Hæstiréttur íslands
Mál nr. 716/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Þriðjudaginn 11. nóvember 2014 |
|
Nr. 716/2014. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hrl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2014, þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 27. október 2014 um að varnaraðili skyldi sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. 1. gr. laga nr. 39/2012. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími og að það verði ekki látið taka til barna sinna.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Áðurnefnd ákvörðun sóknaraðila um nálgunarbann var birt varnaraðila 28. október 2014 og miðast réttaráhrif hennar við það tímamark, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 85/2011.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 27. október 2014 um að varnaraðili, X, skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að bann sé lagt við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og barna hennar og varnaraðila, B og C, [...] í [...], svo og [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus, og að varnaraðili veiti A og börnum þeirra eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun verjanda og réttargæslumanns brotaþola eru staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 27. október 2014 þess efnis að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni. Ákvörðunin var birt varnaraðila 28. sama mánaðar. Samkvæmt henni var ákveðið að varnaraðili „skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og barna þeirra, B og C, að [...] í [...] og [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A og börnum þeirra eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.“
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi varnaraðili undanfarnar vikur valdið fyrrum eiginkonu sinni og dætrum þeirra miklu ónæði. Varnaraðili hafi sent fyrrum eiginkonu sinni og móður hennar skilaboð sem séu til þess fallin að valda hjá þeim ótta. Hún fari með forsjá dætra þeirra og ekki hafi náðst samkomulag um umgengni varnaraðila við börnin hjá sýslumanni. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi varnaraðili frá því í haust setið í kringum heimili fyrrum eiginkonu sinnar og dætra þeirra og valdið miklu ónæði í skóla og frístundaheimili eldri dótturinnar þar sem hann sæki mjög stíft að hitta hana fyrir. Hafi skólayfirvöld og barnavernd rætt við varnaraðila um að hegðun hans sé farin að valda dótturinni mikilli vanlíðan og að óeðlilegt sé að hann hangi yfir henni öllum stundum á skólatíma. Þrátt fyrir beiðnir þeirra hafi varnaraðili ekki látið segjast og haldið uppteknum hætti og sótt hart að hitta dótturina fyrir á skóla- og frístundatíma. Hafi skólayfirvöld lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessa. Þá hafi barnaverndarstarfsmaður rætt við dótturina þann 13. október sl., en í viðræðum barnaverndarstarfsmanns við hana hafi komið fram að hún óttist varnaraðila, föður sinn, og að hann hafi sagt við hana að hann ætli að taka hana með sér. Þá hafi dóttirin óttast að varnaraðili myndi gera móður hennar eitthvað illt.
Lögreglustjóri tekur fram að brotaþoli hafi lagt fram beiðni um nálgunarbann í júní sl. og aftur 25. september sl., en beiðni hennar hafi þá verið hafnað. Í kjölfar beiðni brotaþola í september sl. hafi varnaraðili verið yfirheyrður og honum gert ljóst að hegðun hans væri til þess fallin að valda fyrrum eiginkonu hans og dætrum þeirra vanlíðan. Þrátt fyrir það hafi varnaraðili ekki látið segjast og í ljósi nýrra upplýsinga frá barnavernd telji lögregla að henni og dætrum þeirra stafi ógn af varnaraðila, en ljóst sé að háttsemi hans sé farin að valda henni og dætrunum miklum ótta og vanlíðan.
Þá er þess getið að varnaraðili hafi sætt nálgunarbanni gagnvart fyrrum eiginkonu og dætrum þeirra í 6 mánuði frá 19. júlí 2013 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 288/2013 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 515/2013. Meðan varnaraðili hafi sætt nálgunarbanninu hafi hann verið uppvís að því að brjóta bannið. Gefin hafi verið út ákæra vegna þess og sé málið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Það sé nr. [...], og hafi verið dómtekið [...].
Í ljósi framangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að hætta sé á að varnaraðili muni halda áfram að raska friði fyrrum eiginkonu sinnar og dætra þeirra í skilningi ákvæðisins, njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa. Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna telji lögreglustjóri skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og því ítreki hann að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt gögnum málsins voru varnaraðili og framangreind kona í hjónabandi frá árinu 2008 og þar til í desember 2013 er þau skildu lögskilnaði. Skilnaður milli þeirra að borði og sæng varð í september 2012 og flutti þá varnaraðili af heimilinu. Þau eiga tvær dætur og samkvæmt skilnaðarsamningi þeirra var forsjá sameiginleg en dæturnar áttu að eiga lögheimili hjá móður sinni. Varnaraðili átti að umgangast þær samkvæmt ákvæðum samningsins. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en síðan þá hafi varnaraðili og konan deilt um umgengni og hefur varnaraðili höfðað mál á hendur henni til að fá forsjá dætranna og að dæmt verði lögheimili þeirra verði hjá honum. Þá eru meðal gagna málsins bréf skólastjóra skólans sem eldri dóttirin sækir og eins greinargerð félagsráðgjafa er starfar á fjölskyldusviði sveitafélagsins. Þessi gögn, auk annarra, staðfesta það sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra um að varnaraðili sé að ónáða dótturina þegar hún er í skóla eða tómstundastarfi tengdu skólanum. Hann láti sér ekki segjast þótt hann sé beðinn að virða að barnið þurfi frið til að sinna leik og starfi án nærveru hans.
Í a lið 4. gr. laga nr. 85/2011 segir að heimilt sé að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur sé um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Samkvæmt b lið ákvæðisins má beita nálgunarbanni ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola. Eins og nú hefur verið rakið er rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi raskað friði fyrrum eiginkonu sinnar og eldri dóttur þeirra. Það liggur hins vegar ekkert fyrir um að þetta eigi við um yngri dótturina. Þá er rétt að taka fram að ákærði var sýknaður af ákæru fyrir að brjóta gegn nálgunarbanni sem lagt var á hann í júlí 2013.
Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á það með lögreglustjóra að lagaskilyrði hafi verið til að leggja nálgunarbann á varnaraðila og verður það því staðfest.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er nálgunarbann sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á varnaraðila, X, 27. október 2014.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Oddgeirs Einarssonar hrl., 175.700 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 175.700 krónur, greiðist úr ríkissjóði.