Hæstiréttur íslands
Mál nr. 783/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. desember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með héraðsdómi að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og að ætla megi að hann muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Er þannig fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 12. desember 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], kærða, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 22. desember 2017 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan hafi til rannsóknar innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands frá Hollandi. Upphaf málsins sé það að þann 6. desember sl. hafi Tollgæslan fundið talsvert magn af ætluðum fíkniefnum í póstsendingu Póstsins frá Hollandi og hafi efnin verið falin í útvarpstæki. Y hafi verið skráður viðtakandi sendingarinnar og sendandi hollenskur aðili. Lögregla hafi lagt hald á efnið og samkvæmt niðurstöðu tæknideildar lögreglu hafi þetta verið 317,74 g af kókaíni.
Að fengnum úrskurði frá Héraðsdómi Reykjavíkur hafi efnunum verið skipt út fyrir skaðlaus efni og komið hafi verið fyrir eftirfarar- og hlustunarbúnaði í pakkanum.
Í gær hafi Y haft samband við Póstinn og svarað tilkynningu um að pakkinn væri kominn til landsins og hafi hann jafnframt óskað eftir því að pakkinn yrði keyrður heim til hans að [...] hér í borg.
Lögregla hafi fylgst með pakkanum fara að heimili Y ásamt því að hlusta á samskipti þeirra aðila sem hafi meðhöndlað hann. Skömmu síðar hafi lögreglan farið inn í íbúðina og komið að Y ásamt þeim Z, kt. [...], og kærða þar sem þeir hafi verið að eiga við útvarpið.
Í kjölfarið hafi allir aðilar verið handteknir og færðir á lögreglustöð. Mikið misræmi sé í framburði þeirra varðandi aðild og aðkomu að innflutningi efnanna og séu þeir allir undir rökstuddum grun um innflutning þeirra.
Rannsókn málsins sé á frumstigi og eftir eigi að taka frekari skýrslur af kærða sem og öðrum aðilum og bera undir hann framburð annarra aðila málsins sem og önnur sönnunargögn sem lögregla hafi lagt hald á og sum hver sem enn eigi eftir að rannsaka nánar og/eða afla. Eins telji lögregla að fleiri aðilar tengist þessu máli, sumir hverjir erlendis, og að hafa þurfi upp á þeim og taka af þeim skýrslur. Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að ræða við ætlaða samverkamenn og vitni og hafa áhrif á framburð þeirra eða koma undan munum. Rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi og afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina,
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna krefjist lögreglustjóri að framangreind krafa hans verði tekin til greina eins og hún sé sett fram. Lögreglustjóri telji kærða vera undir rökstuddum grun um að hafa gerst brotlegur við 2. gr., sbr., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 64/1974. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til 2. mgr. 98. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Niðurstaða
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands frá Hollandi. Upphaf málsins sé það að þann 6. desember sl. hafi Tollgæslan fundið talsvert magn af ætluðum fíkniefnum í póstsendingu Póstsins frá Hollandi og hafi efnin verið falin í útvarpstæki. Y hafi verið skráður viðtakandi sendingarinnar og sendandi hollenskur aðili. Lögregla hafi lagt hald á efnið og samkvæmt niðurstöðu tæknideildar lögreglu hafi þetta verið 317,74 g af kókaíni. Skömmu síðar hafi lögreglan farið inn í íbúðina og komið að Y ásamt þeim Z, kt. [...], og kærða þar sem þeir hafi verið að eiga við útvarpið. Í kjölfarið hafi allir aðilar verið handteknir og færðir á lögreglustöð. Þá kemur fra að mikið misræmi sé í framburðum aðila og rannsókn málsins sé á frumstigi og eftir eigi að taka frekari skýrslur af kærða sem og öðrum aðilum og bera undir hann framburð annarra aðila málsins sem og önnur sönnunargögn sem lögregla hafi lagt hald á og sum hver sem enn eigi eftir að rannsaka nánar og/eða afla. Eins telji lögregla að fleiri aðilar tengist þessu máli, sumir hverjir erlendis, og að hafa þurfi upp á þeim og taka af þeim skýrslur.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið þé er til rannsóknar ætluð brot kærða sem lögregla telur varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum. Refsing, ef sök er sönnuð, getur varðað fangelsisrefsingu allt að 6 árum. Fallist er á með lögreglu að sá sem krafan beinist að sé undir rökstuddum grun um framangreinda háttsemi og að augljósir rannsóknarhagsmunir séu í húfi. Rannsókn er nánast á frumstigi og eftir er að yfirheyra kærða og kanna gögn sem haldlögð voru við húsleit. Mikið ósamræmi mun vera í framburðum kærðra. Þá þarf að kanna hugsanleg tengsl við erlenda aðila og aðra er kunna að tengjast málinu. Þá er nauðsynlegt að tryggja að kærði geti ekki spillt sakargögnum með því að hafa samband við aðra sem málinu kunna að tengjast.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er fallist á að krafan skuli ná fram að ganga eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Á þessu stigi rannsóknar eru ekki efni til að fallast á kröfu verjanda um styttingu gæsluvarðhalds, þar sem mikið ósamræmi mun vera í framburðum kærðra í málinu og rannsóknin nánast á frumstigi. Þá er ljóst að lögreglu ber að haga rannsókn sinni þannig að gæsluvarðhaldið falli niður þegar rannsóknarhagsmunir krefjast þess ekki lengur. Þá neitar kærði alfarið sök í málinu. Um heimild til einangrunar meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til 2. mgr. 98. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga en brýnir rannsóknarhagsmunir krefjast þess að kærði sæti einangrum meðan á gæsluvarðhaldi stendur, eins og að framan er rakið.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 22. desember 2017 kl. 16:00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.