Hæstiréttur íslands
Mál nr. 577/2008
Lykilorð
- Happdrætti
- Auglýsing
|
|
Fimmtudaginn 11. júní 2009. |
|
Nr. 577/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Þórmundi Bergssyni(Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Happdrætti. Auglýsing.
Þ var ákærður fyrir brot gegn lögum um happdrætti nr. 38/2005 með því að hafa sem framkvæmdastjóri M keypt auglýsingapláss fyrir vefsíðuna www.betsson.com og þannig borið ábyrgð á birtingu auglýsinga vefsíðunnar, sem byði upp á þátttöku í veðmálum, pókerspili og öðru happdrætti, sem ekki hafði verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum um happdrætti. Var háttsemin talin í ákæru varða við b. lið 1. mgr. 11. gr. laga um happdrætti, sbr. c-lið 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000. Í héraðsdómi sagði að ekkert væri fram komið um að með umræddum auglýsingum væri verið að kynna happdrættis- eða veðmálastarfsemi sem rekin væri hérlendis og var Þ þegar af þeirri ástæðu sýknaður. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. október 2008 og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákvörðuð refsing.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms og að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Sigurðar Guðna Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, Þórmundar Bergssonar, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 1. september sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. mars 2008 á hendur Þórmundi Bergssyni, kt. 250259-4259, Goðalandi 16, Reykjavík, fyrir brot gegn lögum um happdrætti, með því að hafa sem framkvæmdastjóri MediaCom Íslandi ehf., kt. 680705-0620, keypt auglýsingapláss fyrir vefsíðuna www.betsson.com og þannig borið ábyrgð á birtingu auglýsinga vefsíðunnar, sem býður upp á þátttöku í veðmálum, pókerspili og öðru happdrætti, sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir skv. lögum um happdrætti nr. 38/2005. Auglýsingarnar voru birtar, sem hér greinir:
1. Á sjónvarpsstöðvunum Sýn og Sýn Extra alls 516 sinnum á tímabilinu 28. mars 31. desember 2006.
2. Á sjónvarpsstöðvunum NFS og Stöð 2 alls 57 sinnum á tímabilinu 12. 27. september 2006.
3. Á sjónvarpsstöðinni Sirkus alls 287 sinnum á tímabilinu 19. október - 23. desember 2006.
4. Á sjónvarpsstöðinni Skjá sporti alls 76 sinnum á tímabilinu 9. september 2006 31. janúar 2007.
Er þetta talið varða við b-lið 1. mgr. 11. gr. laga um happdrætti nr. 38/2005, sbr. c-lið 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði.
Málavextir
Upphaf máls þess má rekja til þess að með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 29. mars 2006, var þess farið á leit við lögreglustjórann í Reykjavík að hafin yrði rannsókn á birtingu auglýsinga vegna happdrættis- og spilastarfsemi frá betsson.com. Hefði auglýsandinn ekki fengið útgefið tilskilið leyfi til happdrættisrekstrar af neinu tagi og hafi hann því með birtingu auglýsinganna gerst brotlegur við 11. gr. laga um happdrætti nr. 28/2005. Var þess og óskað að lögreglan eftir atvikum hlutaðist til um að auglýsingar af þessu tagi yrðu stöðvaðar. Þá barst lögreglustjóranum í Reykjavík bréf frá Heimi Erni Herbertssyni hrl. f.h. Íslenskra Getrauna, dags. 19. júní 2006, þar sem vakin var athygli á því að erlendir veðbankar, sem starfræktu veðbanka sína á netinu, þar á meðal Betsson Ltd., hefðu auglýst þjónustu sína í íslenskum fjölmiðlum. Var farið fram á að lögreglustjórinn hlutaðist til um að þetta yrði stöðvað.
Í kjölfar ofangreindra tilkynninga yfirheyrði lögregla ákærða, sem framkvæmdastjóra MediaCom á Íslandi, og Lárus Pál Ólafsson, framkvæmdastjóra Klaka ehf. Þá var rætt við Helga Björn Kristinsson, framkvæmdastjóra tekjusviðs 365-miðla ehf., Ara Edwald, forstjóra 365-miðla ehf. og 365 hf. og Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóra hjá Skjánum.
Skýrslur fyrir dómi
Ákærði hefur neitað sök. Kvaðst hann vera eigandi fyrirtækisins MediaCom á Íslandi ehf. að hluta og jafnframt framkvæmdastjóri þess. Fyrirtækið annist ráðgjöf til fyrirtækja um hvar best sé að birta auglýsingar. Væri framkvæmdin yfirleitt þannig að MediaCom gerði tillögu til auglýsandans um hvenær auglýsingar skyldu birtar í tilteknum fjölmiðli. Væri tillagan samþykkt annaðist MediaCom pöntun á auglýsingatíma hjá fjölmiðlinum í samræmi við hana. Í flestum tilvikum semdi viðkomandi auglýsandi sjálfur um greiðslu fyrir birtinguna eða fengi sérstakan aðila til þess að annast þann þátt málsins. Í því tilviki sem hér um ræddi taldi ákærði að fyrirtækið Klakar ehf. hefði í upphafi samið um hvaða afslætti Betsson fengi og síðan fengið MediaCom til aðstoðar við birtingarmálin. Það væri svo auglýsandinn sem sæi sjálfur um að senda auglýsinguna til fjölmiðilsins, oft fyrir milligöngu einhvers annars aðila, en alla vega án milligöngu MediaCom. Það væri hins vegar MediaCom sem annaðist milligöngu um greiðslur til fjölmiðilsins og væri sá kostnaður rukkaður áfram hjá viðkomandi auglýsanda, að viðbættri þóknun sem MediaCom fengi í sinn hlut fyrir þjónustuna.
Aðspurður kvaðst ákærði í þessu tilviki hafa vitað hvers eðlis þessar auglýsingar væru. Hefði hann því vitað hvaða starfsemi væri verið að auglýsa og hann hefði séð heimasíðu Betsson. Þá hefði hann séð erlendar útgáfur af auglýsingum frá Betsson. Þeir rækju leikja-, getrauna-, veðmálastarfsemi og skylda starfsemi. Ákærði sagðist ekki gera athugasemdir við það sem fram kæmi í ákæru um hvar auglýsingarnar hefðu verið birtar.
Vitnið Lárus Páll Ólafsson kvaðst vera framkvæmdastjóri Klaka ehf., sem væri markaðsfyrirtæki og veitti meðal annars faglega ráðgjöf um birtingar auglýsinga. Kannaðist hann við að hafa veitt Betsson slíka þjónustu vegna þeirra auglýsingabirtinga sem hér um ræðir. Kvað hann ekki vera einhlítt hvernig samskiptum væri háttað við þá fjölmiðla sem birta ættu auglýsingu. Í því tilviki sem hér um ræddi hefðu Klakar gefið markaðsupplýsingar og síðan leitað til viðkomandi fjölmiðla eftir samstarfi og samið um greiðslur fyrir þær. Ákærði hefði svo fyrir hönd MediaCom séð um að kaupa auglýsingaplássið og haft umsjón með birtingu auglýsinganna. Vitnið kvaðst hins vegar hafa fengið auglýsingarnar sjálfar sendar frá Betsson í gegnum netið og í framhaldi sent þær áfram um netið til viðkomandi fjölmiðils. Fjölmiðillinn sendi svo reikning fyrir birtinguna til birtingarhússins, MediaCom, sem aftur fengi hann greiddan frá Betsson.
Vitnið Helgi Björn Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri tekjusviðs félagsins 365 hf., staðfesti að framlagt yfirlit yfir auglýsingar frá Betsson væri útprentað úr tölvukerfi 365. Væri yfirlitið merkt MediaCom þar sem það fyrirtæki væri tengiliður við fjölmiðilinn vegna auglýsinganna. Væru tengiliðirnir ýmist auglýsingastofur eða viðkomandi auglýsendur sjálfir.
Vitnið Magnús Ragnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Skjásins, kvað fyrirtækið MediaCom hafa annast milligöngu um birtingu umræddra auglýsinga frá Betsson.com. Yfirleitt væri Skjárinn í tengslum við auglýsingastofur eða birtingarfélög og væru þá skrifaðir reikningar á þau. Staðfesti vitnið að reikningar vegna þessara auglýsinga hefðu allir farið til MediaCom. Þá kvað hann rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að MediaCom hefði annast allar pantanir fyrir Betsson. Hafi þeir pantað auglýsingatíma, birtingar og lagt til auglýsingarnar eins og þær birtust. Hann sagði samt að misjafnt væri hvaðan sjálfar auglýsingarnar kæmu og kvaðst hann ekki vita hver hefði komið þeim á framfæri. Þeir sem keyptu hjá þeim auglýsingar sæju auðvitað um að þeir hefðu efni til birtingar. Vitnið staðfesti að framlagðir reikningar fyrir auglýsingum væru keyrðir út úr kerfi Skjásins.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir að auglýsingar fyrir vefsíðuna www.betsson.com, þar sem boðið er upp á þátttöku í veðmálum, pókerspili og öðru happdrætti, hafa birst á tilgreindum sjónvarpsstöðvum eins og nánar er lýst í liðum 1-4 í ákæru. Kannast ákærði, sem framkvæmdastjóri MediaCom Íslandi ehf., við að hafa annast milligöngu fyrir eiganda eða rekstraraðila vefsíðunnar gagnvart viðkomandi fjölmiðlum. Má af framburði hans ráða að í henni hafi falist að gera tillögur til Betsson um hvenær auglýsingar skuli birtar í tilteknum fjölmiðli og annast pöntun á auglýsingatíma í samræmi við hana. Hins vegar hafi ákvörðunin um að auglýsa vefsíðuna verið tekin af eiganda vefsíðunnar sem hafi jafnframt komið auglýsingunni sem slíkri á framfæri fyrir milligöngu íslenska fyrirtækisins Klaka ehf. MediaCom hafi svo annast greiðslu til viðkomandi fjölmiðils vegna birtingarinnar og fengið þann kostnað svo endurgreiddan af Betsson, að viðbættu þjónustugjaldi sínu. Hafi reikningar vegna þessa verið sendir til hlutafélagsins Mermaid Ltd. á Möltu.
Samkvæmt ákæru er ákærði talinn hafa, sem framkvæmdastjóri MediaCom Íslandi ehf., gerst brotlegur við b-lið 1. mgr. 11. gr. laga um happdrætti nr. 38/2005, sbr. c-lið 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000, með því að hafa keypt auglýsingapláss fyrir ofangreinda vefsíðu og þannig borið ábyrgð á birtingu hinna tilgreindu auglýsinga þar sem boðið sé upp á þátttöku í veðmálum, pókerspili og öðru happdrætti sem ekki hafi verið veitt leyfi fyrir skv. greindum lögum um happdrætti.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna nr. 38/2005 er kveðið á um að óheimilt sé að reka happdrætti nema með leyfi sýslumanns eða öðruvísi sé mælt fyrir í lögunum og í 2. mgr. segir að óheimilt sé að reka happdrætti þar sem spilað sé um peninga eða peningaígildi nema samkvæmt sérstakri lagaheimild. Þá er í 1. mgr. 11. gr. laganna það látið varða sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður a) af ásetningi eða stórfelldu gáleysi rekur happdrættis- eða veðmálastarfsemi hér á landi án þess að hafa til þess happdrættisleyfi samkvæmt lögunum eða b) af ásetningi eða stórfelldu gáleysi auglýsir, kynnir eða miðlar hvers konar upplýsingum um happdrætti, sem ekki hafi verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögunum eða uppfylli skilyrði laganna.
Eins og framangreint ákvæði b-liðs 1. mgr. 11. gr. er upp sett, þykir það ekki verða túlkað víðar en svo að einungis sé lýst refsivert að auglýsa, kynna eða miðla upplýsingum um þá starfsemi af greindum toga sem rekin sé hérlendis án tilskilins leyfis. Fyrir liggur í málinu tölvudiskur þar sem sjá má tvær þeirra auglýsinga sem ákært er fyrir. Sýnist með þeim auglýsingum einungis verið að vekja athygli á vefsíðunni Betsson.com, sem hægt sé að skoða meðal annars í íslenskri þýðingu, og þeim möguleikum sem þar sé boðið upp á til að taka þátt í veðmálum og leikjum af ýmsu tagi. Liggur ekkert annað fyrir í málinu en að umrædd vefsíða sé hýst erlendis og að sú starfsemi sem hún kynnir fari að öllu leyti fram utan íslenskrar lögsögu. Þar sem ekkert er fram komið um að með umræddum auglýsingum sé verið að kynna happdrættis- eða veðmálastarfsemi sem rekin er hérlendis án tilskilins leyfis, verður þegar af þeirri ástæðu að sýkna ákærða af ákæru í máli þessu.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Arnþrúði Þórarinsdóttur, fulltrúa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Þórmundur Bergsson, er sýkn af ákæru í máli þessu.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.