Hæstiréttur íslands

Mál nr. 168/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 23

 

Föstudaginn 23. mars 2007.

Nr. 168/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. mars 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að X, [kt.], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 28. mars nk. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að upphaf máls þessa megi rekja til þess er tilkynning barst lögreglu um að nauðgun hafi átt sér stað á Hótel Sögu, rétt eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins 17. mars s.l. og að árásaraðili væri á flótta frá brotavettvangi.  Er lögregla kom á staðinn hafi A verið stödd í bakherbergi í afgreiðslu hótelsins.  Hafi hún greint svo frá að hún hafi verið um kvöldið á hótelinu á árshátíð veitingahúsakeðjunnar [...] þar sem hún hefur unnið í eitt ár.  Hún hafi verið í Súlnasal þar sem ballið hafi verið haldið en þurft að fara á salerni. Hún hafi ekkert salerni fundið í Súlnasal og því gengið niður á næstu hæð. Þar hafi hún gengið að stiga sem lá ofan í kjallara og þar hitt fyrir þrjá menn og hafi hún spurt þá hvort salerni væri niður í kjallaranum og hefðu þeir svarað játandi. Hafi hún  greint svo frá að mennirnir hafi talað framandi tungumál að hún taldi vera pólsku.  Hún hafi því haldið niður í kjallara hótelsins í átt að salerni.  Hafi hún þá orðið vör við að einn mannan þriggja veitti henni eftirför og ætlan hans hafi verið að fara með henni inn á salerni hótelsins.  Kona sem þar hafi verið stödd hafi lokað hurðinni á manninn þegar hann hafi reynt að fara inn á salernið. Þegar konan hafi yfirgefið salernið hafi ókunni maðurinn komið inn. Hafi hún sagt svo frá að þegar hún hafi opnað hurð á salernisbás hafi ókunni maðurinn verið kominn inn á salernið og þvingað hana inn á einn salernisbásinn, þvingað hana upp að vegg og byrjað kyssa og káfa á henni. Hann hafi síðan togað niður um hana sokkabuxur og nærbuxur.  Hafi hann sett getnaðarlim sinn upp í munn hennar og því næst sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar.  Hafi hún reynt að ýta manninum af sér en ekki tekist. Hafi manninum tekist að setja lim sinn inn í endaþarm hennar.  Atlaga mannsins hafi verið  mjög harkaleg og hún hafi fundið fyrir miklum sársauka.  Kvaðst hún hafa náð að grípa í hurð á bás salernisins og komist í kjölfarið fram á gang.  Starfsmaður hótelsins hafi skömmu síðar komið að skömmu síðar og kallað hafi verið eftir aðstoð lögreglu.

Sunnudaginn 18. mars s.l. hafi B, verið yfirheyrður á lögreglustöð sem vitni í málinu.  Í framburði hans komi fram að hann hafi ásamt X verið staddur á Hótel Sögu aðfaranótt laugardagsins 17. mars s.l. Þeir hafi verið á bar á hótelinu og drukkið þar saman áfengi.  Hafi þeir síðan gengið að stiga þar sem gengið sé niður á salerni.  Til þeirra hafi gengið stúlka og X rætt eitthvað við hana og þau gengið niður stigann.  Hann sjálfur hafi þá farið á barinn. Síðan hafi hann aftur farið niður á salernið og séð þar að einn bás á kvennasalerni hafi verið læstur. Hafi hann því farið aftur á barinn og eftir 10-15 mínútur hafi X komið til hans og sagt svo frá að hann hafi haft samfarir við íslenska stelpu á klósettinu. A  hafi greint svo frá að hann hafi séð stúlkuna grátandi og X farið til að ræða við stúlkuna og síðan farið út af hótelinu og hlaupið í burtu út af Hótel Sögu og horfið út í náttmyrkrið.

Að kvöldi sunnudagsins 18. mars s.l. hafi meintur gerandi verið handtekinn.  Við yfirheyrslu hafi hann viðurkennt að hafa átt samræði við stúlkuna en það hafi verið með hennar vilja.

Með vísan til málsatvika og rannsóknarhagsmuna, sé það mat lögreglustjórans að brýn nauðsyn sé á að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi svo lögreglu gefist tími til að vinna að rannsókn málsins og m.a. að ná tali af vitnum, en lögreglustjórinn telur að meint brot hans kunni að varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé það jafnframt mat lögreglustjóra að gangi kærði laus megi ætla að hann torveldi til muna rannsókn lögreglu með því að koma undan munum sem geti haft þýðingu við rannsókn málsins, auk þess er hann getur haft áhrif á hugsanleg vitni.

Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og rannsóknarhagsmuna svo og til a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu. 

Samkvæmt greinargerð lögreglu er hún enn að vinna að rannsókn málsins og á lögreglan m.a. eftir að yfirheyra vitni. Samkvæmt því sem að framan er rakið og öðru leyti með vísan til rannsóknargagna er kærði undur sterkum grun um að hafa framið brot er varðar við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en samkvæmt því ákvæði liggur allt að 16 ára fangelsi við broti. Með tilliti til rannskóknarhagsmuna er fallist á að skilyrðum a-liðar 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé fullnægt og að kærði, sem er erlendur ríkisborgari, geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Samkvæmt því verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, [kt.], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 28. mars nk. kl. 16:00.