Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-64

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Sigmari Hirti Jónssyni (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 10. mars 2025 leitar Sigmar Hjörtur Jónsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 30. janúar sama ár í máli nr. 201/2024: Ákæruvaldið gegn Sigmari Hirti Jónssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 11. febrúar 2025. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft samræði við brotaþola með nánar tilgreindum hætti.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda og refsingu sem dæmd var fangelsi í tvö ár. Þá var niðurstaða um miskabætur til brotaþola staðfest. Landsréttur tók fram að leyfisbeiðandi hefði neitað með öllu að hafa hitt brotaþola nóttina sem ætlað brot hefði átt sér stað og haft við hana samræði. Hefði hann ekki getað gefið neinar skýringar á því hvers vegna erfðaefni úr brotaþola hefði fundist á honum, en bent á að hugsanlega hefði það borist með óbeinum hætti. Landsréttur rakti niðurstöður lífsýnarannsóknar og framburð réttarrannsóknarfræðings í héraði og viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að það teldist sannað að leyfisbeiðandi hefði hitt brotaþola umrædda nótt og átt við hana samskipti sem leiddu til þess að umtalsvert erfðaefni aðila greindist í lífsýnum sem tekin voru af þeim daginn eftir. Sérstaklega væri horft til þess hvar DNA úr brotaþola fannst í sýnum sem tekin hefðu verið af getnaðarlimi leyfisbeiðanda og nærbuxum. Engar vísbendingar væru um það í málinu að DNA úr brotaþola hefði getað ratað þangað með óbeinum hætti. Af því leiddi að framburður leyfisbeiðanda væri metinn ótrúverðugur. Í því ljósi lagði Landsréttur til grundvallar að framburður brotaþola, sem væri áreiðanlegur, gæfi rétta mynd af samskiptum aðila umrædda nótt. Var því talið sannað að leyfisbeiðandi hefði gerst sekur um þá háttsemi sem greindi í ákæru.

5. Leyfisbeiðandi byggir annars vegar á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og hins vegar að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Hann tekur fram að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi. Vísar hann einkum til þess að rannsókn á símum leyfisbeiðanda og brotaþola hafi verið ófullnægjandi og misbrestur á merkingum sýna við sýnatökur. Þá hafi líkamsskoðun og lífsýnataka af brotaþola verið ófullnægjandi og vettvangsrannsókn óvönduð. Þá byggir hann á því að forsendur héraðsdóms, sem staðfestar hafi verið með dómi Landsréttar, hafi ekki verið í samræmi við sönnunarreglur sakamálaréttarfars í ljósi misvísandi framburða í málinu. Einnig séu læknisfræðileg gögn mjög ófullkomin. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að samræði milli hans og brotaþola sé ósannað og héraðsdómur og Landsréttur hafi rang- eða oftúlkað þær lífsýnarannsóknir sem legið hafi fyrir í málinu. Hvorki sé útilokað að niðurstöður DNA-rannsóknar séu rangar vegna annmarka á rannsókn né að eðlilegar skýringar séu á niðurstöðu hennar.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggist jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.