Hæstiréttur íslands

Mál nr. 435/2002


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Aðilaskipti
  • Evrópska efnahagssvæðið


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. maí 2003.

Nr. 435/2002.

Austurleið-SBS hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

gegn

Ragnheiði Eggertsdóttur

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Aðilaskipti að fyrirtækjum. Evrópska efnahagssvæðið.

Deilt var um hvort yfirtaka A hf. á farmiðasölu og pakkaafgreiðslu, sem K ehf. hafði annast fyrir það samkvæmt sérstökum samningi þar um, hefði falið í sér aðilaskipti í skilningi þágildandi laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hvort því hafi á þeim grundvelli borið að greiða R, fyrrum starfsmanni K ehf., þriggja mánaða laun á uppsagnarfresti. Tekið var fram að þjónusta sú sem A hf. tók að sér hefði verið afmarkaður þáttur í rekstri K ehf. Hún hefði ekki verið innt af hendi af starfsmönnum, sem sinntu henni eingöngu, heldur hefði hún verið samofin veitingarekstri þess. Gat þessi þjónusta því ekki talist hafa verið efnahagsleg eining, sem haldið hefði sérkennum sínum þegar A hf. tók sjálft við henni vegna vanskila viðsemjanda síns og sinnti henni á sama stað, en hún var óhjákvæmilegur þáttur í starfsemi þess sjálfs. Með vísan til orðalags laga nr. 77/1993 og athugasemda í greinargerð með frumvarpi til þeirra yrði því að telja að uppsögn A hf. á samningum við K ehf. og yfirtaka hans á þjónustunni hefði ekki falið í sér aðilaskipti í skilningi laganna. A hf. tók því ekki við ráðningarsamningi R við K ehf. og hélt hún ekki rétti til þriggja mánaða uppsagnarfrests hjá honum. Var A hf. því sýknað af kröfu R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. september 2002 og krefst sýknu af kröfum stefndu en til vara lækkunar þeirra. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í héraði höfðaði hún málið einnig gegn Kaffi Bistró ehf., sem var sýknað af kröfum hennar. Hefur því ekki verið stefnt fyrir Hæstarétt.

I.

Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort yfirtaka áfrýjanda á farmiðasölu og pakkaafgreiðslu umferðarmiðstöðvar á Selfossi, sem Kaffi Bistró ehf. hafði annast fyrir hann frá júníbyrjun 2000, hafi falið í sér aðilaskipti í skilningi þágildandi laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sbr. nú lög nr. 72/2002. Deilt er um hvort honum hafi á þeim grundvelli borið að greiða stefndu þriggja mánaða laun á uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði sérkjarasamnings sem fyrri vinnuveitandi hennar, Kaffi Bistró ehf., hafði gert við Verkalýðsfélagið Báruna-Þór. Verði fallist á með héraðsdómi að um aðilaskipti í skilningi laganna hafi verið að ræða er einnig deilt um lögmæti uppsagnar Kaffi Bistró ehf. á ráðningarsamningi stefndu 30. nóvember 2000.

II.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Kaupfélag Árnesinga rak veitinga- og greiðasölu undir nafninu Fossnesti við Austurveg á Selfossi. Áfrýjandi gerði 1996 leigusamning við kaupfélagið um aðstöðu vegna afgreiðslu áætlunarbifreiða sinna, afnot af húsnæði undir farmiðasölu, afgreiðslu á pökkum, upplýsingagjöf til farþega og viðskiptavina ásamt aðstöðu fyrir bifreiðastjórana. Gildistími hans var frá 7. mars 1996 til 1. mars 2001. Sagði í samningnum meðal annars að aðilar væru sammála um að rekstur hins leigða gæti talist umferðamiðstöð Selfoss í framtíðinni, þar sem til húsa verði eina afgreiðslan við viðskiptavini áfrýjanda í bænum.

Einkahlutafélagið Kaffi Bistró tók við rekstri verslunar og veitingasölu kaupfélagsins og gekk inn í leigusamninginn við áfrýjanda í júní 2000 og hóf stefnda störf hjá því fyrirtæki. Fyrir þessa þjónustu ásamt leigu fyrir afnot af húsnæði og aðstöðu fyrir bifreiðar áfrýjanda greiddi hann Kaffi Bistró ehf. 93.390 krónur á mánuði. Fljótlega eftir að einkahlutafélagið tók við farmiðasölunni hætti það að standa skil á uppgjörum fyrir selda farmiða. Í lok nóvember 2000 þótti áfrýjanda sýnt að skuldin, sem þá var komin í tæpar 6 milljónir króna, fengist ekki greidd og því ákvað hann að taka farmiðasöluna úr höndum félagsins og annast hana sjálfur. Það var gert 1. desember 2000, en jafnframt gert ráð fyrir því að starfsfólk Kaffi Bistró, stefnda og önnur stúlka, myndi sinna starfinu áfram og að áfrýjandi endurgreiddi félaginu laun þeirra, sem hann hugðist gera með jöfnuði við skuld félagsins við sig. Þegar kom að launagreiðslu fyrir desember taldi það félag sig ekki geta greitt launin, sem leiddi til þess að áfrýjandi greiddi launin 20. desember.

Í janúarbyrjun hóf stefnda störf hjá áfrýjanda og hætti störfum hjá Kaffi Bistró ehf. Skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður en stefnda hélt sömu launakjörum og vöktum og áður.

III.

Með lögum nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum voru lögfestar reglur tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 77/187/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segir að með aðilaskiptum sé átt við þau tilvik þegar nýr aðili, einstaklingur eða lögaðili, verði lagalega ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækis, atvinnurekstrar eða hluta hans. Afgerandi sé einnig í því sambandi hvort fyrirtækið eða sá hluti þess sem framseldur sé, haldi áfram rekstri með sama eða svipuðum hætti og áður. Samkvæmt gögnum til skýringar á tilskipun Evrópubandalagsins hefur það verið skilningur dómstóls Evrópubandalaganna að það sem framselt sé til annars rekstraraðila sé stöðug, starfshæf, efnahagsleg eining með skipulag og einkenni, sem nauðsynleg séu til rekstrar einingar, og ekki takmarkist við sérgreint verkefni.

Í athugasemdum með frumvarpi til nýju laganna nr. 72/2002 kemur fram að ný tilskipun bandalagsins, nr. 98/50/EB, um þetta efni hafi verið sett 1998. Þar hafi hugtakið aðilaskipti verið skýrt nánar með tilliti til túlkunar dómstólsins á 1. mgr. 1. gr. fyrri tilskipunar. Í máli C-24/85 hafi dómstóllinn talið meginviðmiðið til að ákvarða hvort um væri að ræða aðilaskipti vera hvort fyrirtækið héldi einkennum sínum. Því þurfi að líta til þess um hvaða tegund fyrirtækis sé að ræða, hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld, svo sem fasteignir eða lausafé, og hvert sé virði óhlutbundinna verðmæta þegar aðilaskipti fara fram. Einnig, hvort meiri hluti starfsmanna flyst til hins nýja vinnuveitanda og hvort framsalshafi haldi viðskiptavinum framseljanda. Líta þurfi heildstætt á þessi atriði. Hefur þetta verið staðfest í dómum EFTA-dómstólsins. Í nýju lögunum eru orðskýringar í 2. gr. Þar segir í 4. tölulið: „Aðilaskipti eru aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi.”

IV.

Þeir sem voru með verslunar- og veitingarekstur í húsnæðinu við Austurveg á Selfossi tóku að sér farmiðasölu og böggla- og upplýsingaþjónustu fyrir áfrýjanda, svokallaða umferðamiðstöð, og felldu hana inn í sína starfsemi, væntanlega til þess að auka viðskipti hjá sér. Áfrýjandi rifti þessum samningi vegna vanskila á uppgjörum fyrir selda farmiða og tók sjálfur að sér þessa þjónustu. Þjónustan var og er nauðsynlegur þáttur í starfsemi áfrýjanda, en var einungis afmarkaður þáttur í rekstri viðsemjanda hans á staðnum. Hér er til úrlausnar hvort hún geti talist efnahagsleg eining sem hafi haldið einkennum sínum eftir að áfrýjandi tók hana til sín úr höndum Kaffi Bistró ehf.

Þjónusta fyrri vinnuveitanda stefndu við áfrýjanda var ekki innt af hendi af starfsmönnum, sem sinntu henni eingöngu, heldur var hún samofin veitingarekstri hans. Þjónustan var afmarkaður rekstrarþáttur í starfsemi Kaffi Bistró ehf. og getur ekki talist hafa verið efnahagsleg eining, sem haldið hafi sérkennum sínum þegar áfrýjandi tók sjálfur við henni vegna vanskila viðsemjanda síns og sinnti henni á sama stað. Þessi tiltekna þjónusta var óhjákvæmilegur þáttur í starfsemi áfrýjanda sjálfs, sem fenginn hafði verið Kaupfélagi Árnesinga og síðar Kaffi Bistró ehf. með sérstökum og tímabundnum samningi. Þegar þetta er virt í ljósi orðalags laga nr. 77/1993 og athugasemda í greinargerð með frumvarpi til þeirra, sbr. og athugasemdir með frumvarpi til laga nr. 72/2002, verður að telja að uppsögn áfrýjanda á samningnum við einkahlutafélagið og yfirtaka hans á þjónustunni hafi ekki falið í sér aðilaskipti í skilningi fyrrgreindu laganna. Áfrýjandi tók því ekki, eins og hér stóð á, við ráðningarsamningi stefndu við Kaffi Bistró ehf. og hélt hún ekki rétti til þriggja mánaða uppsagnarfrests hjá honum. Hann sagði stefndu upp störfum 15. janúar 2001 og greiddi henni laun í uppsagnarfresti út febrúar. Er það í samræmi við 13. kafla heildarkjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs fyrir veitinga- og greiðasölustarfsemi. Á stefnda því ekki frekari kröfur á áfrýjanda vegna uppsagnarinnar og ber að sýkna hann af kröfu hennar í máli þessu.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Austurleið-SBS hf., er sýkn af kröfu stefndu, Ragnheiðar Eggertsdóttur.

Málskostnaður þeirra í milli í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. apríl 2002.

Mál þetta var höfðað 17. ágúst 2001. Málið var dómtekið að loknum málflutningi 1. mars 2002 en það var ekki flutt af hálfu stefnda Kaffi Bistró ehf.

Stefnandi er Ragnheiður Eggertsdóttir, kt. 221274-3509, Eyrarbraut 45, Stokkseyri.

Stefndu eru Austurleið-SBS hf., kt. 430169-7509, Hvolsvegi 14, Hvolsvelli og Kaffi Bistró ehf., kt. 660500-2430, Austurvegi 46, Selfossi.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu launaskuldar að fjárhæð kr. 361.311 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 32.401 frá 1. mars 2001 til 1. apríl 2001, af kr. 201.422 frá þeim degi til 1. maí 2001, en af kr. 361.311 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. mars 2002. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi, Austurleið-SBS hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Stefndi, Kaffi Bistró ehf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Málavextir

Stefndi Kaffi Bistró ehf. sá um rekstur umferðarmiðstöðvar í Fossnesti fyrir stefnda Austurleið-SBS hf. auk þess að vera þar með rekstur verslunar og veitingasölu. Umferðarmiðstöðin annaðist sölu farmiða, afgreiðslu á pökkum og upplýsingagjöf til viðskiptavina stefnda Austurleiðar-SBS hf. Fékk stefndi Kaffi Bistró ehf. greidda mánaðarlega þóknun fyrir að annast reksturinn. Seinni hluta nóvember 2000 tók stefndi Austurleið-SBS hf. ákvörðun um að hætta að láta stefnda Kaffi Bistró ehf. annast rekstur umferðarmiðstöðvarinnar og taka hann yfir. Ástæður þess kveður stefndi Austurleið-SBS hf. hafa verið vanskil stefnda Kaffi Bistró ehf.

Stefnandi hóf störf sem vaktstjóri hjá stefnda Kaffi Bistró ehf. í byrjun júnímánaðar 2000 en í því fólst að hún hafði yfirumsjón með “sjoppunni” og sá um pantanir, auk þess sem hún annaðist afgreiðslu í umferðarmiðstöðinni. Með bréfi dagsettu 30. nóvember 2000 sagði stefndi Kaffi Bistró ehf. stefnanda upp störfum frá 1. desember s.á. með eins mánaðar uppsagnarfresti. Ástæða uppsagnarinnar var sögð sú breyting að stefndi Austurleið-SBS hf., tæki yfir umferðarmiðstöðina 1. des. 2000. Stefnandi gerði engar formlegar athugasemdir við uppsögnina enda kveður hún það hafa legið fyrir að hún héldi áfram afgreiðslustörfum í umferðarmiðstöðinni þrátt fyrir hana.

Stefndi Austurleið-SBS hf. kveður ekki hafa staðið til að taka yfir ráðningarsamninga starfsmanna stefnda Kaffi Bistró ehf., sem unnið höfðu á umferðarmiðstöðinni, heldur endurgreiða stefnda Kaffi Bistró ehf. laun starfsmannanna til 1. janúar 2001. Hafi stefndi Austurleið-SBS hf. ætlað að nota tímann fram að áramótum til að endurskipuleggja rekstur umferðarmiðstöðvarinnar. Um 20. desember 2000 hafi það hins vegar gerst að forsvarsmaður stefnda Kaffi Bistró ehf. hafði samband við launafulltrúa stefnda Austurleiðar-SBS hf. og tilkynnti honum að hann gæti ekki greitt starfsmönnum umferðarmiðstöðvarinnar út laun vegna rekstrarerfiðleika. Hafi stefndi Austurleið-SBS hf. þá tekið ákvörðun um að greiða laun starfsmannanna til að forða þeim frá leiðindum og peningaerfiðleikum skömmu fyrir jól. Stefnandi hafi svo hafið störf hjá stefnda 1. janúar 2001 þegar uppsagnarfrestur hennar samkvæmt uppsagnarbréfi stefnda Kaffi Bistró ehf. hafi runnið út.

Stefndi Kaffi Bistró ehf. heldur því hins vegar fram að stefnandi hafi hafið störf hjá Austurleið-SBS hf. við yfirtökuna 1. desember 2000 og þar með hafi samskiptum stefnanda og stefnda Kaffi Bistró ehf. lokið.

Stefndi Austurleið-SBS hf. sagði stefnanda upp störfum með bréfi dags. 15. janúar 2001 og við það var miðað að stefnandi léti af störfum 31. sama mánaðar. Ástæður uppsagnarinnar voru sagðar að ákveðið hefði verið að hagræða í rekstri og fækka starfsfólki á skrifstofu stefnda Austurleiðar-SBS hf. á Selfossi og sameina starfsemina þar rekstri umferðarmiðstöðvarinnar. Í uppsagnarbréfinu kemur m.a. fram að til hafi staðið í byrjun að stefndi Austurleið-SBS hf. keypti af stefnda Kaffi Bistró ehf. þjónustu starfsmanna sem unnið höfðu við umferðarmiðstöðina til 1. janúar 2001 en því miður hafi það ekki orðið raunin og verði Austurleið-SBS hf. því að segja stefnanda upp störfum.

Stefnandi taldi sig eiga rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti á grundvelli samnings á milli Kaffi Bistró ehf. annars vegar og Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs og Verslunarmannafélags Suðurlands hins vegar um kaup og kjör starfsfólks við verslunar- og veitingasölu, dags. 29. ágúst 2000. Leitaði stefnandi því fulltingis Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs vegna málsins.

Með bréfi Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs dagsettu 22. janúar 2001 til stefndu er eins mánaðar uppsagnarfresti stefnanda mótmælt sem of stuttum og vísað til samkomulagsins frá 29. ágúst 2000 um að henni beri þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Í bréfinu kemur fram að stefnandi hafi ákveðið að gera ekki athugasemdir við uppsögnina þar sem aðeins væri um tilfærslu til annars launagreiðanda að ræða og hún héldi starfi sínu. Í samræmi við það hafi hún hafið störf hjá stefnda Austurleið-SBS hf. um áramót. Lýsti verkalýðsfélagið undrun sinni vegna þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru af stefnda Austurleið-SBS hf. við uppsögn stefnanda og gerði kröfu um leiðréttingu í samræmi við gildandi kjarasamning. Vísað er til þess að um réttarstöðu stefnanda fari eftir 2. gr. laga 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Gerð er krafa um að ef ætlun stefndu sé að segja stefnanda upp störfum verði það gert með samningsbundnum fyrirvara og á löglegan hátt.

Með bréfi stefnda Austurleiðar-SBS hf. dags. 24. sama mánaðar til verkalýðsfélagsins var afstöðu stefnanda mótmælt með vísan til þess að stefndi teldi sig óbundinn af samkomulaginu frá 29. ágúst 2000 og vísaði málinu alfarið til stefnda Kaffi Bistró ehf. Jafnframt mótmælti stefndi Austurleið-SBS hf. að um aðilaskipti samkvæmt lögum nr. 77/1993 hafi verið að ræða.

Hinn 1. febrúar 2001 ritaði lögmaður Samtaka atvinnulífsins bréf til Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs. Í bréfinu er áréttað að um aðilaskipti hafi ekki verið að ræða í skilningi laga nr. 77/1993 og því hafi stefndi Austurleið-SBS hf. sagt stefnanda upp störfum 15. janúar 2001 með uppsagnarfresti miðað við störf hjá félaginu. Þá kemur þar fram að hafi aðilaskipti átt sér stað í skilningi laganna taki nýi vinnuveitandinn við sömu réttindum og skyldum gagnvart launþega og eldri vinnuveitandi hafði, sbr. 2. gr. laganna, og þá sé uppsögn stefnanda frá 30. nóvember 2000 í fullu gildi gagnvart stefnanda. Í samræmi við kröfu stefnanda um þriggja mánaða uppsagnarfrest hafi félagið ákveðið að ljúka málinu með því að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti til 1. mars 2001, þ.e. þann uppsagnarfrest sem stefnandi telji sig hafa átt hjá stefnda Kaffi Bistró ehf.

Svarbréf Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs er dagsett 13. febrúar 2001. Í því kemur fram að skýringar sem fram koma í bréfinu frá 1. febrúar standist ekki og séu ekki í samræmi við staðreyndir málsins. Síðan segir: “Á haustmánuðum þegar samkomulag varð um það með umbj. þínum og Kaffi Bistró að umbj. þinn yfirtæki þann þátt rekstrar sem laut að rekstri umferðarmiðstöðvar varð strax ljóst að starfsmenn sem unnu við þá starfsemi hlutu að fylgja með til nýs rekstraraðila. Þetta er enda í samræmi við lögin um aðilaskiptum að fyrirtækjum. Uppsögn Kaffi Bistró er í raun sett fram fyrir misskilning og varðar engu í málinu. Þar að auki var sú uppsögn sett fram með ólögmætum skilmálum og því ógild. Það má enda segja að fram komi viðurkenning á þessu af hálfu umbj. þíns í bréfi hans til Bárunnar Þórs dags. 24. janúar. Samkvæmt framansögðu er það svo að Ragnheiði Eggertsdóttur ber þriggja mánaða uppsagnarfrestur frá 1. febrúar s.l. og verði henni ekki greitt í samræmi við það mun koma til innheimtu eftirstöðvanna þegar fyrir liggur hverjar þær verða.”

Stefnanda var gert að láta af störfum um mánaðamótin janúar/febrúar 2001. Stefnandi byggir dómkröfu sína á útreikningi Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs sem miðar við laun hennar í janúar 2001 hjá stefnda Austurleið-SBS hf. Til frádráttar eru laun stefnanda frá stefnda Austurleið- SBS hf., Alpan hf. og Kaupási á tímabilinu.

Stefnukrafan sundurliðast þannig:

    Laun í uppsagnarfresti í febrúar 2001               kr. 215.124

    Laun í uppsagnarfresti í mars 2001                    kr. 215.124

    Laun í uppsagnarfresti í apríl 2001                    kr. 215.124

    Samtals                                                                  kr. 645.372

    Laun á tímabilinu frá Austurleið hf.,

Alpan hf. og Kaupás til frádráttar                         kr. 284.061

    Samtals dómkrafa                                                 kr. 361.311

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því að aðilaskipti í skilningi laga nr. 77/1992 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum hafi átt sér stað þegar stefndi Austurleið- SBS hf. tók yfir rekstur umferðarmiðstöðvarinnar í Fossnesti þann 1. desember 2000. Samkvæmt 2. gr. laganna hafi stefndi Austurleið-SBS hf. tekið yfir öll réttindi og allar skyldur gagnvart starfsfólki sem það hafði áunnið sér í starfi hjá stefnda Kaffi Bistró ehf. Samkvæmt því haldi stefnandi þriggja mánaða uppsagnarétti sínum samkvæmt ákvæði 7. gr. samkomulagsins milli stefnda Kaffi Bistró ehf. annars vegar og Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs og Verslunarmannafélags Suðurlands hins vegar dags. 29. ágúst 2000. Stefndu beri að efna skyldur samkvæmt ráðningarsamningi aðila in solidum og eigi því að greiða stefnanda laun út áunninn uppsagnarfrest vegna uppsagnarinnar 15. janúar 2001.

Engar breytingar hafi orðið á starfstilhögun stefnanda við yfirfærslu rekstrarins frá stefnda Kaffi Bistró ehf. til stefnda Austurleiðar-SBS hf. Aðilaskiptin ein og sér geti ekki réttlætt uppsögn stefnanda hvorki fyrir né eftir aðilaskiptin sbr. 3. gr. laganna. Uppsögn stefnda Kaffi Bistró ehf. þann 30. nóvember 2000 hafi því verið ólögmæt.

Stefnandi mótmælir því að stefndi Austurleið-SBS hf. geti komið sér undan lögum nr. 77/1993 með því að telja að nýtt ráðningarsamband hafi skapast þegar hún hóf störf hjá stefnda. Stefnda beri því að virða þriggja mánaða uppsagnarfrest stefnanda.

Stefnandi byggir á lögum nr. 77/1993, meginreglum vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglum samningaréttar um skyldu til efnda samninga, auk laga nr. 30/1987 um orlof. Einnig á lögum nr. 55/1980, lögum nr. 19/1979 og lögum nr. 80/1938. Vaxtakröfur styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Málskostnaðarkröfu styður stefnandi við 130. gr. eml. nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda Austurleiðar-SBS hf.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda um þriggja mánaða uppsagnarfrest frá stefnda Austurleið SBS-hf. hafi enga stoð í lögum, kjarasamningum aðila eða ráðningarsamningi. Hvorki lög nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eða heildarkjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs veiti stefnanda rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests hjá stefnda. Breyting á starfsmannahaldi hafi verið ástæða þess að stefnanda var sagt upp hjá stefnda Kaffi Bistró ehf. en  skýrt komi fram í 2. ml. 3. gr. laganna að uppsagnir af efnahagslegum, tæknilegum og skipulagslegum ástæðum, sem leiða til breytinga á starfsmannahaldi, séu leyfilegar. Ljóst hafi verið að stefndi Kaffi Bistró ehf. myndi hætta rekstri umferðarmiðstöðvarinnar í Fossnesti og ekkert hafi legið fyrir um að stefndi Austurleið-SBS hf. ætlaði að ráða stefnanda þar til áframhaldandi starfa. Fullyrðingar stefnanda um að uppsögn stefnda Kaffi Bistró ehf. hafi verið gildislaus og ólögmæt séu því rangar.

Stefndi Austurleið-SBS hf. hafi talið sig hafa ráðið stefnanda til starfa frá og með 1. janúar 2001, þegar tilkynntum uppsagnarfresti hjá Kaffi Bistró lauk. Það að stefndi hafi í greiðaskyni greitt stefnanda laun fyrir desember 2000 breyti því ekki að um nýráðningu hafi verið að ræða. Þegar ákveðið hafi verið að sameina starfsemina í Fossnesti og skrifstofu stefnda á Selfossi hafi stefndi þurft að segja stefnanda upp störfum þar sem að um nýráðningu hafi verið að ræða en samkvæmt heildarkjarasamningi Samtaka Atvinnulífsins og Bárunnar Þórs fyrir veitinga og greiðasölustarfsemi hafi stefnandi aðeins átt eins mánaðar uppsagnarfrest.

Stefnda og lögmanni Samtaka atvinnulífsins hafi hins vegar verið ljóst að uppsagnarfrestur stefnanda hjá stefnda Kaffi Bistró ehf. kynni að hafa verið rangt metinn, þ.e. átt að vera 3 mánuðir í stað eins mánaðar. Ef aðilaskipti í skilningi laga nr. 77/1993 að ráðningarsamningi stefnanda og stefnda Kaffi Bistró ehf. hefðu átt sér stað gat stefnandi því hugsanlega krafið stefnda um laun fyrir desember, janúar og febrúar. Af þessum sökum hafi stefndi ákveðið að greiða stefnanda laun út febrúar 2001. Með þeirri ákvörðun hafi öll verndarákvæði laga og kjarasamninga vegna aðilaskipta verið virt, sbr. einnig bókun í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins.

Hafi verið um að ræða yfirtöku stefnda Austurleiðar-SBS hf. á ráðningarsamningi stefnanda við stefnda Kaffi Bistró ehf. þá hafi stefndi Austurleið-SBS hf. átt að vera í sömu stöðu gagnvart stefnanda og stefndi Kaffi Bistró ehf. þar sem samkvæmt 2. gr. laga nr. 77/1993 um aðilaskipti að fyrirtækjum taki nýr aðili yfir réttindi og skyldur fyrri eigenda samkvæmt ráðningarsamningi og skuli virða starfskjör og starfsskilyrði sem samþykkt hafa verið í almennum kjarasamningi. Fyrir yfirtöku stefnda Austurleiðar-SBS hf. á rekstri umferðarmiðstöðvarinnar hafi verið búið að segja stefnanda upp störfum og sú ákvöð í fullu gildi og fluttist því til stefnda eins og ráðningarsamningurinn sjálfur. Að mati stefnanda og Samtaka atvinnulífsins hafi deilumáli þessu því verið lokið með ákvörðun stefnda um að greiða stefnanda laun fyrir febrúar 2001 umfram skyldu og án vinnuframlags.

Stefndi byggir á að stefnandi reisi allan málatilbúnað sinn á rangri túlkun á efni og gildi laga nr. 77/1993. Aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta þess leiði ekki til þess að kjarasamningur þess fyrirtækis verði skuldbindandi fyrir yfirtöku fyrirtækið. Ráðningarkjör starfsmanna fyrirtækis samkvæmt ráðningarsamningi haldist hins vegar óbreytt þar til þeim er sagt upp sbr. 2. gr. laganna. Sérstakur og óvanalegur kjarasamningur Kaffi Bistró gildi því alls ekki fyrir Austurleið-SBS hf. heldur heildarkjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins fyrir veitinga- og greiðasölustörf, sem stéttarfélag stefnanda, Verkalýðsfélagið Báran Þór sé aðili að.

Þá byggir stefndi á að kröfunni sé beint gegn röngum aðila, þ.e. eingöngu hefði átt að beina henni gegn Kaffi Bistró ehf., sbr. ákvæði í bókun Samtaka Atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins.

Sýknu og varakröfu sinni til stuðnings vísar stefndi til þess að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni umfram það sem hún beri sjálf ábyrgð á. Stefnandi hefði getað unnið launuð störf á uppsagnarfresti, sem koma eigi að fullu til frádráttar bótakröfunni. Laun stefnanda fyrir febrúar 2001 séu reiknuð út frá raunverulegum vöktum stefnda og launaseðlar samstarfskonu stefnanda í desember – febrúar 2001 hafðir þar til samanburðar. Í útreikningi stéttarfélags stefnanda sé hins vegar eingöngu byggt á launaseðli og vinnu stefnanda fyrir janúar 2001, sem sé rangt, því að í þeim mánuði hafi stefnandi unnið bæði aukavaktir og stórhátíðar- og helgidaga, sem ekki falli til í febrúar – apríl, 2001.

Stefndi mótmælir öllum kröfum um dráttarvexti. Málskostnaðarkröfu byggir stefndi á 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda Kaffi Bistro ehf.

Sýknukrafa stefnda byggir á því að stefnandi hafi fengið greidd laun í þrjá mánuði frá því að hún fékk uppsagnarbréf stefnda þann 30. nóvember 2000. Stefnandi geti í mesta lagi átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt 7. gr. samkomulags milli Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs og Verslunarmannafélags Suðurlands annars vegar og stefnda hins vegar frá 29. ágúst 2000. Uppsagnarfresti stefnanda hjá stefnda hafi því átt að ljúka í endaðan febrúar. Samkvæmt gögnum málsins hafi stefnandi fengið greidd laun út uppsagnarfrestinn, þ.e. til 1. mars 2001, eftir þann tíma geti stefnandi ekki átt neinar kröfur á hendur stefnda. Yrði krafa stefnanda á hendur stefnda tekin til greina þá væri stefnandi augljóslega að öðlast betri rétt á hendur félaginu en hún hefði átt hefðu aðilaskiptin ekki átt sér stað. Slíkt væri í andstöðu við tilgang laga nr. 77/1993 sem er einungis að vernda þann rétt sem launþegar eiga samkvæmt gildandi kjarasamningum.

Stefnandi hafi verið komin í vinnu hjá öðrum aðila í desember 2000 og hafi stefndi ekki lengur getað ráðið neinu um réttindi og skyldur í því vinnusambandi, utan umsamins þriggja mánaða uppsagnarfrests sem þegar hafi verið greiddur. Engin rök séu því til að krefja stefnda um greiðslu launa til handa stefnda vegna lengri uppsagnarfrests en hún hefur þegar fengið. Síðari uppsagnir stefnanda hjá öðrum vinnuveitanda komi stefnda ekki við og beri því að sýkna félagið af frekari kröfum vegna þess.

Kröfur sínar byggir stefndi á meginreglum vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til að efna samninga. Þá er vísað til laga nr. 77/1993. Málskostnaðarkrafa byggir á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 92/1991.

Niðurstaða

Stefndi Kaffi Bistró ehf. sá um rekstur svokallaðrar umferðarmiðstöðvar fyrir stefnda Austurleið-SBS hf. í Fossnesti. Í umferðarmiðstöðinni var farmiðasala og pakkaafgreiðsla en auk þess fór þar fram upplýsingagjöf til viðskiptavina stefnda Austurleiðar-SBS hf. Ekki liggur annað fyrir en að umferðarmiðstöðin hafi verið sérgreind rekstrareining. Greiddi stefndi Austurleið-SBS hf. stefnda Kaffi Bistró ehf. ákveðna mánaðarlega þóknun fyrir að annast rekstur umferðarmiðstöðvarinnar. Stefnandi starfaði hjá stefnda Kaffi Bistró ehf. við afgreiðslustörf í umferðarmiðstöðinni auk þess sem hún hafði yfirumsjón með “sjoppunni” í Fossnesti og sá um pantanir. Í lok nóvember 2000 tók stefndi Austurleið SBS hf. ákvörðun um að hætta að láta stefnda Kaffi Bistró ehf. annast rekstur umferðarmiðstöðvarinnar og taka hann yfir frá og með 1. desember s.á.

Vegna yfirtöku stefnda Austurleiðar-SBS hf. á umferðarmiðstöðinni sagði stefndi Kaffi Bistró ehf. stefnanda upp starfi sínu í umferðarmiðstöðinni með eins mánaðar uppsagnarfresti með uppsagnarbréfi dagsettu 30. nóvember 2000. Gerði stefnandi engar athugasemdir við uppsögnina en hún bar fyrir dóminum að það hafi hún ekki gert þar sem fyrir hafi legið að hún mundi halda áfram afgreiðslustörfum í umferðarmiðstöðinni þrátt fyrir uppsögnina. Hélt stefnandi áfram störfum sínum í umferðarmiðstöðinni eftir yfirtöku stefnda Austurleiðar SBS hf. og naut sömu kjara og hún hafði notið hjá stefnda Kaffi Bistró hf. áður.

Lögum nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum er fyrst og fremst ætlað að tryggja rétt starfsmanna við aðilaskipti. Samkvæmt 1. gr. laganna gilda þau um aðilaskipti eða samruna fyrirtækja, atvinnurekstrar eða hluta atvinnurekstrar á hinu Evrópska efnahagssvæði að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heyrir undir íslenska lögsögu. Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps til laganna kemur fram að með aðilaskiptum sé átt við þau tilvik þegar nýr aðili, einstaklingur eða lögaðili, verður lagalega ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækis, atvinnurekstrar eða hluta þess. Afgerandi sé einnig í því sambandi hvort fyrirtækið eða sá hluti þess, sem framseldur er, heldur áfram rekstri með sama eða svipuðum hætti og áður. Samkvæmt því verður að telja að meginmáli skipti varðandi það hvort aðilaskipti hafi átt sér stað í skilningi laganna, hvort nýr aðili hafi orðið ábyrgur fyrir rekstri starfseminnar og rekstri sé haldið áfram með sama eða svipuðum hætti og áður. Hvorutveggja skilyrðinu þykir fullnægt í máli þessu þar sem stefndi Austurleið-SBS hf. tók yfir rekstur umferðarmiðstöðvarinnar og hélt honum áfram eftir yfirtökuna með sama hætti og stefndi Kaffi Bistró ehf. hafði gert og kom fram sem vinnuveitandi starfsfólks í stað stefnda Kaffi Bistró ehf. Þegar það er virt og hliðsjón höfð af tilgangi laga nr. 77/1993 verður talið að aðilaskipti í skilningi laganna hafi átt sér stað þegar stefndi Austurleið-SBS hf. yfirtók rekstur umferðarmiðstöðvarinnar. Naut stefnandi samkvæmt því réttarverndar laganna og var stefnda Kaffi Bistró ehf. því óheimilt samkvæmt 3. gr. laganna að segja stefnanda upp störfum vegna aðilaskiptanna. Var uppsögn stefnda Kaffi Bistró ehf. því ólögmæt enda aðilaskiptin eina ástæða hennar.

Stefnandi hélt áfram störfum sínum við umferðarmiðstöðina eftir aðilaskiptin. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 77/1993 tókst stefndi Austurleið-SBS hf. við aðilaskiptin á hendur réttindi og skyldur stefnda Kaffi Bistró ehf. gagnvart stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi. Þá bar stefnda Austurleið-SBS hf. að virða þau launakjör og starfsskilyrði sem samþykkt höfðu verið í almennum kjarasamningi með sömu skilmálum og giltu fyrir stefnda Kaffi Bistró ehf. Bar stefnda Austurleið-SBS hf. því að virða þriggja mánaða uppsagnarfrest stefnanda samkvæmt 7. gr. samnings á milli stefnda Kaffi Bistró ehf. annars vegar og Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs og Verslunarmannafélags Suðurlands hins vegar um kaup og kjör starfsfólks við verslunar- og veitingasölu, dags. 29. ágúst 2000. Átti stefnandi þannig rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá næstu mánaðarmótum eftir að henni barst uppsagnarbréf stefnda Austurleiðar-SBS hf. eða frá 1. febrúar 2001, sbr. 6. mgr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- eða slysaforfalla. Uppsögn stefnda Austurleiðar SBS hf. sem sagði stefnanda upp starfi með eins mánaðar uppsagnarfresti var því ólögmæt.

Uppsögn stefnda Kaffi Bistró ehf. var eins og að framan greinir ógild og hafði því engin réttaráhrif gagnvart stefnanda. Austurleið-SBS hf. tók við öllum réttindum og skyldum sem Kaffi-Bistró ehf. bar gagnvart stefnanda á grundvelli ráðningar- og kjarasamnings samkvæmt 2. gr. laga nr. 77/1993  og getur stefnandi því einungis átt kröfur á stefnda Austurleið-SBS hf. vegna hinnar ólögmætu uppsagnar stefnda Austurleiðar-SBS hf. Verður stefnda Kaffi Bistró ehf. því sýknað af kröfum stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á útreikningi Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs sem miðaður er við laun stefnanda í janúar 2001. Samkvæmt útreikningnum hefðu laun stefnanda verið 215.124 krónur á mánuði á uppsagnartímanum eða samtals 645.372 krónur.

Samkvæmt framburði Njarðar Helgasonar sem reiknaði út launin fyrir verkalýðsfélagið var við útreikninginn ekki einvörðungu miðað við laun stefnanda í janúar heldur var við útreikning vaktaálags og yfirvinnu einnig höfð hliðsjón af desemberlaunaseðli og eldri launaseðlum. Kvað hann yfirvinnu hafa verið nokkuð misjafna milli mánaða en yfirvinnutímar þeir sem við hafi verið stuðs við útreikninginn séu nokkuð nálægt þeim fjölda yfirvinnutíma sem stefnandi hafði verið með mánuðina áður.

Stefnda bar að greiða stefnanda umsamin laun út uppsagnarfrestinn. Við ákvörðun launa stefnanda verður að miða við laun hennar fyrir starfslok. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að viðmiðun við laun stefnanda í lengri tíma en gert er í útreikningi Verkalýðsfélagsins Bárunnar Þórs hefði leitt til annarrar niðurstöðu. Útreikningurinn hefur verið skýrður og stefndi Austurleið-SBS hf. þykir ekki hafa hnekkt honum. Eru því ekki efni til annars en að leggja hann til grundvallar við úrlausn málsins enda hefur ekki verið sýnt fram á að forsendur hans séu tölulega rangar.

Samkvæmt því verður stefndi Austurleið-SBS hf. dæmt til að greiða stefnanda samtals 645.372 krónur að frádregnum þeim launum sem stefnandi fékk á tímabilinu og ekki er ágreiningur um að þau hafi numið samtals 284.061 krónum. Ber stefnda samkvæmt þessu að greiða stefnanda 361.311 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Eftir niðurstöðu málsins verður stefndi Austurleið-SBS hf. dæmdur til að greiða stefnanda 260.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður á milli stefnanda og stefnda Kaffi Bistró ehf. falli niður.

Dóm þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir settur héraðsdómari en uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna starfsanna dómara.

Dómsorð:

Stefndi Austurleið-SBS hf. greiði stefnanda Ragnheiði Eggertsdóttur 361.311 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 32.401 frá 1. mars 2001 til 1. apríl 2001, af kr. 201.422 frá þeim degi til 1. maí 2001, en af kr. 361.311 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi Kaffi Bistró ehf. er sýkn af kröfum stefnanda.

Stefndi Austurleið-SBS hf. greiði stefnanda 260.000 krónur í málskostnað.

Málskostnaður milli stefnanda og Kaffi Bistró ehf. fellur niður.