Hæstiréttur íslands

Mál nr. 583/2015

A (Bryndís Guðmundsdóttir hrl.)
gegn
KFUM og KFUK á Íslandi (Ásgerður Ragnarsdóttir hrl.)
og til réttargæslu Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ásgerður Ragnarsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Orsakatengsl

Reifun

A krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu K vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er hann féll úr stiga sem var í eigu K. Var A að sjálfboðastörfum á ungmennamóti sem haldið var af S er slysið varð en S leigði af K aðstöðu og búnað fyrir mótshaldið, þar á meðal umræddan stiga. Var ekki talið að A hefði sýnt fram á að orsök þess að hann féll úr stiganum yrði rakin til vanrækslu eða annarrar saknæmrar háttsemi K. Var K því sýknaður af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2015. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í slysi 6. febrúar 2011 í Vatnaskógi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss áfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að orsök þess að hann féll úr stiga þeim, sem um ræðir í málinu, verði rakin til vanrækslu eða annarrar saknæmrar háttsemi stefnda. Samkvæmt því verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2015.

Mál þetta sem dómtekið var 11. maí 2015 var höfðað 16. október 2014 af hálfu A, […] á hendur KFUM og KFUK á Íslandi, […], til viðurkenningar á bótaskyldu og til greiðslu málskostnaðar auk virðisaukaskatts og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu. 

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, KFUM og KFUK á Íslandi, vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í slysi þann 6. febrúar 2011 á […] móti í Vatnaskógi. Krafist er málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Stefnandi gerir engar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og gerir réttargæslustefndi engar kröfur í málinu.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst þess til vara að hann verði einungis dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna tjóns stefnanda sem hlaust af slysi þann 6. febrúar 2011 og að í því tilviki verði málskostnaður felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Mál þetta er höfðað vegna slyss sem stefnandi varð fyrir þann 6. febrúar 2011 á […] móti í Vatnaskógi, en það er […] mót fyrir ungt fólk á vegum B. Stefnandi var að sjálfboðastörfum fyrir B umrætt sinn, en samtökin höfðu leigt aðstöðu hjá stefnda, KFUM og KFUK á Íslandi, í Vatnaskógi dagana 4.-6. febrúar 2011. Leigusamningurinn er ekki ítarlegur en þar kemur fram að B skuli greiða fyrir aðstöðuna 1.500 krónur fyrir nóttina og 3.000 krónur fyrir helgina, 1.000 krónur fyrir formlega gesti og hálfvirði fyrir fólk í þjónustu. Þá segir í samningnum:

   Aðstaða til leigu:

Vatnaskógur allur staðurinn með þeim tólum og tækjum sem hægt er að nota hverju sinni. Öll hús og gisting.

Leigutaki skili staðnum hreinum og í svipuðu ástandi og þegar tekið var við honum. 

Ákveðið hafði verið að halda mótið í Vatnaskógi með mjög stuttum fyrirvara vegna vandkvæða með annan áætlaðan mótsstað. Tíminn sem B og sjálfboðaliðar á hennar vegum höfðu til skipulagningar var því naumur og mörg verk sem þurfti að vinna. Undirbúningur fyrir mótið hófst fimmtudagskvöldið 3. febrúar 2011. Þá kom hópur fólks, þ. á m. stefnandi, í Vatnaskóg og var íþróttasal þar breytt í tónleika- og hátíðarsvæði. Meðal annars voru veggir þaktir með tjaldi eða dúk, sem festur var upp í loft íþróttasalarins til að bæta hljómburð og fyrir liggja myndir af því hvernig sjálfboðaliðar B báru sig að við undirbúning, m.a. það að koma dúknum upp. Til tals hafði komið að leigja vinnulyftu til þessa verks, en af því varð ekki. Þess í stað var álstiga komið fyrir á kassa og með því móti gátu sjálfboðaliðar náð nægilega hátt til að festa dúkinn. Framkvæmdastjóri Skógarmanna KFUM í Vatnaskógi, sem tók á móti hópnum, hafði vísað stefnanda, sem stýrði framkvæmdum sjálfboðaliðanna á fimmtudagskvöldinu, á stigann í geymslu í íþróttahúsinu og var stiginn hluti af þeim tólum og tækjum sem B hafði aðgang að samkvæmt leigusamningi.

Álstiginn sem notaður var til þessara verka var sá sami og stefnandi síðar féll úr aðfaranótt sunnudagsins 6. febrúar 2011. Þá var stefnandi að ganga frá eftir mótið og var að taka niður veggspjald sem hafði verið fest upp á vegg. Til þess að ná til veggspjaldsins notaði hann umræddan álstiga. Stefnandi mun hafa staðið ofarlega í stiganum, í tæplega tveggja metra hæð, þegar stiginn seig eða féll niður með þeim afleiðingum að stefnandi féll í gólfið. Við fallið bar hann fyrir sig vinstri hönd og hlaut við það beinbrot á hendinni. Stefnandi var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi í kjölfar slyssins og þaðan á Landspítala - Háskólasjúkrahús þar sem beinbrotið kom í ljós. Gekkst hann undir aðgerð samdægurs og var til eftirlits á spítalanum. Hann leitaði einnig til heimilislæknis, sjúkraþjálfara og handarskurðlæknis.

Stefnandi og Vátryggingarfélag Íslands hf., öfluðu sameiginlega matsgerðar frá C bæklunarskurðlækni. Niðurstaða matsgerðar hans 7. september 2012 var sú að stefnandi var metinn með 7% varanlega læknisfræðilega örorku vegna afleiðinga slyssins og að stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata eftir 6. maí 2011. Á grundvelli matsins var slys stefnanda gert upp úr slysatryggingu launþega B hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. þann 9. október 2012.

Með bréfi, dags. 27. mars 2011, óskaði stefnandi eftir því við réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., að tekin yrði afstaða til bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda hjá félaginu. Réttargæslustefndi hafnaði bótaskyldu með bréfi, dags. 15. júní 2011, með vísan til þess að ósannað væri að slysið mætti rekja til aðstæðna eða atvika sem stefndi bæri skaðabótaábyrgð á. Réttargæslustefndi taldi að slysið yrði fyrst og fremst rakið til eigin gáleysis stefnanda eða til óhappatilviljunar.

Stefnandi skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 21. september 2011. Úrskurðarnefndin taldi, þegar tekið væri mið af takmörkuðum gögnum málsins, að slys stefnanda yrði ekki rakið til vanbúnaðar álstigans og var niðurstaðan sú að bótaskylda var ekki talin vera fyrir hendi. Ágreiningur aðila í þessu máli snýst um það hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu og framkvæmdastjóri Skógarmanna KFUM í Vatnaskógi, starfsmaður stefnda, sem tók á móti hópnum. Þá báru átta aðilar vitni, sem ýmist höfðu orðið vitni að slysinu eða komið að undirbúningi eða frágangi, þar af var eitt vitnanna starfsmaður stefnda á staðnum.

Málsástæður og lagarök stefnanda

a) Almennt um grundvöll bótaábyrgðar og málshöfðunar

Mál þetta sé höfðað sem viðurkenningarmál samkvæmt heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi byggi dómkröfu sína á því að stefndi, KFUM, beri fulla skaðabótaábyrgð á því slysi og tjóni sem hann hafi orðið fyrir þann 6. febrúar 2011, enda megi rekja slysið að öllu leyti til vanbúnaðar álstigans sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Full bótaskylda stefnda sé byggð á sakarreglu íslensks skaðabótaréttar, meginreglunni um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum sem starfsmenn hans valda með saknæmum og ólögmætum hætti við framkvæmd starfa sinna og reglu skaðabótaréttarins um nafnlaus mistök. Tjón stefnanda skuli því bætt samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, með síðari breytingum, og byggi stefnandi á því að hann eigi fullan bótarétt vegna þess líkamstjóns er hann hafi hlotið í slysinu.

Þar sem stefndi hafi á slysdegi haft frjálsa ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sé félaginu stefnt til réttargæslu sbr. 21. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Stefnandi byggi á því að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna slyssins sem stefnda beri að bæta að fullu. Um líkamstjón stefnanda vísist til læknisfræðilegra gagna og matsgerðar, en með þeim gögnum, ásamt öðrum gögnum málsins, sé sýnt fram á hagsmuni stefnanda af málshöfðun þessari.

b) Um sönnun á málsatvikum – höfnun réttargæslustefnda byggir á getgátum

Höfnun réttargæslustefnda á bótaskyldu 15. júní 2011 hafi byggst á því að myndir af stiganum hafi sýnt að stiginn hefði orðið fyrir miklu höggi framanvert á stuðningsfótinn og hafi réttargæslustefndi því talið líklegt að höggið á stigann hefði komið til með þeim hætti að stiginn hafi runnið fram af kassa sem stefnandi hefði líklega komið honum fyrir á. Stiginn hefði þá skollið á gólfið með þeim afleiðingum að stefnandi féll niður og slasaðist. Réttargæslustefndi hafi því talið ósannað að orsök slyssins yrði rakin til vanbúnaðar stigans.

Stefnandi mótmæli afstöðu réttargæslustefnda, einkum vegna þess að hún sé byggð á tilbúnum forsendum. Réttargæslustefndi byggi afstöðu sína á myndum sem teknar hafi verið við undirbúning mótsins og gefi sér þær forsendur að slysið hafi líklega orðið á þeim stað og með þeim hætti sem réttargæslustefndi haldi fram í höfnun sinni. Ljóst sé að afstaða réttargæslustefnda byggi ekki á staðreyndum, heldur getgátum. Því hafni stefnandi alfarið lýsingu réttargæslustefnda á líklegum tildrögum slyssins og því hvar réttargæslustefndi telji að slysið hafi orðið og vísi til lýsinga vitna á staðsetningu og tildrögum slyssins máli sínu til stuðnings. Í yfirlýsingum fjögurra vitna komi skýrt fram að stiginn sem stefnandi hafi staðið í hafi verið á gólfinu, verið staðsettur við vegg gegnt sviði í íþróttasalnum og gefið sig fyrirvaralaust með þeim afleiðingum að stefnandi hafi fallið í gólfið. Telji stefnandi það hafið yfir allan vafa að slysið hafi orðið með þeim hætti sem hann lýsi. Stefnandi telji það málinu óviðkomandi, sem stefndi haldi ranglega fram að starfsmenn stefnda hefðu kynnt starfsmönnum B að heppilegra væri að fá vinnulyftu til verksins. Vinnulyfta hefði ekki hentað betur til þess verks sem hann slasaðist við, að fjarlægja plakat sem límt hafi verið á vegg. Þar sem engar hindranir hafi verið til staðar hafi álstigi hentað einkar vel til þess verks.

Stefnandi hafi það eftir starfsmanni stefnda eftir slysið að stiginn hafi verið ónýtur og það hefði átt að vera búið að henda honum. Stefnandi telji ljóst að slysið megi að öllu leyti rekja til vanbúnaðar stigans sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Slysið hafi ekki orðið með þeim hætti sem réttargæslustefndi haldi fram í höfnun sinni og því sé ekki hægt að rekja slysið til eigin sakar hans að neinu leyti.

Í áliti úrskurðarnefndar í vátryggingamálum komi fram að gögn málsins séu takmörkuð. Stefnandi hafni því alfarið og bendi á að fyrir liggi nákvæmar lýsingar fjögurra vitna auk málsatvikalýsingar stefnanda þar sem tildrögum slyssins sé lýst. Óumdeilt sé að stiginn sem gaf sig hafi verið í eigu stefnda og verið meðal þess búnaðar sem leigður hafi verið B, ásamt aðstöðunni í Vatnaskógi. Stiginn og ástand hans hafi verið á ábyrgð stefnda og því telji stefnandi að skaðabótaábyrgð stefnda sé fyrir hendi vegna þess líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir í slysinu.

c) Um ábyrgð stefnda á stiganum samkvæmt lögum og reglum

Í 1. mgr. 2. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 sé mælt fyrir um að þau lög gildi um alla starfsemi, þar sem einn eða fleiri menn vinni, hvort sem um sé að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn. Undantekningar sem gerðar séu á gildissviði laganna eigi ekki við í máli þessu og teljist sá staður, þar sem stefnandi slasaðist, vinnustaður hans í skilningi 41. gr. laganna. Meginregla 13. gr. laganna mæli fyrir um, að það sé atvinnurekandi sem skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, við framkvæmd vinnu og að vélar og tækjabúnaður uppfylli þá kröfu.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja beri atvinnurekanda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum sé ætlað að nota innan fyrirtækisins hæfi verkinu sem inna skuli af hendi eða sé hæfilega lagað að verkinu, þannig að starfsmenn geti notað tækið án þess að öryggi þeirra eða heilsu sé hætta búin. Í 6. og 7. gr. reglugerðarinnar segi m.a. að atvinnurekanda beri að tryggja að notkun tækis sé með réttum hætti sem og að upplýsa starfsmenn sína um notkunarskilyrði tækja og reynslu sem fengist hafi við notkun hlutaðeigandi tækja. Þá segi í 4.2.1. gr. í II. viðauka við reglugerðina að stigar skuli vera þannig upp settir að þeir séu stöðugir við notkun.

Þótt lög nr. 46/1980 geri ráð fyrir því sem meginreglu að það sé atvinnurekandi, sem beri ábyrgð á því að fyrirmælum laganna og reglum sem settar séu samkvæmt þeim sé fylgt, leggi lögin einnig skyldur á aðra. Í 29. gr. laganna sé mælt fyrir um að sá sem selji, afhendi eða sýni meðal annars verkfæri, áhöld, tæki og annað það sem ætlað sé til notkunar við atvinnurekstur skuli tryggja að það, sem hér um ræði sé, þegar það sé sýnt eða afhent til notkunar, útbúið með tilskildum hlífðar- og öryggisbúnaði og notkun þess leiði ekki af sér slysa- eða sjúkdómshættu, sbr. VII. kafla laganna. Í 3. mgr. 29. gr. segi, að ef einhver búnaður, sem talinn sé upp í 1. mgr. greinarinnar og tilbúinn sé til notkunar, sé afhentur áfram, endurseldur, lánaður út eða leigður gildi þær reglur, sem að framan greini. Samkvæmt þessum reglum beri sá, sem láni eða leigi búnað til notkunar við atvinnurekstur einnig ábyrgð á því að búnaðurinn standist þær kröfur, sem gerðar séu í lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim.

Í leigusamningi sem stefndi hafi gert við B […] segi varðandi aðstöðu til leigu: „Vatnaskógur allur staðurinn með þeim tólum og tækjum sem hægt er að nota hverju sinni. Öll hús og gisting.“ Ljóst sé að stefndi hafi leigt út staðinn ásamt öllum þeim tækjum og tólum sem til staðar hafi verið. Stiginn sem stefndi hafi lánað til verksins, hafi ekki staðist lágmarks öryggiskröfur, enda hafi hann skyndilega gefið sig þegar stefnandi hafi staðið í stiganum í tæplega tveggja metra hæð. Hafi stefnda og/eða starfsmönnum hans borið að ganga úr skugga um að búnaður þessi væri ekki haldinn þeim ágöllum sem um ræði áður en hann hafi verið lánaður leigutaka. Brot stefnda á þessum reglum, sem honum hafi átt að vera kunnar, feli í sér saknæma og ólögmæta háttsemi af hans hálfu og beri hann skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem af því leiði. Orsök slyss stefnanda sé vanbúnaður stigans og því beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir þegar stiginn hafi gefið sig undan stefnanda.

Gera verði þá kröfu til leigusala, sem leigi aðstöðu líkt og í Vatnaskógi með öllum tækjum og tólum á staðnum, að sá búnaður sem standi leigutaka til boða sé öruggur og uppfylli lágmarkskröfur sem gera megi til tækja og aðbúnaðar á vinnustað. Af fyrirliggjandi myndum sé ljóst að svo hafi ekki verið enda sjáist glögglega af myndunum að ástand stigans hafi verið óviðunandi og notkun hans beinlínis hættuleg, líkt og slys stefnanda hafi sannað. Telji stefnandi ljóst að stefndi hafi vanrækt að viðhafa nauðsynlegt reglubundið eftirlit og viðhald með stiganum. Starfsmönnum stefnda hafi verið, eða hafi a.m.k. átt að vera, kunnugt um ástand stigans fyrir slysið en hafi þrátt fyrir það ekki hlutast til um að stiginn yrði tekin úr notkun, heldur beinlínis bent starfsmönnum B á að nota stigann.

Stefnandi byggi enn fremur á því að stefndi hafi ekki hlutast til um að framkvæmd yrði rannsókn á nefndum stiga og aðstæðum á vettvangi og á þann hátt leitað orsaka tjónsatburðar. Þannig hafi Vinnueftirlit ríkisins ekki verið kallað til eftir tjónsatburð né heldur hafi lögreglan verið kvödd á slysstað. Byggi stefnandi á því að stefndi beri hallann af því að slík rannsókn hafi ekki farið fram og að ekki hafi verið leitast við að upplýsa um tjónsorsakir að öðru leyti.

Um líkamstjón og lögvarða hagsmuni stefnanda

Málshöfðun og kröfugerð byggi á heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en stefnandi hafi mikla hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist og efni kröfu hans á hendur stefnda. Stefnandi telji sýnt fram á lögvarða hagsmuni hans af málshöfðuninni með matsgerð C bæklunarlæknis sem metið hafi varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda vegna slyssins 7%, sem og með vísan til allra þeirra læknisfræðilegu gagna sem legið hafi til grundvallar matinu.

Á því sé byggt að stefndi beri fulla skaðabótaábyrgð á því líkamstjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir í slysinu þann 6. febrúar 2011 og beri að bæta stefnanda það tjón sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 bæði vegna tímabundinna og varanlegra afleiðinga slyssins, sbr. einnig I. kafla laganna.

Tilvísanir til lagaákvæða

Um bótaábyrgð vísi stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar svo og til almennu sakarreglunnar. Þá vísi stefnandi til meginreglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda vegna skaðaverka sem rekja megi til ásetnings eða gáleysis og/eða vanrækslu starfsmanna og til reglu um nafnlaus mistök starfsmanna. Stefnandi vísi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem og þeirra reglna og reglugerða sem settar hafi verið á grundvelli laganna, einkum reglna um notkun tækja nr. 367/2006. Stefnandi vísi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum. Um málshöfðun stefnanda sé vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls. Um aðild og fyrirsvar stefnda sé vísað til III. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði 16. og 17. gr. laganna. Aðild réttargæslustefnda byggist á 21. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um varnarþing vísist til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 3. mgr. 42. gr. Varðandi málskostnað vísi stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmæli því ekki að stefnandi eigi rétt á því á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að fá skorið úr um tilvist og efni kröfu sinnar, en mótmæli að öðru leyti öllum málsástæðum stefnanda.

Aðalkrafa um sýknu

Sönnunarbyrði um saknæmi, tjón og orsakir tjóns hvíli á stefnanda. Ósannað sé að slysið sé að rekja til atvika á ábyrgð stefnda. Fyrir það fyrsta sé ósannað að tjónið sé að rekja til vanbúnaðar álstigans sem stefnandi hafi kosið að nota í umrætt sinn og í annan stað sé algjörlega ósannað, ef stiginn hafi á einhvern hátt verið vanbúinn er stefnandi kaus að nota hann, að sá vanbúnaður hafi verið á ábyrgð stefnda.

Stefndi mótmæli sérstaklega sem ósannaðri þeirri skýringu stefnanda að stiginn hafi fyrirvaralaust án nokkurs höggs eða utanaðkomandi atvika gefið sig. Það liggi fyrir af myndum af undirbúningi mótsins að stiginn hafi verið í góðu ásigkomulagi á fimmtudagskvöldi þegar fólk á vegum B hafi byrjað að nota hann og það liggi einnig fyrir að við undirbúning mótsins hafi stiginn verið notaður mikið og með óábyrgum hætti. Stefndi telji allar líkur á því að stiginn hafi annaðhvort orðið fyrir hnjaski þegar stefnandi hafi notað hann eða að stiginn hafi orðið fyrir hnjaski fyrr um helgina þegar hann hafi verið notaður á viðsjárverðan og stórkostlega gálausan hátt af stefnanda og félögum hans við undirbúning […] mótsins.

Stefndi telji að slys stefnanda sé fyrst og fremst að rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs og/eða óhappatilviljunar. Því fylgi ávallt ákveðin hætta að vinna í stiga. Því séu það eðlileg vinnubrögð þegar unnið sé hátt uppi í stiga að fá einhvern til að halda í stigann. Þá hefði stefnandi átt að tryggja að hann hefði trygga handfestu og að stiginn væri stöðugur en hann hafi hvorugt gert.

Stefndi mótmæli sérstaklega þeirri málsástæðu stefnanda að stiginn hafi verið ónýtur þegar fólk á vegum B hafi komið á staðinn og að það hafi átt að henda honum. Stiginn hafi verið keyptur í búsáhaldaverslun á Íslandi og uppfyllt öll þau skilyrði sem gerð séu um stiga af þessu tagi lögum samkvæmt.

Bótakrafa stefnanda byggi á sakarreglunni og til þess að bótaskylda sé til staðar þurfi stefnandi að sanna saknæma háttsemi stefnda eða starfsmanna hans. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á gáleysi stefnda hvað viðkomi aðbúnaði eða ástandi hins leigða. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á saknæma háttsemi af hálfu starfsmanna stefnda.

Stiginn hafi verið notaður mikið af sjálfboðaliðum B á fimmtudeginum án þess að nokkrar athugasemdir hefðu verið gerðar við ástand hans. Það liggi því ljóst fyrir að stiginn hafi verið í góðu ástandi þegar B hafi tekið við hinu leigða. Þá liggi fyrir á ljósmyndum að stiginn hafi á fimmtudagskvöldi verið notaður með óforsvaranlegum og varhugaverðum hætti. Allar líkur bendi til þess að stiginn hafi orðið fyrir hnjaski við þá notkun eða þegar stefnandi hafi notað hann. Stefndi geti ekki borið skaðabótaábyrgð á því að stiginn hafi laskast í meðförum sjálfboðaliða B. Sé það talið sannað að stiginn hafi, er stefnandi hafi hafið notkun á honum, ekki borið nein merki þess að hafa áður orðið fyrir hnjaski og fætur stigans skyndilega og fyrirvaralaust gefið sig þá sé um óhappatilvik að ræða en ekki vanbúnað sem stefndi beri sakarábyrgð á.

Stefndi mótmæli harðlega tilvísunum stefnanda til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefnandi hafi ekki verið starfsmaður stefnda og stefndi ekki á nokkurn hátt verið atvinnurekandi stefnanda. Stefndi mótmæli því enn fremur að Vatnaskógur hafi verið vinnustaður stefnanda í skilningi 41. gr. laganna enda hafi stefnandi verið að koma sem sjálfboðaliði að Vatnaskógi vegna […] móts á vegum B en ekki vegna launaðra starfa sinna. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 46/1980 segi: Starfsmaður merkir í lögum þessum hvern þann, sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu. Nemar og lærlingar teljast einnig til starfsmanna, jafnvel þótt þeir inni af hendi vinnu án endurgjalds, enda sé vinna þeirra liður í skipulögðu námi. Það sé því alveg ljóst að sjálfboðavinna stefnanda í umrætt sinn falli ekki undir lög nr. 46/1980, hann hafi ekki verið starfsmaður og Vatnaskógur ekki vinnustaður hans.

Jafnvel þótt unnt væri að líta á sjálfboðavinnu stefnanda sem vinnu og Vatnaskóg sem vinnustað í skilningi laga nr. 46/1980 þá ætti það einungis við um samband stefnanda við B sem atvinnurekanda stefnda, sbr. t.d. tilkynningu um vinnuslys, en ekki stefnda sem ekki hafi átt í nokkru vinnusambandi við stefnanda.

Stefnandi vísi til 13. gr. laga nr. 46/1980 um að það sé „atvinnurekanda“ að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, við framkvæmd vinnu og að vélar og tækjabúnaður uppfylli þá kröfur. Stefndi hafi ekki verið atvinnurekandi stefnanda og sé því raunar ekki einu sinni haldið fram í stefnu. Einnig sé mótmælt tilvísun stefnanda til 29. gr. laga nr. 46/1980 enda sé alveg ljóst að stefndi hafi ekki verið að selja, afhenda eða sýna vél, vélarhluta, geyma, ílát, katla, húseiningar, verkfæri, áhöld, eða annað það sem ætlað hafi verið til notkunar við atvinnurekstur. Því sé harðlega mótmælt að stefndi hafi leigt stigann út til notkunar við atvinnurekstur. Sannleikurinn sé einfaldlega sá að B hafi leigt húsnæðið í Vatnaskógi gegn hóflegri greiðslu og fengið afnot af húsnæðinu og þeim venjubundna húsbúnaði sem því hafi fylgt, þ. á m. álstiga. Álstiginn hafi verið hefðbundinn um tveggja metra álstigi og hafi verið í fínu ástandi þegar fólk á vegum B hafi komið á staðinn á fimmtudegi, svo sem sjá megi af myndum.

Mótmælt sé tilvísun stefnanda til 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Í öllum þeim greinum sem stefnandi vísi til sé verið að vísa til þeirra skyldna sem á atvinnurekanda hvíli. Ekkert starfssamband hafi verið á milli stefnanda og stefnda. Stefndi hafi ekkert boðvald haft yfir stefnanda og hafi með engu móti getað fyrirskipað hvernig tiltekin verk skyldu unnin. Starfsmaður stefnda hefði þegar gert stefnanda og öðrum sjálfboðaliðum á vegum B grein fyrir því að réttast væri að vinna verkið með vinnulyftu. Þrátt fyrir það hafi sjálfboðaliðar kosið að fylgja ekki þeim ráðleggingum starfsmanns stefnda og beri stefndi enga ábyrgð á þeirri ákvörðun sjálfboðaliðanna. Jafnvel þótt reglugerð nr. 367/2006 gilti þá hafi stefndi ekki gerst brotlegur við hana, enda hafi stiginn uppfyllt öll skilyrði laga.

Loks mótmæli stefndi því að á honum hafi hvílt skylda til að kalla til lögreglu eða Vinnueftirlit. Hér hafi ekki verið um vinnuslys á ábyrgð stefnda að ræða í skilningi laga nr. 46/1980 og því engin tilkynningarskylda hvílt á stefnda. Stefndi hafi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að upplýsa um tildrög slyssins.

Varakrafa

Stefndi krefjist þess til vara að hann verði einungis dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins. Telji dómstóllinn að stefnandi hafi fært sönnur fyrir saknæmi stefnda og því að bótaskylda samkvæmt almennri sakarreglu sé fyrir hendi þá krefjist stefndi þess að einungis verði viðurkenndur að hluta réttur stefnanda til skaðabóta vegna eigin aðgæsluleysis stefnanda.

Stefnandi hafi í umrætt sinn farið upp í efsta þrep frístandandi álstiga eða í um 2 metra hæð. Stiginn hafi ekki verið festur við neitt né fætur hans skorðaðir. Þá fékk stefnandi engan til að halda fyrir sig við stigann. Stefnandi hafi í umrætt sinn verið að rífa stórt plakat af vegg og hafi til þess þurft að nota hendurnar við að rykkja í plakatið. Stefnandi hafi ekki verið með örugga handfestu við athafnir sínar. Það sé almenn vitneskja að vinna í stigum sé varasöm og því beri að gæta fyllstu varkárni við notkun þeirra. Engar reglur, hversu ítarlegar sem þær væru, gætu komið í veg fyrir fall úr stiga sýni sá sem í honum stendur sjálfur ekki tilhlýðilega aðgæslu. Stefnandi verði því a.m.k. að bera stærstan hluta tjóns síns sjálfur.

Um lagarök vísi stefndi til meginreglna skaðabótaréttar einkum um sönnunarbyrði, saknæmi og orsakartengsl. Þá sé vísað til skaðabótalagalaga nr. 50/1993 og laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og vátryggingaskilmála. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um bótaskyldu vegna líkamstjóns stefnanda, sem rakið verður til þess að hann féll á gólf í íþróttahúsinu í Vatnaskógi 6. febrúar 2011. Ágreiningslaust er að stefnandi hlaut meiðsl við fallið og að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dæmt um viðurkenningarkröfu sína um bótaábyrgð stefnda, sem var eigandi stigans sem stefnandi féll úr þegar hann meiddist.

Umræddur álstigi stendur við notkun á stigakjálkum og stuðningsfótum. Sjö stigaþrep og pallur eru milli kjálkanna sem ganga áfram upp og tengjast efst með láréttri brík. Stuðningsfætur stigans eru tengdir við kjálkana rétt ofan við pallinn, sem fellur í lárétta stöðu við notkun þegar stuðningsfætur eru spenntir út, en þeir eru sýnu veigaminni en kjálkar stigans og grennri. Stiginn er þannig ósköp venjulegur stigi úr byggingavöruverslun og ekki af dýrustu tegund samkvæmt framburði starfsmanns stefnda, D. Fyrir liggur fjöldi ljósmynda sem sýna að stiginn var í notkun við undirbúning mótsins, ekki aðeins uppi á upphækkun á gólfi eða uppi á sviði til að ná til lofts, heldur var hann þá einnig notaður til þess að ná til þess að byrgja glugga hátt á vegg og stóð stiginn þá á gólfi salarins við vegg þannig að sá sem gekk upp tröppurnar sneri hlið að veggnum og gat haft stuðning af honum.

Engar ljósmyndir eru í gögnum málsins af því hvernig stefnandi bar sig að þegar hann notaði stigann eða af því hvort stuðningsfótum stigans hafi verið komið þannig fyrir að stiginn væri stöðugur áður en stefnandi steig upp í hann til þess að taka niður veggspjald sem límt var á vegg við frágang eftir mótið. Stefnandi lýsir atvikum svo að hann hafi verið með stigann á gólfi við vegg, hann hafi staðið í öðru eða þriðja þrepi ofan frá, stutt hné við pallinn og veggurinn hafi verið við hlið hans. Hann hafi verið að losa varlega límband neðan til af veggspjaldinu þegar hann hafi skyndilega byrjað að falla niður við það að undirstaðan var að gefa sig og hafi hann fallið í gólfið. Fyrir liggja ljósmyndir af stiganum sem teknar voru eftir slysið og á þeim sést að annar stuðningsfótur stigans hefur bognað undir sig um það bil á móts við fjórðu tröppu stigans. Samkvæmt framburði vitna féll stiginn saman og stefnandi féll í gólfið.

Stefnandi kvaðst í skýrslu sinni fyrir dóminum hafa skoðað stigann fyrir notkun hans í upphafi og ekki hafi verið á honum að sjá dældir né hafi gallar verið sýnilegir. Stefnandi bar einnig að stiginn hefði ekki orðið fyrir neinu hnjaski við undirbúning mótsins. Ekki verða greindir sýnilegir vankantar á stiganum á þeim ljósmyndum sem teknar voru þá. Samkvæmt framburði vitna sást ekkert á stiganum og ekkert hafi, svo vitað væri, komið fyrir hann við notkun, en auk töluverðrar notkunar við undirbúning sem ljósmyndir sýna mun stiginn hafa verið notaður eitthvað við frágang áður en slysið varð. Stefnandi bar fyrir dóminum að stiginn hljóti að hafa verið gallaður og ótrúlegt væri að hann hefði ekki gefið sig fyrr.

Það var E, framkvæmdastjóri Skógarmanna KFUM í Vatnaskógi, sem tók á móti hópnum og benti stefnanda á umræddan stiga þar sem hann var á hillu í geymslu í íþróttahúsinu. Bar hann fyrir dóminum að hann hafi enga vitneskju haft um gæði stigans, hann hafi bent á fleiri áhöld í hillunum sem stefnanda og félögum hans væri heimilt að nota að vild. Hann var staddur í Vatnaskógi til þess að sinna fermingarbörnum og fór með hópinn heim á föstudeginum. Hann var því farinn af staðnum þegar slysið varð. Stiginn sætti ekki sérstakri athugun fagaðila eftir slysið og er ekkert upplýst í málinu um galla á honum. Fyrir liggur að stefnandi var ekki starfsmaður stefnda þegar slysið varð, heldur var hann að störfum fyrir B í húsnæði sem B hafði til umráða samkvæmt leigusamningi við stefnda. Ekki verður fallist á það með stefnanda að stefndi þurfi að bera hallann af sönnunarskorti sem stafi af því ekki hafi verið tilkynnt um vinnuslysið til Vinnueftirlits eða lögreglu.

Stefnandi hefur það eftir F, sem flutti varning á mótið fyrir B og tók ljósmyndir af stiganum eftir slysið, að starfsmaður stefnda hafi sagt við hann eftir slysið að þessi stigi væri ónýtur og það hefði átt að vera búið að henda honum fyrir löngu. Stefnandi kvaðst fyrir dóminum hafa talið að F ætti þar við starfsmanninn D sem var á staðnum við frágang, en einnig hefði hann heyrt að það gæti hafa verið verið E sem hefði sagt þetta um stigann. Bæði E og D komu fyrir dóminn og kannaðist hvorugur þeirra við þessi orð eða að hafa haft sérstaka vitneskju um ástand stigans. E var farinn úr Vatnaskógi þegar slysið varð en D var þá starfsmaður stefnda á staðnum. F sem býr í Noregi gaf vitnisburð fyrir dóminum í síma. Hann lýsti þeim manni sem hann kvaðst hafa þessi ummæli eftir sem eldri manni, sem hann myndi ekki nafnið á, sem verið hafi þarna við vinnu og sem fjarlægt hafi stigann. D bar fyrir dóminum að hann myndi ekki eftir því hver hafi fjarlægt stigann eða fargað honum. Lýsing F á viðmælanda sínum getur ekki átt við D, sem fæddur er árið 1989, en auk þess nafngreindi vitnið D í framburði sínum um samtal við hann „seinna meir“ um tækjabúnað í Vatnaskógi. Sönnur hafa ekki verið færðar að því að starfsmaður stefnda hafi látið þau orð falla í kjölfar slyssins að stiginn sem stefnandi notaði væri ónýtur og það hefði átt að vera búið að henda honum, en ekki hafa komið fram upplýsingar um að aðrir starfsmenn stefnda en D hafi verið á staðnum þegar slysið varð. Ósannað er því að nokkur starfsmanna stefnda hafi talið að stiginn væri ónýtur eða hafi haft ástæðu til að ætla að stiginn gæti verið hættulegur við venjulega notkun.

Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar verður sá sem krefst skaðabóta að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni, auk þess sem hann ber sönnunarbyrðina fyrir því hver atvikin að baki tjóninu voru. Þá ber honum að sanna að orsakatengsl séu milli tjóns hans og atvika. Sönnunarbyrðin hvílir á tjónþola og verður ekki vikið frá þessari almennu reglu nema í undantekningartilvikum. Í málinu verður stefnandi auk þess að bera sönnunarbyrði fyrir því að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi eða starfsmenn hans beri skaðabótaábyrgð á að lögum.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að slysið verði rakið til vanbúnaðar stigans og beri stefndi skaðabótaábyrgð á tjóni sem af þeim vanbúnaði hafi hlotist með því að það sé að rekja til ásetnings, gáleysis eða vanrækslu starfsmanna stefnda á skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ásamt reglum og reglugerðum sem settar hafi verið á grundvelli laganna, einkum reglugerð um notkun tækja nr. 367/2006. Stefnandi vísar til þess að í 3. mgr. 29. gr. laganna felist að sá sem láni eða leigi verkfæri, áhöld, tæki og annað það sem ætlað sé til notkunar við atvinnurekstur beri einnig ábyrgð á því að búnaðurinn standist þær kröfur, sem gerðar séu í lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. 29. gr. laganna segir að nauðsynlegar og auðskildar leiðbeiningar á íslensku um meðferð, viðhald, flutning, uppsetningu og frágang skuli fylgja með, þegar viðkomandi hlutir eru afhentir. Byggir stefnandi á því að stiginn hafi ekki staðist öryggiskröfur og á því að starfsmönnum stefnda hafi borið að ganga úr skugga um að búnaðurinn væri ekki haldinn ágöllum áður en hann var afhentur leigutaka. Fær þessi málsástæða um ábyrgð á hinu leigða nokkra stoð í dómaframkvæmd, m.a. dómi Hæstaréttar í málinu nr. 265/2005, þótt samkomuhald B geti vart talist hefðbundinn atvinnurekstur.

Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið um gerð og notkun stigans verður ekki séð að starfsmenn stefnda hefðu getað veitt eða hefðu átt að veita stefnanda og félögum hans sérstakar leiðbeiningar um meðferð stigans. Í reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja og viðauka II við hana um notkun stiga, sem stefnandi vísar til, eru lagðar skyldur á atvinnurekanda til þess að upplýsa starfsmenn sína um tækjanotkun, m.a. um að færanlegir stigar skuli hvíla á föstu undirlagi, komið skuli í veg fyrir að þeir renni til við notkun og að þeir geti hreyfst áður en stigið sé í þá og að stigar skuli notaðir þannig að starfsmenn geti jafnan verið stöðugir og haft trygga handfestu. Þessar skyldur hvíldu ekki á stefnda sem hvorki var vinnuveitandi stefnanda né hafði verkstjórn á staðnum með höndum. Stefnandi stjórnaði sjálfur framkvæmdum við undirbúning mótsins en G, leiðtogi hjá B, stjórnaði framkvæmdum við fráganginn samkvæmt framburði stefnanda. Þá bar stefnanda að fara við störf sín að leiðbeiningum um vinnuvernd, nr. 1/1991, sem stefnandi hefur einnig vísað til, en þar kemur fram að þegar valin sé trappa fyrir ákveðin störf þurfi að athuga að hún henti vel því verki sem vinna eigi.

Ekki verður fallist á það með stefnanda að orsök slyssins verði rakin til þess að stefndi hafi vanrækt að viðhafa nauðsynlegt reglubundið eftirlit og viðhald á stiganum. Af því sem upplýst er um sýnilegt ástand stigans við afhendingu, m.a. með framburði stefnanda um skoðun hans sjálfs á stiganum við upphaf notkunar, eru engar líkur á því að ágallar hefðu fundist við skoðun starfsmanna stefnda á stiganum í reglubundnu eftirliti. Þá getur stefndi ekki borið ábyrgð á því ef ástand stigans var annað þegar slysið varð aðfararnótt sunnudags, en það var þegar stefnanda var heimiluð notkun hans á fimmtudagskvöldi, en stefnandi tók þá við umráðum stigans og hafði með höndum verkstjórn við notkun hans.

Stefnanda hefur samkvæmt öllu því sem að framan er rakið ekki tekist að sýna fram á að orsök þess að hann féll úr stiganum hafi verið vanræksla eða önnur saknæm háttsemi starfsmanna stefnda eða vanbúnaður umrædds stiga, sem stefndi beri ábyrgð á. Verður samkvæmt því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Í samræmi við þá niðurstöðu málsins, og með vísun til 1. mgr. 130 gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 400.000 krónur.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og verður allur gjafsóknarkostnaður hans því greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans sem ákveðin er 810.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Dóminn kvað upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, KFUM og KFUK á Íslandi, er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 810.000 krónur þar með talinn virðisaukaskattur.