Hæstiréttur íslands
Mál nr. 645/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 24. nóvember 2010. |
|
Nr. 645/2010. |
A (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn B(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði svipt sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2010, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Í málinu liggur fyrir vottorð C geðlæknis 29. október 2010 um heilsufar sóknaraðila en það er ritað í tilefni af kröfu varnaraðila um sjálfræðissviptingu sóknaraðila í sex mánuði. Efni þess er að nokkru rakið í hinum kærða úrskurði. Í vottorðinu kemur fram að sóknaraðili sé greind með geðhvarfasjúkdóm. Hún liggi á geðdeild vegna mikilla örlyndiseinkenna og hafi verið þar með hléum frá því síðastliðið sumar. Samhliða örlyndiseinkennum aukist neysla sóknaraðila á vímuefnum. Innsæi sóknaraðila í veikindi sín sé mjög skert, hún hætti að taka lyf og meðferðarheldni verði lítil. Í síðustu tveimur innlögnum hafi þurft að beita nauðungarvistun. Kom C fyrir héraðsdóm og staðfesti læknisvottorðið. Kvaðst hann telja óhjákvæmilegt að svipta sóknaraðila sjálfræði tímabundið. Geðslag hennar sé óstöðugt og meðferðarheldni ekki góð. Hún hafi áður lýst sig sammála framhaldsmeðferð eftir legu á deild en um leið og nauðungarvistun rann út hafi hún þverneitað framhaldsmeðferð.
Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Huldu Rósar Rúriksdóttur hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvorrar um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2010.
Með beiðni, sem dagsett er 26. f.m., hefur Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. f.h. A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að dóttir hans, B, kt. [...], [...], [...], verði svipt sjálfræði í sex mánuði vegna geðsjúkdóms. Var málið þingfest í gær og tekið til úrskurðar í dag. Um aðild sóknaraðila vísast til a- liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Varnaraðili mótmælir kröfunni.
Samkvæmt vottorði og vætti C geðlæknis er varnaraðili haldin geðhvarfasjúkdómi. Þá neyti hún vímuefna þegar hún sé örlyndisástandi og geri það sjúkdóminn enn verri. Hafi hún þá lítið innsæi í sjúkdóminn, hún hætti að taka lyf við honum eða þiggja hjálp. Hafi því áður þurft að leggja hana nauðuga inn á geðdeild. Hafi þetta komið niður á félagslegu öryggi hennar, svo sem því að hún eigi á hættu að missa íbúð sem hún hafi á leigu vegna vanskila. Sé óhjákvæmilegt að hún vistist um sinn á geðdeild til þess að tryggja að hún fái nauðsynlega meðferð við veikindum sínum.
Dómarinn álítur alveg vafalaust af því sem rakið er hér að framan að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og sé ófær um að ráða högum sínum. Þá álítur hann að skilyrði a- liðar 4. gr. lögræðislaga eigi við um varnaraðila og að þörf sé á því að svipta hann sjálfræði. Ber að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli svipt sjálfræði í sex mánuði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þ.m.t. þóknun til skipaðra talsmanna aðilanna, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 120.000 krónur, og Huldu Rósar Rúriksdóttur hrl., 75.000 krónur. Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, B, kt. [...], [...], [...], er svipt sjálfræði í 6 mánuði.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun til talsmanna aðilanna, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 120.000 krónur, og Huldu Rósar Rúriksdóttur hrl., 75.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.