Hæstiréttur íslands

Mál nr. 567/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Útlendingur


                                     

Miðvikudaginn 22. október 2008.

Nr. 567/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, var staðfestur.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. október 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2008.

Með beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 15. október sl., er þess krafist að X, fd. 15. janúar 1981, frá Kosovo-Albaníu, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans segir að kærði hafi komið til landsins þann 10. október sl. Hafi hann haft meðferðis miða á farangri sínum sem bar með sér að hann hefði komið frá Frankfurt með flugi nr. FI-521, kl. 15:40 sama dag. Hefði hann farið óáreittur inn í landið og komið á lögreglustöðina í Keflavík sama dag kl. 17:45 og óskað eftir hælisvist á Íslandi. Hefði mál hans fengið venjubundna afgreiðslu hjá lögreglu í hælismálum og honum hefði verið ekið á Fit-hostel gistiheimilið í Reykjanesbæ sem sé dvalarstaður hælisleitenda.

Í frumskýrslu lögreglu komi fram að kærði hafi ferðast frá Kósóvó til Þessalóniku í Grikklandi og frá Grikklandi til Frankfurt í Þýskalandi og þaðan til Íslands. Hefði hann framvísað skilríkjum, ökuskírteini og nafnskírteini, útgefnum af Sameinuðu þjóðunum og sagst hafa losað sig við vegabréf sitt á leið sinni til landsins.

Þann 11. október hafi komið til landsins frá Kaupmannahöfn kl. 15:35 með flugi nr. FI-205 maður sem sagðist heita A. Við vegabréfaeftirlit við landganginn hefði maðurinn framvísað vegabréfi útgefnu af Sameinuðu þjóðunum sem stílað var á annan mann. Í fyrstu hefði A haldið því fram að hann væri eigandi vegabréfsins en síðar viðurkennt að hann hefði tekið það ófrjálsri hendi frá bróður sínum. Hefði hann í kjölfarið sótt um hæli hér á landi.

Við rannsókn á ferðaleiðum A hefði komið í ljós að hann hafði einnig ferðast frá Þessalóniku til Brussel, þaðan til Kaupmannahafnar og til Íslands. Hefði ferð hans borið upp á sama dag og kærði ferðaðist þaðan og hefði brottför þeirra verið með aðeins 15 mínútna millibili. Hefðu því vaknað grunsemdir um að þeir kærði og A tengdust en áður hafði A greint frá því að hann þekkti engan á Íslandi. Þá hefði A neitað að hafa ferðast til Grikklands og með flugi til Brussel og sagt afrifu af þeirri flugleið hafa verið í jakkavassa bróður síns sem hann hefði tekið ófrjálsri hendi.

Í ljósi þessara upplýsingar hefði lögregla farið að Fit-hosteli og hitt fyrir kærða og óskað eftir því að fá að leita í farangri hans en grunur hefði vaknað um að hann hefði komið undan gögnum áður en hann óskaði eftir hæli hér á landi. Hefði kærði heimilað leitina og hefði þá verið lagt hald á farsíma sem hafði að geyma mikið safn mynda. Við skoðun myndanna hefði mátt sjá margar myndir af kærða og einnig af A ásamt fjölda annarra. Hefði vakið sérstaka athygli lögreglu að á sumum myndanna var kærði þungvopnaður. Í síma kærða hafi jafnframt fundist myndbrot sem sýnir tvo menn í íslenskri fjöru en þeir munu báðir vera hælisleitendur hér á landi frá Kósóvó þaðan sem kærði og A segjast vera. Annar þeirra sé B fæddur 9. febrúar 1989 en hann hefði komið á lögreglustöðina á höfuðborgarsvæðinu þann 9. október sl. og óskað eftir hæli. Þá hafi lögregla grun um að ein mynd í síma kærða sé af B í herdeild Frelsishers Kósóvó.

Af þeim myndum, sem fundist hafa í síma kærða, telji lögregla rökstuddan grun leika á því að kærði og þeir A og B tengist og kunni allir að tengjast Frelsisher Kósóvó, UCK, og gefi lögreglu og Útlendingastofnun vísvitandi rangar upplýsingar um hvaðan þeir koma, hverjir þeir séu, tengsl þeirra á milli og hvaða erindi þeir eigi hingað til lands. Með vísan til greinargerðar greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um Frelsisher Kósóvó telji lögreglan að þeir kærði, A og B kunni að vera hættulegir og því sé nauðsynlegt að þeir sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál þeirra eru á frumstigi rannsóknar. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferða kærðu til landsins, tilgang dvalar þeirra hér og tengsl þeirra innbyrðis og við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis, þar með talið hælisleitendur frá sama svæði, auk annarra atriða. Telji lögregla að ætluð háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 146. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæði laga nr. 96/2002, einkum 29., 53. og 57. gr. þeirra. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, rannsóknarhagsmuna, a- og b- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október nk. kl. 16:00.

                Kærði hefur mótmælt framkominni gæsluvarðhaldskröfu og krefst þess að henni verði hafnað.

Samkvæmt því sem að framan er rakið og gögnum málsins er ljóst að kærði hefur ekki viljað upplýsa lögreglu að öllu leyti um það hver hann er og þá hefur hann neitað að upplýsa um tengsl sín við aðra menn hér á landi sem gögn málsins benda til að hann hafi átt samskipti við. Þannig hefur kærði lýst því í skýrslu hjá lögreglu að hann hafi hent vegabréfi sínu en jafnframt neitað að upplýsa lögreglu um hvar það var. Þá gætir ósamræmis í framburði kærða og framangreindra manna, m.a. um tengsl þeirra innbyrðis, auk þess sem skýringar þeirra eru í ákveðinni mótsögn við myndir sem fundust í síma kærða.

Þegar litið er til framangreinds og rannsóknargagna málsins er ljóst að rannsókn lögreglu á máli kærða er ekki lokið en hann er undir rökstuddum grun um að gefa rangar upplýsingar um það hver hann er. Samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. lög nr. 86/2008, eru því fyrir hendi skilyrði til gæsluvarðhalds yfir kærða. Verður krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16:00.