Hæstiréttur íslands

Mál nr. 9/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Málskostnaður


Föstudaginn 8

                                                    Miðvikudaginn 13. janúar 1999.

Nr. 9/1999.                                           Steinbock þjónustan ehf.

                                                    (Sigurður Sigurjónsson hrl.)

                                                    gegn

                                                    Bergey ehf.

                                                    (enginn)

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Málskostnaður.

Máli B gegn S var vísað frá héraðsdómi á þeim grunni að fullnaðardómur hefði verið lagður á sakarefnið í fyrri málaferlum þeirra. Kveðið var á um að hvor aðili skyldi bera sinn kostnað af málinu. S kærði úrskurð þennan og krafðist þess að hann yrði staðfestur um annað en málskostnað, en B yrði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði auk kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti. B lét málið ekki til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til 2. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 var fallist á kröfur S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 1998, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 1998, þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila var vísað frá dómi og hvor aðili látinn bera sinn kostnað af því. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur um annað en málskostnað, sem varnaraðila verði gert að greiða í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og málið liggur fyrir verða ekki séð rök til þess að víkja frá þeirri aðalreglu 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að stefnanda máls í héraði verði gert að greiða stefnda málskostnað þegar máli er vísað þaðan frá dómi. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað í héraði, sem verður ákveðinn í einu lagi ásamt kærumálskostnaði, eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti stendur hinn kærði úrskurður óraskaður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Varnaraðili, Bergey ehf., greiði sóknaraðila, Steinbock þjónustunni ehf., samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 1998.

Ár 1998, fimmtudaginn 17. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Gunnari Aðalsteinssyni héraðsdómara,  kveðinn upp úrskurður í málinu nr. E-330/1998: Bergey ehf. gegn Steinbock - þjónustunni ehf.

Mál þetta var þingfest 14. apríl 1998 og tekið til dóms 26. nóvember sl. Stefnandi er Bergey ehf., kt. 560190-1159, Suðurbraut, Hofsósi en stefndi er Steinbock-þjónustan ehf., kt. 460472-0249, Kársnesbraut 102, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu 1.197.617 króna með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 frá 13. desember 1995 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

I.

Upphaf máls þessa er að stefnandi keypti notaðan vörulyftara af stefnda. Samkvæmt reikningi 3. júlí 1992 skyldi hann kosta 940.224 krónur að meðtöldum veltibúnaði, sendingarkostnaði og virðisaukaskatti.

               

Stefnandi greiddi stefnda 19. júní og 3. júlí 1992 samtals 300.000 krónur, en ekki varð af frekari greiðslum kaupverðs af hendi þess fyrrnefnda á þeim tíma. Stefndi taldi stefnanda hafa þannig vanefnt kaupsamning þeirra og gaf honum, með bréfi 2. október 1992, kost á annað hvort að greiða eftirstöðvar kaupverðsins með peningum og skuldabréfi eða skila lyftaranum, en innborgunum yrði þá varið til greiðslu leigu fyrir hann. Samkvæmt gögnum málsins svaraði stefnandi hvorki þessu bréfi né innheimtubréfi stefnda 10. nóvember 1992. Fór svo að stefndi höfðaði mál á hendur stefnanda með stefnu 7. desember 1992 til greiðslu eftirstöðva kaupverðsins. Málið var þingfest 14. janúar 1993, en því var frestað fyrir dómi fram til 25. febrúar sama árs, þegar það var tekið til dóms. Í kjölfarið var stefna í málinu árituð um aðfararhæfi dómkrafna stefnda.

               

Með bréfi 11. mars 1993 til sýslumannsins á Sauðárkróki leitaði stefndi eftir fjárnámi hjá stefnanda til fullnustu kröfum samkvæmt árituðu stefnunni. Sýslumaður tók fyrir beiðni um fjárnámið 19. aprríl 1993. Var þar mætt af hálfu stefnanda og því haldið fram að krafa stefnda væri ekki rétt, en þess jafnframt getið að óskað hafi verið eftir endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi. Að kröfu stefnda var gert fjárnám í fyrrnefndum vörulyftara til tryggingar kröfum hans. Stefndi krafðist síðan nauðungarsölu á lyftaranum með bréfi 3. maí 1993 til sýslumannsins á Sauðárkróki, sem veitti stefnda heimild 13. ágúst sama árs til að taka lyftarann í sína vörslur og færa hann í tæka tíð á uppboðsstað, þar sem hann yrði seldur 3. september þetta ár. Ekki varð þó af nauðungarsölu í það sinn.

               

Samkvæmt beiðni stefnanda var umrætt dómsmál endurupptekið fyrir héraðsdómi 27. maí 1993 eftir ákvæðum XXIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi tók þar til varna og krafðist sýknu á þeim grunni að samið hafi verið um kaup á vörulyftaranum fyrir 300.000 krónur, sem hafi verið greiddar að fullu. Þegar málið var tekið fyrir á dómþingi 16. september 1993 var meðal annars eftirfarandi fært í þingbók: "Aðiljar óska nú eindregið eftir því að málinu verði enn frestað þar sem líkindi séu til að þeir geti sæst. Málinu er frestað til miðvikudagsins 29. september nk., og er þá gert ráð fyrir aðalflutningi, ef sættir hafa ekki náðst. Aðiljar taka fram að þeir hugsi sér nú sættir á þeim grundvelli að lyftarinn, sem deilt er um verði sendur til stefnanda og þá athugað hvort aðiljar geti sæst með það að kaupin gangi til baka." Í bréfi til héraðsdóms 29. september 1993 var því lýst af hálfu stefnda að hann féllist á ósk stefnanda um frestun málsins til 13. næsta mánaðar, "enda hafi Bergey hf. afhent lyftara til Steinbock þjónustunnar hf." Þessu til samræmis mun málinu hafa verið frestað til umrædds dags, þegar það kom til aðalmeðferðar, en við það tækifæri gáfu ekki aðrir skýrslur fyrir dómi en tveir starfsmenn stefnda. Í dómi héraðsdóms, sem gekk í málinu 19. október 1993, var talið ósannað að samið hafi verið um annað kaupverð lyftarans en greindi í reikningi stefnda. Var stefnandi því dæmdur til að greiða stefnda 640.000 krónur með dráttarvöxtum frá 3. ágúst  1992 til greiðsludags, auk 120.000 króna í málskostnað.

Samkvæmt gögnum málsins sendi stefnandi vörulyftarann 26. september 1993 með vöruflutningabifreið til stefnda. Stefnandi ritaði stefnda bréf  26. október 1993, þar sem sagði meðal annars að sá fyrrnefndi ítrekaði riftun á kaupum um lyftarann, svo og að hann hafi verið sendur stefnda og væri tilbúinn til afhendingar í afgreiðslu Vöruflutningamiðstöðvarinnar hf. Stefndi leysti til sín lyftarann með greiðslu flutningskostnaðar og fékk hann afhentan 10. desember 1993.

               

Með bréfi 2. nóvember 1993 framsendi sýslumaðurinn á Sauðrárkróki til sýslumannsins í Reykjavík fyrrnefnda beiðni stefnda um nauðungarsölu á vörulyftaranum. Segir í bréfinu að þetta sé gert að ósk stefnda, enda sé lyftarinn í umdæmi viðtakanda hans. Lyftarinn var síðan seldur nauðungarsölu við uppboð sýslumannsins í Reykjavík 11. desember 1993. Samkvæmt bókun í gerðabók frá uppboðinu var stefndi þar gerðarbeiðandi og stefndi gerðarþoli. Óumdeilt er að kaupandi á uppboðinu hafi í raun og veru verið stefndi, sem greiddi 175.000 krónur fyrir lyftarann, en af þeirri fjárhæð fékk hann greiddar frá sýslumanni 126.059 krónur við úthlutun söluverðsins 29. desember 1993.

               

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi eftir þetta aðhafst neitt frekar vegna kröfu samkvæmt dómnum 19. október 1993 fyrr en hann beindi bréflegri áskorun til stefnanda 26. október 1994 um að greiða eftirstöðvar kröfunnar, sem voru sagðar nema 946.945,45 krónum. Stefnandi mótmælir því með bréfi 2. nóvember sama árs að hann stæði í skuld við stefnda. Voru mótmælin einkum reistar á því að samkomulag hafi orðið um að lyftaranum yrði skilað til stefnda og málið yrði þar með úr sögunni. Í svarbréfi stefnda 2. nóvember 1994 var því haldið fram að stefnandi hafi á sínum tíma lofað að koma lyftaranum til Reykjavíkur, þar sem hann yrði metinn til verðs af mönnum sem aðilarnir ættu hvor um sig að tilnefna. Þetta hafi ekki gengið eftir, en lyftarinn hafi borist til Reykjavíkur án vitundar stefnda. Lyftarinn hafi að auki verið skemmdur og stefndi því ekki haft áhuga á að taka hann til sín sem greiðslu.

               

Eftir framangreind bréfaskipti fékk stefndi gert fjárnám í skipi í eigu stefnanda 10. febrúar 1995, fyrir fjárhæð sem hann kvað vera eftirstöðvar kröfu sinnar. Með bréfi 27. apríl sama árs krafðist stefndi nauðungarsölu á skipinu. Stefnandi mótmælti nauðungarsölunni í bréfi til sýslumannsins á Sauðárkróki 14. september 1995, þar sem hann bar því einkum við að hann hygðist krefjast mats á lyftaranum og niðurfærslu á kröfu aðaláfrýjanda samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Til þeirra aðgerða virðist aldrei hafa komið. Stefnandi mótmælti á ný nauðungarsölunni með bréfi 11. desember 1995, þar sem því var að auki haldið fram að kaupsamningi aðilanna hafi verið rift og gæti stefndi því ekki krafist greiðslu úr hendi stefnanda á grundvelli samningsins. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um meðferð þessara mótmæla stefnanda. Hann greiddi hins vegar stefnda 13. desember 1995 1.197.616,61 krónur til lúkningar kröfunni, sem leitað var fullnustu á með beiðninni um nauðungarsölu. Greitt var með fyrirvara vegna riftunar kaupa aðilanna, sem hafi farið fram með afhendingu vörulyftarans í september 1993, en með bréfi 15. desember 1995 skoraði stefnandi á stefnda að endurgreiða sér umrædda fjárhæð með vísan til þessara röksemda. Stefndi varð ekki við því og höfðaði stefnandi því mál af þeim sökum.

               

Stefna í því máli var birt 13. febrúar 1996 og málið dæmt í héraði 5. nóvember sama árs. Niðurstaða héraðsdóms var sú að 3. mgr. 86. gr. nauðungarsölulaga nr. 91/1991 ætti við og skaðabætur dæmdar að álitum. Var stefndi dæmdur til greiðslu 800.000 króna. Máli þessu var áfrýjað til Hæstaréttar, sem kvað upp dóm 13. nóvember 1997.

               

Fyrir Hæstarétti gerði stefndi kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi þar sem málið hefði verið höfðað löngu eftir lok þess frests sem settur sé á 88. gr. laga nr. 90/1991 til málshöfðunar um skaðabætur vegna nauðungarsölu. Í dómi Hæstaréttar segir að sú málsástæða stefnanda, að viðskipti aðila hafi verið gerð upp með því að endursenda lyftarann, sé óháð málshöfðunarfresti 88. gr. nauðungarsölulaga. Þessi málsástæða var þó talin haldlaus og ekki tilefni til að taka til greina kröfu með stoð í henni. Til vara reisti stefnandi kröfu sína fyrir Hæstarétti á þeirri málsástæðu að honum hafi ekki verið tilkynnt um fyrirhugaða nauðungarsölu vörulyftarans í desember 1993 og hafi það verið sök stefnda. Frestur til þess að höfða skaðabótamál á þessum grunni var talinn liðinn samkvæmt 88. gr. laga nr. 90/1991.

II.

Stefnandi kveður það hafa komið í ljós undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti að stefndi hafði blekkt stefnanda. Hafi það gerst með þeim hætti að stefndi hafi tekið á móti lyftara þeim sem stefnandi sendi suður með Vöruflutningamiðstöðinni hf. og selt hann til Auðbjargar ehf. í Þorlákshöfn. Stefndi hafi beitt svikum með því að senda allt annan lyftara á nauðungaruppboðið sem fram fór 11. desember 1993. Stefndi hafi því fengið andvirði lyftarans greitt við sölu til Auðbjargar ehf. Stefndi hafi engu að síður krafið stefnanda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs, en talið stefnanda trú um að lyftarinn hafi verið seldur á uppboði og aðeins fengist 126.059 krónur fyrir hann.

               

Til vara byggir stefnandi dómkröfu sína á þeirri málsástæðu, að hið stefnda félag hafi svikið það samkomulag, sem gert hafði verið um riftun kaupanna.

               

Þar sem lyftarinn hafði verið afhentur hinu stefnda félagi, þá hafi stefnda átt að eiga frumkvæði að því að láta meta lyftarann til verðs. Er um það vísað til grunnreglna kröfuréttar um tilkynningar, sem og til 52. greinar kaupalaga og 60. greinar sömu laga. Eftir að lyftarinn hafi verið seldur 3ja aðila, hafi ekki verið mögulegt fyrir stefnanda að láta meta lyftarann til verðs og á því eigi hið stefnda félag sök. Af þeim ástæðum hafi viðtaka hins stefnda félags á lyftaranum verið endanlegt uppgjör þess riftunarsamnings, sem aðilar þessa máls hafi sannanlega staðið að. Bendir stefnandi á, að hið stefnda félag geti auðveldlega lagt fram reikning eða kaupleigusamning til Auðbjargar ehf., Grindavík og afsannað með því að lyftarinn hafi ekki verið seldur þangað fyrir hærri fjárhæð en krafan er í þessu máli.

               

Stefnandi byggir einnig á, að skv. grunnreglu lögfræðinnar haldi menn  ekki ólögmætum ávinningi. Eigi því stefnandi rétt á endurgreiðslu, eins og í dómkröfum greinir. Engin forsenda hafi verið fyrir kröfu hins stefnda félags. Þá hafi greiðslan sannanlega verið greidd með fyrirvara, eins og fallist sé á í greindum hæstaréttardómi.

               

Stefnandi styður dómkröfur sínar aðallega við almennu skaðabótaregluna. Þá vísar stefnandi til 10. gr. kaupalaga nr. 39/1922, sbr. 17. gr. s.l. grunnraka 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991. Við aðalmeðferð lét stefnandi bóka að hann bæri einnig fyrir sig 3. mgr. 69. gr., sbr. 57. gr. laga nr. 90/1991 til grundvallar málsástæðu sinni.

               

Stefndi kveður það algeran misskilning að hann hafi selt umræddan lyftara til Auðbjargar ehf. og sett einhvern annan lyftara á uppboðið. Í því sambandi vísar stefndi til gagna málsins og vitnaleiðsla. Í forsendum og niðurstöðum er gerð frekari grein fyrir þessum þætti málsins. Stefndi bendir á, varðandi aðrar málsástæður stefnanda, að um þær hafi þegar verið fjallað á tveimur dómstigum og komi þær því ekki til álita í þessu máli vegna res judicata áhrifa.

               

Fyrir dóminn hafa komið Gísli Garðarsson, verkstjóri hjá Sölufélagi Austur-Húnvetninga, Bjarni Bentsson, deildartæknifræðingur hjá Vinnueftirliti ríkisins, Magnús Guðmundsson, starfsmaður Vinnueftirlits ríkisins, Gísli V. Guðlaugsson, framkvæmdarstjóri stefnda og Kristinn Ólafur Ólafsson, starfsmaður Vöruflutninga-miðstöðvarinnar hf.

III.

Nokkur gagnaöflun hefur farið fram um þá meginmálsástæðu stefnanda að stefndi hafi beitt blekkingum og selt rangan vörulyftara nauðungarsölu við uppboð sýslumannsins í Reykjavík 11. desember 1993. Vörulyftari sá, sem stefnandi keypti og endursendi stefnda síðar, var af gerðinni Steinbock. Fram hefur komið að stefndi sótti lyftarann á Vöruflutningamiðstöðina þann 10. desember 1993. Þá hefur komið fram í málinu að Auðbjörg hf. keypti vörulyftara af stefnda. Var sá lyftari af gerðinni STILL-14 og var afhentur Auðbjörgu hf. 25. júní 1993. Samkvæmt ljósriti úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík var Steinbock-lyftari seldur á uppboðinu 11. desember 1993, talin eign Bergey hf. Þá hefur einnig komið fram í málinu að stefndi tók veltibúnaðinn af lyftaranum og seldi hann síðan til Sölufélags Austur-Húnvetninga. Vitnið Gísli Garðarsson, verkstjóri hjá Sölufélagi Austur-Húnvetninga, hefur borið að félagið hafi keypt vörulyftara af sömu gerð og tegund og stefnandi Bergey ehf. átti, þ.e. Steinbock-dísellyftara með 2,5 tonna lyftigetu.

               

Af framlögðum gögnum og framburði vitna hér fyrir dómi má ráða að mistök hafi orðið við skráningu lyftarans hjá Vinnueftirliti ríkisins. Var Steinbock-lyftarinn fyrst skráður á númerin JL-595 þegar hann var í eigu Bergeyjar ehf. Still-lyftarinn, sem Auðbjörg hf. keypti, fékk einnig sama skráningarnúmer. Voru þannig tveir lyftarar af sitt hvorri gerðinni skráðir með sömu skráningarauðkenni hjá Vinnueftirliti ríkisins. Við skoðun Vinnueftirlits þann 3. október 1995 og 8. nóvember 1995 mun hafa komið í ljós að um ranga skráningu var að ræða og fékk Steinbock-lyftarinn eftir það skráningarnúmerið JL-1724.

               

Af framansögðu verður talið ósannað að að stefndi hafi beitt svikum enda í ljós leitt að um skráningarmistök var að ræða.

Eins og framan er rakið er þetta í annað sinn sem stefnandi höfðar skaðabótamál á hendur stefnda vegna viðskipta þeirra um vörulyftarann. Um sama sakarefnið er að ræða en nú byggt á nýjum málsástæðum að hluta.  Í dómi Hæstaréttar 13. nóvember 1997 í málinu nr. 449/1996 var greint á milli málsástæðna stefnanda. Krafa stefnanda um skaðabætur úr hendi stefnda vegna mistaka við framkvæmd nauðungarsölu á lyftaranum var talin reist á 2. mgr. 86. gr. laga nr. 90/1991 og henni vísað frá dómi samkvæmt 88. gr. laga nr. 90/1991 þar sem þriggja mánaða frestur til málshöfðunar var liðinn. Krafa stefnanda var að öðru leyti talin dómtæk, en sú krafa byggðist á sakarreglunni, að stefndi hefði unnnið stefnanda tjón með framferði sínu. Málsástæður stefnanda voru þá m.a. þær, að viðskipti aðila hafi endanlega verið gerð upp með því að stefnandi endursendi lyftarann og að kaupin hafi með því gengið til baka. Þesssar kröfur fengu efnislega umfjöllun  í Hæstarétti og voru ekki teknar til greina.

Mál það, sem hér er til meðferðar, höfðar stefnandi á sama grunni og áður, að stefndi hafi unnið honum tjón með framferði sínu. Þegar litið er til þess, sem að framan er rakið, er það mat dómsins, að þegar hafi verið lagður fullnaðardómur á þetta sakarefni, sem kröfugerð stefnanda hér fyrir dómi lýtur að. Þykja  ákvæði 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standa í vegi fyrir því, að dómkröfur stefnanda í þessu máli verði á ný teknar til efnislegrar meðferðar. Ekki þykir skipta máli þó að stefnandi byggi málssókn sína nú að hluta til á nýjum málsástæðum og lagaatriðum. Verður talið að þessi atriði hefðu öll mátt koma fram í fyrra máli.  Máli þessu verður því vísað frá dómi. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.