Hæstiréttur íslands

Mál nr. 569/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns
  • Sératkvæði


         

Mánudaginn 12. nóvember 2007.

Nr. 569/2007.

Íslenska ríkið

(Bogi Nilsson, ríkissaksóknari)

gegn

X

(Stefán Bogi Sveinsson hdl.)

 

 

Kærumál. Framsal sakamanns. Sératkvæði.

 

Á grundvelli málatilbúnaðar sóknaraðila var ekki unnt að fallast á kröfu hans um framsal varnaraðila til Litháen.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2007, þar sem synjað var kröfu varnaraðila um að hrundið yrði ákvörðun dómsmálaráðherra frá 8. október 2007 um framsal varnaraðila til Litháen. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 segir svo um heimild stjórnvalda til framsals: „Framsal á manni er aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.“ Þá er í 10. gr. laganna lagt bann við að framselja mann „ef hér á landi er til meðferðar mál fyrir annan verknað en þann sem hann óskast framseldur fyrir og sem getur varðað minnst 2 ára fangelsi.“ Samkvæmt gögnum málsins er framsalsbeiðni litháískra dómsmálayfirvalda reist á grun um að varnaraðili hafi framið fimm þjófnaðarbrot. Hins vegar kemur fram í gögnum frá sóknaraðila að til meðferðar séu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fjögur mál vegna ætlaðra brota varnaraðila hér á landi á tímabilinu frá júní til október 2007. Um er að ræða þjófnað, eignaspjöll, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot.

Af þessu sést að málatilbúnaður sóknaraðila er með þeim hætti að hann getur aldrei leitt til þeirrar niðurstöðu sem hann krefst. Þegar af þeirri ástæðu verður kröfu hans hafnað. Þarf þá ekki að taka afstöðu til málsástæðu varnaraðila um að ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 séu svo óskýr að ekki verði á grundvelli þeirra fallist á þá íþyngjandi aðgerð sem felst í framsali, án þess að dómstólar meti hver líkleg niðurstaða um refsingu yrði að íslenskum lögum fyrir það brot sem framsalsbeiðni er reist á óháð refsiramma viðeigandi lagaákvæðis. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1994 greiðist allur sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Felld er úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra 8. október 2007 um framsal varnaraðila X til Litháen.

Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Stefáns Boga Sveinssonar héraðsdómslögmanns, í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 311.250 krónur.

 

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

Ég er ósammála atkvæði meiri hluta réttarins að því er varðar skýringu á þeim lagaákvæðum sem hér skipta máli. Orðin „getur varðað fangelsi“ í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum verða í ljósi lögskýringargagna ekki skilin öðru vísi en svo að þar sé átt við refsiramma. Er sú skýring einnig í samræmi við eðlilega orðskýringu textans á þessu sviði lögfræðinnar, en vísað er í setningunni til þess viðmiðs sem sett sé að „íslenskum lögum.“

Sama gildir um skýringu á tímamörkum í 10. gr. sömu laga. Þar segir jafnframt að framsal sé ekki heimilt ef hér á landi er „til meðferðar mál“ fyrir annan verknað en þann sem sakamaður óskast framseldur fyrir og sem getur varðað minnst 2 ára fangelsi. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæði þessu segir að efnislega sé það samhljóða 6. gr. laga nr. 7/1962 um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Þar segir að maður verði ekki framseldur „ef hann er undir saksókn hér á landi vegna annars brots en framsalsbeiðni varðar, enda liggi 2 ára fangelsi hið minnsta við því broti.” Eðlilegt er að skýra orðin „mál til meðferðar“ í 10. gr. laga nr. 13/1984 með hliðsjón af orðinu „saksókn“ í lögum nr. 7/1962 enda er sú skýring í samræmi við önnur lögskýringargögn. Í gögnum frá sóknaraðila kemur fram að til meðferðar séu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu nokkur mál vegna ætlaðra brota varnaraðila hér á landi, en samkvæmt framangreindu leiðir meðferð mála hjá lögreglu ekki sjálfkrafa til þess að framsalskröfu beri að hafna. Hvorki af hálfu sóknaraðila né varnaraðila er á því byggt að synja eigi um framsal varnaraðila til Liháen á grundvelli framangreindrar 10. gr. laga nr. 13/1984.

Ég tel að skilyrði 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 séu uppfyllt og staðfesta beri hinn kærða úrskurð.   

                                   

                

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2007.

     Með bréfi 13. október 2007 til ríkissaksóknara kærði Stefán Bogi Sveinsson héraðsdómslögmaður, sem hefur verið skipaður verjandi X, [kt. og heimilisfang] ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um framsal hans til Litháen.  Ríkissaksóknari sendi Héraðsdómi Reykjavíkur máli 17. þ.m.  Það var tekið fyrir 22. þ.m.  Af hálfu sóknaraðila, X, var þess krafist að úrskurði ráðuneytisins yrði hrundið.  Af hálfu varnaraðila, íslenska ríkisins, var krafist staðfestingar ákvörðunar dómsmálaráðherra frá 8. október sl. um að framselja X til Litháen.  Málið var samdægurs tekið til úrskurðar.

     Sóknaraðili er 18 ára gamall litháískur ríkisborgari.  Hinn 6. september sl. barst dómsmálaráðuneytinu með símbréfi beiðni ríkissaksóknara Litháen um framsal hans.  Beiðnin barst ríkissaksóknara 11. september sl. og frumgögn málsins 25. s.m    Í framsalsbeiðninni og gögnum sem fylgdu henni kemur fram að sóknaraðili sætir rannsókn lögreglu í Raseiniaisýslu í Litháen vegna fimm þjófnaðarbrota sem hann er grunaður um að hafa framið í félagi við aðra á tímabilinu frá júlí til október árið 2006 með því að hafa brotist inn í íbúðarhús og atvinnuhúsnæði á tilgreindum stöðum í Raseiniai og haft á brott með sér nánar tilgreinda muni, samtals að verðmæti um 230.000 krónur.  Hinn 25. september sl. var sóknaraðila kynnt framsalsbeiðnin af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  Í lögregluskýrslu kemur fram að sóknaraðili kannist við málin og að hafa framið umrædd brot. Að fenginni umsögn ríkissaksóknara, með bréfi dags. 3. október sl., um að uppfyllt væru skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 1371984 ákvað dómsmálaráðherra hinn 8. október sl. að fallast á beiðni litháískra dómsmálayfirvalda um að framselja sóknaraðila.  Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kynnti sóknaraðila ákvörðunina hinn 13. október sl.  Með símbréfi, sem barst ríkissaksóknara 14. október, krafðist verjandi sóknaraðila úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi.      Á grundvelli handtökuskipunar litháískra yfirvalda frá 27. ágúst 2007 og kröfugerðar þeirra, sem ríkislögreglustjóri lagði fram, um gæsluvarðhald, var sóknaraðila gert með úrskurði þessa réttar að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 1. október 2007 kl. 16.  Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem felldi hann úr gildi með dómi 13. september 2007 (mál nr. 470/2007) en ákvað þess í stað að X skyldi bönnuð brottför frá Íslandi allt til mánudagsins 1. október 2007 kl. 16.  Með tveimur úrskurðum þessa réttar var farbannið síðan framlengt, í síðara sinnið til mánudagsins 19. nóvember nk. kl. 16.

     Krafa sóknaraðila er á því reist að skilyrði laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna séu ekki uppfyllt að því er varðar alvarleika brots sem honum sé gefið að sök.  Ekki sé eðlilegt að miða við refsihámark eftir ákvæði 244. gr. almennra hegningarlaga enda rúmist innan þeirrar greinar margir gerningar og misalvarlegir og leggi 1. mgr. 3. gr. laga um framsal sakamanna íslenskum yfirvöldum og dómstólum þá skyldu á herðar að meta það brot sem einstaklingi sé gefið að sök og hvaða refsingu hann mundi hljóta hefði málið komið fyrir íslenska dómstóla.  Tæki íslenskur dómstóll upp á því að dæma einstakling í stöðu sóknaraðila í meira en eins árs fangelsi gengi sú niðurstaða í fullkomið berhögg við meginreglur réttarríkisins og sé algjörlega óhugsandi að þess konar niðurstaða fengist fyrir hérlendum dómstóli.  Því er einnig haldið fram með vísun til 7. gr. laga nr. 13/1984 að persónulegar aðstæður sóknaraðila geri það að verkum að ekki ætti að framselja hann.

     Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að háttsemin, sem sóknaraðila séu gefin að sök, varði við 244. gr. almennra hegningarlaga og gæti samkvæmt því varðað fangelsi allt að 6 árum.  Einnig séu brotin ófyrnd, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga.  Á því er byggt að skilyrði framsals séu samkvæmt þessu uppfyllt, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.

     Það er ekki á færi dómara máls þessa að áætla hver yrði líkleg refsing fyrir ætluð brot sóknaraðila kæmi til kasta íslensks dómstóls að dæma um þau.  Til þess skortir fullnægjandi gögn og jafnvel er óvíst að verðmæti, sem er fundið á grundvelli opinberrar gengisskráningar, sé einhlítur mælikvarði á raunverulegt verðmæti í viðkomandi landi.  Þess gerist heldur ekki þörf þar sem 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 verður skilin þannig, í samræmi við mörg hliðstæð lagaákvæði, að skírskotað sé til refsiramma sem liggur við broti en ekki líklegrar niðurstöðu refsidóms.  Fyrir liggur framsalskrafa og handtökuskipun viðkomandi litháískra yfirvalda.  Ætluð brot eru ófyrnd.  Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984.  Ekki er fallist á að synja beri um framsal af mannúðarástæðum, sbr. 7. gr. tilvitnaðra laga.

     Samkvæmt þessu er niðurstaða úrskurðarins sú að synja beri kröfu sóknaraðila um að hrundið verði ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 8. október 2007 um framsal hans til Litháen.  Þóknun réttargæslumanns sóknaraðila, Stefáns Boga Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 70.000 krónur (a.m.t. vsk.) greiðist úr ríkissjóði.

     Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð.

     Synjað er kröfu sóknaraðila, X, um að hrundið verði ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 8. október 2007 um framsal hans til Litháen.

     Þóknun réttargæslumanns sóknaraðila, Stefáns Boga Sveinssonar héraðsdóms­lögmanns, 70.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.