Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-22

Reykjavíkurborg (Ebba Schram lögmaður)
gegn
A (Guðmundur Sæmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Kjarasamningur
  • Slysatrygging
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 14. febrúar 2023 leitar Reykjavíkurborg leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. janúar 2023 í máli nr. 259/2021: A gegn Reykjavíkurborg. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í leik á samkomu sem starfsmannafélag í leikskóla þar sem hún starfaði stóð fyrir. Ágreiningur aðila snýr að því hvort leyfisbeiðandi hafi orðið fyrir slysi í starfi eða utan starfs og þar með eftir hvaða reglum bótaréttar uppgjör vegna slyssins skuli fara.

4. Héraðsdómur taldi ekki forsendur til þess að beita reglum leyfisbeiðanda nr. 1/90 við uppgjör bóta til gagnaðila og var leyfisbeiðandi því sýknaður af kröfu hennar. Landsréttur dæmdi leyfisbeiðanda til greiðslu bóta og féllst á að bótauppgjör færi fram samkvæmt skilmálum reglna nr. 1/90. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að tilkynning leikskólastjóra um að formlegri dagskrá starfsdags væri lokið yrði ekki skilin þannig að þeir starfsmenn sem enn höfðu viðveruskyldu samkvæmt ráðningarsamningi hefðu verið leystir undan skyldum sínum með óyggjandi hætti. Var talið að leyfisbeiðandi yrði að bera hallann af því.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni sína. Í því sambandi vísar hann einkum til þess að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvenær starfsmaður teljist vera „í starfi sínu“ í skilningi 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 1/90. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og að túlkun réttarins á gildissviði reglna nr. 1/90 fari gegn því sem teljist sanngjarnt og eðlilegt.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Beiðni leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.