Hæstiréttur íslands
Mál nr. 251/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 7. maí 2008. |
|
Nr. 251/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til mánudagsins 2. júní 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hnekkt.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. júní 2008, kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi til mánudagsins 2. júní 2008 kl. 16.00
Í greinargerð lögreglu kemur fram að síðdegis laugardaginn 22. mars hafi lögreglu borist tilkynning um slagsmál í íbúð í A í Reykjavík. Sjúkrabifreið hafi verið send á vettvang þar sem fyrir hafi legið upplýsingar um að menn á vettvangi væru alvarlega slasaðir.
Íbúi hússins hafi greint lögreglu frá því á vettvangi að hann hefði séð um 10-12 karlmenn koma á tveimur bifreiðum. Mennirnir hefðu verið vopnaðir járnrörum, slaghömrum og sleggju og farið inn í A. Í kjölfarið hefðu þaðan heyrst mikil læti og sagðist vitnið svo hafa séð hvar maður,blóðugur í andliti, hafi komið hlaupandi af vettvangi. Mennirnir hafi svo ekið á brott og tekið vopnin með sér.
Vitni hafi greint lögreglu frá útliti bifreiða mannanna og númeri annarrar þeirra (...). Lögreglan á Suðurnesjum hafi sama dag stöðvar bifreið sem hafi komið heim og saman við lýsinguna en í bifreiðinni hafi verið fjórir karlmenn en í henni hafi einnig fundist nokkur vopn og barefli, sleggja, blóðugt steypustyrkjarjárn, rörbútur og tveir hnífar.
Mennirnir hafi verið handteknir og úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald í héraðsdómi Reykjavíkur. Fimmti maðurinn hafi verið skráður eigandi bifreiðarinnar. Sá hafi verið handtekinn 25. mars í Reykjanesbæ. Kærði hafi svo gefið sig svo fram þann 27. mars í kjölfar þess að hafa verið eftirlýstur af lögreglu. Hann hafi einnig verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudagsins 14. apríl. Fjórir af úrskurðunum hafi verið kærðir til Hæstaréttar sem hafi staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.
Í íbúðinni í A hafi verið 10 menn og sjö þeirra með mikla áverka, m.a opin beinbrot og með áverka á höfði. Árásin þyki hafa verið heiftúðleg og sérstaklega hættuleg. Hún þyki sýnu alvarlegri þegar litið sé til þess að svo virðist sem atlagan hafi verið skipulögð. Árásarmenn hafi komið akandi og búnir vopnum og lífshættulegum bareflum. Af framburðum brotaþola megi ráða að mennirnir hafi ráðist til atlögu við brotaþola umsvifalaust og þeir hafi verið komnir inn í íbúðarhúsnæðið. Áverkar brotaþola sýni að árásarmenn hafi gengið fram af mikilli hörku og þyki hafa beitt vopnum sínum þannig að brotaþolar voru í lífshættu.
Kærði hafi í yfirheyrslu hjá lögreglu neitað að tjá sig um sakarefnið. Hann hafi sagt að hann hafi verið heima hjá sér laugardaginn 22. mars en þar hafi hann verið einn. Þá hafi hann neitað að tjá sig um tengsl við aðra sakborninga málsins og litlar upplýsingar viljað gefa lögreglu.
Nafn kærða hafi komið fram á upphafsstigum rannsóknar og þann 25. mars þ.m. hafi lögregla farið fram á heimild til húsleitar á dvalarstað hans sem og til að handataka hann og sú krafa hafi verið samþykkt í héraðsdómi Reykjaness. Kærði hafi ekki fundist á dvalarstað sínum og ekki mætt til vinnu. Þegar hann gaf sig fram þann 27. mars. hafði ekkert til hans spurst í tvo daga.
Í skýrslu sem tekin hafi verið af brotaþolanum B þann 28. mars. komi fram að hann hafi setið í sófa inni í stofu íbúðarinnar þegar að hann hafi séð hvar kærði hafi staðið í hurðinni og haldið á exi. Kærði hafi komið fyrstur til mannanna þar sem þeir sátu í sófanum. Þá hafi hann greint frá því að hafa séð hvar kærði hafi slegið til eins mannanna þar sem hann hafi legið sofandi í rúmi sínu. Kærði hafi slegið til mannsins nokkrum sinnum og taldi hann að kærði hefði slegið til mannsins með hamrinum á exinni. Hann þekki kærða því hann hafi séð hann einu sinni áður.
Í framburði annars brotaþola C komi fram að kærði hafi reynt að berja hann með einhverju áhaldi í höfuðið en hann hafi þá náð að bera hendur fyrir sig. Samkvæmt áverkavottorði í gögnum málsins hafi C hlotið greinilegt opið beinbrot á vinstri hendi í árásinni en brotnað einnig á þeirri hægri. C hafi einnig nefnt að hann hefði séð hvar kærði sló til mannsins sem svaf í rúminu og að kærði hefði slegið þann mann í höfuðið. Sá maður er D og hafi hann hlotið alvarlegan höfuðáverka, tvo 8 cm langa skurði á höfði sem samkvæmt áverkavottorði samsvari því að hann hafi hlotið þungt höfuðhögg, hugsanlega með einhvers konar barefli.
Þá hafi það komið fram í skýrslu af E öðrum brotaþola, að hann hafi séð kærða inni í íbúðinni þar sem hann hafi haldið á exi og að hann hafi talið sem að kærði ætlaði sér að beita exinni gegn honum. Hann hafi svo snúið sér við og þá verið sleginn í höfuðið. Áverkar hans samkvæmt áverkavottorði voru þeir að hann hlaut opið sár á höfði sem sauma þurfti 12 sporum. Hann þekki kærða því hann hafi hitt hann áður í A.
Í skýrslu sem tekin hafi verið af E enn öðrum brotaþola, komi fram að kærði hafi verið í hópi árásarmanna og að hann hafi daginn áður rætt við kærða vegna óuppgerðra mála og kærði þá sagst ætla að koma daginn eftir til að ræða þau mál. Vitnið hafi hins vegar ekki grunað að heimsóknin væri til þess að ganga í skrokk á honum og öðrum íbúum. Hann þekki kærða þar sem að kærði hafi búið um stund hjá mönnunum í A.
Þegar litið sé til þess að fjögur vitni séu að því að kærði hafi verið í hópi árásarmanna og til þess að vitnin hafi jafnframt lýst því með hvaða hætti kærði hafi gengið fram við árásina, þyki lögreglu sem að fram sé kominn sterkur grunur um að hann sé einn árásarmanna. Á það sé bent að bráðabirgðaniðurstöður frá tæknideild lögreglunnar beri með sér að mannsblóð sé á fatnaði hans. Einnig sýni símagögn að kærði hafi verið í stöðugu símasambandi við aðra sakborninga í málinu bæði fyrir og eftir árásina. Samkvæmt fyrirliggjandi símagögnum sjáist að símtæki hann hafi verið skráð inn á svokallaða Base-stöð við [...] rétt fyrir og eftir árásina. Þá séu til upptökur af honum í pólskri verslun, [...], skömmu fyrir árásina í félagi við kærða G. Við þetta bætist að kærði hafi ekki viljað tjá sig um hvar hann var daginn sem árásin var framin né um tengsl við kærðu.
Vitni hafi greint frá því að kærði hafi fyrstur gengið inn í íbúðina og heilsað með orðunum „witam“ og lýsingar þeirra þyki bera með sér að kærði sé höfuðpaur í málinu, hann hafi þannig fyrstur gengið inn í íbúðina og aðrir komið í kjölfarið.
Þá beri framburðir brotaþola með sér að kærði hafi gengið fram af sérstaklega mikilli hörku og hafi m.a. notað lífshættulegt barefli og slegið mann í höfuðið þar sem hann lá sofandi í rúmi sínu, þannig að hending ein réði því að ekki hafi farið enn verr.
Brot þau sem til rannsóknar séu þyki sérstaklega alvarleg og séu talin geta varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brotið sé talið sérstaklega alvarlegt þegar litið sé til þess að kærði þyki hafa verið vopnaður lífshættulegu vopni sem hann beitti gegn höfði brotaþola. Einnig sé brotið talið sérstaklega alvarlegt með tilliti til hinna alvarlegu afleiðinga sem hafi orðið af völdum verknaðarins, annars vegar mikill höfuðáverki og hins vegar opið beinbrot.
Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 séu uppfyllt, enda þyki kærði vera undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum varði allt að 16 ára fangelsi og sé í eðli sínu svo svívirðilegt að almannahagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Rannsókn málsins sé vel á veg komin en beðið sé eftir niðurstöðum úr DNA sýnum sem tekin hafi verið af fatnaði kærðu í málinu sem og eftir öðrum tæknigögnum. Ætla megi að unnt verði að ljúka rannsókn málsins og senda málið til meðferðar ríkissaksóknara innan þess tíma sem krafist sé ásamt greinargerð rannsóknara, sbr. 1. mgr. 77. gr. oml.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og þeirra gagna sem lögð hafi verið fyrir héraðsdóm við meðferð kröfunnar sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt rannsóknargögnum er kærði undir sterkum grun um að hafa framið alvarleg brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur allt að 16 ára fangelsisrefsingu.
Þegar litið er til alvarleika þess brots sem kærði er grunaður um svo og þess hvernig að því var staðið, verður að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, að kærði sitji áfram í gæsluvarðhaldi. Þykja með vísan til framangreinds uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, [kt. og heimilisfang], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi til mánudagsins 2. júní 2008 kl. 16.00