Hæstiréttur íslands
Mál nr. 248/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Málsvarnarlaun
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
|
|
Miðvikudaginn 21. september 2005. |
|
Nr. 248/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Sigurður G. Gíslason hdl.) gegn Kristine K. Jónsdóttur (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Málsvarnarlaun. Mannréttindasáttmáli Evrópu.
K var dæmd til greiðslu sektar og sakarkostnaðar í opinberu máli. Hafði hún greitt sektina en ekki sakarkostnaðinn. Því var ómótmælt í málinu að K væri öryrki með lágmarkstekjur. L krafðist fjárnáms fyrir ógreiddum sakarkostnaði og lauk því fjárnámi sem árangurslausu á grundvelli yfirlýsingar um eignaleysi K. Freistaði K þess í málinu að fá umrætt fjárnám fellt úr gildi þar sem það væri andstætt 3. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem og c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að krefja hana um greiðslu sakarkostnaðar í opinberu máli þegar fyrir lægi að hún hefði ekki getu til greiðslu slíks kostnaðar. Héraðsdómari féllst á kröfur K að hluta og felldi fjárnámið úr gildi varðandi þann hluta sakarkostnaðar sem laut að greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda K. Fyrir Hæstarétti krafðist K aðeins staðfestingar úrskurðar héraðsdóms þannig að kröfur hennar varðandi annan sakarkostnað voru ekki til úrlausnar fyrir réttinum. Talið var að skýra yrði 3. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991 með hliðsjón af c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og við þá skýringu væri rétt að líta til þess hvernig mannréttindadómstóll Evrópu hefði skýrt ákvæðið, þótt dómar þess dómstóls væru ekki bindandi að íslenskum rétti. Samkvæmt skilningi mannréttindadómstólsins á nefndu ákvæði mannréttindasáttmálans, bæri íslenska ríkinu að sjá svo um að þegnum þess sé unnt að sanna vanhæfi sitt til greiðslu málsvarnarlauna í opinberu máli við innheimtu slíks kostnaðar. K hafði neitt heimildar í V. þætti laga nr. 90/1989 um aðför til að bera gildi hinnar árangurslausu aðfarargerðar undir dóm og þar sem K taldist hafa sannað að hún hefði hvorki eignir né tekjur til að standa straum af greiðslu málsvarnarlauna yrði á grundvelli framangreindrar lögskýringar að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2005, þar sem breytt var fjárnámi sýslumannsins í Reykjavík 2. desember 2004, sem gert var að kröfu sóknaraðila hjá varnaraðila, á þann hátt að það skuli ná til 201.201 krónu í stað 263.451 krónu. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991, en sóknaraðila hefur verið veitt kæruleyfi. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kærður úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað frá héraðsdómi, en til vara að kröfu varnaraðila verði hafnað. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar kærðs úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Málsatvikum er lýst í úrskurði héraðsdóms. Þar er það meðal annars rakið að varnaraðili var sakfelld 9. nóvember 1999 í opinberu máli og dæmd til greiðslu sektar og sakarkostnaðar. Hefur hún greitt sektina en ekki sakarkostnaðinn. Sóknaraðili fór því fram á það við sýslumanninn í Reykjavík að gert yrði fjárnám hjá varnaraðila til tryggingar greiðslu sakarkostnaðar. Fangelsismálastofnun hafði samkvæmt 3. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála úrskurðað að þessi kostnaður næmi í heild 263.451 krónu, en þar af hafði héraðsdómur ákveðið verjanda hennar 50.000 króna málsvarnarlaun, sem að viðbættum virðisaukaskatti nam samtals 62.250 krónum. Mismunurinn, 201.201 króna, var útlagður kostnaður vegna rannsókna og læknisvottorða, svo sem nánar greinir í héraðsdómi.
Að kröfu sóknaraðila var gert fjárnám fyrir framangreindum sakarkostnaði 2. desember 2004. Við fjárnámið mætti eiginmaður varnaraðila fyrir hennar hönd og mótmælti framgangi þess. Eftir að sýslumaður hafði ákveðið að mótmælin skyldu ekki stöðva gerðina lýsti eiginmaðurinn því yfir að varnaraðili væri eignalaus og var fjárnáminu lokið án árangurs í samræmi við 8. kafla laga nr. 90/1989.
II.
Varnaraðili skaut málinu til héraðsdóms 27. desember 2004 og krafðist þess að framangreint fjárnám yrði ógilt. Sóknaraðili gerði hins vegar kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að einungis ágreiningi um þann hluta fjárnámsins, sem laut að málsvarnarlaunum, yrði vísað frá dómi. Til þrautavara gerði hann kröfu um sýknu. Fyrir Hæstarétti hefur hann breytt kröfugerð sinni með framangreindum hætti og varnaraðili krefst aðeins staðfestingar úrskurðar héraðsdóms. Reynir því einungis á það fyrir réttinum hvernig fara á um málsvarnarlaunin, sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi 9. nóvember 1999, og virðisaukaskatt af þeirri fjárhæð. Skiptir þannig ekki máli sú athugasemd varnaraðila að fangelsismálastofnun hafi ekki gætt andmælaréttar hennar áður en úrskurðað var um fjárhæð sakarkostnaðarins, því að upphæð málsvarnarlaunanna lá þegar fyrir með dómi héraðsdóms.
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að vegna eignaleysis hennar sé það andstætt ákvæðum c. liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994 um sama efni, að innheimta málsvarnarlaunin.
Sóknaraðili reisir kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi á því að ágreiningur um málsvarnarlaunin verði ekki borinn undir hliðsettan dómstól, en með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 1999 hafi verið skorið úr um skyldu varnaraðila til greiðslu þessa kostnaðar. Vísar hann til ákvæða 2. mgr. 88. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 94. gr. sömu laga og 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varakröfuna reisir hann á því að ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og laga nr. 19/1991 tryggi að sakborningur fái haldið uppi vörnum án tillits til efnahags, en ekki verði dregin sú ályktun af ákvæðum þessum að óheimilt sé að endurkrefja efnalítinn mann um þann kostnað sem af þessu hlýst, heldur geri lög nr. 19/1991 þvert á móti ráð fyrir að endurkrefja megi um sakarkostnaðinn.
III.
Fallast ber á það með héraðsdómara að varnaraðili sé ekki að bera undir dómstóla niðurstöðu sakamálsins, heldur álitaefni um það hvort fjárnám verði látið ná fram að ganga fyrir fjárhæð málsvarnarlauna. Málinu verður því ekki vísað frá héraðsdómi. Niðurstaða málsins veltur því á hvort varnaraðili verður krafin um greiðslu málsvarnarlaunanna vegna efnaleysis hennar. Varnaraðili hefur fært fram ýmis gögn um getuleysi sitt til greiðslu. Því er ekki í móti mælt að hún er öryrki með lágmarkstekjur.
Samkvæmt c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo sem mannréttindadómstóll Evrópu hefur skýrt það ákvæði, ber íslenska ríkinu að sjá svo um að þegnum þess sé unnt að sanna vanhæfni til greiðslu málsvarnarlauna í opinberu máli við innheimtu slíks kostnaðar. Þótt dómar mannréttindadómstóls Evrópu séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti, sbr. 2. gr. laga nr. 62/1994, er rétt að líta til skýringa hans á áðurgreindu ákvæði. Samkvæmt V. þætti laga nr. 90/1989 er gerðarþola fjárnáms veitt tækifæri til að bera ágreining, sem varðar gerðina undir dóm, svo sem hér var gert. Þar sem varnaraðili þykir hafa sannað að hún hafi hvorki eignir né tekjur til að standa straum af greiðslu málsvarnarlaunanna ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdómara með vísan til þess rökstuðnings hans að skýra verði ákvæði 3. mgr. 168. gr. laga um meðferð opinberra mála með hliðsjón af tilvitnuðu ákvæði mannréttindasáttmálans.
Ákvæði úrskurðar héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað er staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, lögreglustjórinn í Reykjavík, greiði varnaraðila, Kristine K. Jónsdóttur, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2005.
I
Málið var þingfest 21. janúar sl. og tekið til úrskurðar 3. maí sl.
Sóknaraðili er Kristine Karoline Jónsdóttir, Veghúsum 31, Reykjavík.
Varnaraðili er lögreglustjórinn í Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að aðför hjá sér, að kröfu varnaraðila, frá 2. desember 2004 verði lýst ógild og lagt verði fyrir sýslumann að synja um framgang aðfararinnar. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að þeim hluta fjárnámsgerðarinnar sem lýtur að málsvarnarlaunum í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. 1917/1999 verði vísað frá dómi. Til þrautavara er krafist sýknu. Þá er krafist málskostnaðar.
II
Málavextir eru þeir að 3. ágúst 1999 ákærði varnaraðili sóknaraðila fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið “ófær um að stjórna henni vegna áhrifa deyfandi lyfja”. Dómur gekk í málinu 9. nóvember sama ár og var sóknaraðili sakfelld og dæmd til að greiða sekt og sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 50.000 krónur. Dómnum var ekki áfrýjað og hefur sóknaraðili greitt sektina. Hún hefur hins vegar ekki greitt sakarkostnaðinn og 4. október sl. óskaði varnaraðili eftir því við sýslumann að gert yrði fjárnám hjá henni til tryggingar greiðslu hans. Málið var tekið fyrir hjá sýslumanni 2. desember sl. og mætti þar eiginmaður sóknaraðila, sem er lögfræðingur, og mótmælti því að fjárnám yrði gert. Sýslumaður ákvað að mótmælin myndu ekki stöðva gerðina og lýsti eiginmaðurinn því þá yfir að sóknaraðili væri eignalaus og var fjárnámið árangurslaust, sbr. 8. kafla aðfararlaga nr. 90/1989. Sóknaraðili skaut málinu til héraðsdóms 27. desember sl.
Með framangreindum dómi var sóknaraðili dæmd til greiðslu sakarkostnaðar án ákvörðunar fjárhæðar, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þóknun verjanda hennar var hins vegar ákveðin með tiltekinni fjárhæð eins og boðið er í sama lagaákvæði. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. greinarinnar gerði dómstóllinn heildarreikning sakarkostnaðar sem sendur var með dómsgerðunum. Ríkissaksóknari sendi fangelsismálastofnun dómsgerðirnar og í samræmi við ákvæði 3. mgr. 168. gr. laga um meðferð opinberra mála úrskurðaði stofnunin reikninginn og var sóknaraðila tilkynnt um úrskurðinn með bréfi 16. febrúar 2000. Í tilkynningunni var athygli sóknaraðila vakin á því að hún gæti óskað eftir rökstuðningi og með bréfi 24. febrúar sama ár var það gert. Fangelsismálastofnun sendi lögmanni sóknaraðila rökstuðning 7. mars sama ár og 14. mars var úrskurðurinn kærður til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og þess óskað að sakarkostnaðurinn yrði felldur niður vegna efnaleysis sóknaraðila. Ráðuneytið framsendi kæruna til varnaraðila sem hafnaði því að fella sakarkostnaðinn niður með bréfi 7. apríl 2000. Gögn málsins bera með sér að sóknaraðili hafi í júní 2003 freistað þess að fá sakarkostnaðinn felldan niður, en varnaraðili hafnaði því með bréfi 11. júní sama ár. Synjunin var kærð til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem vísaði henni frá þar eð kærufrestur hafi verið liðinn þegar hún barst ráðuneytinu.
Heildarreikningur sakarkostnaðar, sem fangelsismálastofnun úrskurðaði sóknaraðila til að greiða, nemur 263.451 krónu. Málsvarnarlaun verjanda hennar nema 50.000 krónum og að viðbættum virðisaukaskatti samtals 62.250 krónum. Afgangurinn, 201.201 króna, er útlagður kostnaður vegna rannsókna á sýnum, sem tekin voru frá sóknaraðila, svo og vegna læknisvottorða.
III
Sóknaraðili byggir kröfu sína annars vegar á því að fangelsismálastofnun hafi kveðið upp úrskurð sinn án þess að gefa sér kost á að andmæla og er vísað til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því til stuðnings. Stjórnvöld hafi með þessu brotið rétt á sér og eigi það að leiða til ógildingar úrskurðarins.
Í öðru lagi er á því byggt að það sé andstætt ákvæðum c liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að innheimta hjá sér sakarkostnaðinn. Sóknaraðili byggir á því að vegna efnaleysis hennar eigi þetta ákvæði við um sig og sé það því andstætt ákvæðum sáttmálans að ganga að henni á þann hátt sem gert hafi verið.
Varnaraðili byggir frávísunarkröfuna á því að krafa sóknaraðila verði ekki borin aftur undir hliðsettan dómstól, en með framangreindum dómi í máli ákæruvaldsins gegn sóknaraðila hafi endanlega verið skorið úr skyldu hennar til að greiða kostnaðinn, er af því máli leiddi. Vísar varnaraðili til ákvæða 2. mgr. 88. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. aðfararlaga.
Varakröfu sína byggir varnaraðili á því að fyrir liggi endanlegur dómur um fjárhæð málsvarnarlaunanna og verði þeirri niðurstöðu ekki breytt. Um hinn hluta sakarkostnaðarins liggi hins vegar fyrir almennt ákvæði dómsins um skyldu sóknaraðila til að greiða samkvæmt nánari ákvörðun fangelsismálastofnunar, sbr. 168. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Þrautavarakröfu sína byggir varnaraðili á því að ekki verði séð að verjandi sóknaraðila í máli ákæruvaldsins gegn henni hafi hreyft athugasemdum við þeirri rannsóknarvinnu sem unnin var að tilhlutan lögreglu og kostaði þá fjárhæð, sem fangelsismálastofnun úrskurðaði hana til að greiða. Málskostnaðarákvörðun dómsins sýni hins vegar að vinna þessi hafi verið nauðsynleg í þágu rannsóknar málsins. Um hafi verið að ræða hefðbundinn sakarkostnað og því augljóslega verið óþarfi af hálfu fangelsismálastofnunar að gefa sóknaraðila kost á andmælum, enda hafi hún ekki getað haft áhrif á fjárhæð hvers liðar fyrir sig þar sem um hafi verið ræða aðkeypta þjónustu, sem varnaraðili réð ekki hvað kostaði. Varnaraðili hefði því ekki getað upplýst málið frekar þótt sóknaraðili hefði krafist þess. Sóknaraðila hafi hins vegar verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum við úrskurðinn og henni bent á kæruleiðir. Varnaraðili byggir á því að ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og ákvæði laga um meðferð opinberra mála tryggi að sakborningur fái vörn án tillits til efnahags, en ekki verði dregin sú ályktun af ákvæðum þessara laga að ekki sé heimilt að endurkrefja efnalítinn mann um þann kostnað, sem af þessu hlýst. Lögin um meðferð opinberra mála byggi á því að til sakarkostnaðar skuli telja þóknun skipaðs verjanda og að sakfelldan mann skuli endurkrefja um sakarkostnaðinn. Ekki er ætlandi að þessu hafi átt að breyta með lögfestingu mannréttindasáttmálans. Loks byggir varnaraðili á því að sóknaraðli hafi ekki sannað að sér sé ókleift að greiða sakarkostnaðinn og bendir á að heimilt sé að semja um að hann sé greiddur með afborgunum.
IV
Í málinu ber sóknaraðili undir dómstólinn kröfu um að hún þurfi ekki að greiða sakarkostnað, sem hún var dæmd til að greiða eins og rakið var. Hér að framan voru málsástæður hennar raktar og verður nánar um þær fjallað síðar í þessum kafla. Sóknaraðili er ekki að bera undir dómstólinn niðurstöðuna í sakamálinu heldur greiðsluskyldu sína samkvæmt dómnum og verður málinu þar af leiðandi ekki vísað frá dómi vegna þess að 2. mgr. 88. gr. aðfararlaga eigi við um sakarefnið. Með sömu rökum er hafnað kröfu varnaraðila um að vísað verði frá dómi kröfu sóknaraðila varðandi þann hluta fjárnámsgerðarinnar sem lýtur að ákvörðun málsvarnarlauna.
Sóknaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að fangelsismálastofnun hafi ekki gætt þess að gefa henni kost á að andmæla áður en stofnunin úrskurðaði reikninginn um sakarkostnaðinn. Í framangreindum dómi ákæruvaldsins gegn sóknaraðila var hún dæmd til að greiða allan sakarkostnað, en þóknun verjanda var ákveðin með tiltekinni fjárhæð, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga um meðferð opinberra mála. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. sömu greinar var gerður heildarreikningur sakarkostnaðar, sem fangelsismálastofnun síðan úrskurðaði, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í dóminum í sakamálinu kemur ekki beint fram hverjar kröfur verjandi ákærðu hafði uppi við flutning málsins, en fram kemur að sóknaraðili neitaði sök og verður því að leggja til grundvallar að verjandi hennar hafi krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins, og þar með kröfu um að hún yrði dæmd til greiðslu sakarkostnaðar. Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í dómi ákæruvaldsins gegn sóknaraðila lá fyrir afstaða hennar og rök fyrir henni og var þar af leiðandi óþarft fyrir fangelsismálastofnun að gefa sóknaraðila kost á að hafa uppi frekari andmæli áður en stofnunin úrskurðaði um sakarkostnaðinn á hendur henni.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að hún verði ekki krafin um greiðslu sakarkostnaðarins vegna efnaleysis. Vísar hún máli sínu til stuðnings til c liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í nefndri grein segir að hver sá, sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli fá að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali. Hafi hann ekki nóg fé til að greiða lögfræðiaðstoð skuli hann fá hana ókeypis ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar. Í máli ákæruvaldsins gegn sóknaraðila var hún ákærð fyrir að aka undir áhrifum lyfja 1. nóvember 1998 og var málið dæmt 9. nóvember 1999. Samkvæmt gögnum málsins hafði sóknaraðili rétt rúmlega 800 þúsund krónur í árstekjur hvort árið, 1998 og 1999. Þá er ekki annað komið fram, en að hún hafi verið og sé eignalaus, enda var gert hjá henni árangurslaust fjárnám eins og rakið var. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að sóknaraðili hafi, á árunum 1998 og 1999, ekki haft nægilegt fé til að greiða lögfræðiaðstoð í skilningi nefnds lagaákvæðis. Sóknaraðila var skipaður verjandi af dómaranum sem dæmdi mál ákæruvaldsins á hendur henni. Skipun verjandans hefur verið byggð á ákvæðum 34. gr. laga um meðferð opinberra mála en þar segir í b lið 1. mgr. að dómara sé skylt að skipa sakborningi verjanda hafi opinbert mál verið höfðað á hendur honum. Samkvæmt þessu er ekki hægt að líta öðruvísi á en að skipun verjanda sóknaraðila á sínum tíma hafi verið í þágu réttvísinnar, þ.e. til að gæta hagsmuna hennar í máli ákæruvaldsins á hendur henni.
Sakarkostnaðurinn sem sóknaraðili var dæmd til að greiða á sínum tíma skiptist í tvennt. Í úrskurði fangelsismálastofnunar kemur fram að annars vegar er um að ræða útlagðan kostnað lögreglunnar af rannsókn málsins, 201.201 króna, og hins vegar þóknun verjandans að viðbættum virðisaukaskatti, 62.250 krónur. Í mannréttindasáttmála Evrópu er ekki tekin afstaða til þess hvort efnaleysi geti leyst mann undan endurgreiðslu útlagðs kostnaðar sem leiddi af rannsókn sakamáls á hendur honum og hann hefur verið dæmdur til að greiða. Í öðrum lögum er heldur ekki heimild til slíks. Þegar af þeirri ástæðu er ekki fallist á með sóknaraðila að fjárnámið á hendur henni verði fellt út gildi að þessu leyti til. Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili uppfyllti áskilnað c liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans um efnaleysi og að skipun verjanda hennar á sínum tíma hafi verið í þágu réttvísinnar. Skýra verður ákvæði 168. gr. laga um meðferð opinberra mála með hliðsjón af tilvitnuðu ákvæði mannréttindasáttmálans og af því leiðir að henni bar að fá ókeypis lögfræðiaðstoð í máli ákæruvaldsins á hendur henni. Það verður því fallist á það með sóknaraðila að varnaraðila hafi ekki verið rétt að endurkrefja hana um þennan hluta sakarkostnaðarins og verður fjárnámsgerðinni breytt til samræmis við það eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sóknaraðila var veitt gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 3. febrúar sl. Málskostnaður skal falla niður en málskostnaður sóknaraðila skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Ragnars Aðalsteinssonar hrl., 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík frá 2. desember 2004 í máli varnaraðila, lögreglustjórans í Reykjavík, á hendur sóknaraðila, Kristine Karoline Jónsdóttur, er breytt á þann veg að hún skal ná til 201.201 krónu.
Málskostnaður skal falla niður en málskostnaður sóknaraðila skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Ragnars Aðalsteinssonar hrl., 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.