Hæstiréttur íslands
Mál nr. 113/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 20. mars 2007. |
|
Nr. 113/2007. |
Þrotabú Skafta Baldurs Baldurssonar(Ingvar Þóroddsson hdl.) gegn sýslumanninum á Selfossi (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Kærumálsúrskurður felldur úr gildi.
Þ mótmælti frumvarpi að úthlutun sýslumanns á söluverði fasteignar, sem seld hafði verið á nauðungarsölu, en Þ taldi til réttinda yfir henni á grundvelli óþinglýsts afsals. Sýslumaður tók mótmælin ekki til greina og leitaði Þ úrlausnar héraðsdóms á ágreiningi um ákvörðunina. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, þar sem Þ hefði ekki átt aðild að nauðungarsölunni. Í dómi Hæstaréttar var talið að með kröfu Þ um greiðslu af söluverði fasteignarinnar og mótmælum hans við frumvarpið hefði hann öðlast aðild að nauðungarsölunni. Hefði honum því verið unnt að leita úrlausnar héraðsdóms á ágreiningnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna. Úrskurður héraðsdóms var því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. nóvember 2006, þar sem vísað var frá dómi beiðni sóknaraðila um að fá leyst úr ágreiningi um frumvarp til úthlutunar söluverðs fasteignarinar Varmahlíðar 2 í Hveragerði, sem seld hafði verið nauðungarsölu á uppboði 4. september 2006. Í kærunni kemur fram að sóknaraðila hafi fyrst orðið kunnugt um úrskurðinn 7. febrúar 2007. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Af gögnum málsins má ráða að þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar, E. Sigurjónsson lögmannsstofa ehf., hafi 29. mars 2004 gefið út afsal fyrir henni til Skafta Baldurs Baldurssonar en því hafi ekki verið þinglýst. Meðal gagna málsins er þó hvorki umrætt afsal né kaupsamningur vegna sölunnar. Bú Skafta Baldurs var tekið til gjaldþrotaskipta 15. febrúar 2005. Fasteignin var seld nauðungarsölu á uppboði 4. september 2006. Við meðferð málsins var þinglýstur eigandi fasteignarinnar, áðurnefnd lögmannstofa, talinn gerðarþoli í samræmi við 2. tölulið 2. gr. laga nr. 90/1991. Sóknaraðili lét málið ekki til sín taka fyrr en að loknu uppboðinu og eftir að frumvarp til úthlutunar á söluverði hennar lá fyrir. Mótmælti hann þá fyrirhugaðri úthlutun með bréfi 2. október 2006 og krafðist breytinga á frumvarpinu þannig að eftirstöðvum söluverðsins yrði ráðstafað til hans, en ekki gerðarþola, ásamt því sem krafist var lækkunar á úthlutun vegna áhvílandi veðskuldar á 2. veðrétti. Bárust mótmælin innan frests samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/1991. Sýslumaður tók þau ekki til greina. Sóknaraðili leitaði að svo búnu úrlausnar héraðsdóms á ágreiningi um ákvörðunina, sbr. 1. mgr. 52. gr. sömu laga. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá dómi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laganna, þar sem sóknaraðili eigi ekki aðild að nauðungarsölunni.
Í 2. gr. laga nr. 90/1991 er kveðið á um hverjir eigi aðild að nauðungarsölu. Samkvæmt 2. tölulið greinarinnar er það gerðarþoli, en hann er sá sem verður eftir almennum reglum talinn eigandi að þeirri eign sem nauðungarsalan tekur til. Samkvæmt 3. tölulið greinarinnar eiga þeir aðild sem njóta réttinda yfir viðkomandi eign og gefa sig fram ef réttindunum er ekki þinglýst. Þá eiga aðrir, sem gefa sig fram og hafa uppi kröfur varðandi eignina eða andvirði hennar eða mótmæli gegn kröfu gerðarbeiðanda, aðild að nauðungarsölu, enda hafi þeir lögvarða hagsmuni af því að gætt verði að kröfum þeirra eða mótmælum við nauðungarsöluna, sbr. 4. tölulið greinarinnar. Ber að skilja þessi ákvæði svo að með nauðungarsölu sé átt við allar þær aðgerðir, sem fara fram við fullnustugerð sýslumanns samkvæmt fyrirmælum laganna. Á það meðal annars við um úthlutun söluverðs fasteignar samkvæmt VIII. kafla laganna.
Áður er rakið með hvaða hætti sóknaraðili telji til réttinda yfir téðri fasteign. Með kröfu um greiðslu af söluverði fasteignarinnar og mótmælum hans við frumvarpið, sbr. 2. mgr. 51. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991, öðlaðist sóknaraðili aðild að nauðungarsölunni. Var honum því unnt að leita úrlausnar héraðsdóms á ágreiningi um ákvörðun sýslumanns um úthlutun söluverðsins, sbr. 3. málslið 1. mgr. 52. gr. laganna. Ber af þeim sökum að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. nóvember 2006.
Með bréfi dags., 25. október sl., er barst Héraðsdómi Suðurlands 26. október, krafðist Ingvar Þóroddsson hdl., úrlausnar f.h. þb. Skafta Baldurs Baldurssonar, kt. 100762-3239, Tjörn 1, Húnaþingi Vestra, um ákvörðun sýslumannsins á Selfossi að hafna mótmælum þrotabús Skafta Baldurs Baldurssonar við frumvarpi að úthlutun á söluverði fasteignarinnar Varmahlíðar 2, Hveragerði.
Í ofangreindri kröfu kemur fram að með bréfi, dagsettu þann 2. október 2006 og mótteknu af Sýslumanninum á Selfossi þann 3. október 2006, mótmælti skiptastjóri, Ingvar Þóroddsson hdl., f.h. þrotabús Skafta Baldurs Baldurssonar, frumvarpi að úthlutun á söluverði fasteignarinnar Varmahlíðar 2, Hveragerði, sem seld var á uppboði af sýslumanninum á Selfossi við framhaldssölu eignarinnar þann 2. september 2006. Frestur til að setja fram mótmæli hafi runnið út kl. 12 mánudaginn 9. október. Við fyrirtöku skv. 52. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu hafi fulltrúi sýslumanns ákveðið að hafna framangreindum mótmælum við frumvarp að úthlutun söluverðs fasteignarinnar Varmahlíð 2, Hveragerði. Við það tilefni hafi skiptastjóri, Ingvar Þóroddsson hdl., f.h. þrotabús Skafta Baldurs Baldurssonar lýst því yfir að af hálfu þrotabúsins yrði leitað úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun fulltrúa sýslumannsins á Selfossi.
Sóknaraðili vísar um lagarök til 73. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.
Niðurstaða.
Sóknaraðili máls þessa kom ekki að fyrrgreindu nauðungaruppboði fyrr en hann mótmælti frumvarpi um úthlutun söluandvirðis eignarinnar og hefur borið ágreining undir dóm samkvæmt XIII. kafla nauðungarsölulaga nr. 90/1991. Í 2. gr. nauðungarsölulaganna er talið upp í fjórum töluliðum hverjir geti talist til aðila nauðungarsölu á grundvelli laganna. Þar segir í 3. tl. að aðilar að nauðungarsölu séu þeir sem njóti annars þinglýstra réttinda yfir eigninni eða réttinda sem er ekki þinglýst en gefi sig fram. Í 4. mgr. 36. gr. sömu laga segir að eftir að boð hafi komið fram við framhaldsuppboð og sýslumaður hafi þrívegis lýst eftir öðrum boðum án þess að þau komi fram láti hann hamar falla til marks um það að uppboðinu sé lokið. Í 1. mgr. 51. gr. nauðungarsölulaganna segir að sýslumaður skuli senda aðilum nauðungarsölunnar frumvarp til úthlutunar söluverð og er þeim gefinn kostur á að mótmæla frumvarpinu innan tiltekins frests sem sýslumaður ákveður. Aðilum nauðungarsölu er síðan gefinn kostur á, skv. 1. mgr. 52. gr. nauðungarsölulaganna, að leita úrlausnar héraðsdóms á ágreiningi um ákvörðun sýslumanns samkvæmt ákvæðum XIII. kafla nauðungarsölulaganna.
Sóknaraðili í máli þessu byggir rétt sinn á óþinglýstu afsali eignarinnar Varmahlíðar 2, Hveragerði sem er andlag framangreindrar nauðungarsölu. Hefði sóknaraðili viljað teljast til aðila nauðungarsölunnar hefði hann þurft að gefa sig fram sem óþinglýstan eiganda eignarinnar, sbr. 3. tl. 2. gr. nauðungarsölulaganna, áður en uppboði lyki, sbr. 1. mgr. 49. gr. nauðungarsölulaganna. Nauðungaruppboðinu lauk án þess að sóknaraðili hefði gert um það athugasemd. Þeir einir geta gert athugasemdir við frumvarp til úthlutunar söluverðs sem teljast til aðila nauðungarsölunnar, sbr. 1. mgr. 51. gr. nauðungarsölulaganna og leitað úrlausnar héraðsdóms á ágreiningi um ákvörðun sýslumanns á grundvelli XIII. kafla sömu laga, sbr. 1. mgr. 52. gr. nauðungarsölulaganna.
Ekki verður af beiðni sóknaraðila né gögnum sem fylgdu beiðni hans, ráðið að hann hafi komið að nauðungarsölunni fyrr en eftir að henni lauk. Með vísan til þess og því sem að framan greinir verður að telja að sóknaraðili sé ekki aðili að nauðungarsölunni og því sé honum ekki tæk sú leið að bera ágreining um frumvarp til úthlutunar söluverðs til héraðsdóms á grundvelli XIII. kafla nauðungarsölulaganna. Þegar af þessari ástæðu verður að vísa beiðni sóknaraðila frá dómi, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991.
Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Beiðni sóknaraðila, Ingvars Þóroddssonar hdl. f.h. þb. Skafta Baldurs Baldurssonar um úrlausn ágreinings á frumvarpi til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar Varmahlíðar 2, Hveragerði, er vísað frá dómi.