Hæstiréttur íslands
Mál nr. 31/2019
Lykilorð
- Skaðabætur
- Fyrning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. júní 2019. Þau krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Til vara gerir hann „sömu dómkröfur og stefndi hafði uppi fyrir Landsrétti ...“ Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður verði felldur niður en að því frágengnu að hann verði „hafður í lágmarki.“
I
Mál þetta lýtur að kröfu stefnda á hendur áfrýjendum um skaðabætur vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna sölu áfrýjendanna B og C og látinnar systur þeirra, D, á tiltekinni landspildu 18. desember 2008 sem stefndi taldi tilheyra sér að tveimur þriðju hlutum. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 16. júlí 2018 voru áfrýjendur sýknaðir af ætlaðri skaðabótakröfu stefnda þegar af þeirri ástæðu að hún væri fyrnd. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að gagnstæðri niðurstöðu. Var áfrýjendum gert að greiða stefnda 19.488.000 krónur, sem nam tveimur þriðju hlutum söluandvirðis landspildunnar þar sem áfrýjendurnir B og C og D heitin höfðu selt hana þriðja aðila þrátt fyrir að hafa verið kunnugt um eign stefnda að hluta spildunnar. Ágreiningsefni málsins fyrir Hæstarétti lýtur einkum að því hvort skaðabótakrafa stefnda sé fyrnd. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að dómur í málinu myndi hafa almennt gildi um afmörkun fyrningarfrests krafna um skaðabætur utan samninga.
II
Mál þetta á rætur að rekja til ágreinings um eignarhald á 120 hektara spildu úr landi […] í Flóahreppi með landnúmer […], sem var í eigu E. E var faðir áfrýjendanna B og C og D heitinnar og stjúpfaðir stefnda, en E lést […] 2007. Hinn 8. febrúar 2008 ritaði áfrýjandinn C undir yfirlýsingu þar sem fallist var á að E hefði í dánargjöf gefið stefnda landspilduna til eignar. Skjalið undirritaði C einnig fyrir hönd D heitinnar samkvæmt umboði. Gert var ráð fyrir að yfirlýsingin yrði jafnframt undirrituð af áfrýjandanum B en hann skrifaði ekki undir skjalið. Áfrýjandinn C ritaði síðan undir afsal og yfirlýsingu 3. maí 2008 fyrir sína hönd og D heitinnar en þar lýstu þær því yfir að stefndi hefði eignast landið að gjöf frá hinum látna. Einnig kom þar fram að ef skjalið nægði ekki sem fullgild eignarheimild væri stefndi með skjalinu lýstur réttur og löglegur eigandi landsins hvað varðaði eignarhlutdeild þeirra systra og að þær afsöluðu sér með öllu tilkalli og eignarrétti til landsins.
Áfrýjendurnir B og C og D heitin fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúi E 30. maí 2008 en deginum áður hafði landspildunni verið ráðstafað með skiptayfirlýsingu til þeirra þriggja að jöfnum hlut þrátt fyrir framangreinda gerninga áfrýjandans C og D heitinnar. Var sú yfirlýsing móttekin til þinglýsingar 19. desember 2008 og þinglýst 22. sama mánaðar.
Með stofnskjali 15. október 2008 var hinni 120 hektara landspildu skipt upp í tvo hluta. Stærri hlutinn varð 78 hektarar sem hélt upprunalegu landnúmeri […] en sá minni 46,46 hektarar og fékk landnúmerið […] og er það sú landspilda sem mál þetta varðar. Með bréfi 27. febrúar 2009 voru framangreind landskipti staðfest af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sbr. 2. mgr. 13. gr. jarðarlaga nr. 81/2004. Staðfestingin var móttekin til þinglýsingar 11. mars 2009 og færð í þinglýsingabók degi síðar.
Áfrýjendurnir B og C og D heitin seldu F spildu þá sem hér um ræðir með kaupsamningi 18. desember 2008. Afsal til hans var gefið út 3. mars 2009 og því þinglýst 12. sama mánaðar. F seldi H spilduna 4. mars 2009 og var afsali fyrir þeim kaupum einnig þinglýst 12. sama mánaðar.
Með kaupsamningi 19. desember 2008 seldu áfrýjandinn C og D heitin stærri spilduna áfrýjandanum B og var afsal til hans gefið út sama dag. Í kaupsamningum kom fram að seljendur teldu „sig hvorki skuldbundnar af yfirlýsingu, dags. 3. maí 2008, þess efnis að þær afsali tilkalli og eignarrétti að umræddri fasteign að […], Flóahreppi, til A ... né af öðrum skjölum sem þær hafa undirritað og varða eignarhald A að fasteigninni.“
Stefndi höfðaði 25. júní 2009 mál á hendur áfrýjandanum B aðallega til viðurkenningar á eignarrétti sínum að spildunni með landnúmerið […] en til vara að viðurkenndur yrði eignarréttur hans að tveimur þriðju hlutum hennar. Á meðan það mál var rekið í héraði höfðuðu áfrýjandinn C og D heitin mál á hendur stefnda til að fá ógilta fyrrgreinda yfirlýsingu 8. febrúar 2008 og afsalið 3. maí sama ár. Með dómi Hæstaréttar […] var stefndi sýknaður af kröfum systra sinna. Með dómi Hæstaréttar […]var viðurkenndur eignarréttur stefnda að tveimur þriðju hlutum landspildunnar með landnúmerið […]. Var talið að áfrýjandinn B hefði verið grandsamur um rétt stefnda þegar B öðlaðist rétt sinn með kaupsamningnum og afsalinu 19. desember 2008 og hefði því ekki getað hrundið óþinglýstum rétti stefnda með því að þinglýsa afsalinu til sín 23. sama mánaðar, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Í kjölfarið höfðaði stefndi mál gegn H 10. júní 2014 og krafðist þess að viðurkennt yrði að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar […] væri skuldbindandi fyrir hana að því er varðaði eignarrétt að tveimur þriðju hlutum landspildu […]með landnúmerinu […]. Með dómi Hæstaréttar […] var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi. Þar kom fram að dómur Hæstaréttar í máli nr. […] varðaði spildu úr landi jarðarinnar […] með landnúmeri […] og að H hefði ekki átt aðild að því máli, en umrætt mál varðaði aðra spildu úr landi sömu jarðar með landnúmeri […]. Var talið að H væri því ekki bundin af fyrrgreindum dómi réttarins sem hefði verið milli annarra aðila og um aðra fasteign.
Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu 9. október 2015 sem birt var áfrýjendunum B og C og D heitinni á tímabilinu 9. til 17. desember 2015. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands […] var vaxtakröfu stefnda vísað frá dómi. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Í dómi héraðsdóms 16. júlí 2018 var kröfu stefnda á hendur áfrýjendum um greiðslu á 10.000.000 króna fyrir afleitt tjón og miska vísað frá dómi. Þann hluta dómsins kærði stefndi til Landsréttar sem með úrskurði 10. september 2018 staðfesti þá niðurstöðu.
D heitin andaðist í […] 2017 og var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta í […] og tók dánarbúið við aðild að málinu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Stefndi gerir í máli þessu til vara sömu dómkröfur og hann hafði uppi fyrir Landsrétti er lúta að viðurkenningu eignarréttar hans á söluandvirði tveggja þriðju hluta þeirrar landspildu sem mál þetta varðar eða verðmætum sem hafa komið í stað þess, eða afhendingar þess hluta spildunnar eða annars lands í hennar stað. Þessar varakröfur hafði stefndi fyrst uppi fyrir Landsrétti, sem hafnaði því með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 að þær kæmu til skoðunar þar fyrir dómi. Af því leiðir að þessar kröfur geta heldur ekki komið til álita hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og áður greinir var kröfu stefnda sem laut að bótum fyrir afleitt tjón og kröfu hans um vexti vísað frá héraðsdómi. Koma þær því heldur ekki til úrlausnar hér fyrir dómi. Stendur því eftir að taka afstöðu til fjárkröfu stefnda á hendur áfrýjendum að fjárhæð 19.488.000 krónur.
Að virtum gögnum málsins er fallist á með Landsrétti að stefndi hafi eignast skaðabótakröfu á hendur áfrýjendum vegna ráðstöfunar á spildunni til F með kaupsamningi 18. desember 2008, þvert á rétt stefnda samkvæmt yfirlýsingu 8. febrúar 2008 og afsali 3. maí sama ár. Verður við það miðað að krafa stefnda um skaðabætur hafi stofnast á því tímamarki þegar eigninni var ráðstafað með fyrrnefndum kaupsamningi og fer því um fyrningu kröfunnar eftir lögum nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 28. gr. þeirra laga. Kemur þá til úrlausnar hvort krafan sé fyrnd.
Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Fyrningarfrestur kröfunnar byrjar því að líða að uppfylltum báðum þessum skilyrðum.
Eins og að framan er rakið höfðaði stefndi mál vegna stærri spildunnar á hendur áfrýjandanum B með stefnu birtri 25. júní 2009, en ekki 25. júlí sama ár eins og ranglega var tilgreint í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi. Í málatilbúnaði stefnda í því máli rakti hann í stefnu að minni spildan, sú sem mál þetta varðar, hefði verið seld þriðja aðila og tilgreindi í því sambandi gögn vegna þeirrar ráðstöfunar. Var hann samkvæmt því í síðasta lagi við höfðun þess máls með nauðsynlegar upplýsingar um ætlað tjón sitt og hver bæri ábyrgð á því. Í öllu falli bar honum þá að afla sér vitneskju um að spildunni hefði verið ráðstafað í blóra við eignarheimild sína. Byrjaði hinn fjögurra ára fyrningarfestur kröfu hans því að líða í síðasta lagi 25. júní 2009. Um upphaf fyrningarfrestsins gat engu breytt málsókn áfrýjandans C og D heitinnar á hendur stefnda vegna yfirlýsingar þeirra 8. febrúar 2008 og afsals 3. maí sama ár, eins og lagt var til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi. Þá hefur stefndi ekki leitt í ljós að fyrningu kröfu hans hafi verið slitið með viðurkenningu á greiðsluskyldu, sbr. 14. gr. laga nr. 150/2007, í tilraunum aðila til að ná sáttum í öllum þeirra deilumálum. Var krafa stefnda því fyrnd þegar hann höfðaði mál þetta í desember 2015 rúmum sex árum eftir upphafsdag fyrningarfrestsins. Verða áfrýjendur samkvæmt þessu sýknaðir af kröfu stefnda.
Eftir atvikum er rétt að hver aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins á öllum dómstigum.
Dómsorð:
Áfrýjendur, B, C og dánarbú D, eru sýknuð af kröfu stefnda, A.
Málskostnaður í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.