Hæstiréttur íslands

Mál nr. 436/2006


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti
  • Fíkniefnalagabrot
  • Reynslulausn


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2007.

Nr. 436/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Agnari Víði Bragasyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Akstur án ökuréttar. Fíkniefnalagabrot. Reynslulausn.

A var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot og að hafa ekið bifreið þrívegis sviptur ökurétti. Rauf hann með brotunum skilorð reynslulausnar á 330 daga eftirstöðvum refsingar. Niðurstaða héraðsdóms um 13 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu A var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Brot ákærða gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 samkvæmt ákæru 31. janúar 2006 er rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

         Ákærði, Agnar Víðir Bragason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 205.484 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur. 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2006.

Ár 2006, mánudaginn er dómþing háð í Dóm­húsinu við Lækjartorg af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara og dómur kveðinn upp í málinu nr. S-268/2006: Ákæruvaldið gegn Agnari Víði Bragasyni, sem dómtekið var 3. maí sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Lögreglustjórinn í Reykjavík höfðaði málið með fjórum ákærum, útgefnum 31. janúar, 13. febrúar, 14. mars og 6. apríl 2006, á hendur ákærða, Agnari Víði Braga­syni, kt. 160966-3009, Hverfisgötu 58, Reykjavík, til refsingar fyrir umferðarlaga- og fíkni­­efnalagabrot framin í Reykjavík.

I.

Með ákærunni 31. janúar er ákærða gefið að sök að hafa, þriðjudaginn 6. desember 2005, haft í vörslum sínum 4,41 gramm af amfetamíni og 5,26 grömm af hassi á veitingastaðnum Monte Carlo.

Framangreind háttsemi er sönnuð með játningu ákærða fyrir dómi, sem sam­rýmist rannsóknar­gögnum málsins. Er háttsemin nægjanlega heimfærð til refsi­­ákvæða í ákæru undir 2. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með áorðnum breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkni­efni og önnur eftirlitsskyld efni með áorðnum breytingum. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. téðra laga og 2. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar ber að gera fíkniefnin upptæk til ríkis­­sjóðs.

Með ákærunni 13. febrúar er málið höfðað á hendur ákærða fyrir að hafa, að morgni laugardagsins 21. janúar 2006, ekið bifreiðinni JG 200, sviptur ökurétti, um Kalk­ofnsveg.

Með játningu ákærða fyrir dómi, sem samrýmist rannsóknar­gögnum málsins, er framan­greind háttsemi sönnuð og þykir hún réttilega heimfærð til refsi­ákvæða í ákæru undir 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Með ákærunni 14. mars er kveðið á um málshöfðun á hendur ákærða fyrir að hafa, að morgni laugardagsins 18. febrúar 2006, ekið bifreiðinni SB-199, sviptur öku­rétti, um Lyngháls.

Sannað er með játningu ákærða fyrir dómi, sem samrýmist rann­sóknar­­gögnum málsins, að hann hafi gerst sekur um framangreinda háttsemi og er hún réttilega heim­færð til refsi­ákvæða í ákæru undir 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðar­laganna.

Loks er málið höfðað á hendur ákærða með ákærunni 6. apríl fyrir að hafa, að morgni föstudagsins 18. nóvember 2005, ekið bifreiðinni AS-410, sviptur ökurétti, um Krók­háls og án þess að virða stöðvunar­skyldu við vegamót Krókháls og Hálsa­brautar.

Með játningu ákærða fyrir dómi, sem samrýmist rannsóknar­gögnum málsins, er framan­greind háttsemi sönnuð og þykir hún réttilega heimfærð til refsi­ákvæða í ákæru undir 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaganna.

II.

Ákærði, sem er tæplega fertugur, á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 1983. Fram til ársins 1990 hlaut hann tíu refsidóma, aðallega fyrir skjalafals, auðgunarbrot og nytjastuld. Ætla verður að þá hafi orðið hlé á afbrotaferli ákærða, en á árinu 1999 hlaut hann fjóra refsidóma, ýmist fyrir skjalafals, þjófnað eða fíkniefnlagabrot. Árið 2000 hlaut ákærði síðan dóm fyrir þjófnaðarbrot.

Víkur þá sögunni til ársins 2001 þegar ákærði var 16. janúar dæmdur til greiðslu sektar fyrir ölvunarakstur og án þess að hafa gilt ökuskírteini við aksturinn. Jafnframt var hann þá sviptur ökurétti í fjóra mánuði frá 1. febrúar 2001 að telja. Með þremur sektargerðum Lögreglustjórans í Reykja­vík 21. maí sama ár gekkst ákærði undir greiðslu sekta með samtals 150.000 krónum vegna aksturs sviptur ökurétti. Með dómi 8. ágúst 2001 hlaut ákærði 100.000 króna sekt fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti 14. maí sama ár. Telst sú refsing því hegningarauki við sektargerðirnar þrjár. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 29. október 2001 var ákærði sviptur ökurétti í sex mánuði frá dóms­birtingu 5. nóvember 2001 fyrir ógætilegan akstur 19. ágúst 2000, án gilds öku­skírteinis, sem leiddi til líkams­tjóns samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi Hæsta­réttar 14. mars 2002 í máli nr. 453/2001 var ákærði sýknaður af sama broti að öðru leyti en því að hafa ekki haft meðferðis gilt öku­skírteini. Þar sem um hegningarauka var að tefla var ákærða ekki gerð sérstök refsing í málinu. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2003 var ákærði sakfelldur fyrir tvö ölvunar­aksturs­brot og sex sviptingar­aksturs­brot, á tímabilinu 6. nóvember 2001 til 11. mars 2002, auk annarra brota. Var ákærði ekki talin refsilaus af þeirri hátt­semi þrátt fyrir fyrrnefndan sýknudóm. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu 30. október 2003 í máli réttarins nr. 165/2003. Auk níu mánaða fangelsisrefsingar kvað dómurinn á um sviptingu ökuréttar ákærða í þrjú ár frá og með 14. mars 2003. Með dómi Héraðs­dóms Reykjavíkur 16. mars 2004 var ákærði sakfelldur fyrir auðgunar­brot, nytja­stuld, fíkniefna­laga­brot og umferðarlagabrot; bæði ölvunar- og sviptingarakstur 13. og 28. maí 2003 og að auki sviptingarakstur 17. maí, 30. ágúst og 29. september 2003. Hlaut ákærða tveggja ára fangelsisdóm, en samkvæmt framansögðu ber að virða umrædd brot ákærða á 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem hegningarauka við síðast­nefndan hæsta­réttardóm.

Ákærða var 20. október 2005 veitt reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum 330 daga óafplánaðrar fangelsisrefsingar. Frá þeim tíma kveðst hann hafa reynt að bæta ráð sitt, hann hafi nú loks fasta búsetu og sé kominn í launaða vinnu. Af hálfu ákæruvaldsins hefur því ekki verið mótmælt að með brotum þeim, sem hér eru til meðferðar, sé lokið öllum kærumálum á hendur ákærða hjá lögreglu.

Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir að aka bifreið þrvívegis, sviptur ökurétti, á tímabilinu frá 18. nóvember 2005 til 18. febrúar 2006, auk fíkniefnalagabrots 6. desember 2005. Hvernig svo sem litið er á framangreindan sakaferil ákærða, honum til hagsbóta í hvívetna, er ljóst að hann hefur nú þriðja sinni gerst sekur um sviptingar­akstur, án þess að um hegningarauka sé að ræða í nokkurri mynd. Fyrir þá háttsemi ber að refsa honum með fangelsi, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem eftir atvikum og með hliðsjón af reglum 77. gr. almennra hegningarlaga þykir hæfi­lega ákveðið tveir mánuðir. Telst þar með refsing fyrir fíkniefnalagabrotið, sbr. 4. mgr. 77. gr. hegningarlaganna.

Með brotunum rauf ákærði skilyrði reynslulausnarinnar 20. október 2005, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. téðra laga ber því nú að taka upp hina 330 daga óafplánaðrar refsingar og dæma með í máli þessu samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga. Að því virtu og með hliðsjón af 77. gr. hegningarlaganna telst refsing ákærða í einu lagi fangelsi í þrettán mánuði.  

Sturla Þórðarson fulltrúi Lögreglu­stjórans í Reykjavík sótti af hálfu ákæru­valdsins.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Agnar Víðir Bragason, sæti fangelsi í þrettán mánuði.

Gerð eru upptæk til ríkissjóðs 4,41 grömm af amfetamíni og 5,26 grömm af hassi, sem lögregla haldlagði 6. desember 2005.