Hæstiréttur íslands
Mál nr. 625/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 12. nóvember 2012. |
|
Nr. 625/2012.
|
Drómi hf. (Gunnar Sv. Friðriksson hdl.) gegn Ólöfu Jónsdóttur (Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um frávísun máls D hf. á hendur Ó. Þótt annmarkar hefðu verið á stefnu voru þeir ekki slíkir að þeir háðu Ó við vörn í málinu. Af greinargerð Ó varð ráðið að ótvírætt væri hvert væri sakarefni málsins og hvaða vörnum Ó taldi að þyrfti að tefla fram. Annmarkar á málatilbúnaði D hf., að því marki sem ekki varð úr bætt undir rekstri málsins, kæmu til álita við efnisúrlausn á því.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 3. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Til vara er þess krafist að dæmdur málskostnaður fyrir héraðsdómi verði lækkaður. Í báðum tilvikum er þess krafist að ,,sóknaraðila verði tildæmdur málskostnaður fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaður“.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 14. september 2012. Kæra sóknaraðila barst héraðsdómi föstudaginn 28. september sama ár. Þá var frestur 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 til að kæra úrskurðinn ekki liðinn. Verður málinu því ekki vísað frá Hæstarétti.
Varnaraðili krafðist í héraðsgreinargerð sinni frávísunar málsins en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 24. febrúar 2012.
Sóknaraðili höfðaði málið í héraði 1. júní 2011 til heimtu tilgreindrar fjárhæðar auk dráttarvaxta og kostnaðar, sem hann telur varnaraðila skulda sér. Í stefnu er gerð grein fyrir þeim afborgunarsamningi, sem svo er nefndur, er sóknaraðili reisir kröfu sína á og skilmálum hans. Gerð er grein fyrir breytingum sem gerðar voru á skilmálunum og hvernig stefnufjárhæðin er til komin. Þá er lýst hvernig sóknaraðili er kominn að kröfunni. Að því búnu er kafli sem nefndur er ,,Lagarök“ síðan eru tilgreind skjöl sem sóknaraðili telur vera sönnunargögn í málinu. Loks er hefðbundið fyrirkall til varnaraðila um að mæta fyrir dóm við þingfestingu málsins 16. júní 2012. Við þingfestinguna lagði sóknaraðili fram, auk stefnu og skrár um framlögð skjöl, sjö tilgreind skjöl til stuðnings kröfu sinni.
Varnaraðili lagði fram greinargerð 20. október 2011 og með henni skjöl sem þingmerkt voru nr. 11 til 18. Varnaraðili krafðist, eins og áður greinir, aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi en til vara sýknu en að því frágengnu verulegrar lækkunar á stefnukröfu. Í greinagerðinni er málavöxtum ítarlega lýst og fer sú lýsing verulega í bága við málatilbúnað sóknaraðila.
Þótt á hafi skort að lýsing í stefnu á málsástæðum og öðrum atvikum, sem þörf var á að greina til þess að samhengi málsástæðna yrði ljóst, voru þeir annmarkar ekki slíkir að þeir háðu varnaraðila við vörn hans í málinu. Af greinargerð hans verður ráðið að ótvírætt er hvert sé sakarefni málsins og hvaða vörnum hann telur að þurfi að tefla fram. Annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila, að því marki sem ekki varð úr bætt undir rekstri málsins, koma til álita við efnisúrlausn í því.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2012.
Mál þetta er höfðað af Dróma hf., Lágmúla 6, Reykjavík, á hendur Ólöfu Jónsdóttur, Sólheimum 23, Reykjavík, með stefnu birtri 1. júní 2011.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. febrúar 2012 var frávísunarkröfu stefndu hafnað. Aðalmeðferð fór fram 23. apríl sl. Vegna veikinda dómara málsins var málinu endurúthlutað hinn 29. maí sl. og fór aðalmeðferð fram að nýju 30. ágúst sl.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda greiði honum skuld að fjárhæð 8.707.752 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 1. júní 2010 til greiðsludags, auk bankakostnaðar að fjárhæð 3.650 kr. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefnda krefst þess aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
Málavextir
Stefnda eignaðist stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) árið 2001. Hún tók nokkrum sinnum þátt í stofnfjáraukningu sem hún fjármagnaði með láni frá sparisjóðnum. Snýst mál þetta um skyldu stefndu til greiðslu láns sem SPRON veitti stefndu til kaupa á stofnfjárbréfum í desember 2006.
Aðdragandinn að stofnfjáraukningunni mun hafa verið sá að á stjórnarfundi SPRON hinn 8. nóvember 2006 var ákveðið að nýta heimild til þess að auka stofnfé sjóðsins úr 5.000.000.000 hlutum í 9.500.000.000 hluti. Stefnda tók þátt í stofnfjáraukningunni og veitti SPRON stefndu lán til þess að fjármagna hana. Stefnda kveður að öðruvísi hafi henni ekki verið það mögulegt þar sem hún hafi ekki haft handbært fé til þess og hafi enn fremur þegar verið í skuld við SPRON vegna fyrri stofnfjárhækkana. Fullyrðir stefnda að starfsfólk SPRON hafi tjáði henni að það væri algjört glapræði að taka ekki þátt í hækkuninni, enda myndi stofnfjárhlutur stefndu þá þynnast út um 47,4%. Stefndu hafi jafnframt verið tjáð að hún þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af skuldbindingunni, enda væru allar líkur á því að arðgreiðslur af stofnfjárbréfum myndu duga til þess að greiða upp lánið.
Upphaflegt lán (nr. 949214) til kaupa á stofnfjárbréfum sem var að fjárhæð 6.274.601 kr. var veitt stefndu 27. desember 2006. Voru greiddar 6.211.855 kr. inn á tékkareikning stefndu nr. 1150-26-2106. Sama dag voru millifærðar af SPRON 6.211.855 kr. af reikningi stefndu til greiðslu fyrir stofnfjárbréf. Lánið átti að greiðast með einni afborgun hinn 5. maí 2007. Stefnda kveðst ekki hafa verið krafin um greiðslu lánsins, en þess í stað hafi SPRON framlengt í láninu með því að veita lán (nr. 949264) að nýju að fjárhæð 6.290.327 kr. hinn 4. maí 2007 og greitt 6.274.601 kr. inn á tékkareikning stefndu. Hinn 7. sama mánaðar hafi SPRON millifært 6.275.603 kr. af reikningi stefndu til greiðslu á láni nr. 949214. Lánið hafi átt að greiðast með einni afborgun hinn 5. maí 2008. Aftur hafi stefnda ekki verið krafin um greiðslu af láninu, en þess í stað hafi SPRON framlengt í láninu með því að veita lán (nr. 949275) að fjárhæð 6.354.260 kr. hinn 1. maí 2008 og greitt 6.290.717 kr. inn á tékkareikning stefndu hinn 5. sama mánaðar. Hinn 7. maí 2008 hafi SPRON millifært 6.297.724 kr. af reikningi stefndu til greiðslu á láni nr. 949264.
Umræddur afborgunarsamningur nr. 949275 frá 1. maí 2008 er grundvöllur dómkröfu stefnanda á hendur stefndu. Í samningum, sem ber yfirskriftina: „AFBORGUNARSAMNINGUR, Reikningslán, SPRON hf., 5400502-2770. Óverðtryggt reikningslán. Jafnar afborganir. Kjörvextir“ kemur fram að vísað væri til þeirrar beiðni stefndu, sem samþykkt hefði verið, að veita henni lán að fjárhæð 6.354.260. Um lánsfjárhæðina væri stofnaður afborgunarreikningur, fjárhæðin væri lögð inn á tékkareikning 1150-26-002106 og átti lánið að greiðast með einni afborgun hinn 5. maí. 2009. Lánsfjárhæðin myndi bera óverðtryggða breytilega vexti, upphaflega 19,85%. Í skjalinu var jafnframt kveðið á um að bærust sparisjóðnum ekki athugasemdir innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins teldist samningur vera kominn í samræmi við framangreind ákvæði um lánakjör. Ekki var kveðið á um tryggingar fyrir greiðslu lánsins. Afborgunarsamningurinn var undirritaður af hálfu SPRON en ekki stefndu.
Breyting var gerð á greiðsluskilmálum lánsins 3. júní 2009. Í skjali sem ber heitið „BREYTING Á GREIÐSLUSKILMÁLUM SKULDABRÉFS“ kemur fram að afborgun og vextir verði fyrstir í eitt ár með gjalddaga 1. júní 2010. Var skilmálabreytingin undirrituð af hálfu stefndu og starfsmanna Nýja Kaupþings banka ehf. Þar sem ekki kom til greiðslu var afborgunarsamningurinn gjaldfelldur skv. ákvæðum hans vegna vanskila, 1. júní 2010 og kveður stefnandi að þá hafi eftirstöðvar numið 7.774.952 kr. auk áfallinna samningsvaxta 932.800 kr. eða samtals 8.707.752 kr. sem sé stefnufjárhæð máls þessa. Auk þess gerir stefnandi kröfu um greiðslu bankakostnaðar.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á afborgunarsamningi stefndu við SPRON, upphaflega að fjárhæð 6.354.260 kr., gerðum hinn 1. maí 2008. Um lánsfjárhæðin hafi verið stofnaður afborgunarreikningur og fjárhæðin lögð inn á tékkareikning nr. 1150-26-002106. Lánsfjárhæðin hafi átt að greiðast með einni afborgun hinn 5. maí 2009 og bera óverðtryggða breytilega vexti, upphaflega 19.85%. Hinn 3. júní 2009 hafi verið gerð breyting á greiðsluskilmálum lánsins. Afborgunarsamningurinn hafi verið gjaldfelldur vegna vanskila hinn 1. júní 2009 og sé málinu stefnt fyrir eftirstöðvum og áföllnum samningsvöxtum auk bankakostnaðar.
Stefnandi kveður að hinn 21. mars 2009 hafi Fjármálaeftirlitið vikið stjórn SPRON frá og skipað skilanefnd yfir sparisjóðnum. Hinn 23 júní 2003 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur skipað SPRON slitastjórn, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið stofnað sérstakt hlutafélag, þ.e. stefnandi málsins, í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., kt. 540502-2770, sem hafi tekið við öllum eignum félagsins og jafnfram öllum tryggingarréttingum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og um efndir fjárskuldbindinga. Um dráttarvaxtakröfu vísar hann til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 en krafa um virðisaukaskatt af honum sé reist á lögum nr. 50/1988, stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að hinn umdeildi afborgunarsamningur sé með öllu óskuldbindandi. Um sé að ræða samning sem sé óundirritaður af hálfu stefndu. Samningurinn sé gerður einhliða af hálfu SPRON og að hans frumkvæði og hafi einungis starfsmenn sparisjóðsins sem undirritað samninginn. Enga umsókn um lánið sé að ræða. Lánið hafi ekki verið til frjálsrar ráðstöfunar fyrir stefndu eins og ætla megi af málavaxtalýsingu stefnanda. Andvirði lánsins hafi runnið til SPRON, lánveitanda sjálfs. Engu máli skipti þótt stefnda hafi gengist undir skuldbindingu gagnvart SPRON vegna stofnfjárhækkunar í desember 2006 eða undirritað skilmálabreytingu, 3. júní 2009. Skilmálabreytingin hafi verið undirrituð í þeirri trú að um væri að ræða réttmæta skuld.
Stefnda byggir í öðru lagi á þeirri málsástæðu að það hafi verið forsenda fyrir upphaflegri lántöku hennar í desember 2006, að áhættan við hana væri aðeins bundin við stofnfjáreign hennar. SPRON sem hafi haft frumkvæði að því að lána stefndu vegna stofnfjárhækkunarinnar hafi verið fullkomlega ljós sú forsenda og séu því séu skilyrði fyrir því að beita ógildingarreglunni um brostnar forsendur. Starfsmenn SPRON hafi fullyrt við stefndu að allar líkur væru á því að arðgreiðslur myndu greiða upp lánið. Stefnda hafi verið 63 ára gömul þegar hún hafi fengið upphaflega lánið hinn 27. desember 2006. Það lán hafi átt að greiðast að fullu hinn 5. maí 2007. Eignastaða stefndu, laun eða greiðslugeta að öðru leyti hafi ekki gefið tilefni til þess að hún gæti greitt upp lánið að fullu svo stuttu eftir að það hafi verið veitt. Enda hafi það verið svo að SPRON hafi framlengt jafnan upphaflega lánið með nýjum lánum án aðkomu stefndu. Aðferðarfræði þessi af hálfu SPRON sem lánveitanda bendi eindregið til þess að arðgreiðslur hafi átt að greiða fyrir lánið. Þessi forsenda hafi verið veruleg og ákvörðunarástæða fyrir lántökunni sem hafi verið sparisjóðnum kunn. Stefnda hafi aldrei verið fengin til þess að undirrita nein skjöl vegna þessara lánveitinga. Lánstíminn hafi verið ákveðinn einhliða af hálfu SPRON sem og önnur kjör lánanna. Ekki hafi verið tekið tillit til aðstæðna stefndu og getu við ákvörðun endurgreiðslutímans. Í september 2007 hafi SPRON verið breytt í hlutafélag þar sem stofnfé hafi verið breytt í hlutafé. Upphaflegt lán stefndu vegna stofnfjárkaupa hafði verið framlengt hinn 4. maí 2007. SPRON hafi borið að kynna stefndu sérstaklega í hverju þessi breyting hafi falist og hvaða áhrif þetta gæti haft, m.a. á arðgreiðslur. Stefnda hafi síðar fengið þær upplýsingar að starfsfólk SPRON hafði sérstaklega verið varað við að ekki mætti vænta þess að arðgreiðslur væru af sama meiði og jafn háar og þegar SPRON hafi verið sparisjóður, en síðasta arðgreiðsla sparisjóðsins hafi verið í apríl 2007.
Stefnda byggir í þriðja lagi á þeirri málsástæðu að víkja skuli afborgunarsamningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem óheiðarlegt og ósanngjarnt sé af stefnanda að bera hann fyrir sig. Stefnda hafi ekki haft frumkvæði að upphaflegri lántöku og yfirlýsingar starfsfólks SPRON um að engin áhætta væri fólgin í lántökunni og að arðgreiðslur mundu greiða fyrir lánið megi jafna til beinna loforða til handa stefndu. Það verði heldur ekki fram hjá því litið að starfsfólk SPRON hafi brýnt sérstaklega fyrir stefndu að taka þátt í hækkuninni á stofnfé sjóðsins, annað væri í raun algjört glapræði þar sem eignhlutur hennar sem hún hafi átti þegar myndi þynnast út um 47,4%. Þegar litið sé til efnis samninganna, þ.e. kjara og tímalengdar, megi ljóst vera að það hafi verið forsenda þess að stefnda gæti staðið við skuldbindinguna að arðgreiðslur kæmu til sem greiddu fyrir lántökuna. Afborgunarsamningarnir, sem séu allir óundirritaðir, séu einhliða samdir af SPRON sem hafi verið fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem veitti m.a. einstaklingum lán til kaupa í sjálfum sér í tilefni þess að það var verið að tvöfalda stofnfé sjóðsins. SPRON hafi séð um alla skjalagerð og hafi í raun ekki gert ráð fyrir undirskrift stefndu á nein skjöl og hafi stefnda treyst á ráðgjöf og yfirlýsingar starfsfólks SPRON.
Stefnda byggir í fjórða lagi á þeirri málsástæðu að SPRON hafi brotið gegn II. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, sem gilt hafi þegar stofnfjárhækkun SPRON átti sér stað í desember 2006. Ljóst sé að SPRON hafi veitt stefndu lán til verðbréfakaupa þegar hann veitti stefndu upphaflegt lán í desember 2006 vegna kaupa á stofnfjárbréfum í sjálfum sér. Þar af leiðandi hafi sparisjóðurinn komið fram sem samningsaðili í verðbréfaviðskiptum. SPRON hafi ekki kannað fjárhag stefndu og getu hennar til að ráðast í kaup á stofnfjárbréfum. SPRON hafi ekki mátt ráðleggja stefndu að taka lán til kaupanna á stofnfjárbréfum. Bréfin hafi ekki verið skráð í kauphöll og markaður með þau hafi verið takmarkaður. Veruleg seljanleikaáhætta hafi því verið í stofnfjárbréfum og skuldsett kaup á slíkum bréfum því fráleit fyrir konu á sjötugsaldri með takmarkaðar tekjur og í engu samræmi við þær skuldbindingar sem hafi falist í lántökunni og kaupum á stofnfjárbréfunum. Hafi SPRON þannig sýnt af sér saknæma og bótaskylda háttsemi gagnvart stefndu. Skuldsett sala á stofnfjárbréfum til stefndu hafi farið gegn lögum nr. 33/2003, sbr. nú lög nr. 108/2007, og hafi því verið saknæm og ólögmæt háttsemi af hálfu SPRON. Stefnandi leiði rétt sinn frá SPRON hf. sem hafi verið fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002, þar sem sérfræðingar hafi verið að störfum sem hafi átt að ástunda vönduð vinnubrögð.
Til stuðnings varakröfu sinni vísar stefnda til þess að hún geti ekki verið skuldbundin af samningsákvæðum varðandi vexti, lántökugjald, gjaldfellingu og dráttarvexti. Fjárhæð kröfu stefnanda geti aldrei orðið hærri heldur en höfuðstóll afborgunarsamningsins að frádregnu 1% lántökugjaldi, eða 6.290.717 kr. Málskostnaðarkröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Innheimtuviðvörun skv. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 sé ekki lögð fram í málinu og stefnda kannist ekki við að hafa nokkurn tímann móttekið hana. Þá mótmælir stefnda kröfu um virðisaukaskatt úr hendi stefndu.
Um lagarök vísar stefnda til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, einkum reglna um brostnar forsendur. Stefnda vísar ennfremur til samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr. , laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, einkum 4. og 5. gr., sem og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, einkum 15. og 16. gr.og til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Varðandi málskostnaðarkröfu stefnanda vísar stefnda til innheimtulaga nr. 95/2008 og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Niðurstaða
Eins og fram kemur í stefnu kveður stefnandi hina umstefndu skuld vera skv. afborgunarsamningi stefndu við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), upphaflega að fjárhæð 6.354.260 kr., gerðum hinn 1. maí 2008. Breyting hafi verið gerð á greiðsluskilmálum lánsins 3. júní 2009. Afborgunarsamningurinn hafi verið gjaldfelldur skv. ákvæðum hans vegna vanskila, 1. júní 2010 en þá hafi eftirstöðvar numið 7.774.952 kr. auk áfallinna samningsvaxta 932.800 kr. eða samtals 8.707.752 kr. sem sé stefnufjárhæð máls þessa.
Þá kveður stefnandi að hinn 21. mars 2009 hafi Fjármálaeftirlitið vikið stjórn SPRON frá og skipað skilanefnd yfir sparisjóðinn. Hinn 23. júní sama ár hafi Héraðsdómur Reykjavíkur skipað SPRON slitastjórn, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., stefnandi í máli þessu, í eigu SPRON, sem hafi tekið við öllum eignum sparisjóðsins og jafnframt öllum tryggingarréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON, um aðilaskipti að kröfuréttindum í eigu SPRON til Dróma hf.
Nefndur afborgunarsamningur, sem dagsettur er 1. maí 2008, liggur fyrir í málinu og er hann einungis undirritaður af hálfu sparisjóðsins. Lánstíminn er eitt ár og gjaldféll hann 5. maí 2009. Á bakhlið samningsins segir: „Krafa þessi er veðsett Arion banka hf. sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009, sbr. og veðsamningur frá 22. júní 2009 milli Dróma hf. og Arion banka hf. og samningur um endurgreiðslu skuldar milli sömu aðila dags. sama dag. Öllum greiðslum vegna kröfunnar skal ráðstafað inn á reikninga veðsetta bankanum. Afhent Dróma hf. til umráða vegna innheimtumáls þann 24. janúar 2011. F.h. Arion banka hf “ Undirritunin er ólæsileg.
Eins og að framan greinir var gerð breyting á greiðsluskilmálum lánsins hinn 3. júní 2009 og liggur hún einnig fyrir í málinu. Skjal þetta ber heitið Breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs. Ekkert skuldabréf liggur hins vegar fyrir í málinu. Svo virðist sem verið sé að breyta greiðsluskilmálum afborgunarsamningsins frá 1. maí 2008 þar sem upphafleg fjárhæð og útgáfudagur eru réttilega tilgreind. Hins vegar stemma númer afborgunarsamningsins og skilmálabreytingin ekki. Dagsetning skjalagerðar skilmálabreytingarinnar er tilgreind 29. september 2009, en stefnda undirritar skjalið tæpum fjórum mánuðum áður eða 3. júní 2009. Þá er sagt að Nýi Kaupþing banki hf. geri skilmálabreytinguna samkvæmt umboði og heimild í samningi milli Skilanefndar SPRON og Nýja Kaupþings banka hf. Þessi skjöl liggja ekki frammi í málinu. Í lok skjalsins segir að breytinga sé getið á „frumriti skuldabréfsins eins og meðfylgjandi ljósrit“ þess sýni. Gögn þessi liggja ekki fyrir málinu.
Samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Meðal þeirra atriða sem þarf að lýsa er aðild máls ef aðilaskipti hafa orðið að kröfu. Aðkoma Nýja Kaupþings og Arion banka hf. er í engu skýrð í stefnu, en krafa er þó byggð á breytingum á greiðsluskilmálum sem gerðar voru við þann banka. Í stefnu er einungis kveðið á um að stefnandi sé í eigu SPRON, sem hafi tekið við öllum eignum sparisjóðsins og öllum tryggingarréttindum og svo framvegis. Þá er málatilbúnaður stefnanda í stefnu hvorki skýr né glöggur samanber eins og að framan hefur verið rakið.
Hinn 24. febrúar sl. var frávísunarkröfu stefndu hafnað og gafst stefnanda þá tækifæri á því að skýra málatilbúnað sinn undir rekstri málsins. Þar sem ekki hefur verið úr þessu bætt með viðhlítandi hætti eru svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að vísa ber málinu frá héraðsdómi.
Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað svo sem getur í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Drómi hf., greiði stefndu, Ólöfu Jónsdóttur, 700.000 kr. í málskostnað.