Hæstiréttur íslands
Mál nr. 92/2001
Lykilorð
- Skuldabréf
- Ábyrgð
- Sjálfskuldarábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2001. |
|
Nr. 92/2001. |
Sæmundur Sigmundsson(Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Sparisjóði Mýrasýslu (Karl Axelsson hrl.) |
Skuldabréf. Ábyrgð. Hlutfallsleg ábyrgð. Sjálfskuldarábyrgð.
Í málinu var deilt um túlkun á ábyrgðaryfirlýsingu í skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 7.500.000 kr., sem kvað á um „sjálfskuldarábyrgð „pro rata““. Á skuldabréfið voru rituð nöfn tveggja ábyrgðarmanna, þ.e. annars vegar H, sem „ábyrgist kr. 3.000.000“, og hins vegar S, sem „ábyrgist kr. 4.500.000“. S hélt því fram að skýra bæri ákvæðið á þann veg að hann hefði tekið á sig sjálfskuldarábyrgð með hlutfallslegri ábyrgð, en þó að hámarki 4.500.000 kr. Eigandi skuldabréfsins taldi aftur á móti að S hefði tekið á sig hlutfallslega ábyrgð skuldarinnar án nokkurs hámarks og tæki ábyrgðin því til framangreindrar fjárhæðar ásamt vísitölu, vöxtum og kostnaði. Í dómi Hæstaréttar segir að á þeim tíma, sem lánið hafi verið tekið, hafi S setið í stjórn N hf., sem hafi verið aðalskuldari skuldabréfsins. Hafi honum mátt vera ljóst að ábyrgð beggja ábyrgðarmannanna næði ekki aðeins til höfuðstóls skuldarinnar heldur einnig vísitölu, vaxta og kostnaðar, því ella hefði sá hluti skuldarinnar verið með öllu ótryggður. Þegar litið sé til þess hvernig ákvæði skuldabréfsins hljóði og framangreinds þyki ljóst að S hafi tekið á sig skipta hlutfallslega ábyrgð á greiðslu allrar skuldarinnar eins og hún hafi verið á hverjum tíma.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2001. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með skuldabréfi útgefnu 4. nóvember 1995 tókst Norræna skólasetrið hf., Hvalfjarðarströnd, á hendur að greiða stefnda skuld að fjárhæð 7.500.000 krónur. Lánstími skuldarinnar, sem var verðtryggð með tilgreindri lánskjaravísitölu, var tíu ár og skyldi greiða afborganir einu sinni á ári og vexti eins og þeir yrðu ákveðnir af sparisjóðnum á hverjum tíma eftir nánar tilgreindum ákvæðum í bréfinu. Segir í skuldabréfinu að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar, sem af vanskilum kunni að leiða og skuldara beri að greiða að skaðlausu, takist eftirgreindir á hendur sjálfskuldarábyrgð „pro rata“ á láninu. Í tveimur reitum fyrir ábyrgðarmenn fyrir neðan þennan texta skuldabréfsins eru síðan handrituð nöfn Hvalfjarðarstrandarhrepps, sem „ábyrgist kr. 3.000.000.-“ og áfrýjanda, sem „ábyrgist kr. 4.500.000-.“ Lánið fór í vanskil strax á fyrsta gjalddaga. Greiðsluskilmálum skuldabréfsins var breytt 6. nóvember 1996 með þeim hætti að lánið, sem þá var að höfuðstól 7.654.374 krónur, skyldi bundið tilteknu stigi neysluverðsvísitölu, vaxtaákvæði þess var breytt og það skyldi greitt með tíu afborgunum á jafn mörgum árum. Að öðru leyti héldust ákvæði skuldabréfsins óbreytt. Þegar skilmálabreytingin var gerð höfðu vextir verið greiddir af láninu en engar afborganir. Undir hana rituðu áfrýjandi og fulltrúi Hvalfjarðarstrandarhrepps. Eftir að bréfið fór í vanskil á ný var áfrýjandi ítrekað krafinn um greiðslu skuldarinnar og 20. mars 2000 greiddi hann stefnda 4.500.000 krónur. Telur hann sig hafa greitt þann hluta skuldarinnar, sem hann stóð í ábyrgð fyrir, að fullu og verði hann því ekki krafinn um frekari greiðslu. Í máli þessu krefur stefndi áfrýjanda um 60% eftirstöðva skuldabréfsins, eins og þær voru uppreiknaðar 18. nóvember 1998, að teknu tilliti til innborgunar hans. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.
II.
Ágreiningur málsaðila snýst um túlkun á ofangreindri ábyrgðaryfirlýsingu áfrýjanda. Byggir áfrýjandi á því að skýra beri hana á þann veg að hann hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð með hlutfallslegri ábyrgð, en þó að hámarki 4.500.000 krónur. Þannig geti ábyrgð hans aldrei numið hærri fjárhæð og verði stefndi að bera hallann af því hve óskýr yfirlýsingin sé. Stefndi byggir hins vegar á því að áfrýjandi hafi tekið að sér hlutfallslega ábyrgð skuldarinnar án nokkurs hámarks og taki ábyrgðin því til ofangreindrar fjárhæðar auk vísitölu, vaxta og kostnaðar.
Eins og að framan greinir kom fram í skuldabréfinu að sjálfskuldarábyrgðin á láninu væri „pro rata“ og hún tæki til greiðslu höfuðstóls, vísitölu, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar, sem af vanskilum kynni að leiða og skuldara bæri að greiða. Þær fjárhæðir, sem Hvalfjarðarstrandarhreppur og áfrýjandi tóku að sér að gangast í ábyrgð fyrir samkvæmt upphaflega skuldabréfinu, námu samanlagt 7.500.000 krónum, sem er sama fjárhæð og upphaflegur höfuðstóll þess var. Nam önnur fjárhæðin 40% höfuðstólsins, eða 3.000.000 krónum, en hin 60% hans, eða 4.500.000 krónum. Ekki er til að dreifa öðrum ábyrgðarmönnum á bréfinu og skuldin er ekki heldur tryggð með veði eða á annan hátt. Á þeim tíma, sem lánið var tekið, sat áfrýjandi í stjórn Norræna skólasetursins hf., aðalskuldara skuldabréfsins. Honum mátti vera ljóst að ábyrgð beggja ábyrgðarmannanna næði ekki aðeins til höfuðstóls skuldarinnar heldur einnig vísitölu, vaxta og kostnaðar, því ella hefði sá hluti skuldarinnar verið með öllu ótryggður. Þegar litið er til þess hvernig ákvæði skuldabréfisins um sjálfskuldarábyrgð hljóða og framangreinds þykir ljóst að áfrýjandi hafi tekið á sig skipta hlutfallslega ábyrgð á greiðslu allrar skuldarinnar eins og hún var á hverjum tíma. Verður því ekki fallist á það með áfrýjanda að hann hafi aðeins skuldbundið sig til að greiða skuldina að hámarki með 4.500.000 krónum. Með vísan til þessa verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um skyldu áfrýjanda til að greiða stefnda kröfu hans, svo og um vexti, að því gættu þó að um dráttarvexti af kröfu stefnda fer samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.
Rétt þykir að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.
D ó m s o rð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að um dráttarvexti af kröfu stefnda, Sparisjóðs Mýrasýslu, fer samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.
Áfrýjandi, Sæmundur Sigmundsson, greiði stefnda í málskostnað samtals 300.000 krónur í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 23. janúar 2001.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. janúar 2001, hefur Sparisjóður Mýrasýslu, kt. 610269-5409, Borgarbraut 14 Borgarnesi, höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 14. apríl 2000 á hendur Sæmundi Sigmundssyni, kt. 140135-2249, Kveldúlfsgötu 17 Borgarnesi.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi, Sæmundur Sigmundsson, verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 5.781.752 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. nóvember 1998 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 4.500.000.
Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 18. nóvember 1999.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða 24,5% virðisaukaskatt af þjónustu lögmanns.
Af hálfu stefnda er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu, þ. m. t. 24,5% virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
II.
Í máli þessu krefur eigandi skuldabréfs, stefnandi, ábyrgðarmann, stefnda, um 60% eftirstöðva skuldabréfsins, en uppreiknaðar eftirstöðvar skuldabréfsins voru hinn 18. nóvember 1998 kr. 9.636.000. Stefnukrafan er 60% þeirrar fjárhæðar eða kr. 5.781.752. Stefndi greiddi stefnanda hinn 20. mars 2000 kr. 4.500.000 vegna skuldabréfsins. Samkvæmt því er hin umdeilda fjárhæð í málinu mismunurinn á kr. 5.781.752 og 4.500.000 eða kr. 1.281.752, auk vaxta þeirra og kostnaðar sem greinir í dómkröfu stefnanda.
Upphaflegur höfuðstóll umrædds skuldabréfs var kr. 7.500.000. Við útgáfu þess hinn 4. nóvember 1995 áritaði stefndi Sæmundur bréfið um að hann ábyrgðist kr. 4.500.000. Af hálfu Hvalfjarðarstrandarhrepps var bréfið með sama hætti áritað um að hreppurinn ábyrgðist kr. 3.000.000. Sýknukrafa stefnda er á því byggð að hann hafi að fullu greitt þá fjárhæð sem hann ábyrgðist.
III.
Nánar tilgreint eru málavextir þeir, að með skuldabréfi útgefnu 4. nóvember 1995 viðurkenndi Norræna skólasetrið hf. Hvalfjarðarströnd, kt. 590593-3899, að skulda stefnanda, Sparisjóði Mýrasýslu, kr. 7.500.000. Skuldabréfið var bundið lánskjaravísitölu með grunnvísitölu 174,9 stig og skyldi greiða af láninu kjörvexti, eins og þeir væru ákveðnir af Sparisjóðnum á hverjum tíma, upphaflega 6,15%, auk vaxtaálags 3,75% eða samtals 9,90%. Skuldabréfið átti að greiðast á tíu árum með tíu afborgunum, einni á ári, í fyrsta skipti 9. nóvember 1996.
Með skilmálabreytingu 6. nóvember 1996 var skilmálum breytt þannig að lánið skyldi greitt með tíu afborgunum á jafn mörgum árum og næsti gjalddagi skyldi vera 9. nóvember 1997. Þegar skilmálabreytingin var gerð höfðu aðeins verið greiddir vextir af láninu.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum kynni að leiða og skuldara ber að greiða að skaðlausu, tóku stefndi og Hvalfjarðarstrandarhreppur á sig “sjálfskuldarábyrgð pro rata”, eins og segir í bréfinu, með svofelldum áritunum:
“Hvalfjarðarstrandarhreppur kennitala 630269-6449 ábyrgist kr. 3.000.000,00
Sæmundur Sigmundsson kennitala 140135-2249 ábyrgist kr. 4.500.000,00."
Nafni útgefanda skuldabréfsins, Norræna skólasetursins hf, var síðar breytt í Heima hf. Bú Heima hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands, uppkveðnum 31. ágúst 1999. Við skiptin segir stefnandi hafa komið í ljós að félagið eigi ekkert nema yfirveðsettar eignir og sé því ljóst að ekkert komi upp í umrædda skuld við gjaldþrotaskiptin.
Þegar lögmaður stefnanda ritaði innheimtubréf 18. nóvember 1998 voru eftirstöðvar skuldabréfsins kr. 9.636.254. Stefnufjárhæð máls þessa er 60% af þeirri fjárhæð, eða sama hlutfall og stefnandi telur stefnda hafa gengið í sjálfskuldarábyrgð fyrir af upphaflegri skuld, höfuðstól, samkvæmt veðskuldabréfinu.
Þótt skuldabréfið væri sett í innheimtu og kröfubréf ritað í nóvember 1998 var stefnda ekki birt greiðsluáskorun vegna skuldarinnar fyrr en 6. apríl 1999. Með bréfi, dags. 17. desember 1999, tilkynnti lögmaður stefnda, Kristinn Bjarnason hrl., að stefndi liti svo á að hann væri í ábyrgð fyrir kr. 4.500.000 að hámarki, og gæti sú fjárhæð verið samtala höfuðstóls, vísitölu, vaxta og kostnaðar. Í samræmi við þennan skilning stefnda greiddi hann stefnanda kr. 4.500.000 hinn 20. mars 2000.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á því að stefndi hafi tekist á hendur ábyrgð á greiðslu hluta höfuðstóls samkvæmt umræddu skuldabréfi auk vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum kynni að leiða og skuldara bæri að greiða stefnanda að skaðlausu. Ábyrgð stefnda á vanskilakostnaði sé sama hlutfall og ábyrgð hans á hluta af höfuðstól skuldarinnar.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til texta skuldabréfsins en þar segir orðrétt: "Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum kann að leiða og skuldara ber að greiða að skaðlausu, takast eftirtaldir hér með á hendur sjálfskuldarábyrgð pro rata á láni þessu:
Hvalfjarðarstrandarhreppur 630269-6449 ábyrgist kr. 3.000.000,-
Sæmundur Sigmundsson 140135-2249 ábyrgist kr. 4.500.000,-."
Stefnandi telur að með engu móti sé hægt að leggja annan skilning í þetta orðalag en þann, að auk ábyrgðar á hluta höfuðstóls, kr. 4.500.000, hafi stefndi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á hluta vanskilakostnaðar, eða í sama hlutfalli og sjálfskuldarábyrgð hans á greiðslu höfuðstóls skuldarinnar kveður á um.
Það hafi verið alger forsenda stefnanda fyrir umræddri lánveitingu að stefndi og Hvalfjarðarstrandarhreppur tækju á sig ábyrgð á öllu láninu eins og það stæði þegar á ábyrgð þeirra reyndi, hvort sem skuldin væri mynduð af eftirstöðum höfuðstóls, vísitöluálagi, vöxtum, dráttarvöxtum eða kostnaði af vanskilum. Vanskilakostnað hafi að sjálfsögðu ekki verið hægt að tilgreina með ákveðinni fárhæð á skuldabréfinu, enda ástæðulaust með hliðsjón af hefðbundnu ákvæði skuldabréfsins um ábyrgð sjálfskuldarábyrgðaraðila á greiðslu vanskilakostnaðar auk höfuðstóls kæmi til vanskila. Annar skilningur en stefnanda fái ekki staðist miðað við afdráttarlaust orðalag skuldabréfsins um ábyrgð sjálfskuldarábyrgðar-aðilanna.
Stefnandi kveðst reka málið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ákvæði þar að lútandi séu í umræddu skuldabréfi. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, kveðst stefnandi byggja á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, kröfu um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988, en þar sé lögmönnum gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefndi til áður tilvitnaðs ákvæðis skuldabréfsins, og þó einkum til orðanna: “Sæmundur Sigmundsson 140135-2249 ábyrgist kr. 4.500.000,-"
Svo sem skuldabréfið beri með sér hafi stefndi sjálfur handritað þessa tilvitnuðu yfirlýsingu í skuldabréfið. Af hálfu stefnda er talið að ábyrgðaryfirlýsingu þessa, og samsvarandi yfirlýsingu Hvalfjarðarstrandarhrepps um að hann ábyrgist kr. 3.000.000, sé unnt að túlka á tvo vegu. Annars vegar að hvor ábyrgðarmanna hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á þeirri fjárhæð sem tilgreind er að höfuðstól og að ábyrgð næði að auki til vísitölu, vaxta og kostnaðar. Hinn skýringarkosturinn sé sá, að hvor ábyrgðarmanna hafi tekið á sig ábyrgð að hámarki þá fjárhæð sem tilgreind er við hvorn þeirra, þannig að ábyrgð stefnda geti að hámarki verið kr. 4.500.000 og gæti sú fjárhæð eftir atvikum verið samtala höfuðstóls, vísitölu, vaxta og kostnaðar.
Stefndi heldur því fram, að eins og áritunum á skuldabréfið sé háttað eigi síðari skýringarkosturinn við, enda verði stefnandi að bera hallann af óskýrleika yfirlýsingarinnar að þessu leyti. Mótmælt er fullyrðingum stefnanda um að orðalag ábyrgðar stefnda sé afdráttarlaust á þann veg sem kröfugerð stefnanda byggir á. Þvert á móti hafi stefndi áritað skuldabréfið um þá fjárhæð sem hann tókst á hendur ábyrgð á, því sé ljóst sé að ábyrgð hans geti ekki numið hærri fjárhæð.
Stefndi bendir á að stefnandi er fjármálafyrirtæki sem hefur atvinnu af lánveitingum og skjalafrágangi í tengslum við þær. Að því athuguðu telur stefndi ljóst, að stefnandi verði að bera hallann af óskýrleika ábyrgðaryfirlýsingarinnar hvað þetta varðar, enda hefði honum verið í lófa lagið að útbúa skuldabréfið þannig að skýrlega kæmi fram að ábyrgð stefnda næði til vísitöluálags, vaxta og kostnaðar auk höfuðstóls að fjárhæð kr. 4.500.000.
Engu breyti hér um, hvort það hafi verið forsenda stefnanda fyrir lánveitingunni að ábyrgðin væri með þeim hætti sem hann heldur fram, enda stefnda ekki kunn sú forsenda þegar hann gekkst í hina umdeildu ábyrgð.
Stefndi heldur því ákveðið fram, að það hafi verið forsenda hans fyrir því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgðina, að hún gæti aldrei orðið hærri en kr. 4.500.000. Ábyrgð stefnda á skuld samkvæmt tilgreindu skuldabréfi geti því ekki numið hærri en kr. 4.500.000.
Með greiðslu þeirri sem stefndi innti af hendi þann 20. mars 2000 til lögmanns stefnanda, hafi sú fjárhæð verið greidd að fullu og því beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.
[Af hálfu stefnda er sérstaklega á það bent, að með því að mál þetta sé rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991, verði skuldabréf það sem er grundvöllur slíkrar málsóknar að vera þess efnis að ekki þurfi frekari sönnunarfærslu fyrir dómi af hálfu kröfuhafa til þess að sanna efni þess og mótmælti stefndi því skýrslutökum í málinu.]
V.
Sigfús Sumarliðason, kt. 241032-4699, sem var sparisjóðsstjóri þegar stefnandi keypti umrætt bréf, gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann sagði að það hefði verið andstætt reglum sparisjóðsins að kaupa svona bréf ef ábyrgð ábyrgðarmanna hefði aðeins átt að ná til höfuðstóls, þ. e. ef ábyrgðarmennirnir hefðu samanlagt ábyrgst aðeins nafnverð höfuðstólsins, það hefði aldrei komið til greina. Hann kannaðist ekki við að það hefði verið rætt að stefndi Sæmundur ábyrgðist að hámarki kr. 4.500.000. Hann kvað þann prentaða texta skuldabréfsins sem áður er vitnað til: “Til tryggingar skaðlausri greiðslu höfuðstóls, vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta...” og svo framvegis, vera hefðbundinn í bréfum með sjálfskuldarábyrgð sem sparisjóðurinn kaupir, hvort sem ábyrgðin væri in solidum eða pro rata.
Gísli Kjartansson, kt. 020644-2499, sem tók við starfi sparisjóðsstjóra í apríl 1999, en var lögmaður sparisjóðsins þegar umrætt bréf var keypt, kvaðst ekki minnast þess að hafa neitt komið að gerð þess eða kaupum á því. Hann lýsti starfsreglum Sparisjóðsins með sama hætti og fyrrverandi sparisjóðsstjóri.
Álit dómsins.
Höfuðstólsfjárhæð hins umdeilda skuldabréfs var kr. 7.500.000. Hvalfjarðarstrandar-hreppur lýsti því yfir að hann ábyrgðist kr. 3.000.000 en stefndi Sæmundur að hann ábyrgðist kr. 4.500.000. Samanlagt 7.500.000, eða höfuðstólsfjárhæðin, sem styður það eindregið að ábyrgðarmennirnir hafi tekið ábyrgð á greiðslu lánsins alls, hlutfallslega hvor um sig.
Í hinum prentaða texta skuldabréfsins, í málsgreininni næst ofan við reit þann þar sem ábyrgðarmennirnir skráðu þennan tilvitnaða handritaða hluta ábyrgðaryfirlýsinga sinna, er finna hið hefðbundna ákvæði skuldabréfa um að ábyrgðin taki til greiðslu höfuðstóls, vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum kann að leiða og skuldara ber að greiða að skaðlausu. Hinu hefðbundna ákvæði er að því einu leyti breytt að strikað er yfir orðin “in solidum” og handskrifuð orðin “pro rata”, sem er latína og þýðir að hluta, og merkir í þessu samhengi skipt ábyrgð, þ.e. ábyrgð þar sem ábyrgðarmennirnir ábyrgjast hver eða hvor um sig aðeins hluta af skuldinni.
Hinn tilvitnaði prentaði hefðbundni texti skuldabréfsins, sem ekki er strikað yfir, er í samræmi við þá almennu réttarreglu, sem byggist á viðskipta- og dómvenju, að gangi maður í ábyrgð fyrir skuld sem nemur tilgreindri fjárhæð, nái ábyrgðin einnig til áfallinna umsaminna eða lögmæltra vaxta og kostnaðar, nema annað sé ótvírætt fram tekið.
Að þessu athuguðu verður ekki á það fallist með stefnda, að hann hafi með orðunum “ábyrgist kr. 4.500.000” takmarkað ábyrgð sína þannig að hún gæti aldrei numið hærri fjárhæð en kr. 4.500.000 enda þótt krafan samkvæmt skuldabréfinu hækkaði frá upphaflegu nafnverði þess, höfuðstól, vegna áfallinna vaxta og kostnaðar. Þvert á móti verða úrslit máls þessa þau, að ábyrgð stefnda telst vera hlutfallsleg og ná til áfallinna vaxta og kostnaðar, sem stefnandi hefur leyst til sín. Upphafsdagur umkrafinna dráttarvaxta hefur ekki sætt mótmælum.
Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.281.752 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. nóvember 1998 til greiðsludags. Dráttarvexti má leggja við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 18. nóvember 1999.
Málskostnaður ákveðst kr. 275.000 að meðtöldum virðisaukaskatti af málflutnings-þóknun.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sæmundur Sigmundsson, greiði stefnanda, Sparisjóði Mýrasýslu, kr. 1.281.752 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. nóvember 1998 til greiðsludags. Dráttarvexti má leggja við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 18. nóvember 1999.
Stefndi greiði stefnanda kr. 275.000 í málskostnað, virðisaukaskattur af málflutnings-þóknun meðtalinn.