Hæstiréttur íslands

Mál nr. 859/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 23. desember 2014.

Nr. 859/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 19. janúar 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili  krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Hæstaréttar 2. desember 2014 í máli nr. 784/2014 var því slegið föstu að fullnægt væri væri skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2014.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins  19.  janúar 2015, kl. 16:00.

                Kærði hefur mótmælt kröfu lögreglustjóra og krefst þess að henni verði hafnað.

                Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er vísað til eftirgreindra mála sem lögregla hafi undanfarið haft til rannsóknar og varði meint brot kærða Einnig segir í  greinargerðinni að kærða hafi með dómi Hæstaréttar Íslands frá 2. desember 2014 nr. 784/2014 verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála til dagsins í dag. Sé kærði nú undir sterkum og rökstuddum grun um eftirgreind brot:

Mál nr. 007-2014-[...].

                Lögreglan hafi 25. nóvember fengið tilkynningu um líkamsárás á bifreiðastæði við [...] að [...] í [...],  en þar hafi verið ráðist á tvo aðila og fylgdi tilkynningunni að um væri að ræða kærða. Brotaþolar hafi komið sér að húsnæði [...] í [...] þar sem lögreglan hafi hitt þá og hafi mátt sjá áverka á öðrum brotaþolanum, en  hún hafi verið blóðug og bólgin um vit, en ekki hafi verið að sjá áverka á hinum þolanum. Samkvæmt upplýsingum þeirra hafði kærði ráðist að tilefnislausu á þær og slegið brotaþola margsinnis í andlitið. Samkvæmt bráðabirgðavottorði læknis og tannlæknisvottorði hafi brotaþoli hlotið áverka, mar á augnloki og augnsvæði, blóðnasir, heilahristing, mar á úlnlið og hönd, yfirborðsáverka á öðrum hlutum höfuðs og brot í aftasta jaxl í efri góm hægra megin. Samkvæmt upplýsingum lögreglu á slysadeild hafi kærði sent vitni SMS skilaboð þar sem hann kvaðst stoltur af þessari árás og hafi brotaþoli og vitni lýst að hún væri hrædd við kærða og óttaðist um líf sitt. Kærði hafi verið handtekinn 27. nóvember sl. vegna þessa máls. Kærði sé undir rökstuddum grun um líkamsárás en hann neiti brotinu, en játi að hafa verið á vettvangi, og verið á ná í lykla og rekist utan í brotaþola. Vitni lýsa árásinni og önnur gögn styðja árásina. Kærði játi að hafa verið í Facebókarsamskiptum, þar sem hann þrýsti á bortaþola að kæra ekki. Teljist brotið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Á kærða hafi einnig fundist fíkniefni, við handtöku 27. nóvember sl., 3,53 g kókaín og 1, 89 g tóbakbl. kannabis. Teljist það varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni. Rannsókn sé nú að ljúka, en verið sé að afla endanlegs áverkavottorðs og verði ákæra gefin út til sameiningar máli númer S-[...]/2014, en það sé í aðalmeðferð [...]. janúar nk.

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...].

                Þjófnaður, þar er kærði sé ásamt fleiri aðilum grunaður um þjófnað á stífluðeyði úr [...] 8. október sl. Þar hafi kærði sést á myndum ásamt fleiri aðilum vera að stela stíflueyði að andvirði 14.975 króna.  Teljist þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði neiti sök, en kærði þekkist á myndum.

                Mál lögreglu nr. 007-2014-[...].

                Við handtöku 2. desember sl. hafi fundist fíkniefni í vörslum kærða, 6,32 gr af amfetamíni og 4,06 g af hassi-kannabis. Teljist þetta varða við 2.,  sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni. Ákæra verði gefin út af lögreglustjóra í þessum málum á næstu dögum og verði þau væntanlega sameinuð sakamálinu nr. [...]/2014, en aðalmeðferð sé áætluð [...]. janúar nk. við Héraðsdóm Reykjaness. 

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...].

                Frelsissvipting og alvarleg líkamsárás. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi lokið rannsókn á meintri frelsissviptingu, hótunum og líkamsmeiðingum gegn A, en kærði sé þar undir sterkum, en málið hefur verið sent Ríkissaksóknara og mun ákæra verða gefin út eftir áramót skv. embætti Ríkissaksóknara.  

                Þann 6. ágúst sl. hafi A brotaþoli komið á lögreglustöðina í [...] og tilkynnt lögreglu að hann hefði orðið fyrir líkamsárás af hendi X. Brotaþoli hafi þá verið í mikilli geðshræringu og ekki skýrsluhæfur að mati lögreglu. Kvaðst brotaþoli  hafa verið tekinn og farið með hann út á land þar sem hann hafi verið pyntaður og honum hótað. Lögreglan hafi flutt brotaþola á slysadeild þar sem læknir hafi tekið á móti honum. Að sögn læknisins hafði brotaþoli þar sömu sögu að segja. Hann kvaðst hafa verið tekinn af nokkrum mönnum og haldið föngnum í 6 til 8 klukkustundir. Hann kvað þá hafa kýlt hann, sparkað í hann, notað rafbyssu, bitið hann, neytt hann til að drekka smjörsýru og látinn sleikja frunsu á öðrum manni. Brotaþoli  hafi verið með litla rauða bletti á líkamanum sem að sögn læknis geti komið saman við frásögn hans um að beitt hafi verið rafbyssu, sbr. læknisvottorð frá 11. ágúst. Þá hafi hann verið með marbletti við vinstri auga, roða yfir andlitið, rauða dökka rák á hálsi og marga blóðbletti. Þá var hann einnig með margar rauðar rákir víða um bakið eftir högg eða núning.

                Þann 11. ágúst hafi brotaþoli komið til skýrslutöku hjá lögreglu og lagt fram kæru í málinu. Hann kvað aðila að nafni Y hafa tekið sig í leigubíl og látið aka suður í [...] á [...] til að ræða við kærða, X. Hann kvaðst hafa labbað inn í húsið í [...] og þá hafi hann strax verið kýldur nokkrum sinnum í andlitið. Hann kvaðst hafa verið pyntaður í marga klukkutíma, þeir hafi m.a. notað rafbyssu á háls hans og kynfæri þannig að hann missti þvag, og létu hann drekka smjörsýru. Hann kvað þá hafa verið þrjá, X, Z og Þ. Þá kvað hann stelpu einnig hafa verið á staðnum sem heiti Æ. Þeir hafi hótað að nauðga honum, tekið úlpuna hans og úr. Hann kvað þá hafa sparkað í hausinn á sér, skorið sig í magann og á bakið. Þá hafi hann verið sprautaður með efni í lærið. Kærði mun þá hafa sagt honum frá atburði sem kærði kvað leiða til þess að brotaþoli ætti að greiða honum hálfa milljón sem væri ástæða þessarar frelsissviptingar og líkamsmeiðinga. Þá hafi meðkærði Z tilkynnt honum að brotaþoli skuldaði honum 100 þúsund krónur og sama gerði Æ og sagði að skuld hans við hana væri 200 þúsund krónur. Að barmsmíðunum loknum hafi meðkærði Y farið með brotaþola til [...] til að tryggja það að brotaþoli myndi greiða skuldirnar. Brotaþoli hafi náð að flýja úr bifreiðinni þegar komið var til [...].

                Þann 12. ágúst hafi lögreglan farið að [...] í [...]. Í húsnæðinu hafi verið kærði, X, Æ (látin), meðkærðu, Þ og Z, þau hafi öll verið handtekin. Við húsleit hafi fundist eitthvað af fíkniefnum, ætluð smjörsýra, haglabyssa, rafbyssa (Tase byssa), meint þýfi, sprautunálar, blóðdropar á gólfi og úlpa eins og brotaþoli hafði lýst. Samkvæmt áverkavottorði sem liggi fyrir var brotaþoli með yfirborðsáverka um líkamann, litla rauða bletti, sem gátu samrýmst því að beitt hafi verið rafbyssu á hann, en vopninu var m.a. beitt á hálsinn. Skv. mati sérfræðinga hjá Nýsköpunarmiðstöð sé um hættulegt vopn að ræða, sem geti valdið lífshættulegum afleiðingum ef beitt á líkama.

                Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði X neitað sök í málinu, en hann hafi játað að brotaþoli hafi komið að [...], að kvöldi 6. ágúst sl., og kvaðst hann hafa slegið hann einu sinni, og hafi rafbyssa verið notuð af meðkærðu, en kærði ekki upplýst hver hafi notað byssuna. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna þessa brots frá 13-27. ágúst sl. Annar meðkærðu hafi játað að hluta sök og lýst atvikinu og þætti annarra. Teljist þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 226. gr. og eftir atvikum 233. gr. alm. hgl.

                Kærði sé undir rökstuddum og sterkum grun um alvarlega líkamsárás, frelsissviptingu, og hótanir, þar sem hættulegu vopni hafi verið beitt á líkama brotaþola. Kærði sé því undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varði allt að 16 ára fangelsi og telji lögregla að mikil hætta stafi af kærða og gæsluvarðhald því nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og fjölda brota, enda eðli brotanna þess háttar að það kunni að særa réttarvitund almennings fái hann að vera frjáls ferða sinna, sbr. ofangreind mál og neðangreind mál nr. 007-2014-[...], -[...],  -[...], og –[...].

Kærði sé einnig undir  sterkum grun um eftirgreind ofbeldisbrot:

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...].

                Frelsissvipting,  líkamsárás og eftir atvikum gripdeild 24. febrúar 2014, en þar sé kærði undir sterkum grun um að hafa frelsissvipt ásamt fleiri aðilum B mánudaginn 24. feb. sl., að [...] í [...], með því að halda B nauðugum og beita hann grófu ofbeldi, með því slá hann hnefahöggum og stinga hann, en kærandi var með stungusár á yfirborði líkamans og lemstraður í andliti, m.a. nefbrot maráverka og yfirborðsáverka í andliti og útlimum, sbr. áverkavottorð frá 25. febrúar sl. Einnig tekið ófrjálsi hendi ýmsa muni í kjölfarið. Kærði neiti aðild sinni að þessu broti, en játi hafa slegið brotaþola og verið á vettvangi, en blóðblettir brotaþola hafi fundist m.a.  í fatnaði kærða. Kærði gefi ekki aðrar skýringar og hafi ekki upplýst um þátt annarra. Samkvæmt frásögn brotaþola hafi honum verið haldið í allt að 2 klukkustundir og beittur grófu ofbeldi m.a. af kærða. Kærði hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna þessa brots í 10 daga frá 25. febrúar sl. til 6. mars. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Brotaþoli hafi lýst árásinni og frelsissviptingunni og hafi kært árásina, en hann leitaði á slysadeild eftir árásina. Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr.,  226. gr. og 245. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en málið hafi verið sent Ríkissaksóknara til meðferðar og verði ákæra gefin út eftir áramót samkvæmt upplýsingum Ríkissaksóknara. Lögreglustjóri hafi höfðað mál með þremur ákæruskjölum, sbr. sakamálið S-[...]/2014, en aðalmeðferð í því sé áætluð [...]. janúar 2014 við Héraðadóm Reykjaness, sbr. eftirfarandi mál:

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...].

                Líkamsárás laugardaginn 15. mars 2014 í strætisvagni sem hafi ekið Kringlumýrabraut í Reykjavík, en þar sé kærði undir sterkum grun um að hafa veist að tilefnislausu á strætisvagnabílstjóra með hnefahöggum en strætisvagninn var í akstri með farþega og skapaðist töluverð hætta af þeim sökum. Bifreiðastjórinn hafi hlotið áverka, m.a. brotnaði tönn, en  vitni hafi séð kærða slá bílstjórann tveimur hnefahöggum. Teljist þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði neiti sök. Ákæra hafi verið gefin út 19. ágúst sl.

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...].

                Líkamsárás. Þar sé kærði undir sterkum grun um að hafa 19. febrúar sl., að [...] í [...] veist að C með því að slá hann nokkur hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hafi hlotið glóðarauga á hægra auga, yfirborðsáverka á nefi, mar augnloki og augnsvæði, yfirborðsáverka á öðrum hlutum höfuðs, hrufl á úlnlið og hendi og mar á læri og olnboga. Kærði neiti sök. Teljist þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákæra hafi verið gefin út 19. ágúst sl. og sé aðalmeðferð áætluð [...]. jan. nk.

                Önnur brot sem kærði sé undir sterkum grun er vegna brota á umferðarlögum, sbr., mál nr. 007-[...], -[...], - [...], -[...] og [...], fyrir fíkniefna-og vopnalagabrot, mál nr.  007-2014-[...] og [...], og fyrir þjófnaði, í verslun [...] þann 19. og 20. febrúar sl., sbr. mál nr. 007-2014-[...], -[...], -[...], og þjófnað, sbr. mál nr. 007-2014-[...]. Lögreglustjóri hafi gefið út ákæru 19. ágúst sl. en tvær aðrar ákærur hafi verið gefnar út og sameinaðar 23. september og 8. október vegna fíkniefnaaksturs og sviptingaraksturs, sbr. mál nr. 007-2014-[...] og –[...], sbr. áðurgreint Héraðsdómsmál S-[...]/2014, en málið hafi verið þingfest [...]. október sl. Kærði hafi neitað sök í flestum ákæruliðunum, en játað sviptingarakstur og fíkniefnalagbrot í fjórum ákæruliðum, en aðalmeðferð fari fram 15. janúar nk.

                Mál nr. 008-2014-[...].

Brot gegn áfengislögum. Gerð hafi verið húsleit af lögreglu að [...], 30. október sl. þar sem landi og bruggtæki hafi fundist  fundust og viðurkenndi kærði framleiðslu og sölu á landa. Teljist þetta brot á 4., og 7. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga.  

                Kærði sé undir rökstuddum og sterkum grun um meðal annars alvarlegar líkamsárásir, frelsissviptingu, eftir atvikum ólögmæta nauðung og hótanir, þar sem hættulegu vopni hafi verið beitt á líkama brotaþola. Kærði sé því undir grun um að hafa framið brot sem varða allt að 16 ára fangelsi og að kærði fái óskilorðsbundna fangelsisrefsingu og telji lögregla að mikil hætta stafi af kærða og gæsluvarðhald sé því nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og fjölda brota. Telji lögregla að ætla megi að hann muni halda áfram brotum og nauðsynlegt sé að stöðva brotastarfsemi og -hrinu og ljúka rannsókn og ákærumeðferð. Lögregla og Ríkissaksóknari muni því gefa út ákærur eftir áramót til sameiningar eftir atvikum. Það sé mat lögreglu að kærði hafi sýnt af sér einbeittan brotavilja og sé í mikilli neyslu, sbr. meðal annars að fíkniefni fundust  í blóði kærða 9. ágúst sl.

                Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum, alvarleika brotanna, sbr. áður er sagt, en hann sé nú meðal annars undir sterkum grun um líkamsárásir og frelsissviptingu sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og það sé brýnt fyrir lögreglu að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna og alvarleika brotanna og  uns málum hans er lokið, en lögregla og Ríkissaksóknari munu gefna út  ákærur og senda héraðsdómi og þá til sameiningar strax eftir áramót.  Kærði hafi áður hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot og önnur brot. Síðast hafi kærði hlotið dóm 19. febrúar sl. vegna umferðarlagabrota, m.a. vegna fíkniefnaaksturs.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

                Samkvæmt því sem rakið hefur verið og gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um fjölmörg hegningarlagabrot og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Þá liggur fyrir að kærði á að baki nokkuð langan sakarferil og hefur margoft hlotið fangelsisdóma fyrir hegningarlagabrot, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot frá því árið 1994. Í greinargerð lögreglustjóra er rakin brotastarfsemi kærða á árinu 2014 og varða brotin meðal annars 1. og 2. mgr. 218. gr., 217. gr., 233. gr., 226. gr. 244. og 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gegn lögum um ávana- og fíkniefni, umferðarlögum, áfengislögum og vopnalögum nr. 15/1998. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing, sannist sök. Ákæra vegna sumra þessara brota hefur verið gefin út. Með vísan til nefndrar greinargerðar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknargagna málsins þykir liggja fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Þá þykir mega ætla að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt þessu er fallist á það með lögreglustjóra að uppfyllt sé skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 19.  janúar 2015, kl. 16:00.