Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð


Mánudaginn 13

 

Mánudaginn 13. maí 2002.

Nr. 219/2002.

Sigríður Eysteinsdóttir

(Magnús Ingi Erlingsson hdl.)

gegn

Þóri Erni Ingólfssyni og

Örnu Arnardóttur

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Kærumál. Innsetningargerð.

S krafðist þess að henni yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð umráð yfir tiltekinni geymslu. Skilyrðum beinnar aðfarargerðar á grundvelli 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 var ekki talið fullnægt og varhugavert þótti að láta gerðina ná fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. sömu laga. Kröfu S var því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. maí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að henni yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð umráð yfir geymslu merktri nr. 01-14 í húsinu að Skúlagötu 32 í Reykjavík. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreind aðfarargerð verði heimiluð og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sigríður Eysteinsdóttir, greiði varnaraðilum, Þóri Erni Ingólfssyni og Örnu Arnardóttur, hvoru fyrir sig 35.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

                Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 11. janúar sl.

                Gerðarbeiðandi er Sigríður Eysteinsdóttir, kt. 170460-3329, Skúlagötu 32, Reykjavík.

                Gerðarþolar eru Þórir Örn Ingólfsson, kt. 070770-3939, og Arna Arnarsdóttir, kt. 101071-5889, bæði til heimilis að Skúlagötu 32, Reykjavík.

                 Dómkröfur gerðarbeiðanda eru þær að að geymsla merkt 01-14 í húsinu nr. 32 við Skúlagötu í Reykjavík, verði afhent honum með beinni aðfarargerð.  Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar að mati dómsins, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

                Gerðarþolar krefjast þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað.  Þá krefjast þeir þess að gerðarbeiðandi verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar, að teknu tilliti til skyldu gerðarþola til greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun samkvæmt mati dómsins.

                Í munnlegum flutningi málsins kröfðust gerðarþolar þess jafnframt að málskot til Hæstaréttar frestaði aðfarargerð, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.  Gerðarbeiðandi mótmælti kröfunni sem of seint fram kominni.

                Málið var tekið til úrskurðar 11. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi.  Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 áður en úrskurður var kveðinn upp.

I

Gerðarbeiðandi kveðst hafa fest kaup á íbúð merktri 0l-04-03 í húsinu nr. 32 við Skúlagötu í Reykjavík, með kaupsamningi dags. 19.1.2001. Seljandi var Byggingarfélagið Klöpp ehf. Í skiptasamningi um nefnda eign sem sé hluti kaupsamnings þessa komi fram eftirfarandi lýsing um þá eignarhluta og hlutdeild í sameign hússins sem fylgi eigninni:

119,7 m2 íbúð á 4. hæð merkt á teikningu 04-03, ásamt 7,8 m2 geymslu á fyrstu hæð merkt á teikningu 00-14 og hlutfallsleg eign í sameign sumra, Y3 og í sameign allra í matshlutanum og í lóðinni.

Fljótlega eftir að íbúðin hafi verið afhent hafi komið í ljós að geymsla sú er gerðarbeiðandi hafi fengið lykil af hafi ekki verið geymsla hennar heldur hafi hún tilheyrt annarri eign eða eign sem merkt sé 0l-03-04 en henni sé þannig lýst í sama eignaskiptasamningi:

73,9 m2 íbúð á 3. hæð merkt á teikningu 03-04 ásamt 6,4 m2 geymslu á fyrstu hæð merkt á teikningu 00-13 og hlutfallsleg eign í sameign sumra, Y3 og í sameign allra í matshlutanum og í lóðinni.

Þegar þetta hafi verið ljóst hafi gerðarbeiðandi sent seljanda eignarinnar bréf og krafist afhendingar á réttri geymslu, sbr. bréf dags. 16.6.2001.  Þá hafi gerðarbeiðandi haft samband við gerðarþola með tölvupósti dags. 8.6.2001, og óskað eftir afhendingu geymslunnar.  Kröfum gerðarbeiðanda um afhendingu geymslunnar merkt 00-14 gegn afhendingu geymslu merktri 00-13 hafi á hinn bóginn í engu verið sinnt.  Þá hafi verið send áskorun um afhendingu bæði til gerðarþola í ábyrgð og seljanda eignarinnar en það hafi ekki borið árangur, sbr. bréf dags. 1.11.2001.  Hafi þess verið getið í nefndum bréfum að atbeina sýslumanns yrði leitað að fengnum dómsúrskurði ef kröfu þessari yrði ekki sinnt.

Krafa um innsetningu byggi á skýlausum eignarrétti gerðarbeiðanda á nefndri geymslu.  Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

II

Gerðarþolar  kveðast hafa keypt af Byggingafélaginu Klöpp ehf. íbúð merkta nr. 0304 að Skúlagötu 32-34, með samningi dags. 22. mars 2000.  Þeirri íbúð hafi fylgt við kaupin sú geymsla er gerðarbeiðandi krefjist að verði afhent sér með beinni aðfarargerð.  Fyrir kaup gerðarþola á íbúðinni hafi forsvarsmaður seljanda upplýst að íbúðinni fylgdi geymsla á fyrstu hæð hússins, nánar tiltekið önnur geymsla hægra megin er gengið væri inn í geymslurými á fyrstu hæð.  Forsvarsmaður seljanda hafi sýnt gerðarþolum þá geymslu fyrir kaupin og jafnframt upplýst að eignaskiptasamningi fyrir húsið yrði breytt, m.a. fyrirkomulagi í geymslurými og merkingum geymsla. Hafi forsvarsmaður seljanda kveðið þinglýstan eignaskiptasamning ekki gilda um fyrirkomulag í geymslurými og um það hvaða geymsla fylgdi hverri íbúð.  Vegna þessa hafi eftirfarandi ákvæði verið sett í kaupsamning aðila:

Kaupanda er kunnugt um að vegna fyrirhugaðra breytinga á húsinu, m.a. vegna yfirbyggingar efstu hæðar ofl., stendur til að breyta teikningum og eignaskiptasamningi hússins.  Gerir kaupandi engar athugasemdir við þessar breytingar.

Gerðarþolar hafi keypt þá geymslu er gerðarbeiðandi kveði vera nr. 0114 skv. þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hafi gerðarþolar fengið þá geymslu afhenta með íbúðinni þann 1. maí 2000.  Þá geymslu hafi gerðarþolar nýtt frá þeim tíma og hafi engar athugasemdir verið gerðar af hálfu gerðarbeiðanda við þá nýtingu geymslunnar fyrr en þann 8. júní 2001 er gerðarbeiðandi óskaði eftir því að fá þá geymslu afhenta.  Þeirri kröfu hafi gerðarþolar hafnað frá upphafi og telji þeir rangt og a.m.k. ósannað að gerðarbeiðandi hafi fest kaup á þeirri geymslu er þau fengu afhenta þann l. maí 2001.  Gerðarþolar benda á að gerðarbeiðandi hafi fest kaup á íbúð nr. 01-04-03 með samningi við Byggingafélagið Klöpp ehf. þann 19. janúar 2001.  Þann sama dag hafi gerðarbeiðandi fengið íbúðina afhenta og jafnframt geymslu, sem gerðarbeiðandi hafi skoðað fyrir kaupin og hafi verið upplýst um að fylgdi íbúðinni.  Þá geymslu hafi hún nýtt án nokkurra athugasemda þar til í júní 2001, er hún hafi fyrst hreyft athugasemdum við gerðarþola.  Gerðarbeiðandi hafi því fengið afhenta íbúð og geymslu er hún hafi skoðað fyrir kaupin og keypt af seljanda. Þá liggi fyrir að forsvarsmaður seljanda hafi kynnt fyrir gerðarbeiðanda að sú geymsla, er gerðarbeiðandi hafi keypt og skoðað fyrir kaupin, væri ekki sú er greind væri á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, enda yrði þeirri yfirlýsingu breytt m.a. vegna yfirbyggingar efstu hæðar, en vegna yfirbyggingar hafi m.a. allt fyrirkomulag í geymslurými hússins breyst.  Á þeim tíma hafi seljandi lagt inn til byggingafulltrúa nýjar teikningar af húsinu, sem m.a. greini þær breytingar á geymslurými í húsinu.

Gerðarþolar vísa þessu til stuðnings m.a. til framlagðra teikninga, yfirlýsingar og útprentunar af tölvupósti frá seljanda til annars gerðarþola, dags. 24. janúar 2002. Þá vísa gerðarþolar til kaupsamnings við gerðarbeiðanda, en þar greini í lið nr. 24 að gerðarbeiðandi skuldbindi sig til að samþykkja breytingar á eignaskiptasamningi vegna tveggja íbúða er til standi að reisa í risi hússins.  Af ýmsum ástæðum hafi enn ekki verið gengið frá nýjum eignaskiptasamningi um húsið, og séu ástæður þess máli þessu óviðkomandi.

Gerðaþolar byggja á því að ekki séu skilyrði fyrir því að lögum að verða við kröfu gerðarbeiðanda, enda hafi hún sannarlega keypt þá geymslu er hún hafi nýtt frá 19. janúar 2001.  Gerðarþolar benda á að Byggingafélagið Klöpp ehf. hafi verið til þess bært að selja aðilum máls þessa þær geymslur er þeir hafi nýtt til þessa og sé aðalatriði málsins að aðilar þess hafi fengið afhentar þær geymslur er þeir hafi skoðað fyrir kaupin og upplýst hafi verið að fylgdu íbúðunum.  Gerðarþolar telji a.m.k. ljóst að ekki sé uppfyllt það lagaskilyrði "að krafa gerðarbeiðanda sé skýr eða ljós, að um skýlaus réttindi sé að ræða eða að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst, að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana", sbr. greinargerð með 78. og 79. gr. frumvarps til laga um aðför nr. 90/1989.

 

III

                Niðurstaða

                Framburður annars gerðarþola fyrir dómi og önnur gögn málsins bera með sér að ágreiningur er með aðilum um eignarrétt á geymslu þeirri er gerðarbeiðandi gerir kröfu um afhendingu á.  Gerðarþolar telja geymsluna tilheyra sinni íbúð þar sem þau hafi keypt hana í mars 2000 og notað síðan.  Það er ágreiningslaust að bæði gerðarbeiðandi og gerðarþolar fengu afhenta með íbúðum sínum þá geymslu sem þeir höfðu skoðað fyrir kaupin.  Þinglýstur eignaskiptasamningur fyrir húsið ber hins vegar með sér að aðrar geymslur tilheyri íbúðunum en afhentar voru.

Við gerð kaupsamninga vegna beggja eignanna lá fyrir að eignaskiptasamningi yrði breytt þar sem bæta ætti tveimur íbúðum við húsið.  Gerðarþolar hafa haldið því fram að við gerð kaupsamnings þeirra hafi teikningar með breyttri tilhögun geymslurýmis legið frammi.  Á þeim tíma höfðu nýjar teikningar verði lagðar fyrir byggingarfulltrúa til samþykktar.  Samkvæmt þeim teikningum eru merkingar á geymslum breyttar frá því sem var í eignaskiptasamningi.  Nýjum eignaskiptasamningi hefur enn ekki verið þinglýst, en nýjar teikningar hafa verið samþykktar með öðru fyrirkomulagi en greinir í eignaskiptasamningi.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga 90/1989 gildir það almenna skilyrði fyrir beinni aðfarargerð að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst að sönnur fyrir því verði færðar með þeim gögnum sem aflað verður fyrir dómi samkvæmt reglum 83. gr. sömu laga.

                Til þess að fá úr því skorið hver er réttur eigandi þeirrar geymslu sem krafist er afhendingar á, þarf að eiga sér stað umfangsmeiri sönnunarfærsla en heimilt er að beita í málum sem rekin eru samkvæmt 12. kafla aðfararlaga, sbr. 83. gr.  Þá er og til þess að líta báðir aðilar leiða rétt sinn af kaupsamningi við þriðja aðila, Byggingarfélagið Klöpp ehf.  Verður því ekki talið að fullnægt sé skilyrðum beinnar aðfarargerðar á grundvelli 78. gr. aðfararlaga og varhugavert þykir að láta gerðina ná fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. sömu laga.

Ber því að hafna kröfu gerðarbeiðanda um beina aðfarargerð á hendur gerðarþola, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

                Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kröfu gerðarbeiðanda, Sigríðar Eysteinsdóttur, um að henni verði með beinni aðfarargerð afhent geymsla merkt 01-14 í húsinu nr. 32 við Skúlagötu í Reykjavík, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.