Hæstiréttur íslands
Mál nr. 56/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Hjón
- Opinber skipti
- Kaupmáli
- Séreign
|
|
Föstudaginn 24. febrúar 2012. |
|
Nr. 56/2012.
|
M (Ingimar Ingimarsson hrl.) gegn K (Kristján B. Thorlacius hrl.) |
Kærumál. Hjón. Opinber skipti. Kaupmáli. Séreign.
Við slit á hjúskap M og K var deilt um hvort söluandvirði fyrirtækisins A ehf. teldist séreign M. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að í framhaldi sölunnar hefði samblöndun orðið á hjúskapareign aðila og þeim hluta söluandvirðisins sem hefði getað talist séreign M. Var því fallist á með K að fjármunirnir teldust hjúskapareign við slit á hjúskap aðila.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. janúar 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. janúar 2012, þar sem kveðið var á um að eftirstöðvar söluandvirðis í [A] ehf., samtals 35.192.085 krónur, sem geymdar eru á nánar tilgreindum bankareikningum, skuli koma til helmingaskipta við slit á búi málsaðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að fyrrgreindir fjármunir teljist séreign sín, til vara að þeim verði skipt þannig að í sinn hlut komi 65% fjárhæðarinnar en að því frágengnu að við helmingaskipti verði í stað fyrrgreindrar fjárhæðar miðað við 18.367.257 krónum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en til vara, að nefndar eftirstöðvar söluandvirðis í [A] ehf., sem greinir í kröfu sóknaraðila, skiptist þannig að í hlut hennar komi 35% fjárhæðarinnar. Varnaraðili krefst og málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hennar um málskostnað í héraði því ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.
Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Svo sem þar greinir gerðu málsaðilar með sér kaupmála, sem skrásettur var í kaupmálabók [...] 2002, og gengu þau í hjúskap 8. ágúst sama ár. Í kaupmálanum var ákvæði um að 30% eignarhluti sóknaraðila í [...] ehf., [...], skyldi vera séreign hans. Í hinum kærða úrskurði er rakið hvernig fyrirtækið var sameinað öðru og að lokum selt 4. apríl 2007. Hjónin munu hafa leitað eftir skilnaði en komust ekki að samkomulagi um skiptingu eigna og krafðist sóknaraðili opinberra skipta með bréfi 25. júní 2010. Úrskurður var kveðinn upp um opinber skipti til fjárslita málsaðila í Héraðsdómi Reykjaness 5. október sama ár. Skiptastjóri vísaði þessum þætti ágreiningsins til héraðsdóms 4. febrúar 2011.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kærumálskostnað. Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Kristjáns B. Thorlacius hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. janúar 2012.
Mál þetta, sem þingfest var 17. febrúar 2011, var tekið til úrskurðar 6. desember 2011. Sóknaraðili er M, kt.[...]. Varnaraðili er K, kt. [...]. Máli þessu var beint til dómsins af skiptastjóra með vísan til 112. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., vegna ágreinings aðila um hvaða eignir skuli koma til skipta við skilnað þeirra.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru aðallega þær að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði viðurkennt að eftirstöðvar söluandvirðis eignarhluta sóknaraðila í A ehf. inni á bankareikningi hans nr. [...] við viðmiðunardag skipta, 5. nóvember 2009, 32.078.429 kr., sem og það sem hann hefur fengið greitt af söluandvirði félagsins inn á aðra reikninga, 3.113.656 kr., séu séreign sóknaraðila og því utan skipta.
Til vara er þess krafist að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði eftirstöðvar söluandvirðis í A ehf., bæði sú upphæð sem stóð inni á bankareikningi sóknaraðila nr.[...] við viðmiðunardag skipta, 5. nóvember 2009, 32.078.429 kr., sem og það sem hann hefur fengið greitt af söluandvirði félagsins inn á aðra reikninga, 3.113.656 kr., skipt þannig að í hlut sóknaraðila komi 65% og í hlut varnaraðila 35%.
Til þrautavara er gerð sú krafa að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði miðað við að 50% af 18.367.257 kr., eða 9.183.628,50 kr., komi í hlut sóknaraðila, en 50% af 18.367.257 kr., eða 9.183.628,50 kr., komi í hlut varnaraðila.
Þá er gerð krafa um málskostnað og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til útlagðs kostnaðar vegna matsgerðar.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að eftirstöðvar söluandvirðis í A ehf., bæði sú upphæð sem stóð inni á bankareikningi mannsins nr. [...], 32.078.429 kr., á viðmiðunardegi skipta, 5. nóvember 2009, svo og það sem hann hefur fengið greitt af söluandvirði félagsins eftir það, 3.113.656 kr., eða samtals 35.192.085 kr., komi til helmingaskipta.
Til vara er þess krafist að eftirstöðvar söluandvirðis í A ehf., bæði sú upphæð sem stóð inni á bankareikningi mannsins nr.[...], 32.078.429 kr., á viðmiðunardegi skipta, 5. nóvember 2009, svo og það sem hann hefur fengið greitt af söluandvirði félagsins eftir það, 3.113.656 kr., eða samtals 35.192.085 kr., skiptist þannig að í hlut konunnar komi 35%.
Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Aðilar gengu í hjúskap 8. ágúst 2002, en áður höfðu þau verið í óvígðri sambúð sem þau slitu og kom þá upp ágreiningur um fjárskipti. Eftir að aðilar tóku aftur saman og ákváðu að ganga í hjúskap á árinu 2002 gerðu þau með sér kaupmála, dags. 26. júlí 2002. Í kaupmálanum segir í 1. gr. að íbúð að [...], [...], skyldi að jöfnu vera í sameign þeirra. Samkvæmt 2. gr. skyldi hjólhýsi vera á sama hátt að jöfnu í sameign aðila. Í 3. gr. var kveðið á um að tiltekin bifreið, sem var skráð eign sóknaraðila, skyldi vera séreign varnaraðila og félagsbúi þeirra óviðkomandi. Þá var eftirfarandi ákvæði í 4. gr.:
Eignarhluti M í fyrirtækinu A ehf., kt. [...], [...], Reykjavík, 30% (eigandi að hinum 70% í fyrirtækinu er D h.f.), skal vera séreign mín, M, og félagsbúi okkar óviðkomandi.
Í 5. gr. kaupmálans var svo kveðið á um að innbúi skyldi skipta þannig að hvor aðili fengi það innbú sem hann hefði komið með í búið, en það sem yrði keypt á sambúðartímanum myndi skiptast að jöfnu milli aðilanna. Að lokum segir í 6. gr. að fara skuli um fjármál aðila að öðru leyti að lögum.
Fram kemur í gögnum málsins að á árinu 2005 stofnaði sóknaraðili einkahlutafélagið B, ásamt C. Með kaupsamningi, dags. 9. janúar 2006, keypti B ehf. af D hf. 70% eignarhlut í A ehf. Samkvæmt 2. gr. kaupsamningsins greiddi kaupandi 45.000.000 kr. við undirritun samningsins. Jafnframt yfirtók kaupandi skuld A ehf. við D hf. samkvæmt skuldabréfi, að fjárhæð 27.831.824 kr.
Hinn 24. febrúar 2006 var ákveðið að sameina A (yfirtökufélagið) og B (yfirtekna félagið), miðað við 1. janúar 2006, undir nafni A ehf.
Með kaupsamningi, dags. 4. apríl 2007, seldi sóknaraðili svo allt hlutafé í A ehf. (100%) til E ehf. Kaupverðið var 94.925.000 kr., sem átti að greiðast þannig: Í fyrsta lagi við undirritun kaupsamnings með 63.925.000 kr. í reiðufé inn á bankareikning sóknaraðila nr. [...] hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, í öðru lagi við yfirtöku skuldar samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 11.000.000 kr. og í þriðja lagi með skuldabréfi að fjárhæð 20.000.000 kr. Jafnframt bar kaupanda að losa sóknaraðila, C og F undan persónulegum ábyrgðum sem þeir voru í fyrir hönd A ehf.
Sóknaraðili kveður að hinn 30. mars 2007 hafi verið greiddar 20.000.000 kr. inn á tékkareikning hans nr. [...] og hinn 4. apríl 2007 hafi verið greiddar 42.925.000 kr., samtals 62.925.000 kr., en mismunur innborgunar og kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 1.000.000 kr. hafi farið upp í kostnað. Afborganir af skuldabréfinu, sem var að fjárhæð 20.000.000 kr., hafi einnig verið lagðar inn á tékkareikning sóknaraðila nr.[...] hjá BYR. Sóknaraðili hafi svo millifært 62.925.000 kr. inn á reikning sinn nr.[...] hjá BYR. Sá reikningur hafi verið eyðilagður og innistæða reikningsins millifærð yfir á reikning sóknaraðila hjá BYR nr.[...] hinn 17. apríl 2007. Sóknaraðili segir að innistæðum hafi verið ráðstafað til kaupa á fasteignum, húsbíl, í neyslu, ferðalög o.fl. Einnig hafi innistæða verið notuð til kaupa á bréfum í peningamarkaðssjóði og hlutabréfum í Landsbanka. Þá hafi hinn 18. mars 2009 verið millifærðar 30.000.000 kr. inn á reikning hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, en aðilar hafi þá haft áhyggjur af því að BYR yrði gjaldþrota. Innistæðan þar hafi svo verið aftur millifærð hinn 5. ágúst 2009 inn á reikning [...].
Sóknaraðili kveðst hafa starfað um nokkurra mánaða skeið hjá kaupanda A ehf., en hætt störfum í ágúst 2007. Aðilar hafi ekki verið á almennum vinnumarkaði eftir það heldur lifað á söluverði félagsins. Við viðmiðunardag skipta, 5. nóvember 2009, hafi staðan á reikningi sóknaraðila nr. [...] verið 32.078.429 kr. Sóknaraðili telur að þessir fjármunir séu séreign hans og því utan skipta. Varnaraðili telur hins vegar að þeir eigi að koma til helmingaskipta og auk þess eigi að taka tillit til greiðslna af skuldabréfinu sem var að fjárhæð 20.000.000 kr., sem hafi verið lagðar inn á reikning sóknaraðila nr. [...], samtals 3.113.656 kr. Varnaraðili telur því að 35.192.085 kr. eigi að koma undir skiptin.
II.
Hinn 9. maí 2011 var að beiðni sóknaraðila dómkvaddur matsmaður, G, til að meta verðmæti 30% séreignarhlutar sóknaraðila í A ehf. við framsal alls hlutafjárins til E ehf. á árinu 2007 eftir skuldsetta yfirtöku og samruna og hvort það hafi verið jafnt söluvirði alls hlutafjárins. Í matsgerð, dags. 23. júní 2011, kemur fram að matið er byggt á gögnum málsins auk þess sem aflað var viðbótargagna og upplýsinga frá málsaðilum.
Í téðri matsgerð var við mat á verðmæti félagsins tekið mið af viðskiptum milli ótengdra aðila annars vegar við kaup B ehf. af D og svo við kaup E ehf. af sóknaraðila. Ekki var litið á samruna S og B sem viðskipti milli ótengdra aðila. Matsmaðurinn telur að við mat á virði 30% hlutar annars vegar og virði 70% hlutar hins vegar sé mikilvægt að greina á milli skulda sem tilheyri rekstri félagsins annars vegar og svo skuldsetningar sem sé tilkomin vegna hinnar skuldsettu yfirtöku á 70% hlutnum hins vegar. Þegar það sé gert megi sjá að eiginfjárvirði 70% hlutar sé 0 kr. í kjölfar kaupanna af D, sbr. útreikninga í töflu 1. Spurningin sem eftir standi sé því sú hvort eitthvað af þeim virðisauka sem hafi orðið til við söluna til E tilheyri 70% hlutnum og þá hversu mikið.
Tafla 1:
|
Kaup af [ ] |
30% hlutur |
70% hlutur |
100% hlutur |
|
|
30% |
70% |
100% |
|
|
|
|
|
|
Virði hlutafjár |
19.285.714 |
45.000.000 |
64.285.714 |
|
|
|
|
|
|
Langtímaskuldir v. rekstrar |
17.796.017 |
41.524.039 |
59.320.055 |
|
|
|
|
|
|
Handbært fé |
757.334 |
1.767.113 |
2.524.447 |
|
|
|
|
|
|
Hreinar skuldir |
17.038.682 |
39.756.926 |
56.795.608 |
|
|
|
|
|
|
Heildar virði |
36.324.397 |
84.756.926 |
121.081.322 |
|
|
|
|
|
|
Skuldsetning vegna kaupa á hlut af [...] |
|
45.000.000 |
45.000.000 |
|
|
|
|
|
|
Hlutafjárvirði að t.t.t. skuldar v. kaupa |
19.285.714 |
- |
19.285.714 |
|
|
|
|
|
|
Skipting hreinna eigna |
17.038.682 |
84.756.926 |
|
|
|
17% |
83% |
101.795.608 |
Upphæðir í kr.
Í töflu 1 er virði hlutafjár og skuldum félagsins skipt milli 30% hlutar og 70% hlutar og skipting skulda leiðrétt fyrir skuld sem sérstaklega var tekin til að fjármagna kaup á 70% hlut. Neðst í töflunni má þá sjá mat á eiginfjárvirði hvors hlutar og skiptingu hreinna skulda á þeim tímapunkti sem 70% hluturinn er keyptur.
Matsmaður telur að út frá fjármálafræðilegu sjónarhorni hafi 70% hluturinn sjálfstætt verðmæti sem ráðist af verðþróun hlutanna í A að teknu tilliti til áhrifa skuldsetningar hlutarins og eðlilegs endurgjalds fyrir aðgang að verðmætum sem sett séu að veði fyrir skuldinni. Á hinn bóginn megi einnig segja að staða sóknaraðila gagnvart A, og sú staðreynd að hann sem eigandi 30% hlutar hafi heimilað veðsetningu á fasteign félagsins við kaupin og lagt þar með 30% hlutinn óbeint undir í viðskiptunum, sé lykill að því að kaupin á 70% hlutnum hafi gengið eftir. Sé það sjónarmið ofan á þá tilheyri virðisaukinn 30% hlutnum og verðmæti 70% hlutarins sé þá 0 kr. við söluna til E ehf. Það sé hins vegar ljóst að fyrirætlun hafi verið um að C myndi eignast helming 70% hlutarins og hann gert það að nafninu til. Þó svo að hann hafi aldrei greitt fyrir sinn hlut með öðrum hætti en með útgáfu skuldabréfs hafi hann á endanum fengið hluta virðisaukans í sinn hlut sem styðji það að 70% hluturinn hafi eitthvert framtíðarverðmæti út frá sjónarhóli fjármálafræði. Sjálfskuldarábyrgð C styðji það sjónarmið jafnframt. Matsmaður gengur því út frá því að 70% hluturinn séu sérstök verðmæti.
Þá bendir matsmaðurinn á að 70% hlutur í A hafi verið keyptur af D á 45 m.kr. og það leiði af sér að verðmæti 100% hlutafjár hafi verið 64,2 m.kr. miðað við sama tímapunkt. Auk þess hafi hreinar skuldir félagsins (vaxtaberandi skuldir handbært fé) verið 56,8 m.kr. og heildarvirði (e. Enterprice value) félagsins því verið 121 m.kr. Til að fjármagna kaupin hafi verið tekið lán hjá Byr að fjárhæð 45 m.kr. en sú lántaka tilheyri í raun einungis 70% hlutnum og skuli dragast frá eiginfjárvirði þess hlutar. Því sé eiginfjárvirði hlutarins 0 kr. við yfirtökuna.
Til viðbótar láni upp á 45 m.kr. hafi verið tekið viðbótarlán upp á 30 m.kr. hjá Byr sem hafi verið nýtt til að kaupa kröfu á A af D (hluti af 56,8 m.kr. hreinni skuld A) en við samrunann falli sú krafa niður en A verði skuldari lánsins og því hafi sú aðgerð ekki áhrif á efnahag A. Eftir samrunann séu því hreinar skuldir A 101 m.kr. og 83% þeirra skulda tilheyra 70% hlutnum.
Við mat á eignarhlutunum við sölu A til E sé fyrst þörf á að átta sig á virði þeirra verðmæta sem afhent séu sem greiðsla fyrir hlutina. Þar á meðal sé skuldabréf að nafnvirði 20 m.kr. sem ljóst sé að ekki innheimtist nema að litlu leyti og sé söluvirðið leiðrétt fyrir því. Fáist þá að söluvirði 100% hlutafjár, 78 m.kr.
Ef litið sé framhjá skuldsetningu við kaupin á 70% hlutnum þá væri hægt að reikna virði hvors hlutar fyrir sig út frá eignarhlutum og jafnframt væri hægt að skipta hreinum skuldum í samræmi við eignarhlut og reikna þannig heildarvirði hvors hlutar fyrir sig. Þar sem skuldsetning hlutanna sé ólík þurfi hins vegar fyrst að skipta heildarvirðinu út frá eignarhlutum en draga svo frá hreinar skuldir félagsins eins og þær eru við sölu í þeim hlutföllum sem þær skiptast milli aðila, þ.e. 17% og 83%.
Til að fá endanlega skiptingu verðmætis milli 30% hlutarins og 70% hlutarins þurfi einnig að leiðrétta fyrir eftirfarandi þáttum:
- Vextir af 45 m.kr. láni frá kaupdegi til söludags, sem tekið var vegna hinna skuldsettu kaupa, tilheyri 70% hlutnum en þar sem A var greiðandi lánsins skiptist vaxtabyrðin á hvorn hluta í hlutföllunum 30/70. Fyrir þessu þurfi að leiðrétta og draga 30% vaxtanna frá virði 70% hlutarins og bæta sömu upphæð við virði 30% hlutarins. Þar sem skuldastaða félagsins sé nánast óbreytt við sölu þurfi ekki að gera samskonar leiðréttingu vegna afborgana.
- Fasteign félagsins sé öll sett að veði vegna kaupa 70% hlutarins og því sé eðlilegt að það komi til endurgjalds vegna þess veðs sem eigandi 30% hlutar óbeint lánar. Vaxtaálag lánsins frá BYR séu u.þ.b. 1,2% stig sem sé álagning bankans vegna rekstrarkostnaðar við lánið annars vegar og álagning vegna áhættu lánsins hins vegar. Í því ljósi sé talið eðlilegt að reikna þóknun vegna lánsveðs (30% af 45 m.kr.) 1% sem endurspegli gjaldfallsáhættu lánsins.
- Sóknaraðili hafi fengið í sinn hlut við söluna til E 8 m.kr. í reiðufé og bifreið að verðmæti 1,5 m.kr. auk þess sem skuldabréf útgefið af honum vegna kaupa á hlutafé í A hafi verið fellt niður samtals að verðmæti 20,5 m.kr. Þessa fjárhæð þurfi að draga frá verðmæti 70% hlutarins til að finna hvaða verðmæti tilheyri sóknaraðila í þeim hlut.
- Áhrif þess að ráða yfir 70% hlut á verðmæti 30% hlutar séu jákvæð þar sem félagið sé seljanlegri eign í heild sinni en að hluta. Á móti komi að áhrif þess á verðmæti 70% hlutar sóknaraðila sé lykilaðili í rekstri A og það að hann eigi 30% hlut í félaginu óskuldsettan við kaupin séu jákvæð. Erfitt sé að meta nákvæmlega áhrif þessara þátta en litið sé svo á að þeir vegi hver annan upp og hafi því ekki áhrif á matið.
Tafla 2:
|
Sala til [ ] |
30% hlutur |
70% hlutur |
100% hlutur |
|
|
30% |
70% |
100% |
|
Söluverð |
|
|
|
|
Greitt í reiðufé |
|
|
63.925.000 |
|
|
|
|
|
|
Nafnverð útgefins skuldabréfs |
|
|
20.000.000 |
|
Óinnheimt fjárhæð |
|
|
- 16.886.044 |
|
Innheimt verðmæti útgefins skuldabréfs |
|
|
3.113.956 |
|
|
|
|
|
|
Verðmæti yfirtekins skuldabr. |
|
|
11.000.000 |
|
|
|
|
|
|
Leiðrétt söluvirði |
|
|
78.038.956 |
|
|
|
|
|
|
Hreinar skuldir við sölu |
17.129.347 |
85.207.926 |
102.337.273 |
|
|
|
|
|
|
Heildarvirði |
54.112.869 |
126.263.360 |
180.376.229 |
|
|
|
|
|
|
Eiginfjárvirði án tilfærslna til leiðréttingar |
36.983.522 |
41.055.434 |
78.038.956 |
|
|
|
|
|
|
Tilfærslur vegna fjármagnskostnaðar |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Vextir af skuld vegna kaupa á 70% |
2.007.878 |
- 2.007.878 |
|
|
Þóknun vegna lánsveðs |
180.299 |
- 180.299 |
|
|
|
|
|
|
|
Eiginfjárvirði |
39.171.699 |
38.867.257 |
78.038.956 |
|
|
|
|
|
|
Uppgjör við [M] við sölu |
|
20.500.000 |
|
|
|
|
|
|
|
Virði hlutar [M] í 70% hlut |
|
18.367.257 |
|
Í ljósi framangreinds er það niðurstaða matsmannsins að virði 30% hlutarins við söluna til E hafi verið 39,1 m.kr. en að söluvirði alls hlutafjár í A sem var í eigu sóknaraðila hafi verið 57,5 m.kr. á sama tímapunkti. Mismunurinn, 18,4 m.kr., sé þá verðmæti eignar sóknaraðila í 70% hlutnum og sú fjárhæð sem beri að skipta ef ákvarðað sé að 70% hluturinn sé sameign.
III.
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að eftirstöðvar söluverðs eignarhluta í A ehf. séu séreign hans sem falli utan skipta skv. 74. og 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991.
Sóknaraðili telur að verðmæti 30% séreignarhluta hans í A ehf. í apríl 2007 sé jafnt söluvirði alls hlutafjárins til E. Sóknaraðili vísar til þess að hinn 9. janúar 2006 hafi verið gengið frá skuldsettum kaupum B ehf., félags í eigu sóknaraðila og C, á 70% eignarhluta D hf. Kaupverð hlutarins, sem hafi verið 45.000.000 kr., hafi verið tekið að láni. Eina eign B ehf. hafi verið 70% eignarhlutur í A ehf. Eignin hafi verið bókfærð á kostnaðarverði og samsvarandi skuld færð á móti, en félagið hafi verið stofnað í árslok 2005 með þessi viðskipti í huga. Félögin B ehf. og A ehf. hafi svo verið sameinuð árið 2006. Sameiningin hafi verið staðfest á hluthafafundi 12. desember 2006, samkvæmt yfirliti úr hlutafélagaskrá. Við samruna félaganna hafi skuldir B ehf. vegna kaupa á 70% eignarhlutanum í A ehf. orðið skuldir A ehf. og mótfærslan verið færð til lækkunar á eigin fé og viðskiptavild (skuldsett yfirtaka). Eftir samrunann hafi sóknaraðili orðið eigandi að 100% hlutafé í A ehf., en verðmæti eiginfjár félagsins hafi lækkað um kaupverð 70% hlutarins enda skuldir vegna þeirra viðskipta, eftir samruna félaganna, orðið að skuldum A. Vegna hinnar skuldsettu yfirtöku hafi verðmæti alls hlutafjár A ehf. verið jafnt verðmætum 30% séreignarhluta mannsins fyrir viðskiptin.
Hinn 4. apríl 2007 hafi sóknaraðili selt 100% hlutafjár í A ehf. til E ehf., en kaupanda hafi verið mikið í mun að fá sóknaraðila út af prentmarkaði. Söluverðið hafi verið 94.925.000 kr. sem sé jafnt verðmæti 30% séreignarhluta sóknaraðila, enda hafi hlutur hans verið 100% eiginfjárframlags í A ehf. frá samruna við B ehf.
Sóknaraðili byggir á því, með vísan til ofangreinds, að allt söluandvirði hlutabréfa í A ehf. í apríl 2007 sé séreign sóknaraðila.
Verði talið að séreign sóknaraðila taki aðeins til 30% af söluandvirði einkahlutafélagsins A ehf. er á því byggt að ef séreignarhlutur sóknaraðila sé metinn út frá verði í viðskiptum hans og E ehf. í apríl 2007, að teknu tilliti til leiðréttingar vegna eftirstöðva skulda sem stofnað hafi verið til við kaupin á 70% eignarhlutanum af D hf., þá nemi verðmæti 30% séreignarhlutarins í byrjun árs 2010 60.000.000 kr.
Sú niðurstaða sé byggð á greinargerð Deloitte, dags. 10. desember 2009. Byggi ávöxtun séreignarinnar við áhættulausa verðtryggða vexti að viðbættri verðtryggingu og reiknist svo:
Söluverð 100% hlutar kr. 94.925.000,-
Skuld vegna kaupa á 70% hlut kr. 43.017.218,-
Virði félagsins kr. 137.942.218,-
Virði 30% hlutar kr. 41.382.665,-
Vextir og verðbætur per ár, 15,17%
Vextir frá sölu 4. apríl 2007 Virði hlutar Vextir
Jan. 2008 45.567.829,- 4.185.164,-
Jan. 2009 52.480.465,- 6.912.635,-
Jan. 2010 60.441.746,- 7.961.281,-
Sóknaraðili segir að frá því félagið hafi verið selt hafi hann gengið á það söluverðmæti sem teldist til hjúskapareignar með kaupum fasteigna, bifreiða o.fl. auk þess sem hjúskapareignin hafi farið í neyslu. Það sem eftir standi á reikningi mannsins nr. [...] sé því hans séreign samkvæmt kaupmála.
Verði talið að séreign mannsins taki aðeins til 30% af söluandvirði einkahlutafélagsins A ehf., án þess að tekið sé tillit til yfirtöku skuldar vegna skuldsettrar yfirtöku né heldur vaxta, er á því byggt að eftirstöðvarnar miðað við viðmiðunardag skipta, 5. nóvember 2009, tilheyri sóknaraðila. Þann dag hafi eftirstöðvar á reikningi mannsins nr. [...] verið 32.078.429 kr. Eftirstöðvar skuldabréfs að fjárhæð 20.000.000 kr. séu glataðar þar sem kaupandi, E ehf., hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 17. febrúar 2010. Uppgreiðsluverðmæti skuldabréfsins sé skv. meðfylgjandi yfirliti 6.139.566 kr.
Jafnframt segir sóknaraðili að 30% af kaupverði A ehf. hinn 4. apríl 2007 ehf. sé að fjárhæð 28.477.500 kr. Söluandvirðið hafi verið lagt inn á reikning sóknaraðila nr.[...] og sé hægt að rekja það. Byggir sóknaraðili á því að vandséð sé hvaða rök leiði til þeirrar niðurstöðu að þessi séreign sóknaraðila glatist við lok hjúskapar. Teljist 70% eignarhlutur af söluandvirði A ehf. hjúskapareign aðila, þar sem hún hafi orðið til í hjúskap, verði að líta svo á að aðilar hafi gengið á þá eign sína meðan á hjúskapnum stóð. Óeðlilegt sé að miða við að sóknaraðili hafi gengið á séreign sína samkvæmt kaupmála til hagsbóta fyrir báða aðila. Sé mun eðlilegra að líta svo á að aðilar hafi gengið á þá eign sem myndaðist í hjúskapnum, en eftir standi alltaf andvirði þeirrar séreignar sem sóknaraðili hafi viljað tryggja að kæmi í sinn hlut, ef til skilnaðar kæmi. Sóknaraðili byggir á því, verði niðurstaðan sú að andvirði 70% sölunnar sé hjúskapareign, að aðilar hafi gengið á þessa hjúskapareign sína til viðmiðunardags skipta, 5. nóvember 2009. Andvirðið hafi þau nýtt til uppihalds, kaupa á lausafjármunum, ferðalaga o. fl. Er á því byggt að á viðmiðunardegi skipta standi alltaf eftir séreignarhlutur mannsins, 30% af söluandvirðinu, eða 28.477.500 kr. Eigi varnaraðili aldrei kröfu um aðra fjárhæð en helminginn af mismuni innistæðu á bankareikningi og séreignar mannsins (1/2 af 3.600.929 kr.) eða 1.800.465 kr. Önnur niðurstaða væri afar óeðlileg enda tilgangur með gerð kaupmála sá að séreign, eða ígildi séreignar, komi ekki til skipta við skilnað.
Þá vísar sóknaraðili til þess að fyrir hjúskap aðila 8. ágúst 2002 hafi þau verið í óvígðri sambúð, en við slit á þeirri sambúð hafi komið upp ágreiningur um skiptingu eigna, þ.e. íbúð á [...]. Það mál hafi farið fyrir dóm, en lokið með sátt. Þau hafi svo byrjað sambúð að nýju og ákveðið hjúskap. Þá hafi það verið skýr krafa sóknaraðila að ef það kæmi til skilnaðar þá myndi eignarhlutur hans í A ehf., þar sem hann hafði starfað um langt árabil, koma í hans hlut. Hafi því verið gengið frá kaupmála 26. júlí 2002. Þegar gengið hafi verið frá kaupmálanum hafi eignarhlutur sóknaraðila verið 30% í A ehf. Hafi það verið vilji sóknaraðila við gerð kaupmálans að eignarhluti hans í félaginu, hver sem hann væri á hverjum tíma, skyldi vera séreign hans, hvort sem eignarhluturinn lækkaði eða hækkaði. Sóknaraðili telur að skýra verði kaupmálann með hliðsjón af tilurð hans og vilja aðila. Sú skýring leiði til þeirrar niðurstöðu að eignarhluti mannsins í félaginu á hverjum tíma, sem og það sem í stað séreignarinnar komi, sé séreign mannsins og því utan skipta.
Til stuðnings varakröfu sinni vísar sóknaraðili til þess sem rakið er um aðalkröfu. Á því er byggt, verði því hafnað að allt söluandvirði félagsins A ehf. sé séreign sóknaraðila, að 65% söluandvirðisins eigi að koma í hans hlut. Miðast sú skipting við það að 30% söluandvirðisins sé séreign hans samkvæmt kaupmála og til viðbótar komi helmingur af 70% hjúskapareign, eða 35%. Er á því byggt að ekki hafi orðið slík samblöndun séreignar og hjúskapareignar í hjúskap aðila að réttlæti brottfall séreignar. Sóknaraðili hafi stofnað til sérstaks reiknings til að halda utan um séreign sína, nr. [...], einmitt í þeim tilgangi að halda þessari séreign aðgreindri frá öðrum eignum bússins. Ekki hafi verið um sameiginlegan bankareikning aðila að ræða. Þó svo að sóknaraðili hafi í takmörkuðum mæli notað reikninginn vegna fasteignakaupa og tekið út af honum vegna neyslu og framfærslu aðila þá leiði það ekki til þeirrar niðurstöðu að séreign hans falli niður. Færslurnar á reikningnum séu rekjanlegar og þær séu ekki það margar að hægt sé að slá því föstu að slík samblöndun hafi orðið við hjúskapareignir að leiði til brottfalls séreignar.
Þrautavarakrafa sóknaraðila er byggð á niðurstöðu fyrirliggjandi matsgerðar um að eiginfjárvirði 70% hlutar, við söluna til E ehf., hafi numið 38.867.257 kr., sem komi þá til helmingaskipta.
Um lagarök vísar sóknaraðili til almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Þá er vísað til hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum VIII. kafla laganna varðandi séreignir, XI. kafla laganna varðandi samninga milli hjóna, einkum 72., 74. og 75. gr. laganna og XII. kafla laganna varðandi kaupmála. Jafnframt er vísað til 54., 55., 99., 2. mgr. 102. gr. og 103. gr. laganna.
Kröfu um málskostnað styður sóknaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna.
IV.
Varnaraðili byggir á því að eftirstöðvar andvirðis hlutabréfanna í A ehf. skuli koma til skipta milli aðila og vísar hún í því sambandi sérstaklega til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993, sérstaklega 103. gr. Hin almenna skipan um fjármál hjóna sé hjúskapareignartilhögun þar sem byggt sé á helmingaskiptareglu. Sönnunarbyrði um séreign hvíli á þeim sem haldi fram fullyrðingum um að tiltekin eign sé séreign sín.
Þannig telur varnaraðili að eftirstöðvar söluandvirðis A ehf. sé hjúskapareign og skuli hún koma til helmingaskipta milli hjónanna samkvæmt hinni almennu reglu hjúskaparlaga nr. 31/1993, 103. gr. Afmörkun séreigna og sérgreining þeirra sé grundvöllur þess að unnt sé að halda til streitu kröfu um séreign. Í þessu máli hagi þannig til að greiðslur vegna sölu á hlutafé fyrirtækisins A ehf. hafi allar verið lagðar inn á tékkareikning sóknaraðila. Séreign hans samkvæmt kaupmálanum frá júlí 2002, á 30% hlutabréfa í félaginu, hafi þar ekki verið haldið sérgreindri. Eins og fram komi í gögnum málsins, m.a. í greinargerð sóknaraðila til skiptastjóra, hafi umræddur bankareikningur verið notaður til almennra þarfa fjölskyldunnar og fjárfestinga, s.s. kaupa á fasteignum, húsbíl, neyslu, ferðalaga og svo framvegis. Einnig hafi innstæðan verið notuð til kaupa á bréfum í peningamarkaðssjóði og hlutabréfum í Landsbanka til ávöxtunar. Þá hafi um fyrrgreindan bankareikning farið margs konar færslur, bæði innlegg og úttektir, sem til hafi verið komnar vegna beggja málsaðila.
Samkvæmt íslenskum réttarreglum sé hin almenna regla að eignir séu hjúskapareignir og sem komi til skipta við skilnað, sbr. ákvæði 103. gr. hjúskaparlaga, nema gerðar séu sérstakar ráðstafanir til að tryggja að svo sé ekki. Ef slíkar ráðstafanir hafa verið gerðar verði til séreign viðkomandi maka, sem komi ekki til skipta við skilnað. Samkvæmt íslenskum rétti geti séreign myndast eftir fjórum leiðum:
Í fyrsta lagi með kaupmála. Í þeim kaupmála sem aðilar gerðu með sér í júlí 2002 hafi verið kveðið á um að 30% hlutafjár sóknaraðila í félaginu væri séreign sóknaraðila. Hins vegar hafi ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til að gera hlutabréfin í B ehf. að séreign sóknaraðila, en slíkt hefði hann hæglega getað gert með því að gera viðbótarkaupmála við varnaraðila þegar sóknaraðili stofnaði hið nýja félag. Hlutur hans í B ehf., sem hafi verið hjúskapareign sóknaraðila, hafi síðan verið notaður í samruna þess félags við A ehf. og sóknaraðili þá fengið í sínar hendur 70% hlutafjár í A ehf., sem einnig hafi verið hjúskapareign hans þar sem engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að gera þau bréf að séreign.
Í öðru lagi verðmæti sem komi í stað séreignar eða séu arður af séreign. Eignarhluturinn í B ehf. og síðar 70% hluturinn í A ehf. hafi ekki komið í stað hlutafjárins sem sóknaraðili átti fyrir í A ehf., né hafi hann verið tilkominn sem arður af þeirri eign.
Í þriðja lagi fyrirmæli gefanda og í fjórða lagi fyrirmæli arfleifanda í erfðaskrá, en ekki sé um slíkt að ræða í þessu máli.
Varnaraðili telur að af þessu sé ljóst að ekki séu til staðar neinar forsendur eða lagarök sem geti leitt til þess að skilgreina verði 70% eignarhluta sóknaraðila í A ehf. sem hans séreign sem halda verði utan skipta og ítrekar varnaraðili því kröfu sína um að andvirði hinna seldu bréfa komi til skipta milli aðila.
Þeim málatilbúnaði sóknaraðila að skýra verði kaupmálann með hliðsjón af tilurð hans og vilja aðila er alfarið hafnað. Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að einhver slíkur vilji hafi verið til staðar sem feli í sér að halda hugsanlegum framtíðareignum eða eignaaukningu í hlutafélaginu sem séreign sóknaraðila. Varnaraðili bendir á að ef það hafi verið vilji sóknaraðila þá hafi honum verið í lófa lagið að gera þá eignaaukningu að séreign sinni með sérstökum aðgerðum. Það hafi hins vegar ekki verið gert og sýni það augljóslega að ekki hafi verið vilji til að grípa til slíkra aðgerða í fjármálum þeirra hjóna.
Þá er þeim kenningum sem fram koma í greinargerð sóknaraðila í málinu um að verðmæti 30% eignarhluta mannsins í A ehf. í apríl 2007 hafi verið jafnt söluvirði alls hlutafjárins til E ehf. alfarið hafnað. Varnaraðili segir að af kaupsamningi sé ljóst að kaupendur hafi keypt allt hlutaféð í A ehf. og það gert í einum kaupsamningi. Þar hafi ekki verið aðgreint verðmæti annars vegar þess hlutafjár sem sóknaraðili hafði átt sem sína séreign og verðmæti þess hlutafjár sem hann átti sem sína hjúskapareign, enda hefði slík aðgreining ekki haft neina þýðingu. Því er alfarið hafnað að verðmæti 30% hlutafjárins hafi á árinu 2007 verið jafnt kaupverðinu sem greitt var fyrir allt hlutaféð í félaginu, enda haldi sú röksemdafærsla engan veginn. Þannig sé ljóst að þegar sóknaraðili keypti 70% hlutafjárins af D hf. á árinu 2006 á 45.000.000 kr. þá hafi heildarverðmæti fyrirtækisins verið rúmlega 64 milljónir (45.000.000 kr. * 0,7= 64.285.714 kr.). Þegar allt hlutaféð hafi síðan verið selt í apríl 2007 hafi verðmæti félagsins verið 137.942.218 kr., eins og fram komi í greinargerð sóknaraðila til skiptastjóra. Með hliðsjón af þessu telur varnaraðili fráleitt að halda því fram að verðmæti alls hlutafjárins í A ehf. hafi vegna hinnar skuldsettu yfirtöku verið jafnt verðmæti 30% eignarhlutarins. Í þessu sambandi tjái ekki fyrir sóknaraðila að vísa til bókfærðs verðmætis hlutafjárins. Ágreiningur aðila snúist ekki um það hvernig verðmæti hlutafjárins hafi verið bókfært eða hvernig það hafi verið verðmetið við samruna A ehf. og B ehf. heldur snúist það um söluna og verðmæti bréfanna þegar þau hafi verið seld E ehf. á árinu 2007. Fyrir þeirri verðhækkun sem hafi orðið á bréfum félagsins á þessum tíma geti verið ýmsar ástæður, s.s. aðstæður á markaði, en ljóst sé að á þeim tíma sem félagið var selt hafi aðgangur að lánsfjármagni verið góður og vel gengið að selja fyrirtæki í rekstri á góðu verði. Þá bendir varnaraðili á að hærra verð fáist jafnan fyrir hlutafé í fyrirtækjum sem þessum ef kaupandi geti keypt allt hlutafé fyrirtækisins og tekið þannig alveg yfir rekstur þess án þess að þurfa að taka tillit til annarra hluthafa.
Með sömu röksemdum hafnar varnaraðili því að 30% söluverðmæti sé alltaf séreign sóknaraðila og að verðmæti þess séreignarhlutar í byrjun árs 2010 nemi rúmlega 60.000.000 kr. Engar forsendur séu fyrir þeim útreikningum sem sóknaraðili vísi til í greinargerð sinni, enda sé ekki hægt að skilja að skuldina sem stofnað hafi verið til við yfirtökuna frá öðrum skuldum félagins eftir að félögin B ehf. og A ehf. höfðu verið sameinuð, enda hafi allar skuldir beggja félaga orðið skuldir A ehf. Frá þeim tímapunkti sé um að ræða skuld A ehf. og komi hún jafnt við verðmæti alls hlutafjár í félaginu og ekki hægt að nota hana til að jafna út eða lækka verðmæti tiltekins hlutafjár í félaginu en annars ekki. Þá bendir varnaraðili á að eins og áður kom fram sé stóran hluta af verðmætaaukningu þeirri sem hafi orðið á hlutafjáreign sóknaraðila í A ehf. að rekja til þess að hægt hafi verið að bjóða E ehf. öll bréfin í félaginu til kaups, en ekki aðeins afmarkaðan hluta þeirra. Þannig megi segja að með yfirtökunni á félaginu, stofnun skuldarinnar vegna kaupanna á bréfunum af D hf. og eignarhaldi á öllum hlutabréfunum, hafi verið hægt að fá mun hærra verð fyrir bréfin þar sem félagið hafi þá verið selt í heilu lagi, en ekki aðeins verið að selja afmarkaðan eignarhluta í félaginu. Yfirtakan og stofnun skuldarinnar hafi því verið ótvíræður hluti af verðmætaaukningu hlutabréfa félagsins og því sé ekki með neinu móti hægt að fallast á kröfur sóknaraðila sem fram komi í greinargerð hans að þessu leyti. Þá mótmælir varnaraðili því sérstaklega að forsendur séu til þess að vaxtareikna verðmæti hins selda hlutar eins og sóknaraðili geri í greinargerð sóknaraðila.
Kröfum sóknaraðila um að eftirstöðvar söluverðsins miðað við viðmiðunardag séu séreign hans skv. kaupmála er einnig hafnað. Varnaraðili telur að ekki sé hægt að fallast á þá útreikninga sem fram koma í greinargerð sóknaraðila að þessu leyti. Þá er því mótmælt að það fé sem ráðstafað hafi verið frá sölunni til viðmiðunardags skipta hafi allt verið tekið af hjúskapareign mannsins.
Sérstaklega er mótmælt fullyrðingum í greinargerð sóknaraðila um að söluverð hlutafjárins í A ehf., 94.925.000 kr., sé jafnt verðmæti 30% séreignarhluta sóknaraðila í félaginu, enda sé þessi fullyrðing sóknaraðila ekki studd við nein haldbær rök.
Þá er enn fremur mótmælt fullyrðingum sóknaraðila um að óeðlilegt sé að miða við að sóknaraðili hafi gengið á séreign sína samkvæmt kaupmála til hagsbóta fyrir báða aðila. Af gögnum málsins sé ljóst að söluandvirði allra bréfanna hafi verið lagt ósérgreint inn á reikninga sem notaðir hafi verið til sameiginlegrar neyslu og fjárfestinga fyrir báða aðila á meðan á hjúskapnum stóð. Því er mótmælt alveg sérstaklega að eðlilegt sé að líta svo á að aðilar hafi gengið á þá eign sem myndaðist í hjúskapnum, enda séu engar forsendur til að sérgreina þann eignarhluta frekar en hinn meinta séreignarhluta þar sem allt söluandvirðið hafi verið lagt ósérgreint inn á fyrrgreinda reikninga og því engar forsendur til neinnar aðgreiningar. Af atvikum þessa máls sé ljóst hvers vegna gerðar séu strangar kröfur að lögum um að séreign sé haldið skýrlega aðgreindri frá hjúskapareign, enda sé útilokað að draga upp ímyndaða aðgreiningu eftir að séreign hefur verið blandað saman við hjúskapareign eins og hér hafi verið gert. Útreikningum á meintri hlutdeild varnaraðila í hjúskapareign að frádregnum 28.477.500 kr. er mótmælt sérstaklega.
Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að ekki hafi orðið slík samblöndun séreignar og hjúskapareignar að réttlæti brottfall séreignar. Málatilbúnaður sóknaraðila um að hann hafi stofnað til sérstaks reiknings í þeim tilgangi að halda utan um séreign sína eigi sér ekki neina stoð í gögnum málsins, enda sé af þeim ljóst að sóknaraðili hafi lagt inn á þann reikning mun hærri fjárhæð en sem nemi andvirði þeirra hlutabréfa sem hann hafi gert að séreign með kaupmálanum frá 2002. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að með millifærslum sínum og ráðstöfun kaupverðs hlutafjárins inn á reikninga sem bæði fyrr og síðar hafi verið notaðir til að greiða sameiginlegan kostnað og fjárfestingar þeirra hjóna hafi falist slík samblöndun séreignar og hjúskapareignar að ekki verði á milli skilið og því sé ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að séreign sóknaraðila sé niður fallin vegna þeirrar samblöndunar.
Um lagarök vísar varnaraðili til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins og reglna sifjaréttarins um fjárskipti hjóna. Enn fremur er vísað til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993, sérstaklega VIII. kafla laganna varðandi eignir hjóna, 54. gr. um að eignir séu almennt hjúskapareignir og reglna um séreignarfyrirkomulag. Þá er vísað til ákvæða XI. kafla, m.a. 74., 75. og 76. gr., og XIV. kafla um fjárskipti sérstaklega 99. gr., sbr. og 103. gr. Þá er og vísað til reglna um nauðsyn þess að halda séreign nægjanlega aðgreindri frá hjúskapareign.
Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á XXI. laga nr. 91/1991, sbr. 129. og 130. gr.
V.
Eins og rakið hefur verið gengu aðilar í hjúskap á árinu 2002 og gerðu þau með sér kaupmála þar sem m.a. var kveðið á um að 30% eignarhluti sóknaraðila í A ehf. skyldi vera séreign hans, en eigandi að hinum 70% hlutanum var D hf. Á árinu 2005 stofnaði sóknaraðili B ehf. Ekki var gerður kaupmáli um það félag og var því um að ræða hjúskapareign. Í ársbyrjun 2006 keypti B ehf. 70% hlut D hf. í A ehf. Félögin B og A voru svo sameinuð undir nafni síðarnefnda félagsins. Séreign og hjúskapareign blandaðist því saman. Sóknaraðili seldi svo með kaupsamningi 4. apríl 2007 allt hlutafé A ehf. (100%) til E ehf. fyrir 94.925.000 kr. Kaupverðið var að hluta til greitt með reiðufé, 63.925.000 kr. Þá yfirtók kaupandi skuldabréf að fjárhæð 11.000.000 kr. og enn fremur gaf hann út skuldabréf að fjárhæð 20.000.000 kr., en það hefur ekki innheimst nema að litlu leyti, eða 3.113.656 kr.
Sóknaraðili heldur því fram að það sem eftir er af greiðslum sem hann fékk fyrir A ehf. sé séreign hans. Nánar tiltekið innistæða á bankareikningi sóknaraðila nr.[...] fjárhæð 32.078.429 kr. og greiðslur sem fóru inn á reikning sóknaraðila nr.[...] samtals 3.113.656 kr. Þessi málsástæða sóknaraðila er rökstudd með því að verðmæti 30% séreignarhluta hans í A ehf. sé jafnt söluvirði alls hlutafjárins til E ehf., þar sem kaupverð 70% hlutarins, 45.000.000 kr., hafi verið tekið að láni. Þetta sjónarmið sóknaraðila er í ósamræmi við ítarlega rökstudda matsgerð dómkvadds matsmanns G, dags. 23. júní 2011. Hefur matsgerðinni ekki verið hnekkt, s.s. með yfirmati, og með vísan til hennar er ekki fallist á þessa málsástæðu sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir einnig á því að það hafi verið vilji hans við gerð kaupmálans að eignarhluti hans í A ehf., hver sem hann væri á hverjum tíma, skyldi vera séreign hans, og skýra verði kaupmálann með hliðsjón af tilurð hans og vilja aðila. Varnaraðili mótmælir þessu alfarið. Þegar litið er til þess að í umræddum kaupmála er m.a. kveðið á um að tilteknar eignir skuli vera í sameign aðila er ósannað að það hafi verið ætlun þeirra að aukinn hlutur sem sóknaraðili kynni að eignast síðar í félaginu yrði séreign.
Hvað varðar þá málsástæðu sóknaraðila að verðmæti 30% séreignarhlutarins í byrjun árs 2010 hafi verið 60.000.000 kr. er til þess að líta að hún er byggð á greinargerð sem sóknaraðili aflaði einhliða hjá Deloitte, dags. 10. desember 2009. Niðurstaða Deloitte er ekki í samræmi við áðurnefnda matsgerð dómkvadds matsmanns og í henni er vakin athygli á því að einungis sé um minnisblað að ræða og ekki hafi verið farið ítarlega yfir alla þá þætti sem kunna að skipta máli varðandi efni þess. Jafnframt segir í minnisblaðinu að þar sem tímarammi hafi verið skammur hafi ekki verið hægt að fara gaumgæfilega í alla liði. Frekari skoðun kynni að leiða til þess að niðurstöður yrðu aðrar en í minnisblaðinu. Að þessu virtu verður gegn mótmælum varnaraðila að hafna þessari málsástæðu sóknaraðila.
Samkvæmt framlögðu bankayfirliti lagði sóknaraðili hinn 17. apríl 2007 inn á reikning nr. [...] 62.981.580 kr., en um var að ræða fé vegna sölu A ehf. til E ehf. Með vísan til þess að aðeins 30% hlutafjárins var séreign sóknaraðila og að því er hafnað að 30% séreignarhluta hans í A ehf. sé jafnt söluvirði alls hlutafjárins til E ehf., er ljóst að hluti innborgunarinnar var hjúskapareign. Engin færsla er á reikningnum fyrr en 4. júní en þá var tekin út 1.000.000 kr. Samsvarandi fjárhæð var sama dag lögð inn á reikning 8350. Þá voru teknar út af reikningi [...] 12.654.572 kr. hinn 2. júlí vegna kaupa á fasteign að [...], en báðir aðilar eru í kaupsamningi skráðir sem eigendur hennar. Hinn 31. júlí voru teknar út 1.500.000 kr. og sama fjárhæð lögð inn á reikning[...]. Fleiri útborganir og millifærslur voru gerðar á reikningi [...] í ágúst., m.a. voru hinn 12. september lagðar inn á reikninginn 10.739.348 kr., sem mun vera vegna sölu á fasteign aðila að [...] sem þau áttu í sameign. Kaupsamningsgreiðsla vegna sömu eignar, að fjárhæð 5.000.000 kr., var einnig lögð inn á reikninginn 8. október. Samkvæmt kaupsamningi um [...] seldu aðilar eignina á 35.000.000 kr., sem allt var greitt í peningum, og er því hugsanlegt að meira af söluandvirðinu hafi farið inn á umrædda reikninga. Í október, nóvember og desember voru nokkrar inn- og útborganir á reikningi [...]. Í lok ársins, 2007, voru fjármagnstekjur vegna reikningsins 5.562.203 kr., m.a. vegna sölunnar á [...], en fjármagnstekjuskattur nam 556.220 kr. Á árinu 2008 voru ýmsar inn- og útborganir á reikningi [...], og sumar háar, m.a. var ein innborgun að fjárhæð 5.000.000 kr. og ein útborgun var að fjárhæð 7.000.000 kr. Á árinu 2009 voru margar útborganir á reikningnum, sú síðasta fyrir viðmiðunardag skipta á búi aðila, 5. nóvember 2009, var 8. október, að fjárhæð 6.214.100 kr. Samkvæmt því sem fram kemur á yfirliti reiknings[...] var hann fyrst og fremst notaður til framfærslu og færslur á honum tengjast reikningi [...], eins og framangreind dæmi sýna. Þegar litið er til þess að [...] ehf. var hjúskapareign, inn- og útborgana af reikningunum og þess að óumdeilt er að þeir voru notaðir til framfærslu aðila, ferðalaga, fjárfestinga o.fl. er útilokað að sjá hvort úttektir af þeim hafi verið af séreignarhluta sóknaraðila eða hjúskapareignum aðila. Verður að hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að aðeins hafi verið gengið á hjúskapareignir en ekki séreign sóknaraðila, enda er slíkt ekki sjálfgefið og það verður ekki ráðið af gögnum málsins.
Með vísan til alls framangreinds hefur að mati dómsins orðið slík samblöndun séreignar og hjúskapareignar að réttur sóknaraðila til séreignar telst fallinn niður. Ber því að fallast á kröfu varnaraðila um að eftirstöðvar söluandvirðis í [...] ehf., bæði sú upphæð sem stóð inni á bankareikningi mannsins nr. [...], 32.078.429 kr., á viðmiðunardegi skipta 5. nóvember 2009, svo og það sem hann hefur fengið greitt af söluandvirði félagsins eftir það, 3.113.656 kr., eða samtals 35.192.085 kr., komi til helmingaskipta.
Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Varnaraðili fékk útgefið leyfi til gjafsóknar hinn 26. maí 2010 vegna fyrirhugaðrar málsóknar vegna fjárskipta við skilnað. Lögð hefur verið fram tímaskýrsla lögmanns um 88 vinnustundir við undirbúning málsins og rekstur þess. Að þessu virtu og með vísan til tilkynningar dómstólaráðs nr. 5/2009 um viðmiðunarreglur fyrir héraðsdómstóla, vegna þóknunar lögmanna í gjafsóknarmálum, 10.000 kr. án virðisaukaskatts fyrir hverja klukkustund, þykir þóknun lögmanns varnaraðila hæfilega ákveðin 1.104.400 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti, sem greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Eftirstöðvar söluandvirðis í [...] ehf., bæði sú upphæð sem stóð inni á bankareikningi sóknaraðila, M, nr. [...]5, 32.078.429 krónur, á viðmiðunardegi skipta, 5. nóvember 2009, svo og það sem hann hefur fengið greitt af söluandvirði félagsins eftir það, 3.113.656 krónur, eða samtals 35.192.085 krónur, skulu koma til helmingaskipta við slit á búi hans og varnaraðila K.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Kristjáns B. Thorlacius hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 1.104.400 krónur, greiðist úr ríkissjóði.