Hæstiréttur íslands

Mál nr. 8/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 7. janúar 2014.

Nr. 8/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. janúar 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Verði fallist á kröfu um gæsluvarðhald krefst varnaraðili þess að sér verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi og skilyrðum 2. mgr. 98. gr. sömu laga um einangrun meðan á því stendur. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. janúar 2014 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar stórfellda líkamsárás á veitinga- og skemmtistaðnum [...] við [...] hér í borg sem hafi átt sér stað að kvöldi laugardagsins 4. janúar.

Upphaf málsins megi rekja til þess að A, brotaþoli, hafi verið færður á slysadeild Landsspítala – háskólasjúkrahús í Fossvogi (LSH) um kvöldmatarleytið þann 4. janúar og þá með stungusár á vinstri síðu. Á sama tíma hafi borist neyðarboð frá starfsmönnum slysadeildarinnar vegna 4 manna sem mættir hafi verið þangað og að hugsanlega væri einn þeirra vopnaður hnífi.

Við slysadeildina hafi lögregla séð þá B, C og D og höfðu fengið að vita frá starfsmönnum slysadeildar að hringt hafði verið í lögreglu m.a. vegna þeirra. Hafi þeir allir sagt að X, kærði, hefði verið sá sem væri vopnaður hnífi og að hann hefði hlaupið á brott. Hafi þeir bent á hvert hann hefði farið og hafi lögregla handtekið hann skömmu síðar. Hafi þeir jafnframt verið handteknir vegna rannsóknar málsins.

Í skýrslum lögreglu vegna málsins komi fram að starfsfólki og gestum [...], sem hafi hist þar fyrir í kjölfar atburða, beri saman um að kærði og brotaþoli hafi verið að slást og í kjölfar þess hafi brotaþoli hlotið sár á síðuna sem blætt hafi úr.

Í framburðarskýrslum af þeim B og C hafi komið fram að komið hafi til átaka á milli kærða og brotaþola vegna ásakana brotaþola í garð kærða um þjófnað á bifreið. Framburður þeirra svo og annarra vitna séu misvísandi um upphaf átakana en C sagðist hafa séð kærða með hníf í hendi. Þá hafi bæði hann og B sagt að brotaþoli hafi sagt þeim á vettvangi að kærði hafi stungið hann. Þeir jafnframt lýsi viðskiptum sínum við kærða á slysadeildinni, rétt áður en þeir hafi verið handteknir, með sambærilegum hætti, að X hafi komið þangað og verið með ögranir og látið C hafa hníf og skorað á hann að stinga sig. Sá framburður þeirra fái stoð í frásögn starfsmanna slysadeildar sem lögregla hafi rætt við á vettvangi. Þegar C hafi ekki viljað verða við því þá hafi kærði haft sig á brott og hafi sjálfur verið handtekinn skömmu síðar.

Við slysadeildina hafi lögregla jafnframt rætt við systur brotaþola sem sagðist hafa það eftir honum að kærði hafi stungið hann.

Hnífur sem talinn sé tengjast málinu hafi fundist í ruslafötu við slysadeildina og samsvari hann þeim hníf sem kærði á að hafa látið C fá á slysadeildinni með þeim ögrunum um að stinga hann.

Eins og að framan greinir sé X undir rökstuddum grun um að hafa framið alvarlega líkamsárás í kjölfar átaka við brotaþola. Samkvæmt læknisvottorði brotaþola hafi hann hlotið lífshættulega áverka vegna stungu sem hafi náð inn að milta þannig að hann hafi hlotið blæðingar í kviðarhol og hafi mistt töluvert blóð.

Í framburði kærða komi fram að hann hafi lent í átökum við brotaþola og C sem þeir síðarnefndu áttu upptökin að. Sagði hann jafnframt að C hefði ógnað sér með hnífi en um slíkt hefur enginn annar borið í málinu.

Kærði eigi að baki nokkurn feril hjá lögreglu og sé hann eftirlýstur vegna máls héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-[...]/2013 vegna þjófnaðar. Þá eigi hann jafnframt 3 öðrum málum ólokið hjá lögreglu sem varði umferðarlaga- og fíkniefnabrot.

Rannsókn málsins sé nú á frumstigi og því augljóslega ríkir rannsóknarhagsmunir í húfi sem lögregla telji nauðsynlegt að vernda á þessu stigi þar sem enn eigi eftir að taka framburðarskýrsur af nokkrum vitnum svo og af brotaþola sem ekki hafi reynst unnt þar sem hann liggi á gjörgæsludeild LSH. Þá sé tæknirannsókn ólokið vegna málsins og eftir atvikum ítarlegri skýrslutaka af kærða og þeim vitnum sem þegar hafi verið rætt við.

Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins svo sem með því að afmá merki eftir brot eða hafa áhrif á vitni sem lögregla eigi eftir að ræða við. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að rannsaka málið án hættu á að kærði getið spillt rannsókn þess.

Til rannsóknar séu ætluð brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. En við brotinu liggi allt að 16 ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða:

                Af rannsóknargögnum máls þessa má sjá að rannsókn er á frumstigi og margt enn óljóst um atburðarás. Á hinn bóginn verður að telja með vísan til þess framburðar vitna sem lýst er í rannsóknargögnum, þar á meðal starfsmanns veitingastaðarins þar sem átök áttu sér stað, að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa veitt öðrum manni stunguáverka, sem samkvæmt læknisvottorði var lífshættulegur. Er kærði því undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem kann að verða heimfært til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 og getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Eins og fyrr segir þá er rannsókn á frumstigi og er fallist á með lögreglustjóra að ætla megi að kærði gæti reynt að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að afmá verksummerki brots eða hafa áhrif á vitni. Standa því rannsóknarhagsmunir til að fallast á beiðni lögreglustjóra. Með vísan til framangreinds eru að mati dómsins uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að fallast á kröfu lögreglustjóra. Ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en lögreglustjóri krefst. Fallist er á að rannsóknarhagsmunir standi til þess sé að kærði sé hafður í einangrun á meðan gæsluvarðahaldi stendur og verður krafa lögreglustjóra þess efni því einnig tekin til greina.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. janúar 2014 kl. 16:00. Þá skal kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.