Hæstiréttur íslands

Mál nr. 28/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Erfðaskrá
  • Arfleiðsluhæfi
  • Arfleiðsluvottorð


Mánudaginn 17. febrúar 2014.

Nr. 28/2014.

A

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

B

(Brynjar Níelsson hrl.)

Kærumál. Erfðaskrá. Arfleiðsluhæfi. Arfleiðsluvottorð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kveðið var á um að sameiginleg erfðaskrá C og D skyldi lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi D. Ekki var fallist á kröfu A um ógildi erfðaskrárinnar sökum þess að C hefði ekki verið heil heilsu andlega vegna heilabilunarsjúkdóms er erfðaskráin var gerð og D sökum elliglapa og krankleika ekki verið fær um að ráðstafa eigum sínum með þeim hætti er í erfðaskránni greindi. Þá var hafnað kröfu A um ómerkingu hins kærða úrskurðar. Af úrskurðinum yrði glögglega ráðið að sérfróðir meðdómsmenn hafi yfirfarið matsgerðina í krafti sérþekkingar sinnar í geð- og öldrunarlæknisfræðum og komist að annarri niðurstöðu en dómkvaddur matsmaður um hæfi C til að ráðstafa eigum sínum með erfðaskrá. Ekki yrði af honum ráðið að dómarar málsins hafi endurskoðað mat dómkvadds matsmanns á grundvelli eigin álits á gögnum sem ekki höfðu verið lögð fyrir dóminn. Þá var vottun erfðaskrárinnar talin hafa verið í samræmi við 1. mgr. 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilda sameiginlega erfðaskrá C og D, 13. september 2002 og slegið föstu að erfðaskrá þeirra skuli lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi D. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst aðallega ómerkingar hins kærða úrskurðar og þess að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og úrskurðar að nýju. Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind erfðaskrá ógilt. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði.

Kröfu sína um ómerkingu úrskurðar héraðsdóms reisir sóknaraðili á því að gögn þau sem legið hafi til grundvallar niðurstöðu hins kærða úrskurðar, þ.e. svokallað MMSE próf, taugasálfræðilegt próf og sjúkraskrá hafi ekki verið lögð fram í málinu. Yrði því ekki annað ráðið en að dómarar málsins hafi kosið að endurskoða mat dómkvadds manns á grundvelli eigin álits á gögnum sem þeir hafi aldrei séð.

Í matsgerð dómkvadds manns, Pálma V. Jónssonar yfirlæknis öldrunarlækningadeildar Landspítala, er greint frá því að niðurstaða hans um andlegt hæfi C í september 2002 sé reist á sjúkraskrá hennar. Í matsgerðinni eru þeir þættir sjúkraskrárinnar raktir sem niðurstaðan byggist á, svo sem tilgreining á því að hún hafi komið á móttöku öldrunarlækningadeildar Landspítala á Landakoti 7. nóvember 2001, niðurstöður MMSE prófs, upplýsingar frá aðilum sem tengdir voru C, niðurstöður taugasálfræðilegs prófs, upplýsingar um lyfjagjöf hennar vegna Alzheimer sjúkdóms og upplýsingar um hvernig veikindi hennar hafi þróast frá því að heilabilun hennar var fyrst greind.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var héraðsdómur skipaður tveimur sérfróðum meðdómendum, annars vegar geðlækni og hins vegar öldrunarlækni. Af úrskurðinum verður glögglega ráðið að niðurstaða hans byggðist á því að hinir sérfróðu meðdómendur yfirfóru matsgerðina í krafti sérþekkingar sinnar í geð- og öldrunarlæknisfræðum og komust að annarri niðurstöðu en hinn dómkvaddi matsmaður. Ekki verður af úrskurðinum ráðið að þeir hafi endurskoðað mat dómkvadds manns á grundvelli eigin álits á gögnum sem ekki höfðu verið lögð fyrir dóminn. Verður því aðalkröfu sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar hafnað.

Varakröfu sína styður sóknaraðili meðal annars við að vottun erfðaskrárinnar hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962, þar sem segir að arfleiðsluvottar skuli geta þess í vottorði að arfleifandi hafi kvatt þá til að votta arfleiðslu sína, og hafi hann ritað undir erfðaskrá eða kannast við undirritun sína að þeim báðum viðstöddum. Fyrir héraðsdómi bar G hæstaréttarlögmaður um þessi atriði að erfðaskráin hefði verið færð í letur á lögmannsstofu sinni. Hann hafi kallað til tvo votta af skrifstofu sinni til þess að vera viðstaddir þegar arfleifendur hafi lýst því yfir að erfðaskráin hefði vilja sinn að geyma og undirritað hana síðan. Hann hafi ritað á erfðaskrána ásamt hinum tilkvöddu vottum. Vottarnir hafi þekkt arfleifendur þar sem þau hafi oft komið á skrifstofu lögmannsins. Verður af framansögðu ráðið að vottun erfðaskrárinnar var í samræmi við 1. mgr. 42. gr. erfðalaga. Að þessu gættu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest með vísan til forsendna hans.

Verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2013.

Þetta mál var þingfest 16. mars 2012 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 13. nóvember sl.

Sóknaraðili er A, [...], [...] en varnaraðili er B, [...], [...].

      Sóknaraðili krefst þess að erfðaskrá C og D, dagsett 13. september 2002, verði úrskurðuð ógild og ekki lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi D. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

      Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að erfðaskrá C og D, dagsett 13. september 2002, verði lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi D. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málavextir

C, kt. [...] og D, kt. [...] voru í hjúskap um langt árabil. Málsaðilar eru synir og einu lögerfingjar þeirra hjóna. C lést [...] 2007 og fékk D leyfi til setu í óskiptu búi eftir hana. D lést [...] 2009. Málsaðilar sóttu [...] 2009 um leyfi til einkaskipta á dánarbúi D til sýslumannsins í Reykjavík og var leyfið veitt [...] 2009. Þeir náðu ekki að ljúka skiptum innan þess frests sem sýslumaður hafði veitt þeim. Með bréfi dagsettu [...] 2011 felldi sýslumaður leyfið niður. Að kröfu sýslumanns var dánarbú D tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2011.

C og D gerðu erfðaskrá sem hljóðar svo:

Við undirrituð hjón, C, kt. [...], og D, kt. [...], [...], [...], sem eigum skylduerfingja, gerum hér með svofellda erfðaskrá.

1.       Það okkar sem lifir hitt skal hafa heimild til að sitja í óskiptu búi svo lengi sem það kýs.

2.       Þegar skipti eftir okkur fara fram, skal sonur okkar, B, erfa svo mikið af eignum hvors okkar um sig sem lög frekast heimila (nú 1/3 hluti auk skylduarfs). Falli B frá á undan öðru hvoru okkar gilda staðgöngureglur erfðalaga um bréfarf þennan eins og um lögarf.

Erfðaskráin er dagsett 13. september 2002 og undirrituð af þeim hjónum. Erfðaskráin er vottuð af þremur arfleiðsluvottum sem rita nafn sitt og kennitölu: E, kt. [...], F, kt. [...] og G hrl., kt. [...]. Arfleiðsluvottorð þeirra er dagsett sama dag og er svohljóðandi:

Ár 2002, föstudaginn 13. september kl. 14:00 komu ofanrituð hjón, C og D, [...], [...], í skrifstofu [...]. að [...], Reykjavík. Var erfðaskrá þessi þá lögð fram, en hún var færð í letur hér á skrifstofunni samkvæmt fyrirsögn hjónanna. Hjónin lásu erfðaskrána yfir að okkur báðum viðstöddum, lýstu því yfir að skráin hefði vilja þeirra að geyma og undirrituðu hana. Sérstaklega var gengið úr skugga um að D gerði sér grein fyrir þýðingu erfðaskrárinnar, en hann talar takmarkaða íslensku en skilur tungumálið þokkalega. Hjónin voru hér í þessum tilgangi af fúsum og frjálsum vilja, heil heilsu, alls gáð og andlega hæf til að gera erfðaskrá.

Á skiptafundi sem haldinn var 28. júní 2011 lýsti sóknaraðili því yfir að hann bæri brigður á gildi erfðaskrárinnar þar sem C og D hefðu ekki verið hæf til að gera erfðaskrá. Lögmaður varnaraðila mótmælti þessu. Á skiptafundum 3. nóvember 2011 og 15. febrúar 2012 upplýstu lögmenn málsaðila að enn væri ágreiningur um gildi erfðaskrárinnar. Með bréfi dagsettu 20. febrúar 2012 og mótteknu 21. febrúar sl. vísaði skiptastjóri ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Að beiðni sóknaraðila var Pálmi V. Jónsson öldrunarlæknir dómkvaddur sem matsmaður undir rekstri málsins til að leggja mat á það, hvenær C hefði greinst með Alzheimer-sjúkdóm, hvort hún hafi verið haldin öðrum sjúkdómi en Alzheimer sem hafi haft áhrif á andlega heilsu hennar eða hæfi, hvernig veikindi hennar hafi þróast frá því að heilabilun hennar var fyrst greind og hvort hún hafi verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að ráðstafa eigum sínum með erfðaskrá á skynsamlegan hátt 13. september 2002. Varðandi D var óskað mats á því hvort D hefði verið haldinn heilabilunarsjúkdómi við gerð erfðaskrárinnar 13. september 2002, hvort hann hafi verið haldinn elliglöpum við gerð erfðaskrárinnar þann dag og hvort hann hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fær um að ráðstafa eigum sínum með erfðaskrá á skynsamlegan hátt þann dag.

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að C hafi verið ófær um að gera umrædda erfðaskrá vegna andlegra annmarka. Hún hafi greinst með Alzheimer-sjúkdóm nokkru fyrir aldamót og hefði hann ágerst mjög. Vegna heilabilunar hafi hún almennt verið illa áttuð á þeim tíma er erfðaskráin var gerð, þ. á m. á stað og stund, og hafi svo verið svo árum skipti. Hún hafi af þessum sökum dvalið á heimili fyrir heilabilaða til dánardags, fyrst í dagvistun í [...] en síðar í sólarhringsvistun á hjúkrunarheimilinu [...]. Þá hafi hún í engu verið fær um að ráðstafa eigum sínum eða skilja eðli umræddrar erfðaskrár eða gera sér grein fyrir þýðingu hennar.

C hafi alla tíð verið mjög háð og undirgefin D og hafi búið við mikið ofríki hans. Hún hafi alla tíð verið honum mjög háð, einkum eftir að hún veiktist undir lok 20. aldarinnar og heilabilun hennar ágerðist. Sóknaraðili telji fjarri að C hafi viljað svipta hann arfi með þeim hætti sem gert sé í umræddri erfðaskrá.

Sóknaraðili telur að í september 2002 hafi andlegu hæfi C verið orðið svo áfátt sökum Alzheimer-sjúkdómsins að hún hafi ekki verið það heil heilsu andlega, að hún væri fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Erfðaskráin verði því ekki lögð til grundvallar skiptum, sbr. 1. mgr. 45. gr. sömu laga.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að D hafi vegna elliglapa og krankleika ekki verið andlega fær um að ráðstafa eigum sínum með þeim hætti sem greinir í umræddri erfðaskrá. Þá hafi hann alla tíð verið illa talandi og skrifandi á íslensku og skilið lítið í tungumálinu, hvort heldur sem er munnlegt eða skriflegt mál, og verið illa að sér um íslenskar lagareglur. D hafi því ekki gert sér grein fyrir þýðingu erfðaskrárinnar og þeirra ráðstafana sem hún mæli fyrir um. Sérstök ástæða hefði verið til að lesa erfðaskrána skilmerkilega fyrir honum, sbr. 2. mgr. 40. gr. erfðalaga. Sóknaraðili fullyrðir að D hafi því ekki heldur verið svo heill heilsu andlega, að hann væri fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga.

Sóknaraðili telur í þriðja lagi að varnaraðili og eiginkona hans hafi misnotað sér framangreinda annmarka C og D, þar með talin bágindi, einfeldni og fákunnáttu á sviði erfðamála, svo og að þau voru bæði tvö háð varnaraðila og eiginkonu hans, sbr. til hliðsjónar 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Varnaraðili og eiginkona hans hafi hlutast til um gerð erfðaskrárinnar með því efni sem í henni greinir og komið því til leiðar að C og D hafi verið færð á lögmannsstofu þar sem þau hafi ritað undir erfðaskrána. Þetta leiði jafnframt til ógildingar erfðaskrárinnar, sbr. 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 45. gr. erfðalaga.

Í fjórða lagi heldur sóknaraðili því fram að slíkir annmarkar séu á arfleiðsluvottorði að erfðaskráin verði ekki lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi D. Hver einasti annmarki leiði til þess að taka verði kröfur sóknaraðila til greina. Í fyrsta lagi sé þess ekki getið í vottorðinu að arfleifendur hafi kvatt arfleiðsluvotta til að votta arfleiðslu sína, eins og áskilið sé í 1. mgr. 42. gr. erfðalaga. Þess sé eingöngu getið að arfleifendur hafi komið á tiltekna lögmannsstofu. Sóknaraðili byggir á því að taka þurfi sérstaklega fram í arfleiðsluvottorði að viðkomandi vottar hafi verið kvaddir til af arfleifendum til að votta arfleiðsluna.

Í öðru lagi komi ekki fram í erfðaskránni að arfleifendur hafi undirritað erfðaskrána eða kannist við undirritun sína fyrir arfleiðsluvottum, sbr. 1. mgr. 40. gr. og 1. málslið 1. mgr. 42. gr. erfðalaga. Í arfleiðsluvottorði þriggja arfleiðsluvotta komi fram að C og D hafi lesið erfðaskrána yfir ,,að okkur báðum viðstöddum“. Þess sé síðan getið að þau hafi lýst því yfir að erfðaskráin hefði að geyma vilja þeirra og þau undirritað hana. Ekki verði ráðið af vottorðinu hvort og þá hverjir arfleiðsluvotta voru viðstaddir undirritun erfðaskrárinnar. Því verði að miða við það að C og D hafi ekki undirritað eða kannast við undirritun sína á erfðaskránni fyrir tilskildum fjölda arfleiðsluvotta.

Í þriðja lagi komi ekki fram í arfleiðsluvottorði að arfleiðsluvottum sé kunnugt um að hinn vottfesti gerningur sé erfðaskrá, sbr. 2. málslið 1. mgr. 42. gr. erfðalaga. Ekki nægi að arfleiðsluvottorð sé ritað á erfðaskrána sjálfa og að í því komi orðið erfðaskrá alloft fyrir. Sérstaklega sé áskilið í ákvæðinu að fram komi í arfleiðsluvottorði að vottunum sé kunnugt um að um erfðaskrá sé að ræða.

Í fjórða lagi sé ekki getið um heimilisföng arfleiðsluvotta í arfleiðsluvottorði, þrátt fyrir að 2. málsliður 3. mgr. 42. gr. erfðalaga kveði á um skyldu arfleiðsluvotta til að greina heimilisföng sín.

Sóknaraðili vísar til ákvæða erfðalaga nr. 8/1962, einkum 1. tl. 1. gr., 1. mgr. 2. gr., 34. gr., 37. gr., 40. gr., 42. gr., 45. gr. og 47. gr. Jafnframt vísar sóknaraðili til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum XVI. og XVII. kafla. Málskostnaðarkrafa sóknaraðila byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991. Krafa um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili mótmælir því að C hafi verið ófær um að gera umrædda erfðaskrá sakir andlegra annmarka af völdum Alzheimer-sjúkdóms. Varnaraðili kveður að C hafi unnið við bókhaldsstörf í [...] allt árið 2002 og fram á árið 2003. Á árinu 2003 hafi verið farið að örla á glöpum hjá henni, en hún hafi þó skilið hvað hún væri að gera. Alzheimer-sjúkdómur C hafi ágerst mjög árin 2005 til 2007 og hún hafi verið nokkuð illa haldin af honum síðustu tvö æviárin. Engin gögn bendi til þess að veikindi hennar hafi verið með þeim hætti árið 2002 að hún hafi ekki skilið þýðingu erfðaskrárinnar.

Varnaraðili andmælir því einnig að yfirgangur og stjórnsemi D hafi valdið því að C hafi ritað undir umrædda erfðaskrá gegn vilja sínum. Ótal ástæður séu fyrir því að C og D hafi gert umrædda erfðaskrá og vegi þar kannski þyngst að sóknaraðili hafi fengið talsvert fé frá þeim án endurgreiðslu auk ábyrgða þeirra á skuldbindingum sóknaraðila. Erfðaskráin hafi því fyrst og fremst verið gerð til að jafna hlut málsaðila.

Varnaraðili hafnar því að D hafi verið haldinn elliglöpum eða andlegum krankleika og kveður hann hafa haldið andlegri reisn til dánardags. Þótt D hafi verið lítt talandi og skrifandi á íslensku hafi hann skilið málið vel. Skýrt komi fram í arfleiðsluvottorði að gengið hafi verið úr skugga um að hann skildi efni erfðaskrárinnar. Einnig segi þar að erfðaskráin hafi verið færð í letur samkvæmt fyrirsögn C og D. Engin ástæða sé því til þess að ætla að D hafi ekki vitað um innihald hennar eða skilið efni hennar.

Varnaraðili mótmælir því að hann hafi haft eitthvað með gerð erfðaskrárinnar að gera og að hann hafi misnotað sér bágindi, fákunnáttu og einfeldni C og D. Þau hafi gert erfðaskrána af fúsum og frjálsum vilja, heil heilsu, allsgáð og andlega hæf til að ráðstafa eigum sínum með erfðaskrá, eins og fram komi í arfleiðsluvottorði. Þeim hafi verið fyllilega kunnugt um innihald hennar og kveðið hana hafa að geyma vilja sinn.

Varnaraðili vísar því á bug að slíkir annmarkar séu á arfleiðsluvottorði að valdi ógildi erfðaskrárinnar. Varnaraðili hafnar því að ekki sé getið um kvaðningu votta eins og áskilið sé í 1. mgr. 40. gr. erfðalaga. Með því að koma á lögmannsstofu, óska eftir því að erfðaskrá væri færð í letur og undirrita hana í viðurvist arfleiðsluvotta séu arfleifendur að kveðja til arfleiðsluvotta til að votta arfleiðslu sína. Varnaraðili mótmælir því að ekki komi fram í arfleiðsluvottorði að arfleifendur hafi undirritað erfðaskrána eða kannist við undirritun sína fyrir arfleiðsluvottum. Í arfleiðsluvottorði segi að arfleifendur hafi lesið erfðaskrána, lýst því yfir að hún hefði vilja þeirra að geyma og að þau hafi undirritað hana að viðstöddum arfleiðsluvottum. Varnaraðili andmælir því að ekki hafi komið fram í arfleiðsluvottorði að arfleiðsluvottum sé kunnugt um að hinn vottfesti gerningur sé erfðaskrá. Varnaraðili bendir á að vottorðið sé á sömu síðu og erfðaskráin. Í vottorðinu segi að um erfðaskrá sé að ræða sem sé undirrituð að viðstöddum arfleiðsluvottum og lesin fyrir þá. Loks hafnar varnaraðili því að ekki sé getið um heimilisföng arfleiðsluvotta. Heimilisfang arfleiðsluvotta sé hjá lögmönnum [...], [...], Reykjavík. Lögbókandinn í Reykjavík tilgreini aldrei lögheimili sitt, heldur starfsstöð sína, þannig að ekki verði um villst hver sé arfleiðsluvottur. Sama gildi um aðra arfleiðsluvotta. Þar að auki séu kennitölur arfleiðsluvottanna á vottorðinu, svo ekki verði um það villst hverjir þeir séu. Samkvæmt þessu séu allar formkröfur erfðalaga um erfðaskrár uppfylltar.

Varnaraðili vísar að öðru leyti til laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. Kröfu sína um málskostnað byggir varnaraðili á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.

Niðurstaða

Aðilar málsins gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Einnig komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu vitnin H, I, J, G hæstaréttarlögmaður sem og Pálmi V. Jónsson, öldrunarlæknir og dómkvaddur matsmaður. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þurfa þykir.

I

Óumdeilt er að C greindist með Alzheimer, heilabilunarsjúkdóm, í nóvember 2001 og að farið var að örla á minnistapi hjá henni á þeim tíma. Aðila máls greinir hins vegar á um það hvort C hafi af völdum sjúkdómsins verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt 13. september 2002.

Í matsgerð Pálma V. Jónssonar kemur fram að C hafi komið á móttökudeild öldrunarlækningadeildar Landspítala – Háskólasjúkrahúss á Landakoti 7. nóvember 2001. Vitnað er til nótu þar sem segi að um vaxandi minnistap hafi verið að ræða hjá C síðastliðið eitt og hálft ár. Hún eigi bágt með að muna nýskeða atburði og muni ekki hvar hún leggi af sér hluti en viti oft hvar þeir eigi að vera.

Vitnað er til upplýsinga sem tengdadóttir C, L, veitti félagsráðgjafa sama dag. Þar er haft eftir K að C hafi séð um bókhald fyrir fyrirtæki [...], en tveimur árum áður hafi K komið C til aðstoðar við bókhaldið. Skömmu síðar hafi K farið að taka eftir því að ekki hafi allt verið sem skyldi varðandi bókhaldið. C hafi átt til að fela bæði kvittanir og reikninga og ekki virst vita muninn á þeim. Nýlega hafi k fundið reikninga heima hjá henni sem voru á gjalddaga í mars. Smám saman hafi hún hætt störfum hjá fyrirtækinu og hún hafi vart komið þar inn fyrir dyr í hálft ár. C sé alveg hætt að elda. Hún hafi stundum gleymt nöfnum barnabarna, eigi erfitt með að setja hluti á rétta staði og um síðustu jól hafi hún ekki lengur getað lagt á borð fyrir marga. Hún endurtaki einnig mjög mikið sömu hlutina. C keyri enn bifreið en hún hafi nokkrum sinnum ekið á móti umferð og lent í smáóhappi nýlega. Þrátt fyrir að C finni til vanmáttar sé hún ekki á því að nokkur megi koma nálægt fjármálum hennar.

Í matsgerðinni segir að MMSE-próf hafi verið lagt fyrir C og hafi hún fengið 25 af 30 stigum á prófinu, þar sem nærminni sé talsvert skert. Í skýrslu matsmanns kom fram að þetta próf væri einfalt skimpróf fyrir vitræna getu. Frammistaða á prófinu geti farið eftir greind og menntun, en einstaklingur með Alzheimer-sjúkdóm geti fengið nálægt 30 stigum á slíku prófi.

Einnig er rakið í matsgerðinni að C hafi 19. nóvember 2001 gengist undir taugasálfræðilegt próf. Fram kom í skýrslu matsmanns fyrir dóminum að margvísleg próf hafi þá verið lögð fyrir hana og prófaðir hafi verið allir starfsþættir vitrænnar getu. Hjá henni hafi komið fram hugsanatregða og töluverðir sjónrýmdarerfiðleikar. Hún hafi átt erfitt með að teikna flókna mynd, setja tölustafi á klukkuskífu eftir fyrirmynd og setja vísa rétt á klukku. Þá hafi hún átt erfitt með að lesa rétt á klukku. Hún hafi verið áttuð, nema hvað snerti mánaðardag. Um minni hennar er rakið að augnabliksminni hafi verið í lagi en geta til að hlaða upplýsingum í langtímaminni væri mjög skert. Tafarlaust kennslaminni fyrir orðalista sé mjög skert. Kennslaminni fyrir andlit sé einnig mikið skert og algerlega tilviljunarkennt. Í samantekt sé hún skert á flestum þáttum sem prófaðir hafi verið og hafi líklega takmarkað innsæi í það hversu víðtæk skerðingin sé, þótt henni sé ljóst að minni hennar sé lélegt.

Niðurstaða matsmanns er á þá leið að C hafi ekki verið svo heil heilsu andlega að hún væri fær um að ráðstafa eigum sínum á skynsamlegan hátt í september 2002. Fram kom í skýrslu matsmanns fyrir dóminum að niðurstaðan byggðist á heildarmati á þeim gögnum sem lágu fyrir, þ. á m. frásögn K um C. Frásögnin sýni að C virðist ekki sýna skilning og dómgreind í peningamálum og sinni ekki umferðarreglum.

Fram kom hjá vitninu I að C hefði verið viðræðuhæf fyrstu eitt til tvö árin eftir að hann flutti í húsið að [...], við hlið húss C og D að [...], en eftir það hefði farið að halla undan fæti. Skerðing hefði verið orðin dálítið áberandi árin 2001 og 2002. Vitnið J sagði í skýrslu sinni að hann hefði hitt C og D töluvert fyrir árið 2001 og hefðu þau rætt við hann um skuldir sóknaraðila sem væru áhvílandi á fasteign þeirra að [...]. Ljóst væri að skuldin yrði ekki endurgreidd og þau hefðu velt fyrir sér að rétta hlut málsaðila með erfðaskrá. Vitnið hefði bent þeim á að tala við G hrl. Fyrir þann tíma hefði vitnið átt talsverð persónuleg samskipti við C. J kvaðst ekki hafa orðið var við annað en að C hefði verið við góða heilsu og hefði hann fyrst orðið var við veikindi hennar löngu seinna.

Fram kom hjá vitninu G hrl. að gerð umræddrar erfðaskrár hefði átt sér nokkurn aðdraganda. Nálægt aldamótunum hefði J haft samband við hann og spurt hann að því hvort hann gæti aðstoðað C og D í sambandi við fjármál þeirra. Þau hefðu komið til vitnisins í kjölfar þessa. Vitnið hefði skráð í dagbók að þau hefðu komið á hans fund a.m.k. 3. maí 2002 og þrívegis í september 2002. Á þriðja fundi hans með þeim, 13. september 2002, hefði verið gengið frá erfðaskrá þeirra. Þau hefðu bæði velt mikið fyrir sér hvað þau gætu gert í sínum fjármálum vegna vandamála sem þau hefðu lent í vegna þess að annar málsaðila hefði fengið C til að gangast í ábyrgðir sem væru að falla á þau og þau hefðu verið mjög ósátt við. Á fyrsta fundi hans með þeim hefði D spurt vitnið hvort mögulegt væri að gera þennan son þeirra arflausan en vitnið hefði útskýrt fyrir honum að það væri ekki mögulegt. Þau hefðu komið oftar til vitnisins til að ræða ýmsa möguleika, s.s. að afhenda hinum syninum eignir að gjöf eða sem fyrirframgreiddan arf. Niðurstaðan hefði orðið sú að þau hefðu viljað arfleiða varnaraðila að eins stórum hluta eigna sinna og þau gætu að lögum. Samskipti þeirra hefðu í aðalatriðum farið fram á ensku. Vitnið hefði við frágang erfðaskrárinnar tekið góðan tíma í að fara yfir hana með C og D, bæði á ensku og íslensku, og vitnið hefði gengið úr skugga um að þeim báðum væri fullkomlega ljóst hvað í erfðaskránni fólst og að hún væri í samræmi við vilja þeirra að öllu leyti. Þau hefðu alltaf komið saman til fundar við vitnið og hann hefði rætt við þau samtímis. D hefði meira haft orð fyrir þeim, en C hefði þó ekki haldið sig til hlés. Vitnið hefði ekki séð örla á Alzheimer-sjúkdómi hjá henni. Vitnið nefndi einnig að C og D hefðu komið tvisvar á hans fund árið 2004, í seinna skiptið í september, og fyrst á þessum seinni fundi hefði vitninu verið sagt að C hefði verið greind með Alzheimer-sjúkdóm.

II

Við mat á því hvort C hafi verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt 13. september 2002 skipta að mati dómsins mestu máli niðurstöður þeirra prófa sem lögð voru fyrir hana í nóvember 2001 og framburðir þeirra vitna sem að framan eru raktir.

Að mati dómsins segir niðurstaða á MMSE-prófi lítið ein og sér, enda er prófið víðtækt og hannað til að ná til heilabilunar á byrjunarstigi. Einstaklingur sem fær á bilinu 25 til 30 stig á slíku prófi sýnir eðlilega getu. Þótt sú niðurstaða geti gefið tilefni til að leggja frekari próf fyrir viðkomandi bendir hún ein og sér ekki til heilabilunar.

Samkvæmt taugasálfræðilega prófinu er ljóst að rýmisskynjun C var á þessum tíma talsvert skert, sem og geta hennar til að hlaða upplýsingum í langtímaminni. Slík skerðing leiðir til þess að oftar þarf að endurtaka hluti til þess að upplýsingar festist í minni viðkomandi. Þá er í prófinu tekið fram að C hafi verið áttuð, nema hvað snerti mánaðardag. Þessi niðurstaða taugasálfræðilegs prófs samræmist því að Alzheimer-sjúkdómur er sjúkdómur sem þróast yfir langt tímabil og lýsir sér í því að færni skerðist með tímanum og getur skerst hraðar á sumum sviðum en hægar á öðrum.

Ekki liggur fyrir að C hafi gengist undir frekari próf eða leitað aftur til læknis áður en hún og D gerðu erfðaskrá sína 13. september 2002, fyrir utan komu hennar á minnismóttöku 19. júní 2002. Sú tilvitnun í sjúkraskrá að C hafi ekki átt að koma fyrr en í nóvember bendir til þess að hún hafi vitað að hún ætti að mæta á móttökuna, en ekki verið áttuð viðvíkjandi mánaðardegi. Samrýmist þetta áðurnefndri niðurstöðu taugasálfræðilegs prófs, þar sem fram kom að hún hefði verið áttuð, nema hvað snerti mánaðardag.

Ekki verður dregin önnur ályktun en sú að C hafi í nóvember 2001 verið vel áttuð. Ekki verður séð að skerðing á rýmisskynjun C hafi haft áhrif á hæfi hennar til að gera erfðaskrá, enda um annað svið vitrænnar getu að ræða. Þá verður skýrlega ráðið af framburði vitnisins J að C hafi verið búin að gera upp við sig að hún vildi auka við arfshlutdeild varnaraðila eftir sinn dag og að hún hafi verið búin að ákveða, a.m.k. í megindráttum, hvernig hún vildi gera það, nokkru áður en einkenna Alzheimer-sjúkdómsins tók að gæta hjá henni. Einnig kom skýrt fram í vitnisburði G hrl. að hann hefði rætt við C um fjármál þeirra hjóna á fjórum fundum árið 2002, rætt um ýmsar leiðir til að auka við þann arfshlut sem varnaraðili myndi erfa og að hún og D hefðu tekið ákvörðun um hvaða leið skyldi fara í þeim efnum. Verður ekki annað ráðið af framburði vitnisins en að C hafi tekið um þetta sjálfstæða ákvörðun.

Með vísan til þessa er það ályktun dómsins að sóknaraðili hafi ekki sannað að vitræn skerðing C af völdum Alzheimer-sjúkdóms hafi verið orðin það mikil 13. september 2002 að hún hafi á þeim degi verið óhæf til að gera erfðaskrá með skynsamlegum hætti. Að auki er sýnt fram á það samkvæmt framansögðu að erfðaskráin var í samræmi við vilja C áður en vitrænnar skerðingar fór að gæta hjá henni og hafði sjúkdómurinn þannig engin áhrif á efni erfðaskrárinnar.

III

      Sóknaraðili byggir einnig á því að D hafi sökum elliglapa og krankleika ekki verið andlega fær um að ráðstafa eigum sínum með þeim hætti sem greinir í umræddri erfðaskrá. Þá hafi hann alla tíð verið illa talandi og skrifandi á íslensku, skilið lítið í tungumálinu og verið illa að sér um íslenskar lagareglur. D hafi því ekki gert sér grein fyrir þýðingu erfðaskrárinnar. Samkvæmt matsgerð fór matsmaður yfir sjúkraskrá D og hann hafi engin gögn fundið sem bendi til þess að hann hafi haft merki heilabilunarsjúkdóms við gerð erfðaskrárinnar 13. september 2002. Engin ástæða sé til að ætla að svo hafi verið, þegar tekið sé tillit til umsagna um vitræna getu D á árunum á eftir. Ekki sé hægt að draga aðra ályktun en þá að D hafi verið heill heilsu andlega og fær um að ráðstafa eigum sínum með erfðaskrá.

Þessu mati hefur sóknaraðili ekki hnekkt og verður því að leggja til grundvallar að D hafi verið svo heill heilsu andlega, að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga.

      Það er ekki hæfisskilyrði við gerð erfðaskrár að arfleifandi sé fullmæltur á íslenska tungu, því síður að arfleifandi sé vel að sér um ákvæði erfðalaga eða annarra íslenskra réttarreglna. Tekið er fram í arfleiðsluvottorði að sérstaklega hafi verið gengið úr skugga um að D gerði sér grein fyrir þýðingu erfðaskrárinnar og var það staðfest í skýrslu vitnisins G. Þá kom fram í skýrslu vitnisins að C og D hafi mætt fjórum sinnum á skrifstofu vitnisins og rætt gerð erfðaskrár og hvaða reglur giltu um ráðstöfun eigna með erfðaskrá. Þá hefði vitnið farið ítarlega yfir erfðaskrána með þeim hjónum og gengið úr skugga um að þeim væri báðum ljóst hvað í henni fælist og að hún væri í samræmi við þeirra vilja. Er því ósannað að D hafi ekki gert sér grein fyrir efni erfðaskrárinnar.

IV

      Sóknaraðili telur að varnaraðili og eiginkona hans hafi misnotað sér annmarka foreldra sinna, sem og að þau hafi bæði verið háð varnaraðila og eiginkonu hans. Varnaraðili og eiginkona hans hafi hlutast til um gerð og efni erfðaskrárinnar. Samkvæmt framburði vitnisins J leituðu D og C til hans og ræddu um að rétta hlut varnaraðila með gerð erfðaskrár. Verður ekki annað ráðið af framburði vitnisins en að þetta hafi þau gert að eigin frumkvæði. Vitnið G rakti að D og C hefðu komið fjórum sinnum á skrifstofu vitnisins til að ræða gerð erfðaskrár. Hefði komið skýrt fram hjá þeim hvernig þau vildu ráðstafa eigum sínum eftir sinn dag. Þau hefðu ekki komið í fylgd nokkurs. Samkvæmt þessu er ósannað að varnaraðili og eiginkona hans hafi átt atbeina að gerð erfðaskrár D og C.

V

      Sóknaraðili byggir einnig á því að gallar séu á arfleiðsluvottorði. Í fyrsta lagi telur sóknaraðili að í vottorðinu sé þess ekki getið að arfleifendur hafi kvatt arfleiðsluvotta til að votta arfleiðslu sína, sbr. 3. mgr. 42. gr. erfðalaga, heldur sé þess eingöngu getið að þau hafi mætt á tiltekna lögmannsstofu. Það er hefðbundið og algengt verk lögmanna að búa til erfðaskrár fyrir fólk. Eðli máls samkvæmt hlýtur lögmaður að jafnaði að vinna slíkt verk á lögmannsstofu sinni. Ekkert í erfðalögum stendur því í vegi að lögmaður og starfsmenn lögmannsstofu séu arfleiðsluvottar. Að mati dómsins verður að líta svo á að ef arfleifandi mætir á fund lögmanns til þess að undirrita erfðaskrá þá sé viðkomandi jafnframt að kveða starfsmenn stofunnar til að votta erfðaskrána, enda hafi arfleifandinn ekki kvatt þangað annað fólk í þeim tilgangi. Eins og áður greinir mættu C og D ein á fund G hrl. til að undirrita erfðaskrá sína. Verður því að fallast á það með varnaraðila að þau hafi hvatt arfleiðsluvottana til að votta erfðaskrána.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að ekki komi fram í erfðaskránni að arfleifendur hafi undirritað erfðaskrána eða kannast við undirritun sína fyrir arfleiðsluvottum, sbr. 1. mgr. 40. gr. og 1. málslið 1. mgr. 42. gr. erfðalaga, enda verði ekki ráðið af vottorðinu hvort og þá hverjir arfleiðsluvotta hafi verið viðstaddir undirritun erfðaskrárinnar. Vottorðið er ónákvæmt að því leyti að af texta þess má ráða að tveir vottar hafi verið kvaddir til, en vottorðið er undirritað af þremur vottum. Með undirritun sinni kannast vottarnir þó við að hafa verið viðstaddir. Því hefur sóknaraðili ekki hnekkt og er því ósannað að C og D hafi ekki undirritað eða kannast við undirritun sína á erfðaskrána í viðurvist vottanna.

Í þriðja lagi fullyrðir sóknaraðili að ekki komi fram í arfleiðsluvottorði að arfleiðsluvottum sé kunnugt um að hinn vottfesti gerningur sé erfðaskrá, sbr. 2. málslið 1. mgr. 42. gr. erfðalaga. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skal koma fram í vottorði, að vottum sé kunnugt, að hinn vottfesti gerningur sé erfðaskrá. Vottorðið er ritað á sama blað og erfðaskráin og í vottorðinu kemur auk þess fjórum sinnum fram að um erfðaskrá sé að ræða. Gat það ekki farið fram hjá vottunum að um erfðaskrá væri að ræða. Er þessi málsástæða sóknaraðila því haldlaus.

Að lokum bendir sóknaraðili á að ekki sé getið um heimilisföng arfleiðsluvotta í arfleiðsluvottorðinu. Í 2. málslið 3. mgr. 42. gr. erfðalaga segir að vottar skuli greina heimilisföng sín, svo að ekki verði um villst. Tilgangur þessa ákvæðis er að mati dómsins sá að ekki verði um villst hverjir arfleiðsluvottarnir séu. Er ekki nóg í því skyni að rita fullt nafn, enda stendur ekkert því í vegi að íslenskum lögum að fleiri menn séu alnafnar. Vottarnir rita einnig kennitölur sínar og er því enginn vafi á hverjir þeir eru. Að mati dómsins er þessi ágalli á vottorðinu svo smávægilegur að hann varðar fráleitt ógildingu erfðaskrárinnar.

Með vísan til alls framangreinds ber að hafna kröfum sóknaraðila og staðfesta að erfðaskrá C og D, dagsett 13. september 2002, verði lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi D.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að aðilar málsins beri hvor um sig sinn kostnað af málinu.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð ásamt meðdómendunum Einari Guðmundssyni geðlækni og Jóni Eyjólfi Jónssyni öldrunarlækni. Vegna mikilla anna dómaranna hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest, en dómarar og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Sameiginleg erfðaskrá C og D frá 13. september 2002 skal lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi D.

Málskostnaður fellur niður.