Hæstiréttur íslands
Mál nr. 290/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Tilraun
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 30. október 2003. |
|
Nr. 290/2003. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Ómari Vali Erlingssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Tilraun. Miskabætur.
Í héraðsdómi var Ó sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar og dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Ó krafðist aðallega ómerkingar dómsins þar sem málið hefði ekki verið flutt fyrir fjölskipuðum héraðsdómi. Ekki var fallist á kröfuna þar sem sönnunarstaða í málinu þótti með öðrum hætti en venjulegt væri í málum af sama toga, en fjögur vitni hafi verið að samskiptum Ó og brotaþola í málinu og framburður þeirra skýr og öruggur um það sem máli skipti. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með þeim viðbótarrökstuðningi að við refsiákvörðun væri horft til ungs aldurs Ó.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. júlí 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess, að sakfelling ákærða verði staðfest, refsing hans þyngd og hann dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur.
Ákærði krefst þess aðallega, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar málsmeðferðar. Til vara krefst hann sýknu og til þrautavara mildunar refsingar. Þá krefst hann þess, að skaðabótakröfu Y verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
Aðalkrafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun er reist á því, að héraðsdómur hafi ekki verið fjölskipaður, þótt ákærði hafi frá upphafi neitað sök, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum. Í fyrrnefnda ákvæðinu er að finna heimild fyrir dómara til að taka með sér tvo aðra héraðsdómara til setu í dómi, en slíkt ræðst af aðstæðum hverju sinni. Eins og lýst er í héraðsdómi er sönnunaraðstaðan í máli þessu með öðrum hætti en oftast er í málum af sama toga, en fjögur vitni voru að samskiptum ákærða og brotaþola, og er vitnisburður þeirra skýr og öruggur um það, sem máli skiptir. Ekki verður talið, að sýnt hafi verið fram á það, að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar sé röng svo að einhverju skipti um úrlausn málsins. Eru engin efni til að fallast á ómerkingarkröfu ákærða.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og færslu brots hans til refsiákvæðis.
Ranglega er sagt í héraðsdómi, að dómur frá 24. júní 2002, fangelsi í 4 mánuði, hafi verið staðfestur í Hæstarétti. Rétt er, að dómur héraðsdóms 26. mars 2002 um 6 mánaða fangelsi var staðfestur í Hæstarétti 31. október 2002. Í þeim dómi var skilorðsdómur frá 29. janúar 2002 dæmdur með, en í þeim dómi hafði skilorðsdómur frá 29. nóvember 2001 verið dæmdur með. Refsing, sem dæmd var 24. júní 2002, var sögð ákveðin sem hegningarauki að hluta. Síðastnefndur dómur var kveðinn upp meðan dómurinn frá 26. mars 2002 var undir áfrýjun. Ákærði hafði ekki náð 18 ára aldri, þegar hann framdi brot þau, sem hann var sakfelldur fyrir í framangreindum dómum. Ákærði gekkst undir sátt 17. desember 2002, 100.000 króna sekt, auk sviptingar ökuréttar í 12 mánuði fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr., 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákærði hlaut dóm 3. febrúar 2003, fangelsi í 60 daga, fyrir þjófnað og brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf, og var þar um hegningarauka að ræða við dóminn frá 24. júní 2002. Síðast hlaut hann dóm 4. apríl 2003, 30 daga fangelsi, sem einnig var hegningarauki.
Með vísan til ungs aldurs ákærða og skírskotun til forsendna héraðsdóms verður ákvörðun hans um refsingu ákærða staðfest.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð sálfræðings 30. september 2003, sem staðfestir, að brotaþoli hafi komið í 6 viðtöl, sem sýni að hún eigi enn nokkuð í land með að ná sér eftir brot ákærða. Rétt þykir að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um fjárhæð miskabóta til brotaþola, en dráttarvextir dæmast frá 5. desember 2002, er mánuður var liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar í héraði þar með talin þóknun réttargæslumanns brotaþola, en málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti ákveðast í einu lagi, svo sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ómar Valur Erlingsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola í héraði, Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 400.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Ákærði greiði Y 300.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. desember 2002 til greiðsludags.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2003.
Málið er höfðað með ákæruskjali, dags. 7. apríl 2003, á hendur: Ómari Val Erlingssyni, [kt. og heimilisfang],
„fyrir tilraun til nauðgunar, með því hafa að morgni sunnudagsins 7. júlí 2002, í tjaldi á [A], með ofbeldi og hótunum um ofbeldi reynt að þröngva Y, til samræðis og annarra kynferðismaka.
Telst þetta varða við 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 4071992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Y krefst miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 úr hendi ákærða auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. júlí 2002 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.“
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að verði ákærði sakfelldur þá verði háttsemi hans felld undir 195. gr. almennra hegningarlaga og að bótakrafa stórlega lækkuð. Þá verði sakarkostnaður, þ. m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, greiddur úr ríkissjóði.
Málavextir.
Helgina 5-7 júlí 2002 var haldið hestamannamót á A. Sunnudaginn 7. júlí, kl. 9.45, barst lögreglu tilkynning um kynferðisbrot á hjólhýsasvæði staðarins. Tveir lögreglumenn, þeir Sigurbjörn Þorgeirsson og Guðmundur Páll Jónsson, sem voru við löggæslu á svæðinu, fóru að sinna útkallinu og komu þeir að vörmu spori á staðinn. Þar hittu þeir fyrir V1 sem kvaðst hafa tilkynnt um atvikið og gaf hann stutta skýrslu um hvað gerst hefði. Einnig höfðu lögreglumennirnir tal af vitnum, V2, Y, V3 og V4. Þá skoðaði lögreglan meintan brotavettvang, þar á meðal tjald, og tók ljósmyndir af vettvangi. Var tjaldið haldlagt og munir sem í því voru skráðir en þar reyndist vera, auk venjulegs viðlegubúnaðar, kvenmannsnærbuxur [...], hálf bjórflaska og fleira. Á vettvangi var ákærði Ómar Valur handtekinn og var hann sagður ölvaður og í annarlegu ástandi. Hann var klæddur í svarta rúllukragapeysu og dökkgráar buxur og reyndist vera með nærbuxur sínar í vasanum. Var ákærða tekið blóð til alkóhólrannsóknar og hann færður í fangaklefa.
Y, meintur brotaþoli í málinu, var í mikilli geðshræringu og reyndist ekki unnt að ræða við hana. Bar hún að hún hefði látið tilleiðast að fara með ákærða inn í tjald, sem hún vissi ekki hver ætti, í þeim tilgangi að spjalla við hann. Eftir stutta stund hafi ákærði orðið ágengur og haft í hótunum við hana um að hann skyldi beita líkamlegu ofbeldi ef hún léti ekki að vilja hans. Hún hafi orðið dauðskelkuð og hrópað og kallað og hefði loks kona ein, V3, komið og bjargað sér.
Þá kom fram að samkvæmt framburði V1 hefði hann, V3, V4 og V2 heyrt öskur og læti frá tjaldi sem var við hliðina á þeirra tjöldum. Hefði V3 farið að tjaldinu og opnað það og hefði þá allsnakin kona komið út úr því í mikilli geðshræringu og beðið um hjálp. V1 kvaðst hafa séð ákærða inni í tjaldinu og hefði hann verið klæða sig í föt. Ákærði hafi skömmu síðar komið út úr tjaldinu og ætlað að ganga í burtu en V2 meinað honum það. Hafi ákærði viljað slást en þeir snúið hann niður og haldið honum.
Þá var bókaður framburður V2 sem kvaðst hafa heyrt öskur og læti og heyrt að konan sagði: „Viltu drulla þér út.“ og stuttu síðan hafi hann heyrt karlmann segja: „Hver heldur þú að trúi þér þó að þú kærir mig fyrir nauðgun .“
Vitnið V3 bar að hún hefði heyrt konuna segja með reglulegu millibili „nei, ég vil það ekki“ og „ég ætla að fara núna.“ Stuttu síðar hafi hún heyrt konuna segja: „Hleyptu mér út.“ „Drullaðu þér út.“ Síðan: „Ef þú hleypir mér ekki út þá kæri ég þig fyrir nauðgun.“ Hafi þá ákærði sagt: „Hver heldurðu að trúi þér þó að þú kærir mig fyrir nauðgun?“
Samkvæmt frumskýrslu bar ákærði að hann hefði verið á gangi skömmu fyrir komu lögreglumannanna á staðinn. Kvað hann kærustu sína, Y, hafa verið með sér í tjaldinu skömmu áður og hefðu þau verið búin að vera saman í nokkurn tíma. Hann hafi sagst hafa haldið fram hjá henni um nóttina og hefði hún brjálast við það og þess vegna æpt „nauðgun, nauðgun.“
Sunnudaginn 7. júlí um kl. 16.13 var tekin lögregluskýrsla af ákærða sem kvaðst muna óljóst eftir málinu vegna ölvunar. Hafi hann verið að skemmta sér fram á morgun. Hann hafi hitt stúlku sem heiti B og hafi þau farið saman inn í tjald, þau hafi kysst og í framhaldi hafi þau fækkað fötum. Þegar þau hafi verið komin úr fötunum hafi stúlkan farið næstum því að grenja og ekki viljað hafa samfarir við hann. Hafi stúlkan beðið sig í nokkur skipti að láta sig í friði sem hann hafi svo gert. Skömmu síðar hafi einhver karlmaður opnað tjaldið og rifið hann út úr því. Hann kvaðst hvorki hafa beitt konuna ofbeldi né haft í hótunum við hana. Þá voru borin undir hann ummæli brotaþola og kannaðist hann ekki við það.
Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar reyndist alkóhól í blóði ákærða 1,35 pro. mill.
Samkvæmt skýrslu Edwards V. Kieran læknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, sem hann hefur staðfest fyrir dóminum, fór fram skoðun á stúlkunni skömmu eftir atburðinn. Þar var hún sögð yfirveguð og engin merki komu fram um ofbeldi. [...].
Ákærði greindi svo frá fyrir dóminum að hann hafi verið að skemmta sér með stúlkunni um nóttina. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn en muna atburðarásina. Þau hafi verið að ræða saman og síðan komið sér saman um að fara inn í tjald sem stúlkan hafi bent á og hafa kynmök. Þau hafi verið kominn úr að mestu leyti þegar stúlkan hafi „panikerað“ og ekki viljað hafa samfarir og byrjað að æpa. Hún hafi þá verið í bol, brjóstahaldara, nærbuxum og sokkum en hann í buxum. Ekki mundi ákærði hvert ágreiningefnið var. Ákærði kvaðst hafa opnað tjaldið og verið á leið út úr tjaldinu þegar ráðist hafi verið á hann og honum haldið. Ákærði kvað það vel getað verið að hann hafi boðið stúlkunni peninga fyrir að hafa við hann samfarir í tjaldinu en kvaðst ekki minnast þess að hafa boðið fé fyrir að honum yrði sleppt eftir að út kom. Kvaðst hann ekki minnast þess að til tals hafi komið í tjaldinu að hann hafi setið í fangelsi. Hann kvaðst hvorki hafa beitt stúlkuna ofbeldi né hótað henni. [...]. Hann kvað framburð vitna um að hann hafi verið nakinn í tjaldinu rangan og kannaðist ekki við framburð um orðaskipti hans og stúlkunnar sem um getur í frumskýrslu. Hann telur að þau hafi verið um 3-4 mínútur inni í tjaldinu.
Vitnið, Y, kærandi í málinu, kvaðst ekkert muna um aðdraganda þess að hún fór inn í tjaldið með ákærða. Kvaðst hún hafa verið að skemmta sér og neytt áfengis. Hún hafi hins vegar ekki verið með áfengi sjálf en fengið sopa hér og þar. Hún kvaðst ekkert muna eftir samskiptum við ákærða fyrr en í tjaldinu. Þá hafi ákærði legið ofan á henni og reynt að kyssa hana og hafi þau þá verið fullklædd. Hún hafi reynt að ýta honum frá sér en hann hafi haldið henni niðri og hafi hún þá glaðvaknað. Hann hafi síðan sagst ætla að nauðga henni og hafi hún ekki verið í neinum vafa um að ákærði hafi meint það sem hann sagði. Þar sem ekki hafi farið á milli mála hvað ákærði ætlaði sér þá hafi hún álitið best að hlýða honum. Hún hafi þó sagt honum að hætta og sagt nei en hún hafi hins vegar ekki öskrað. Ákærði hafi skipað sér að fara úr fötunum og klætt sig sjálfur úr um leið. [...] Hún hafi farið úr öllum fötunum en síðan hafi ákærði reynt að fá hana til að veita sér munnmök. [...]. Hún hafi orðið ofsahrædd og farið að gráta en skömmu síðar hafi tjaldið verið opnað og hún komist út. Hún kveðst lítið muna orðrétt af því sem vitni bera um orðaskipti þeirra í tjaldinu en taldi að hún hafi munað það betur þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Hún hafi hins vegar verið að reyna að gleyma þessu. Hún hafi orðið mjög tortryggin og vör um sig eftir atvikið en hún hafi þó ekki leitað aðstoðar fagaðila. Orðaði hún það svo að öryggistilfinning hennar sé nánast horfin.
Vitnið, Sigurbjörn Þorgeirsson lögreglumaður, staðfesti frumskýrslu sína fyrir dóminum. Kvaðst hann hafa komið á staðinn ásamt Guðmundi Páli og hitt þar fyrir tilkynnanda, V1. Hann kvaðst hafa rætt við ákærða á staðnum sem hafi sagt sér að stúlkan væri kærasta sín en þeim hefði sinnast. Nánar aðspurður hafi hann þó ekkert vitað um stúlkuna og gat ekkert upplýst um samband þeirra. Stúlkan hafi verið í mikilli geðshræringu og sagst hafa látið til leiðast að fara inn í tjaldið með ákærða. Þegar inn kom hafi framkoma ákærða breyst og hann haft í hótunum ef hún léti ekki að vilja hans og varnað henni útgöngu. [...]. Vitnið kvaðst hafa tekið upp orðrétt eftir vitnum á staðnum og fært í frumskýrslu. Hann kvað ákærða hafa sýnt sér nærbuxur sínar sem hann var með í vasanum.
Vitnið, Guðmundur Páll Jónasson lögreglumaður, bar á líkan hátt um aðkomu sína á vettvang og Sigurbjörn. Hann kvað stúlkuna hafa verið grátandi og í miklu uppnámi. Hafi hún sagt að ákærði hafi haft í hótunum við sig og ætlað að hafa við hana samfarir. Ákærði hafi sagt á staðnum að stúlkan væri kærasta sín og þau hafi farið inn í tjaldið sitt. Hún hafi ekki viljað hafa samfarir við hann og hafi hann þá hætt við að reyna það. Félagi hans hafi rætt við vitni á staðnum [...]. Ákærði hafi verið talsvert ölvaður en rólegur.
Vitnið, V3, kvaðst hafa verið sofandi ásamt manni sínum, V4, og börnum þeirra í tjaldi í nokkurra metra fjarlægð frá tjaldi því sem atburðir gerðust í. Hún hafi vaknað við samræður ákærða og stúlkunnar fyrir utan og hafi ákærði verið að reyna að fá hana inn í tjaldið. Hafi hann beitt fortölum eins og „Gerðu það ég þarf að tala við þig, ég þarf að tala við þig o. fl.“ Síðan hafi þau greinilega verið komin inn í tjaldið þegar ákærði hafi spurt hvort hann mætti kyssa hana en hún svarað því neitandi. Hann hafi haldið áfram að nauða í henni og m. a. boðist til að gefa stúlkunni síma ef hann mætti kyssa hana. Vitninu kvaðst hafa fundist mjög óþægilegt að hlusta á þetta. Síðan hafi orðræður magnast og hafi stúlkan m.a. viljað að ákærði hleypti sér út en hann neitað því og sagt: „Þú vilt þetta“ en stúkan svarað að hún vildi þetta ekki. Hafi ákærði sagst nýlega verið sloppinn út úr fangelsi og að hann þyrfti að fá að gera þetta. Stúlkan hafi greinilega reynt allt til að komast út m.a. sagst þurfa á klósettið, en hann hafi alltaf neitað. Hafi vitnið heyrt að eitthvað var farið að ganga á í tjaldinu, eins og einhverju væri hent til. Hafi ákærði sagst ætla að ríða henni. Stúlkan hafi síðan sagt að hún myndi kæra hann fyrir nauðgun ef hann hleypti henni ekki út. Hafi ákærði þá svarað: “Hver heldur þú að trúi þér þú ert bara stelpa“. Hafi vitninu þá verið nóg boðið og ákveðið að skipta sér af málinu. Hafi hún farið út og rifið upp tjaldið. Stúlkan hafi þá verið afkróuð fyrir innan ákærða og hafi þau bæði verið nakin. Ákærði hafi þegar byrjað að klæða sig í buxur en stúlkan hafi stokkið út nakin. Vitnið kvaðst hafa klætt stúlkuna í samfesting. Ákærði hafi komið út úr tjaldinu og verið gripinn. Stúlkan hafi verið grátandi og mjög miður sín eftir atvikið. Aðspurð kveðst vitnið ekki vita hversu lengi þau voru í tjaldinu en það hafi getað verið um 15 mínútur eða lengur. Vitnið staðfesti framburð sinn í lögregluskýrslu og kvaðst hafa munað þetta betur þegar hún var gefin.
Vitnið, V4, kvaðst hafa vaknað við orðaskipti utan við tjaldið og hafi ákærði verið að reyna með fortölum að fá stúlkuna inn í tjald sem hafi verið við hliðina. Hafi ákærði sagst ætlað að sýna henni eitthvað en ekki hafi verið minnst á kynlíf í því sambandi. Þegar inn í tjaldið kom hafi ákærði gerst ágengur og komið hafi skýrt fram að hann ætlaði að fá hana til kynmaka. Hafi hann m.a. boðið stúlkunni peninga fyrir að sofa hjá sér. Hafi stúlkan neitað því og hafi hún verið farin að gráta. Hafi hún sagt ákærða að sleppa sér og hleypa sér út. Þá hafi hún sagst kæra hann fyrir nauðgun. Hafi ákærði svarað að það myndi ekki þýða neitt þar sem enginn myndi trúa henni. Þeim hjónum hafi ofboðið og ákveðið að hafa afskipti af málinu. Hafi konan farið á undan en vitnið klætt sig og komið út rétt á eftir. Þá hafi stúlkan verið komin út nakin en maðurinn í kominn út og verið í fötum. Stúlkan hafi verið grátandi og í miklu uppnámi. Vitnið kvað kunningja þeirra hafa haldið ákærða sem hafi sagt að hann og stúlkan hafi þekkst fyrir og verið saman. Aðspurður taldi vitnið atburðarásina hafa staðið í allt að hálfan tíma.
Vitnið, V2, var staddur í tjaldvagni ásamt V1 og fleiri aðilum. Kvaðst hann hafa orðið var við mikið brambolt í tjaldi skammt frá eins og fólk væri að veltast um í slagsmálum. Hafi hann farið inn í tjaldvagninn og ætlað að vekja athygli á því að eitthvað væri um að vera í tjaldinu. Hann hafi síðan farið út aftur til að fylgjast með og hafi hann þá heyrt úr tjaldinu: „Hver heldur þú að trúi þér þótt þú kærir mig fyrir nauðgun.“ Í því hafi V3 komið og rifið upp tjaldið. Þá hafi stúlkan stokkið út, allsnakinn og hágrátandi. Hafi V3 sagt ákærða að drulla sér út úr tjaldinu. Vitnið kvaðst hafa staðið og beðið um stund en þá hafi ákærði komið út í svörtum joggingbuxur en ber að ofan. Þar sem ákærði hafi gert sig líklegan til að fara hafi vitnið snúið hann niður í jörðina og sagt ætla að halda honum þar til lögreglan kæmi. Ákærði hafi fyrst verið æstur en síðan róast og beðið um að fá að klæða sig. Þá hafi hann boðið vitninu peninga ef hann fengi að sleppa. Þegar það gekk ekki hafi hann sagt að stúlkan væri kærasta sín og þeim hefði sinnast vegna afbrýðisemi hennar.
Vitnið, V1, kvaðst hafa farið um áttaleytið um morguninn á salerni og hafi hann þá séð ákærða og stúlkuna skammt frá og hafi verið ljóst að ákærði var að reyna við hana. Vitnið kvaðst hafa farið aftur inn í tjaldvagninn og komið út síðar og farið að bílnum. Hann hafi séð þegar V3 opnaði tjaldið og stúlkan kom nakin út. Ákærði hafi verið nakinn inni í tjaldinu, en með eitthvað yfir neðri hluta líkamans. Hann hafi þó séð bert upp að hnjám. Ákærði hafi greinilega klætt sig í buxur og komið þannig út, en einnig hafi hann verið ber að ofan þegar V2 sneri hann niður. Ákærði, sem hafi verið í annarlegu ástandi, hafi þá boðið V2 peninga fyrir að sleppa sér.
Niðurstaða.
Ákærði neitar sök í málinu. Hefur hann borið að hann og stúlkan, sem hann hitti þá um nóttina, hafi sammælst um að fara í tjald til að hafa kynmök. Henni hafi síðan snúist hugur og hafi hann verið á leið út úr tjaldinu þegar ráðist var á hann. Hann hafi þá verið í buxum og stúlkan í bol, brjóstahaldara, nærbuxum og sokkum. Ákærði kvaðst hvorki hafa beitt stúlkuna ofbeldi né hótað henni.
Stúlkan hefur ekkert getað upplýst um það sem gerðist áður en í tjaldið kom. Hins vegar ber vitnunum V3, V4 og V1 saman um að ákærða hafi með fortölum tekist að fá stúlkuna inn í tjaldið. Stúlkan hefur lýst því þegar hún mundi eftir sér í tjaldinu við að ákærði lá ofan á henni og reyndi að kyssa hana. Hann hafi haldið henni niðri og sagst ætla að hafa við hana samfarir en hún hafi stöðugt neitað. Hann hafi skipað henni að afklæðast og hafi hún hlýtt af ótta við ákærða, léti hún ekki að vilja hans. [...]. Ákærði hafi þrifið í hár hennar og reynt að fá hana til að veita sér munnmök eftir að hafa afklæðst sjálfur. Hún hafi orðið ofsahrædd og farið að gráta. Rakinn hefur verið framburður vitnanna V3 og V4 sem heyrðu það sem fram fór í tjaldinu. Báru þau að stúlkan hafi reynt að sleppa frá ákærða sem ætlaði að hafa við hana samfarir gegn vilja hennar. Hafa vitnin greint orðrétt frá samskiptum ákærða og stúlkunnar, svo sem að stúlkan hafi sagst myndu kæra hann fyrir nauðgun að ákærði sagði að það myndi engin trúa henni þótt hún kærði hann fyrir nauðgun. Ennfremur heyrðu þau að ákærði beitti þeim rökum fyrir athöfnum sínum að hann hafi verið í fangelsi og þyrfti því að hafa við hana samfarir en ákærði hafði nokkrum dögum áður verið leystur úr gæsluvarðhaldi. Vitnið V3 lýsti því sem fer augu bar þegar hún opnaði tjaldið en þá hafi stúlkan verið afkróuð fyrir innan ákærða og hafi þau bæði verið nakin. Alls fjögur vitni báru síðan um það hvernig stúlkan kom allsnakinn út úr tjaldinu og hafi hún þá verið grátandi og í miklu uppnámi. Þá bera vitni einnig um að ákærði hafi á þeirri stundu verið nakinn í tjaldinu.
Framburður ákærða hefur frá upphafi verið óstöðugur og ekki í neinu samræmi við það sem hér hefur verið rakið. Þykir hann ótrúverðugur í alla staði og ekkert unnt á honum að byggja. Framburður stúlkunnar hefur á hinn bóginn verið skilmerkilegur og trúverðugur um þau atriði sem hún kvaðst getað borið um enda studdur framburði vitna.
Eins og hér hefur verið rakið þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um brot það sem í ákæru greinir. Þykir brotið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. þeirra, svo sem það er réttilega heimfært til refsingar í ákæru.
Ákærði, sem fæddur er 14. maí 1984, hefur nokkurn sakaferil. Hann hlaut samkvæmt sakarvottorði sekt fyrir umferðarlagabrot 15. nóvember 2001. Í sama mánuði hlaut hann dóm, 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir þjófnaðartilraun. Hann hlaut dóm 29. janúar 2002, 75 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir þjófnaði, og var fyrri dómurinn þá dæmdur upp. Þann 26. mars 2002 var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnaði, eignaspjöll, nytjastuld og húsbrot. Var þá skilorðsdómurinn frá því í janúar dæmdur upp. Hann hlaut dóm 24. júní 2002, fangelsi í 4 mánuði fyrir, rán, þjófnað og fjársvik, og var sá dómur staðfestur í Hæstarétti. Ákærði var undir 18 ára aldri þegar hann hlaut þessa dóma. Ákærði gekkst undir sátt 17. desember 2002, 100.000 króna sekt auk sviptingar ökuréttar í 12 mánuði fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Ákærði hlaut dóm 3. febrúar 2003, fangelsi í 60 daga, fyrir þjófnað og brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf og var þar um hegningarauka að ræða við dóm frá 24. júní 2002. Síðast hlaut hann dóm 4. apríl sl. 30 daga fangelsi sem einnig var hegningarauki. Refsing ákærða nú er hegningarauki við dóm frá 24. júní 2002 og síðari dóma og sátt, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði braut freklega gegn kynfrelsi brotaþola með lítilsvirðandi athöfnum sínum og valdbeitingu. Þá varð hann ekki við þrábeiðni hennar um að hleypa sér út úr tjaldinu. Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfileg ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Í málinu hefur Steinunn Guðbjartsdóttir hæstaréttarlögmaður gert kröfu um skaðabætur f.h. brotaþola að fjárhæð kr. 1.000.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. júlí 2002 til greiðsludags ásamt greiðslu vegna lögmannsaðstoðar að mati dómsins. Byggist krafan á því að um hafi verið að ræða kynferðisbrot sem hafi haft í för með sér miskatjón. Við mat á fjárhæð beri að líta til huglægrar upplifunar brotaþola og þess hversu alvarlegt brotið hafi verið. Ljóst sé að brotaþoli hafi orðið fyrir andlegu og líkamlegu áfalli við brotið, henni hafi liðið illa eftir atburðinn og fundið til óöryggis og hræðslu um öryggi sitt. Hún hafi verið algjörlega grandalaus að hún væri í nokkurri hættu stödd. Árásin hafi verið skipulögð og sök gerandans mikil og enginn vafi um ásetning hans til verksins.
Í málinu liggja ekki fyrir gögn um andlega líðan brotaþola í kjölfar verknaðar ákærða. Hins vegar er ljóst að hann er til þess fallinn að valda henni sálrænum erfiðleikum og þykir hún eiga rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993. Þykir bótafjárhæðin hæfilega ákveðin 300.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. desember 2002, en þann dag var ákærða kynnt bótakrafa brotaþola, til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur, svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Ómar Valur Erlingsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Ákærði greiði Y 300.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. desember 2002 til greiðsludags.