Hæstiréttur íslands
Mál nr. 126/2011
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 27.október 2011. |
|
Nr. 126/2011.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn X og (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) Y (Guðmundur Ágústsson hrl.) |
Líkamsárás.
X og Y voru ákærðir fyrir líkamsárás, með því að hafa í félagi slegið A hnefahöggum og sparkað í hann liggjandi, með þeim afleiðingum að hann hlaut tannbrot, glóðarauga og áverka á hnakka. Í héraði voru ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en sannað þótti að ákærðu hefðu í félagi ráðist á A og slegið hann hnefahöggum en ekki þótti hins vegar sannað gegn eindreginni neitun þeirra beggja að þeir hefðu sparkað í hann liggjandi. Hæstiréttur taldi hins vegar að ekki hefðu verið færðar viðhlítandi sönnur á að ákærðu hefðu framið það brot sem þeir voru sakfelldir fyrir í héraði og voru þeir því sýknaðir. Þá var bótakröfu A vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að dómur héraðsdóms um sakfellingu ákærðu verði staðfest, en refsing þeirra þyngd.
Ákærði X krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
Ákærði Y krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins. Til vara krefst hann þess að honum verði ekki gerð sérstök refsing eða hún milduð. Hann krefst einnig sýknu af einkaréttarkröfu.
A sem gerði bótakröfu í héraði hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Í máli þessu er ákærðu gefin að sök líkamsárás, með því að hafa í félagi aðfaranótt sunnudagsins 9. ágúst 2009, á lóð við [...] á [...], slegið A hnefahöggum og sparkað í hann liggjandi, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut tannbrot, glóðarauga og áverka á hnakka. Í hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir fyrir að hafa í félagi ráðist á A og slegið hann hnefahöggum og hafi tannbrot, glóðarauga og áverki á hnakka hlotist af. Ekki þótti hins vegar sannað gegn neitun beggja ákærðu að þeir hefðu sparkað í hann liggjandi. Var háttsemi ákærðu talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir Hæstarétti tekur ákæruvaldið undir röksemdir hins áfrýjaða dóms fyrir sakfellingu og að ákærðu hafi í félagi ráðist á A og slegið hann hnefahöggum með fyrrgreindum afleiðingum.
II
Fyrir liggur að umrædda nótt voru ákærðu í gleðskap heima hjá ákærða Y ásamt fleira fólki þegar brotaþoli A og félagi hans C komu á staðinn. Mun annar þeirra hafa farið inn í íbúðina óboðinn en hinn staðið fyrir utan. Húsráðandi, ákærði Y, bar fyrir dómi að hann hefði vinsamlegast beðið þann, sem kom inn, að fara út. Þegar það hafi ekki borið árangur hafi hann ýtt honum út fyrir. A kvaðst hafa farið inn í íbúðina og lýsti hann því þannig fyrir dómi að honum hafi verið hent út með látum.
Upplýst er að í kjölfarið áttu sér stað átök fyrir utan íbúðina þar sem ákærðu og fyrrgreindir tveir menn komu við sögu og jafnvel fleiri en óljóst er um þátt hvers og eins. Kom fram hjá ákærða Y að maður sem stóð í dyragætt íbúðarinnar hafi gengið á milli og í framhaldinu hafi hann og sá maður tekist á. Lýsing ákærða Y á þeim, sem hann sagðist hafa lent í átökum við, samræmist því ekki að það hafi verið A. Þá báru A og C báðir fyrir dómi að fleiri hefðu tekið þátt í þessum átökum.
Þegar A var spurður að því fyrir dómi hvort það hafi verið sami maðurinn, sem henti honum út og sló hann, sagði hann „ ... það voru bara flest allir sem að stóðu upp þarna og grýttu mér út, eða þú veist það var fullt af fólki þarna inni eða ... einhver hópur. Ég man ekkert öll þessi smáatriði sem að gerðust þarna sko áður en maður er laminn sko. Þetta er ekki eitthvað sem að ég myndi geta svarið fyrir.“ Síðar kvaðst A aðspurður vera með það á hreinu að sá, sem sló hann, hafi ekki verið sá, sem kom honum út úr íbúðinni, heldur hafi árásarmaðurinn verið sköllóttur en hann gat ekki lýst honum að öðru leyti og kvaðst aldrei hafa séð þann mann eftir þetta.
Vitnið C lýsti atvikum á þá lund fyrir dómi að A hefði komið fljúgandi út úr íbúðinni og þrír eða fleiri menn hefðu þá hamast á honum. Vitnið kvaðst þá hafa ætlað að reyna að hjálpa félaga sínum, farið í „hrúguna“ og fengið spark. Hafi þeim A svo tekist að forða sér. Hann kvaðst ekki hafa séð högg eða „hrindingu“ heldur hafi bara verið læti. Hann hafi séð að sparkað hefði verið í A án þess að hann gæti svarað hverjir þar hafi verið að verki. Þá kvaðst hann halda að með honum og A í þessari þvögu hafi verið ákærði Y. Aðspurður hvort hann hafi séð ákærða Y slá eða sparka svaraði vitnið því í fyrstu að það væri erfitt að segja og hann gæti ekkert dæmt um það. Svo sagði hann „auðvitað var hann að kýla og sparka líka ásamt tveimur öðrum allavega.“
Ákærði X bar fyrir dómi að hann hafi orðið þess var að meðákærði Y væri í átökum fyrir utan íbúðina og hafi hann þá farið út. Hafi hann slegið niður þann aðkomumann, sem ekki hafði áður farið inn í íbúðina, og er ágreiningslaust að lýsing hans á þeim, sem hann sló, eigi við C. Hafi sá maður rotast við höggið. Ákærði Y bar að meðákærði X hefði slegið þann sem komið hafði áður inn í íbúðina. Lýsing hans og sambýliskonu hans, vitnisins E, á þeim manni, sem inn í íbúðina kom, bendir hins vegar til þess að það hafi verið C en ekki A. Þá kom fram í framburði ákærða Y að hann viti ekki enn þann dag í dag hvernig A líti út.
Loks er að geta framburðar vitnisins F sem var í umræddum gleðskap. Hann kvaðst hafa litið út og séð stimpingar. Í kjölfarið hafi hann farið út og séð mann liggja á lóðinni, hálfblóðugan í framan. Hann hafi þurrkað af honum blóð, reist hann upp og hlúð að honum. Lýsing F á þessum manni bendir til að þessi maður hafi verið C.
A kvaðst fyrir dómi muna að hafa verið sleginn einu höggi í andlitið. Hafi höggið lent á auganu og hann fengið glóðarauga. Taldi hann að tannbrotið hefði hlotist af sparki sem hann hafi fengið eftir að hann féll í jörðina eftir höggið.
III
Þegar framangreint er virt og gögn málsins að öðru leyti verður ekki talið nægilega sannað að ákærði X hafi slegið A umrætt sinn. Þá hafa heldur ekki verið færðar sönnur á að ákærði og meðákærði Y hafi í félagi ráðist á A og slegið hann hnefahöggum. Með vísan til 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verða þeir því sýknaðir af sakargiftum í máli þessu.
Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður kröfu A vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærðu, X og Y, eru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins.
Kröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu í héraði allt eins og ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi og málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur til hvors þeirra.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. desember 2010.
Mál þetta, sem var dómtekið 29. október sl., höfðaði sýslumaðurinn á Húsavík hér fyrir dómi 19. maí 2010 með ákæru á hendur X, kt. [...], [...], [...] og Y, kt. [...], [...], [...];
„fyrir líkamsárás, með því að hafa í félagi aðfaranótt sunnudagsins 9. ágúst 2009, á lóð við [...] á [...], slegið A, kt. [...], hnefahöggum og sparkað í hann liggjandi, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut tannbrot, glóðarauga og áverka á hnakka.
Brot ákærðu telst varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gerir Helgi Bragason hdl., f.h. A, kröfu um skaðabætur, samtals að fjárhæð kr. 450.110.“
Skipaður verjandi ákærða X krefst þess aðallega fyrir hans hönd að hann verði sýknaður, en ella ekki gerð refsing og í báðum tilvikum verði bótakröfu vísað frá. Til þrautavara krefst hann þess að dæmd verði vægasta refsing sem lög heimila og bótakrafa verði í því falli lækkuð.
Skipaður verjandi ákærða Y gerir samhljóða kröfur fyrir hönd hans.
I
Samkvæmt frumskýrslu B, lögregluvarðstjóra, hringdi ákærði Y til hans kl. 05:38 aðfaranótt 9. ágúst 2009 og óskaði eftir aðstoð lögreglu. Kvað hann sjö til tíu skipverja af [...] og/eða [...] vera að kasta flöskum í hús sitt og kvaðst mundu grípa til haglabyssu til að verja sig og það, kæmi lögregla ekki þegar. Var honum skipað að láta skotvopnið óhreyft. B, sem var staddur á [...] fór til [...] og hafði með sér liðsauka. Allt var með kyrrum kjörum fyrir utan heimili ákærða Y er þangað var komið Náðist í hann í síma þar sem hann var kominn heim til föður síns. Var farið þangað og rætt við hann og sambýliskonu hans. Sagði ákærði svo frá að hann hefði verið að skemmta sér um nóttina og verið staddur heima hjá sér þegar tveir skipverjar, líklega af [...] hefðu komið og ætlað að ryðjast inn í íbúðina. Hefðu þeir meðákærði, X, komið í veg fyrir það og vísað þeim út. Þá hefði meðákærði slegið skipverja þannig að nokkrar tennur hefðu brotnað og hann hefði fengið glóðaraugu. Eftir þennan atburð hefði öllum verið vísað út, en nokkru síðar hefðu sjö til tíu skipverjar komið að heimili hans og verið að leita að meðákærða. Þeir hefðu látið ófriðlega og m.a. kastað bjórflöskum og dósum í húsið. Segir síðan í frumskýrslu B, sem dagsett er 26. mars 2010, að þrátt fyrir ítarlega leit hafi ekki tekist að finna neitt vitni, hvorki heimafólk sem hefði verið í húsinu þegar atburðir hefðu gerst, né skipverja sem hefðu að sögn verið í eða við íbúðina. Hefðu allir sem rætt hefði verið við borið við ofurölvun þessa nótt og að þeir myndu þess vegna ekkert frá atburðinum.
A kærði til lögreglu kl. 13:57 þann 9. ágúst 2009. Skráði B skýrslu hans, þar sem hann kvaðst hafa verið við neyslu áfengis og orðið mjög ölvaður. Hann myndi eftir því að hafa verið staddur inni í íbúð sem væri blá að utan. Sér hefði verið vísað út og sér hefði virst sem það hefðu verið fleiri en einn sem á hann réðust. Hann hefði verið sleginn og fallið í grasið og síðan hefði verið sparkað í hann liggjandi. Kvaðst hann þó ekki muna vel eftir þessu sökum ölvunar og einnig vegna áverka. Hann kvaðst þó muna eftir ungum renglulegum manni sem hefði haft sig mikið í frammi og verið æstur. Hann hefði um hádegið farið á heilsugæslustöð til skoðunar og væri hann með brotna augntönn og glóðarauga hægra megin, auk þess sem hann væri aumur í hægri öxl.
Skipsfélagi A, C, gaf B skýrslu sama dag og kvaðst einnig hafa verið mjög ölvaður og þess vegna lítið muna eftir atburðum, en það hefði verið komið fram undir morgun og hann þá staddur við [...]. Hann hefði veitt því athygli að verið væri að ráðast á A fyrir utan eitthvert hús þarna. A hefði legið á lóðinni. Hann myndi ekki hvort það hefðu verið einn eða fleiri sem hefðu ráðist á hann, en hann hefði þegar farið honum til aðstoðar og þá fengið spark í neðanvert andlitið hægra megin. Þetta hefði ekki orðið til að bæta minni hans og það næsta sem hann myndi væri að þeir félagar og e.t.v. einhverjir fleiri hefðu verið að staulast um borð. Hann hefði ekki orðið fyrir alvarlegum meiðslum, einungis verið bólginn og ætlaði ekki að kæra atvikið fyrir sitt leyti.
B yfirheyrði ákærða X síðdegis sama dag. Kvaðst hann hafa farið ásamt fleirum heim til meðákærða eftir dvöl á veitingastað. Skömmu eftir það hefði hann heyrt læti við inngang við ,,svalahurð“ og farið og athugað hvað væri um að vera. Hefði hann séð að meðákærði Y hefði verið eitthvað að takast á við tvo menn, sem hann hefði ekki þekkt. Hann hefði farið meðákærða til aðstoðar og hefðu þeir slegist við þessa menn úti á lóðinni og högg gengið á milli. Fólk hefði komið að innan og blandað sér í málið og verið að reyna að stöðva þessi slagsmál á milli þeirra. Eftir nokkra stund hefði þessu linnt og hann hefði farið heim að sofa. Hann væri aumur hér og þar og föt hans hefðu verið rifin.
Ákærða Y yfirheyrði B 23. febrúar 2010. Hann skýrði svo frá að hann myndi ekki mjög vel eftir atburðinum, en kvaðst hafa verið að skemmta sér þetta kvöld og farið heim ásamt meðákærða, D og unnustu sinni E. Hugsanlega hefðu einhverjir fleiri komið með honum heim, en hann myndi það ekki. Dyr hefðu verið opnar út á lóð hússins til að lofta út. Eftir að hann hefði verið heima í um 20 mínútur hefðu komið sex til sjö skipverjar af skipum frá [...] og beðið um að fá að koma inn, en þeim hefði verið neitað um það. Þrír til fjórir hefðu farið á brott, en hinir, sem hann taldi að hefðu verið þrír, hefðu ruðst inn í íbúðina. Þeir meðákærði hefðu fleygt þeim út um ,,svalahurðina“ og kvaðst hann muna eftir því að meðákærði hefði rotað einn þeirra með því að slá hann með krepptum hnefa og hann fallið við það út um dyrnar og hafnað liggjandi á lóðinni. Átök, rifrildi og slagsmál hefðu haldið eitthvað áfram þarna á lóðinni fyrir utan húsið og hefðu gengið högg og spörk á milli manna, en sá sem rotaðist hefði ekki haft sig meira í frammi. Þessum slagsmálum hefði linnt eftir stutta stund og hefðu þessir menn síðan farið að húsi nr. [...] við [...] þar sem heimilisfólk þar og eitthvað fleira fólk hefði verið utan dyra að spjalla. Þeir meðákærði og fleiri hefðu farið á eftir þessum mönnum að húsinu nr. [...] og hefðu þá öll illindi verið úr sögunni. Nokkru síðar hefði meðákærði farið til síns heima og þau E heim til sín. Nokkru síðar hefðu þau orðið vör við að verið væri að grýta íbúð þeirra. Hann hefði þá farið fram til að athuga hvað á gengi. Hefðu þar verið komnir þessir þrír sem hefðu lent í átökum við þá, kastað bjórdósum og bjórflöskum og barið á dyrnar með skóflu og slitið upp runna í garðinum. E hefði hlaupið til föður hans eftir aðstoð og síðan hefði hann sjálfur farið heim til nágranna síns, til að fá aðstoð hjá honum. Þá hefði hann séð að þessir menn hefðu gengið frá húsi hans og haldið út [...]. Þá hefði hann farið til föður síns og haft samband við lögreglu.
Samkvæmt samskiptaseðli sem ritaður er af Ármanni Jónssyni, lækni við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, kom A á heilsugæslustöð eftir hádegi 9. ágúst 2009 ásamt félaga sínum, eftir að hafa lent í áflogum nóttina áður. Hann var spurður út í atvik og kvaðst muna að hafa farið láréttur út úr húsi. Haft er eftir félaga A að hann hefði komið að honum og þá hefði hann verið búinn að lenda í einhverjum áflogum. Samkvæmt seðli þessum greindist A með brotna tönn í efri gómi hægra megin og einnig glóðarauga hægra megin, auk þess sem tvær kúlur voru á aftanverðum hvirfli.
II
Ákærði X bar fyrir dómi að hann hefði verið búinn að drekka nokkuð um nóttina, en þó ekki verið ofurölvi. Hann hefði farið heim af veitingastað ásamt meðákærða og tveimur stúlkum. Hefðu þau verið fjögur í húsinu. Hann hefði setið við eldhúsborð og horft út um glugga og séð stóran mann fara inn í húsið. Rétt á eftir hefði hann heyrt ákærða Y öskra og síðan séð hann koma út um svalahurðina og manninn á eftir. Þarna hefði verið annar maður, dökkhærður, og hefðu þeir ráðist á meðákærða. Ákærði kvaðst hafa hlaupið til og slegið annan manninn. Hefði það verið þybbinn maður, álíka hávaxinn og ákærði, sem kvaðst vera 183 sm á hæð, og verið með svart hár. Maðurinn hefði steinrotast. Síðan hefði ákærði skyndilega verið kominn á loft. Öflugur, stór og sterkur maður hefði ráðist á hann aftan frá og þeir hefðu velst um í grasinu. Þeir hefðu flogist þarna á uns áflogin hefðu fjarað út. Föt ákærða hefðu öll verið rifin. Hinn maðurinn hefði hlaupið yfir í næsta garð og sótt skóflu. Sá sem ákærði hefði slegið niður hefði þá verið staðinn upp og nágranni meðákærða, F, verið að tala við hann. Sá með skófluna hefði verið „snælduvitlaus“ og öskrað hótanir og formælingar. Kvaðst ákærði hafa komið sér á brott og síðan farið að sofa. Aðspurður kvaðst ákærði hafa talið meðákærða vera í hættu staddan. Sjálfur kvaðst hann hafa óttast um líf sitt og fundist sem ætti að ganga frá honum þarna. Hann kvaðst ekki hafa sparkað í neinn en það hefði verið sparkað til sín. Hann kvaðst ekki geta gert grein fyrir því hvað meðákærði hefði aðhafst meðan hann stóð í slagsmálunum sjálfur.
Ákærði Y kvaðst hafa verið ölvaður þessa nótt en ekki ofurölvi. Hann kvaðst hafa farið heim til sín um nóttina ásamt meðákærða og unnustu sinni, E. Þá hefðu verið þarna tvær aðrar stúlkur sem hann nafngreindi. Enn fremur F. Þá sagði ákærði að sér fyndist sem enn einn maður hefði fylgt þeim heim, en hann væri ekki viss um hvort hann hefði enn verið á staðnum er atvik hefðu gerst. Þau hefðu setið inni í stofu, en verið gæti að einhver þeirra hefðu verið annars staðar í húsinu. Eftir hálfa klukkustund eða þrjá stundarfjórðunga hefði maður birst inni á stofugólfi. Ákærði kvaðst ekki kannast við að maðurinn hefði barið að dyrum áður við aðalinnganginn, en hann hefði komið inn um dyr sem snúi að garðinum. Ákærði kvaðst ekki þekkja þennan mann og hvorki hafa séð hann fyrr né síðar. Hann kvaðst hafa beðið manninn að fara út, en hann hefði ekki hlýtt því og brúkað munn. Ákærði kvaðst hafa fylgt manninum að dyrunum og ýtt honum út fyrir, en maðurinn hefði þá dregið hann með. Þetta hefði verið maður hærri en ákærði, sem kvaðst sjálfur vera 178 sm á hæð, og töluvert þykkri. Hann hefði verið með mjög stutt dökkt hár, broddaklippingu. Fyrir utan hefði maðurinn farið að stimpast við hann og þeir hvor við annan. Annar maður hefði staðið við dyrnar og tveir til þrír menn hefðu verið í nágrenninu. Sá sem úti stóð hefði gengið á milli og síðan hefði ákærði tekist á í smá stund við þann mann. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað meira af þeim sem inn hefði komið, nema það að meðákærði hefði komið og slegið hann. Hvað meðákærði hefði síðan gert kvaðst ákærði ekki vita. Ákærði lýsti manninum sem ekki kom inn þannig, að hann hefði verið álíka hár og sá sem inn kom. Hann hefði verið með töluvert hár, ekki dökkt en kannski skollitað. Ítrekaði ákærði það að meðákærði hefði slegið manninn sem inn í stofuna kom. Þeir sem hefðu staðið álengdar hefðu síðan gengið á milli og stöðvað átök. Ákærði neitaði því að hafa sparkað í liggjandi mann. Hann sagði menn hafa rifist úti við götu í töluverðan tíma eftir að átök hefðu stöðvast. Síðar um nóttina hefðu menn komið aftur. Þá hefðu þau E verið tvö ein heima. Mennirnir hefðu barið að dyrum en ákærði ekki opnað. Mennirnir hefðu haft uppi hótanir fyrir utan, barið á hurð með skóflu og talað um að ákærðu hefðu brotið allar tennurnar úr einum þeirra. Þá hefðu þeir hótað að drepa ákærða og verið með alls konar slíkar yfirlýsingar. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa séð annað á þeim manni sem meðákærði sló en að það hefði blætt úr nefinu á honum. Þessi maður hefði rotast og hefði þurft að styðja hann á brott. Ákærði kvaðst ekki hafa slegið nokkurn mann í andlitið og ekki hafa séð meðákærða sparka í nokkurn mann. Átökin í heild hefðu aðeins varað í örstutta stund.
Vitnið A kvaðst hafa farið ásamt fleirum í veislu inn í [...] og orðið verulega ölvaður. Er þeir hefðu komið aftur til [...] hefðu þeir orðið varir við að gleðskapur væri í húsi og knúið dyra, en verið meinuð innganga. Þeir C hefðu þarna verið orðnir viðskila við félaga sína og kvaðst vitnið hafa gengið inn í þetta hús um ,,svaladyr,“ sem hefðu verið opnar út á lóðina. Einhver orðaskipti hefðu orðið þarna, en hann kvaðst ekki muna einstök orð eða setningar, en hann hefði verið með eitthvert ,,fíflarí“ þarna inni, eitthvert grín bara. Sér hefði síðan verið vísað út og hann verið sleginn niður. Hann myndi síðan eftir sér þarna fyrir utan þar sem hefði verið sparkað í höfuð hans og kvaðst hann hafa haldið að ætti að drepa sig þarna. C félagi hans hefði reynt að stöðva þetta en fengið sömu meðferð. Þeir hefðu síðan komið sér undan. Hann kvaðst vera 189,5 sm. hár og vega 83-84 kg, kalla háralit sinn músagráan og ekki hafa verið mjög snöggklipptur, en snyrtilega klipptur. Hann kvaðst halda að flestallir sem hefðu verið þarna inni í íbúðinni hefðu staðið upp til að koma honum út. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði fengið á sig fleiri högg en eitt, en hann kvaðst muna eftir einu sem hefði lent í andlitinu á sér og sagði að sig minni að það hefði lent í auganu á sér. Hann kvaðst ekki viss um að það högg hefði valdið tannbrotinu. Hann kvaðst halda að hann hefði dottið út í smá tíma og hafa rankað við sér við það að sparkað hefði verið í hann og hann hefði þá haldið höndunum yfir höfðinu. Hann kvaðst telja að það hefði verið maður sköllóttur, í merkingunni mjög snöggklipptur, svona eins og það væri þriggja daga gamalt skegg, sem hefði slegið hann. Hann kveðst vera sannfærður um að fleiri en tveir menn hefðu sparkað í hann og það hefði verið fullt af fólki þarna. Sá sem sló hann þessu höggi sem hann myndi sérstaklega eftir hefði líklega verið ,,svona rauðbirkinn.“ Ungur renglulegur maður sem hann hefði lýst í lögregluskýrslu hefði verið sá sem búi þarna en það hefði ekki verið sá sem hefði slegið hann.
Vitnið C segist hafa beðið við húshornið á meðan A fór á bak við hús. Síðan hafi hann ekki vitað fyrr en mikil læti hafi orðið þarna á lóðinni og alla vega þrír menn að hamast á A. Vitnið kveðst hafa farið í hrúguna og fengið spark í andlitið. Vitnið kveðst vera 179 sm á hæð og um 100 kg, en kannski hafi hann verið um 90 kg á þessum tíma. Hann kveðst ekki hafa verið snöggklipptur. Hann kveðst lýsa háralit sínum sem ,,svona skítabrúnum,“ þ.e.a.s. í dekkri kantinum. Hann kveðst ekki geta sagt til um það hvers vegna A féll þarna, en hann hafi farið í hrúguna til að reyna að hjálpa honum. Þetta hafi verið samfelld atlaga að A. Hann kveðst muna eftir háum grönnum manni, sem hann telur að heiti Y og einn hafi verið ,,sköllóttur“, þ.e. með lítið hár, og frekar þrekinn. Þá kveðst hann viss um að þriðji maðurinn hafi verið maður sem hann sá daginn eftir átökin og síðan fyrir framan dómsal áður en hann gekk til skýrslutöku. Er ljóst að F sá hann fyrir framan dómsalinn. Þeir A hafi síðan komið sér undan.
Nefndur F gaf skýrslu fyrir dómi og kveðst hafa verið í veislunni og hafa orðið var við stympingar fyrir utan. Hann hafi sjálfur verið í eldhúsinu. Hann hafi farið út og farið að hlúa að manni sem hafi legið þarna og þurrkað framan úr honum. Kveður hann það hafa verið þéttvaxinn mann, sem hafi verið inni í dómsalnum næst á undan honum. Næstur á undan F í dómsalnum var C. Vitnið kveðst hafa verið mjög ölvað. Það kveðst ekki hafa séð nein átök.
Þá gaf skýrslu fyrir dómi B, lögregluvarðstjóri. Auk þess sem þegar er eftir honum haft úr frumskýrslu kvað hann hafa komið í ljós við frumathugun að ákærði Y hefði talið ákærða X hafa slegið tennur úr A. Vilji hefði komið fram hjá ákærða Y til að leysa þetta með greiðslu. Hefði vitnið hringt í A fyrir þá félaga og innt hann eftir afstöðu hans til þess. Hefði hann tekið því líklega og ætlað að hafa samband þegar hann kæmi aftur frá [...], en af einhverri ástæðu hefði hann ekki gert það.
Þá gaf skýrslu vitnið E og sagði að það hefði komið dökkhærður feitlaginn maður inn um ,,svalahurðina“ og hefði ákærði Y fleygt honum út. Hún hefði ekki séð hvað gerðist úti en hefði orðið vör við að þarna hefðu verið læti.
III
Í málinu verður að telja upplýst að aðfaranótt 9. ágúst 2009 var knúið dyra heima hjá ákærða Y að [...]. Ekki er ljóst hve margir voru fyrir dyrum úti, en þar virðast hafa verið á meðal þeir A og C. Erindi komumanna var að taka þátt í samkvæmi, sem þeim sýndist vera innandyra. Þeim var synjað inngöngu. Ekki liggur fyrir hver það gerði. Hvort sem þeir voru fleiri eða færri í upphafi urðu örugglega tveir eftir af komumönnum, þeir A og C. Þeir eru sammála um að það hafi verið A sem síðan fór á bak við húsið og inn í stofu um opnar dyr. Lýsing ákærða X á þeim manni sem fór inn í húsið er fremur í samræmi við það að það hafi verið A sem inn fór, en lýsing ákærða Y og vitnisins E, bendir jafnvel fremur en hitt til C. Þrátt fyrir það verður að miða við að það hafi verið A sem inn fór, enda ber hann svo sjálfur og C félagi hans líka.
A reyndist ekki velkominn. Ber ákærði Y að hafa leitt hann út. Síðan kom til átaka fyrir utan, sem ákærði Y lýsir þannig að þarna hafi byrjað stimpingar og annar maður, sem samkvæmt framansögðu var C, hafi verið fyrir utan. A hafi farið að taka á ákærða er út var komið. C hafi þá gengið á milli og þeir ákærði síðan tekist á í svolitla stund. Segir ákærði Y að meðákærði X hafi slegið þann sem kom inn í húsið, þ.e. A samkvæmt framansögðu. Segir ákærði Y að A hafi þá rotast og hafi hann enn verið liggjandi þegar átökum milli ákærða Y og C lauk. Hvað meðákærði X hafi aðhafst í þessum átökum, ef eitthvað, eftir að hann sló A niður, kvaðst ákærði Y ekki geta borið um.
Ákærði X lýsir þessum átökum þannig að hann hafi orðið var við að meðákærði væri í átökum fyrir utan. Hann hafi farið út og slegið niður mann, þann sem ekki hefði farið inn í íbúðina. Eftir það hafi ráðist að honum sá sem inn hefði farið, hávaxinn maður og öflugur. Segir ákærði að þeir hafi barist stutta stund. Kveðst hann ekki geta sagt til um hvað meðákærði aðhafðist á meðan. Þessi áflog hafi síðan fjarað út og ákærði komist undan.
Samkvæmt framburði A var það hann sem var sleginn niður. Fer það saman við framburð C, að því leyti að C kveðst hafa farið í hrúgu af mönnum sem hafi verið að þjarma að A. Báðir segja síðan að þessi átök hafi fjarað út og þeir komið sér undan.
Vitnið F, sem kveðst ekki hafa séð átökin en komið út er þeim hafi verið lokið, kveðst hafa hlúð að manni sem hafi blætt úr. Lýsingu hans á manninum svipar frekar til C en A.
Áflog þau sem þetta mál varðar gerðust utan dyra að næturlagi. Þótt fólk væri innandyra hefur ekki verið leitt í ljós að neitt vitni hafi orðið að áflogunum sjálfum, að frágengnum þeim fjórum sem örugglega tóku þátt í þeim. Allir voru þeir ölvaðir. Er erfitt að slá miklu föstu um gang átakanna í einstökum atriðum, sérstaklega því hvort það var ákærði Y eða brotaþolinn A sem fyrst beitti hnefarétti, hafi þeir ekki gert það samtímis. Verður að miða við að til handalögmála hafi komið milli þeirra í þeim svifum er út var komið. Skýrara er að ákærði X blandaði sér þá í leikinn, sló mann niður og flaugst á við annan, ef byggt er á lýsingu hans sjálfs.
Bæði A og C hlutu áverka í átökum sínum við ákærðu en ákærðu voru að mestu ósárir. Ákærði X ber þó um að hafa kennt til eymsla og að föt hans hafi verið rifin.
Þótt misræmi sé í framburði ákærðu um það hvern ákærði X hafi slegið niður, verður litið til þess að ákærði Y ber eindregið að það hafi verið A. Er þá miðað við það sem staðreynd eins og áður segir, að A hafi verið sá sem inn í íbúðina fór. A ber einnig eindregið að hafa verið sleginn niður og ljóst er af framburði C að hann telur sig hafa fengið spark í andlitið, en ekki rotast af því. Þegar þetta er virt í heild þykir ekki varhugavert að slá því föstu að ákærði X fari mannavillt í lýsingu sinni á atvikum og það hafi verið A sem hann sló niður, en ekki C.
Í ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa í félagi slegið A hnefahöggum og sparkaði í hann liggjandi, allt með nánar greindum afleiðingum. Eftir því sem atburðarás hefur hér verið rakin verður að miða við að fyrst hafi komið til þess sem ákærði Y kallar stimpingar, milli hans og A og síðan hafi meðákærði komið til og slegið A niður. Af áverkum A er óhjákvæmilegt að álykta að hann hafi orðið fyrir fleiri höggum en einu, þótt hann muni sjálfur ekki sérstaklega eftir öðru höggi en einu sem hann kveðst hafa fengið í augað. Að fráteknu högginu sem ákærði X greiddi, er ómögulegt að aðgreina einstök atriði í atlögu ákærðu að A, hvað þá afleiðingar hvað hvert atriði varðar. Verður fallist á það með ákæruvaldinu að ákærðu hafi í félagi ráðist að A og slegið hann hnefahöggum. Gegn eindreginni neitun beggja ákærðu verður hins vegar ekki talið nægilega sannað að þeir hafi sparkað í hann liggjandi.
Hér að framan er getið lýsingar læknis á ástandi A við skoðun daginn eftir. Þar kemur einnig fram að brotin tönn hafi sést í efri gómi hægra megin, framanvert við hlið framtanna, þar sem hafi sést inn í taugarótina. Frekari sjálfstæð gögn eru ekki um þennan áverka, en í fylgigögnum bótakröfu má sjá á reikningi tannlæknis ritað að opið hafi verið inn í ,,pulpu,“ og ,,króna brotin.“ Af frekari fylgigögnum bótakröfu má ráða, að A hafi síðan hafi fengið fyrst plastkrónu og síðan postulínskrónu þessu til úrbóta.
Þótt ekki hafi verið aflað sérstaks vottorðs tannlæknis um áverka A og heilsugæslulæknir sem ritaði lýsingu á áverka hans hafi ekki verið kallaður fyrir dóm, er ekki varhugavert að leggja til grundvallar lýsingu heilsugæslulæknisins um að tönn hafi verið brotin svo að sást inn í rót. Samkvæmt því er fallist á það með ákæruvaldinu að tannbrot hafi leitt af árás ákærðu, auk glóðarauga og áverka á hnakka, þ.e. tvær kúlur samkvæmt lýsingu læknis. Verður fallist á það með ákæruvaldinu að háttsemi ákærðu varði með tilliti til tannbrotsins við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærðu byggja báðir á því að sýkna beri þá af kröfum ákæruvaldsins með skírskotun til 12. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt 1. mgr. hennar er það verk refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. skal manni ekki refsað, hafi hann farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar, af þeirri ástæðu að hann hafi orðið svo skelfdur eða forviða, að hann gat ekki fullkomlega gætt sín.
Svo sem að framan greinir er mjög óljóst um upptök handalögmálanna, sem byrjuðu milli ákærða Y og A. Þrátt fyrir það er ekki unnt að líta svo á að ákærði Y hafi við dyrnar eða fyrir utan þær verið í slíkri hættu staddur að það yrði honum réttmætt tilefni að ráðast að A. Er hér til þess að líta að ekki verður á því byggt að A hafi veitt mótspyrnu er honum var fylgt út. Þá var fólk innan dyra, þ.á m. meðákærði og F. Er ekki annað sýnt en að ákærði Y hafi átt þess kost að hörfa inn fyrir, hafi svo verið að A hafi gerst honum ógnvænlegur er út í dyrnar var komið. Þá verður að telja að ákærði X hafi beitt mun harkalegri árás, er hann kom til, en efni hafi verið til. Þegar þetta er virt verður ekki á það fallist með ákærðu að ákvæði 12. gr. almennra hegningarlaga eigi hér við.
Sakaferill ákærðu hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Við ákvörðun hennar verður að líta til þess að verkið unnu þeir í átökum við brotaþola, sem spruttu af því að hann gekk óboðinn inn á heimili ákærða Y. Þótt ekki hafi verið fallist á að beita ákvæðum 12. gr. almennra hegningarlaga er rétt með tilliti til atvika að beita ákvæði 3. mgr. 218. gr. b. sömu laga um báða ákærðu. Verður hvor um sig dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.
Bótakröfu er getið í ákæru. Er í fyrsta lagi um að ræða kröfu um endurgreiðslu kostnaðar samkvæmt 7 tilgreindum reikningum, samtals að fjárhæð 144.690 krónur og í öðru lagi miskabætur að fjárhæð 200.000 krónur. Þá er krafist 105.420 króna í málskostnað. Bótakröfunni er mótmælt af hálfu ákærðu sem vanreifaðri og of hárri.
Ákærðu bera bótaábyrgð samkvæmt almennri sakarreglu skaðabótaréttar á tjóni brotaþola af árásinni. Ekki verður að fallist á að skipta beri sök, þannig að hann eigi að bera hluta tjóns síns sjálfur.
Framlagðir reikningar bera allir með sér að vera vegna meðferðar á framangreindu tannbroti, utan sá síðasti í röðinni sem er vegna skoðunar, röntgenmyndar og tannsteinshreinsunar, samtals að fjárhæð 8.500 krónur. Verður honum vísað frá vegna vanreifunar, en ákærðu dæmdir til að greiða brotaþola annan útlagðan kostnað vegna tannbrotsins, samtals 136.190 krónur.
Fallist er á að ákærðu hafi bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta samkvæmt 26. gr. laga nr. 50, 1993. Ákveðast þær 150.000 krónur. Málskostnaður ákveðst 75.000 krónur. Vextir verða ekki dæmdir, þar sem krafa um þá kemur ekki fram í ákæru.
Dæma ber ákærðu til að greiða kostnað sakarinnar. Ferðakostnaður vitna við aðalmeðferð nemur samkvæmt yfirliti 55.824 krónum. Málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnaður þeirra ákveðst eins og greinir í dómsorði.
Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.
Málið fluttu Svavar Pálsson settur sýslumaður, af hálfu ákæruvalds, Agnar Þór Guðmundsson héraðsdómslögmaður, skipaður verjandi ákærða X og Páll Eiríkur Kristinsson héraðsdómslögmaður, skipaður verjandi ákærða Y.
Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Ákærðu, X og Y, sæti hvor um sig fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingar hvors um sig skal fresta og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærðu greiði óskipt A 286.190 krónur og 75.000 krónur í málskostnað.
Ákærðu greiði óskipt 55.824 krónur í sakarkostnað.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Agnars Þórs Guðmundssonar hdl., 313.750 krónur og ferðakostnað hans, 35.125 krónur.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Eiríks Kristinssonar hdl., 313.750 krónur og ferðakostnað hans, 35.125 krónur.