Hæstiréttur íslands
Mál nr. 284/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Upplýsingaskylda
|
|
Mánudaginn 15. júní 2009. |
|
Nr. 284/2009. |
AFL Starfsgreinafélag(Ástráður Haraldsson hrl.) gegn Landsvaka hf. og (Stefán Geir Þórisson hrl.) Landsbanka Íslands hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Upplýsingaskylda.
A og LÍ gerðu með sér samning um eignastýringu sjúkrasjóðs S. Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 óskaði A eftir upplýsingum frá LÍ, til að geta lagt mat á hvort fjárfestingastefna hefði verið virt í rekstri sjóðsins og viðskiptahættir eðlilegir. Taldi A upplýsingar þær sem LÍ lét í té ófullnægjandi, en LÍ hafnaði frekari upplýsingagjöf. Höfðaði A mál á hendur LÍ og krafðist viðurkenningar á skyldu LÍ til að láta A í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða LÍ fyrir tiltekið tímabil. Með úrskurði héraðsdóms var kröfu A vísað frá dómi, þar sem krafa A þótti ekki uppfylla skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýrleika dómkröfunnar. Auk þess taldi héraðsdómur vafa leika á því hvernig uppfyllt yrði skylda LÍ, sem viðurkennd yrði í dómsorði á grundvelli dómkröfunnar, án þess að meira kæmi til fyllingar, sbr. 4. mgr. 114. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að sóknaraðili hafi ekki haft aðgang að þeim gögnum sem beðið var upplýsinga um og því ekki að vænta þess að hann gæti lýst þeim með öðrum hætti en almennum orðum. Til þess yrði líka að líta að upplýsingaskylda LÍ samkvæmt samningi aðila væri mjög víðtæk og tæki til vinnslu upplýsinga úr fyrirliggjandi gögnum, en væri ekki einskorðuð við að veita aðgang að skjölum sem lægju fyrir. Atriði varðandi kost á fullnustu réttar samkvæmt dómi í málinu kæmu ekki til álita við mat á því hvort kröfugerð sóknaraðila væri nægilega skýr enda krafa hans um viðurkenningu á skyldu og yrði henni ekki fullnægt með aðför. Taldi rétturinn að ekki væri unnt að líta svo á að slíkrar ónákvæmni gætti í kröfugerð A að frávísun varðaði. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili, sem er verkalýðsfélag, og varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf., sem þá mun hafa verið móðurfélag varnaraðilans Landsvaka hf., gerðu með sér samning 4. júlí 2005 um eignastýringu sjúkrasjóðs sóknaraðila. Samningurinn var gerður á staðlað samningsform, aðlagað að ákvörðunum aðilanna. Tók varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. að sér með samningnum „að veita viðskiptavini ráðgjöf vegna viðskipta með fjármálagerninga, annast vörslu þeirra og eignastýring.“ Skyldi bankinn taka við fjármunum sóknaraðila til fjárfestingar í fjármálagerningum fyrir eigin reikning sóknaraðila. Í fjárvörslu bankans skyldi felast varsla, innheimta, kaup og sala fjarmálagerninga auk ráðgjafar um eignauppbyggingu. Eignastýring skyldi felast í tilfærslu milli mismunandi tegunda fjármálagerninga eftir því sem tækifæri byðust á mörkuðum hverju sinni. Sóknaraðili gaf bankanum heimild til eignastýringar samkvæmt fyrirfram ákveðinni fjárfestingarstefnu, sem nánari ákvæði voru um í 2. gr. samningsins. Samkvæmt 4. gr. hans hafði bankinn fullt og ótakmarkað umboð til þess að stýra eignum sóknaraðila í samræmi við fjárfestingarstefnuna. Samningnum fylgdu viðaukar um fjárfestingarstefnu, umboð og þóknanir. Í lok viðauka III voru ákvæði um upplýsingagjöf. Þar segir: „Bankinn skal láta sjóðnum í té eftirfarandi upplýsingar: Að minnsta kosti ársfjórðungslega skulu veittar upplýsingar um fjárfestingar og ávöxtun síðasta tímabils og liðinna tímabila í samanburði við sett markmið og ávöxtun sem almennt gerist á fjármagnsmarkaði. Einnig skal sett fram yfirlit um eignahreyfingar á tímabilinu og mat á eignum safnsins í lok síðasta tímabils. Samráðsfundir með viðskiptavini skulu haldnir eftir óskum og skal LÍ einnig veita stjórn sjóðsins upplýsingar um almenna þróun viðskipta með fjármálagerninga ásamt horfum í næstu framtíð. Bankinn skal láta stjórn sjóðsins, endurskoðendum og öðrum opinberum aðilum í té allar nauðsynlegar upplýsingar sem þessir aðilar óska eftir og í því formi sem óskað er og innan þeirra tímamarka sem eðlilegt má teljast.“
Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði var í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 og setningu laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o. fl. lokað fyrir allar innlausnir úr peningamarkaðssjóðum varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Skyldi öllum peningamarkaðssjóðum hans slitið og sjóðfélögum greiddar út eignir í formi innlána. Útgreiðsluhlutfall úr sjóðum varnaraðilans var á bilinu 60,0% til 74,1% og mun sóknaraðili hafa fengið greidd út 68,8% eignar sinnar. Í framhaldi af þessu óskaði sóknaraðili eftir sundurliðuðum upplýsingum um eignir peningamarkaðssjóða varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. frá 1. september 2008 til þess að geta lagt mat á hvort fjárfestingarstefna hefði verið virt í rekstri sjóðsins og viðskiptahættir verið eðlilegir. Taldi sóknaraðili yfirlit um eignastýringu frá 1. janúar 2008 til 30. september sama ár sem varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. lét í té ófullnægjandi. Þar sem frekari upplýsingagjöf mun hafa verið hafnað af hálfu varnaraðila höfðaði sóknaraðili mál þetta með stefnu 8. desember 2008 og krafðist viðurkenningar á skyldu varnaraðila til að láta sóknaraðila í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. fyrir tímabilið frá 1. september 2008 til 28. október sama ár. Varnaraðilar kröfðust aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu. Var fallist á aðalkröfu þeirra með hinum kærða úrskurði.
Málsástæður aðila eru raktar í hinum úrskurði héraðsdóms.
II
Í máli þessu krefst sóknaraðili að viðurkennt verði með dómi að varnaraðilum sé skylt að láta í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða Landsbanka Íslands hf. yfir tímabilið 1. september 2008 til 28. október sama ár. Sóknaraðili hefur ekki haft aðgang að gögnum þessum og er þess því ekki að vænta að hann geti lýst þeim öðru vísi en með almennum orðum. Til þess verður og að líta að upplýsingaskylda varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. í fyrrgreindum viðauka III með samningi um eignastýringu er mjög víðtæk og tekur til vinnslu upplýsinga úr fyrirliggjandi gögnum en er ekki einskorðuð við að veita aðgang að skjölum sem fyrir liggja. Atriði varðandi kost á fullnustu réttar samkvæmt dómi í málinu koma heldur ekki til álita við mat á því, hvort kröfugerð sóknaraðila sé talin nægilega skýr, enda er krafa hans um viðurkenningu á skyldu, og verður henni því ekki fullnægt með aðför. Að þessu virtu verður ekki litið svo á að slíkrar ónákvæmnin gæti í kröfugerð sóknaraðila að frávísun varði.
Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar verða dæmdir til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar, Landsbanki Íslands hf. og Landsvaki hf., greiði óskipt sóknaraðila, AFLI Starfsgreinafélagi, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2009.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfur stefndu 16. apríl 2009 var þingfest þann 11. desember 2008.
Stefnandi er Afl, starfsgreinafélag, Egilsbraut 11, Neskaupstað. Stefndu eru Landsvaki hf., Hafnarstræti 5, Reykjavík og Landsbanki Íslands, Austurstræti 11, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru að viðurkennd verði skylda stefndu til að láta stefnanda í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða Landsbanka Íslands hf. yfir tímabilið frá 1. september 2008 til 28. október 2008. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega að málinu verði vísað frá dómi og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar nú. Stefndu krefjast einnig málskostnaðar.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og krefst málskostnaðar í þessum þætti málsins.
I.
Stefnandi, sem er verkalýðsfélag með ríflega 9000 félagsmenn og stefndi Landsbanki Íslands hf., sem þá var móðurfélag stefnda Landsvaka hf., gerðu hinn 4. júlí 2005 með sér samkomulag um eignastýringu sjúkrasjóðs stefnanda, sem stofnaður hafði verið í samræmi við samninga stefnanda og viðsemjenda hans og 7. gr. laga 19/1979. Samkomulagið ásamt viðaukum liggur frammi í málinu, en samkvæmt því skyldu stefndu veita stefnanda ráðgjöf vegna viðskipta með fjármálagerninga, annast vörslu fjármuna og eignastýringu og hafði forstöðumaður eignastýringar hjá stefnda Landsbanka fengið fullt og ótakmarkað umboð til þess að kaupa verðbréf í nafni stefnanda fyrir þá fjármuni sem stefnandi afhenti stefndu og sérstök fjárfestingarstefna gerð sem hluti af samkomulagi aðila. Í viðauka við samkomulagið var fjallað sérstaklega um upplýsingagjöf og kveðið á um að stefndu skyldu ársfjórðungslega láta stefnanda í té upplýsingar um fjárfestingar og ávöxtun. Þá var sérstaklega kveðið á um skyldu stefndu til að láta stjórn sjóðsins og öðrum í té allar nauðsynlegar upplýsingar sem óskað væri eftir og í því formi sem óskað væri eftir og innan þeirra tímamarka sem eðlilegt mætti teljast. Í samningnum er einnig fjallað um margvíslegar áhættur sem fylgi verðbréfaviðskiptum og að stefnandi geri sér grein fyrir þeim og að stefnandi beri einn ábyrgð á fjárfestingarákvörðunum.
Í kjörfar setningar laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. var lokað fyrir allar innlausnir úr peningamarkaðssjóðum stefndu. Þann 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.), á grundvelli heimildar í 5. gr. laga nr. 125/2008. Fjármálaeftirlitið gaf síðan út tilmæli um að öllum peningamarkaðssjóðum yrði slitið og sjóðfélögum greiddar út eignir sínar í formi innlána. Útgreiðsluhlutfall sjóða stefndu var 60-74,1% og óskaði stefnandi eftir því í kjölfar útborgunar að upplýst yrði um samsetningu sjóðanna og vörslur þeirra. Fékk hann þá send yfirlit frá 1. janúar 2008 til 30. september 2008, sem liggja frammi í málinu. Stefnandi taldi það ekki fullnægjandi þar sem yfirlitin gæfu hvorki tæmandi né sundurgreinanlegar upplýsingar um eignasamsetningu sjóðanna við lokun þeirra og viðskipti síðustu vikurnar fyrir hrun. Af hálfu stefnda Landsvaka var því hafnað að veita frekari upplýsingar og m.a. vísað til þess að umbeðnar upplýsingar væru undanþegnar upplýsingaskyldu hans.
II.
Stefndu byggja kröfu sína um frávísun málsins á því að kröfugerð stefnanda fái ekki staðist ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í d-lið 1. mgr. 80. gr. laganna segi að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi dómkröfur stefnanda, svo sem viðurkenningu á tilteknum réttindum. Krafa stefnanda um að honum verði látið í té sundurliðað yfirlit eigna á tilteknu tímabili sé ekki nægilega afmörkuð til að geta talist uppfylla kröfur ákvæðisins. Þá sé í kröfugerð stefnanda um að ræða öflun sönnunargagna sem lúti öðrum lögmálum og verði ekki höfð uppi sem kröfugerð í dómsmáli. Við munnlegan flutning málsins kom fram af hálfu stefndu að ómögulegt væri fyrir stefndu að verða við dómkröfum stefnanda, enda óljóst hvað verið sé að biðja um og sé krafan þannig ekki í samræmi við meginregluna um ákveðna og ljósa kröfugerð sem væri hægt að taka óbreytta upp í dómsorð. Þá sé stefnandi með kröfu sinni að afla sönnunargagna til að nota í dómsmáli, en í lögum 91/1991 séu sérstakar reglur um hvernig það skuli gert, meðal annars sé hægt að höfða sérstakt matsmál og dómkvaddir matsmenn hafi úrræði til að afla gagna vegna mats, sbr. 77. gr. laganna.
III.
Af hálfu stefnanda kom fram við munnlegan flutning málsins að það sé ástæða þess að kröfugerð hans er ekki skýrari, að hann hafi ekki þær upplýsingar sem til þurfi. Stefndu einir viti í hvaða formi þær upplýsingar séu sem óskað sé eftir og nauðsynlegar séu stefnanda til að hann geti lagt mat á hvort farið hafi verið að lögum og samningum við umsjón og uppgjör sjóða stefndu.
IV.
Í máli þessu krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skylda stefndu til að láta stefnanda í té sundurliðað yfirlit eigna peningamarkaðssjóða stefnda Landsbanka Íslands hf. yfir tímabilið frá 1. september 2008 til 28. október 2008. Telur stefnandi sig þurfa frekari upplýsingar en þær sem hann hefur fengið frá stefndu, væntanlega til þess að meta hvort hafðar verði uppi kröfur á hendur stefndu vegna rýrnunar fjármuna stefnanda í vörslum þeirra. Stefnandi hefur fengið, og lagt fram í málinu, nokkur yfirlit frá stefnda, yfirlit um heildarsafn stefnanda, ávöxtun á árinu 2008 fram til 30. september, bæði hlutfallslega og í krónum, skiptingu í eignaflokka og sundurliðun innan hvers eignaflokks, hreyfingayfirlit frá 1. janúar til 30. september 2008 og lista yfir móttökur og afhendingar á peningum á sama tímabili. Að því er fram kemur í málinu hafa ekki fengist frekari upplýsingar um eignir sjóðanna.
Ekki verður hjá því komist að fallast á það með stefndu, að dómkrafa stefnanda er nokkuð almennt orðuð og ekki skýrt afmörkuð. Þannig liggur ekki fyrir hvaða skjöl það eru sem verið er að biðja um að viðurkennt verði að stefndu beri að láta stefnanda í té, eða hvort yfirleitt eru til staðar einhver þau skjöl í fórum stefndu, sem gætu uppfyllt þá kröfu sem sett er fram. Eru því ekki talin uppfyllt skilyrði d-liðs 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýrleika dómkröfunnar, auk þess sem vafi leikur á því hvernig uppfyllt yrði skylda stefndu sem viðurkennd yrði í dómsorði á grundvelli dómkröfunnar, án þess að eitthvað fleiri kæmi til því til fyllingar, en samkvæmt meginreglu 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 verður slíkt að teljast óheimilt. Verður það ekki talið breyta þessari niðurstöðu málsins, að fallast megi að nokkru leyti á þau sjónarmið stefnanda að hann hafi ekki haft nægar upplýsingar til að hafa kröfugerð sína skýrari. Einnig kemur hér til álita sú röksemd stefndu að stefnanda séu aðrar leiðir færar til að afla gagna þeirra sem hann telur sig vanta, en af hálfu stefndu var vísað til II. þáttar laga nr. 91/1991, m.a. 77. gr. þeirra um sérstaka dómkvaðningu matsmanna til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni, án þess að mál hafi verið höfðað.
Í ljósi framangreinds og allra atvika málsins verður því ekki hjá því komist að vísa því frá dómi. Eins og málinu öllu er háttað þykir eðlilegt að hver aðili um sig beri kostnað sinn af málinu.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.