Hæstiréttur íslands

Mál nr. 280/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                              

Þriðjudaginn 23. apríl 2013.

Nr. 280/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari

gegn

Y

(Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. b. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. c. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem Y var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli b. og c. liða mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 10. maí 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hin kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Y, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til  föstudagsins 10. maí 2013, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ákærði Y hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 7. janúar sl., sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, R-8/2013, á grundvelli a.- og b.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008, sem framlengt hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, R-25/2013, hinn 14. janúar sl., úrskurði R-51/2013 frá 25. janúar sl., úrskurði R-79/2013 frá 22. febrúar, og úrskurði R-113/2013 frá 22. mars sl., til dagsins í dag á grundvelli b. og c. liðar 1. mgr. 95. sakamálalaga.

Ákæra hafi verið gefin út 8. mars sl. vegna fjölda auðgunarbrota framin í desember 2012 og janúar 2013. Um sé að ræða innbrot í félagi í heimahús, samtals 15 tilvik þar sem miklum verðmætum hafi verið stolið, en hluti af þýfinu hafi fundist í litlu herbergi sem hann hafi haft til umráða ásamt meðákærða og hafi þýfið verið vel falið. Hann hafi neitað brotunum og hafi skýringar hans verið ótrúverðugar. Skóför sem hafi fundist á vettvangi nokkurra innbrotanna hafi verið samskonar skópari sem fundist hafi á dvalarstað ákærða og meðákærða. Vitni hafi komið að tveimur mönnum í einu innbrotanna, sem hafi farið af vettvangi í bifreiðinni [...], eign meðkærða. Ákæran hafi verið þingfest 15. mars 2013 við Héraðsdóm Reykjavíkur undir heitinu S-186/2013. Milliþinghald hafi verið 20. mars sl. þar sem ákærði ásamt meðákærða hafi neitað sakargiftum og hafi aðalmeðferð verið haldin föstudaginn 12. apríl sl. og málið dómtekið sama dag.

Ákærði, sem sé litháískur ríkisborgari, hafi takmörkuð tengsl við land og þjóð og því hætta á að hann kunni að koma sér úr landi og þannig undan málsmeðferð fyrir dómi.

Til að tryggja nærveru ákærða á meðan mál hans sé til meðferðar hjá dómstólum og með hliðsjón af alvarleika sakargiftanna, sé þess krafist, að ákærði verði úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald með vísan til b. og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti sé farið fram á að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en  til 10. maí 2013 nk. kl. 16.00.

         Af framlögðum gögnum má ráða að ákærði sé undir rökstuddum grun um auðgunarbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Um er að ræða fjölda brota sem öll eru framin á stuttu tímabili. Ákærði hefur við skýrslutökur hjá lögreglu ekki gefið neinar haldbærar skýringar á dvöl sinni hér á landi, en hann er ekki með atvinnu hér og hefur engan ákveðinn dvalarstað. Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna fyrrgreindra brota frá því 7. janúar sl. Ákæra á hendur ákærða var gefin út 8. mars sl. Aðalmeðferð fór fram í máli hans 12. þessa mánaðar og var málið dómtekið að henni lokinni. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er á það fallist að skilyrðum sé fullnægt til að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þar sem ætla má að ákærði muni halda áfram að brjóta af sér fari hann frjáls ferða sinna. Tengsl ákærða, sem er litháískur ríkisborgari, við Ísland eru afar takmörkuð, en samkvæmt gögnum málsins kom hann til landsins 19. desember sl. og ætlaði að fara frá landinu aftur 14. janúar. Skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því einnig fullnægt. Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett og verður ákærða gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, eins og greinir í úrskurðarorði.

         Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Ákærði, Y, kt. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 10. maí 2013, kl. 16:00.