Hæstiréttur íslands

Mál nr. 478/2017

Kaupþing ehf. (Hlynur Halldórsson lögmaður)
gegn
Stapa lífeyrissjóði (Einar Páll Tamimi lögmaður)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Skuldajöfnuður
  • Afleiðusamningur
  • Tilkynning
  • Slit
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Kröfulýsing

Reifun

S höfðaði mál á hendur K ehf. og krafðist þess aðallega að viðurkenndur yrði réttur hans til að skuldajafna kröfu sem hann hafði lýst við slit K ehf. á móti kröfu K ehf. á hendur S samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2014. Deildu aðilar um hvort bréf slitastjórnar K ehf. um að hafna kröfunni hefði borist S, sbr. 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Talið var að K ehf. hefði nægilega sýnt fram á, meðal annars með staðfestingu á afhendingu bréfs til S, að S hefði verið upplýstur um þá afstöðu slitastjórnarinnar að hafna kröfunni. Ágreiningslaust var að S andmælti ekki afstöðu slitastjórnarinnar í samræmi við 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Hefði höfnun á kröfu S því verið endanleg, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar, enda ætti undantekningarákvæði 3. töluliðar 118. gr. laganna ekki við í málinu. Var K ehf. því sýknaður af aðalkröfu S. Til vara krafðist S að viðurkenndur yrði réttur hans til að skuldajafna tveimur kröfum sem samþykktar höfðu verið við slit K ehf. á móti kröfu K ehf. samkvæmt fyrrnefndum dómi. Var varakrafan einvörðungu reist á því að kröfurnar hefðu verið samrættar. Talið var að þótt ástæða hefði verið til hefði S ekki stutt kröfuna frekari rökum, eins og hvernig hún horfði við ákvæðum 1. mgr. 100. gr., sbr. 5. tölulið 1. mgr. 28. gr. og 2. mgr. 149. gr. laga nr. 21/1991. Af þeim sökum væri krafan svo vanreifuð að vísa bæri henni frá héraðsdómi án kröfu, sbr. d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2017. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara „að viðurkenndur verði með dómi skuldajöfnuður kröfu áfrýjanda samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2014, að frátalinni kröfu vegna málskostnaðar, og kröfu stefnda á hendur áfrýjanda, samþykktri af slitastjórn áfrýjanda, á grundvelli skuldabréfa útgefnum af forvera áfrýjanda 5. mars 2004, ISIN nr. XS0187935472, upphaflega að höfuðstól 100.000.000 krónur og 8. mars 2004, með ISIN nr. XS0187935126, upphaflega að höfuðstól 120.000.000 krónur, þann 26. febrúar 2015.“ Í því tilviki krefst stefndi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi lýsti stefndi kröfu við slit áfrýjanda 25. ágúst 2009 á grundvelli skuldabréfs sem gefið var út 10. nóvember 2003 að fjárhæð 40.000.000 krónur. Í málinu liggur fyrir bréf slitastjórnar áfrýjanda 23. júní 2010 til stefnda þar sem fram kom að honum væri, með vísan til 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., tilkynnt að kröfunni væri hafnað að svo stöddu þar eð ekki hefði reynst mögulegt að staðreyna eignarhald á skuldabréfinu, meðal annars vegna þess að „blocking númer“ hefði ekki verið tilgreint í kröfulýsingunni. Sagði þar einnig að kröfuhafafundur yrði haldinn 21. september 2010 þar sem fjallað yrði um skrá yfir lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnarinnar að því leyti sem hún lægi fyrir og að uppfærð kröfuskrá yrði aðgengileg þeim, sem lýst hefðu kröfum á hendur áfrýjanda, á vefsvæði hans 14. sama mánaðar. Var jafnframt minnt á rétt kröfuhafa til að koma að mótmælum sínum, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, og tekið fram að nauðsynlegt væri að koma að slíkum mótmælum eigi síðar en á áðurgreindum fundi. Í niðurlagi bréfsins sagði að yrði afstöðu slitastjórnarinnar ekki mótmælt í síðasta lagi á fundinum mætti vænta að hún yrði talin endanlega samþykkt samkvæmt 3. mgr. 120. gr. sömu laga. Óumdeilt er að stefndi mótmælti ekki afstöðu slitastjórnarinnar innan frestsins.

Með dómi Hæstaréttar 26. febrúar 2015 í máli nr. 378/2014 var stefnda gert að greiða áfrýjanda 26.302.546 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum vegna gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamnings sem gerður var á árinu 2005. Hinn 31. mars 2015 lýsti stefndi yfir skuldajöfnuði þeirrar kröfu sem mál þetta fjallar um á móti kröfu áfrýjanda samkvæmt dóminum. Hafnaði áfrýjandi skuldajöfnuði með bréfi 23. september 2015 á þeim grundvelli að afstöðu slitastjórnarinnar til fyrrgreindu kröfunnar hefði ekki verið mótmælt innan tilskilins frests. Væri sú afstaða að hafna kröfunni því endanleg og hún af þeim sökum ekki tæk til skuldajafnaðar.

Slitameðferð stefnda, með frestdegi 15. nóvember 2008, var lokið með nauðasamningi 23. desember 2015 og átti stefndi samkvæmt honum kröfu á hendur áfrýjanda að fjárhæð 125.508.210 krónur. Með bréfi til stefnda 14. janúar 2016 lýsti áfrýjandi yfir skuldajöfnuði kröfu sinnar samkvæmt áðurnefndum dómi við kröfu stefnda samkvæmt nauðasamningnum. Stefndi mótmælti skuldajöfnuði með bréfi 21. sama mánaðar og vísaði til þess að krafan hefði þegar verið greidd með skuldajöfnuði samkvæmt yfirlýsingunni 31. mars 2015. Því svaraði áfrýjandi með bréfi 17. febrúar 2016 þar sem hann vísaði til fyrrgreindrar yfirlýsingar sinnar um skuldajöfnuð. Mál þetta var síðan höfðað af stefnda 8. apríl sama ár.

II

Aðilar deila um hvort bréf slitastjórnar áfrýjanda 23. júní 2010 um afstöðu hennar til kröfu stefnda hafi borist honum. Samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 bar slitastjórn að tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa með minnst viku fyrirvara áður en kröfuhafafundur var haldinn til að fjalla um skrá um lýstar kröfur ef ekki var fallist á að viðurkenna kröfuna að öllu leyti eins og henni var lýst. Tilkynningu þessa bar að senda með sannanlegum hætti og því ber áfrýjandi sönnunarbyrði fyrir að hún hafi borist stefnda.

Fyrir liggur staðfesting um afhendingu á bréfi frá Íslandspósti ohf. þar sem fram kom að áfrýjandi afhenti á póstmiðstöð 30. júní 2010 sendingu, sem berast átti til Akureyrar, og að hún hafi verið afhent degi síðar. Ekki sagði hver væri viðtakandi sendingarinnar en á staðfestingunni var sendingarnúmer. Á svokölluðum sendingarlista slitastjórnar áfrýjanda, sem er á meðal gagna málsins, er að finna lista yfir sendingar hennar á tímabilinu 29. júní til 30. júní 2010 auk viðtökunúmera. Kom þar fyrir sama númer og var á áðurnefndri staðfestingu. Þar fyrir aftan var viðtakandi tilgreindur „Lögmannsstofan ... b.t. Árni Pálsson“ en hann hafði sem lögmaður stefnda lýst umræddri kröfu. Samkvæmt þessu barst lögmanni stefnda sending frá áfrýjanda rúmri viku eftir dagsetningu bréfsins. Í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti heldur stefndi því fram að sendingin hafi borist. Hún hafi þó einungis haft að geyma tilkynningar um afstöðu slitastjórnarinnar til fimm annarra krafna sem hann lýsti einnig við slitin en enga tilkynningu um þá kröfu sem mál þetta lýtur að. Kröfuskrá var birt á vefsvæði slitastjórnar 14. september 2010 og var aðgengileg stefnda þar frá þeim tíma. Stefndi sótti ekki kröfuhafafund sem haldinn var 21. sama mánaðar. Hinn 3. desember 2010 hélt slitastjórn áfrýjanda annan kröfuhafafund en á þeim fundi var mætt af hálfu stefnda og lögð fram skrifleg mótmæli við afstöðu slitastjórnar til fimm krafna hans. Var á þeim fundi birt uppfærð kröfuskrá þar sem tilgreind var afstaða slitastjórnarinnar til þeirra krafna. Auk þess kom þar fram sú afstaða að hafna þeirri kröfu, sem mál þetta fjallar um, svo sem verið hafði jafnframt á kröfuskránni sem lá fyrir fyrri kröfuhafafundinum. Á fundinum 3. desember gafst stefnda því sérstakt færi á að kynna sér hvort afstaða til kröfunnar lægi fyrir og eftir atvikum mótmæla henni á þeim grundvelli að tilkynning um afstöðu til hennar hefði ekki borist sér og þannig ekki verið gætt fyrirmæla 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi fyrst í stefnu í máli þessu, þegar liðið var hátt á sjötta ár frá því að kröfuhafafundurinn 21. september 2010 var haldinn, borið því við að bréfið um afstöðu slitastjórnarinnar hafi ekki borist sér. Að þessu öllu virtu verður talið að áfrýjandi hafi sýnt nægilega fram á að stefndi hafi verið upplýstur um þá afstöðu slitastjórnarinnar að hafna kröfunni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. febrúar 2011 í máli nr. 387/2010.

Ágreiningslaust er að stefndi andmælti ekki afstöðu slitastjórnar í samræmi við 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Höfnun kröfu stefnda var því endanleg, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar, enda á undantekningarákvæði 3. töluliðar 118. gr. laganna ekki við í máli þessu, sbr. dóma réttarins 25. ágúst 2014 í máli nr. 462/2014 og 29. apríl 2016 í máli nr. 225/2016. Verður áfrýjandi því sýknaður af aðalkröfu stefnda.

Varakrafa stefnda um að honum hafi verið heimilt að skuldajafna kröfu sinni samkvæmt skuldabréfunum, sem gefin voru út 5. og 8. mars 2004, á móti kröfu áfrýjanda á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 378/2014 er einvörðungu reist á því að kröfurnar hafi verið samrættar. Þótt ástæða væri til hefur stefndi ekki stutt varakröfu sína frekari rökum, eins og hvernig hún horfir við ákvæðum 1. mgr. 100. gr., sbr. 5. tölulið 1. mgr. 28. gr. og 2. mgr. 149. gr. laga nr. 21/1991. Af þeim sökum telst krafan svo vanreifuð að vísa ber henni frá héraðsdómi án kröfu, sbr. d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Kaupþing ehf., er sýkn af aðalkröfu stefnda, Stapa lífeyrissjóðs.

Varakröfu stefnda er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 12. maí 2017

Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 8. apríl 2016, var dómtekið 5. apríl 2017. Stefnandi er Stapi lífeyrissjóður, Strandgötu 3 á Akureyri og stefndi er Kaupþing ehf., Borgartúni 26 í Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkenndur verði með dómi réttur hans til að skuldajafna við kröfu stefnda á hendur sér, samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2014, að frátalinni kröfu vegna málskostnaðar, kröfu sinni á hendur stefnda á grundvelli skuldabréfs útgefnu af forvera stefnda 10. nóvember 2003, með ISIN-nr. XS0180247131, upphaflega að höfuðstól 40.000.000 króna, svo sem slíkum skuldajöfnuði var lýst yfir með bréfum 31. mars 2015 og 6. maí 2015.

                Til vara krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði með dómi skuldajöfnuður við kröfu stefnda, samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2014, að frátalinni kröfu vegna málskostnaðar, á móti kröfu stefnanda á hendur stefnda, samþykktri af slitastjórn stefnda, á grundvelli skuldabréfa útgefnum af forvera stefnda 5. mars 2004, með ISIN-nr. XS0187935472, upphaflega að höfuðstól 100.000.000 króna og 8. mars 2004, með ISIN-nr. XS0187935126, upphaflega að höfuðstól 120.000.000 króna, þann 26. febrúar 2015.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk greiðslu málskostnaðar úr hendi hans.

I.

                Þann 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í forvera stefnda, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Stefnda var veitt heimild til greiðslustöðvunar. Með heimild í lögum nr. 44/2009 var stefndi síðan tekinn til slitameðferðar og miðast upphaf hennar við 22. apríl 2009, þegar lögin öðluðust gildi. Slitastjórn stefnda gaf út innköllun til skuldheimtumanna og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember 2009. Samkvæmt 102. gr. laga nr. 161/2002 giltu reglur laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um meðferð krafna við slitin, sbr. 2. tl. ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 44/2009.

                Stefnandi lýsti kröfu í þrotabúið á grundvelli skuldabréfs með ISIN-númerinu XS0180247131, upphaflega með höfuðstól að fjárhæð 40.000.000 króna, með bréfi 25. ágúst 2009. Á meðal gagna málsins er bréf 23. júní 2010 til stefnanda um afstöðu slitastjórnar stefnda til kröfunnar. Í bréfinu er gerð grein fyrir því, með vísan til 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, að slitastjórnin hafni kröfunni að svo stöddu þar sem ekki hafi reynst mögulegt að staðreyna eignarhald á skuldabréfinu, m.a. þar sem vanti svokallað „blocking númer“ skuldabréfsins, sem sanni eignarréttindi stefnanda yfir því. Jafnframt var í bréfinu tilkynnt að kröfuhafafundur yrði haldinn þriðjudaginn 21. september 2010, á nánar tiltekinni stund og stað, þar sem fjallað yrði um skrá yfir lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar til krafna að því leyti sem afstaða lægi fyrir. Í bréfinu minnti slitastjórn á rétt kröfuhafa til að koma að mótmælum við afstöðu slitastjórnar til lýstra krafna með vísan til 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Þá var í bréfinu vakin athygli á að ef stefnandi teldi ástæðu til að mótmæla afstöðu slitastjórnar til kröfunnar, sem væri til umfjöllunar á fundinum 21. september 2010, væri nauðsynlegt að koma slíkum mótmælum til slitastjórnar eigi síðar en á þeim fundi. Ella mætti stefnandi vænta þess að afstaða til kröfunnar yrði þar endanlega samþykkt samkvæmt 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.

                Í málinu er óumdeilt að stefnandi lagði ekki fram mótmæli við afstöðu slitastjórnar. Stefnandi kveður að sér hafi ekki borist bréf slitastjórnar 23. júní 2010. Stefndi kveður það útilokað og vísar til staðfestingar dreifingaraðila, sem er á meðal gagna málsins, um að bréf slitastjórnar hafi verið sent á lögmannsstofu sem lýsti framangreindri kröfu fyrir stefnanda við slitameðferð stefnda.

                Stefnandi og stefndi áttu í deilum vegna viðskipta með gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamning sem gerður var á árinu 2005, á milli forvera beggja aðila. Var mál vegna þess ágreinings þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 17. janúar 2013 og lauk því með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 378/2014 kveðnum upp 26. febrúar 2015. Var stefnandi með dóminum dæmdur til að greiða stefnda 26.302.546 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 291.634 krónum frá 28. júlí 2012 til 28. september 2012 en af 26.302.546 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi hlutaðist til um að innheimta kröfu samkvæmt dóminum með bréfi 2. mars 2015.

                Með bréfi 31. mars 2015 lýsti stefnandi yfir skuldajöfnuði við kröfu stefnda, samkvæmt framangreindum dómi Hæstaréttar, á móti kröfu samkvæmt skuldabréfi nr. XS0180247131. Stefndi hafnaði skuldajöfnuðinum með bréfi þann 23. september 2015 og vísaði til þess að kröfunni hefði verið endanlega hafnað með framangreindri ákvörðun slitastjórnar stefnda frá 23. júní 2010 í skilningi 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.

                Nauðasamningur stefnda var staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. desember 2015, sbr. 154. gr. laga nr. 21/1991 og varð endanlega bindandi þann 23. desember 2015. Slitameðferð stefnda lauk á sama tíma samkvæmt ákvæðum XXI. kafla laganna. Við slitameðferð stefnda námu samþykktar kröfur stefnanda samtals 418.360.905 krónum. Nauðasamningurinn kvað á um að stefndi fengi 125.508.210 krónur greiddar af framangreindri kröfu, sem skiptist annars vegar í peningagreiðslu að fjárhæð 37.740.390 krónur og hins vegar í afhendingu á skuldabréfi og nýju hlutafé í stefnda að nafnverði 87.767.820 krónur.

                Með bréfi 14. janúar 2016 lýsti stefndi yfir skuldajöfnuði á móti hluta krafna stefnanda á hendur stefnda samkvæmt framangreindum nauðasamningi með kröfu sinni, samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2014, sem á þeim degi nam 39.277.206 krónum. Stefndi lítur svo á að krafa um peningagreiðslu til stefnanda samkvæmt nauðasamningi hafi verið að fullu greidd af hálfu stefnda með framangreindri skuldajafnaðaryfirlýsingu og jafnframt að eftirstöðvar af kröfu stefnda hafi gengið til lækkunar á öðrum kröfum hans samkvæmt nauðsamningnum. Eftir framangreindan skuldajöfnuð telur stefndi að stefnandi eigi rétt til afhendingar á skuldabréfi og nýju hlutafé í stefnda að nafnverði 86.231.004 krónur í samræmi við skilmála nauðasamnings stefnda og með þeirri greiðslu hafi stefndi að fullu staðið skil á kröfu stefnanda samkvæmt nauðsamningnum.

                Stefnandi mótmælti skuldajöfnun stefnda með bréfi 21. janúar 2016. Því bréfi svaraði stefndi með bréfi 17. febrúar 2016 og vísaði til yfirlýsingar um skuldajöfnun í bréfi þann 14. janúar 2016.

                Ágreiningur aðila lýtur að gildi framangreindra yfirlýsinga beggja aðila um skuldajöfnuð á móti kröfum gagnaðila.

II.

                Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að samkvæmt fyrirmælum í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 sé honum heimill sá skuldajöfnuður sem hann lýsti yfir þann 31. mars 2015. Hann hafi eignast kröfu sína á grundvelli skuldabréfsins á hendur stefnda áður en þrír mánuðir hafi verið til frestdags, eða árið 2003. Þá hafi hann hvorki vitað né mátt vita að stefndi myndi ekki eiga fyrir skuldum mörgum árum síðar, svo sem hafi orðið raunin. Þá hafi krafa þrotabúsins orðið til fyrir frestdag, nánar tiltekið með samningi sem gerður var í október 2005, sem Hæstaréttarmálið nr. 378/2014 fjalli um. Stefnandi byggir einnig á því að vanlýsingaráhrif 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við um þá skuldabréfakröfu sem hann hafi notað til skuldajafnaðar. Stefnanda hafi aldrei verið tilkynnt um þá afstöðu slitastjórnar stefnda að hafna skuldabréfakröfunni, svo sem skylt hafi verið samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Stefnda hafi borið að senda stefnanda slíka tilkynningu með sannanlegum hætti og tilgreina þar hvaða afleiðingar það gæti haft ef afstöðu slitastjórnar stefnda yrði ekki mótmælt á skiptafundi sem færi ekki fram fyrr en einni viku síðar. Stefndi bæri sönnunarbyrðina fyrir því að slík tilkynning hafi verið send stefnanda, ella gæti afstaða slitastjórnar stefnda til skuldabréfakröfunnar ekki haft áhrif á möguleika stefnanda til þess að nota kröfuna til skuldajafnaðar á meðan slitameðferð stæði yfir.

                Hvað sem líði ágreiningi um það hvort stefnanda hafi borist framangreint bréf slitastjórnar þá leiði höfnun slitastjórna á skuldabréfakröfunni við slitameðferð stefnda ekki til þess að krafa stefnanda sé ótæk til skuldajafnaðar. Ekki sé skilyrði fyrir skuldajöfnuði á hendur búi í slitameðferð að gagnkröfunni hafi verið lýst við slitameðferð búsins. Enginn slíkur áskilnaður sé gerður í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Þetta megi sjá af heimild til skuldajöfnuðar með kröfu sem telst fallin niður gagnvart búinu vegna vanlýsingar, sbr. 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Sömu rök eigi við um kröfu sem hafi verið hafnað af slitastjórn án andmæla af hálfu kröfuhafa enda hafi enginn óvilhallur aðili lagt endanlegt mat á raunverulegt gildi kröfunnar gagnvart búinu. Enginn ágreiningur sé um réttmæti skuldabréfakröfunnar, slitastjórn stefnda hafi hafnað henni við slitameðferðina vegna formsatriðis. Engin lagarök standi til þess að staða eiganda kröfu sem slitastjórn hafi hafnað vegna formsatriðis og kröfueiganda sem ekki hefur lýst kröfu sé ólík hvað varði réttinn til að nota kröfuna til skuldajafnaðar.

                Varakröfu sína byggir stefnandi á því að meginreglur kröfuréttar feli í sér að skuldara sé heimilt að skuldajafna samrættum kröfum, án sérstakrar yfirlýsingar, þegar almenn skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi. Þau skilyrði hafi verið fyrir hendi frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í máli nr. 378/2014. Krafa stefnanda á grundvelli þeirra verðbréfa sem vísað sé til í varakröfu sé samrætt kröfu stefnda samkvæmt dómi Hæstaréttar nr. 378/2014. Fordæmi Hæstaréttar í málum nr. 212/2012, 11/2014 og 12/2015 slái því föstu að kröfur á grundvelli sjálfstæðra samninga í verðbréfaviðskiptum á milli sömu aðila séu samrættar.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi aðallega til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málskostnaðarkröfu sína styður stefnandi með vísan til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

III.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í aðalkröfu stefnanda felist að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til að skuldajafna kröfu sem stefnandi hafi lýst við slitameðferð stefnda. Kröfunni hafi verið hafnað af slitastjórn stefnda með endanlegum hætti í skilningi 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 með vísan til þess að stefnandi hafði ekki sannað eignarréttindi sín yfir skuldabréfinu, enda hafi svokallað „blocking-númer“ ekki fylgt með kröfulýsingunni. Úr þeim ágalla hafi stefnandi ekki bætt. Afstaða slitastjórnar þessa efnis hafi verið send stefnanda í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Á meðal gagna málsins sé staðfesting á því að afstaða slitastjórnar hafi verið kynnt með bréfi sem hafi verið sent á lögmannsstofu sem hafi lýst kröfum fyrir stefnanda við slitameðferð stefnda. Þar komi einnig fram leiðbeiningar til stefnanda um möguleika á að koma á framfæri mótmælum við afstöðu slitastjórnar, í síðasta lagi á kröfuhafafundi 21. september 2010 þar sem afstaða til kröfunnar hafi verið til umfjöllunar, auk upplýsinga um réttaráhrif þess að koma ekki á framfæri slíkum mótmælum. Stefnandi hafi hins vegar látið undir höfuð leggjast að mótmæla afstöðu slitastjórnar til kröfunnar innan lögákveðins frests, hvorki hafi borist skrifleg mótmæli né hafi hann mótmælt afstöðunni á kröfuhafafundi 21. september 2010. Teljist afstaða slitastjórnar til kröfunnar þar af leiðandi endanleg við slitameðferð stefnda í skilningi 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 og séu báðir aðilar málsins bundnir af henni. Í ljósi þess að umrædd krafa stefnanda samkvæmt skuldabréfi nr. XS0180247131 sé fallin niður fyrir vanlýsingu uppfylli hún ekki skilyrði skuldajafnaðar, hvorki samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um skuldajöfnuð né ákvæðum 100. gr. laga nr. 21/1991. Hafi stefnandi því ekki, svo gilt sé gagnvart stefnda, getað skuldajafnað kröfunni við kröfu stefnda samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 378/2014. Yfirlýsingar stefnanda um skuldajöfnuð 31. mars 2015 og 6. maí 2015 hafi því ekki haft nein réttaráhrif.

                Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi hafi í fyrsta sinn í stefnu málsins borið fyrir sig að honum hafi ekki borist í hendur bréfið með framangreindri afstöðu slitastjórnar. Málsástæðan sé þar af leiðandi fallin niður vegna tómlætis.

                Þá byggir stefndi á því að undantekningarákvæði 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, um heimild til að koma vanlýstri kröfu að við skipti með skuldajöfnun, eigi ekki við í málinu. Umræddri kröfu stefnanda hafi verið lýst við slitameðferð stefnda innan tilskilins frests og afstaða tekin til hennar með endanlegum hætti. Verði tilvik stefnanda því ekki heimfært undir undantekningarákvæði 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991.

                Stefndi krefst sýknu af varakröfu stefnanda með vísan til þess að hann hafi með yfirlýsingu 14. janúar 2016 lýst yfir skuldajöfnuði á kröfu samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2014 við kröfur sem stefnandi hafi átt og verið samþykktar við slitameðferð stefnda. Hafi þær kröfur sem þar hafi verið skuldajafnað uppfyllt öll skilyrði laga og réttarreglna um skuldajöfnuð. Yfirlýsing um skuldajöfnuð sé ákvöð sem hafi réttaráhrif við móttöku gagnaðila. Séu kröfur þar með að fullu greiddar og falli niður frá því tímamarki. Þá séu krafa samkvæmt skuldabréfi nr. XS0180247131 og krafa samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands nr. 378/2014 ekki samrættar. Stefnandi hafi því ekki átt rétt til skuldajafnaðar án sérstakrar yfirlýsingar, enda yrðu kröfurnar ekki raktar til sama löggernings, atviks eða aðstöðu.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, laga nr. 7/1936, meginreglna samningaréttar, almennra reglna kröfuréttar um skuldajöfnuð og meginreglna kröfuréttar. Um málskostnaðarkröfu stefnda vísast til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

Í máli þessu deila aðilar um heimild hvor annars til greiðslu krafna með skuldajöfnuði. Aðalkrafa stefnanda felur í sér að viðurkennt verði með dómi að hann hafi með yfirlýsingu um skuldajöfnuð þann 31. mars 2015 með gildum hætti greitt kröfu stefnda á hendur sér. Krafa stefnda sem stefnandi kveðst hafa greitt með þessum hætti byggist á gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningi sem forverar aðila gerður 4. október 2005. Leyst var úr ágreiningi um þá kröfu með dómi Hæstaréttar þann 26. febrúar 2015 í máli nr. 378/2014 en með þeim dómi var stefnanda gert að greiða stefnda 26.302.546 krónur með nánar greindum vöxtum. Gagnkrafa stefnanda í framangreindri skuldajafnaðaryfirlýsingu byggist á skuldabréfi sem forveri stefnda gaf út 10. nóvember 2003, upphaflega að fjárhæð 40.000.000 króna. Stefndi byggir á því að sú krafa hafi fallið niður þar sem stefnandi hafi ekki brugðist við tilkynningu hans 23. júní 2010 um að kröfunni hefði verið hafnað að svo stöddu.

                Við meðferð krafna á hendur stefnda, sem tekinn var til slitameðferðar 22. apríl 2010, gilda að meginstefnu sömu reglur og við gjaldþrotaskipti að því er varðar gagnkvæma samninga, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum. Um skuldajöfnuð við gjaldþrotaskipti gilda almennar reglur kröfuréttar um skuldajöfnuð auk þeirra rýmkuðu reglna til fullnustu kröfu með þeim hætti við gjaldþrotaskipti skuldara sem kveðið er á um XVI. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 100. gr. þeirra laga segir að hver sá sem skuldi þrotabúi geti dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna meira en þremur mánuðum fyrir frestdag og nánar greind skilyrði um stofnunartíma kröfu þrotabúsins og grandleysi kröfuhafans eru fyrir hendi. Það er ekki skilyrði þess að krafa fáist greidd með skuldajöfnuði við gjaldþrotaskipti að kröfunni sé jafnframt lýst í þrotabú skuldara. Þannig er unnt að koma að skuldajöfnuði við gjaldþrotaskipti með því einfaldlega að lýsa yfir skuldajöfnuði, enda séu önnur skilyrði laganna og almennra reglna uppfyllt. Af þessari reglu um skuldajöfnuð við gjaldþrotaskipti leiðir jafnframt að krafa sem unnt er að fá greidda með skuldajöfnuði fellur ekki niður fyrir vanlýsingu sbr. 3. tölul. 118. gr. sömu laga. Að mati dómsins skiptir það ekki máli hvort vanlýsing verði með þeim hætti að engin kröfulýsing sé send eða að kröfulýsing sé metin ófullnægjandi af hálfu þrotabús, án þess að bætt hafi verið úr innan tilskilins frests, svo sem hagar til í þessu máli. Allt að einu verður að líta svo á að krafa sem unnt er að fullnægja með skuldajöfnuði falli ekki niður vegna vanhalda á kröfulýsingu. Er sú niðurstaða í samræmi við þau undirstöðurök sem reglur um skuldajöfnuð við gjaldþrotaskipti hvíla á, sem felast í því að sanngjarnt þykir og eðlilegt að kröfuhafi sem jafnframt skuldar þrotabúi þurfi ekki að sæta því að krafa hans á hendur þrotabúi fáist aðeins bætt að hluta á sama tíma og honum beri að greiða kröfu sína að fullu.

                Með framangreindum rökstuðningi er niðurstaða dómsins því sú að krafa stefnanda samkvæmt skuldabréfi með ISIN-númerinu XS0180247131 hafi verið gild þegar hann lýsti yfir skuldajöfnuði þann 31. mars 2015. Ekki er annar ágreiningur í málinu um skilyrði skuldajafnaðar hvað þessa kröfu varðar og ekki er á því byggt af hálfu stefnda að eignarhald stefnanda á kröfunni orki tvímælis. Verður aðalkrafa stefnanda því tekin til greina og viðurkenndur réttur hans til skuldajafnaðar við kröfu stefnda á hendur honum, sem endanlega var leyst úr með dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2014.

                Af framangreindu leiðir að stefndi gat ekki með gildum hætti lýst yfir skuldajöfnuði við kröfu stefnanda samkvæmt framangreindu skuldabréfi svo sem hann gerði með yfirlýsingu sinni þann 14. janúar 2016 þar sem stefnandi hafði þá þegar nýtt kröfuna til skuldajafnaðar.

                Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 850.000 krónur.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Viðurkenndur er réttur stefnanda, Stapa lífeyrissjóðs, til að skuldajafna kröfu sinni á hendur stefnda, Kaupþingi ehf., á grundvelli skuldabréfs útgefnu af forvera stefnda 10. nóvember 2003, með ISIN-númeri XS0180247131, á móti kröfu stefnda á hendur stefnanda samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2014, að frátalinni kröfu vegna málskostnaðar. Stefndi greiði stefnanda 850.000 krónur í málskostnað.