyni (Skúli Bjarnason hrl.) |
Víxlar. Greiðslustaður. Kröfugerð.
J krafðist greiðslu víxilskuldar úr hendi samþykkjanda víxilsins, F ehf., og S útgefanda hans. Fallist var á kröfuna í héraðsdómi. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti féllst F ehf. á skyldu sína til greiðslu víxilsins. S krafðist á hinn bóginn sýknu þar sem víxillinn, sem átti að greiðast í „Íslandsbanka hf., Reykjavík“, hefði ekki verið sýndur til greiðslu í höfuðstöðvum Glitnis banka hf. í Reykjavík. Í málinu var talið upplýst að víxillinn hefði verið sýndur til greiðslu í útibúi bankans í Reykjavík á gjalddaga. Varð að líta svo á að með tilgreiningu greiðslustaðar á víxlinum hefði S, sem útgefandi hans, lagt það í vald víxilhafa að ákveða í hvaða afgreiðslu bankans í Reykjavík víxillinn yrði sýndur til greiðslu. Því var einnig fallist á skyldu S til að greiða víxilinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. maí 2007. Í áfrýjunarstefnu kröfðust þeir sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar. Í greinargerð fyrir Hæstarétti kröfðust þeir aðallega ómerkingar héraðsdóms en til vara að áfrýjandinn Sverrir yrði sýknaður af kröfu stefnda. Þá kröfðust þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Krafa áfrýjenda um ómerkingu héraðsdóms var ekki gerð í áfrýjunarstefnu, svo sem nauðsynlegt var samkvæmt d. lið 1. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kemur hún því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti, en rétturinn hugar að því sem endranær, hvort á meðferð málsins í héraði séu ágallar sem valda eigi ómerkingu héraðsdóms án kröfu.
Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti viðurkenndi áfrýjandi Fasteignamiðlunin Múli ehf. skyldu sína til greiðslu víxilsins. Verður héraðsdómur staðfestur að því er hann varðar.
Í víxli þeim sem stefndi reisir kröfu sína á segir að víxilinn skuli greiða í „Íslandsbanka hf., Reykjavík“, sem nú er Glitnir banki hf. Áfrýjandi telur að þessi fyrirmæli um greiðslustað eigi að skilja á þann hátt að greiða hafi átt víxilinn í höfuðstöðvum Glitnis banka hf. að Kirkjusandi í Reykjavík. Sannað sé í málinu að víxillinn hafi ekki verið vistaður þar né sýndur til greiðslu á gjalddaga eða tveimur næstu virku dögum þar á eftir, sbr. 38. gr. víxillaga nr. 93/1933 og beri því að sýkna útgefanda, áfrýjandann Sverri, af kröfu stefnda.
Við rekstur málsins hafa áfrýjendur aflað gagna frá Glitni banka hf. þar sem meðal annars kemur fram að umræddur víxill hafi verið til innheimtu í útibúi bankans við Þönglabakka í Reykjavík og verið sýndur þar á gjalddaga. Telur áfrýjandinn Sverrir allt að einu ósannað að svo hafi verið, þar sem ekki hafi fengist skýr staðfesting á þessu frá starfsmönnum þessa útibús, heldur aðeins starfsmanni með starfsstöð í höfuðstöðvunum við Kirkjusand.
Áfrýjandinn Sverrir lýsti yfir fyrir Hæstarétti að fallið væri frá þeirri málsástæðu, sem höfð var uppi í héraði, að stefndi væri ekki réttur aðili að kröfu samkvæmt víxlinum.
Af gögnum málsins verður ráðið að umræddur víxill hafi verið til innheimtu í útibúi Glitnis banka hf. við Þönglabakka í Reykjavík og að þar hafi hann verið sýndur til greiðslu á gjalddaga. Hafa áfrýjendur ekki hnekkt þessu. Líta verður svo á að með tilgreiningu greiðslustaðar á víxlinum hafi áfrýjandinn Sverrir, sem útgefandi hans, lagt í vald víxilhafa að ákveða í hvaða afgreiðslu Glitnis banka hf. í Reykjavík víxillinn yrði sýndur til greiðslu, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 176/1993 á bls. 372 í dómasafni réttarins 1995. Veldur það því stefnda ekki réttarspjöllum að hann lét sýna víxilinn til greiðslu í fyrrnefndu útibúi bankans en ekki höfuðstöðvum hans. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur einnig staðfestur að því er áfrýjandann Sverri varðar.
Áfrýjendur verða með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Fasteignamiðlunin Múli ehf. og Sverrir Kristjánsson, greiði stefnda, Jóni Ellert Lárussyni, óskipt 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var í gær, er höfðað með stefnu birtri 11.júlí 2006.
Stefnandi er Jón Ellert Lárusson, Blásölum 22, Kópavogi.
Stefndu eru Fasteignamiðlunin Múli ehf., Síðumúla 11, Reykjavík og Sverrir Kristjánsson, Þingási 9, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.800.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 1.800.000,00 frá 1. apríl 2006 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar.
Til vara er þess krafist að stefndi, Sverrir Kristjánsson, verði sýknaður af kröfum stefnanda og að í því tilviki verði dráttarvextir ekki dæmdir fyrr en frá þingfestingardegi. Þá krefjast stefndu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Krafa stefnanda er byggð á víxli að fjárhæð 1.800.000 krónur, útgefnum að stefnda, Sverri Kristjánssyni, hinn 1. desember 2005, en samþykktur af stefnda, Fasteignamiðluninni Múla ehf., til greiðslu 1. apríl 2006 í Íslandsbanka hf., Reykjavík. Víxillinn er án afsagnar og framseldur af útgefanda. Stefnandi kveðst vera handhafi víxilsins.
Vísað er til víxillaga númer 93/1933, einkum 7. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls. Stefnandi ber fyrir sig 17. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Sýknukröfur sínar byggja stefndu á því að samkvæmt áritun á fylgiseðil víxilsins sé það fyrirtækið Spekt sf. sem talið sé vera eigandi víxilsins. Aðild stefnanda sé ekki skýrð og því beri að sýkna stefndu vegna aðildarskorts. sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þá byggir stefndi, Sverrir, sýknukröfu sína á því, að hvergi í gögnum málsins komi fram hvar hinn umstefndi víxill hafi verið vistaður, eða hvort hann hafi yfir höfuð verið vistaður í banka eða annarri lögmætri stofnun, né hvenær hann hafi verið sýndur stefndu til greiðslu. Samkvæmt áritun á víxilinn skyldi hann greiðast í Íslandsbanka, Reykjavík. Með nafnabreytingu á síðasta ári, heiti bankinn nú Glitnir og samkvæmt skráningu í t.d. símaskrá sé bankinn með níu útibú í Reykjavík. Samkvæmt sömu skráningu komi fram, að höfuðstöðvar bankans séu á Kirkjusandi og hafi því, m.a. með hliðsjón af dómafordæmum, borið að vista víxilinn þar. Þar sem engin afsagnargerð hafi farið fram vegna víxilsins sé útilokað að staðreina hvort eða hvenær víxillinn hafi verið sýndur og þá eftir atvikum hvar. Framlögðu afriti af greiðsluseðli er mótmælt sem röngu enda sé það engin sönnun fyrir lögmætri vistun víxilsins eða réttri sýningu hans til greiðslu. Af þessu öllu verði að miða við, að víxillinn hafi í fyrsta lagi verið sýndur til greiðslu við þingfestingu málsins. Réttur stefnanda gagnvart stefnda Sverri sem útgefanda víxilsins sé því fallin niður fyrir vangeymslu, skv. 1. mgr. 53. gr. sbr. 38. gr. víxillaga.
Til viðbótar framangreindum lagarökum vísa stefndu m.a. til 46. gr. 2. mgr. og 91. gr. 2. mgr. víxillaga. Þá vísa stefndu til 130. gr. sbr. 129 gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um málskostnað.
Umræddur víxill er framseldur eyðuframsali og er því ekki hnekkt að stefnandi sé réttur handhafi hans. Er því sýknukröfu vegna aðildarskorts hafnað.
Víxill sá sem krafið er um greiðslu á er án afsagnar. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. víxillaga hvílir sönnunarbyrði á stefnda, Sverri, um að víxillinn hafi ekki verið sýndur skv. 1. mgr. 38. gr. víxillaga. Sú sönnun hefur ekki tekist og enn fremur er ósannað að tilkynningarskylda hafi verið vanrækt.
Víxillinn er í lögmætu formi og samkvæmt öllu framansögðu verður krafa stefnanda tekin til greina.
Málskostnaður ákveðst 350.000 krónur.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Fasteignamiðlunin Múli ehf. og Sverrir Kristjánsson, greiði stefnanda, Jóni Ellert Lárussyni, óskipt 1.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2006 til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað