Hæstiréttur íslands

Mál nr. 631/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


                                     

Mánudaginn 28. október 2013.

Nr. 631/2013.

Jón Ben Sveinsson

(Bergþóra Ingólfsdóttir hrl.)

gegn

Lukku ehf.

(Þyrí Steingrímsdóttir hrl.)

Kærumál. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni L ehf. um að leiða sem vitni fyrir héraðsdóm þrjá lækna í því skyni að færa sönnur á hvort skilyrðum 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 væru uppfyllt í máli sem J höfðaði á hendur L ehf. til heimtu veikindalauna á grundvelli ákvæðisins, en málsaðila greindi á um hvenær J hefði veikst í merkingu þess. Hæstiréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi að því er varðaði heimild L ehf. til að leiða læknana JK og ÓÁ sem vitni í málinu þar sem fyrir lægi að þeir hefðu ekki annast J í veikindum sem hann reisti málsókn sína á og að því yrðu skýrslugjafir þeirra fyrir dómi ekki reistar á reglum VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur staðfesti á hinn bóginn hinn kærða úrskurð varðandi heimild L ehf. til að leiða lækninn ÓG sem vitni í málinu þar sem talið var að skilyrði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn væru uppfyllt hvað hann varðaði, enda gætu úrslit málsins oltið á framburði þess læknis sem annast hefði J í veikindum hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 17. september 2013, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um að leiða sem vitni við aðalmeðferð málsins þá Jörund Kristinsson trúnaðarlækni varnaraðila og heilsugæslulæknana Ólaf Guðgeirsson og Óttar Ármannsson. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði krefur sóknaraðili varnaraðila um greiðslu launa í veikindum einkum með vísan til 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Greinir málsaðila á um hvenær sóknaraðili hafi veikst í merkingu ákvæðisins og reisir varnaraðili kröfu sína um sýknu á 4. mgr. sömu lagagreinar. Í 1. málslið 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga segir að verði skipverji óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skuli hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en í tvo mánuði. Í 1. málslið 4. mgr. 36. gr. laganna segir að skipverji eigi ekki rétt á kaupi þann tíma, sem hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna störf sín af hendi, né fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína. Varnaraðili hefur óskað eftir að læknarnir Jörundur Kristinsson, Ólafur Guðgeirsson og Óttar Ármannsson gefi skýrslu sem vitni í málinu í því skyni að færa sönnur á hvort skilyrðum 1. mgr. 36. gr. laganna sé fullnægt.

Upplýst er í málinu að Ólafur Guðgeirsson heilsugæslulæknir hefur annast sóknaraðila á Heilbrigðisstofnun Austurlands á tímabili sem hér kann að skipta máli en því er ekki að heilsa um Óttar Ármannsson heilsugæslulækni við sömu stofnun. Hann mun aftur á móti í símtali hafa veitt Jörundi Kristinssyni trúnaðarlækni varnaraðila upplýsingar um komur sóknaraðila á stofnunina og þá daga er hann undirgekkst rannsóknir þar. Jörundur Kristinsson hefur ekki meðhöndlað sóknaraðila en undir rekstri málsins veitt umsögn á grundvelli upplýsinga frá Ólafi Guðgeirssyni heilsugæslulækni.

Af 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður ályktað að aðili einkamáls megi færa sönnur að umdeildu atviki með því að leiða fyrir dóm vitni sem svari munnlega spurningum um atvik af eigin raun en ekki sérfræðileg atriði, þar sem lögin gera ráð fyrir að leitað sé svara við slíkum spurningum með öðrum hætti, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar sem birtur var í dómsafni réttarins árið 1996, bls. 1785 og dóm réttarins 3. júní 2013 í máli nr. 321/2013. Þá segir í 3. mgr. 46. gr. laganna að telji dómari bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu.

Fyrir liggur að læknarnir Jörundur Kristinsson og Óttar Ármannsson önnuðust ekki sóknaraðila í veikindum sem hann reisir málsókn sína á. Af þeim sökum verða skýrslugjafir þeirra fyrir dómi ekki reistar á reglum VIII. kafla laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er varðar heimild varnaraðila til að leiða þá til skýrslugjafar sem vitni í málinu.

Í 17. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, sem sóknaraðili vísar til, eru reglur um trúnað og þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna um málefni sjúklinga. Í 3. mgr. 18. gr. laganna er mælt fyrir um undantekningar frá reglum 17. gr., en í 1. málslið 3. mgr. 18. gr. segir meðal annars að heilbrigðisstarfsmaður verði ekki leiddur sem vitni í einkamáli gegn vilja sjúklings nema ætla megi að úrslit málsins velti á vitnisburði hans að mati dómara. Fallist er á með varnaraðila að niðurstaða í málinu kunni að ráðast af því hvenær sóknaraðili hafi veikst. Af því leiðir að úrslit málsins geta oltið á framburði þess læknis sem annaðist sóknaraðila veikindum hans. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur hvað varðar heimild varnaraðila til að leiða Ólaf Guðgeirsson sem vitni í málinu.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að varnaraðila, Lukku ehf., sé heimilt að leiða fyrir héraðsdóm sem vitni Ólaf Guðgeirsson heilsugæslulækni.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 17. september 2013.

Mál þetta var höfðað 3. janúar 2013 og tekið til úrskurðar 9. september sl.

                Stefnandi er Jón Ben Sveinsson, Fjarðarbraut 59, Stöðvarfirði.

Stefndi er Lukka ehf., Bólsvör 4, Stöðvarfirði.

                Í málinu gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar samtals að fjárhæð 1.819.300 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001, af 881.000 krónum frá 1. desember 2011 til 1. janúar 2012, þá af 1.493.600 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2012 og loks af 1.813.300 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

                Í þeim þætti málsins sem hér er til umfjöllunar gerir stefndi þá kröfu að eftirgreindir verði leiddir sem vitni við aðalmeðferð málsins:  Jörundur Kristinsson trúnaðarlæknir, Ólafur Guðgeirsson heilsugæslulæknir og Óttar Ármannsson heilsugæslulæknir. Stefnandi krefst þess að synjað verði kröfu stefnda um að framangreind vitni verði leidd.

I

                Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um greiðslu veikindalauna á grundvelli 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Þeirri kröfu hafnar stefndi á þeim grundvelli að stefnandi hafi, við ráðningu sína í ágúst 2011 sem skipverji á bát á vegum stefnda, vísvitandi haldið leyndum upplýsingum um að hann þjáðist af brjósklosi, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Fyrir liggur að stefnandi varð óvinnufær um miðjan nóvember 2011 og gekkst undir aðgerð í desember s.á.

                Við munnlegan málflutning um þann ágreining sem hér er til umfjöllunar kom fram af hálfu stefnda að í málinu reyni á sönnun um það hvenær stefnandi hafi greinst með þann sjúkdóm sem leiddi til óvinnufærni hans. Sé stefnda nauðsynlegt að leiða framangreind vitni í því skyni að svara spurningum um það efni. Bent er á að í umsögn Jörundar Kristinssonar trúnaðarlæknis, sem stefnandi hafi lagt fram í málinu, komi fram að samkvæmt upplýsingum sem læknirinn hafi aflað símleiðis frá Ólafi Guðgeirssyni lækni við Heilbrigðisstofnun Austurlands hafi stefnandi greinst með brjósklos í marsmánuði 2011, eftir rannsókn með tölvusneiðmynd. Kveðst stefndi mótmæla því að nokkuð hafi verið athugavert við þá upplýsingaöflun trúnaðarlæknisins. Fyrir liggi að Óttar Ármannsson heilsugæslulæknir hafi veitt Jörundi upplýsingar símleiðis um dagsetningar á komum og rannsóknum stefnanda hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Ólafur Guðgeirsson heilsugæslulæknir hafi annast stefnanda og ritað tvö sjúkradagpeningavottorð sem liggi fyrir í málinu. Frekari upplýsingar úr sjúkraskrá stefnanda liggi ekki fyrir og sé því nauðsynlegt að leiða framangreind vitni.

                Stefndi kveðst byggja á því að ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, eigi ekki við um vitnin Jörund og Óttar, þar sem hvorugur þeirra hafi annast stefnanda. Standi það lagaákvæði því ekki í vegi þess að þeir læknar verði leiddir sem vitni í málinu. Hvað vitnið Ólaf varðar sé byggt á því að uppfyllt sé það skilyrði sömu lagagreinar að ætla megi að úrslit málsins geti oltið á vitnisburði hans.

                Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um að synjað verði kröfu stefnda um að leiða framangreind vitni á því að vitnin Jörundur og Óttar hafi hvorugur skoðað eða meðhöndlað stefnanda. Virðist þeim því einungis ætlað að bera um samskipti sín á milli og geti þeir því ekki borið um atvik máls að eigin raun, sbr. 51. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Geti framburður þeirra þannig aldrei orðið um annað en sögusögn annarra og sé því ekki til þess fallinn að hafa nokkurt sönnunargildi í málinu. Bendir stefnandi auk þess á að kæra hafi verið lögð fram hjá embætti landlæknis vegna framgöngu Jörundar við upplýsingaöflun úr sjúkraskrá stefnanda.

                Stefnandi mótmælir því að 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, taki ekki til læknanna Jörundar og Óttars, þótt þeir hafi ekki annast stefnanda, enda teljist þeir heilbrigðisstarfsmenn í skilningi lagaákvæðisins, sbr. einnig 2. og 3. gr. sömu laga. Bendir stefnandi í þessu sambandi á að stefndi virðist hafa í hyggju að leiða framangreinda menn sem vitni til að spyrja út í upplýsingar sem fengnar séu úr sjúkraskrá stefnanda.

                Hvað Ólaf Guðgeirsson lækni varðar byggir stefnandi á því að efni þeirra tveggja sjúkradagpeningavottorða sem liggi fyrir í málinu og frá honum stafi sé óumþrætt og að engin þörf sé á að rjúfa þá skyldu til leyndar sem á honum hvíli samkvæmt 17. gr. laga nr. 34/2012.

                Í málflutningi lýsti lögmaður stefnanda því yfir að stefnandi muni ekki heimila framangreindum læknum að rjúfa þagnarskyldu sína.

II

                Eins og rakið hefur verið hyggst stefndi með vitnisburði þeirra þriggja lækna sem hann vill leiða við aðalmeðferð máls þessa freista þess að upplýsa hvenær stefnandi hafi fyrst greinst með þann sjúkdóm sem leiddi til óvinnufærni hans. Ekki verður séð að framlögð sjúkradagpeningavottorð Ólafs Guðgeirsonar læknis varpi fullnægjandi ljósi á það efni og skiptir því ekki máli þótt stefnandi hafi lýst því yfir að efni þeirra vottorða sé óumþrætt.

                Ólafur hefur annast stefnanda og getur því ótvírætt borið um málsatvik af eigin raun, sbr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Þótt læknarnir Jörundur Kristinsson og Óttar Ármannsson hafi ekki sjálfir annast eða meðhöndlað stefnanda, benda gögn málsins til þess að þeir hafi báðir kynnt sér upplýsingar úr sjúkraskrá hans, sá fyrrnefndi þó einungis með óbeinum hætti í gegnum þá Óttar og Ólaf. Að því leyti getur framburður þeirra beggja varðað málsatvik og verður ekki fyrirfram fullyrt að framburður þeirra sé tilgangslaus til sönnunar í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga, sem skýra verður þröngt í ljósi meginreglu 1. mgr. sömu greinar um forræði aðila á sönnunarfærslu.

                Fallast verður á það með stefnanda að ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012, þar sem segir að heilbrigðisstarfsmaður verði ekki leiddur fram sem vitni í einkamálum gegn vilja sjúklings nema annað tveggja þargreindra skilyrða sé uppfyllt, eigi við um alla þá þrjá lækna sem stefndi óskar eftir að leiða, sem allir teljast heilbrigðisstarfsmenn í skilningi ákvæðisins, sbr. skilgreiningu þess hugtaks í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga.

                Eins og málið liggur fyrir dóminum verður að fallast á það með stefnda að niðurstaða í málinu kunni að velta á vitnisburði um sjúkrasögu stefnanda, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012. Þótt ætla megi að framburður Ólafs kunni þar að hafa mesta þýðingu verður á þessu stigi málsins ekki gert upp á milli þeirra þriggja lækna sem stefndi krefst að verði leiddir, við mat um það hvort málsúrslit geti oltið á vitnisburði þeirra.

                Þá verður að fallast á það með stefnda að hagsmunir hans af því að leiða vitnin teljist verulega meiri en hagsmunir stefnanda af því að leynd haldist, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991.

                Samkvæmt öllu framanrituðu verður fallist á kröfu stefnda um að leiða við aðalmeðferð málsins sem vitni þá þrjá lækna sem tilgreindir eru hér að framan og í úrskurðarorði.

                Ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Stefnda, Lukku ehf., er heimilt að leiða sem vitni fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins þá Jörund Kristinsson trúnaðarlækni, Ólaf Guðgeirsson heilsugæslulækni og Óttar Ármannsson heilsugæslulækni.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.