Hæstiréttur íslands
Mál nr. 542/2005
Lykilorð
- Kynferðisbrot
|
|
Fimmtudaginn 15. júní 2006. |
|
Nr. 542/2005. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Stefáni Hjaltested Ófeigssyni (Brynjar Níelsson hrl.) (Ása Ólafsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot.
S var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlku með því að hafa þröngvað henni til samræðis og annarra kynferðismaka. Hann neitaði sök. Fjölskipaður héraðsdómur mat framburð stúlkunnar trúverðugan. Með hliðsjón af því og að teknu tilliti til þeirra líkamlegu áverka, sem voru á henni eftir dvölina hjá S, ástands hennar og andlegra erfiðleika eftir það, þótti hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi, sem honum var gefin að sök. Var S því sakfelldur í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti, fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga og dæmdur til að greiða stúlkunni 900.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. desember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar að nýju. Að því frágengnu krefst ákærði aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að kröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir aðalkröfu ákærða um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Stefán Hjaltested Ófeigsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 502.868 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. október 2004, er höfðað með ákæru útgefinni af Ríkissaksóknara 12. júlí 2005 á hendur ,,Stefáni Hjaltested Ófeigssyni [...] fyrir kynferðisbrot með því að hafa að morgni laugardagsins 27. nóvember 2004 á heimili sínu að [ ] með ofbeldi þröngvað A, [...], til samræðis og annarra kynferðismaka en samræðis er hann setti fingur í endaþarm hennar.“
Telur ákæruvaldið háttsemi þessa varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
A krefst miskabóta að fjárhæð 1.500.000 króna auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2004 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannskostnaðar.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara krefst verjandi lækkunar á bótakröfu.
Málsatvik.
Þann 23. mars 2005 lagði A fram kæru á hendur ákærða, fyrir kynferðisbrot að ..., síðustu helgi í nóvember 2004. Fyrir lögreglu greindi kærandi svo frá að hún hefði verið að skemmta sér, en um sexleytið 27. nóvember hafi hún og vinkona hennar, B, yfirgefið skemmtistað þann sem þær höfðu verið á. Kærandi kvaðst ekki hafa verið ofurölvi, en hún hafi verið undir áhrifum áfengis. Þá hafi hún hvorki verið undir áhrifum lyfja né fíkniefna. Kærandi kvað að þær vinkonur hafi ætlað heim til kæranda að [...] Þær hafi svo hitt ákærða á Laugaveginum og hann boðið þeim tveimur heim til sín að spila. Ákærði hafi haft á orði að hann væri verkfræðingur að mennt. Þær hafi þegið boð mannsins og farið heim til hans. Vinkonurnar hafi setið í sófanum og ákærði á móti þeim á stól. Þau hafi spilað í um eina klukkustund og drukkið hvítvín sem ákærði bauð þeim. Vinkona kæranda, B, hafi þurft að yfirgefa samkvæmið fyrr, þar sem hún hafi þurft að mæta til vinnu daginn eftir. Kærandi kvaðst einungis muna í ,,bútum“ það sem gerðist eftir að B yfirgaf þau og kvað kærandi að hana grunaði að ákærði hefði gefið henni eitthvað sljóvgandi í glasið. Það næsta sem kærandi muni, sé það að hún hafi ætlað að fara, en ákærði komið aftan að henni, haldið henni fastri með annarri hendi og farið inn á rassinn á henni með hinni og stungið fingri í endaþarm hennar. Það hafi verið mjög vont og hún hafi öskrað upp. Á meðan á þessu hafi staðið hafi ákærði sagt eitthvað ,,viðbjóðslegt“ við hana. Á svipuðum tíma hafi ákærði skellt henni upp að vegg og tekið hana kverkataki með báðum höndum. Hún hafi fengið köfnunartilfinningu og geri sér ekki grein fyrir hvort hún hafi misst meðvitund við þetta, en útiloki ekki að það hafi gerst. Það næsta sem hún muni sé að hún hafi legið flöt á kviðnum og ákærði hafi átt við hana mök, bæði um leggöng og endaþarm, gegn hennar vilja. Hún hafi öskrað og barist á móti, en ákærði samt haldið áfram. Kærandi kvaðst telja að ákærði hefði rétt verið búinn að girða niður um hana buxur og nærbuxur þegar mökin fóru fram, en hún hafi verið klædd að öðru leyti. Kærandi kvaðst telja að þetta hafi gerst í stofu íbúðar ákærða. Þá kvaðst kærandi muna að á einhverjum tímapunkti hafi hún legið í rúmi í svefnherbergi ákærða og ákærði við hlið hennar. Hafi þá kærandi verið í öllum fötum, nema skóm og peysu. Hann hafi sagt eitthvað hranalegt við hana og hent henni út. Kærandi kvaðst hafa verið hálfrugluð og dofin, hún hafi ráfað um miðbæinn og hitt einhvern strák sem hún hafi rætt við og minntist þess að hafa verið grátandi. Þá kvað hún einhverja lögreglumenn hafa gefið sig að henni og tekið hana inn í lögreglubíl við Snorrabraut. Þeir hafi spurt hana að því hvort eitthvað hefði komið fyrir, en kærandi kvaðst ekki muna hvaða frekari umræður hafi átt sér stað. Kærandi kvaðst hafa svarað spurningu lögreglumannanna neitandi og sagt að hún hefði verið að skemmta sér í miðbænum. Þetta hefði gerst í kringum hádegisbilið á laugardeginum. Kærandi kvað B hafa verið heima þegar kærandi kom aftur heim. B hafi spurt hana að því hvort eitthvað hefði gerst og hjálpað henni í náttföt. Kærandi hafi svo sótt hníf fram í eldhús og sagt við B að þeir væru að koma. Kærandi kvaðst ekki átta sig á því hvers vegna hún hefði sagt þetta. Kærandi kvaðst svo hafa sofnað, en þegar hún vaknaði hefði hún hringt í móður sína og farið að hágráta. Síðan hafi þær mæðgur farið á Landspítalann, þar sem kærandi gekkst undir læknisrannsókn. Kærandi kvað ákærða hafa hringt í hana um kl 16.00 næsta dag. Hann hafi sagt við kæranda að honum hefði litist vel á hana og vildi hitta hana aftur. Hún hafi sagt honum að hún vissi hvað hann hefði gert. Hefði hann farið að hlæja og spurt hana hvort hún væri brjáluð. Kærandi hafi svo gefið ákærða í skyn að hann kæmist ekki upp með þetta. Kærandi kvaðst hafa dregið að leggja fram kæru þar sem hún hefði talið að hann kæmist upp með þetta og myndi í framhaldi hlæja að henni. Starfsmaður Neyðarmóttöku hefði hins vegar haft samband við kæranda og sagt henni frá því að önnur kona hefði lent í sama manni og hefði starfsmaðurinn ráðlagt kæranda að hafa samband við lögfræðing vegna málsins. Í framhaldi af því kvaðst kærandi hafa tekið ákvörðun um að leggja fram kæru.
Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 9. apríl 2005 kvaðst ákærði hafa hitt tvær stúlkur í miðbæ Reykjavíkur milli kl. 6 og 7 um nótt helgi eina í nóvember 2004. Kvað ákærði að sig minnti að önnur stúlkan héti A. Hann kvaðst hafa boðið stúlkunum heim til sín. Þar hefði ákærði boðið stúlkunum hvítvín og þau hafi öll drukkið a.m.k. þrjú glös af hvítvíni. Þá hafi þau spilað Friendsspilið. Ákærði kvað vinkonu A hafa yfirgefið samkvæmið fljótlega, en þau A hafi haldið áfram að spila og drekka. Þau A hafi svo skyndilega farið að rífast, bæði í stofunni og í svefnherberginu, en ákærði kvaðst ekki muna um hvað þau hafi rifist. Hafi rifrildið endað með því að ákærði hafi vísað A á dyr og hún farið. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa átt kynferðisleg samskipti við A. Hann kvaðst þó eiga erfitt með að útiloka það vegna ölvunar. Ákærði kvað það hafa komið fyrir að hann hefði fengið ,,black out“ þegar hann fengi sér í glas. Ákærði kvaðst hafa farið að sofa eftir að A fór, en næsta dag hafi hann hringt í hana og viljað athuga hvort ekki væri í lagi með hana. Hún hafi virst vera í miklu uppnámi og spurt hann að því hvað hefði gerst og tjáð honum að hún væri með marbletti. Kvaðst hann þá hafa sagt henni að hann vissi ekki hvernig á því stæði. Hefði hún þá haft á orði að ákærði hefði sett eitthvað í drykkinn hennar. Sagðist ákærði hafa sagt að það væri ekki rétt, en síðan hefði A slitið samtalinu. Spurður sérstaklega um það hvort hann hefði sett eitthvað út í drykk A, kvaðst ákærði ekki hafa gert það. Þá kvað ákærði A hafa verið mjög ölvaða, hún hafi blaðrað út í eitt og verið orðin ótrúlega ,,hysterical“. Það hafi engan veginn verið hægt að ræða við hana, þannig að ákærði hafi beðið hana um að fara. Þegar ákærði var spurður um þann framburð A í lögregluskýrslu, að ákærði hefði komið aftan að A, haldið henni fastri og sett fingur í endaþarm hennar svaraði ákærði: ,,Ég man ekki eftir því að þetta hafi gerst“. Spurður um það hvort útilokað væri að þetta hefði gerst, svaraði ákærði: ,,Ég man ekki eftir þessu. Þar af leiðandi er illmögulegt fyrir mig að útiloka eitthvað“. Þá var ákærði spurður um þann framburð A, að hún myndi eftir að hafa legið á kviðnum á gólfi íbúðar ákærða og ákærði verið að hafa við hana nauðuga mök, bæði um leggöng og endaþarm. Hún hefði öskrað og barist á móti, en ákærði þrátt fyrir það haldið áfram. Svaraði ákærði þá: ,,Ég man ekki til þess að þetta hafi gerst“. Við lögregluyfirheyrslu 6. maí var ákærði, að viðstöddum verjanda sínum, spurður að því hvort hann vildi breyta eða bæta við fyrri lögregluskýrslu og kvaðst hann ekki vilja það.
Samkvæmt skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun, kom A á neyðarmóttöku LSH Fossvogi 28. nóvember 2004. Ástandi hennar við skoðun er lýst svo í skýrslunni: ,,Er mikið miður sín, þreytt og leið. Spennt og óttaslegin, óörugg, niðurlút og situr í hnipri og skelfur og vill helst sitja innvafin í teppi. Líður illa og upplifir óútskýrðan ótta og óhug og lýsir hræðslu við umhverfið og við að vera ein. Miklar minnisgloppur. Hvumpin og þolir illa kvenskoðunina og alla snertingu einkum á kynfærum, sérstaklega við endaþarm og innanverð læri“.
Strok var tekið frá endaþarmi og leggöngum í bómullarpinna. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík frá 17. maí 2005 fundust engin lífssýni í þeim sem nothæf voru til DNA kennslagreiningar. Þá var blóðsýni tekið úr A og sent til rannsóknar hjá lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands. Samkvæmt matsgerð fannst ekkert alkóhól í blóði hennar og engin ávana- og fíkniefni og var því niðurstaða matsgerðarinnar að hún hefði ekki verið undir áhrifum áfengis eða þeirra ávana- og fíkniefna og lyfja sem rannsóknin hefði náð til þegar blóðsýnið var tekið.
Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega rannsókn, undir kaflanum frásögn sjúklings segir eftirfarandi: ,,Frásögn er slitrótt og fást smá minnisbrot smátt og smátt. Fór út í gærkvöldi með vinkonu og drakk nokkra bjóra og um kl ca 06 hittu þær mann, ca 25-27 ára og tóku tal saman. Fóru að tala um spil og fóru þær heim til hans í íbúð í miðbænum að spila umrætt spil og bauð hann upp á hvítvín. Man svo lítið, en einhver minnisbrot, t.d. eftir að hafa setið í sófa móti honum og hann svo sest hjá henni og tekið utan um hana og svo minnisbrot um að hann hafi farið með höndina inn í buxurnar og í endaþarminn og var hún þá uppistandandi. Man ekki eftir neinu frekar sem gerðist né hvenær eða hvernig hún komst út. Man að hún gekk heim og sennilega eftir Snorrabraut að lögreglan stoppaði og talaði við hana. Kom svo heim og var vinkonan þá komin fyrir nokkru og sofnuð en vaknaði og fór bþ inn í eldhús og sótti hníf og setti við náttborðið og talaði um að hafa hann ef þeir kæmu. Fór á klósettið á einhverjum tímapunkti og heldur að það hafi verið eftir að heim kom og var þá aum í endaþarminum og blóð kom á pappír. Síðan þá fundið stöðugt til í endaþarminum og fullviss um að eitthvað hafi verið gert þar ... Áður fengið blackout en finnst þetta ekki líkt því. Finnur fyrir eymslum um allan skrokk, eins og eftir að hafa tekið á og er aum á hvirflinum og á mjaðmarspöðunum ... “
Áverkum brotaþola er lýst svo að hún hafi verið með auman blett á hvirfli, marblett á utanverðum hægri upphandlegg, marblett aftan á hægri olnboga, sem gæti vel komið heim og saman við þrýsting undan fingrum, nýlega rispu aftan á baki undir vinstra herðablaði, ferska húðblæðingu á vinstri mjöðm yfir mjaðmarspaða að framan, gæti stafað af þrýstingi, t.d. frá undirlagi eða einhverju sem liggur þétt að mjöðmunum, t.d. flík.
Þá er því lýst að við grindarbotnsskoðun hafi brotaþoli verið verulega aum yfir meyjarhaftskanti, vinstra megin, og þar er lýst vægum roða. Við skoðun endaþarms var ekkert athugavert að sjá með berum augum, en brotaþoli var verulega aum yfir hringvöðva.
Í niðurstöðum læknisins, Óskar Ingvarsdóttur, kemur fram að skoðun hafi leitt í ljós marbletti, t.d. á öðrum upphandlegg, sem geti vel verið eftir þéttingsfast grip og marbletti á mjaðmarspöðum sem geti verið eftir þrýsting, t.d. af buxnastreng eða af hörðu undirlagi. Ekkert komi fram sem rýri trúverðugleika. Ástand við skoðun og líðan við sögutöku bendi til upplifunar sem tengist sársauka og ótta.
Í skýrslu um endurkomu á neyðarmóttöku LSH 13. desember 2004, sem undirrituð er af Eyrúnu Jónsdóttur hjúkrunarfræðingi, er því lýst að brotaþoli sé mjög döpur og niðurdregin og að stutt sé í tárin. Hún sé með talsverð streitueinkenni og miklar endurupplifanir. Engar líkamlegar kvartanir, fyrir utan mikla vöðvaspennu og vanlíðan vegna þess. Þá sé brotaþoli á báðum áttum með hvort hún vilji leggja fram kæru, en það hafi hún ekki viljað gera áður vegna prófa í skóla. Hún hafi viljað einbeita sér að þeim. Hún hafi lýst smávegis sektarkennd, en segi þó að hún ætli ekki að láta atburðinn skemma meira fyrir sér. Henni finnist hún hafa glatað sjálfsvirðingu og finnist sem allir viti um atburðinn.
Í endurkomuskýrslu 31. mars 2005, sem undirrituð er af sama hjúkrunarfræðingi, kemur fram að brotaþoli sé döpur og finnist erfitt að taka málið upp aftur, hún hafi verið að reyna að gleyma atburðinum. Þó sé hún sátt við að kæra málið núna og finnist raunverulegra að málið geti fengið framgang nú. Hún sé með spennutengda kviðverki, oft með höfuðverk og vanlíðan. Hjá henni gæti meiri reiði en áður og dapurleika.
A sótti viðtöl hjá Heiðdísi Sigurðardóttur sálfræðingi frá janúar 2005 til júní 2005. Samkvæmt skýrslu hennar frá 25. október 2005, leiddi athugun hennar meðal annars í ljós endurteknar streituvekjandi minningar og hugsanir brotaþola um atvikið, endurtekin hliðrunarviðbrögð brotaþola. Þá hafi komið fram hjá brotaþola ákveðin sjálfsbjargarviðleitni, eins og hugsunin ,,verð að harka af mér”. Þá hafi gætt hjá brotaþola vissrar tilhneigingar til félagslegrar einangrunar. Einnig hafi hún verið dofin og sinnulaus gagnvart nánasta umhverfi, henni hafi gengið verr í skólanum og borið hafi á aukinni neyslu áfengis hjá brotaþola.
Í niðurstöðu sálfræðingsins segir að ofangreind einkenni hafi komið fram eftir meinta nauðgun og samræmist því að hún hafi lent í alvarlegu áfalli. Hliðrunarviðbrögð hafi verið mjög áberandi hjá brotaþola og upprifjun á atvikinu valdi miklu tilfinningaróti, hún hafi fengið tvö slæm kvíðaköst í byrjun október og hafi þurft að fara á slysadeild.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst hafa verið að skemmta sér umrædda nótt. Hann hafi hitt A og vinkonu hennar í miðbænum um hálfsjö eða sjö um morguninn og boðið þeim heim til sín í drykk og spil. Hann kvaðst ekki hafa þekkt þær áður. Þær hafi þegið boðið og hafi A verið áhugasamari um að fara með honum heim. Þau hafi setið við spil og ákærði kvaðst hafa boðið stúlkunum hvítvín úr kassa sem hann hafi geymt í ísskápnum í eldhúsinu. Ákærði kvaðst hafa gefið stúlkunum að minnsta kosti þrjú stór glös af hvítvíni. Síðan hafi vinkona A farið, en A og ákærði setið áfram við spil og drykkju. Allt í einu hafi þau farið að rífast, en ákærði kvaðst ekki muna um hvað. Fljótlega hafi ákærða orðið ljóst að ekki þýddi neitt að fá nokkra niðurstöðu í þetta rifrildi og ákærði beðið A að fara. Hún hafi ekki viljað það og hafi A elt ákærða inn í svefnherbergi. Ákærði hafi viljað fara að sofa og gripið í hendi A og leitt hana út, eða hálfpartinn hent henni út. Á sunnudeginum hafi ákærði hringt í A og viljað athuga hvort það væri í lagi með hana. Um kurteisissímtal hafi verið að ræða og hafi hann viljað athuga hvort hún hefði komist heim. A hafi strax spurt ákærða að því hvað hefði gerst og ákærði sagt A að þau hefðu verið að spila og síðan farið að rífast og ákærði hefði þurft að henda henni út. Þá hafi A spurt hvers vegna hún væri með marbletti og hafi ákærði sagt að hann vissi það ekki. A hafi sagt að hún myndi ekki hvað gerðist og tjáði ákærða að hún hefði farið á neyðarmóttöku LSH. Ákærði kvaðst þá hafa sagt við hana að ekkert hefði gerst, en A svarað, að það kæmi þá bara í ljós. Ákærði kvaðst muna alveg skýrt að A hafi verið fullklædd allan tímann, ekkert hafi gerst milli þeirra og þau hafi ekki einu sinni kysst, en ákærði kvaðst muna eftir því að þau hafi verið að rífast. Ákærði var spurður um framburð sinn hjá lögreglu 9. apríl 2005, að hann minntist þess ekki að hafa átt kynferðisleg samskipti við A, en hann ætti þó erfitt með að útiloka það vegna ölvunar. Kvað þá ákærði það ekki alveg rétt eftir sér haft og kvaðst hafa þurft að rifja þetta upp á þessum tíma. Hann hefði þurft lengri tíma til að rifja þetta upp. Ákærði kvaðst muna það alveg skýrt nú að ekkert kynferðislegt hafi gerst milli þeirra, en þau hafi farið að rífast og ekki hafi verið hægt að tjónka við A. Hafi ákærði þurft að vísa henni á dyr. Spurður um það hvort A hefði verið ,,hysterical“ eins og ákærði komst að orði, í lögregluskýrslu, sem tekin var af ákærða 9. apríl 2005, kvað ákærði A hafa verið í uppnámi af því að þau voru að rífast, en ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna hann hefði komist svo að orði að hún hefði verið ,,hysterical“. Hún hefði hins vegar verið mjög ölvuð. Ákærði giskaði á að A hefði farið um tíu eða ellefuleytið næsta morgun. Ákærði kvaðst ekki hafa verið í ,,blackout“ umrædda nótt og var þess fullviss að ekkert kynferðislegt samneyti hefði átt sér stað milli þeirra.
Ákærði var aftur inntur eftir skýringu á því að við yfirheyrslur lögreglu svaraði hann mjög afdráttarlaust neitandi þegar hann var spurður um hvort hann hefði sett eitthvað út í drykk A og einnig mundi hann vel eftir fjölda hvítvínsglasa sem drukkinn var, en spurður um það hvort hann hefði haft samfarir við A nauðuga, hefði ákærði borið við minnisleysi. Sagði ákærði skýringuna hafa verið þá að hann hefði í raun svarað að þetta hefði ekki gerst. Hann hafi verið að reyna að segja satt. Ákærði kvaðst hafa lesið skýrsluna yfir að lokinni skýrslutöku.
Vitnið A kvaðst hafa verið á leið heim umrædda nótt, um sexleytið, með B vinkonu sinni. Ákærði hafi farið að tala við þær og boðið þeim að koma heim til sín að spila og sagt við þær að hann ætti kassa af hvítvíni. Vitnið kvaðst telja að hún hafi þá verið búin að drekka 4 stóra bjóra. Ákærði hafi virst mjög almennilegur. Þær hafi ákveðið að fara með honum heim, en hann átti heima á [...] Þær hafi sest í sófa íbúðar hans og ákærði á móti þeim. Þau hafi farið að spila, en ákærði hafi gefið þeim hvítvín að drekka, sem hann náði í úr eldhúsinu. Vitnið kvaðst hafa drukkið um þrjú glös og kvað þær stöllur hafa setið þarna í um einn og hálfan eða tvo tíma. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því þegar B fór, en það sem hún muni næst, sé að ákærði hafi setið við hlið hennar í sófanum og hafi hann verið að strjúka á henni axlirnar. Orðrétt sagði hún: ,,Þá var allt í lagi með hann samt, þá var hann alveg eðlilegur“. Það næsta sem vitnið kvaðst muna hafi verið það að hún hafi verið staðin upp og þá hafi ákærði breyst algerlega í hegðun. Ákærði hafi komið aftan að henni og viðhaft einhver ógeðsleg, kynferðisleg orð, en hún kvaðst ekki muna nákvæmlega hvaða orð það voru, en það hafi verið ,,ógeðslegt að heyra þau“. Ákærði hafi svo tekið utan um vitnið með annarri hendi, en sett hina hendina niður í buxur vitnisins og sett fingur í endaþarm þess. Vitnið kvaðst hafa fundið fyrir sársauka og kvaðst hafa öskrað og reynt að komast í burtu. Það næsta sem vitnið kvaðst muna, hafi verið er ákærði hafi þrýst vitninu upp að vegg og tekið vitnið hálstaki. Síðan kvaðst vitnið ekki muna neitt, fyrr en vitnið hafi legið á gólfinu. Vitnið hafi verið klætt að ofan í tvo boli, en ekki í neinu að neðan. Hún kvaðst ekki vera viss um hvort dúkur hafi verið á gólfinu eða teppi, en það hafi ekki verið mjúkt, miðað við hvað hún hefði fundið til í mjaðmabeinunum. Ákærði hafi legið ofan á henni og nauðgað henni. Hann hafi sett liminn í endaþarm hennar þá, en hún kvaðst halda að hann hafi sett liminn bæði í leggöng og endaþarm hennar. Hún kvaðst þó ekki muna eftir sársauka í kynfærum, á meðan á þessu stóð, heldur aðallega í endaþarminum, en eftir á hafi hún einnig fundið fyrir sársauka í kynfærum. Hún hafi rekið upp sársaukavein og gefið ákærða skýrlega til kynna að hún vildi að ákærði hætti. Þá hafi hún reynt að færa sig til. Síðan kvaðst vitnið muna eftir því að vitnið var komið upp í rúm til ákærða og þá verið fullklædd. Ákærði hafi líka verið klæddur. Hún kvaðst ekki muna eftir því hvernig hún komst í fötin. Það næsta sem hún muni hafi verið er ákærði tók fast um upphandlegg hennar og henti henni út. Ákærði hafi verið í hátt eins og hann skammaðist sín og vildi ekki sjá hana. Vitnið kvaðst hafa verið á gangi í miðbænum, eftir að vitnið kom frá ákærða, og þar hafi vitnið hitt einhvern strák og farið að bulla eitthvað við hann. Vitnið kvaðst hafa verið grátandi þá. Næst muni vitnið eftir sér á Snorrabrautinni og lögreglumenn hafi þá gefið sig á tal við vitnið. Vitnið kvaðst muna lítið eftir samræðum við lögregluna, en kvaðst þó muna eftir að hafa sest inn í lögreglubifreið. Hún kvaðst hafa tjáð lögreglu að allt væri í lagi og að hún hefði bara verið að skemmta sér. Hún kvaðst ekki vita hvers vegna hún hefði sagt það. Síðan hafi vitnið farið úr lögreglubifreiðinni. Spurð um það hvort lögregla hafi ekið henni heim, kvaðst hún ekki muna það.
Þá var vitnið spurt um það hvort það myndi eftir því að hafa verið að tala við mannlausar bifreiðar, eins og fram komi í tilkynningu sem barst lögreglu. Kvaðst vitnið ekki muna eftir því. Vitnið kvað B hafa verið heima þegar hún kom heim. B hafi hjálpað henni í náttföt og síðan hafi vitnið sótt hníf fram í eldhús, þar sem hún ,,hafi verið hrædd um að þeir myndu koma“. Hún kvaðst ekki vita hvers vegna hún hefði sagt það. B hafi séð að hún var eitthvað meidd, en vitnið hafi haft áverka á mjöðmum. Hún kvaðst hafa sofnað og sofið alveg til 10 um kvöldið. Þegar hún vaknaði um kvöldið hafi hún fundið fyrir sársauka í leggöngum og kynfærum. Þá hafi hún hringt í móður sína og grátið í símann. Síðan hafi hún sagt við móður sína að eitthvað hræðilegt, kynferðislegt, hefði gerst og móðir hennar þá komið til hennar. Móðir hennar hafi setið hjá henni og reynt að róa hana niður. Síðan hafi vitnið ákveðið að fara á neyðarmóttökuna. Hún kvaðst ekki hafa farið í sturtu áður en hún fór á neyðarmóttöku.
Seinni part sunnudagsins hafi ákærði hringt og kynnt sig. Hann hafi byrjað að tala við vitnið eins og þau væru vinir. Hún kvað að sér hefði brugðið mjög, og sagt mjög lítið. Ákærði hafi sagt að hann langaði til að hitta hana aftur, af því að honum hefði litist svo vel á hana. Þá hafi vitnið sagt að hún vissi hvað hann hefði gert og að hún hefði farið á neyðarmóttökuna. Þá hafi ákærða brugðið, en síðan farið að hlæja og spurt hvort hún væri brjáluð. Vitnið kvað ákærða ekki hafa sagt að ekkert hefði gerst milli þeirra. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að það hefði látið ákærða fá símanúmerið sitt.
Vitnið kvað allt hafa breyst í kjölfar þessa atviks. Fyrstu dagana á eftir hafi hún verið eins og lítið barn. Hún hafi sofið á nóttunni uppi í rúmi hjá móður sinni, en síðan hafi hún ákveðið að ákærði ,,skyldi ekki fá að skemma neitt fyrir henni“ þar sem henni hefði verið kennt að harka af sér. Samt hafi hann verið að skemma fyrir henni allan tímann, þar sem hún hafi hvorki viljað hugsa um atburðinn né tala um hann og ekki viljað gráta yfir þessu, en samt verið mjög döpur. Þá kvaðst vitnið hafa átt við einbeitingarskort að stríða í skólanum í kjölfar atburðarins. Hún kvaðst hafa leitað aðstoðar hjá sálfræðingi.
Vitnið var spurt um það hvers vegna vitnið hefði ekki lagt fram kæru fyrr en í mars 2005. Vitnið kvað ástæðu þess hafa verið þá að vitnið hefði verið visst um að ekkert yrði gert í málinu og að ákærði kæmist bara upp með þetta. Það væri mun verri tilhugsun að vitnið legði fram kæru og ákærði vissi af því og síðan kæmist hann upp með það, heldur en ef engin kæra væri lögð fram. Þá hafi hún verið að byrja í jólaprófum á þessum tíma og hún kvaðst hafa talið að ef hún aðhefðist ekkert, þá væri ákærði ekki að skemma neitt fyrir henni. Því hefði hún tekið ákvörðun um að láta á engu bera. Hún hefði hins vegar frétt af því að læknir í neyðarmóttöku hefði séð að mál vitnisins og annars meints brotaþola, þar sem ákærði kæmi einnig við sögu, voru mjög lík. Í kjölfarið hafi lögfræðingur neyðarmóttöku hringt í vitnið og sagt vitninu að mál annarrar stúlku hefði komið til neyðarmóttöku, þar sem ákærði kæmi við sögu. Þegar vitnið hafi vitað að það stóð ekki eitt, þá hafi varnarveggur vitnisins brotnað og vitnið fundið hversu mikil áhrif þessi atburður hafði á líf þess. Vitnið hafi því ákveðið að ákærði fengi ekki að komast upp með þetta.
Spurt um það hvers vegna vitnið hefði ekki sagt frá meintu samræði við ákærða í viðtali við lækni á neyðarmóttöku, heldur einvörðungu skýrt frá því að ákærði hefði farið með fingur í endaþarm, kvað vitnið skýringuna hafa verið þá að það hefði verið í áfalli og ekki viljað lýsa neinu í smáatriðum.
Vitnið kvaðst ekki muna eftir neinu rifrildi við ákærða um nóttina. Þá kvaðst vitnið ekki muna eftir því að ákærði hefði beðið vitnið um að fara.
Vitnið B vinkona A, kvaðst hafa verið að skemmta sér með A umrædda nótt frá því um tólf- eða eittleytið. Vitnið kvaðst ekki hafa neytt áfengis um nóttina, svo nokkru næmi, en hún hafi drukkið lítils háttar af bjór. Vitnið kvað A hafa drukkið bjór um nóttina. Þær hafi verið á leið heim, á gangi upp Laugaveginn um sexleytið um nóttina og hafi þá hitt ákærða. Þau hafi tekið tal saman og síðan hafi þau ákveðið að fara heim til ákærða að spila Friendsspilið. Ákærði hafi gefið þeim hvítvín að drekka, en vitnið kvaðst ekki hafa drukkið það sem ákærði færði þeim. Vitnið kvað A hafa drukkið drykkinn sem vitninu var ætlaður, þar sem vitnið hefði ekki viljað drykkinn. Um áttaleytið hafi vitnið farið heim, en A ákveðið að vera lengur. Ákærði og A hafi rætt um að fá sér morgunmat saman. A hafi látið vitnið fá lykla að íbúð A og hafi svo vitnið farið að sofa. A hafi verið undir áhrifum áfengis þegar vitnið fór heim, en hún hafi verið vel áttuð á stað og stund. Ákærði hafi einnig verið undir áhrifum áfengis, en ekki mjög ölvaður. Vitnið hafi vaknað um eittleytið næsta dag og A hafi þá verið ókomin. Vitnið hafi þá hringt í A. Vitnið kvaðst ekki hafa skilið vel það sem A sagði þá, en A hafi sagt að hún gæti ekki komið heim, þar sem hún væri lyklalaus. Þá hafi A rætt um einhverja lögreglumenn, en vitnið kvaðst hafa sagt A að koma heim. Þegar A kom heim hafi hún verið mjög æst, viljað loka öllum gluggum og læsa hurðum. A hafi sagt að hún væri í hættu og einhver maður væri að koma. Vitnið kvaðst telja að A hafi verið undir einhverjum annarlegum áhrifum þegar hún kom heim um morguninn eða mun drukknari en þegar leiðir þeirra skildi um morguninn. A hafi beðið vitnið um að ná í hníf til að hafa á gluggakistunni og hafi vitnið leyft henni að hafa hjá sér hníf. Þá hafi A haldið um hálsinn og kveinkað sér undan sársauka og hún hafi verið marin ofarlega á bringu, nálægt hálsi. Vitnið kvað A hafa sagt að ákærði hefði orðið svo skrýtinn eftir að vitnið fór, hann hefði orðið alveg brjálaður og að þau hefðu farið að rífast um eitthvað og hefði ákærði tekið hana hálstaki. Þá kvað vitnið að A hefði verið marin á mjöðmum, en A hefði ekki sagt vitninu nánar hvað gerst hefði. Vitnið kvaðst hafa beðið þangað til A sofnaði. Síðan hafi A hringt í vitnið daginn eftir og sagt vitninu að ákærði hefði nauðgað henni og hefði hún farið með mömmu sinni á neyðarmóttöku. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð A í sams konar ástandi og hún var í umrædda nótt. Hún hafi verið mjög æst og ringluð og skrýtin.
Vitnið kvað þær A hafa verið bestu vinkonur á þeim tíma er ákæra tekur til. Eftir þessa atburði hafi þær fjarlægst mjög mikið og séu þær ekki eins góðar vinkonur nú. A sé mjög breytt í dag frá því sem hún var. Vitnið kvað A vera að jafna sig núna, en fyrst eftir atburðinn hafi hún dregið sig alveg í hlé frá félagslífinu í skólanum.
Vitnið Sæmundur Sveinsson lögreglumaður kvað að samkvæmt dagbók lögreglu hefði verið tilkynnt um stúlku umræddan morgun á Snorrabraut, sem væri að tala við mannlausar bifreiðar. Þegar lögregla hefði komið auga á stúlkuna, A, hafi hún verið gangandi á götunni, í annarlegu ástandi. Vitnið kvaðst ekki hafa fundið áfengislykt af henni og ekki fundist ástand hennar dæmigert ölvunarástand. Lögregla hafi kallað á hana og fengið hana inn í lögreglubílinn og spurt hana hvort eitthvað hefði komið fyrir. Hún hafi verið spurð um nafn, en hún hafi verið svo lengi að hugsa sig um að lögregla hafi beðið hana um skilríki. Svör hennar hafi öll verið loðin og eins og hún vissi ekki hverju hún ætti að svara, en vitnið kvað að sér hefði fundist að hún hefði viljað svara, en að hún vissi ekki svarið. Henni hafi svo verið ekið heim. Vitnið kvaðst ekki hafa séð áverka á A, en vitnið kvaðst ekki muna hvernig hún var klædd. Vitnið kvað að grunur um að hún hefði sætt kynferðislegu ofbeldi hefði ekki vaknað hjá sér.
Vitnið Dóra Kristinsdóttir lögreglumaður kvað að tilkynnt hefði verið um stúlku í annarlegu ástandi við Snorrabraut, umræddan morgun. Þegar lögregla hefði komið auga á hana, hefði hún verið kölluð í bílinn, en hún hefði ekki talað mikið við lögregluna. Hún hefði verið mjög úti á þekju. Annaðhvort hefði hún verið ölvuð eða ,,á einhverju öðru“.
Vitnið C móðir A, kvað A hafa hringt í vitnið að kvöldi 27. nóvember sl. A hefði í fyrstu grátið mikið í símann og ekki komið upp orði. Vitnið hafi spurt hvort eitthvað hefði komið fyrir hana og hefði A sagt, að eitthvað hefði verið gert við hana, eða henni verið nauðgað, því að hún fyndi svo til í klofinu og rassinum. A hafi orðað það svo ,,mér hlýtur að hafa verið nauðgað“. Vitnið hafi farið til A og komið að henni í mjög einkennilegu ástandi, grátandi uppi í rúmi. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð hana í þessu ástandi áður og hefði vitnið beinlínis orðið hrætt við þá sjón. Vitnið kvaðst ekki hafa talað mikið við A, en hringt strax á bíl og þær farið á neyðarmóttöku. Vitnið kvað að A hefði vitað að eitthvað hefði verið gert við hana en ekki munað nákvæmlega hvað það hefði verið. Ástand hennar hefði ekki verið eins og hún hefði einungis verið að drekka vín. Eftir þetta hafi A alls ekki getað verið ein og sofið uppi í rúmi hjá vitninu næstu sólarhringana. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt mikið við A um atburðina, en vitnið kvað A hafa fengið sálfræðihjálp. Vitnið kvaðst hafa heyrt þegar ákærði hringdi í farsíma A á sunnudeginum. A hafi í fyrstu ekki sagt neitt, en hlustað á ákærða. Síðan hafi A sagt í símann að hún hefði farið upp á spítala. Hún hafi svo slitið símtalinu og fallið algerlega saman. Eftir á hafi A sagt vitninu að ákærði hefði sagt að hann hefði ekki gert henni neitt, sem hún hefði ekki viljað gera.
Hegðun A hafi verið mjög sérkennileg í kjölfar þessa. Hún hafi tekið nafn sitt af dyrasíma, þar sem hún bjó og þannig hafi það verið í nokkra mánuði. Hún hafi verið mjög langt niðri og döpur. Vitnið kvað A hafa breyst mikið, hún virtist eldast um mörg ár, hún hafi farið minna út og umgengist færra fólk.
Vitnið, Heiðdís Sigurðardóttir, sálfræðingur, kvað A hafa sýnt mjög sterk einkenni um áfallastreituröskun. Hún hafi reynt áberandi mikið að forðast að hugsa um atburðinn, en þegar hún hafi þurft að rifja atburðina upp vegna málsmeðferðar fyrir dómi, hafi komið á hana mikið tilfinningalegt rót. A hafi komið til vitnisins í 12 viðtöl. Vitnið kvaðst telja víst að einkennin sem komu fram hjá A hafi verið vegna atburða þeirra er áttu sér stað á síðasta ári. Vitnið staðfesti vottorð sitt.
Niðurstaða.
Ákærði hefur alfarið neitað því hér fyrir dómi að hafa átt nokkur kynferðisleg samskipti við A umræddan morgun. Hann kvað þau hins vegar hafa rifist og hann hafi hent henni út úr íbúð sinni. Taldi ákærði að hann hefði vísað henni á dyr um tíu- eða ellefuleytið um morguninn. Er ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu, 9. apríl 2005, var ákærði ekki eins einarður í neitun sinni á því að eitthvað kynferðislegt hefði átt sér stað milli þeirra A og kvaðst ,,ekki minnast þess“ og kvað það hafa komið fyrir að hann fengi ,,black out“ þegar hann fengi sér í glas. Er borinn var undir hann framburður A um atburði morgunsins, kvaðst hann ,,ekki muna eftir því að þetta hefði gerst“ og ,,ekki geta útilokað eitthvað“ þar sem hann myndi ekki eftir þessu. Ákærði mundi hins vegar eftir fjölda hvítvínsglasa er drukkinn var undir morgun og neitaði því staðfastlega hjá lögreglu að hann hefði sett eitthvað út í drykk hennar. Ákærða var gefinn kostur á að breyta fyrri framburði sínum, eða bæta við hann, í lögregluyfirheyrslu 6. maí sl. Sá hann ekki ástæðu til að gera breytingar á fyrri framburði sínum. Fyrir dómi útilokaði ákærði að hann hefði fengið ,,blackout“ umrædda nótt og dró úr þeim framburði sínum fyrir lögreglu að A hefði verið ,,hysterical“ er hún fór frá honum um morguninn. Kvaðst hann fremur telja að hún hefði verið í uppnámi þar sem þau hafi verið að rífast.
A skýrði dóminum frá því að ákærði hefði skyndilega breyst í hegðun eftir að vinkona hennar, B, fór úr íbúð ákærða. Hann hefði komið aftan að henni er hún stóð upp og stungið fingri í endaþarm hennar. Það hafi verið vont og hún öskrað upp. Þá hafi ákærði sagt eitthvað viðbjóðslegt við hana. Hann hefði þrýst henni upp að vegg og tekið hana kverkataki. Hið næsta sem hún mundi var, er hún lá á kviðnum á gólfi íbúðarinnar og ákærði ofan á henni. Þegar hér var komið sögu, brast A í grát og átti mjög erfitt með að hefja frásögn á ný, en skýrði dóminum að lokum frá því að ákærði hefði þá nauðgað henni og sett lim sinn bæði í leggöng og endaþarm hennar. Hún kvaðst og telja að gólfið í íbúð ákærða hefði ekki verið mjúkt, þar sem hún hefði fundið til í mjöðmunum. Hún kvaðst hafa rekið upp sársaukavein og reynt að færa sig til á gólfinu. C, móðir A, bar fyrir dómi að A hefði hringt í sig að kvöldi 27. nóvember og sagt að henni hlyti að hafa verið nauðgað, því að hún ,,fyndi svo til í klofinu og rassinum“. Þá hafi A verið grátandi, í einkennilegu ástandi, sem hún hefði aldrei séð hana í fyrr. B, vinkona A, bar á sama veg um ástand A, er hún hitti A aftur, eftir að hún kom frá ákærða. Hún kvað A hafa verið mjög æsta, ringlaða og skrýtna og hefði hún viljað hafa hjá sér hníf og verið hrædd við einhverja ótilgreinda menn. Kvaðst hún aldrei hafa séð A í því ástandi fyrr. Þá hafi A sýnt sér áverka ofarlega á bringu og á mjöðmum.
Samkvæmt skýrslu neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss var A með áverka á mjaðmaspöðum við komu á neyðarmóttöku 28. nóvember 2004, ásamt marbletti á hægri olnboga og á upphandlegg. Þá var hún aum á hvirfli. Við grindarbotnsskoðun kom í ljós að hún var verulega aum, vinstra megin yfir meyjarhaftskanti, og þar er lýst vægum roða. Þá var hún verulega aum yfir hringvöðva endaþarms. Sársauki í endaþarmi og kynfærum sem A lýsti fyrir móður sinni, samrýmist þeim áverkum sem voru á kynfærum A og þeim eymslum yfir hringvöðva endaþarms, sem lýst er í skýrslu læknis á neyðarmóttöku. Þeir áverkar er hún sýndi B á mjöðmum, samrýmast einnig þeim áverkum sem lýst er í skýrslunni að öðru leyti en því að í skýrslunni er ekki lýst áverka á bringu eða hálsi. Þá samrýmist ástand A, eins og vitnin B og C hafa lýst því, þeim framburði lögreglumannanna er höfðu afskipti af henni umræddan morgun, að A hafi verið í annarlegu ástandi og ekki í dæmigerðu ölvunarástandi. Sæmundur Sveinsson lögreglumaður, kvað A ekki hafa getað sagt til nafns, öll svör hennar verið loðin og eins og hún vissi ekki hverju hún ætti að svara. Vitnið kvað afskipti lögreglunnar hafa komið til vegna tilkynningar um að stúlka væri á gangi á Snorrabraut á tali við mannlausar bifreiðir. Dóra Kristinsdóttir, lögreglumaður bar og fyrir dómi að A hefði verið mjög úti á þekju umrætt sinn. Eins og fram kemur í skýrslu Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings, fékk A sterk einkenni áfallaröskunar í kjölfar atburðarins og kemur það heim og saman við framburð vitnanna B og C, sem kváðu að eftir atburðinn hefði A dregið sig í hlé frá félagslífi og að hátterni hennar og lundarfar hefði breyst mjög.
Frásögn A fyrir dómi af háttsemi ákærða var lágstemmd og átti hún í örðugleikum með að skýra frá, vegna tilfinningalegs uppnáms. Þrátt fyrir það var gott samhengi í frásögn hennar, frásögnin heilsteypt og samhljóða þeim framburði sem hún gaf hjá lögreglu. Hún tók það fram ef hún mundi ekki atvik og ljóst er að einhver hluti atburðarásar er henni hulinn. Hún mundi til að mynda ekki eftir því að lögreglan hefði ekið henni heim, umræddan morgun. Hún þurfti að gera hlé á máli sínu þegar hún reyndi að lýsa því er ákærði hefði haft við hana mök um leggöng og í endaþarm. Var henni augljóslega sárast og erfiðast að greina frá þeim hluta atburðarásarinnar og komst hún þá í mikið tilfinningalegt uppnám. Í ljósi þess hversu erfitt þetta reyndist henni, telur dómurinn ekki óeðlilegt að hún skýrði lækni á neyðarmóttöku einungis frá því að ákærði hefði sett fingur í endaþarm hennar, en ekki því að ákærði hefði einnig haft samfarir við hana um leggöng og í endaþarm. Að mati læknis neyðarmóttöku gátu áverkar á mjöðmum A stafað af þrýstingi, t.d. undirlagi eða einhverju sem liggur þétt að mjöðmunum. Áverkarnir koma, að mati dómsins, heim og saman við þá frásögn A að hún hafi legið á kviðnum á gólfi íbúðarinnar og ákærði ofan á henni.
Dómurinn telur frásögn A mjög trúverðuga. Að sama skapi metur dómurinn frásögn ákærða af því sem gerðist umræddan morgun ekki trúverðuga. Þannig var framburður hans fyrir dómi ekki að öllu leyti samhljóða þeim framburði sem hann gaf hjá lögreglu og ekki trúverðugar skýringar hans á því hvers vegna hann hefði tjáð lögreglu að hann myndi ekki eftir þeim atburðum er A hafði skýrt lögreglu frá, en mundi þó engu að síður ýmislegt annað um atburði morgunsins.
Þegar virtur er trúverðugur framburður brotaþola sem hér hefur verið rakinn, litið er til líkamlegra áverka á brotaþola eftir dvöl hjá ákærða og þess lostástands sem brotaþoli var þá í, sem og þeirra andlegu erfiðleika sem brotaþoli hefur glímt við í kjölfar atburðarins, er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Refsiákvörðun.
Ákærði, sem er fæddur árið 1977, hefur ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi sem áhrif geti haft á ákvörðun refsingar.
Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brot ákærða var sérlega ruddafengið og gróft og einkenndist af einbeittum ásetningi. Þó svo brotaþoli gæfi ákærða skýrlega til kynna að hann meiddi hana og að kynferðislegt athæfi hans væri algerlega gegn hennar vilja skirrðist ákærði ekki við að beita brotaþola ofbeldi. Ákærði á sér engar málsbætur. Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár og sex mánuði.
Skaðabótakrafa.
Réttargæslumaður brotaþola hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 1.500.000 króna úr hendi ákærða auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. nóvember 2004 til 6. júní 2005, en þá var mánuður liðinn frá birtingu bótakröfunnar og með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara.
Krafan er rökstudd með þeim hætti að ákærði hafi brotið gróflega gegn kynfrelsi hennar með broti sínu. Brotaþoli hafi hlotið líkamlega áverka auk þess sem brot ákærða hafi valdið brotaþola miklum sálrænum erfiðleikum, sem hún þurfi hjálp við að vinna úr.
Samkvæmt framburði vitnisins Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings, sýndi A mjög sterk einkenni um áfallastreituröskun í kjölfar brots ákærða og sótti 12 viðtöl hjá sálfræðingnum. C, móðir brotaþola, og B, vinkona brotaþola, lýstu því einnig fyrir dóminum að hátterni og lundarfar brotaþola hefði breyst mjög í kjölfar atburðarins og væri hún ekki sjálfri sér lík eftir atburðinn.
Með vísan til niðurstöðu í refsiþætti málsins og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þykir ákærði með háttsemi sinni hafa valdið brotaþola miska og er ákærði skaðabótaskyldur gagnvart henni vegna þess. Bætur til handa brotaþola eru ákveðnar 900.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2004 til 6. júní 2005, og með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Sakarkostnaður.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað, 589.272 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Ásu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir dómi, 65.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.
Héraðsdómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Páll Þorsteinsson og Símon Sigvaldason kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Stefán Hjaltested Ófeigsson, sæti fangelsi í 2 ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A 900.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2004 til 6. júní 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins 589.272 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Ásu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir dómi, 65.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.