Hæstiréttur íslands
Mál nr. 417/2013
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Dráttur á máli
- Skilorðsrof
- Skilorð
|
|
Þriðjudaginn 17. desember 2013. |
|
Nr. 417/2013. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Gunnari Elísi Tómassyni (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Fíkniefnalagabrot. Dráttur á máli. Skilorðsrof. Skilorð.
G var sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 421 töflu og 3,79 g af mulningi sem hafði að geyma MDMA-klóríð og voru ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Var refsing G ákveðin fangelsi í 15 mánuði, en rétt þótti að fresta fullnustu hennar skilorðsbundið í fimm ár, m.a. með vísan til þess að ástæðulaus töf um eins árs skeið hafði orðið á meðferð málsins hjá lögreglu.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
I
Samkvæmt gögnum málsins mun lögregla á Akureyri hafa haft spurnir af því að ákærði hefði til sölu fíkniefni og fóru tveir lögreglumenn af því tilefni á heimili hans síðdegis 2. febrúar 2012. Í skýrslu, sem lögregla gerði um þetta, kom fram að ákærði hafi þar veitt skriflegt samþykki fyrir að leitað yrði á heimili hans og framvísað í framhaldi af því skál, sem hafi haft að geyma um 430 töflur með fíkniefninu MDMA. Ákærði var handtekinn og gaf skýrslu vegna málsins á lögreglustöð að kvöldi sama dags. Hann kvað ónafngreindan kunningja sinn hafa boðið sér þessar töflur til að koma þeim í verð og hafi hann átt að selja hverja þeirra fyrir 3.500 krónur, en greiða kunningjanum 2.000 krónur af því. Hann sagðist ekki hafa vitað hvernig hann ætti að standa nánar að þessu verki, enda aldrei gert slíkt fyrr, en hann hafi fengið sér nýtt símanúmer til að nota við það og ætlað að láta spyrjast út að hann hefði töflur sem þessar til sölu. Hann hafi ekki verið byrjaður á þessu og aðeins sagt einum kunningja sínum að hann kynni brátt að vera með svona efni til sölu. Aðspurður kvaðst hann hafa hætt neyslu svonefndra harðra fíkniefna fyrir um ári og látið einnig af neyslu kannabisefna í byrjun árs 2012. Í lögregluskýrslunni var tekið fram að ákærði hafi verið „mjög samvinnufús í þessu máli og greindi mjög vel frá sínum þætti.“ Honum var sleppt úr haldi að lokinni skýrslugjöf. Lögregla óskaði 14. febrúar 2012 eftir greiningu á nokkrum af þeim töflum, sem fundust samkvæmt áðursögðu á heimili ákærða og hald hafði verið lagt á. Samkvæmt skýrslu rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 2. mars 2012 reyndust þessar töflur vera að meðaltali 245 mg á þyngd og hafa að geyma 73 mg af MDMA. Ekki verður séð að nokkuð frekar hafi verið aðhafst við lögreglurannsókn á málinu eftir að þessi skýrsla hafði verið fengin.
Sýslumaðurinn á Akureyri sendi ríkissaksóknara gögn vegna framangreindrar lögreglurannsóknar ásamt bréfi 26. febrúar 2013, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi:
„Undirritaður telur brot þetta falla undir 173. gr. A. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, vegna magns efnanna. Sakborningur játar að hafa 2. febrúar 2012, verið með í vörslum sínum 421 stykki af ecstasy (MDMA) töflum. ... Rannsókn þessa brots tók alltof langan tíma miðað við hve einföld hún var. Það virðist hafa tekið eitt ár að gera samantekt vegna einnar skýrslutöku í málinu. Ég mun ræða það mál við viðkomandi lögreglumenn.“
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði ríkissaksóknari mál þetta með ákæru 8. mars 2013, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa brotið gegn áðurnefndu ákvæði almennra hegningarlaga með því að hafa 2. febrúar 2012 haft í fórum sínum 421 töflu og 3,79 g af mulningi, sem hafi haft að geyma MDMA-klóríð og ætlað hafi verið til sölu í ágóðaskyni. Við þingfestingu málsins 31. maí 2013 mætti ákærði fyrir dóm og viðurkenndi sök. Gekk hinn áfrýjaði dómur því til samræmis 6. júní sama ár, en með honum var ákærða gert að sæta fangelsi í 15 mánuði og upptöku fyrrgreindra fíkniefna, auk þess að greiða sakarkostnað.
II
Að gættu því magni fíknaefna, sem brot ákærða varðar, styrkleika þeirra og því að hann hafði þau undir höndum í því skyni að selja þau með ágóða verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að brotið varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga.
Í héraðsdómi er greint frá sakaferli ákærða, þar á meðal að hann hafi með háttsemi sinni rofið skilorð samkvæmt dómi, sem hann hlaut fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 7. október 2010 fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot og þjófnað, en þar var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 45 daga. Sakaferill ákærða skiptir hér að öðru leyti ekki máli. Að því verður að gæta að brot ákærða, sem mál þetta tekur til, snerist um mikið magn af hættulegu fíkniefni, sem hann hugðist selja í ábataskyni, en samkvæmt skýrslu hans fyrir lögreglu hefur hann gert ráð fyrir að hagnast af þessu um meira en 600.000 krónur. Á hinn bóginn verður að líta til þess að ákærði var 19 ára að aldri þegar hann framdi þetta brot. Samkvæmt framlögðum vottorðum hefur hann verið í föstu starfi frá árinu 2011 og lagt stund á iðnnám eftir að hann gerðist sekur um brot sitt, en frá vinnuveitanda og skóla hefur hann hlotið lof fyrir ástundun og framgöngu sína að öðru leyti. Við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi hefur hann gengist við broti sínu og verið fús til samvinnu. Í þessu sambandi verður heldur ekki fram hjá því horft að gersamlega ástæðulaus töf varð á meðferð málsins fyrir lögreglu um eins árs skeið á tímabili þegar miklu hefði skipt fyrir ákærða með tilliti til aldurs hans og aðstæðna að niðurstaða fengist um refsingu hans innan eðlilegs tíma. Þegar þessa alls er gætt er rétt að láta refsinguna, sem ákærða var gerð með hinum áfrýjaða dómi, standa óraskaða, en binda hana skilorði á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest, en áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að fresta skal fullnustu refsingar ákærða, Gunnars Elísar Tómassonar, og hún falla niður að liðnum 5 árum frá uppsögu þessa dóms haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. júní 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 31. maí sl., höfðaði ríkissaksóknari hér fyrir dómi þann 14. mars sl. með ákæru á hendur Gunnari Elísi Tómassyni, kt. [...], [...], [...];
,,fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 2. febrúar 2012, á ofangreindu heimili sínu, haft í vörslum sínum 421 töflu og 3,79 g af töflumulningi sem innihélt MDMA-klóríð, en fíkniefnin voru ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni.
Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að framangreind 421 tafla og 3,79 g af töflumulningi af fíkniefninu MDMA, sem hald var lagt á verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2011 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.“
Ákærði hefur komið fyrir dóm og játað sök. Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu en þegar hefur farið fram, með heimild í 164. gr. laga nr. 88/2008. Skipaður verjandi krefst þess fyrir hönd ákærða að dæmd verði vægasta refsing sem lög heimila og að hún verði bundin skilorði.
Sakaferill ákærða hefur áhrif á refsingu að því leyti að þann 7. október 2010 var hann dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár og til greiðslu sektar og sviptur ökurétti, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, umferðarlagabrot og auðgunarbrot. Með þeirri háttsemi sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir rauf hann skilorð nefnds dóms. Ber að taka skilorðshluta hans upp og dæma með í þessu máli, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga.
Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að um verulegt magn af hættulegu fíkniefni er að ræða, sem ákærði hugðist selja í ágóðaskyni. Í framlagðri matsgerð segir að meðalþungi 5 taflna hafi verið 0,245 grömm. Í töflunum hafi verið 73 mg af MDMA, sem samsvari 87 mg af MDMA-klóríði.
Líta má til þess að ákærði hefur skýlaust játað brotið, sem og hegðunar hans að undanförnu, sbr. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Liggja fyrir umsagnir vinnuveitanda hans og skóla, þar sem honum er borin mjög vel sagan. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Þegar litið er til eðlis brotsins og rofs ákærða á skilorði dóms þar sem hann var m.a. sakfelldur fyrir vörslur fíkniefna, þykir ekki fært að skilorðsbinda refsinguna.
Gera ber efni upptækt eins og krafist er í ákæru og nánar er rakið í dómsorði.
Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, sem samkvæmt yfirliti nemur 70.053 krónum. Við það bætist þóknun skipaðs verjanda, Arnars Þórs Stefánssonar hrl., sem ákveðst eins og greinir í dómsorði að virðisaukaskatti meðtöldum og útlagður ferðakostnaður hans, 31.540 krónur.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Gunnar Elís Tómasson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði 189.443 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 87.850 krónur og útlagðan ferðakostnað hans, 31.540 krónur.
Gerð eru upptæk 421 tafla og 3,79 grömm af töflumulningi af fíkniefninu MDMA.