Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2013


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Ítrekun
  • Skilorðsrof
  • Dráttur á máli
  • Einkaréttarkrafa


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 6. febrúar 2014.

Nr. 233/2013.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Davíð Erni Sigurðssyni

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

(Björn Jóhannesson hrl.

Jón Egilsson hrl. f.h. brotaþola)

Líkamsárás. Ítrekun. Skilorðsrof. Dráttur á máli. Einkaréttarkrafa

X var sakfelldur fyrir brot 10. september 2010 gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 30. ágúst sama ár gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga samkvæmt tveimur ákærum. Með broti X fyrrgreindan dag rauf hann skilorð samkvæmt dómi sem hann hlaut 9. september 2010 auk þess sem brot hans 30. ágúst sama ár var hegningarauki við skilorðsdóminn. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga var skilorðsdómurinn 9. september 2010 því tekinn upp og X dæmd refsing í einu lagi fyrir bæði málin eftir reglum 77. gr. og 78. gr. sömu laga. Þá höfðu dómar yfir X 19. maí 2005, vegna brots gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, og 6. október sama ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. sömu laga, ítrekunaráhrif samkvæmt 1. mgr. 71. gr. laganna. Loks var við ákvörðun refsingar annars vegar litið til 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga og hins vegar þess mikla dráttar sem varð á rannsókn og saksókn í málinu, sbr. 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Var refsing X ákveðin fangelsi í 15 mánuði og honum gert að greiða tveimur brotaþolum skaðabætur vegna brota X gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. febrúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæru ríkissaksóknara 22. maí 2012, en til vara mildunar refsingar og þess að hún verði bundin skilorði. Þá krefst hann þess  aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, en til vara lækkunar þeirra. Að lokum krefst ákærði þess aðallega að honum verði ekki gerð sérstök refsing vegna ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. maí 2012, en til vara refsimildunar.

Brotaþolinn A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.779.536 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2010 til 11. júlí 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms.

Brotaþolinn B lést [...] 2013 og hefur dánarbú hans tekið við aðild að einkaréttarkröfu hans samkvæmt lögjöfnun frá 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess er krafist af hálfu dánarbúsins að ákærða verði gert að greiða því 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. ágúst 2010 til 11. júlí 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist staðfestingar héraðsdóms.

I

Mál þetta var höfðað á hendur ákærða með ákæru ríkissaksóknara 22. maí 2012 fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás 30. ágúst 2010, þar sem háttsemi hans er talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ennfremur er ákærða gefið að sök brot 10. september 2010 gegn 1. mgr. 217. gr. sömu laga samkvæmt ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. maí 2012.

Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Í héraðsdómi er við mat á sönnun sakargifta samkvæmt ákæru ríkissaksóknara meðal annars vísað til framburðar vitnisins C hjá lögreglu „svo sem unnt er“ og í því sambandi skírskotað til heimildar í 2. mgr. sömu lagagreinar. Þar segir að dómara sé heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða önnur vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað samkvæmt 59. gr. og 106. gr. laganna. Umrætt vitni kom ekki fyrir dóm áður en mál þetta var höfðað, en það gerði hann hins vegar við meðferð málsins í héraði. Skírskotun héraðsdóms á því ekki við. Á hinn bóginn er á það að líta að fyrir dómi sagði C aðspurður hvort rétt væri eftir honum haft í lögregluskýrslu: „Örugglega, alveg pottþétt.“ Þá er þess að geta að ákærði játaði brot sitt afdráttarlaust hjá lögreglu að viðstöddum verjanda sínum.

Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt báðum ákærum svo og heimfærslu brota til refsiákvæða.

II

Sakaferill ákærða er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var ákærði 9. september 2010 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness var ákærði viðstaddur uppsögu dómsins, þar sem dómari brýndi fyrir honum þýðingu skilorðs og afleiðingar skilorðsrofa. Með brotinu degi síðar, 10. september 2010, rauf ákærði framangreint skilorð. Þá er brot hans 30. ágúst 2010 hegningarauki við áðurnefndan skilorðsdóm. Samkvæmt þessu og með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga verður sá dómur tekinn upp og ákærða dæmd refsing í einu lagi fyrir bæði málin eftir reglum 77. gr. og 78. gr. sömu laga.

Skilorðsdómar hafa ekki ítrekunaráhrif, sbr. 61. gr. almennra hegningarlaga. Þegar af þeirri ástæðu hefur skilorðsdómur 8. janúar 2003 yfir ákærða vegna líkamsárásar ekki ítrekunaráhrif í máli þessu svo og skilorðshluti dóms, sem ákærði hlaut 4. mars 2004, einnig vegna líkamsárásar. Ákærði lauk afplánun óskilorðsbundins hluta síðarnefnda dómsins 17. október 2004. Hefur sá hluti dómsins ekki ítrekunaráhrif samkvæmt 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga, þar sem þau voru fallin niður þegar ákærði framdi brot þau er mál þetta tekur til, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Skilorðshluti sama dóms var tekinn upp í dómi yfir ákærða 19. maí 2005, sem hann hlaut fyrir líkamsárás, og dæmdur með í því máli. Ákærði fékk reynslulausn 17. febrúar 2006 í eitt ár af eftirstöðvum refsingar, 120 dögum, samkvæmt þeim dómi, sem hefur því hefur ítrekunaráhrif í máli þessu. Hinu sama gegnir um dóm sem ákærði hlaut 6. október 2005 fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður við ákvörðun refsingar litið til 1. mgr. 218. gr. b. sömu laga, en þar segir að hafi sá, sem dæmdur er sekur um brot á 217. gr. eða 218. gr. laganna, áður sætt refsingu samkvæmt þeim lagagreinum eða honum hefur verið refsað fyrir brot, sem tengt er að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi, megi hækka refsingu allt að helmingi. Við ákvörðun refsingar verður tekið tillit til þess mikla dráttar sem varð á rannsókn og saksókn í málinu, sbr. 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 1. mgr. 70. stjórnarskrárinnar. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til refsiforsendna héraðsdóms verður refsing ákærða staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfur verða staðfest að öðru leyti en því að skaðabætur, sem dæmdar voru brotaþolanum B, renna til dánarbús hans.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest.

            Með skírskotun til 3. mgr. 176. gr., sbr. 210. gr., laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

            Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að skaðabætur, sem  dæmdar voru B, renna til dánarbús hans.

Ákærði, Davíð Örn Sigurðsson, greiði A og dánarbúi B, hvoru um sig, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 426.755 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. desember 2012.

                Mál þetta, sem dómtekið var 7. nóvember 2012, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 22. maí 2012 á hendur Davíð Erni Sigurðssyni, kt. [...], [...],[...] „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 30. ágúst 2010, brotið sér leið inn í íbúðarhúsnæði að [...] í [...] og veist þar að A og B með því að slá ítrekað með kúbeini, af miklu afli, í átt að höfði þeirra beggja og reyndu þeir að verjast árásinni með því að bera fyrir sig hendur og handleggi með þeim afleiðingum að höggin höfnuðu flest þar. Við þetta hlaut A beinbrot með talsverðri tilfærslu á hægri handlegg og yfirborðsáverka á vinstri framhandlegg og B hlaut opið beinbrot á vinstri handlegg við olnboga og liðhlaup í vinstri olnboga.“

                Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                A, kt. [...], krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta að fjárhæð 1.779.536 krónur og málskostnaðar vegna réttargæslu. Að auki er krafist vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af ofangreindri fjárhæð frá 30. ágúst 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt sakborningi, en dráttarvaxta eftir þann dag samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.

                B, kt. [...], krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. gr. laganna frá 30. ágúst 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags. Þá er krafist lögmannsþóknunar vegna réttargæslu.

                Hinn 15. júní 2012 var mál nr. S-477/2012, sem höfðað var á hendur ákærða með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu útgefinni 22. maí 2012, sameinað þessu máli sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar er ákærða gefin að sök líkamsárás „með því að hafa föstudaginn 10. september 2010 innandyra í versluninni [...] við [...] gripið í háls D, kt. [...] og skellt höfði hennar utan í hillu í versluninni með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og yfirborðsáverka á höfði og andliti og tognun á hálshrygg.“

                Þetta er talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998. 

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Ákærði neitar sök hvað varðar brot samkvæmt ákæru ríkissaksóknara 22. maí 2012. Jafnframt hafnar ákærði framkomnum bótakröfum í málinu. Ákærði játar að hafa framið brot samkvæmt ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. maí 2012. Krefst ákærði sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru ríkissaksóknara og að honum verði ekki gerð refsing vegna ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá er þess krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi eða lækkaðar. Loks er þess krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda greiðist úr ríkissjóði.

I

                Að kvöldi 30. ágúst 2010 barst lögreglu tilkynning um líkamsárás að [...]. Í frumskýrslu lögreglu segir að þegar komið var á vettvang hafi sjúkralið verið komið á staðinn. Í sjúkrabifreiðinni hafi verið þeir A og B, en þeir hafi orðið fyrir stórfelldri líkamsárás skömmu áður. Hafi mátt sjá að mikið blæddi úr vinstri handlegg B en A hafi verið í úlpu og því hafi ekki verið að sjá áverka á honum. Eftir frumskoðun sögðu sjúkraflutningamenn hugsanlegt að bæði A og B væru handleggsbrotnir. Eina sem hægt hafi verið að fá þá til að segja á þessu stigi hafi verið að árásarmaðurinn héti I og hann hefði barið þá með kúbeini. Þeir hafi ekki vitað frekari deili á honum. Farið hafi verið með þá A og B á slysadeild til skoðunar. Á vettvangi hafi lögregla talað við E, móður A, sem tilkynnti árásina til lögreglu. E sagði að hún hefði heyrt mikil öskur koma frá íbúð A, en íbúð hans sé í sama húsi og íbúð E, en ekki sé innangengt á milli íbúðanna. E sagðist hafa tilkynnt í gegnum síma að líkamsárás stæði yfir á heimili sonar hennar að [...]. Að sögn E hafi þeir A og B tilkynnt henni að þetta væri yfirstaðið en að þeir hafi verið inni í íbúð A þegar dyrabjöllunni var hringt, en þeir hafi ekki farið til dyra. Þá hafi dyrabjöllunni verið hringt aftur og fóru þeir þá til dyra. Þegar A hafi séð hver var utan við hurðina hafi hann skellt aftur en maðurinn sem stóð fyrir utan sparkaði þá hurðinni upp, kom inn og tók kúbein sem hafi verið inni í íbúðinni. Hann hafi barið þá með kúbeininu. Að því loknu hafi maðurinn farið út og inn í bifreið sem beið hans sem hafi svo verið ekið á brott. E sagðist halda að um væri að ræða svarta [...] bifreið, en hafi þó ekki séð skráningarmerki hennar. Að sögn E megi rekja atburðinn um tvær vikur aftur í tímann. Þá mun A, sem sé greindarskertur eftir slys, hafa farið að [...] þar sem ung stúlka býr. A hafi fellt hug til stúlkunnar og farið að tala við hana. A mun hafa kysst á handarbak stúlkunnar og mun móðir hennar hafa orðið vitni að atvikinu. Að sögn E hafi stúlkunni ekki líkað kossinn og hún hafi talað við frænda sinn, F, um að ræða við A og segja honum að henni hafi ekki líkað þessi framkoma. E sagði að fyrir um tveimur vikum hefði F lokkað A inn í bifreið sína og boðist til að aka honum þangað sem hann væri að fara. A hefði þegið farið í stað þess að taka strætó. F mun þá hafa ekið með A inn í [...] þar sem vöðvastæltur maður hafi sest inn í bifreiðina og sagt A að hann skuldaði F 200.000 krónur fyrir að hafa kysst stúlkuna, sem væri frænka F. Hafi honum verið afhentur miði með nafni F, kennitölu hans og reikningsnúmeri sem hann átti að leggja peningana inn á. A hafi jafnframt verið tilkynnt að ef hann myndi ekki borga þá myndu þeir brjóta í honum öll bein og henda honum svo í gjótu. A mun hafa tilkynnt F að hann ætlaði að borga skuldina en hafi þó ekki verið búinn að því. Því hafi einhver komið til að handrukka skuldina að kvöldi 30. ágúst 2010.

                Hinn 31. ágúst 2010 tók lögregla viðtalsskýrslu af A á slysadeild Landsspítalans í Fossvogi. Í skýrslunni segir að erfitt hafi verið að ræða við hann þar sem hann væri ruglingslegur í frásögn sinni. Hann hafi þó rakið þá sögu sem móðir hans hafi áður sagt, þ.e. að fyrir um hálfum mánuði síðan hafi hann farið heim til G að [...] og kysst hönd hennar. Það hafi síðan verið nokkrum dögum síðar sem F kom akandi að honum þar sem hann var staddur í strætóskýli ekki langt frá heimili sínu. F hafi viljað aka honum. A sagði að með F í bifreiðinni hafi verið maður að nafni H sem hann vissi ekki meira um. F hafi ekið sem leið lá í [...] þar sem (I) I hafi komið inn í bifreiðina. A sagði að þeir hafi hótað sér öllu illu og ef hann greiddi þeim ekki 200.000 krónur myndi hann hafa verra af, hann yrði barinn og síðan hent í gjótu. Honum hafi verið réttur miði sem á stóð nafn F, kennitala hans og reikningsnúmer. A sagði að sér hafi verið tjáð að ef hann greiddi ekki umrædda upphæð myndi skuldin hækka fimmfalt og hann yrði barinn í klessu. Honum hafi síðan verið vísað út úr bifreiðinni. Hann sagði að móðir hans hafi farið og rætt við móður G sem hafi rætt við F. Hann hafi þá verið búinn að breyta sögunni og sagt að A hafi verið að reyna við kærustu I. A hafi sagt að þetta væri ekki rétt, hann þekkti ekki kærustu I né vissi hver hún væri. Hann sagði að móðir sín hafi síðan haft samband við sig daginn sem árásin átti sér stað en hann hafi þá verið staddur í miðbænum. Hún hafi sagt sér að kraftalegur maður hafi komið heim til hans og verið að leita að honum. Um klukkan 20 hafi dyrabjöllunni síðan verið hringt í íbúð hans. Þar sem móðir hans hafi sagt honum að hringja strax í sig ef einhver bankaði eða hringdi dyrabjöllunni hafi hann gert það en farið síðan til dyra og opnað útidyrahurðina. Er hann hafi séð I fyrir utan hafi hann lokað hurðinni aftur og farið inn í íbúðina. A sagði að I hafi þá sparkað hurðinni upp og komið inn. Hann sagði að I hafi gripið kúbein sem lá á gólfinu við eldhúsið og byrjað að berja B. B hafi þá hörfað inn á baðherbergi og lagst þar í gólfið. I hafi elt hann þangað og haldið áfram að berja B með kúbeininu. Tekið er fram að erfitt hafi verið að fá A til að lýsa nákvæmlega hvað I barði B mörgum höggum, hvar höggin lentu og hvernig I beitti kúbeininu. Fyrst hafi hann sagt að I hafi barið B um tíu högg með því að sveifla kúbeininu frá höfði sínu og í B. Síðar í frásögn sinni sagðist hann hafa verið staddur inn í stofu og því hafi hann ekki séð er I barði B inni á baðherberginu, en hann hafi séð I berja B nokkur högg með kúbeininu þar sem þeir voru fyrir utan baðherbergið. A sagði að þegar I hafi verið hættur að berja B hafi hann komið inn í stofu og barið sig með kúbeininu, 8-10 högg, á þann hátt sem hann hafði lýst áður, það er sveiflað kúbeininu frá höfði sínu og í sig. Höggin hafi lent á hægri fæti og hægri handlegg hans. Hann sagði að I hafi síðan farið úr íbúðinni en ekki hafi neitt verið sagt meðan á barsmíðunum stóð. Enn fremur að I hafi verið í kvartbuxum og bol bæði dökklituðum en þó ekki svörtum. Hann kvaðst ekki geta lýst klæðnaði I nánar.

                Hinn 30. ágúst 2010 var tekin viðtalsskýrsla af B á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. B greindi frá því að hann hafi verið heima hjá A og að þeir félagar hafi verið inni í herbergi A. Segir hann þá hafa drukkið tvo bjóra og verið á leiðinni út. Þá hafi verið bankað á útidyrahurðina og A farið til dyra og opnað en hann hafi strax lokað þar sem I var fyrir utan. Því næst hafi I sparkað hurðinni upp og komið vaðandi inn með kúbein á lofti og sveiflað því í áttina að þeim. I hafi síðan lamið sig í höndina með kúbeininu og einnig í höndina á A og að því loknu spurt hvort þeir viti ekki hver hann væri. I hafi síðan farið út, upp í bifreið sem var þar fyrir utan og ekið á brott. B sagði að I hafi verið með stærra kúbein en það sem var á ganginum. Þeir hafi verið með kúbein á ganginum sér til varnar af því að þeir hafi vitað að I hafi komið fyrr um daginn heim til A og rætt við móður hans. B segist hafa ætlað að ræða við I fyrir A og reyna að leysa málið.

                I var handtekinn á heimili sínu 1. september 2010 grunaður um aðild að árásinni. Við yfirheyrslur sagðist I hafa verið staddur heima hjá foreldrum kærustu sinnar frá því um sex leytið þann dag sem meint árás hafi átt sér stað og allt kvöldið. Hann sagði sig og kærustu sína einungis hafa skroppið í ljósatíma um níu leytið og farið síðan beint heim aftur. Honum var sleppt að skýrslutöku lokinni.

                F var handtekinn á heimili sínu 1. september 2010 grunaður um aðild að árásinni. Tekin var skýrsla af honum sama dag. Við yfirheyrslur sagði Sigurður að hann hafi verið fárveikur á þeim tíma er árásin átti sér stað og hafi ekki komið að árásinni á neinn hátt. Var honum sleppt að lokinni skýrslutöku.

                Ákærði, Davíð Örn Sigurðsson, var handtekinn á heimili sínu 2. september 2010 kl. 12:55 vegna gruns um aðild að árásinni. Í skýrslutöku játaði hann að hafa farið að [...] hinn 30. ágúst 2010 bæði um daginn, til að spyrjast fyrir um A, og einnig um kvöldið til þess að berja A. Hann sagðist hafa brotið upp hurðina, fundið kúbein inn í íbúðinni og lamið bæði A og B. Að því búnu hafi hann ekið burt á [...] bifreið sinni.

                Þann 30. ágúst 2010 var tekin skýrsla af C sem ákærði kvaðst hafa verið með daginn sem árásin átti sér stað. Hann sagði þá Davíð hafa farið í bíó kl. 18 þennan dag ásamt einum öðrum félaga sínum. Hann hafi ásamt Davíð keyrt upp í [...] þar sem Davíð sagðist þurfa að hitta félaga sinn. Hann hafi beðið í bílnum á meðan Davíð hljóp inn. C kvaðst hafa beðið í bílnum í 5-10 mínútur. Hann hafi ekki tekið eftir neinu sérstöku við Davíð þegar hann kom aftur út í bíl. Kvað hann þá hafa verið á svartri [...] bifreið sem Davíð eigi.

                Þann 15. febrúar 2012 var tekin skýrsla af J, sambýlismanni móður A. Aðspurður sagðist hann hafa verið heima hjá sér að [...] um miðjan dag þann 30. ágúst 2010. Þá hafi maður hringt dyrabjöllunni og hann farið til dyra. Maðurinn hafi spurt hvort A væri heima og hann hafi svarað því neitandi. Maðurinn hafi þá spurt hvar [...] væri og hann hafi þá bent honum fyrir hornið á húsinu. J kvaðst hafa séð að maðurinn væri á svartri nýlegri [...] bifreið, sem hann hafði bakkað upp í stæði þeirra við húsið.

II

                Samkvæmt vottorði Ólafs Ragnars Ingimarssonar læknis, dagsettu 17. september 2010, kom A á slysadeild 30. ágúst 2010. Við skoðun kom í ljós að hægri framhandleggur var brotin ásamt því að beinatilfærsla hafði orðið. Þá hafi hann einnig verið með mar á hægra hné. Hann hafi verið lagður inn á bæklunardeild til aðgerðar á hægri hendi. Þá segir í vottorðinu að hann hafi verið í framhaldsmeðferð hjá Ríkharði Sigfússyni bæklunarlækni sem hafi gert aðgerð 31. ágúst 2010. Enn fremur að árásin hafi verið alvarleg, vopnið kröftugt og skaðinn talsvert alvarlegur.

                Samkvæmt vottorði Ólafs Ragnars Ingimarssonar læknis, dagsettu 17. september 2010, kom B á slysadeild 30. ágúst 2010. Við skoðun kom í ljós að vinstri olnbogi var brotinn og með liðhlaupi. Honum var í framhaldi vísað á bæklunardeild til aðgerðar. Þá segir í vottorðinu að hann hafi verið í framhaldsmeðferð hjá Svavari Halldórssyni bæklunarlækni.

III

                Ákærði hefur skýlaust játað brot það sem hann var ákærður fyrir í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu útgefinni 22. maí 2012. Þar er ákærða gefin að sök líkamsárás í verslun [...] við [...]. Varðandi málavexti er vísað til áðurgreindrar ákæru.

                Játning ákærða verður ekki dregin í efa. Þykir sannað með játningu ákærða, sem á sér stoð í gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir. Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæruskjali lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

IV

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi vegna líkamsárásar að [...] í [...].

                Ákærði Davíð Örn Sigurðsson neitaði sök fyrir dómi. Aðspurður um af hvaða ástæðu hann hafi breytt framburði sínum gaf ákærði þær skýringar að hann hafi hjá lögreglu séð fyrir sér mjög langt gæsluvarðhald svo hann hafi ákveðið að segja já við öllu sem lögregla spurði hann um til að losna úr haldi. Aðspurður hvers vegna lýsingar hans þegar hann játaði hjá lögreglu samrýmist svona vel lýsingum brotaþola á árásinni sagði ákærði að hann hafi bara sagt það sem lögreglan hafi þegar sagt honum um málið. Ákærði sagði að kona hans hefði átt svarta [...] bifreið á þeim tíma er árásin átti sér stað. Þá kannaðist ákærði við að eiga símanúmerið [...] og að vera kallaður „Dabbi“ af vinum sínum. Hann kvaðst ekki þekkja brotaþola neitt og aldrei hafa átt samskipti við þá.

                Vitnið B lýsti atvikum á svipaðan hátt og við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa verið í heimsókn hjá A félaga sínum að kvöldi 30. ágúst 2010 er bankað var á útidyrahurðina. A hafi ekki opnað í fyrstu en þegar bankað hafi verið aftur hafi A opnað en lokað hurðinni strax þegar hann hafi séð hver var fyrir utan. Árásarmaðurinn hafi þá sparkað upp hurðinni. Í kjölfarið hafi kúbeini verið beint í átt að höfði vitnisins, en hann hafi sett vinstri hönd fyrir sig til að verjast höggunum. Högginn hafi verið um sjö til átta. Hann hafi náð að hlaupa inn á klósett og læsa að sér. Hafi hann þá heyrt A æpa frammi í stofu. Hann kvað þá hafa átt von á fólki sem átti óuppgerð mál við A og af þeirri ástæðu hafi þeir verið búnir að taka til kúbein. Fyrst taldi hann að árásarmaðurinn hafi komið með kúbein með sér en svo hafi komið í ljós að hann hafi notað kúbeinið sem þeir A höfðu tekið til og lá við útidyrahurðina. Hann lýsti árásarmanninum sem stórum og þreknum. Kvaðst hann hafa óttast um líf sitt á meðan árásin stóð yfir. Þegar þeir hafi legið á slysadeild í kjölfar árásarinnar hafi A fengið símtal þar sem árásamaðurinn hafi beðist afsökunar á því að hafa lamið annan þeirra svona illa. Þeir hafi þá athugað símanúmerið sem hringt var úr á ja.is og fundið út að eigandi númersins væri ákærði. Þeir hafi einnig flett upp nafni ákærða á samskiptavefnum „facebook“ og séð þá að hann væri sá sem réðst á þá. Hann kvað ákærða hafa verið í sambandi við sig eftir að árásin átti sér stað. Ákærði hafi reynt að fá sig til að breyta framburði sínum fyrir dómi. B kvaðst geta fullyrt að árásarmaðurinn væri ákærði. Hann gat ekki gefið skýringu á því hvers vegna ákærði réðst á þá umræddan dag.

                Vitnið A lýsti sambærilegum atvikum og fram komu við skýrslutöku af honum á slysadeildinni. Hann sagði árásarmanninn heita Davíð og hafa slegið sig nokkrum höggum sem beindust að höfði. Hann kvaðst hafa fengið símtal úr síma ákærða tveimur dögum fyrir árásina en gat þó ekki lýst nákvæmlega um hvað hefði verið rætt. Hann sagði að þegar hann lá inni á spítala eftir árásina hafi hann fengið símtal þar sem hann var spurður hvort hann vildi „meira.“ Hann hafi í kjölfarið athugað númerið sem hringt var úr á ja.is og þá kom upp nafn ákærða. Hann sagðist hafa flett upp nafni ákærða á samskiptavefnum „facebook“ og þá áttað sig á því að sá sem var á myndinni væri árásarmaðurinn, en ekki I. Aðspurður um hvers vegna hann hafi haldið að I hafi verið árásarmaðurinn þá lýsti hann því sem áður hefur komið fram um að I hafi hótað honum skömmu áður vegna skuldarinnar við F. Hann kvaðst hafa séð I einu sinni áður. Aðspurður hvort sá sem hringdi í hann þegar hann lá á slysadeild hafi kynnt sig í símann þegar hann hringdi þá svaraði hann því neitandi. Fyrir dómi treysti vitnið sér ekki til að fullyrða að ákærði væri sá sem hafði ráðist á þá og hafði engar skýringar á því af hvaða tilefni ákærði ætti að hafa ráðist á hann.

                Vitnið E sem er móðir A gaf skýrslu fyrir dóminum. Frásögn hennar var að mestu leyti sambærileg við það sem komið hafði fram hjá lögreglu. Vitnið kvaðst hafa orðið vör við stimpingar í íbúð A og hefði hann og B komið slasaðir fram. Sjúkrabíll hafi komið og flutt þá á spítala, báða handleggsbrotna, en árásaraðilinn hafi verið farinn. Fram kom að hún hafi ekki séð svörtu [...] bifreiðina keyra frá húsinu eins og hún lýsti hjá lögreglu heldur hafi hún haft þetta eftir sambýlismanni sínum, J, sem sá bifreiðina fyrr um daginn. Þá kvað hún son sinn vera greindarskertan eftir slys sem hann varð fyrir sem barn. Dómgreind hans varðandi hluti sem eru að gerast sé oft skert. 

                Vitnið J, gaf skýrslu fyrir dómi og bar á sama veg og hjá lögreglu. Hann bar að ákærði hefði komið á heimili hans að [...] síðdegis sama dag og árásin var framin, hringt dyrabjöllu og spurt hvort A ætti heima þarna. Vitnið kvaðst hafa sagt að svo væri ekki, en sýnt ákærða útidyr á íbúð A í húsinu. Vitnið bar að sá sem kom hafi verið hávaxinn, þrekinn og hálfsköllóttur. Þá kvaðst vitnið hafa tekið eftir svörtum [...] við húsið. Kvaðst vitnið geta staðfest að maðurinn sem kom til hans umræddan dag væri ákærði. Þá sagðist hann hafa sagt sambýliskonu sinni frá heimsókn mannsins en hún hafi ekki verið heima þegar maðurinn kom. Enn fremur bar vitnið að hann hafði heyrt læti um kvöldið en skipti sér ekki af því og sá ekki atburði eða bifreið fyrir utan húsið.

                Vitnið C gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst ekki muna eftir atburðunum núna en mundi þó að hafa gefið skýrslu á sínum tíma. Taldi að hann hefði munað atburði betur þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann sagði ákærða hafa átt rauða [...] eða svartan [...] á þeim tíma sem árásin var framin. Hann kvaðst hafa þekkt ákærða frá því þeir voru börn.

                Vitnið Magnús Jónasson lögreglumaður gaf vitni fyrir dómi. Hann staðfesti lögregluskýrslu sína frá 30. ágúst 2010.

                Vitnið Börkur Árnason rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti viðtalsskýrslu sem hann tók af brotaþolanum B á slysadeild Landsspítalans í Fossvogi 31. ágúst 2010.

                Vitnið Dóra Björk Reynisdóttir lögreglumaður greindi frá því að hún hefði farið á vettvang í ágúst 2010. Brotaþolar hafi verið farnir af vettvangi þegar vitnið kom á staðinn. Vitnið fór síðar um kvöldið á slysadeild ásamt öðrum lögreglumanni og tók skýrslu þar af A. Vitnið kvað ummerki hafa verið um átök í íbúð A. Læsing á útidyrahurð hafi verið brotin og blóð hafi verið á gólfi víða um íbúðina og mikil óreiða.

                Vitnið Ólafur Ragnar Ingimarsson læknir gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorð sín. Hann kvað áverka B hafa við komu á slysadeild verið brot á vinstri olnbogasvæði með töluvert mikilli tilfærslu og liðhlaup í olnboganum þannig að áverkinn hafi verið alvarlegur. Púls og skyn í hönd og fingrum hafi verið innan eðlilegra marka. Höggin hafi verið þung og veitt með kúbeini og því alvarleg. Hvað varði áverka á A væri lýsingin svipuð. Reynt hafi verið að lemja hann í höfuð en hann var með brot á framhandleggsbeini sem þarfnaðist aðgerðar bæklunarlæknis. Brotið hafi verið alvarlegt. Hann hafi greint frá því að reynt hefði verið að berja hann í höfuðið.         

                Vitnið Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður lýsti því að hafa fengið málið til sín rúmum sólarhring eftir árásina. Þá hafi legið fyrir nöfn tveggja manna sem taldir voru hafa veitt brotaþolum áverkana. Það hafi tekið rúmlega dag að komast að því að þeir hafi hvergi komið nærri. Fyrsta sem hann gerði er hann fékk málið hafi verið að tala við brotaþola á slysadeild. Fljótlega hafi þeir greint frá því að A hafi fengið hótunarsímtal frá manni sem kynnti sig sem „Dabba“ og spurði hann hvort hann „vildi meira.“ Þeir hafi gefið upp símanúmerið sem hringt var úr. Hafi vitnið þá kannað hver væri skráður fyrir númerinu með leit að því í lögreglukerfinu og þá hafi komið á daginn að ákærði hafi verið skráður fyrir númerinu. Daginn eftir að þetta gerðist hafi lögreglan farið að heimili ákærða og handtekið hann grunaðan um að hafa veitt A og B umrædda áverka. Ástæða handtöku hafi einnig verið sú að sambýlismaður móður A, J, hafði sagt lögreglu frá því að maður hafi komið fyrr um daginn 30. ágúst 2010, á svartri [...] bifreið, og spurt eftir A. Lýsing sambýlismannsins á manninum, að hann væri ríflega 180 sentímetrar á hæð, þrekvaxinn og burstaklipptur, hafi passað við ákærða og þegar lögreglan var við heimili ákærða hafi svartri [...] bifreið verið ekið í hlað. Ákærði hafi í fyrstu neitað allri aðild að málinu og sagðist hafa verið í bíó með tveimur vinum sem hann nafngreindi, en síðar sama dag hafi hann játað verknaðinn og lýst atburðum með sama hætti og brotaþolar og því hafi lögregla talið játninguna vera sanna og rétta og lokið rannsókn málsins.

V

                Samkvæmt ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 22. maí 2012, er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa að kvöldi mánudagsins 30. ágúst 2010 brotið sér leið inn í íbúðarhúsnæði að [...] í [...], veist þar að A og B og slegið ítrekað með kúbeini í átt að höfði þeirra beggja. Þeir reyndu að verjast með því að bera fyrir sig hendur og handleggi með þeim afleiðingum að höggin höfnuðu flest þar. Samkvæmt ákæru er afleiðingum lýst þannig að A hlaut beinbrot og beinatilfærslu á vinstri handlegg og yfirborðsáverka á vinstri framhandlegg. B hlaut opið beinbrot á vinstri handlegg við olnboga og liðhlaup í vinstri olnboga. Ákærði neitaði sök fyrir dómi. Við skýrslutökur hjá lögreglu játaði ákærði sök og þar lýsti hann árásinni á sama veg og brotaþolar höfðu gert. Fyrir dómi gaf ákærði þær skýringar á framburði sínum hjá lögreglu að hann hefði viljað losna úr haldi eftir skýrslutökuna í stað þess að verða látinn sæta löngu gæsluvarðhaldi. Því hefði hann samið frásögnina með upplýsingum sem hann kvaðst hafa fengið frá lögreglu. Að mati dómsins er þessi skýring ákærða afar ótrúverðug.

                Framburður beggja brotaþola er skýr og staðfastur, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi um öll helstu atvik málsins að [...] að kvöldi 30. ágúst 2010. Var útidyrahurðinni að íbúð A sparkað upp og inn kom maður með kúbein, sem brotaþolar töldu í fyrstu vera J, og lét hann höggin dynja á brotaþolum með þeim afleiðingum sem lýst er að framan. Fram kom hjá A að hringt hefði verið í hann tveimur dögum fyrir árásina án þess að hann gæti lýst nákvæmlega tilefni símtalsins. Eftir árásina hafi verið hringt í hann og þá verið spurt hvort hann vildi meira. Eftir athugun á því úr hvaða númeri hefði verið hringt hefði komið í ljós að ákærði var eigandi númersins. Þá hafi brotaþolar flett ákærða upp á samskiptavefnum „facebook“ og séð þar á mynd að ákærði var sá sem réðst að þeim í [...] en ekki J. Þannig liggur fyrir framburður beggja brotaþola fyrir dómi um að ákærði hafi ráðist á þá í umrætt sinn. Hafa báðir brotaþolar borið um atvikin á sama veg fyrir dómi og þeir gerðu við skýrslutöku hjá lögreglu. Þá hefur vitnið Steindór Ingimundarson borið að maður hafi komið á heimili hans um miðjan dag 30. ágúst 2010 og spurt um A og hvar hann ætti heima. Hafi sá verið á svartri [...] bifreið. Lýsing vitnisins á manninum sem spurði eftir A svarar til útlits ákærða í málinu. Í skýrslu hjá lögreglu 15. september 2010 greindi vitnið C, vinur ákærða, frá því að hann hefði farið með ákærða í bíó 30. ágúst 2010 kl. 18.00. Eftir það hefði hann farið með ákærða upp í [...] þar sem ákærði hefði þurft að hitta félaga sinn og hefði vitnið beðið í bifreiðinni í 5-10 mínútur á meðan. Hann mundi þó ekki eftir því að hafa farið að [...], enda hefði hann ekki lagt það á minnið hvert ekið var. Vitnið bar þó að þeir hefðu keyrt yfir [...], síðan beygt til hægri eftir að hafa verið komnir yfir brúna og ekið „eitthvert inn í hverfið“ á svartri [...] bifreið sem ákærði var á. Fyrir dómi kvaðst vitnið ekki muna eftir atburðum frá þessu kvöldi en taldi sig hafa munað þá betur þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins. Með vísan til þess og heimild í 2. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður byggt á framburði vitnisins hjá lögreglu um atvik að kvöldi 30. ágúst 2010 svo sem unnt er. Þá liggur fyrir að ákærði kannaðist við það fyrir dómi að hafa átt símanúmerið [...] á þeim tíma sem árásin var gerð og einnig að vera kallaður „Dabbi“ af vinum sínum. Að öllu framangreindu virtu verður að telja, þrátt fyrir neitun ákærða á sakargiftum fyrir dómi, að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi ráðist að A og B að kvöldi 30. ágúst 2010. Á það sér stoð í framburði vitna og öðrum gögnum málsins. Að mati dómsins hefur ákærði gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og er brotið réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru ríkissaksóknara.           

VI

                Ákærði er fæddur í júní 1984. Samkvæmt vottorði Sakaskrár ríkisins á hann talsverðan sakarferil að baki frá árinu 2003, en 8. janúar það ár var ákærði dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var ákærði dæmdur 4. mars 2004 til sex mánaða fangelsisrefsingar, þar af þriggja mánaða skilorðsbundinna, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 19. maí 2005 hlaut ákærði átta mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, en þá var skilorðsdómur frá 4. mars 2004 dæmdur með. Þá var ákærði dæmdur til greiðslu 120.000 króna sektar 6. október 2006 fyrir brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og umferðarlögum. Enn fremur var ákærði dæmdur 9. september 2010 til tveggja mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundinnar í tvö ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu hefur ákærði hlotið fjóra dóma fyrir ofbeldisbrot, það er brot gegn 106. gr., 1. mgr. 217. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þeir dómar hafa nú ítrekunaráhrif, sbr. 1. mgr. 71. gr. og 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar nú verður að líta til þess að ásetningur ákærða var einbeittur. Hann fór gagngert á heimili annars brotaþolans til þess að ráðast að honum. Hann hafði komið fyrr um daginn á vettvang og kannað aðstæður. Ekki er upplýst í málinu hvað ákærða gekk til með árásinni. Hann beitti miskunnarlaust hættulegu vopni á varnarlausan brotaþola og vin hans sem var staddur hjá honum og sló ítrekað með kúbeini í átt að höfði þeirra, en þeir báru fyrir sig hendur. Taka verður tillit til þess að umtalsverð og óútskýrð töf varð á rannsókn málsins hjá lögreglu. Annað þeirra brota sem ákærði er sakfelldur fyrir var framið 30. ágúst 2010, en ákæra var ekki gefin út fyrr en 21 mánuði síðar. Er þetta í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig ber að líta til þess að þegar ákærði framdi það brot sem um getur í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 10. september 2010 var hann á skilorði samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 9. september sama ár. Þá er brot ákærða sem um getur í ákæru ríkissaksóknara frá 22. maí 2012 hegningarauki við áðurnefndan dóm frá 9. september 2010. Með vísan til alls framangreinds og með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga, svo og með vísan til 1., 2. og 6. töluliða 70. gr. sömu laga þykir refsing ákærða Davíðs Arnar Sigurðssonar hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Vegna sakaferils ákærða þykja engin efni vera til að binda refsinguna skilorði.

VII

                A hefur krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð 1.779.536 krónur. Krafist er miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 1.700.000 krónur, auk þjáningabóta að fjárhæð 71.900 krónur og kostnaður vegna læknisþjónustu og sjúkraþjálfunar, samtals að fjárhæð 7.636 krónur. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Hefur hann með háttsemi sinni valdið brotaþola líkamstjóni. Brotaþoli lá á sjúkrahúsi í fjóra daga og var rúmfastur þá daga í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fallist er á kröfu brotaþola um þjáningabætur og bætur vegna kostnaðar við læknisþjónustu og sjúkraþjálfum eins og þær eru settar fram, samtals að fjárhæð 79.536 krónur. Ef horft er til atlögu ákærða að brotaþola, afleiðinga árásarinnar og dómvenju þykja miskabætur til handa brotaþola, A, hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Vextir reiknast eins og greinir í dómsorði, en dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu reiknast frá 11. júlí 2012 þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða, sem var birt með fyrirkalli 11. júní 2012, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

                B hefur krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2010 til þess dags er mánuður var liðinn frá því bótakrafan var kynnt ákærða, en dráttarvöxtum frá þeim degi, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Ef horft er til atlögu ákærða að brotaþola, afleiðinga árásarinnar og dómvenju þykja miskabætur til handa brotaþolanum B, hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Dráttarvextir skulu reiknast frá 11. júlí 2012 þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

VIII

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað málsins, en samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara er kostnaður vegna læknisvottorða og launa réttargæslumanns á rannsóknarstigi 87.200 krónur. Þá verður ákærða gert að greiða þóknun verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 439.250 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá ber ákærða enn fremur að greiða þóknun réttargæslumanns brotaþolans A, Björns Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum og brotaþolans B, Auðar Bjargar Jónsdóttur héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og 30.800 krónur vegna læknisvottorðs Yngva Ólafssonar bæklunarskurðlæknis.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Höskuldsson, sem dómsformaður, Finnbogi H. Alexandersson og Gunnar Aðalsteinsson. 

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Davíð Örn Sigurðsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

                Ákærði greiði A miska- og skaðabætur að fjárhæð 679.536 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2010 til 11. júlí 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði B miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2010 til 11. júlí 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði 1.157.250 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Björns Jóhannessonar, hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur og Auðar Bjargar Jónsdóttur, héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur og 30.800 krónur vegna læknisvottorðs.