Hæstiréttur íslands
Mál nr. 509/2014
Lykilorð
- Verksamningur
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2015 |
|
Nr. 509/2014.
|
Háfell ehf. (Bjarki Þór Sveinsson hrl.) gegn Geirnaglanum ehf. (Marteinn Másson hrl.) |
Verksamningur. Tómlæti.
H ehf. tók að sér tiltekna þætti í gerð snjóflóðavarnargarðs sem undirverktaki G ehf. Voru verkþættir H ehf. skilgreindir nánar í tilboðsskrá sem fylgdi verksamningi vegna verksins. Aðilarnir deildu um hvort öflun sands, sem nýttur var sem afréttingarefni undir jarðvegsgrindur, hefði falið í sér aukaverk sem G ehf. bæri að greiða sérstaklega fyrir eða hvort verkið hefði fallið undir verkliði sem H ehf. bar að inna af hendi. Talið var ósannað að H ehf. hefði án samþykkis G ehf. verið heimilt að vinna umrætt verk á kostnað hins síðarnefnda. Var félagið því sýknað af kröfum H ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júlí 2014. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.076.140 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi varðar ágreiningur aðila gerð snjóflóðavarnargarðs á úthlaupssvæði snjóflóða úr Kubba í Skutulsfirði við Ísafjörð. Verktaki var stefndi en með verksamningi 28. febrúar 2012 tók áfrýjandi að sér, sem undirverktaki stefnda, tiltekna þætti í gerð snjófljóðavarnargarðsins. Voru verkþættir áfrýjanda nánar skilgreindir í útfylltri og yfirfarinni tilboðsskrá sem var fylgiskjal með samningnum. Ágreiningur aðila varðar greiðslu fyrir sand sem áfrýjandi aflaði og ók á garðinn og nýttur var sem afréttingarefni undir svonefndar jarðvegsgrindur. Byggir áfrýjandi á því að öflun sandsins hafi falið í sér aukaverk sem stefnda beri að greiða fyrir en stefndi byggir á hinn bóginn á því að verkið hafi verið hluti af þeim samningsskuldbindingum sem áfrýjandi gekkst undir með framangreindum samningi og hann þegar fengið greitt fyrir. Áfrýjandi byggir á því að öflun umrædds sands til afréttinga hafi fallið undir lið 1.5 í tilboðsskránni sem lýtur að svokölluðu styrkingarkerfi og var á könnu stefnda. Stefndi telur á hinn bóginn að verkið hafi fallið undir verkliði 1.4.5 „Styrkt fylling í garð“ og lið 1.4.6 „Fylling í framhlið garðs“ og umræddur kostnaður sé innifalinn í umsömdum samningsgreiðslum til áfrýjanda vegna þeirra.
Í 1. grein framangreinds verksamnings aðila kom meðal annars fram að ekki yrði greitt fyrir aukaverk nema á grundvelli skriflegrar verkbeiðni frá verkkaupa. Þá kom jafnframt fram á sama stað að áfrýjanda væri ljóst að við undirritun samningsins hefði ekki fengist endanleg staðfesting eiganda verksins á fyrirhuguðu styrkingarkerfi. Óumdeilt er að endanleg niðurstaða þar að lútandi lá fyrir 8. maí 2012 á grundvelli tölvupósts Magnúsar Jónssonar, þá starfsmanns stefnda, en tölvupóstinum fylgdi teikning af endanlegri útfærslu varnargarðsins. Á því tímamarki lá því fyrir að þörf væri á umræddum sandi sem afréttingarefni við gerð garðsins. Þá liggur fyrir að efnissali gerði áfrýjanda reikning vegna þessa sem hann móttók 24. október 2012. Í nóvember sama ár var síðan gert þríhliða samkomulag málsaðila og Framkvæmdasýslu ríkisins um úrlausn nokkurra nánar tilgreindra ágreiningsefna sem lutu að verðbótum, sprengingum á klöppum, fyllingum í framhlið garðsins og styrkingarkerfi. Í framhaldinu eða 14. sama mánaðar gerðu aðilar máls þessa með sér samkomulag um uppgjör krafna sem gert var á grundvelli fyrrnefnds þríhliða samkomulags. Hinn 1. mars 2013 gerði áfrýjandi stefnda síðan reikning vegna umrædds verkþáttar með skýringunni „Aukaverk: Vinnsla á sandi og akstur“ og svaraði hann til stefnukröfu í málinu. Stefndi hafnaði greiðslu reikningsins á framangreindum forsendum. Lokareikningur áfrýjanda á hendur stefnda er frá 15. ágúst 2013 og ekki er komið fram að neinn ágreiningur hafi orðið um greiðslu hans.
Gegn þeirri mótbáru stefnda að umsamið hafi verið með aðilum, sbr. 1. grein samnings þeirra frá 28. febrúar 2012, að aukaverk skyldu ekki unnin nema á grundvelli skriflegrar verkbeiðni frá verkkaupa hefur áfrýjandi haldið því fram að framkvæmdin í samningssambandi aðila hafi í raun orðið á þann veg að aukaverk hafi í öllum tilvikum verið unnin án þess að slíkt form hafi verið viðhaft. Sú athugasemdalausa framkvæmd hafi þannig í raun vikið til hliðar umsaminni skyldu til öflunar skriflegrar verkbeiðni stefnda. Fær þessi staðhæfing áfrýjanda nokkurn stuðning í framlögðum reikningum, sem hann gerði stefnda á grundvelli samnings aðila. Þess ber þó að gæta að þeir reikningar eru í öllum tilvikum tilkomnir eftir 8. maí 2012 þegar fyrir lá, eins og fyrr greinir, að nýta ætti sand í afréttingar. Jafnframt er þess að gæta að áfrýjanda var af hálfu efnissala gerður reikningur í október 2014 en hann allt að einu, svo sannað sé, tók málið ekki upp við samningsgerðina í nóvember 2012, hvorki í hinum þríhliða samningi við stefnda og Framkvæmdasýslu ríkisins né í innbyrðis samningi hans og stefnda 14. nóvember 2012, en þeir samningar tengdust þó óumdeilanlega hinum umdeilda verkþætti. Áfrýjandi gerði síðan stefnda ekki reikning vegna þessa verks fyrr en þremur og hálfum mánuði síðar eða 1. mars 2013 en þá voru liðnir nærfellt tíu mánuðir frá því að fyrir lá að notaður yrði sandur í framangreindu skyni. Ber þá jafnframt að líta til þess að áfrýjandi annaðist athugasemdalaust öflun og flutning sandsins á verkstað þó að hann haldi því fram að það verk hafi fallið undir verkþátt honum óviðkomandi.
Að öllu framangreindu virtu og með sérstakri hliðsjón af samningsskuldbindingunni í 1. grein samningsins frá 28. febrúar 2012 verður sönnunarbyrðin um það að áfrýjanda hafi án sannarlegs samþykkis stefnda verið heimilt að vinna umrætt aukaverk á kostnað hans lögð á áfrýjanda. Sú sönnun hefur ekki tekist. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Háfell ehf., greiði stefnda, Geirnaglanum ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. apríl sl., er höfðað með stefnu 25. september 2013 af Háfelli ehf., Skeifunni 11, Reykjavík gegn Geirnaglanum ehf., Strandgötu 4b, Hnífsdal.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 3.076.140 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
I.
Málsatvik eru þau helst að í janúar 2012 gerðu stefndi, sem verkkaupandi og stefnandi, sem verktaki, með sér verksamning undir yfirskriftinni ,,Þvergarður undir Kubba“. Framkvæmdasýsla ríkisins hafði umsjón með verkinu. Fólst verkið í því að reisa snjóflóðavarnargarð á úthlaupssvæði snjóflóða úr Kubba í Skutulsfirði við Ísafjörð. Í febrúar 2011 hafði stefndi, sem verkkaupi, gert samning við Ísafjarðarbæ um að reisa nefndan snjóflóðavarnargarð. Í samningi aðila frá í janúar 2012 kemur fram að um sé að ræða u.þ.b. 220 metra langan þvergarð. Í verkinu skuli einnig felast mótun yfirborðs skeringa flóðmegin við garða. Einnig skuli í verkinu m.a. felast gerð vinnuvega, varanlegra vegslóða, gangstíga og áningarstaða. Skyldu verkþættir undirverktaka vera skilgreindir á sérstöku sundurliðunarblaði sem fylgja skyldi samningi. Skyldi verktaki vinna aukaverk í samræmi við verkbeiðni frá verkkaupa. Engin aukaverk skyldu greidd nema eftir skriflegri verkbeiðni frá verkkaupa. Skyldi greitt fyrir verkið samkvæmt samþykktri verkstöðu og í samræmi við ákvæði útboðsgagna verksins. Greiðslur skyldu vera í takt við greiðslur frá Ísafjarðarbæ til verkkaupa. Framkvæmdatíma skyldi lokið 1. ágúst 2012. Þann 14. nóvember 2012 rituðu aðilar málsins undir samkomulag um uppgjör krafna. Á verkframkvæmdatíma ók stefnandi sandi upp í snjóflóðavarnargarðinn sem notaður var sem jöfnunarlag undir jarðvegsgrindur, sem voru fremsti hluti varnargarðsins. Stefnandi kveður að um aukaverk hafi verið að ræða, sem hann krefur stefnda um greiðslu á. Stefndi neitar greiðsluskyldu.
Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Skarphéðinn Ómarsson fyrirsvarsmaður stefnanda, og vitnin Jón Gunnar Stefánsson, Sveinn Daníel Kristjánsson Lyngmo, Sævar Óli Hjörleifsson og Magnús Jónsson. Ekki þykir ástæða til að reifa framburði aðila eða vitna.
II.
Stefnandi byggir kröfu sína á meginreglum kröfu-, samninga- og verktakaréttar um að greiða skuli fyrir unna verkframkvæmd. Óumdeilt sé að stefndi hafi óskað eftir afhendingu á sandi sem krafist sé greiðslu fyrir. Stefnandi hafi unnið sandinn og afhent stefnda hann. Deilan snúist um hvort um aukaverk sé að ræða og/eða hvort skrifleg beiðni sé forsenda greiðsluskyldu. Stefndi haldi því fram að greitt hafi verið fyrir sandinn og afhendingu hans skv. verklið 1.4.6 í verksamningi aðila. Það sé rangt. Sá verkliður fjalli einungis um framhlið snjóflóðavarnargarðsins og þar sé enginn sandur. Sandurinn hafi verið notaður sem jöfnunarlag undir jarðvegsgrindur og falli undir verklið stefnda. Stefnandi hafi ekkert með jarðvegsgrindurnar í verkframkvæmdinni haft að gera. Í tölvupósti frá 8. maí 2012 hafi stefnandi lagt fram tillögu að því hvernig framkvæmdin yrði unnin. Sú tillaga hafi verið lögð fram eftir viðræður milli aðila. Stefndi hafi í erindi til stefnanda byggt á því að með tillögunni hafi stefnandi tekið á sig að vinna sandinn á sinn kostnað. Það sé af og frá. Þó svo að verktaki leggi fram verktilhögun sé ekki hægt að halda því fram að honum beri þar með að vinna hana á sinn kostnað. Þá haldi stefndi því fram að ekki eigi að greiða fyrir framkvæmdina þar sem engin skrifleg beiðni hafi verið til staðar. Sú röksemdarfærsla standist ekki. Stefnandi hafi unnið nokkuð viðamikla framkvæmd fyrir stefnda við gerð snjóflóðavarnargarðsins. Ótal málefni hafi komið upp á verktímanum, bæði hvað varði verktilhögun, aukaverk o.fl. Hafi þessi málefni iðulega verið leyst á staðnum, án formlegra aukaverkatilkynninga. Þannig hafi tilvísun í að aukaverk þurfi að vera skrifleg enga þýðingu, þar sem stefndi hafi sjálfur ákveðið að víkja frá ákvæðum þar um. Jafnvel þó svo að engar aðrar breytingar hafi átt sér stað, munnlega á verkstað, væri mjög einkennilegt að hafna greiðsluskyldu á þeirri forsendu að ekki væri til skrifleg aukaverkbeiðni. Stefndi hafi verið meðvitaður um að verið væri að vinna sandinn. Ekki sé með nokkru móti hægt að halda því fram að stefndi hafi talið að hann fengi sandinn án greiðslu. Þá ítreki stefnandi að alfarið sé hafnað þeirri fullyrðingu stefnda að greiðsla vegna aukaverksins hafi verið falin í lið 1.4.6.
Alls hafi verið unnir og afhentir 1842 m3 af sandi. Verð sands fyrir hvern m3 sé 1.670 krónur með virðisaukaskatti. Krafa stefnanda, vegna sandvinnslu sem keypt hafi verið af þriðja aðila og fól jafnframt í sér vinnu við að moka efni í efnisvinnslutæki, fjarlægja efni frá efnisvinnslutæki, ámokstur á búkollu og afhendingu, nemi þannig samtals 3.076.140 krónum.
Fjárkröfu sína byggir stefnandi á meginreglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísar stefnandi til 3. mgr. 42.gr. laga nr. 91/1991, en samþykkt hafi verið af hálfu stefnda að málið yrði rekið í Reykjavík.
III
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á þeirri staðreynd að þegar hafi verið greitt fyrir allt það tiltekna magn sem verkliðir 1.4.5 og 1.4.6. í verksamningi innifeli á þeim einingaverðum sem stefnandi hafi boðið í verkliðina. Stefnandi haldi því fram í stefnu að í framhlið garðsins, lið 1.4.6, hafi enginn sandur verið notaður heldur hafi sandurinn verið nýttur undir grindur sem unnar hafi verið af stefnda. Sú fullyrðing stefnanda sé í mótsögn við öll gögn málsins því umræddar grindur séu einmitt í framhlið garðsins og fínefnið hugsað og notað sem jöfnunarlag undir grindurnar. Sé vísað í ,,riss“ stefnanda sem hann hafi sent stefnda í tölvupósti 8. maí 2012, þar sem fram komi að hann hugsi fínefnið í framhlið garðsins. Sé því ljóst að umdeilt fínefni falli undir lið 1.4.6. en stefnandi hafi boðið í fyllingarefni þess liðs. Stefndi hafi einungis haft með að gera lið 1.5 hvað varði uppbyggingu garðsins þ.e. að útvega og koma fyrir grindunum og raða grjótinu fremst í þær. Af þeirri fullyrðingu stefnanda í stefnu að sandurinn hafi ekki verið notaður í framhlið garðsins því þar sé enginn sandur verði ekki annað séð en að málatilbúnaður stefnanda sé með öllu óskiljanlegur því framhlið garðsins hafi verið eini staður garðsins þar sem þörf hafi verið á fínefni til afréttingar undir grindur. Sé það skilningur stefnanda að enginn sandur hafi verið notaður í framhlið garðsins þá styðji það enn frekar höfnun stefnda á kröfu stefnanda.
Í öðru lagi mótmæli stefndi því sem röngu sem fram komi í stefnu að hann hafi óskað eftir því á verktíma að stefnandi ynni sand sem aukaverk og keyrði til sín upp í garðinn. Þvert á móti hafi það legið fyrir strax í upphafi eins og komið sé fram og það að frumkvæði stefnanda að einhver ótilgreindur hluti væri fínefni sem færi til afréttinga undir grindur í framhlið. Stefnandi hafi tekið að sér án nokkurra fyrirvara að útvega allt fyllingarefni skv. lið 1.4.6. samtals 3.950 m3. Það hafi því alfarið verið á höndum stefnanda sjálfs að útvega það fyllingarefni sem liður 1.4.6., þ.e. fylling í framhlið garðs, krafðist þ.m.t. fínefni sem hann hafi talið þurfa. Stefnandi hafni því alfarið að sandur hafi verið unninn að hans beiðni sem aukaverk. Sé rétt í því sambandi að vísa til ákvæða ÍST-30, sem sé hluti samnings aðila, m.a. hvað varði aukaverk. Í grein 16.2. segi að verktaki eigi rétt á sérstakri greiðslu vegna aukins kostnaðar sem af breytingu leiði ef hann hefur gert kröfu um það áður en byrjað var á vinnu við breytinguna. Sé þar um að ræða eitt lykilatriða í staðlinum þ.e. valréttur verkkaupans, hvort hann vilji láta vinna verkið þrátt fyrir aukinn kostnað því hann eigi að greiða fyrir það. Þá komi fram í grein 16.6 að verktaki megi engin aukaverk vinna nema samkvæmt staðfestum fyrirmælum verkkaupa. Í grein 16.7 segi að allar yfirlýsingar um breytingar skuli vera skriflegar, svo og kröfugerð og samningar. Þá komi fram í grein 31.2. að verktaki skuli skila mánaðarlega skrá yfir hugsanleg aukaverk og kröfur um greiðslur þeirra með rökstuddri greinargerð. Stefnandi hafi aldrei nefnt að um væri að ræða aukinn kostnað og uppfyllt engin framangreindra ákvæða ÍST-30 og sé reikningi hans m.a. hafnað af þeim sökum.
Í þriðja lagi hafi engin magnaukning verið í umræddum verklið. Stefnandi telji sig hafa unnið og afhent 1.842 m3 af sandi sem hann segi að hafi farið aukalega í framhlið garðsins. Óumdeilt sé að stefnandi hafi fengið greidda alla 3.950 m3. sem hafi verið innifaldir í lið 1.4.6. Við uppmælingu verksins í lok þess hafi komið í ljós að engin magnaukning var á þeim lið né öðrum liðum sem stefnandi hafi unnið er varði fyllingar í garðinn. Það geri að verkum að þeir 1.842 m3 sem stefnandi krefjist aukalega hafi þegar verið greiddir á þeim einingaverðum sem stefnandi hafi boðið. Rétt sé að taka fram að jarðvegsdúkur hafi verið settur milli laga í hvert sinn sem búið hafi verið að fylla í grindur svo fínefni rynni ekki milli steina og ónýttist þannig. Þannig liggi fyrir að telji stefnandi að hann eigi að fá greitt aukalega fyrir sandinn 1.670 krónur pr. m3. þá sé þegar búið að greiða fyrir þessa 3.950 rúmmetra 1.143 krónur pr. m3. eða það verð sem stefnandi hafi boðið í verkliðinn. Stefndi hafi þannig greitt fyrir allt umsamið magn sem í framhlið garðsins fór á umsömdum verðum og hafni m.a. af þeim sökum hinum umdeilda reikningi.
Í fjórða lagi byggi stefndi sýknukröfu sína á því að það magn það af sandi sem stefnandi haldi fram að hafi farið í garðinn geti engan veginn staðist. Ekki sé nokkur leið fyrir aðila að mæla sandinn eftir á þó nálgast megi ákveðna niðurstöðu með flatarmálsútreikningi á fleti þeim sem sandur var notaður í þ.e. framhlið garðsins undir grindur. Í 4. grein í verksamningi aðila komi fram að aðilar skuli koma sér saman um raunstöðu á magni og þeir skuli mæla í sameiningu þá verkliði sem þurfa þyki. Slíkt hafi aldrei verið gert varðandi þennan umdeilda sand þó full ástæða hafi verið til af hálfu stefnanda að fá þá mælingu jafnharðan þ.e. teldi hann að um aukaverk væri að ræða. Bendi það til þess að stefnandi hafi haft þann skilning að sandurinn hafi verið hluti af því fyllingarefni sem hann hafi átt að útvega samkvæmt tilboði sínu. Að öðrum kosti hafi hann átt að fara fram á mælingu. Um hafi verið að ræða að setja fínefni í framhlið garðsins undir grindur til afréttingar. Grindur þessar séu að flatarmáli (framhlið) 3.950 m2. Reiknað sé með í útboðsgögnum að framhlið garðsins, liður 1.4.6, nái einn metra inn í garðinn. Hafi það einnig verið skilningur stefnanda að svo væri. Grindur þær sem notaðar voru séu 62.5 cm. á hæð. Sé reiknað með metra breiðu sandlagi 10 cm að þykkt undir hverju lagi grindar sé um að ræða 6.320 m2 x 10 cm. = 632 m3. en ekki 1.842 m3. eins og haldið sé fram. Það gæfi þá eftirfarandi niðurstöðu: 632 m3 x 1.679 krónur = 1.061.128 að frádregnum 632 m3 x 1.143 krónur = 722.376 krónur sem sé óumdeilanlega þegar greitt. Krafa samkvæmt einingaverði í umdeildum reikningi væri þá 338.752 krónur með virðisaukaskatti sem væri sú upphæð sem stefndi ætti að greiða væri um aukaverk að ræða sem stefndi hafni með öllu.
Í fimmta lagi byggi stefndi sýknukröfu á því að skýr ákvæði séu um vinnu aukaverka í samningi aðila en stefnandi haldi því fram að um aukaverk sé að ræða. Vísist þar í 1. gr. verksamnings aðila um hvernig farið sé með aukaverk og til 2. gr. verksamnings aðila þar sem fram komi m.a. að hluti samningsgagna séu ýmis lög, reglugerðir og staðlar eins og þau séu tilgreind í lið 0.3.1. í útboðs og samningsskilmálum nr. 14992. Þar megi sjá í kafla 0.5.3. vísað til ÍST-30 kafla 16 hvað varði aukaverk en þar komi einnig skýrt fram að verktaka sé með öllu óheimilt að vinna aukaverk nema í samráði við verkkaupa. Reikningur sá sem stefnandi leggi fram sem dómskjal nr. 11 hafi ekkert vægi í máli þessu og sé honum mótmælt sem gagni í málinu. Ekkert í gögnum stefnanda sýni fram á eða sanni að stefndi hafi beðið um fínefni það sem um sé deilt sem aukaverk og sé því mótmælt og hafnað sem röngu og ósönnuðu að svo hafi verið.
Í sjötta lagi byggi stefnandi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi gefið út lokareikning sinn vegna verksins en ÍST-30 sé, eins og fram sé komið, órjúfanlegur hluti samnings aðila. Í ÍST-30 gr. 31, séu ákvæði um hvernig farið skuli með gerð lokareiknings. Komi fram í lið 31.6 að verktaki skuli senda verkkaupa fullnaðarreikning vegna verksins innan tveggja mánaða frá verklokum. Á þeim fullnaðarreikningi skuli verktaki greina allar kröfur um greiðslur um aukaverk og breytingar. Þá sé í lið 31.8 ákvæði um að verktaki geti ekki haft uppi frekari kröfur á hendur verkkaupa eftir að hann hafi lagt fram fullnaðarreikning. Stefnandi hafi sent umdeildan reikning þremur og hálfum mánuði eftir að aðilar gerðu með sér samkomulag um uppgjör krafna. Reikningur sá sem um sé þrætt í málinu sé þannig samkvæmt öllum gögnum málsins allt of seint fram kominn og sé honum einnig hafnað á þeim rökum.
Þá byggi stefndi á því í sjöunda lagi að stefndi og stefnandi hafi gert með sér skaðleysissamkomulag byggðu á samkomulagi þeirra við Framkvæmdasýslu ríkisins um uppgjör krafna frá 14. nóvember 2012. Í samkomulagi stefnda og stefnanda komi fram að aðilar afsali þeir sér öllum rétti til frekari kröfugerðar á hendur hvor öðrum vegna þeirra atriða sem samningur við framkvæmdasýsluna taki til þ.e. uppgjörs á verðbótum, bóta vegna sprengingar klappar, fyllingar í framhlið garðs og yfirhæðar á efni vegna styrkingarkerfis. Undir samkomulag þetta falli umdeildur reikningur þar sem hann sé gerður eftir undirritun samkomulagsins.
Að lokum bendi stefndi á tómlæti og athafnaleysi stefnanda. Allan tímann, jafnt í undirbúningi verksins sem og meðan stefnandi og stefndi unnu verkið, hafi legið fyrir að stefnandi útvegaði sand sem hluta fyllingarefnis undir umræddar grindur án þess nokkurn tíman að minnast á að um væri að ræða aukaverk né hafi stefnandi nokkurn tíman gert reikning fyrir því ætlaða aukaverki fyrr en umdeildur reikningur hafi borist löngu eftir verklok. Hafi stefnandi verið í góðri trú að hann væri að vinna aukaverk sé það tómlæti að gera aldrei áskilnað um að svo væri, fara aldrei fram á sameiginlegar mælingar á magni sandsins eða gera stefnda viðvart með einhverjum hætti að hann teldi sig vera að vinna aukaverk. Telji dómurinn að ekkert af framantöldum atriðum leiði til sýknu sé þess krafist að vegna tómlætis og athafnaleysis stefnanda verði stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá vísi stefndi til þess að stefnandi hafi ekki gert neinn reka að fullnægjandi sönnun á þeim kröfum sem hann byggir á. Einungis sé lagður fram reikningur. Til sönnunar kröfum sínum er varði magn og útreikning sem og frekari rökstuðning fyrir kröfum sínum liggi ekkert fyrir sem hönd sé á festandi, hvorki matsgerð né neitt það annað sem hægt sé að byggja á kröfunni til sönnunar.
Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum stefnanda. Stefndi árétti að engin sönnun liggi fyrir sem sanni þá kröfu sem hann byggi á. Því sé engin forsenda fyrir kröfu stefnanda, hvorki að hluta til né allri.
Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum samning- og kröfuréttarins um að samninga skuldi halda. Þá vísar stefndi til reglna verktakaréttar um útboð og verksamninga og til ÍST-30 í því sambandi. Þá byggir stefndi á lagasjónarmiðum er varða tómlætisreglur og athafnaleysi. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Framkvæmdasýsla ríkisins hafði í febrúar 2011 með höndum útboð fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og Ofanflóðasjóðs í gerð snjóflóðavarnargarðs á úthlaupssvæði snjóflóða úr Kubba í Skutulsfirði við Ísafjörð. Verktaki var Geirnaglinn ehf., stefndi í máli þessu. Með verksamningi 28. febrúar 2012 undirrituðu stefndi, sem verkkaupi og stefnandi sem verktaki, samning þar sem stefnandi tók að sér sem undirverktaki hjá stefnda tiltekna þætti í að reisa nefndan snjóflóðavarnargarð. Ágreiningur stendur um greiðslu fyrir sandlag sem ekið var upp í garðinn þegar hann var reistur og notað var til að jafna undir svonefndar jarðvegsgrindur í framhlið varnargarðsins.
Verksamningur Ísafjarðarbæjar, Ofanflóðasjóðs og stefnda gerir í ákvæðum 1.4.5 og 1.4.6 ráð fyrir fyllingu í varnargarðinn. Í nefndum ákvæðum kemur fram að verktaki skuli annast alla vinnslu og flokkun efnis sem nauðsynlegt sé. Skuli öll ,,millilagering“ efnis, sem og rýrnun, vera innifalin í verði verktaka. Skuli fyllingarefni uppfylla allar kröfur sem settar séu af framleiðanda styrkingarkerfis og verktaki tilgreinir í fylgiskjali. Í framhlið garðsins komi flokkað efni. Það ráðist að miklu leyti af því hvaða styrkingarkerfi verktaki bjóði hvers konar efni sé notað í framhlið. Samkvæmt verksamningi stefnanda og stefnda frá í febrúar 2012 eru verkþættir undirverktaka skilgreindir í sundurliðunarblaði, sem er hluti samnings. Í fylgiskjali með samningi er m.a. vikið að styrktri fyllingu í garð og fyllingu í framhlið garðs. Er miðað við tiltekið einingamagn í framkvæmdinni.
Aðilar málsins áttu í samskiptum 8. maí 2012 um hvernig staðið skyldi að verklagi við fyllingu í garðinn. Var tillaga stefnanda að nota þjappaðan kjarna í garðinn, ef frá væri talinn fyrsti metrinn í hann. Þar væri notað annars konar efni sem yrði þjappað niður. Fremst í tá garðsins yrði sett flokkað efni sem sturtað væri í tána og stefndi myndi ganga frá. Á ,,skissu“ sem fylgdi tölvupóstsamskiptum aðila kemur fram að nota skuli fínefni í afréttingu jarðvegsgrindanna. Með vísan til þessa telur dómurinn í ljós leitt að eftir undirritun verksamnings aðila hafi verið ákveðið hvernig framkvæmdin skyldi útfærð að því er varðaði frágang í tengslum við nefndar jarðvegsgrindur.
Í nóvember 2012 gerðu Framkvæmdasýsla ríkisins, fh. Ísafjarðarbæjar og Ofanflóðasjóðs, annars vegar og stefnandi og stefndi sem verktakar, hins vegar, með sér samkomulag um afgreiðslu krafna verktaka. Í nefndu samkomulagi er m.a. vikið að fyllingu í framhlið garðs og styrkingarkerfið. Fram kemur að verktaki hafi farið fram á að fá greiddan viðbótarkostnað fyrir vinnu við að koma fyllingu fyrir í framhlið garðs. Tekið er fram að samkomulag sé um að komi ekki annað í ljós dragi verktaki kröfuna til baka. Þá var samkomulag um að draga til baka kröfu um að fá greitt það efni í styrkingarkerfinu sem á teikningu framleiðanda fari upp fyrir hönnunarlínu. Á sama tíma og samningur þessi er undirritaður, eða 14. nóvember 2012, gerðu stefnandi og stefndu með sér samkomulag um uppgjör á kröfum vegna samkomulags aðila dagsettu í nóvember 2012 við Framkvæmdasýslu ríkisins. Lýsa aðilar því yfir að þeir séu sammála um að með ofangreindu samkomulagi falli þeir frá öllum frekari kröfum á hendur hvorum öðrum vegna þeirra atriða sem samningurinn taki til, þ.e. uppgjörs á verðbótum, bótum vegna sprengingar klappar, fyllingar í framhlið garðs og yfirhæðar á efni vegna styrkingarkerfis. Heildarfjárhæð sem aðilar fá samanlagt frá Framkvæmdasýslu ríkisins er skipt niður í tilgreindar fjárhæðir sem renna til stefnanda, annars vegar, og stefnda, hins vegar til.
Stefnandi sendi stefnda bréf með umkröfðum reikning í mars 2013. Liggur reikningur þessi til grundvallar stefnukröfu í málinu. Með því að aðilar gerðu með sér í nóvember 2012 bindandi samkomulag um hvernig greiðslu frá Framkvæmdasýslu ríkisins yrði skipt á milli stefnanda og stefnda, lauk þar með uppgjöri aðila vegna framkvæmda við fyllingu í framhlið garðsins, sem jarðvegsgrindurnar eru ótvírætt hluti af. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til þess að stefnandi geti krafið stefnda um greiðslu samkvæmt síðbúnum reikning vegna þess þáttar verksins. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Í samræmi við niðurstöðu málsins greiði stefnandi stefnda málskostnað, svo sem í dómsorði greinir.
Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Bjarki Þór Sveinsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Smári Hilmarsson héraðsdómslögmaður.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Geirnaglinn ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Háfells ehf.
Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.