Hæstiréttur íslands
Mál nr. 633/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 29. nóvember 2007. |
|
Nr. 633/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í málum hans í Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 29. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. febrúar 2007 í máli nr. S-1570/2006 var varnaraðili dæmdur til að sæta 15 mánaða fangelsi en til frádráttar refsingunni kom að fullri dagatölu gæsluvarðhald sem hann hafði sætt frá 14. til 16. ágúst og 21. september til 10. nóvember 2006. Varnaraðili hefur áfrýjað dóminum, sbr. hæstaréttarmál nr. 343/2007. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí 2007 í máli nr. S-64/2007 var varnaraðili dæmdur til að sæta 19 mánaða fangelsi en til frádráttar refsingunni kom að fullri dagatölu gæsluvarðhald sem hann hafði sætt frá 12. janúar til 2. júlí 2007. Varnaraðili hefur áfrýjað dóminum, sbr. hæstaréttarmál nr. 511/2007.
Varnaraðili lauk afplánun fangelsisrefsingar samkvæmt dómi í enn öðru máli nr. S-1378/2007 28. nóvember 2007 kl. 8. Samkvæmt þingbók var hann leiddur fyrir dómara sama dag kl. 8. Áður en afplánun hófst sætti hann gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 eins og að ofan greinir. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti stendur, sbr. 2. mgr. 151. gr. laganna. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2007.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í málum hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 29. febrúar 2008 kl. 16.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. febrúar sl. í máli nr. S-1570/2006 hafi ákærði, X, hlotið 15 mánaða fangelsisdóm fyrir m.a. margvísleg auðgunarbrot. Þann 12. júlí sl. hafi honum með dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. S-64/2007 verið gert að sæta 19 mánaða fangelsisrefsingu fyrir fjölmörg auðgunar- og fjármunabrot. Þann 25. október hafi hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-1378/2007 að nýju verið sakfelldur fyrir auðgunarbrot og honum gert að sæta 4 mánaða fangelsisrefsingu
Ákærði sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, vegna ofangreindra mála frá 12. janúar sl. til 2. júlí sl. Þann 31. júlí sl. var hann að nýju úrskurðaður í síbrotagæslu sem lauk 25. október sl. með uppkvaðningu ofangreinds dóms nr. S-1378/2007. Þann dag hóf hann afplánun dómsins og lýkur afplánunni nú kl. 8 í dag.
Ofangreindir dómar Héraðsdóms Reykjaness nr. S-1570/2006 og S-64/2007 eru ekki fullnustuhæfir þar sem ákærði kaus að áfrýja þeim til Hæstaréttar Íslands, sbr. Hæstaréttarmálin nr. 343/2007 og 511/2007.
Með vísan til brotaferils ákærða verður að telja hann vanaafbrotamann í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Við rannsókn mála hans kom í ljós að hann var í mikilli óreglu og án atvinnu. Brotaferill hans, sem einkennist fyrst og fremst af innbrotum inn á heimili fólks og í fyrirtæki, hefur verið samfelldur og er það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Það er og mat ríkissaksóknara, sbr. meðfylgjandi bréf hans, dags í dag, að nauðsynlegt sé að ákærði sæti gæsluvarðhaldi.
Í máli þessu liggur fyrir mat Hæstaréttar Íslands, sbr. dóma réttarins nr. 34/2007, 112/2007, 267/2007 og nú síðast 410/2007, um að skilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt. Telja verður að það mat hafi verulega styrkst með þeim nýju brotum sem ákærði var sakfelldur fyrir þann 25. október sl., en þau brot voru öll framin eftir að hann var látinn laus úr gæslu 2. júlí sl.
Grundvöllur þess gæsluvarðhalds sem nú er krafist eru ofangreindir dómar sem ákærði hefur hlotið á þessu ári, samtals 38 mánaða fangelsi, svo og c liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.
Dómþoli hefur eins og að framan er rakið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands tveimur dómum þar sem hann hefur verið dæmdur í samtals 34 mánaða fangelsi á þessu ári fyrir fjölda afbrota.
Þegar litið er til brotaferils dómþola eins og honum er lýst hér að framan þykir mega ætla, að hann muni halda áfram brotum, meðan málum hans er ekki lokið. Eru því uppfyllt skilyrði c- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt framansögðu verður krafa ríkissaksóknara því tekin til greina, eins og hún er fram sett.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
X, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í málum hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 29. febrúar 2008 kl. 16.00