Hæstiréttur íslands

Mál nr. 112/2005


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Fyrirsvar


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. september 2005.

Nr. 112/2005.

Þrotabú Steinsmiðjunnar Reinar ehf.

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Ómerking. Heimvísun. Fyrirsvar.

Þrotabú S ehf. krafðist þess að tiltekinni greiðslu í ríkissjóð yrði rift með vísan til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Í héraðsdómi var fallist á að kröfunni hefði verið ranglega beint að tollstjóranum í Reykjavík. Var hann því sýknaður vegna aðildarskorts án þess að dæmt væri um aðrar málsástæður beggja aðila. Fyrir Hæstarétti féll íslenska ríkið frá málsástæðum um aðildarskort tollstjórans. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að íslenska ríkið væri aðili að þeim hagsmunum sem þrotabúið krefðist sér til handa. Viðurkennt væri af þess hálfu að tollstjórinn væri réttur fyrirsvarsmaður fyrir hönd ríkisins í málinu og kæmi því ekki til álita að vísa því frá héraðsdómi. Þar sem ekki hefði verið dæmt í héraði um annað en aðildarskort og með vísan til hlutverks Hæstaréttar sem áfrýjunardómstóls var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. mars 2005. Hann krefst þess að rift verði greiðslu Steinsmiðjunnar Reinar ehf. til stefnda á skuld að fjárhæð 1.361.634 krónur og stefndi dæmdur til að endurgreiða fjárhæðina með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. desember 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um riftun og endurgreiðslu á því að um hafi verið að ræða greiðslu til stefnda á skuld Steinsmiðjunar Reinar ehf. vegna innheimts virðisaukaskatts. Skuldin hafi verið greidd eftir frestdag og sé riftanleg samkvæmt 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá hafi hún einnig verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri og sé því riftanleg með vísan til 134. gr. sömu laga. Tollstjórinn í Reykjavík reisti sýknukröfu í héraði meðal annars á því að kröfum væri ranglega að sér beint og stefna hefði átt ríkissjóði því þangað hefði greiðslan runnið. Héraðsdómur féllst á þessa málsástæðu með þeim rökum að sakarefnið væri ekki á forræði tollstjórans sem innheimtumanns ríkissjóðs heldur fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og þar með ríkissjóðs. Stefndi var því sýknaður og málið hvorki dæmt um málsástæður áfrýjanda né aðrar málsástæður tollstjórans en aðildarskort.

Fyrir Hæstarétti hefur stefndi að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti og með vísan til áralangrar dómaframkvæmdar séð sig knúinn til að falla frá málsástæðum byggðum á aðildarskorti stefnda.

Það er íslenska ríkið sem er aðili að þeim hagsmunum sem áfrýjandi krefst sér til handa og samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála bar að stefna fyrir þess hönd þeim sem hefur ákvörðunarvald um þá hagsmuni sem sakarefnið varðar. Teldi héraðsdómur að tollstjórinn í Reykjavík væri ekki réttur fyrirsvarsmaður aðilans átti það að leiða til frávísunar málsins frá héraði. Fyrir Hæstarétti hefur af hálfu ríkisins verið viðurkennt að tollstjórinn sé réttur fyrirsvarsmaður fyrir þess hönd í máli þessu og kemur ekki til álita að vísa því frá héraðsdómi. Að framan er því lýst að í héraði var aðeins dæmt um aðildarskort og er málið ódæmt að öðru leyti. Hlutverk Hæstaréttar er að endurskoða dóma, en ekki að leggja dóm á mál sem ekki hefur áður verið tekin afstaða til í héraði. Verður ekki hjá því komist að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                              Dómsorð:

         Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju.

         Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, þrotabúi Steinsmiðjunnar Reinar ehf., 120.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2005.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 20. júlí 2004 og dómtekið 17. janúar sl. Stefnandi er Þrotabú Steinsmiðjunnar Reinar ehf., Lágmúla 5, Reykjavík. Stefndi er Tollstjórinn í Reykjavík, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær kröfur að rift verði með dómi greiðslu á skuld Steinsmiðjunnar Reinar ehf. við stefnda að fjárhæð 1.361.634 krónur auk þess sem stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 1.361.634 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. desember 2003 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Endanleg krafa stefnda er að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar.

I.

Málsatvik

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2003 var bú Steinsmiðjunnar Reinar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt beiðni félagsins móttekinni í héraðsdómi 1. ágúst sama árs. Innköllun til kröfuhafa birtist í Lögbirtingablaði 31. október 2003, en var endurbirt 21. nóvember 2003, þar sem röng kennitala hafði verið tilgreind í áður birtri innköllun. Kröfulýsingarfrestur framlengdist því til 21. janúar 2004. Lýstar kröfur í búið námu samtals 14.379.319 krónum.

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu var Steinsmiðjan Rein ehf. rekin með tapi frá fyrsta starfsári félagsins. Komst Steinsmiðjan fljótlega í mikil greiðsluvandræði og gat ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kröfuhöfum. Af hálfu stefnda er þessari lýsingu mótmælt að því leyti að ekki verði neitt ráðið af skattframtölum Steinsmiðjunnar Reinar ehf. um ætlað tap félagsins árin 2000, 2001 og 2002.

Steinsmiðjan Rein ehf. var með virðisaukaskattskylda starfsemi og samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda var félagið í skilum með allan gjaldfallinn virðisaukaskatt um mánaðamótin júlí/ágúst 2003.

Stuttu áður en beiðni um gjaldþrotaskipti var lögð fram í héraðsdómi gerði félagið kaupsamning þar sem eignir þess voru seldar Rein ehf. – Steiniðnaði. Er kaupsamningurinn dagsettur 29. júlí 2003. Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu fól kaupsamningurinn í sér að félagið seldi allar fasteignir sínar, óveðsetta innanstokksmuni, lager, lausafjármuni, handverkfæri og þess háttar, sem tengdist rekstri félagins og ekki voru í eigu fjármögnunarleigu-fyrirtækisins Lýsingar hf. Í kaupsamningnum var ekki kveðið á um kaupverð eignanna að öðru leyti en því að kaupandinn yfirtók skuldir seljanda sem nánar voru tilteknar í samningnum.

Í E-lið kaupsamningsins var kveðið á um peningagreiðslu kaupanda til seljanda að fjárhæð 3.000.000 krónur sem fara skyldi fram innan hálfs mánaðar frá undirskrift samningsins. Þá sagði að þessi greiðsla skyldi að fullu ráðstafast til greiðslu vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda starfsmanna seljanda. Í málinu er ágreiningslaust að greiðslu samkvæmt umræddum E-lið kaupsamningsins var ráðstafað með eftirfarandi hætti:

● Til greiðslu virðisaukaskattskuldar hjá stefnda að fjárhæð kr. 1.361.634.

● Til greiðslu lífeyrissjóðsskulda við Frjálsa lífeyrissjóðinn, kr. 979.000.

● Til greiðslu lífeyrissjóðsskulda við Lífeyrissjóð Framsýnar, kr. 684.944.

● Til greiðslu lífeyrissjóðsskulda við Lífeyrissjóð VR, kr. 200.000.

 

Framangreindur virðisaukaskattur var greiddur án fyrirvara  fyrir tímabil 2003-24 á lögboðnum gjalddaga 5. ágúst 2003 samkvæmt innsendri virðisaukaskattsskýrslu. Skýrslan er hins vegar ódagsett og óundirrituð.

Skipaður skiptastjóri þrotabúsins hlutaðist til um skýrslutöku af stjórnendum hins gjaldþrota félags í framhaldi af úrskurði um gjaldþrotaskipti. Hinn 24. október 2003 var þannig tekin skýrsla af Ómari Agnarssyni, framkvæmdastjóra og varamanni í stjórn hins gjaldþrota félags, Eiði H. Haraldssyni, stjórnarformanni félagsins og Hjálmari Kjartanssyni viðskiptafræðingi, sem aðstoðaði félagið í greiðsluerfiðleikum. Í skýrslu þessara manna kom fram að fyrrverandi framkvæmdastjóri hefði leynt raunverulegri fjárhagsstöðu félagsins og hefði tap af rekstri þess verið miklu meira en eigendur og stjórnarmenn hafði grunað. Eigendum og stjórnarmönnum hafi fyrst orðið ljóst í mars eða apríl 2003 hversu slæm staða félagsins var orðin og hafi þeir kallað til endurskoðanda sér til aðstoðar. Í júní 2003 hafi stjórnin svo fengið Hjálmar Kjartansson viðskiptafræðing sér til aðstoðar. Hann hafi tekið saman skuldir félagsins í júní og júlí 2003 og niðurstaða hans orðið sú að rétt væri að stöðva reksturinn þá þegar. Í framhaldi af þessu hafi stjórnarmenn tekið á sig hluta af skuldbindingum félagsins, eignir þess verið seldar á hæsta mögulega verði og félagið gefið upp til gjaldþrotaskipta 1. ágúst 2003. Í skýrslunni kemur fram að elsti hluti gjaldfallina lífeyrissjóðsiðgjalda hafi verið greiddur með peningum samkvæmt E-lið kaupsamnings, en það hafi verið peningar sem fengust fyrir óveðsettar eignir félagsins.

Með bréfi skiptastjóra 21. nóvember 2003 til stefnda var því lýst að við könnun skiptastjóra á bókhaldi Steinsmiðjunnar Reinar ehf. hefði komið í ljós að skuld félagsins við stefnda að fjárhæð 1.361.634 krónur vegna virðisaukaskatts fyrir maí og júní 2003 hefði verið greidd með þeim hætti að Rein ehf. – Steiniðnaður hefði greitt skuldina og greiðslan verið liður í kaupum Reinar ehf. – Steiniðnaðar á öllum eigum Steinsmiðjunnar Reinar ehf. Væri þess óskað að stefndi tjáði sig um þessi viðskipti og léti skiptastjóra í té öll gögn varðandi þau. Með bréfi stefnda til stefnanda 26. nóvember 2003 sendi stefndi hreyfingayfirlit þar sem fram kom að virðisaukaskattstímabil 24-2003 hefði verið greitt samkvæmt innsendri skýrslu 5. ágúst 2003 og hefði sú greiðsla verið án allra fyrirvara. Með bréfi skiptastjóra til stefnda 6. júlí 2004 var þess krafist að þrotabúinu yrði endurgreidd sú fjárhæð sem stefndi fékk til ráðstöfunar á móti kröfum sínum á hendur Steinsmiðjunni Rein ehf. Það væri afstaða skiptastjóra að um óvenjulegan greiðslueyri væri að ræða og væri greiðslan því riftanleg með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm sem vitni Ómar Agnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Steinsmiðjunnar Reinar ehf. og Hjálmar Kjartansson viðskiptafræðingur. Í skýrslu þess síðarnefnda kom fram að hann hefði samið kaupsamninginn 29. júlí 2003. Samkvæmt skýrslu hans lá fyrir við gerð kaupsamningsins að Steinsmiðjan Rein ehf. var ógjaldfær. Var markmiðið með gerð samningsins að reksturinn gæti haldið áfram í höndum nýrra eigenda og lágmarka þannig þær skuldir sem féllu á félagið. Við gerð kaupsamningsins hafi aðeins verið miðað við að kaupandi greiddi ógreidd lífeyrissjóðsiðgjöld. Að öðru leyti þykir ekki ástæða til að rekja munnlegar skýrslur sérstaklega.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vekur athygli á því að samtals 3.225.668 krónur af kaupverði hinna seldu eigna samkvæmt kaupsamningnum 29. júlí 2003 hafi verið ráðstafað til greiðslu vörsluskulda af hálfu félagsins. Þessi háttur hafi verið hafður á að yfirlögðu ráði stjórnenda Steinsmiðjunnar Reinar ehf. til þess að forgangsraða samningum og greiðslum á vörslufé. Stefnandi telur ljóst af samhengi þessara greiðslna að í raun hafi hluti skulda Steinsmiðjunnar Reinar ehf. verið gerður upp eftir frestdag með afhendingu á eignum frá félaginu til stefnda. Slík greiðsla sé óvenjulegur greiðslueyrir ef litið sé til fyrri viðskipta aðila.

Stefnandi telur almenn skilyrði til riftunar óumdeilanlega fyrir hendi. Ljóst sé að möguleikar kröfuhafa á að fá fullnustu krafna sinna aukist, ef riftun nái fram að ganga og einnig sé ljóst að greiðsla til stefnda á skuld Steinsmiðjunnar Reinar ehf. hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa og því leitt til mismununar kröfuhafa.

Kröfu sína um riftun kveðst stefnandi í fyrsta lagi byggja á því að um hafi verið að ræða greiðslu skuldar sem átti sér stað eftir frestdag og sé því riftanleg á grundvelli 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að um hafi verið að ræða greiðslu skuldar stefnanda og jafnframt hafi greiðslan farið fram eftir frestdag sem hafi verið 1. ágúst 2003 þegar beiðni um gjaldþrotaskipti barst héraðsdómi. Greiðsla skuldarinnar hafi verið til hagsbóta fyrir stefnda, án þess að aðrir jafnsettir kröfuhafar hafi fengið greiðslur í sama mæli upp í kröfur sínar, sbr. dóm Hæstaréttar 1994 á bls. 2655.

Að því er varðar 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 byggir stefnandi á því að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða sem runnið hafi til stefnda til greiðslu á skuldum Steinsmiðjunnar Reinar ehf. við hann. Hafi greiðsla skuldar Steinsmiðjunnar Reinar ehf. við stefnda verið innt af hendi með óveðsettu lausafé félagsins sem telst óvenjulegur greiðslueyrir og sé greiðslan því riftanleg með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi leggur áherslu á að við mat á því hvort um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða verði að líta til þess í hvaða formi greiðslan fór frá skuldaranum, en ekki í hvaða mynd hún barst kröfueiganda. Greiðsla á peningakröfum með andvirði sölu á lausafé eins og háttar til í máli þessu, geti ekki talist venjulegur greiðslueyrir í viðskiptum. Þannig skiptir engu máli þótt stefndi hafi fengið greitt frá þriðja manni, Rein ehf. – Steiniðnaði.

Stefnandi telur að hin hlutlægu skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 séu fyrir hendi. Í fyrsta lagi séu um að ræða greiðslu skuldar hins gjaldþrota félags. Í öðru lagi sé skilyrði um tímamörk uppfyllt með því að frestdagur hafi verið 1. ágúst 2003, en á því er byggt að umræddu ákvæði laga nr. 21/1991 verði einnig beitt um greiðslur eftir frestdag. Í þriðja lagi hafi skuldin verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri, það er lausafé. Að lokum hafi greiðslan ekki verið venjuleg eftir atvikum enda hafi engin venja ríkt í viðskiptum þessara aðila um að greiða skuldir með lausafé. Auk þess hafi greiðslan ekki verið liður í tilraunum til að rétta af rekstur félagsins, heldur þvert á móti  liður í því að leggja niður félagið eftir að ljóst varð að það var gjaldþrota.

Krafa stefnanda um endurgreiðslu er reist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi henni réttilega beint að stefnda, sbr. dóma Hæstaréttar frá 1996 á bls. 911 og 1997 á bls. 2593.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á aðildarskorti stefnda. Innheimta á virðisaukaskatti sé með þeirri lögbundnu tilhögun að virðisaukaskattskyldur aðili innheimti fyrir hönd ríkissjóðs virðisaukaskatt af viðskiptamönnum sínum, sbr. t.d. 3. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Steinsmiðjan Rein ehf. hafi komið fram sem innheimtumaður ríkissjóðs að þessu leyti og sé þannig einungis vörslumaður skattsins í stuttan tíma og beri að þeim tíma liðnum að skila honum til ríkissjóðs. Stefnandi geti þannig ekki beint kröfum sínum að stefnda til að fá endurgreiðslu á því sem hið gjaldþrota félag átti aldrei lögvarða kröfu til. Einnig telur stefndi að stefnandi hafi átt að beina kröfum sínum um riftun að Rein ehf. – Steiniðnaði en ekki sér. Það sé sá aðili sem raunverulega hagnaðist á viðskiptum sínum við Steinsmiðjuna Rein ehf. eins og kaupsamningur frá 29. júlí 2003 beri með sér. Jafnframt telur stefndi að kröfu um endurgreiðslu virðisaukaskatts verði almennt að beina að íslenska ríkinu fyrir hönd ríkissjóðs þar sem greiðslur á virðisaukaskatti renni þangað samkvæmt 1. gr. laga um virðisaukaskatt.  Kröfur um skaðabætur vegna starfsemi ríkisstofnana, eins og hér sé um að ræða, verði einnig að meginreglu að beina að íslenska ríkinu. Stefndi hafnar því að þau fordæmi Hæstaréttar sem stefnandi vísar til eigi við í málinu. Beri að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts samkvæmt  2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í annan stað byggir stefndi sýknukröfu sína á því að umþrætt greiðsla virðisaukaskatts sé ekki riftanleg og þess vegna beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Heldur stefndi því fram að skilyrði gjaldþrotaskiptalaga um riftun á ráðstöfun þrotamanns séu ekki uppfyllt.  Stefndi hafi móttekið skil á virðisaukaskatti með venjulegum hætt á lögboðnum gjalddaga og hafi hvorki vitað né mátt vita um aðstöðu Steinsmiðjunnar Reinar ehf. á þeim tíma.  Stefndi þurfi því ekki að þola riftun á greiðslunni.

Stefndi mótmælir því að skilyrði 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga til riftunar séu uppfyllt.  Stefndi hafi hvorki vitað né mátt vita um beiðni um gjaldþrotaskipti 5. ágúst 2003. Fyrsta mögulega tímamark sem stefndi hafi getað fengið vitneskju um gjaldþrotabeiðni félagsins hafi verið þegar félagið var úrskurðað gjaldþrota 22. október 2003 og tilkynning þess efnis var birt í opinberum skrám Lánstrausts hf.  Stefndi hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að félagið væri ógjaldfært á þeim tíma þegar greiðslan fór fram og hafi verið í góðri trú þegar hann móttók greiðsluna.  Sé þar af leiðandi uppfyllt undanþáguákvæði 1. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti til að stefndi þurfi ekki að þola riftun á greiðslunni.

Að auki byggir stefndi á því að túlka beri ákvæði 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga á hugtakinu skuld þannig að það eigi ekki við um greiðslu virðisaukaskatts á lögboðnum gjalddaga. Helgast þessi skilningur stefnda af þeirri staðreynd að um leið og virðisaukaskatti sé skilað á gjalddaga sé hinn virðisaukaskattskyldi aðili laus undan skyldu sinni. Umþrætt greiðsla hafi þannig verið staðgreiðsla Steinsmiðjunnar Reinar ehf. á virðisaukaskatti á lögboðnum gjalddaga og því ekki skuld í skilningi 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga og eigi stefndi því ekki að þurfa þola riftun á henni.      

Stefndi mótmælir kröfum stefnanda á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Engu máli skipti gagnvart stefnda þau viðskipti sem forráðamenn hins gjaldþrota félags hafi átt að sögn stefnanda áður en umþrætt greiðsla barst stefnda á lögboðnum gjalddaga. Í fyrsta lagi mótmælir stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að um greiðslu á skuld í skilningi 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga hafi verið að ræða. Vísar stefndi um það í ofangreinda skýringu á hugtakinu skuld.  Enn fremur mótmælir stefndi því sérstaklega að það komi fram í gögnum málsins að um greiðslu skuldar Steinsmiðjunnar Reinar ehf. við stefnda sé að ræða. Hvergi sé nefnt í kaupsamningi að viðsemjandi félagsins skuli greiða virðisaukaskatt fyrir það. Auk þess hafi Steinsmiðjan Rein ehf. ekki verið í vanskilum við stefnda að því er varði virðisaukaskatt þegar kaupsamningurinn var gerður.

Í öðru lagi mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda að umrædd greiðsla hafi skert greiðslugetu félagsins verulega í skilningi 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga.  Ekki hefur verið sýnt fram á að greiðslan hafi verið liður í kaupsamningi aðila eða hvernig öðrum greiðslum sem milli þeirra fóru hafi verið ráðstafað. Staða félagsins á greiðslutíma virðisaukaskattsins sé þannig með öllu óljós og ekki sé hægt að segja til um hver greiðslugeta þess hafi verið á þeim tímapunkti. Sú fjárhæð sem stefndi tók á móti sé að auki brot af þeirri upphæð sem Steinsmiðjan Rein ehf. virðist hafa haft til umráða á þessum tíma. Sýnist stefnda það jafnframt augljóst að félag sem gat sjálft reitt fram skiptatryggingu til héraðsdóms um leið og beiðst var gjaldþrotaskipta eigi ekki að fá umrædda greiðslu til baka á þessum grundvelli. 

Í þriðja lagi er því sérstaklega mótmælt að greiðslan hafi verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti.  Þvert á móti hafi greiðslan verið greidd með peningum samkvæmt virðisaukaskattskýrslu fyrir tímabil 2003-24. Almennt teljist greiðsla sem greidd sé með peningum á lögboðnum gjalddaga ekki óvenjuleg. Stefndi hafnar þeim fullyrðingum stefnanda að hann varði einhverju hvernig viðskiptum aðila umrædds kaupsamnings hafi verið háttað.

Samkvæmt framangreindu telur stefndi að greiðsla virðisaukaskatts hafi með öllu móti virst venjuleg eftir atvikum í skilningi 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þessi málsástæða stefnda byggir á þeirri mikilvægu undantekningarreglu ákvæðisins að engu skiptir hvort greiðslan hafi verið liður í samningi aðilanna, eins og stefnandi hafi haldið fram, eða hvort hún hafi skert greiðslugetu félagsins verulega ef hún hefur virst venjuleg eftir atvikum.  Af þessum sökum sé greiðslan ekki riftanleg.

Stefndi mótmælir sérstaklega endurkröfu stefnanda byggðri á 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti, þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði riftunar. Enn fremur byggir stefndi á því að hann hafi ekki hagnast í skilningi ákvæðisins sem leiði til þess að þó að dómurinn telji greiðsluna vera riftanlega vegna einhverra atvika verði stefndi ekki dæmdur til að endurgreiða kröfuna. Auk þessa telur stefndi það almennt óeðlilegt og andstætt megininntaki laga um virðisaukaskatt að endurgreiða þann virðisaukaskatt sem félagið hafi innheimt fyrir ríkissjóð af viðskiptamönnum sínum á fyrrgreindu tímabili, sbr. t.d. ákvæði 1. gr., 3. gr., 7. gr. 8. gr., 13.gr., 15. gr. 24., gr., 27. gr. og 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um dráttarvexti og krefst þess að hann verði ekki dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti. Stefndi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við greiðslunni og ekki sé sanngjarnt að hann verði látinn bera hallann af því að hið gjaldþrota félag tilkynnti ekki kröfuhöfum sínum sérstaklega um að það hefði óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Hann mótmælir einnig upphafstíma dráttarvaxta og telur þá fyrst geta komið til greina frá og með 12. ágúst 2004 er mánuður var liðinn frá fresti þeim sem skiptastjóri veitti í bréfi sínu dagsettu 6. júlí 2004.

IV.

Niðurstaða

Stefndi í máli þessu, Tollstjórinn í Reykjavík, fer með innheimtu virðisaukaskatts í Reykjavík í samræmi við  1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignaskatt, sbr. 4. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Virðisaukaskattur rennur hins vegar í ríkissjóð samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 sem er á forræði fjármálaráðherra samkvæmt lögum nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 3/2004.

Stefndi, Tollstjórinn í Reykjavík, er stofnun á vegum ríkisins og fer með opinbert vald sem slík. Í réttarfarsframkvæmd hefur verið tíðkanlegt að telja stofnanir sem þessar til lögaðila með sjálfstætt aðildarhæfi og þar með ekki til fyrirsvarsmanna íslenska ríkisins í skilningi 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gildir þá einu þótt ríkisstofnun sé hluti íslenska ríkisins og geti með ákveðnum hætti skoðast sem fyrirsvarsmaður ríkisins að því er varðar þau málefni sem undir stofnunina heyra að lögum. Að virtri stefnu málsins er einnig ótvírætt að stefnda hefur ekki verið stefnt fyrir dóm til að þola kröfur stefnanda fyrir hönd íslenska ríkisins eða ríkissjóðs, sbr. 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991.

Það er álit dómara að það sakarefni sem hér um ræðir, riftun ráðstöfunar fjár í ríkissjóð og greiðsla þess til stefnanda, sé ekki á forræði stefnda sem innheimtumanns ríkissjóðs heldur fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og þar með ríkissjóðs. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt stefndi komi fram sem innheimtumaður fyrir hönd íslenska ríkisins samkvæmt nánari ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem um hann gilda. Samkvæmt framangreindu er stefndi rangur aðili málsins. Að kröfu stefnda verður hann því sýknaður með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Eyvindur G. Gunnarsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Eyþóra Kristín Geirsdóttir hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Tollstjórinn í Reykjavík, er sýkn af kröfu stefnanda, þrotabús Steinsmiðjunnar Reinar ehf.

Málskostnaður fellur niður.