Hæstiréttur íslands
Mál nr. 240/2000
Lykilorð
- Skaðabætur
- Bifreið
- Búfé
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 19. október 2000. |
|
Nr. 240/2000. |
Gylfi Bergmann og Svala Rún Jónsdóttir (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Vatnsiðjunni Lóni ehf. (Helgi Birgisson hrl.) og gagnsök |
Skaðabætur. Bifreiðir. Búfé. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
A ók á þrjú hross og olli slysið talsverðum skemmdum á bifreið hans. Í kjölfar slyssins keypti VL bifreiðina af A með "öllum rétti" vegna tjónsins. VL höfðaði mál gegn G og S, sem voru eigendur hrossanna, til greiðslu skaðabóta. Ekki lá fyrir annað mat á tjóninu en skoðun tjónaskoðunarmanns Vátryggingafélags Íslands hf., sem fór fram tæpum tveimur árum eftir slysið. Héraðsdómur dæmdi VL bætur að álitum. Gegn mótmælum G og S þótti ófært að leggja nefnda tjónaskoðunarskýrslu til grundvallar við mat á tjóni VL fyrir Hæstarétti. Þar sem fyrri eiganda eða VL var í lófa lagið að afla matsgerðar dómkvadds manns á fyrri stigum þóttu ekki skilyrði til að ákveða skaðabætur að álitum eins og héraðsdómari gerði. Málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Sigurður Líndal prófessor.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 15. júní 2000 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð í 31.000 krónur og málskostnaður falli niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 3. ágúst 2000. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjendur verði í sameiningu dæmd til að greiða sér 622.700 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. febrúar 1996 til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að héraðsdómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að um klukkan 18.30 hinn 25. janúar 1996 var bifreiðinni R 17787 ekið eftir Miðnesheiðarvegi sem leið lá frá Keflavík til Sandgerðis. Nærri mótum vegarins og Mánagrundar varð ökumaður bifreiðarinnar skyndilega var við nokkurn fjölda hrossa fyrir framan hana og tókst honum ekki að komast hjá því að aka á þrjú þeirra. Gagnáfrýjandi keypti bifreiðina við nauðungarsölu 1. nóvember 1997 fyrir 31.000 krónur. Með yfirlýsingu 14. sama mánaðar afsalaði fyrri eigandi bifreiðarinnar gagnáfrýjanda „öllum rétti“ sínum vegna tjóns, sem orðið hafi á bifreiðinni við þetta umferðarslys. Í málinu krefst gagnáfrýjandi bóta á þeim grunni úr hendi aðaláfrýjenda, sem hann kveður hafa átt áðurnefnd þrjú hross.
Af gögnum, sem aðaláfrýjendur hafa lagt fyrir Hæstarétt, verður ekki ráðið með vissu hvort slysið, sem málið er risið af, hafi orðið innan marka Reykjanesbæjar eða Gerðahrepps. Þótt ekki liggi fyrir í málinu hvort bann hafi verið lagt við lausagöngu búfjár í síðarnefnda sveitarfélaginu, eins og gert hefur verið í Reykjanesbæ og nánar er getið í hinum áfrýjaða dómi, fær það, sem hér hefur verið greint, ekki breytt því að fallast verður á röksemdir, sem héraðsdómari hefur að öðru leyti fært fyrir niðurstöðu sinni um að aðaláfrýjendur verði að bera óskipta sök á slysinu, sbr. og dóm Hæstaréttar í dómasafni 1999, bls. 1260.
II.
Samkvæmt skýrslu lögreglumanns, sem kom á vettvang slyssins 25. janúar 1996, voru talsverðar dældir á framhlið bifreiðarinnar, þaki og vinstri hlið og var framrúða að auki brotin. Fram kemur í skýrslunni að eftir slysið hafi ekki verið unnt að aka bifreiðinni og hún því verið fjarlægð með dráttarbifreið. Í málinu liggja hins vegar ekki fyrir gögn um að skemmdir á bifreiðinni hafi verið athugaðar frekar fyrr en starfsmaður frá Vátryggingafélagi Íslands hf. gerði tjónaskoðunarskýrslu að tilhlutan gagnáfrýjanda 17. nóvember 1997. Í skýrslunni var áætlað að vinna þyrfti í 82 klukkustundir að öðrum viðgerðum á bifreiðinni en málningu og kostnaður af því yrði 192.700 krónur. Mála yrði alla bifreiðina nema hurð og afturbretti hægra megin og myndi það kosta 180.000 krónur. Þá var áætlað að kostnaður af varahlutum yrði 250.000 krónur. Var heildarkostnaður af viðgerð bifreiðarinnar þannig áætlaður 622.700 krónur. Gagnáfrýjandi styður kröfu sína í málinu eingöngu við þessa niðurstöðu.
Af áðurnefndri lögregluskýrslu, sem fær stoð í framburði vitna fyrir héraðsdómi, er nægilega leitt í ljós að talverðar skemmdir urðu á bifreiðinni í umferðarslysinu, sem um ræðir í málinu. Gegn mótmælum aðaláfrýjenda er hins vegar með öllu ófært að leggja tjónaskoðunarskýrsluna frá 17. nóvember 1997 til grundvallar um umfang skemmdanna, sem af þessu hlutust, eða kostnað af viðgerð þeirra. Eiganda bifreiðarinnar var í lófa lagið að tryggja sér viðhlítandi sönnur fyrir tjóni sínu, eftir atvikum með matsgerð dómkvadds manns, en það hefur hann látið hjá líða. Brestur því skilyrði til að ákveða gagnáfrýjanda skaðabætur að álitum, eins og héraðsdómari gerði. Að þessu virtu liggja ekki fyrir nægileg gögn um tjón gagnáfrýjanda til að unnt sé að fella efnisdóm á kröfu hans. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Eins og atvikum er háttað er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. október 1999.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dóminum með stefnu sem birt var stefndu Svölu Rún Jónsdóttur 3. september 1998 og þingfestingu þess 23. september 1998 að því er stefnda Gylfa Bergmann varðar.
Stefnandi er Vatnsiðjan Lón ehf., kt. 500169-1339, Reykjavík.
Stefndu eru Gylfi Bergmann, kt. 220654-2499, Heiðarholti 42, 230 Reykjanesbæ og Svala Rún Jónsdóttir, kt. 220459-4979, Heiðarbóli 43, Reykjanesbæ
Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmd til greiðslu bóta að fjárhæð kr. 622.700 með dráttarvöxtum frá 25. febrúar 1996 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati réttarins.
Stefndu þess aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi
Sáttaumleitanir dómara báru ekki árangur.
Dómari gekk á vettvang við upphaf aðalmeðferðar ásamt lögmönnum aðila og stefndu Svölu Rún og Jóni Guðmundssyni, fyrirsvarsmanni stefnanda.
Í máli þessu krefur stefnandi, núverandi eigandi bifreiðarinnar R-17787 og framsalshafi alls bótaréttar vegna umferðaróhapps 25. janúar 1996, stefndu, eigendur þriggja hrossa, um bætur vegna skemmda á bifreiðinni er urðu í umferðaróhappinu er bifreiðin lenti á hrossunum er þau fóru yfir Miðnesheiðarveg skammt frá hesthúsabyggðinni á Mánagrund.
II.
Fimmtudaginn 25. janúar 1996 kl. 18:40 var lögreglunni í Keflavík tilkynnt að bifreiðinni R-17787 hefði verið ekið vestur Reykjanesbraut og að skammt vestan hesthúsabyggðar á Mánagrund hefði bifreiðinni verið ekið á hóp hrossa. Lögreglumenn fóru á vettvang og hittu þar fyrir ökumann bifreiðarinnar Ara Þorsteinsson og farþega í bifreiðinni Hildi Þórhallsdóttur. Lögreglumenn sáu eitt hross 200 metra norðan við veginn og reyndist það fótbrotið. Haft var eftir ökumanni bifreiðarinnar að hann hefði ekið vestur Reykjanesbraut í átt til Sandgerðis. Er hann hafi verið kominn rétt framhjá hesthúsabyggðinni á Mánagrund hefði hópur hrossa skyndilega hlaupið upp á veginn úr suðri. Hefði hann ekki orðið hrossanna var fyrr en þau voru í þann mund að hafna á bifreið hans. Hann hefði hemlað en það ekki dugað til og eitt hrossanna kastast á framrúðu bifreiðarinnar og síðan upp á topp. Hann gerði sér ekki grein fyrir fjölda hrossanna þar sem þetta hefði gerst svo skyndilega.
Lögreglan kallaði til dýralækni sem aflífaði á staðnum 6 vetra gráa meri sem var í móanum norðan götunnar.
Á vettvangi hittu lögreglumenn stefndu Svölu Rún, sem kvað tvo hesta hafa skilað sér í hesthús og væru þeir báðir eitthvað særðir. Hún kvaðst vera eigandi að öðrum þeirra, 12 vetra rauðum hesti, sem væri sár á fæti. Hún kvað stefnda Gylfa Bergmann eiganda gráu merarinnar og annarar leirljósrar 19 vetra sem væri með sár á fæti og auga. Hún kvað hrossin hafa verið í gerði við hesthús nr. 7 á Mánagrund. Hefðu hrossin brotið niður girðingu og hlaupið út í myrkrið. Hefði hún ásamt fleirum á hestum og bifreiðum farið að leita hrossanna þegar ekið var á þá. Hún hefði þó ekki séð slysið eiga sér stað.
Tilkvaddur dýralæknir leit á hrossin tvö sem komust í hesthús og taldi hægt að gera að meiðslum þeirra.
Að sögn lögreglu voru eftirtaldar skemmdir á bifreiðinni af völdum ákeyrslunnar á hrossin: Framendi, toppur og vinstri hlið talsvert dældað, framrúða brotin. Bifreiðin hafi verið óökufær og hún því fjarlægð með dráttarbifreið.
Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands, sem aflað var undir rekstri málsins voru á þessum tíma 3 vindstig af norðri, skýjað en gott skyggni, engin úrkoma og auð jörð.
Stefnda Svala Rún, Helga Jóhannesdóttir f.h. stefnda Gylfa Bergmanns og Rúnar Guðbrandsson, eigandi hesthúsa að Mánagrund á Miðnesheiði, afhentu Skandia, tryggingafélagi bifreiðarinnar yfirlýsingu, sem þau undirrituðu varðandi atburðinn. Þar kemur fram að umræddan dag hafi 10 hross brotist út úr gerðinu við hesthúsið og hlaupið yfir heiðina og hafi vel sést hvert þau fóru. Þau hafi strax farið á eftir þeim ásamt sex mönnum á hestum, tveimur fótgangandi og einum í bifreið. Síðan þegar þau hafi verið að koma með hestana að hesthúsunum hafi bifreið komið á mikilli ferð, sem ekki hafi virst virða aðvörunarskilti um að þarna sé hesthúsabyggð eða umferð hrossa eða hægt á sér þegar henni var ekið framhjá upplýstri hesthúsabyggðinni. En þegar hópurinn hafi farið yfir hafi bifreiðin verið á það mikilli ferð að hún hafi ekki náð að hemla þegar fremstu hestarnir fóru yfir og hafi bifreiðin ekið á ljósustu og öftustu hestana. Töldu þau bifreiðina hafa verið á miklum hraða og að hemlabúnaði hennar hljóti að hafa verið áfátt. Stefndi Gylfi Bergmann sendi Skandia síðan lýsingu á umræddum þremur hrossum. Kvaðst hann eiga tvö þeirra en stefnda Svala Rún ætti eitt.
Áverkar urðu talsverðir á þremur hrossana, þ.e. hrossunum Birtu, Blíðu og Garra. Blíða brotnaði á fæti og þurfti að aflífa hana á staðnum, Garri var felldur tveimur mánuðum eftir slysið og Birta var felld um sumarið eftir slysið.
Scandia hf. og stefndu Svala Rún og stefndi Gylfi Bergmann sömdu um bætur fyrir tvö hrossanna og greiddi Vátryggingafélag Íslands hf. þeim bætur í apríl og maí 1996. Voru hrossin bætt að 2/3 hlutum. Voru bætur greiddar út í nafni stefndu. Hrossið Birta hefur hins vegar ekki verið bætt ennþá.
Eigandi bifreiðarinnar á umræddum tíma var Örn Lárusson. Eftir óhappið kvað fyrirsvarsmaður stefnanda Jón Guðmundsson, stefnanda hafa falast eftir bifreiðinni og hafi bifreiðin síðan verið keypt á opinberu uppboði á kr. 31.000 þann 1.11.1997. Með yfirlýsingu dagsettri 14. nóvember 1997 afsalaði Örn Lárusson stefnanda öllum rétti til bóta vegna tjóns á bifreiðinni. Fyrirsvarsmaður stefnanda Jón Guðmundsson, taldi stefnanda hafa greitt um kr. 200.000 fyrir bifreiðina að meðtöldu uppboðsverði. Mismunurinn hefði runnið til Arnar Lárussonar. Jón krafði stefndu um bætur með bréfi dagsettu 21. nóvember 1997. Taldi hann tjónið nema kr. 600.000 og bauð hann stefndu að ljúka uppgjöri með greiðslu helmings þeirrar fjárhæðar. Stefndu sinntu þessari kröfu ekki og tæpu ári síðar var mál þetta höfðað.
Þann 17. nóvember 1997 skoðaði Tjónaskoðunarstöð Vátryggingafélags Íslands hf. bifreiðina og taldi viðgerðarkostnað nema kr. 622.700. Kemur fram í skoðunarskýrslu að búið hafi verið að hálfrétta bifreiðina og því hafi verið erfitt að átta sig á varahlutum og vinnu í tjóninu.
Samkvæmt matinu sundurliðaðist matsfjárhæðin þannig:
Vinna 192.700 kr.
Varahlutir 250.000 kr.
Málning 180.000 kr.
Samtals 622.700 kr.
Kemur fram í skoðunarskýrslunni að liðurinn varahlutir sé áætlaður af eiganda.
III.
Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst ökumaður bifreiðarinnar, Ari Þorsteinsson, hafa verið á leið til Sandgerðis umrætt kvöld, niðamyrkur hafi verið og jörð auð. Hann kvaðst hafa verið í mesta lagi á 70 km hraða og allt í einu hafi vegurinn fyllst af hrossum, þau hafi komið skyndilega út úr myrkrinu. Þetta hafi allt saman gerst mjög snöggt, hann stigið á bremsur bifreiðarinnar, en um seinan, bifreiðin lent á að minnsta kosti 4-5 hrossum og endað þversum á veginum. Með Ara í bifreiðinni var Hildur Fríða Þórhallsdóttir. Kom hún fyrir dóminn og var framburður hennar mjög á sama veg og framburður Ara.
Lögreglumennirnir Magnús Ingi Jónsson og Hrafn Ásgeirsson komu fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og báru þeir báðir að þurrt hefði verið í veðri og myrkur. Þeir kváðu engin ummerki á vettvangi hafa bent til þess að um of hraðan akstur bifreiðarinnar hefði verið að ræða.
Stefnda Svala Rún Jónsdóttir kom fyrir dóminn og bar að hún og Pálmfríður Gylfadóttir hefðu farið upp í hesthús umrætt sinn og hleypt hestunum út í gerði á meðan þær mokuðu út úr húsinu. Hefðu þær orðið varar við ókyrrð í hrossunum þegar þær byrjuðu að moka og svo heyrt skruðninga og læti, síðan séð á eftir hestunum þar sem þeir voru komnir út undir trönur nokkru aftan við húsin. Hrossin hefðu brotið niður rafmagnsgirðingar sem séu eins og þær sem venjulega eru notaðar af hestamönnum. Hefðu þær farið rakleiðis á eftir hrossunum sem staðnæmdust við trönurnar. Hefðu þær því ákveðið að fara til baka til að fá aðstoð þar sem þær töldu að hrossin færu ekkert lengra. Hefðu þær fengið aðstoð um tíu manna. Hún hefði síðan farið aftur að trönunum en þegar þangað kom hafi hrossin verið horfin. Kvaðst hún þá hafa séð að eitthvað væri að gerast niðri á veginum og farið þangað og þá séð að þar hafði orðið árekstur. Hún hefði þá farið aftur upp í hesthús og þá fyrst hefði henni verið sagt að keyrt hafi verið á hrossin. Hún kvaðst ekki hafa orðið vitni að atburðinum sjálfum og gat fyrir dómi ekki bent á nein vitni að honum.
Vitnin Pálmfríður Gylfadóttir, Karen Heba Jónsdóttir, Guðmundur Birgisson og Jón Davíð Olgeirsson, sem öll tóku þátt í leitinni að hrossunum báru á sama veg og Svala Rún.
Stefnda Svala Rún bar að bíllinn hefði snúið öfugt á öfugum vegarhelmingi og húddið og framrúðan verið ónýt þegar hún kom á vettvang. Á vettvangi hefði lögreglan beðið hana um upplýsingar um eigendur hestanna og hefði lögreglan sagt henni að gefa sér upp sitt nafn sem eiganda eins hrossanna, en í raun hefði fósturdóttir hennar verið eigandi hestsins Garra. Þá hefði starfsmaður Skandia viljað að hún kvittaði fyrir móttöku greiðslna frá tryggingafélaginu þar sem hún væri skráður eigandi hrossins í lögregluskýrslu vegna atburðarins.
IV.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að stefndu sem eigendur hrossa þeirra er hlupu fyrir bifreið hans, beri bótaábyrgð á því tjóni sem varð á bifreiðinni. Byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefndu á því að lausaganga hesta hafi verið bönnuð á þeim stað er óhappið varð og hafi stefndu borið að hafa hross sín í hestheldri girðingu. Vísar stefnandi því til stuðnings til 12. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjanesbæ frá 29. september 1995 þar sem lagt sé bann við því að hestar gangi lausir í umdæmi Reykjanesbæjar og að hestar séu reknir um götur bæjarins. Þá vísar stefnandi til samþykktar um búfjárhald í Reykjanesbæ og til 56. gr. vegalaga nr. 45/1994.
Stefnandi telur að virða beri stefndu það til sakar að hross þeirra gengu laus á Miðnesheiðarvegi og hlupu fyrir bifreiðina R-17787. Vísar stefnandi til yfirlýsingar stefndu dagsettrar 18. mars 1996 til Skandia þar sem fram komi að 10 hestar hafi brotist út úr gerðinu við hesthúsin. Telji stefnandi því að orsök tjóns hans sé m.a. vanbúnaður á girðingu, sem stefndu hafi borið að hafa með þeim hætti að hestar gætu ekki rutt henni niður. Þá beri að virða stefndu það til sakar hvernig þau stóðu að smölun og rekstri hrossana. Engar varúðarráðstafanir hafi verið gerðar gagnvart aðvífandi bílaumferð. Menn á hrossum og gangandi hafi rekið hrossin algerlega ljóslaust þvert yfir fjölfarinn þjóðveg á Miðnesheiði. Enginn bíll hafi verið á veginum þeim til aðstoðar, með eða án blikkandi aðvörunarljósa, eins og eðlilegt hefði verið.
Stefnandi telur slysið hafa orðið án nokkurrar sakar eða aðgæsluleysis ökumanns bifreiðarinnar.
Bótakrafan er byggð á mati Tjónaskoðunarstöðvar Vátryggingafélags Íslands frá 17. nóvember 1997 sem áður er rakið.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttar, sbr. einkum almennu skaðabótareglunnar. Þá vísar stefnandi til 56. gr. vegalaga nr. 45/1994, 22. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjanesbæ, sbr. lög nr. 36/1988, og samþykktar um búfjárhald í Reykjanesbæ. Þá er vísað til girðingarlaga nr. 10/1965.
V.
Aðalkrafa stefndu Svölu Rúnar um sýknu er einkum byggð á aðildarskorti. Stefnda hafi ekki átt neitt þeirra hrossa sem urðu fyrir bifreiðinni R-17787. Eigandi Garra hafi verið fósturdóttir hennar, Margrét Erla Guðmundsdóttir. Komi þetta fram í yfirlýsingu Landssambands hestamannafélaga dagsettri 23. september 1998. Þá komi þetta einnig fram í yfirlýsingu Margrétar Erlu dagsettri 17. febrúar 1996 þar sem hún veitti föður sínum leyfi til að fella hestinn í kjölfar slyssins. Margrét Erla hafi aðeins verið 16 ára þegar slysið átti sér stað. Hafi hún orðið algjörlega miður sín vegna atburðarins og meiðsla Garra og því ekki í neinu ástandi til að ræða við lögreglumenn sem á vettvang komu. Hafi stefnda Svala, sem sé stjúpmóðir Margrétar Erlu, því tekið að sér að vera í forsvari gagnvart lögreglunni. Það sé ástæða þess að stefnda sé talin eigandi Garra í lögregluskýrslunni. Stefndu Svölu sé því ranglega stefnt í máli þessu og beri því að sýkna hana samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Á sama hátt byggir stefndi Gylfi Bergmann sýknukröfu sína á aðildarskorti. Hann hafi aðeins verið meðeigandi að hrossinu Birtu og hafi hinum meðeigandanum ekki verið stefnt í málinu. Stefnandi hafi heldur ekki leitt það í ljós hvert af hrossunum olli tjóninu á bifreiðinni né að hve miklu.
Sýknukrafa beggja stefndu er í öðru lagi á því byggð að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að hann hafi orðið fyrir tjóni. Hann hafi einungis lagt fram skýrslu tjónaskoðunarmanns, sem byggð sé á skoðun bifreiðarinnar tæpum tveimur árum eftir að áreksturinn átti sér stað. Þá sé bótakrafan verulega vanreifuð en hún byggi eingöngu á áðurnefndri áætlun skoðunarmanns sem skoðaði bifreiðina tveimur árum eftir tjónsatburð. slíkt geti aldrei orðið grundvöllur útreiknings skaðabóta. Hljóti sá ágalli á málatilbúnaði stefnanda að leiða til sýknu
Sýknukrafa stefndu er í þriðja lagi á því byggð að það sé meginregla í íslenskum skaðabótarétti að menn beri ekki skaðbótaábyrgð á tjóni sem dýr í þeirra eigu valda, nema á grundvelli eigin sakar. Stefndu hafi ekki sýnt af sér neina sök, sem leiddi til tjóns á bifreiðinni. Um hafi verið að ræða hross sem geymd voru á forsvaranlegan hátt innan nýlegrar hrossheldrar girðingar. Að þeim hafi komið styggð svo þau tóku á rás. Hrossin hafi brotið niður tvær sterkar girðingar, þar af hafi önnur verið rafmagnsgirðing. Vörslur hrossanna hafi því verið forsvaranlegar og í samræmi við góða venju. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að vörslum hafi verið áfátt. Þá er á því byggt að eigandi hesthússins beri ábyrgð á girðingum við húsið og umsjón með þeim.
Sýknukrafa stefndu er í fjórða lagi á því byggð, að þau hafi ekki sýnt af sér neina sök við leitina að hrossunum eftir að þau sluppu út. Björgunaraðgerðir þær sem gripið var til eftir eftir að hrossin sluppu út hafi verið fullkomlega forsvaranlegar og eðlilegar á allan hátt. Stefndu verði ekki gefið að sök hvernig dýrin hegðuðu sér, en eignarhald á dýrum geti aldrei eitt sér orðið sjálfstæður bótagrundvöllur.
Sýknukrafa stefndu er í fimmta lagi á því byggð, að lausaganga hafi ekki verið bönnuð á slysstað. Þá telja stefndu að í umrætt sinn hafi ekki verið um lausagöngu að ræða. Um hafi verið að ræða eðlilegar og nauðsynlegar björgunaraðgerðir vegna hrossa sem keyrt höfðu niður tvær girðingar og sloppið út. Það eigi ekkert skylt við lausagöngu. Með sömu rökum mótmæla stefndu því að hér hafi verið um rekstur búfjár að ræða. Telji dómurinn á hinn bóginn að um eiginlegan búfjárrekstur hafi verið að ræða, vísa stefndu til 2. mgr. 78. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en samkvæmt þeirri grein hafi reksturinn verið stefndu heimill. Stefndu mótmæla tilvísun stefnanda til 56. gr. vegalaga, enda skilyrðum greinarinnar ekki fullnægt, m.a um að girt sé beggja vegna vegar.
Sýknukröfu sína byggja stefndu í sjötta lagi á því, að sá atburður að ekið var á hrossin verði eingöngu rakinn til sakar ökumanns bifreiðarinnar R-17787. Þarna hafi hámarkshraði verið 90 km/klst. og beri vitnum saman um að bifreiðinni hafi verið ekið nálægt þeim hraða inn í hesthúsabyggðina. Þá hafi snjóföl verið á vegi og skuggsýnt. Þá hafi umferðarskilti við veginn áður en komið er að hesthúsabyggðinni varað við umferð hest. Þá hafi vitni séð löng bremsuför eftir bifreiðina á vettvangi. Verði því að telja hraða bifreiðarinnar hafa verið of mikinn miðað við aðstæður. Stefnandi verði að þola brottfall bóta enda leiði hann rétt sinn af rétti fyrri eiganda bifreiðarinnar samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins.
Að lokum byggja stefndu sýknukröfu sína á aðgerðarleysi og tómlæti stefnanda. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við það að gengið var til bótauppgjörs við eigendur þeirra hrossa sem slösuðust við áreksturinn. Þá hafi stefnandi ekkert aðhafst til heimtu bóta fyrr en með kröfubréfi til stefnda Gylfa þann 21. nóvember 1997.
Varakrafa stefndu um lækkun kröfu stefnanda er m.a. byggð á því að taka eigi tillit til eigin sakar ökumanns bifreiðarinnar R-17787, því að fyrrverandi eigandi bifreiðarinnar hafi samþykkt bótauppgjör við stefndu vegna hrossanna og með því viðurkennt að 2/3 hlutar sakar lægju hjá ökumanni bifreiðarinnar. Verði stefndu því eigi dæmd til að greiða meira en 1/3 hluta tjónsins. Telji dómurinn stefnanda bera hærri bætur en 1/3 hluta tjóns síns þrátt fyrir tómlætið, er á því byggt að stefndu geti haft uppi sem gagnkröfu til skuldajafnaðar þann 1/3 hluta tjóns þeirra vegna hestanna sem ekki fékkst bættur. Þá mótmæla stefndu mati á tjóni stefnanda sem allt of háu. Þar sé greinilega gert ráð fyrir að nýtt komi í stað gamals. Verði því að gera ráð fyrir lækkun kröfunnar af þeim sökum, en stefnandi eigi ekki kröfu á því að bifreið hans verði sem ný. Þá sé byggt á bráðabirgðamati tjónaskoðunarstöðvar sem aldrei geti orðið grundvöllur útreiknings skaðabóta. Auk þess sé matið byggt á skoðun á bifreiðinni tæpum tveimur árum eftir slysið. Af hálfu stefndu er því haldið fram með hliðsjón af atvikum að lækka beri beri bætur frá umkrafinni fjárhæð og dæma bætur að álitum, ef til þess kemur.
Af hálfu stefndu er upphafsdegi dráttarvaxta mótmælt. Fyrir því séu engin lagarök. Eins og á standi verði dráttarvextir fyrst dæmdir frá dómsuppsögudegi. Þá mótmæla stefndu málskostnaðarkröfu stefnanda.
VI.
Niðurstaða.
Samkvæmt 12. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjanesbæ er lausaganga búfénaðar bönnuð í umdæmi bæjarins og búfénað má ekki reka lausan um götur bæjarins. Umferðarslys það, er mál þetta er sprottið af, átti sér stað á Miðnesheiðarvegi innan lögsagnarumdæmis Reykjanesbæjar. Leikur því ekki vafi á, að slysið átti sér stað þar sem lausaganga er bönnuð.
Hross þau er mál þetta varða voru geymd í hesthúsi í hesthúsabyggðinni á Mánagrund á Miðnesheiði. Hesthúsið var í eigu Rúnars Guðbrandssonar sem hélt þar hross ásamt stefndu og öðru fólki. Fram hefur komið að allir þeir sem að áttu þar hross skiptust á að hirða húsið og hafa umsjón með hestunum. Svala Rún Jónsdóttir kom fyrir dóminn og bar að hún og Pálmfríður Gylfadóttir hafi farið upp í hesthús og hleypt hestunum út í gerði á meðan þær mokuðu út úr húsinu. Hefði þá komið styggð að hestunum og þeir brotist út úr gerðinu. Við vettvangsgöngu kom í ljós að umhverfis hestagerðið hafði verið reist rammgerð röragirðing. Kom þá fram hjá stefndu Svölu Rún að það hefði verið gert í tilefni af því að hrossin sluppu út umrætt sinn. Fyrir hefðu verið m.a. rafmagnsgirðingar sem ættu að vera hrossheldar.
Umrætt hesthús stefndur nálægt þjóðvegi og var því nauðsynlegt að gerðið væri þannig útbúið, að hross gætu ekki auðveldlega brotist út úr því. Bar eigendum og vörslumönnum hrossanna að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hrossin ættu greiða leið úr gerðinu og út á þjóðveginn. Verður því að telja að brotthlaup hestanna megi rekja til gáleysis þessarra aðila.
Enda þótt þegar hafi verið gerðar ráðstafanir til að leita hrossanna og koma þeim í hús ,hefur ekki verið sýnt fram á að gerðar hafi verið ráðstafanir til að vara vegfarendur á þjóðvegi þessum við lausagöngu hrossanna. Var það nauðsynlegt sökum þess að skuggsýnt var orðið á þessum tíma og hins að vegfarendur máttu ekki reikna með því að þarna væru hross í lausagöngu.
Ökumaður bifreiðarinnar bar fyrir dómi að hann hafi verið á leið til Sandgerðis umrætt kvöld, niðamyrkur verið, en góð skilyrði til aksturs. Hann kvaðst hafa verið í mesta lagi á 70 km. hraða og allt í einu hafi vegurinn fyllst af hrossum. Með ökumanni í bílnum var einn farþegi og var framburður hans á sama veg. Enginn sjónarvottur var að slysinu en lögreglumenn þeir er komu fyrstir á vettvang hafa borið um það að engin ummerki hafi verið um hraðan akstur. Í málinu þykir ekkert fram komið, sem gefi tilefni til að draga frásögn ökumanns um aðdraganda slyssins í efa. Verður að leggja hana til grundvallar. Aðstæður til aksturs voru góðar á þeim kafla þjóðvegarins sem hér um ræðir, vegurinn beinn og ekkert sem birgði útsýni. Þótt gera verði þá kröfu til ökumanna að þeir aki að öðru jöfnu hægar í myrkri en í dagsbirtu, þykir það ekki verða metið ökumanni bifreiðarinnar til gáleysis að hafa í umrætt sinn ekið á 70 km hraða á klukkustund. Ber hér einkum að hafa í huga að ekki verður talið að hann hafi mátt búast við annarri umferð en bifreiða á þessum stað og tíma. Verður því að fallast á það með stefnanda, að ósannað sé að ökumaður bifreiðarinnar hafi gerst sekur um gáleysi við aksturinn
Telja verður því meginorsök umferðarslyssins þá að hrossin hafi hlaupið inn á veginn í veg fyrir bifreiðina en sökum myrkurs og lélegs skyggnis hafi ökumaður eigi mátt verða þeirra var fyrr en mjög nærri þeim var komið. Kemur því ekki til sakarskiptingar í máli þessu.
Í málinu er því haldið fram af hálfu stefndu Svölu Rúnar að hún hafi ekki átt hestinn Garra og af hálfu stefnda Gylfa Bergmanns að hann hafi aðeins verið meðeigandi annars hrossanna sem hann er talinn eiga í stefnu. Er aðalsýknukrafa stefndu byggð á þessum ástæðum. Eins og áður er getið tjáði stefnda Svala Rún lögreglu á vettvangi að hún ætti eitt hrossa þeirra er á bifreiðinni lentu og stefndi Gylfi Bergmann hin tvö. Í yfirlýsingum stefndu til tryggingafélagsins Scandia er hinu sama haldið fram og þá tóku stefndu við bótum frá tryggingafélaginu sem eigendur hrossanna. Við þessi gögn miðar stefnandi aðild varnarmegin í málinu. Dómurinn telur stefndu ekki hafa sýnt fram á með sannanlegum hætti, að eignaraðild þeirra að umræddum hrossum sé öðru vísi varið en fram kemur í lögregluskýrslu, í yfirlýsingum til tryggingafélagsins og í kvittunum fyrir móttöku bóta. Verður því við það að miða í máli þessu að eignaraðild þeirra hafi verið með þeim hætti sem gögn þessi gefa til kynna. Ber því að hafna sýknukröfu þeirra byggðri á aðildarskorti.
Samkvæmt framansögðu verður öll bótaábyrgð á tjóni stefnanda lögð óskipt á stefndu.
Dómkröfur sínar byggir stefndi á skoðun sem gerð var af tjónaskoðunarmanni frá Vátryggingafélagi Íslands tæpum tveimur árum eftir áreksturinn. Stefndu hafa mótmælt þessu mati sem ófullnægjandi sönnunargagni um það hvort tjón hafi orðið á bílnum við áreksturinn og þá hversu mikið. Samkvæmt lögregluskýrslu var bifreiðin töluvert skemmd eftir áreksturinn, óökufær og var hún fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið. Verður því fallist á það með stefnanda að bifreiðin hafi orðið fyrir tjóni við áreksturinn við hrossin. Varðandi fjárhæð tjónsins verður ekki byggt á mati því sem að stefnandi fékk hjá tjónaskoðunarstöð Vátryggingafélags Íslands tæpum tveimur mánuðum eftir tjónið. Til þess ber og að líta, að um var að ræða mjög gamla bifreið, og að ætla má að í skoðunargerðinni sé gert ráð fyrir því að nýtt komi í stað gamals. Þar sem hins vegar þykir sannað, að bifreiðin varð fyrir tjóni við atburðinn þykja eins og á stendur og þrátt fyrir skort á lögformlegu mati á tjóninu, ekki efni til að vísa málinu frá dómi ex officio. Verður því að dæma bætur úr hendi stefndu að álitum. Að öllu virtu þykja bætur er stefndu greiði stefnanda in solidum hæfilega ákveðnar 300.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.
Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað in solidum og þykir hann hæfilega ákveðinn kr. 100.000 að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Mál þetta hefur tvívegis áður verið flutt. Annars vegar við aðalmeðferð þess 16. 4. 1999 og hins vegar þann 12. 7. s.l. er það var endurupptekið. Embættisannir dómara ollu því að dómsuppsaga dróst eftir aðalmeðferð málsins, en veikindi og sumarleyfi eftir endurflutninginn 12. júlí s.l.
Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður dóminn upp.
Dómsorð
Stefndu, Gylfi Bergmann og Svala Rún Jónsdóttir, greiði in solidum stefnanda, Vatnsiðjunni Lóni ehf., 300.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi til greiðsludags og 100.000 krónur í málskostnað.