Hæstiréttur íslands
Mál nr. 228/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 10. apríl 2014. |
|
Nr. 228/2014.
|
Ákæruvaldið (Finnur Þór Vilhjálmsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Kærumál. Ákæra. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms, þar sem vísað var frá dómi máli á hendur X, með skírskotun til þess að ákæran uppfyllti áskilnað c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Mál þetta höfðaði sérstakur saksóknari með ákæru 28. október 2013 á hendur varnaraðila aðallega fyrir fjárdrátt samkvæmt 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara umboðssvik eftir 249. gr. sömu laga og eru sakargiftir í ákærunni raktar í heild sinni í hinum kærða úrskurði.
Í verknaðarlýsingu ákæru kemur fram að varnaraðili hafi 25. apríl 2005 látið millifæra 2.875.000.000 krónur af tilteknum bankareikningi A hf. í B S.A. yfir á tilgreindan bankareikning C hf. í sama banka. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ákæran uppfyllti ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 þar sem í henni væri „ekki nánari lýsing á því hvernig ákærði lét gera þetta“ og í röksemdakafla hennar skorti „fullnægjandi lýsingu á því hvernig tileinkun fjármunanna átti sér stað“. Án hennar yrði ekki tekin afstaða til þess hvort ákærði hafi gerst sekur um fjárdrátt.
II
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Þá segir í d. lið sömu málsgreinar að í ákæru skuli, ef þörf krefur, greina röksemdir sem málsóknin er byggð á, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið, en röksemdafærslan skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir séu. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa þessi fyrirmæli verið skýrð þannig að lýsing á þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni einni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að ákærða verði torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Að þessu leyti verður ákæra að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi verði talin refsiverð. Samkvæmt þessu verður ákæra að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo dómur verði lagður á mál í samræmi við ákæru, enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur síðan á atvikum máls og eðli brots hvaða kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru.
Eins og rakið hefur verið er varnaraðila aðallega gefinn að sök fjárdráttur 25. apríl 2005 með því að hafa dregið sér og ráðstafað 2.875.000.000 krónum af reikningi A hf. inn á reikning C hf., en báðir reikningarnir voru sem fyrr segir í B S.A. Í verknaðarlýsingu ákæru er háttsemi varnaraðila lýst svo að hann hafi látið millifæra fjármunina af reikningi A hf. yfir á reikning C hf. Fer þannig ekki milli mála fyrir hvaða háttsemi varnaraðili er ákærður, hvorki í aðalkröfu né varakröfu, og fullnægir ákæran þar af leiðandi skilyrðum c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu og með því að varnaraðili hefur ekki fært önnur haldbær rök fyrir kröfu sinni um frávísun málsins verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka það til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2014.
Mál þetta er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, dagsettri 28. október 2013, á hendur:
„X,
kt. [...],
með lögheimili í [...]
aðallega fyrir fjárdrátt með því að hafa 25. apríl 2005, í starfi sínu sem stjórnarformaður A hf., kt. [...] (nú [...] hf.), dregið sér af fjármunum A hf. 2.875.000.000 íslenskra króna sem hann ráðstafaði til C hf., kt. [...] (nú [...]hf.). Nánar tiltekið lét ákærði 22. apríl 2005 millifæra 46.500.000 bandaríkjadali af bankareikningi A hf. nr. [...] í útibúi Danske Bank í New York í Bandaríkjunum inn á bankareikning A hf. nr. [...] í B S.A., sem ákærði hafði látið stofna 17. apríl 2005, en samkvæmt sérstöku umboði, sem barst síðastnefndum banka 20. apríl 2005, hafði ákærði fullt og ótakmarkað umboð til ráðstafana á fjármunum félagsins á þeim bankareikningi. Hinn 25. apríl 2005 var 45.864.241,84 bandaríkjadölum skipt yfir í 2.875.000.000 íslenskra króna í gjaldeyrisviðskiptum á áðurnefndum reikningi A hf. í B S.A. Sama dag lét ákærði millifæra 2.875.000.000 króna af sama bankareikningi yfir á bankareikning C hf. nr. [...] í sama banka en ráðstöfunin var ekki í þágu A hf. eða hluti af lögskiptum félagsins. Millifærslan var framkvæmd án vitundar, og þar með samþykkis, þáverandi forstjóra, fjármálastjóra og annarra meðlima í stjórn A en ákærða. Sama dag var fjárhæðinni skipt yfir í 260.889.292,20 danskar krónur og 375.000.000 danskra króna millifærðar af sama reikningi C hf. yfir á bankareikning þáverandi eiganda D A/S.
Til vara fyrir umboðssvik með því að hafa með framangreindri háttsemi misnotað þá aðstöðu sem hann fékk í krafti umboðs til ráðstöfunar á fjármunum A hf. á bankareikningi félagsins nr. [...] í B S.A. og valdið A hf. verulegri fjártjónshættu með einhliða ráðstöfun fjármuna félagsins til C hf. án þess að gera nokkrar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni A hf. en ráðstöfunin var ekki þáttur í viðskiptum félagsins.
Háttsemi ákærða telst aðallega varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 249. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Við fyrirtöku málsins 9. janúar sl. lagði verjandinn fram frávísunarkröfu og lagði fram svofellda bókun:
„Á þessu stigi málsins er þess krafist, fyrir hönd ákærða, X, að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
Meginröksemdir kröfunnar eru eftirfarandi:
Í fyrsta lagi er verknaðarlýsing í ákæru óskýr. Hún fullnægir ekki skýrleikakröfu c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.
Í öðru lagi er rannsókn málsins verulega áfátt. Skortir verulega á að rannsókn lögreglu hafi verið í samræmi við reglur 53. gr. laga nr. 88/2008 um markmið rannsóknar, hlutlægni, meðalhóf og málshraða.
Í þriðja lagi hefur verið brotið alvarlega gegn hagsmunum ákærða við rannsókn málsins, m.a. með endurteknum afhendingum rannsóknargagna til fjölmiðla, án tillits til réttmætra rannsóknarhagsmuna.
Krafan er sett fram með heimild í 159. gr. laga nr. 88/2008.“
Munnlegur málflutningur fór fram um frávísunarkröfuna 6. þ.m. Þar reifaði verjandinn ítarlega sjónarmið sín til stuðnings frávísunarkröfunni og taldi hvern röksemdakafla um sig nægja til þess að vísa bæri málinu frá dómi.
Ákæruvaldið andmælti frávísunarkröfunni og krefst efnisdóms í málinu.
Niðurstaða
Að mati dómsins er ekkert það fram komið í málinu sem leiða á til frávísunar málsins vegna röksemda verjanda í öðrum eða þriðja lið bókunar sem lýst var að framan.
Samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má þau atriði sem tilgreind eru í stafliðum a f en í c-lið segir að greina skuli hver sú háttsemi sé sem ákært er út af eins og nánar er lýst í lagaákvæðinu.
Ákærða er aðallega gefinn að sök fjárdráttur, með því að hafa dregið sér og ráðstafað 2.875.000.000 króna inn á reikning C hf. eins og lýst er í ákærunni.
Í ákærunni segir að ákærði hafi látið millifæra þessa fjármuni af bankareikningi A hf. í B S.A., yfir á reikning C í sama banka. Ekki er í ákærunni nánari lýsing á því hvernig ákærði lét gera þetta en fram kom við munnlegan málflutning vegna frávísunarkröfunnar að ákærði neitar sök í málinu.
Með ákæru málsins fylgja röksemdir á grundvelli d-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Þar segir að tímamörk tileinkunar og þar með þegar ætlað fjárdráttarbrot ákærða sé fullframið hafi verið „þegar ákærði lét millifæra fjármunina yfir á bankareikning C hjá B“. Engar skýringar er að finna í röksemdum fyrir því hvernig ákærði lét millifæra fjármunina.
Skýring 152. gr. sakamálaga nr. 88/2008 og áður sambærilegs lagaákvæðis 116. gr. laga nr. 19/1991 sýnir nauðsyn þess að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir séu. Þessari nauðsyn er og lýst í greinargerð með 152. gr. sakamálalaga auk þess sem dómaframkvæmd er til vitnis um þessa nauðsyn. Skýrleiki ákæru er nauðsynlegur svo ákærði geti haldið uppi viðhlítandi vörnum en ónákvæm ákæra rýrir þann möguleika. Það kann að vera matskennt hverju sinni hvort efnislýsing ákæru uppfylli skilyrði c-liðar 152. gr. sakamálalaga. Lýsing í ákæru málsins um að ákærði hafi látið millifæra er ófullkomin og opin og ákærða, sem neitar sök, er ekki ljóst af efnislýsingunni hvernig honum er gefið þetta að sök en lög áskilja að ákærði geti ráðið af ákærunni einni hverjar sakargiftir á hendur honum séu.
Ákæruvaldið hefði með röksemdum sem byggt er á, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. sakamálalaga, getað bætt úr þessu að einhverju leyti þótt þær röksemdir komi ekki í stað efnislýsingar ákæruskjalsins. Hins vegar er engar nánari skýringar að finna á hinni meintu háttsemi í röksemdakafla ákærunnar þótt ákæruvaldinu hefði verið í lófa lagið að skýra þetta þar. Samkvæmt þessu skortir í ákæruna fullnægjandi lýsingu á því hvernig tileinkun fjármunanna átti sér stað en án hennar verður ekki tekin afstaða til þess hvort ákærði hafi gerst sekur um fjárdrátt.
Samkvæmt öllu ofanrituðu uppfyllir ákæran, að mati dómsins, ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og ber að vísa henni frá dómi.
Eftir þessum úrslitum skal allur sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði, þar með talin 7.655.500 króna málsvarnarlaun Gísla Guðna Hall hæstaréttarlögmanns en þóknunin er fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar verjenda.
Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknarfulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákæru sérstaks saksóknara í málinu nr. S-[...]/2013 er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 7.655.500 króna málsvarnarlaun Gísla Guðna Hall hæstaréttarlögmanns.