Hæstiréttur íslands
Mál nr. 255/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 11. maí 2007. |
|
Nr. 255/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sératkvæði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. júní 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að rannsókn málsins sé á lokastigi en niðurstöðu geðrannsóknar á varnaraðila sé að vænta í þessum mánuði. Hafi geðrannsóknin tekið lengri tíma en ráðgert var vegna hegðunar varnaraðila sem kunnáttumaðurinn, sem kvaddur var til að framkvæma rannsóknina, hafi þurft tíma til að átta sig á. Þá hafi verið talið rétt að bíða með þá yfirheyrslu á varnaraðila, sem fram hafi farið 7. maí 2007, þar til niðurstaða geðrannsóknarinnar lægi fyrir svo og niðurstaða sálfræðirannsóknar á ætluðum brotaþola. Af þessum ástæðum hefur útgáfa ákæru tafist. Með þessum athugasemdum og vísan til dóms Hæstaréttar 30. mars 2007 í máli nr. 178/2007 en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Sóknaraðili byggir kröfu sína eingöngu á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, þar sem kveðið er á um að úrskurða megi mann í gæsluvarðhald ef sterkur grunur sé um að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar eru ströng skilyrði fyrir því að sakborningar verði látnir sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli þessa lagaákvæðis. Styðst það meðal annars við túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á 3. mgr. 5. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Hefur dómstóllinn talið það vera skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi af þessum toga að löggæsluyfirvöld sýni fram á að það muni valda röskun á almannafriði ef sakborningi yrði sleppt. Að þessu er vikið í sératkvæði mínu í máli sóknaraðila gegn varnaraðila nr. 178/2007, sem dæmt var 30. mars 2007.
Varnaraðili er 18 ára gamall. Engar upplýsingar liggja fyrir í málinu um að hann eigi sakarferil að baki. Til stuðnings kröfu sinni hefur sóknaraðili nefnt að öðrum konum en kæranda kunni að vera hætta búin gangi varnaraðili laus. Þetta er röksemd sem varðar ekki þá lagaheimild sem krafan byggist á og hefur því ekki þýðingu við úrlausn málsins. Að auki hefur henni ekki verið fundinn staður í málsgögnum. Sóknaraðili hefur ekki fært fram önnur marktæk rök fyrir því að skilyrði séu til áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir varnaraðila með tilliti til almannahagsmuna. Rannsókn á geðhögum hans, sálfræðirannsókn á ætluðum brotaþola og bótakrafa hennar hefur ekki þýðingu í því sambandi.
Samkvæmt þessu tel ég ekki nein efni til að verða við kröfu sóknaraðila og beri því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X [kennitala] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 20. júní nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að varðandi upphaf máls þessa og atvika sé vísað til meðfylgjandi krafna lögreglustjórans til Héraðsdóms Reykjavíkur R-184/2007 og R-197/2007, svo og til dóma Hæstaréttar í málum nr. 168/2007 og 178/2007.
Kærði sæti nú geðrannsókn sbr. d. lið 71. gr. laga nr. 19/1991 og hafi Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, verið kvaddur til starfans sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness nr. M-23/2007.
Rannsókn málsins sé á lokastigi og niðurstöðu geðrannsóknarinnar að vænta í þessum mánuði en sú rannsókn hafi tekið nokkurn tíma vegna ákveðinnar háttsemi kærða sem kunni að vera af geðrænum toga. Þá hafi verið send fyrirspurn til ríkislögreglustjóra um sakarferill kærða en þeirri fyrirspurn hafi ekki verið svarað enn.
Eins og gögn málsins beri með sér virðist sem kærði hafi með tilviljanakenndum hætti ráðist að meintum brotaþola í því skyni að eiga við hana kynferðismök en læknisvottorð dags. 27. mars sl. beri með sér að áverkar brotaþola samrýmist kynferðismökum án samþykkis. Virðist lögreglustjóranum sem hending ein hafi ráðið því hver hafi orðið fyrir hinni meintu árás enda virðist mega ráða af myndskeiðum af vettvangi að einungis 18-20 mínútur hafi liðið frá því að kærði og kærandi hittust fyrst, þar til kærði kemur upp úr kjallara hótelsins, þar sem meintur atburður muni hafa átt sér stað. Lögreglustjóri telji meinta háttsemi kærða mjög alvarlega og að öðrum konum kunni að vera hætta búin gangi kærði laus. Telji lögreglustjóri því að ríkir almannahagmunir krefjist þess að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi enda telji hann að meint brot kærða varði við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum en brot gegn því ákvæði geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna, almannahagsmuna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu.
Eins og rakið hefur verið og að öðru leyti með vísan til rannsóknargagna er sterkur grunur um að kærði hafi brotið gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að 16 ára fangelsisrefsingu.
Verjandi kærða telur óútskýrðan drátt hafa orðið á rannsókn málsins og hafi nú þegar mátt gefa út ákæru. Verði því ekki byggt á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Fyrir liggur að kærði samþykkti að gangast undir geðrannsókn og var Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, dómkvaddur, hinn 12. apríl sl., til starfans. Beðið er niðurstöðu geðrannsóknarinnar auk þess sem enn má vænta gagna frá ríkislögreglustjóra. Verður því ekki séð að óhæfilegur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins.
Þegar litið er til alvarleika þess brots sem kærði er grunaður um svo og þess hvernig að því var staðið, verður að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, að kærði sitji áfram í gæsluvarðhaldi. Þykja með vísan til framangreinds uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett.
Sigríður Hjaltested settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 20. júní nk. kl. 16:00.