Hæstiréttur íslands
Mál nr. 434/2000
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2001. |
|
Nr. 434/2000. |
K(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn M (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Börn. Forsjá.
M og K eignuðust soninn A árið 1995. Bjuggu þau saman í óskráðri sambúð við fæðingu hans. Skömmu síðar slitnaði upp úr sambúðinni, en M gekkst við faðerni A sem dvaldi hjá móður sinni. Árið 1999 höfðaði M mál og krafðist forsjár A þar sem stöðugir flutningar K hefðu skapað mikið óöryggi fyrir drenginn og erfitt hefði reynst að koma reglu á umgengni við barnið. Í héraðsdómi er rakin matsgerð dómkvaddra matsmanna um hagi aðila, tengsl þeirra við barnið og hæfi til að fara með forsjá þess. Voru bæði M og K talin hæf til að hafa forsjá A, en ýmsar aðstæður þóttu veita M nokkuð forskot og var honum dæmd forsjá drengsins. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms með vísan til forsendna hans og þeirrar athugasemdar, að uppeldisaðstæður barnsins þættu vera góðar og traustar hjá M og að það búi þar við öryggi og stöðugleika. Gögn málsins vitnuðu hins vegar um óstöðugar uppeldisaðstæður A hjá K og yrði ekki fram hjá því litið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 28. nóvember 2000. Hún krefst þess að sér verði dæmd forsjá drengsins A, sem fæddur er 6. desember 1995, og að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Báðir aðilar hafa gjafsókn fyrir Hæstarétti.
Ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Varða þau úrskurð Héraðsdóms Norðurlands vestra 5. nóvember 1999 um að stefnda verði falin forsjá drengsins til bráðabirgða og allt þar til endanlegur dómur falli um forsjá hans, en um úrskurð þennan er fjallað í héraðsdómi. Þá hefur af hálfu stefnda verið lögð fram yfirlýsing formanns barnaverndarnefndar hreppanna sunnan Skarðsheiðar um að móðir áfrýjanda hafi staðfest að hún búi ekki lengur að X og hafi ekki viljað greina frá því hvar hún dveldi. Áfrýjandi er skráð með lögheimili að X. Fram kom við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að áfrýjandi býr nú í leiguhúsnæði í Kópavogi og er í vinnu, en frekari upplýsingar um hagi hennar komu ekki fram.
I.
Málavextir og málsástæður eru rakin í héraðsdómi. Ágreiningur málsaðila varðar forsjá sonar þeirra, en við fæðingu hans bjuggu þau saman í óskráðri sambúð. Skömmu síðar slitnaði upp úr sambúðinni, en stefndi gekkst við faðerni barnsins með yfirlýsingu 22. janúar 1996. Í ágúst 1999 fór stefndi fram á það hjá sýslumanninum í Reykjavík að forsjá barnsins yrði breytt. Áfrýjandi hafnaði þeirri kröfu hjá sýslumanninum á Blönduósi í þeim sama mánuði, en málið hafði verið sent þangað þar sem áfrýjandi bjó þá þar.
Stefndi höfðaði síðan mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra, sem þingfest var 3. nóvember 1999. Segist hann hafa gert það vegna stöðugra flutninga áfrýjanda, sem hafi skapað mikið óöryggi fyrir drenginn. Fékk hann yfirlýsingu hjá stjúpföður áfrýjanda þessu til staðfestu. Þá telur stefndi að erfitt hafi reynst að koma reglu á umgengni við barnið.
Í héraði reisti stefndi málsókn sína á 3. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 20/1992, en ákvæðið er við það miðað að móðir hafi lögbundna forsjá, sbr. 2. mgr. 30. gr. laganna. Taldi hann barnið mjög tengt sér og fjölskyldu sinni. Með bréfi lögmanns stefnda til Hæstaréttar 21. mars 2001 breytti lögmaðurinn þessum grunni málsins og kynnti réttinum að hann hygðist við munnlegan flutning málsins byggja aðallega á því að forsjá barnsins hefði verið sameiginleg frá fæðingu þess. Taldi hann þessa breytingu á grundvelli málsins heimila með vísan til 62. gr. barnalaga.
Lögmaður áfrýjanda mótmælti þessum breytta málatilbúnaði stefnda með bréfi til réttarins 22. sama mánaðar og taldi að með þessu raskaði stefndi grundvelli málsins með þeim hætti að ekki yrði byggt á breyttum málatilbúnaði fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsmál vegna forsjár barns sæta almennri meðferð einkamála, en þó með töluverðum frávikum sem stafa af eðli þessara mála. Þess vegna mælir 62. gr. barnalaga fyrir um að aðilum sé heimilt að gera nýjar kröfur og koma með nýjar málsástæður allt þar til mál er flutt. Þar sem hér er vikið frá almennum reglum einkamála verður þó við það að miða að reynt sé að halda málinu sem mest í upphaflegum skorðum. Aðilar hafa hagað sér eins og áfrýjandi hafi í raun haft forræði barnsins. Verður ekki séð að nú sé ástæða til að hreyfa við þeim grundvelli sem málinu var markaður í upphafi að þessu leyti. Verður ekki litið svo á að breyting sú er lögmaður stefnda vill gera þar á hafi úrslitaþýðingu fyrir niðurstöðu málsins, enda ber að haga meðferð þess með þá efnisreglu að leiðarljósi að velja ávallt þá lausn sem barni er fyrir bestu.
Í héraðsdómi er rakinn úrskurður, sem kveðinn var upp að kröfu stefnda 5. nóvember 1999, um forsjá barnsins til bráðabirgða. Var hann kveðinn upp án þess að áfrýjandi kæmi fyrir dóm. Þá er þar sagt frá úrskurði 4. febrúar 2000 þar sem hafnað var kröfu áfrýjanda um breytingu á forræði til bráðabirgða samkvæmt fyrra úrskurðinum. Heldur áfrýjandi því fram að fyrri úrskurðurinn hafi verið fenginn á röngum forsendum. Þar komi ekki fram hver hafi verið aðdragandi þess að barnið var hjá stefnda þegar beiðni um forsjá þess til bráðabirgða var lögð fram 29. október 1999. Þá hafi fyrirkall dómstjóra verið birt áfrýjanda í Keflavík kl. 13:25 hinn 2. nóvember, réttum sólarhring áður en taka átti fyrir beiðnina. Beiðnin sjálf hafi ekki fylgt fyrirkallinu. Því er haldið fram að áfrýjandi hafi enga grein gert sér fyrir afleiðingum þess að hún mætti ekki við þinghaldið eða hafði samband við dómarann. Þetta upphaf málsins hafi litað allt framhald þess og haft áhrif á niðurstöðu héraðsdóms.
Fallast ber á það með áfrýjanda að héraðsdómara hafi ekki verið rétt vegna eðlis þessa máls að kveða upp úrskurð um forsjá barnsins til bráðabirgða án þess að reyna frekar að ná til áfrýjanda. Hins vegar lá það fyrir þegar héraðsdómur hafnaði breytingum á forsjá til bráðabirgða að áfrýjandi hafði haustið 1999 farið frá Blönduósi og skilið barnið eftir í þrjár vikur hjá sambúðarmanni, sem hún taldi sig hafa slitið sambúð við. Sambúðarmaðurinn hafi svo að hennar ósk sent barnið suður til hennar. Hún hafi á þessum tíma verið í vinnu í Keflavík og búið þar á farfuglaheimili. Áfrýjandi varð of sein til að taka á móti barninu á Umferðarmiðstöðinni í Reykjavík og tók stefndi það með sér heim til sín, en félagsmálastjóri Austur-Húnavatnssýslu hafði látið hann vita að barnið væri væntanlegt. Þangað sótti áfrýjandi barnið nokkru síðar. Það kom síðan aftur til stefnda í venjulega umgengni og fór þaðan ekki aftur heldur gerði stefndi áðurnefndar kröfur um forsjá þess.
Úrskurðurinn um forsjá barnsins til bráðabirgða er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Hins vegar má fallast á það með áfrýjanda að líta verði til málavaxta í heild þegar niðurstaða málsins er ráðin og þá einnig til þess hvernig farið var með málið í upphafi.
II.
Í héraðsdómi er rakin matsgerð dómkvaddra matsmanna 6. júlí 2000 um hagi aðila, tengsl þeirra við barnið og hæfi til að fara með forsjá þess. Þegar matsmenn skiluðu mati sínu bjó áfrýjandi heima hjá móður sinni og stjúpföður að X við ágætar aðstæður og var í fjölbrautarskólanum á Akranesi. Að framan er því lýst að aðstæður hennar hafi breyst.
Að áliti matsmanna eru báðir aðilar hæfir til að hafa forsjá barnsins en ýmsar aðstæður veiti þó stefnda nokkurt forskot í því efni. Í framburði annars matsmannsins fyrir dómi kemur fram að líðan barnsins hafi breyst til hins betra eftir að það flutti til stefnda. Er ekki annað fram komið en að uppeldisaðstæður barnsins séu góðar og traustar hjá stefnda og búi það þar við öryggi og stöðugleika. Gögn málsins vitna hins vegar um óstöðugar uppeldisaðstæður barnsins hjá áfrýjanda, en aðstæður hennar hafa nú enn breyst. Verður ekki fram hjá því litið. Að þessu virtu en annars með vísan til forsenda héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður aðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður aðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkisjóði, þar með talin þóknun til talsmanna þeirra fyrir réttinum, 300.000 krónur til hvors.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 31. október 2000.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 3. þessa mánaðar er höfðað af M, kt. [...] á hendur K, kt. [...], með stefnu birtri 18. október 1999.
Dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst þess, að honum verði falin forsjá barnsins A, kt. [...]. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og þess að málskostnaður verði ákveðinn eins og mál þetta sé ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefndu.
Stefnda krefst þess, að kröfum stefnanda verði hafnað og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi og að málskostnaður verði ákveðinn eins og mál þetta sé ekki gjafsóknarmál.
II.
Málavextir.
Aðilar málsins voru í óskráðri sambúð er sonur þeirra fæddist í desember 1995 en skömmu eftir það slitnaði upp úr sambúðinni. Með yfirlýsingu dagsettri 22. janúar 1996 gekkst stefnandi við faðerni barnsins og þann 17. apríl 1996 staðfesti sýslumaðurinn í Reykjavík samkomulag aðila um meðlagsgreiðslur.
Þann 3. ágúst 1999 lagði stefnandi fram beiðni um breytta forsjá drengsins hjá sýslumanninum í Reykjavík en þann 22. ágúst hafnaði stefnda kröfunni hjá sýslumanninum á Blönduósi.
Í framhaldi af þessu höfðaði stefnandi mál til þess að honum yrði falin forsjá barns þeirra. Málið var þingfest 3. nóvember sl. Jafnframt voru þann dag þingfest mál, höfðuð af varnaraðila, þar sem hann krafðist forsjár til bráðabirgða og jafnframt að barnið yrði sett í farbann.
Þann 5. nóvember sl., var í dóminum kveðinn upp úrskurður þess efnis að stefnandi skyldi fara með forsjá sonar aðila þar til endanlegur dómur gengi í málinu. Kröfu um farbann var hins vegar hafnað. Stefnda fór því með forsjá barnsins frá fæðingu þess og allt þar til úrskurður um forsjá til bráðabirgða gekk.
Með bréfi dagsettu 1. desember sl. krafðist stefnda þess að mál það sem endaði með því að stefnanda var falin forsjá A til bráðabirgða yrði endurupptekið þannig að stefndu gæfist kostur á að koma að vörnum í málinu og efnisúrskurður yrði lagður á málið. Byggði stefnda kröfur sínar á því að boðað hafi verið til þinghaldsins með of stuttum fyrirvara.
Í þinghaldi þann 16. desember sl. féll stefnda frá kröfu sinni um endurupptöku og þar með reyndi ekki á hvort skilyrði væru fyrir endurupptöku málsins. Stefnandi gerði hins vegar kröfu um að forsjánni yrði breytt og vísaði í því sambandi til 36. gr. barnalaga. Með úrskurði uppkveðnum 4. febrúar sl. var kröfu stefnanda hafnað. Því hefur stefnandi farið með forsjá drengsins frá því að úrskurður um forsjá til bráðabrigða var kveðinn upp þann 5. nóvember 1999.
Dómari dómkvaddi sálfræðingana Gylfa Ásmundsson og Þorgeir Magnússon til að gera sálfræðilega matsgerð m.a. varðandi aðila málsins, hagi þeirra, tengsl þeirra við barnið og hæfi til að fara með forsjá barnsins svo og varðandi barnið sjálft og er hún dagsett 6. júlí sl.
III.
Framburður fyrir dóminum.
Stefnandi, kveðst nú vera í traustri sambúð, en óskráðri, sem hann telji að eigi framtíð fyrir sér. Hann segir að samband hans við barnið sé gott og sama megi segja um samband barnsins og sambýliskonu hans. Stefnandi kveðst vinna hjá bílaleigu og hafi þar útborguð laun um 105.000 krónur á mánuði en samtals greiði hann um 70.000 krónur í afborganir af lánum og fleiru. Hann kveður sambýliskonu sína vera í skóla en hún vinni einnig hálfan daginn.
Stefnandi segist hafa gert kröfu um forsjá barnsins vegna eilífs flakks á móður þess sem hafi skapað mikið óöryggi fyrir drenginn en hún hafi stöðugt verið að flytja. Stefnandi kveðst hafa leitað til stjúpföður stefndu fengið hjá honum yfirlýsingu þar um sem liggi frammi í málinu. Stefnandi kveður að erfitt hafi verið að koma reglu á umgengni við barnið meðan það var hjá móður þess en þó hafi hann fengið drenginn til sín ef eitthvað stóð til í fjölskyldunni en engin regla hafi verið á umgengninni. Drengurinn hafi stundum komið oftar til hans en aðra hverja helgi en það hafi verið í góðu lagi. Stefnandi kannast einnig við lýsingu foreldra sinna á því hvernig stefnda skildi barnið eftir í vörslum þeirra án fyrirvara. Stefnandi kveðst hafa staðið við sinn hluta varðandi umgengni móður við barnið eftir að það kom til hans en sú umgengni hafi verið regluleg. Að sögn stefnanda voru samskipti hans og stefndu ekki ,,rosalega góð" en stefnda hafi óskað eftir aukinni umgengni en hún hafi ekki komist á. Stefnandi kveður drenginn verða óöruggann ef móðir hans er með hann á öðrum stöðum en að X þar sem afi hans og amma búa. Stefnandi kveður drenginn stundum hegða sér illa eftir að hann kom til baka eftir umgengni við móður sína.
Stefnandi kveðst vera tilbúinn að lýsa því yfir að hann muni stuðla að góðri umgengni móður við barnið verði niðurstaða dómsins sú að hann skuli fara með forsjána.
C, sambýliskona stefnanda gaf skýrslu fyrir dóminum. Hún kvað sambúð þeirra trausta og góða og hún líti á hana sem framtíðar sambúð. Hún kveður samband sitt við barnið gott og það hafi tekið henni vel en hún virði að sjálfsögðu rétt barnsins til að eiga aðra móður. Mætta kveður þau hjálpast að við alla hluti er snúi að barninu. Hún kveðst vera í tölvunarfræðinámi við Háskólann í Reykjavík og hún muni útskrifast eftir rúmlega eitt og hálft ár. Mætta kveður þau eiga töluvert í íbúð sinni en hún hafi hækkað verulega í verði að undanförnu. Mætta segir að umgengni barnsins við móður sína hafi gengið ágætlega sérstaklega eftir að móðir þess flutti að X. Mætta segir að nokkrir erfiðleikar hafi komið upp þegar stefnda hefur óskað eftir meiri umgengni við barnið en hafi hún ekki fengið sitt fram hafi hún reiðst mikið og stefnandi og stefnda hafi því stundum rifist vegna þessa. Mætta segir að A hafi um stund í sumar verið hræddur eftir að hann kom úr mánaðar umgengni við móður sína en ekki hafi verið um aðlögunarerfileika að ræða. Mætta ber að hún og stefnandi séu ekki í skráðri sambúð en það form henti þeim betur.
Stefnda, K kannast ekki við að lýsing foreldra stefnanda á komu drengsins til þeirra sér rétt. Þannig hafi drengurinn ekki dvalið hjá foreldrum stefnanda í 3 vikur í nóvember 1997 en á þeim tíma hafi hann verið hjá móður stefndu. Hann hafi ekki verið hjá þeim í viku í desember 1998. Hún hafi ekki komið með drenginn til þeirra og skilið hann eftir meðan hún færi í bíó en síðan ekki komið til að sækja hann fyrr en einhverjum dögum seinna. Hún hafi ekki skilið hann efir hjá þeim mörgum sinnum í tvær vikur. Hins vegar sé rétt að drengurinn hafi verið hjá þeim um í einn mánuð eftir að hann hafið verið á spítala en það hafi verið samkomulag um þessa dvöl. Stefnda kannast ekki við að hafa horfið í 3 vikur nú í sumar þ.a. stefnandi hafi ekki getað náð sambandi við hana.
Stefnda kveður umgengni sína við drenginn hafi gengið erfiðlega í sumar. Henni hafi ekki tekist að ná samkomulagi við stefnanda um eitt né neitt. Hafi hún viljað breyta einhverju hafi það ekki fengist samþykkt. Jafnframt hafi stefnandi sett henni skilyrði varðandi hvar hún megi vera með drenginn. Hún kveðst aldrei hafa sleppt umgengni við drenginn á þessum tíma og barnið hafi ekki verið í pössun á þeim tíma. Stefnda kveðst finna að barnið vilji vera hjá henni og honum líði illa. Stefnda segir umhirðu barnsins ábótavant og drengurinn sé hræddur við að fara í bað. Drengurinn sé alltaf tilbúinn til að hringja í pabba sinn og segjast vera fluttur og hann vilji sjaldnast fara til hans.
Stefnda segist hafa tekið eftir því að drengurinn borði ekki matinn sinn eftir að hann fór til stefnanda. Hann vanti líkamlega snertingu sem hann var vanur að fá hjá henni.
Stefnda kveðst í framtíðinni ætla að ljúka námi í Fjölbrautarskóla sem hún stundi nú með góðum árangri. Hún ætli að dvelja í X næstu fjögur árin. Auðvelt sé að fá gæslu fyrir drenginn þar en þar sé leikskóli sem hann hefur verið á og móðir hennar sé heima og geti því fylgst með drengnum. Að X njóti hann alls hins besta sem sveit getur boðið uppá en einnig sé mjög stutt í alla þjónustu og menningu.
Stefnda neitar alfarið að hafa verið í einhverri óreglu. Ofbeldi sem hún varð fyrir í æsku sé ekki af völdum heimilisfólks hennar. Stefnda segir að umgengni drengsins við föður sinn verði með sama hætti og fyrr fái hún forsjá barnsins. Þannig geti stefnandi alltaf fengið að sjá barnið þegar hann vilji fyrir utan reglulega umgengni eins og var áður en drengurinn fór til stefnanda.
Stefnda kveðst ekki hafa neinar tekjur núna en hún muni stunda vinnu með námi. Þá njóti hún stuðnings móður sinnar og fóstra sem útvegi mat, húsnæði og skólagjöld fyrir barnið. Hún muni síðan hafa tekjur af vinnu sinni þar fyrir utan.
Stefnda kveðst hafa búið á Blönduósi haustið 1999, flutt þaðan til Keflavíkur, þaðan til D, þaðan til afa síns og ömmu, þaðan aftur á Blönduós og að síðustu að X en allt séu þetta staðir sem barnið þekkir.
Vitnið Þorgeir Magnússon, sálfræðingur staðfesti matsgerð sem það gerði og liggur frammi í málinu. Vitnið kveðst fyrst og fremst hafa kannað hagi barnsins en Gylfi Ásmundsson það er snýr að málsaðilum. Vitnið segir að athugasemdir sem stefnandi hefur haft við matsgjörðina litlu breyta um niðurstöðu sína. Þannig hafi komið fram í viðtölum við barnið að það þrái samneyti við móður sína. Vitnið ber að honum virðist sem stefnandi sé meira vakandi fyrir hegðan barnsins en stefnda. Hins vegar tengist foreldrarnir barninu með mismunandi hætti. Móðirin lifi sig inn í líf barnsins en faðirinn geri meiri athugasemdir við hegðun hans og reyni meira að aga drenginn meðan móðirin er umburðarlindari við hann. Því finnist honum faðirinn vera meira í hlutverki uppalanda en slíkt sé gott fyrir barnið. Þó vill vitnið ekki gera lítið úr hlutverki móðurinnar og barninu stafi alls engin hætta af samskiptum sínu við móðurina. Móðirin tengist barninu mjög mikið og barnið móður sinni þannig að tengslin séu gagnkvæm og raunar sé barnið tilfinningalega háð móður sinni. Slík tengsl séu bráðnauðsynleg fyrir barnið. Hér sé deilt um forsjá og tengsl barnsins við móður myndu væntanlega ekki rofna en þau myndu breytast. Barnið myndi ná sér í svipaða ,,næringu" hjá öðrum t.d. föður sínum eða stjúpu. Seinni tíma athuganir sýni að flest börn séu vanmetin því þau séu fær um að mynda ný tengsl ef nýir einstaklingar standi til boða. Þetta megi sjá í dag en skilnaðir og rót á fjölskyldum séu miklu meiri í dag en áður. Þetta barn skeri sig ekki úr hópi annarra barna og hann ætti að spjara sig og hann muni þola á hvorn veginn sem málið fer. Báðir foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá barnsins. Barnið hafi miklar væntingar til móður sinnar en hann hafi baslað lengi með henni. Nú megi skilja drenginn þannig að hann telji að úr sé að rætast hjá móður sinni og hann geri væntingar til hennar.
Vitnið segist aðspurt fullyrða að líðan barnsins hafi breyst til betra horfs eftir að það flutti til föður síns. Vitnið telur mikilvægt að barnið búi við öryggi og stöðugleika sem stefnandi hafi boðið því eins og raunar eigi við um öll börn. Það sé gott fyrir barnið að búa við aðhald en nokkur flækingur hafi verið á barninu frá fæðingu. Vitnið kveðst ekki gera mikið úr þeim einkennum sem barnið hafi vegna umskiptanna. Þetta séu streituáhrif sem eðlilegt sé að barnið hafi en ekki sé ástæða til að gera mikið úr þeim og ekki sé rétt að draga neinar sérstakar ályktanir af hegðan barnsins skömmu eftir að það hefur komið úr umgengni við föður eða móður. Vitnið segir eðlilegt að barnið hafi hegðað sé á óeðlilegan hátt þegar umhverfi þess breyttist skyndilega síðastliðið haust. Vitnið kveðst ekki hafa séð merki þess að þroskamerki barnsins væru jafnlág og mælingar Einars Inga, sálfræðings sem liggja frammi í málinu sýna. Hugsanlegt er að barnið hafi verið í uppnámi þegar Einar Ingi framkvæmdi sínar athuganir.
Vitnið segir að aðstæður barnsins séu alls ekki slæmar á hvorugum staðnum. Í forsjárprófinu séu aðstæður föður metnar þannig að hann búi á eigin heimili en móðirin í foreldrahúsum og því vigti það öðruvísi en aðstæður móður bendi til þess að hún sé ekki eins sjálfstæð. Hins vegar taki prófið ekki tillit til aldurs fólks.
Vitnið segist telja að barnið þyldi að flytja aftur til móður sinnar þó að aðstæðum hans yrði raskað nokkuð en slík breyting myndi valda honum tímabundnum aðlögunarvanda. Raunar sætti börn sig almennt við það sem foreldrar þeirra eru sáttir við. Ef breyting eigi að eiga sér stað sé best að hún eigi sér stað hið fyrsta.
Vitnið segir það ekki vera áhættu fyrir framtíðarlíðan barnsins að það flyttist til móður sinnar og ef samskipti foreldra eru ekki góð þá sé það slæmt fyrir barnið hvar sem það býr. Vitnið treystir sér ekki í dag til að svara hjá hvoru foreldri barninu sé betur borgið en þegar hann vann málið hafi hann verið þeirrar skoðunar að því væri betur borgið hjá föður.
Vitnið kveðst ekki hafa orðið vart við að aðilar töluðu illa um hvort annað þegar hann vann málið og kveður móður hafa lagt áherslu á að faðirinn kæmi að uppeldi og ummönnun barnsins.
Vitnið Gylfi Ásmundsson, sálfræðingur staðfesti matsgerð sína fyrir dóminum.
Vitnið segir að í prófum komi fram að ekkert bendi til annars en að tilfinningaþroski stefndu sé eðlilegur. Hins vegar sé hún tilfinningasöm og þegar rannsóknin var gerð hafi hún verið haldin þunglyndi en kannski sé fullmikið að halda því fram að hún sé á valdi þeirra eins og fram kemur í matsgerð. Vitnið segir stefndu vera á verði gagnvart öðru fólki en hún sé ekki með ásóknarhugmyndir eða slíkt. Vitnið segir stefndu líta á barnið sem hluta af sér og hún verji það. Skapgerð hennar valdi því að hún muni verja það. Vitnið kveðst ekki vita hvernig stefndu gangi að vinna á þunglyndi sínu í dag en hann hafi ekki hitt hana í sex mánuði. Hann telji þó að þunglyndi hennar hafi verið tímabundið og geti hæglega hafa lagast. Vitnið telur að aðstæður stefndu á þeim tíma hafi haft áhrif á þunglyndi hennar. Þunglyndið hafi verið innan eðlilegra marka og því sé rétt að telja stefndu heilbrigðan einstakling. Vitnið segir að þunglyndi meðan á því standi hafi áhrif á einstaklinginn en þunglyndi stefndu ætti ekki að standa í vegi fyrir því að hún teljist hæfur uppalandi. Hins vegar hafi þunglyndi áhrif meðan á því stendur.
Vitnið segir að félagslegur skilningur stefnanda sé nokkuð undir meðallagi en hann sé innan eðlilegra marka í greind og ekkert bendi til annars en að hann klári sig ágætlega og sé hæfur uppalandi
Vitnið segir að ef tengsl og aðbúnaður hefur verið góður fyrstu árin þá skipti sá grunnur miklu máli fyrir barnið og það skipti málið fyrir barnið að fá að halda þeim tengslum. Vega þurfi og meta hvort barni er fyrir bestu að búa á öðrum stað og þá sé umgengni skárri en ekki.
Barnið sé tilfinningalega tengdara móður sinni eins og oft er en önnur tengsl og aðhald sé kannski sterkara gagnvart föður.
Vitnið kveðst ekki geta svarað því hvort stefnandi eða stefnda sé betur hæft til að fara með forsjá barnsins en það byggist fyrst og fremst á aðstæðum þeirra í framtíðinni.
Vitnið B móðir stefnanda, staðfesti skjal sem það gerði og liggur frammi í málinu.
Vitnið E, kennari, fósturfaðir stefndu segist að beiðni stefnanda hafa tekið saman yfirlit um aðsetur stefndu á ákveðnu tímabili og þá til að sýna hvar barnið hefur búið. Vitnið segist ekki hafa verið í neinu sambandi við stefndu þegar hún bjó á Blönduósi en fengið upplýsingar um hana frá stefnanda og vini þeirra. Vitnið kveðst vera tilbúinn til þess nú að veita stefndu félagslegan og fjárhagslegan stuðning eins og hún þurfi fái hún forsjá barnsins.
Vitnið F, móðir stefndu segir stefndu hafa flutt til þeirra að X í janúar eða febrúar á þessu ári og sambúðin gangi mjög vel. Vitnið kveðst ekki hafa verið í neinu sambandi við stefndu meðan hún bjó á Blönduósi. Hún hafi fengið fréttir af stefndu í gegnum stefnanda og móður hans. Vitnið segir að sér hafi ekki verið kunnugt um að stefnandi ætlaði að reyna að fá varanlega forsjá yfir barninu en hún hafi vitað að hann ætlaði að reyna að fá forsjá til bráðabirgða. Vitnið segist geta veitt stefndu húsaskjól, fæði, aðstoð með barnið og raunar geti hún veitt henni allt það sem hún þarfnast fái hún forsjá barnsins. Þá segir hún aðstöðu til að vera með barn mjög góða að X. Vitnið telur að stefnda sé vel hæf til að fara með forsjá barnsins og að hún hafi náð góðum tökum á þunglyndi sem hrjáð hefur hana og raunar sé hún í góðu jafnvægi í dag. Vitnið segir að stefnda hafi átt mjög erfitt á síðasta hausti þegar stefnandi fór fram á forsjá barnsins.
Jófríður Jónsdóttir, félagsmálastjóri A-Húnavatnssýlsu ber að sambýliskona stefnanda hafi hringt í hana í júlí á síðasta ári en fram að þeim tíma hafi hún ekki haft nein afskipti af stefndu eða heimili hennar og hún hafi ekki sem félagsmálastjóri haft ástæðu til að hafa afskipti af heimilinu. Vitnið segir að í samtali við sambýliskomu stefnanda hafi komið fram að stefnda ætti vanda til að hverfa og þar með gæti stefnandi ekki haft tal af henni vegna umgengni og því hafi hún ekki tekið þetta sem barnaverndarmál á þeim tíma. Vitnið segist hafa fengið tilkynningu um að barnið væri eitt síns liðs góðan spöl frá heimili sínu en tilkynnandi hafi þekkt drenginn úr leikskólanum. Vitnið segist hafa haft samband við þáverandi sambýlismann stefndu og hann hafi sagt að tilkynningin ætti ekki við rök að styðjast. Vitnið segist ekki mynda sér ekki neina skoðun á því hvað um er að vera þegar hún fær tilkynningu um að börn séu ein á ferð. Í þetta sinn hafi afskipti hennar af málinu verið við sambýlismann stefndu. Hún hafi ekki á því stigi talið ástæðu til að hafa afskipti af heimilinu. Vitnið segist hafa fengið upplýsingar um að stefnda hafi skilið barnið eftir á Blönduósi þegar hún fór til Njarðvíkur eftir að hún fór þangað. Hún hafi talið þá ráðstöfun stefndu skynsamlega. Vitnið segist ekki hafa haft beina vitneskju um að stefnda hafi verið í óreglu eða neyslu lyfja. Hún hafi fengið upplýsingar um það frá aðila utan Blönduóss. Vitnið segir að félagsmálayfirvöld hafi ekki fengið tilkynningu um að eitthvað væri athugavert við heimili stefndu fyrr en í september 1999. Af þeirri ástæðu hafi staðið til að kanna heimili stefndu í lok október en þá hafi stefnda verið flutt frá Blönduósi. Vitnið segist hafa farið til stefndu þar sem hún bjó í Njarðvík í framhaldi af þessu þar sem henni þótti ekki unnt að skilja við málið án þess að athuga það betur. Þar sem stefnandi hafi fengið forsjá barnsins hafi ekki verið ástæða til að athuga nánar með hagi stefndu. Vitnið kveðst hafa ráðlagt stefnanda að taka barnið til sín vegna aðstæðna stefndu í Njarðvík og vegna þeirra tilkynninga sem henni höfðu borist svo og vegna þess hvernig til kom að barnið var sent til stefndu frá Blönduósi. Vitnið kveðst ætla að hún hefði ekki lagt til, miðað við það sem hún vissi um hagi stefndu á Blönduósi, að barnið færi til stefnanda ef stefnda hefði búið áfram á Blönduósi.
IV.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Í stefnu byggir stefnandi kröfur sínar á því að drengurinn sé hændur að sér og sinni fjölskyldu. Aðstæður til að hafa barnið séu góðar hjá honum og sambýliskomu hans en þau búi í eigin íbúð þar sem drengurinn hafi sér herbergi. Hann sé í fullri vinnu en sambýliskona hans í námi og hún njóti námslána. Þannig sé fjárhagur þeirra traustur. Stefnandi byggir einnig á því að drenginn hafa verið mikið hjá föðurforeldrum og njóti stefnandi stuðnings þeirra við uppeldi barnsins.
Stefnandi byggir einnig á því að stefnda geti ekki veitt barninu sama öryggi og stefnandi. Hún hafi búið víða með drenginn, henni hafi ekki haldist á vinnu og að miklu leyti verið á framfæri hins opinbera. Stefnandi heldur því fram í greinargerð að umgengni hans við drenginn hafi verið óregluleg og stefnda verið ófáanleg til að koma á fastri umgengni. Erfiðlega hafi gengið hjá honum að fá að hitta drenginn Stefnandi kveðst hafa fengið drenginn til sín helgina 8. til 10. október 1999 en eftir þá helgi hafi drengurinn ekki viljað fara aftur til stefndu á Blönduós og þá hafi verið samið um að drengurinn yrði lengur hjá stefnanda. Stefnandi byggir á því að tengsl drengsins við hann séu mjög sterk og því mikilvægt að tryggja búsetu hans hjá föður en löng fjarvera frá föður valdi barninu miklu óöruggi en barnið finni meira öryggi hjá sér en móður.
Stefnandi vísar og til sjónarmiða barnaréttar um virðingu fyrir umgengnisrétti forsjárlauss foreldris. Að mati stefnanda hafi stefnda ekki ávallt fyllt þeirri skyldu sinni að stuðla að umgengni drengsins við sig.
Stefnandi byggir og á því, að stefnda hafi búið víða í gegnum tíðina og verið í a.m.k. tveimur sambúðum frá því að barnið fæddist. Þessi tíðu umhverfisskipti hafi haft slæm áhrif á barnið og orðið til þess að stefnandi vill hafa forsjá barnsins til frambúðar. Stefnandi kveður líðan barnsins góða hjá sér enda geti hann boðið barninu upp á góðar aðstæður, stöðuleika og öryggi. Nú sé barnið á leikskóla þar sem því líði mjög vel.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til 3. mgr. 35. gr. 20/1992. Málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga 90/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefnda kveður málavaxtalýsingu stefnanda ranga. Hún hafi eftir að slitnaði upp úr sambúð hennar og stefnanda verið mikið upp á foreldara sína komna. Hún hafi þá verið rétt sextán ára og orðið að hætta skólagöngu. Í lok október 1999 hafi slitnað upp úr sambúð hennar og sambýlismanns hennar á Blönduósi og þá hafi hún farið til Njarðvíkur til vinkonu sinnar í þeim tilgangi að leita sér að vinnu og finna húsnæði og dagvistun fyrir barnið. Ákveðið hafi verið að barnið yrði eftir hjá sambýlismanni hennar þar til að hún hefði komið sér fyrir. Stefnandi hafi fengið upplýsingar um að hún væri komin til Reykjavíkur og hann hafi stöðugt hringt í fyrrverandi sambýlismann hennar og krafist þess að drengurinn yrði sendur suður. Að endingu hafi hann ákveðið að senda barnið til Reykjavíkur. Hún hafi komið á Umferðarmiðstöðina til að sækja barnið en rútan hafi verið á undan áætlun. Barnið hafi verið í fylgd fullorðins aðila og því hefði ekki komið að sök þó það hefði þurft að bíða í nokkrar mínútur.
Stefnda heldur því fram að barnið hafi dvalið mikið hjá föðurforeldrum, eins og stefnandi geri raunar sjálfur, en þau hafi oftar en ekki passað barnið þegar það var í umgengni hjá stefnanda. Af hálfu stefndu er því haldið fram að umgengni barnsins við föður hafi verið með eðlilegum hætti þar til stefnda flutti á Blönduós. Stefnandi hafi hins vegar eftir það ekki verið tilbúinn að leggja mikið á sig til að nálgast barnið og því hafi umgengni verði stopul eftir það.
Stefnda mótmælir fullyrðingu stefnanda þess efnis að tengsl barnsins við föður séu meiri og betri en við móður. Hún hafi alið barnið upp frá fæðingu og þau séu bundin mjög sterkum böndum. Barnið hafi átt í verulegum erfiðleikum eftir að stefnandi tók það til sín en það gráti mikið þegar umgengni eigi sér stað. Stefnandi hafi meinað barninu um að hitta móður sína oftar en um aðra hverja helgi og telur stefnda að tengslarof barnsins við móður sína geti valdið því varanlegu andlegu tjóni. Stefnda heldur því fram að barninu sé gert að kalla hana K en ekki mömmu og það spyrji hvers vegna hún vilji ekkert með sig hafa. Barnið sé alltof ungt til að hrært sé með þessum hætti í tilfinningum þess.
Stefnda heldur því fram að það fari í bága við öll viðurkennd sjónarmið í barnarétti að taka barn frá móður þess nema brýna nauðsyn beri til. Stefnda heldur því fram að hún hafi alla burði til að sjá fyrir sér og barni sínu eins og hingað til en hún hafi fætt og klætt barnið fram að þessu. Hún byggir á því að hún sé bæði hæfari og betri til þess að veita barninu þann andlega og líkamlega stuðning sem það á rétt á og þarfnast. Barninu sé betur borgið í framtíðinni hjá henni. Horfa verði til lengri tíma þegar framtíðarskipan barnsins er ákveðin og horfa verði til þess að barnið hefur frá fæðingu verið hjá henni en aðeins í helgarumgengni hjá stefnda. Stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að barninu sé betur borgið hjá honum.
Þá byggir stefnda á því að ekki sé nægjanlegt fyrir forsjárlaust foreldri að sýna fram á að það hafi hærri tekjur eða búi í betri íbúð en það foreldri sem fer með forsjána. Hér hátti svo til að barnið hafi búið með móður sinni frá fæðingu og sé tilfinningalega miklu tengdara henni en föður. Stefnandi hafi torveldað umgengni hennar við barnið sem hún hafi með herkjum fengið að sjá það aðra hverja helgi frá því í október og augljóslega líði barnið fyrir að hafa verið svipt móður sinni.
Stefnda kveður ranglega fullyrt í gögnum málsins að hún hafi verið í óreglu að undanförnu og að hún hafi verið í tygjum við bandaríkjamann eins og haldið sé fram í bréfi til dómsins.
Hvað lagarök varðar vísar stefnda til barnalaga en varðandi málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 og til laga 50/1988 varðandi virðisaukaskatt.
V.
Niðurstaða.
Eftir að þingfestingu dómkvaddi dómari tvo sálfræðinga til að gera sálfræðilega matsgerð. Matsgerð þeirra Gylfa Ásmundssonar og Þorgeirs Magnússonar er dagsett 6. júlí sl. Þegar matsmenn unnu að gerð matsins höfðu hagir stefndu breyst nokkuð frá því sem var þegar greinargerð var skilað af hennar hálfu í málinu. Eins og fram kemur í matsgerðinni býr hún nú heima hjá móður sinni og fósturföður að X. Stefnandi býr hins vegar á sama stað.
Niðurstaða sálfræðikönnunar þeirrar sem áður er getið varðandi stefnanda er sú að hann sé í meðallagi gefinn, í góðu andlegu jafnvægi og með heilbrigt tilfinningalíf, e.t.v. dálítið ósjálfstæður en vel fær um að ráða fram úr daglegum vandamálum og stjórna lífi sínu farsællega. Niðurstöður varðandi stefndu eru þær að hún sé í meðallagi greind. Persónuleikinn innhverfur og hún dragi sig inn í skel við álag, treystir illa öðrum og fari sínar eigin leiðir. Hún sé greinilega haldin nokkru þunglyndi. Ekki komi fram persónuleikatruflanir, tilfinningalíf virðist heilbrigt og stefshæfni allgóð. Í samantekt sálfræðinganna um barnið segir svo: ,,A á að baki nokkuð óstöðuga uppeldissögu með móður sinni sem oft skipti um aðsetur, réði illa við það mótlæti sem hún mætti og gekk undir það síðasta ekki nógu vel að vernda drenginn og annast. Þegar hann flutti til föður síns í október sl. sýndi hann sterk vanlíðunareinkenni og í könnun sem þá var gerð komu fram merki um ójafnan þroska og talsverð frávik í hegðun. Sú athugun sem hér var gerð leiðir í ljós að A hefur á ytra borðinu aðlagast verunni hjá föður sínum all vel. Ytri aðstæður þar og tengsl sýnast þroskavænleg og persónuleg og henta drengnum ágætlega. Líðan hans sýnist þannig hafa færst í meira jafnvægi, hann er öruggari, hefur náð sér á strik í þroska og sýnir ekki lengur hegðunarfrávik sem áður var kvartað um. Aðstæður móður hafa einnig færst í betra horf eftir að hún kom sér að nýju fyrir í X og ríkir nú aftur meira öryggi og stöðuleiki í lifi hennar. Drengurinn skynjar það og er tekinn að sækja í aukin tengsl og samvistir við móður sína. Hjá henni mætir hann blíðu og persónulegri nánd sem hann kannast við frá fyrri tíð og saknar. Þráin efir samneyti við móður veldur óróa í samskiptum við föður og stjúpu, einkum í kringum samfundi þeirra mæðgina. Samkvæmt athugun eru foreldrarnir báðir hæfir í hlutverkum sínum sem uppalendur en ýmislegar aðstæður föðurins veita honum þar samt nokkurt forskot."
Í samantekt og ályktun matsgerðarinnar kemur auk þess sem áður er getið líka fram að báðir foreldrarnir hafi eindrægan vilja til að reynast barninu vel. Það sé tilfinningalega tengdara móður sinni og margt bendi til þess að aðstæður hennar fari batnandi með tilliti til uppeldisskilyrða fyrir barnið. Þau beri bæði sterkar og jákvæðar kenndir til barnsins og beri hag þess fyrir brjósti. Barnið sé í nánum tengslum við báða foreldra sína en með nokkurri einföldun megi segja að faðirinn leggi meiri áherslu á festu og öryggi meðan móðirin setji náin, ástúðleg tengsl í fyrirrúm. Umhverfi það sem foreldrarnir bjóði barninu til að alast upp í sé nokkuð ólíkt eins og aðstæðum þeirra sé nú háttað en báðir staðirnir hafi nokkuð til síns ágætis. Annars vegar sé borgarumhverfi með dagvistarþjónustu og nálægð við skóla og aðrar þjónustustofnanir. Hins vegar sveitin, þar sem lengra er að sækja þessa þjónustu, en þar sé boðið upp á meira frjálsræði og tengsl við náttúruna.
Fyrir dómi staðfestu báðir sálfræðingarnir þessa matsgerð sína og upplýstu að þeir hafi skipt með sér verkum á þann hátt að Gylfi Ásmundsson hafi meira unnið að því er snéri að foreldunum en Þorgeir Magnússon það er varðaði barnið. Hvorugur þeirra treysti sér til að svara þeirri spurningu hjá hvoru foreldri hagsmunum barnsins væri betur borgið í dag.
Af gögnum málsins má ráð að stefnda hefur búið víða frá því að sonur hennar og stefnanda fæddist. Hún hefur nokkuð verið upp á aðra komna með framfærslu. Hér verður aftur á móti að horfa til þess að hún var nánast barn sjálf þegar drengurinn fæddist og með öllu óeðlilegt að gera kröfu til þess að hún gæti staðið á eigin fótum og framfleytt sér og drengnum án utanaðkomandi aðstoðar. Því verður að telja eðlilegt að hún hafi leitað eftir aðstoð foreldra sinna og annarra eftir að sambúð hennar og stefnanda lauk. Sömu sögu má að hluta til segja um stefnanda en hann bjó í foreldrahúsum allt þar til í febrúar 1999.
Stefnandi hefur haldið því fram að stefnda hafi torveldað umgengni hans við barnið en gögn málsins benda til að svo hafi ekki verið. Stefnandi lagði fram bréf undirritað af foreldrum hans, og staðfest af móður hans fyrir dóminum, þar sem fram kemur að barnið dvaldi hjá honum og foreldrum hans miklu oftar og lengur en samkomulag um umgengni gerði ráð fyrir. Raunar bendir skjalið til þess að barnið hafi margsinnis dvalið hjá stefnanda svo dögum og vikum skipti og verður því alls ekki séð að stefnda hafi staðið í vegi fyrir umgengni föður við barnið.
Mál um forsjá barna eru vandmeðfarin og erfið úrlausnar og er þetta mál engin undantekning á því. Hér háttar svo til að báðir foreldrar eru hæfir til að fara með forsjá barnsins þó á mismunandi forsendum sé og aðstæður sem þau í dag geta boðið barninu séu mismunandi. Niðurstaða sálfræðimats svo og framburður sálfræðinganna er unnu það mat er á þá lund að barninu líði vel hjá báðum foreldrum og það þarfnist samvistar við þau bæði. Hér er því sem endranær nauðsynlegt að það sé í eins miklum samvistum við það foreldri sem ekki fer með forsjána eins og kostur er. Ekki verður annað ráðið en að aðstæður stefndu hafi batnað verulega á því ári sem liðið er frá því að stefnandi fékk forsjá barnsins til bráðabirgða. Þannig getur hún í dag boðið barninu betri aðstæður en þá og svo virðist einnig sem hún sé sjálf í betra andlegu jafnvægi. Hagir stefnanda eru aftur á móti óbreyttir og verður því ekki annað ráðið en að aðstæður þær sem hann getur boðið barninu séu góðar og traustar. Ljóst er einnig að barnið tengist foreldrum sínum með nokkuð mismunandi hætti. Það er tilfinningalega tengdara móður sinni en föður sem aftur á móti veitir því meira öryggi og stöðuleika. Stefnandi er fjárhagslega sjálfstæðari en stefnda en móðir hennar og fóstri hafa borið fyrir dóminum að þau muni veita henni þá aðstoð sem hún þurfi á að halda. Þar sem sættir hafa ekki tekist með aðilum verður ekki hjá því komist að kveða á um hvort foreldrið skuli fara með forsjána. Með dómi þessum er verið að ákvarða forsjá barnsins til frambúðar en ógerlegt er að sjá fyrir um hvernig hagir aðila muni þróast á næstu árum og því verður ekki hjá því komist að horfa til aðstæðna aðila í dag og hvernig hagir þeirra hafa verið á liðnum árum. Þegar sérstaklega er horft er til framburðar Þorgeirs Magnússonar þess efnis að líðan barnsins hafi breyst til hins betra eftir að það fluttist til föður síns og að mikilvægt sé fyrir barnið að búa við öryggi og stöðugleika og þess að samkvæmt athugun sálfræðinganna hafi stefnandi nokkurt forskot á stefndu sem uppalandi vegna aðstæðna hans, þykir rétt að taka kröfu stefnanda til greina og dæma að hann skuli fara með forsjá barnsins.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu svo og kostnað vegna málflutnings varðandi bráðabirgðaforsjána en ákvörðun málskostnaðar í því máli var látin bíða efnisdóms. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda þar með talin þóknun talsmanns hans Valborgar Snævarr, héraðsdómslögmanns 400.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, útlagður kostnaður að upphæð 20.475 krónur svo og helmingur kostnaðar við sálfræðilega matsgerð að fjárhæð 226.172 krónur greiðist úr ríkissjóði. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin þóknun talsmanns hennar, Ástríðar Grímsdóttur, héraðsdómslögmanns 400.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, útlagður kostnaður að fjárhæð 57.810 krónur svo og helmingur kostnaðar við sálfræðilega matsgerð að fjárhæð 226.172 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefnanda, M er falin forsjá A, kt. [...], sonar hans og stefndu, K.
Malskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda þar með talin þóknun talsmanns hans Valborgar Snævarr, héraðsdómslögmanns 400.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, útlagður kostnaður að upphæð 20.475 krónur svo og 226.172 krónur sem nemur helmingi kostnaðar við sálfræðilega matsgerð, greiðist úr ríkissjóði.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin þóknun talsmanns hennar, Ástríðar Grímsdóttur, héraðsdómslögmanns 400.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, útlagður kostnaður að fjárhæð 57.810 krónur svo og 226.172 krónur sem nemur helmingi kostnaðar við sálfræðilega matsgerð, greiðist úr ríkissjóði.