Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2016

Brynjar Guðmundsson og Guðni Freyr Guðmundsson (Ragnar Aðalsteinsson hrl.)
gegn
Graníthöllinni ehf. (Hilmar Magnússon hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Einkahlutafélag
  • Gjaldþrotaskipti

Reifun

G-höllin hf. höfðaði mál gegn B og G og krafðist skaðabóta vegna vanrækslu þeirra að hlutast til um að bú G-hússins ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta eftir að félagið varð ógjaldfært. Eftir afturköllun á gjaldþrotaskiptabeiðni hafði rekstrarmunum félagsins verið ráðstafað með afsals- og kaupsamningi. Var lagt til grundvallar að á þeim tíma þegar umræddur samningur hafði verið gerður hefði G-húsið ehf. verið ógjaldfært með vísan til eldri dóma Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá kom fram að með samningnum hefði G-húsið ehf. staðið eftir rýrara að eignum til tryggingar fyrir aðrar lánadrottna þess og því hefði ráðstöfunin farið í bága við 1. mgr. 51. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Var því talið að B og G hefðu samkvæmt 1. mgr. 108. gr. sömu laga fellt á sig bótaábyrgð gagnvart G-höllinni ehf. sem lánadrottni félagsins vegna þess tjóns sem hann hefði orðið fyrir af þessum sökum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. mars 2016. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi stofnaði Heiðar Steinsson á árinu 2005 Graníthúsið ehf., en hann er jafnframt eini eigandi stefnda. Með kaupsamningi 6. desember sama ár keypti Viðhald og nýsmíði ehf. helmingshlut í Graníthúsinu ehf., en áfrýjendur eru eigendur þess félags. Frá þeim degi var áfrýjandinn Guðni eini stjórnarmaður félagsins en varamaður í stjórn var fyrrnefndur Heiðar. Áfrýjandinn Brynjar var skráður framkvæmdastjóri félagsins, en áfrýjendur fóru með prókúruumboð fyrir félagið.

Um mitt ár 2011 hvarf Heiðar frá störfum hjá Graníthúsinu ehf., en aðila greinir á um tildrög þess, svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Þótt Heiðar hafi hætt þátttöku í rekstri félagsins var ekki gerð breyting á stjórn þess eins og ranglega er staðhæft í héraðsdómi. Var skipan stjórnarinnar óbreytt fram yfir þau atvik sem reynir á við úrlausn málsins.

Með beiðni 9. nóvember 2012 fór áfrýjandinn Guðni þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur, fyrir hönd Graníthússins ehf., að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en efni þeirrar beiðni er lýst í héraðsdómi. Áður en úrskurður gekk um beiðnina var hún afturkölluð 18. sama mánaðar.

Fljótlega eftir að beiðni Graníthússins ehf. um gjaldþrotaskipti á búi félagsins hafði verið afturkölluð ráðstafaði það hluta af rekstarmunum sínum til Best buy ehf. með afsals- og kaupsamningi 30. nóvember 2012. Kaupverðið nam 23.600.000 krónum og átti að greiða hluta þess með yfirtöku á skuldum við Viðhald og nýsmíði ehf. og Magna ehf., en það félag er eins og fyrrnefnda félagið í eigu áfrýjenda. Jafnframt tók kaupandi að sér að greiða skuldbindingar við Landsbankann hf., sem áfrýjendur voru í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Efni þessa samnings er réttilega lýst í héraðsdómi að öðru leyti en því að samningurinn var ekki aðeins undirritaður af hálfu áfrýjandans Guðna heldur áfrýjendum báðum. Viðauki við samninginn var gerður 12. júní 2013, en með honum var frekari rekstrartækjum ráðstafað til Best Buy ehf. fyrir 900.000 krónur. Tekið var fram í viðaukanum að kaupverðið hefði verið greitt með því að tæki og tól hefðu verið tekin upp í skuldir. Báðir áfrýjendur rituðu undir þennan samning fyrir hönd seljanda.

Þegar hér var komið sögu hafði stefndi 19. september 2012 höfðað mál á hendur Graníthúsinu ehf. til heimtu greiðslu vegna reikninga 31. mars og 19. ágúst 2011 á hendur því. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. júlí 2013 var félaginu gert að greiða stefnda 4.232.234 krónur með dráttarvöxtum auk 600.000 króna í málskostnað. Á grundvelli dómsins fékk stefndi gert fjárnám hjá félaginu 19. september sama ár og var því lokið sem árangurslausu að hluta. Að kröfu stefnda var bú félagsins síðan tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 30. janúar 2014. Lýstar kröfur í búið nema samtals 67.370.214 krónum en eignir búsins við upphaf skipta voru óverulegar.

Stefndi höfðaði í eigin nafni en til hagsbóta fyrir þrotabúið riftunarmál á hendur annars vegar Viðhaldi og nýsmíði ehf. og hins vegar Magna ehf., sbr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var byggt á því að þessi félög hefðu með fyrrgreindum afsals- og kaupsamningi 30. nóvember 2012 fengið greiddar skuldir með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. sömu laga. Með dómum Hæstaréttar 12. maí 2016 í málum nr. 565/2015 og 566/2016 var greiðslum þessum rift og fjárkröfur á hendur félögunum teknar til greina. Var Viðhaldi og nýsmíði ehf. gert að greiða þrotabúinu 8.000.000 krónur með dráttarvöxtum og 1.400.000 krónur í málskostnað en Magna ehf. að greiða 6.200.000 krónur með dráttarvöxtum og sömu fjárhæð í málskostnað.

II

Stefndi reisir málatilbúnað sinn á því að áfrýjendur hafi vanrækt að hlutast til um að bú Graníthússins ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta eftir að félagið varð ógjaldfært eins og miðað var við í beiðni félagsins sjálfs 9. nóvember 2012. Með því að afturkalla þá beiðni 18. sama mánaðar og í kjölfarið ráðstafa rekstrarmunum félagsins með afsals- og kaupsamningi 30. þess mánaðar og síðar með viðauka við samninginn 12. júní 2013 hefðu áfrýjendur valdið tjóni sem falist hefði í því að eignum var komið undan skiptum sem ella hefði verið ráðstafað til greiðslu krafna. Við þetta hefði stefndi farið á mis við að fá fullnustu kröfu sinnar en á því beri áfrýjendur ábyrgð sem fyrirsvarsmenn félagsins. Til stuðnings bótaskyldu vísar stefndi til 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991, 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og sakarreglunnar.

Í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar í málum nr. 565/2015 og 566/2015 var lagt til grundvallar að á þeim tíma þegar umræddur samningur var gerður 30. nóvember 2012 hefði Graníthúsið ehf. verið ógjaldfært. Þessu hefur ekki verið hnekkt og hafa dómarnir því fullt sönnunargildi um þessi málsatvik, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við þessar aðstæður í rekstri félagsins bar að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir greiðsluþrot en ella var áfrýjandanum Guðna sem eina stjórnarmanni félagsins skylt að gefa það upp til gjaldþrotaskipta, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 138/1994. Jafnframt er þess að gæta að sem framkvæmdastjóra félagsins mátti áfrýjandanum Brynjari vera ljóst hvernig fjárhag félagsins var komið þótt honum bæri ekki sjálfum vegna þeirrar stöðu að hlutast til um gjaldþrotaskipti á búi þess.

Við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst stóðu áfrýjendur sameiginlega að samningnum 30. nóvember 2012 og viðaukanum 12. júní 2013. Með samningnum var rekstrarmunum félagsins ráðstafað fyrir endurgjald sem fólst í því að kaupandinn tók yfir skuldir við félög í eigu áfrýjenda og skuldir sem þeir voru í ábyrgðum fyrir. Þannig runnu engir fjármunir til félagsins, heldur stóð það eftir rýrara að eignum til tryggingar fyrir aðra lánardrottna þess. Að þessu leyti fór ráðstöfun samkvæmt samningnum í bága við 1. mgr. 51. gr. laga nr. 138/1994 um að fyrirsvarsmenn einkahlutafélags megi ekki gera nokkrar þær ráðstafanir sem fallnar eru til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Af því leiðir að áfrýjendur hafa samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 108. gr. sömu laga fellt á sig bótaábyrgð gagnvart stefnda sem lánardrottni félagsins vegna þess tjóns sem hann hefur orðið fyrir af þessum sökum. Verður því niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest á þann veg sem í dómsorði greinir.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og greinir í dómsorði.   

Dómsorð:

Viðurkennd er skaðabótaskylda áfrýjenda, Brynjars Guðmundssonar og Guðna Freys Sigurðssonar, vegna tjóns sem stefndi, Graníthöllin ehf., varð fyrir vegna afsals- og kaupsamnings 30. nóvember 2012 við Best buy ehf. ásamt viðauka 12. júní 2013 við þann samning.

Áfrýjendur greiði stefnda óskipt samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2015.

Mál þetta var höfðað 5. janúar 2015 af stefnanda, Graníthöllinni ehf., Bæjarhrauni 26, Hafnarfirði, á hendur stefndu, Guðna Frey Sigurðssyni, Kvisthaga 1, Reykjavík, og Brynjari Guðmundssyni, Birkiási 15, Garðabæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til greiðslu 4.832.234 króna með dráttavöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 700.063 krónum frá 30. apríl 2011 til 19. september sama ár, en af 4.232.234 krónum frá þeim degi til 7. ágúst 2013, en af 4.832.234 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum málskostnað.

Stefndu gerðu aðallega kröfu um að máli þessu yrði vísað frá dómi, en til vara að stefndu yrðu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

                Með úrskurði 2. júní 2015 var fallist á frávísunarkröfu stefndu en með dómi Hæstaréttar 13. ágúst 2015 í máli nr. 402/2015 var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Í þinghaldi 8. september 2015 var að ósk stefnanda ákveðið að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði dæmt um bótaskyldu stefndu. Aðalmeðferð fór fram 24. nóvember 2015 og málið dómtekið.

I.

Málsatvik eru þau að á árinu 2005 stofnaði Heiðar Steinsson Graníthúsið ehf. en hann er jafnframt eigandi stefnanda, Graníthallarinnar ehf. Með kaupsamningi 6. desember 2005 keypti Viðhald og nýsmíði ehf. 50% hlut í Graníthúsinu ehf., en eigendur Viðhalds og nýsmíði ehf. eru stefndu, Guðni Freyr Sigurðsson og Brynjar Guðmundsson. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá var stjórn félagsins samkvæmt fundi 6. desember 2005 skipuð þannig að Guðni Freyr varð eini stjórnarmaður Graníthússins ehf. en Heiðar varamaður í stjórn. Stefndi Brynjar var skráður framkvæmdastjóri. Stefndu Guðni og Brynjar fóru með prókúrumboð.

Stefnandi kveður að Heiðari hafi verið bolað frá störfum um mitt ár 2011 og honum verið bönnuð koma á vinnustað félagsins. Félag Heiðars, Graníthöllin ehf., hafi átt verulegar fjárkröfur á hendur Graníthúsinu ehf. vegna verktöku, sem hafi falist í vinnuframlagi Heiðars við steinsmíðar fyrir Graníthúsið ehf.

Stefndu kveða atvik hins vegar þau að forsendur sem Heiðar hafi gefið um stöðu Graníthússins ehf., sem hafi verið forsenda kaupa Viðhalds og nýsmíði ehf. á 50% hlut í félaginu, hafi verið rangar. Það hafi þurft að leggja frekara fjármagn inn í reksturinn og það komið í hlut Viðhalds og nýsmíði ehf. Þá hafi Heiðar unnið gegn fjárhagslegum hagsmunum Graníthússins ehf. með því að veita vinum og kunningjum verulegan afslátt og að hann beri ábyrgð á rýrnun á lager félagsins. Heiðar hafi svo látið sig hverfa úr rekstri Graníthússins ehf., hafið rekstur Graníthallarinnar ehf. í beinni samkeppni við Graníthúsið ehf. og leitað allra leiða til að koma Graníthúsinu ehf. í þrot. 

Í kjölfarið á ágreiningi aðila og brotthvarfi Heiðars frá Graníthúsinu ehf. mun stefndi Brynjar hafa orðið varamaður í stjórn félagsins og tekið við stöðu framkvæmdastjóra og stefndi Guðni verið áfram stjórnarformaður.

Graníthöllin ehf. höfðaði mál á hendur Graníthúsinu ehf. í september 2012 fyrir Héraðsdómi Reykjaness til greiðslu skuldar vegna verktöku. Með dómi 23. júlí 2013, í máli nr. E-1149/2012, var Graníthúsið ehf. dæmt til að greiða Graníthöllinni ehf. 4.232.234 kr. auk dráttarvaxta og 600.000 kr. í málskostnað.

Áður en sá dómur gekk hafði stefndi Guðni sem stjórnarmaður í Graníthúsinu ehf. krafist þess að á grundvelli 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. yrði bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta. Í kröfunni sagði meðal annars eftirfarandi: „Samkvæmt ársreikningi 2011 liggur fyrir að félagið var rekið með tapi árið 2011 uppá 4.743.382 kr. og eigið fé neikvætt um 8.375.024 kr. Einnig liggur fyrir samkvæmt ársreikningi að skuldir félagsins eru töluverðar og ljóst að það mun ekki geta staðið í fullum skilum við lánadrottna sína og ekki séð fram á að greiðsluörðugleikar muni líða hjá innan skamms.“ Krafa þessi var afturkölluð 18. nóvember 2012 án þess að úrskurður gengi um hana. Eftir það ráðstafaði Graníthúsið ehf. þó nokkrum hluta eigna sinna til Best buy ehf., með kaupsamningum 30. nóvember 2012 og 12. júní 2013, fyrir samtals 24.500.000 kr.

Samningurinn frá 30. nóvember 2012 ber yfirskriftina afsals- og kaupsamningur og er á milli Graníthússins ehf. og Best buy ehf. Samningurinn var undirritaður af Guðna Frey f.h. Graníthússins ehf. sem seljanda og Eggerti Arngrími Arasyni f.h. Best buy ehf. sem kaupanda. Í 1. gr. kaupsamningsins segir að seljandi lofi að selja og kaupandi að kaupa hluta af rekstri seljanda eða þá rekstrareiningu sem kallist plötusmíði, ásamt tækjum og áhöldum sem notuð væru í rekstrareiningunni. Samkvæmt samningnum var kaupverðið 23.600.000 kr. Í 3. gr. var kveðið á um að kaupverðið skyldi greiðast með eftirfarandi hætti: a) Með yfirtöku veðskuldar við Landsbanka Íslands hf. með veði í vélum, að fjárhæð ca 3.900.000 kr. b) Með yfirtöku yfirdráttarskuldar í Landsbanka Íslands hf. á tilteknum hlaupareikningi að fjárhæð ca 5.500.000 kr. c) Með yfirtöku hluta skuldar við Magna ehf. ca 6.200.000 kr. d) Með yfirtöku hluta skuldar við Viðhald og Nýsmíði ehf. ca 8.000.000 kr. e) Kæmi fram mismunur í fjárhæðum í liðum a-c skyldi hann koma til hækkunar eða lækkunar á lið d. Þá var ákvæði í samningnum um að uppgjöri og afstemmingu milli aðila skyldi lokið eigi síðar en 31. desember 2013.

Þá liggur fyrir afsals- og kaupsamningur frá 12. júní 2013, sem Guðni Freyr og Brynjar undirrituðu f.h. Graníthússins, þar sem Graníthúsið ehf. seldi Best buy ehf. rafmangslyftara og bílkrana ásamt vökvabúnaði.

Á grundvelli dómsins frá 23. júlí 2013 var að beiðni stefnanda gert fjárnám hjá Graníthúsinu ehf. í tilteknum lausafjármunum en því lokið að öðru leyti án árangurs, hinn 19. september 2013. Stefnandi kveður að þá fyrst hafi komið fram upplýsingar um að umræddir munir væru ekki lengur í eigu gerðarþola. Framangreindum kaupsamningum hafi ekki verið framvísað þótt þeir hafi samkvæmt dagsetningu þeirra verið þá þegar löngu verið gerðir. Það hafi fyrst með endurupptöku meints kaupanda á umræddri fjárnámsgerð þann 22. janúar 2014 sem samningunum hafi verið framvísað. Við endurupptöku fjárnámsins var því lokið að öðru leyti án árangurs.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 30. janúar 2014 var Graníthúsið ehf. tekið til gjaldþrotaskipta, að kröfu stefnanda í máli þessu, og hefur stefnandi lýst kröfu í búið sem dómkrafa þessa máls tekur til.

II.

                Stefnandi byggir á því að stefndu hafi brotið samþykktir Graníthússins ehf. og ákvæði laga um einkahlutafélög, Graníthúsinu ehf., hluthöfum þess og öðrum kröfuhöfum til tjóns, en á því beri stefndu einir ábyrgð. Með háttsemi sinni hafi stefndu fellt á sig bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins og reglum laga nr. 21/1991, einkum 64. gr., svo og samkvæmt ákvæðum laga nr. 138/1994. Byggir stefnandi kröfu sína á öllum þessum málsástæðum, saman og í sitthvoru lagi, en stefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni sem nemi fjárhæð dæmdrar kröfu á hendur Graníthúsinu ehf. ásamt dæmdum málskostnaði samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 23. júlí 2013 í máli nr. E-1149/2012. 

Stefnandi kveður að við skýrslutöku skiptastjóra af fyrirsvarsmönnum Graníthússins ehf., þ.e. stefndu, hinn 25. febrúar 2014, hafi þeir staðfest að Graníthúsið ehf. hefði verið með starfsemi fram til ársloka 2013, þrátt fyrir kaupsamning um sölu á eignum félagsins í árslok 2012, og að kaupandi hefði efnt samninginn að fullu. Þeir hafi skýrt það svo að Graníthúsið ehf. hafi gert leigusamning við viðsemjanda sinn, Best buy ehf., um afnot tækja gegn greiðslu leigu, en tækin hafi þá þegar verið seld en verið ógreidd á þeim tíma að því er virðist. Samningur þessi hafi ekki fundist eða verið framvísað af hálfu fyrirsvarsmanna Graníthússins ehf. og bókhald félagsins hafi ekki fundist, en það sé vissulega á ábyrgð beggja stefndu sem hafi gegnt stjórnunarstöðum í félaginu allt fram til þess að það var tekið til gjaldþrotaskipta, enda hafi kaupsamningurinn ekki lotið að sölu á hlutafénu sjálfu.

Telur stefnandi að kaupandi að rekstri Graníthússins ehf. hafi verið samverkamaður með stefndu við að koma eignum undan og kippa þar með undan rekstrargrundvelli félagsins. Aðgerðir þessar hafi aldrei getað leitt til annars en að félagið yrði þá þegar gjaldþrota, eins og raunin hafi verið í nóvember 2012, samkvæmt mati stefndu sjálfra, sbr. gjaldþrotaskiptabeiðni sem félagið lagði fram í héraðsdómi í byrjun nóvember 2012. Stefndi Guðni beri ábyrgð á því að tilkynna félagið til gjaldþrotaskipta þegar svo hafi verið komið sem lýst var í beiðninni, sem stjórnarmaður félagsins, sbr. ákvæði laga nr. 138/1994, en vanhöld á því leiði til skaðabótaábyrgðar. Auk þess byggir stefnandi á því að stefnda Brynjari hafi mátt vera kunnug þessi skylda, sem framkvæmdastjóri félagsins, og því borið að tilkynna stjórn félagsins um þá athafnaskyldu. Vanræksla beggja stefndu í þessu efni leiði til þess að þeir bera óskipt ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir með því að fá ekki kröfu sína greidda.

Samkvæmt kaupsamningi frá 30. nóvember 2012 virðist sem Graníthúsið ehf. hafi selt öll sín tæki og tól ásamt rekstri svo og lager, sem tilheyrði rekstrareiningunni, án frekari afmörkunar eða skýringar en ekki hafi neinni birgðatalningu verið framvísað. Undir samninginn hafi báðir stefndu ritað vegna Graníthússins ehf. 

Stefnandi kveður að samkvæmt upplýsingum skiptastjóra í þrotabúi Graníthússins ehf. hafi einungis óverulegar eignir fundist í þrotabúinu. Um sé að ræða óverulegt magn granítsteina sem komið hafi verið fyrir í gámi, sem kaupandinn hafi haft yfir að ráða og verið í vörslu hans, en engar skýringar liggi fyrir um þá tilhögun sem telja verði mjög óvenjulega, sérstaklega þegar horft sé til þess að Graníthúsið ehf. hafi haldið áfram rekstri á árinu 2013. Eftir að skiptastjóra hafi tekist að fá gáminn í sínar vörslur hafi innihald hans, sem hafi verið óverulegt, verið selt á innan við tvær milljónir. Ekki sé vitað hvað hafi orðið um þann lager sem eftir stóð, en samkvæmt ársreikningi félagsins 2012 hafi lagerinn verið metinn á rúmar 15 milljónir í árslok. Samkvæmt saldólista fyrir 2013 fyrir alla bókhaldslykla, sem skiptastjóri hafi fengið í hendur, hafi engar birgðir verið færðar fyrir það ár. Ekki liggi fyrir neinar skýringar á því en stefnandi telur að nýtt félag stefndu, Granítsteinar ehf., hafi nýtt birgðirnar í sínum rekstri.

Stefnandi telur að stefndu, sem fyrirsvarsmenn Graníthússins ehf., hafi verið eða mátt vera ljóst, þegar kaupsamningur á að hafa verið gerður 30. nóvember 2012, að Graníthúsið ehf. hafi ekki getað staðið í fullum skilum við lánardrottna á gjalddaga krafna, enda margar þeirra löngu gjaldfallnar og hafi numið verulegum fjárhæðum. Engar horfur hafi verið á að greiðsluörðuleikar félagsins myndu líða hjá innan skamms tíma. Þannig hafi stefndu verið skylt að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 138/1994 eigi síðar en í nóvember 2012, og áður en meintur kaupsamningur var gerður. Byggir stefnandi á því að skyldan hafi verið á báðum stefndu vegna tengsla þeirra við stærstu lánardrottna félagsins og að þeir hafi í raun báðir verið stjórnendur þess, sem m.a. megi sjá í því að báðir stefndu undirrita kaupsamninginn um sölu á eignum félagsins.

Hin óábyrga sala á rekstri félagsins, án þess að króna væri greidd til þess, hafi aldrei getað leitt til annars en að stefnandi yrði af heimtu kröfu sinnar, enda telur stefnandi að aðgerðir stefndu hafi beinlínis verið gerðar í þeim tilgangi og um leið til að tryggja greiðslu á kröfum félaga sem stefndu áttu og þannig tryggja sér efndir þeirra umfram aðra.

Í þessu sambandi áréttar stefnandi að fyrrverandi stjórnarformaður Graníthússins ehf., stefndi Guðni, hafi óskað eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta og lagt fram beiðni í héraðsdómi í því skyni aðeins þremur vikum áður en kaupsamningur er sagður gerður og 12 dögum eftir að beiðnin var dregin til baka. Slík háttsemi sé saknæm og ólögmæt. Þegar gjaldþrotaskiptabeiðnin var lögð fram hafi báðum stefndu mátt vera ljóst að verulegt áframhaldandi tap hafi verið á rekstrinum, líkt og ársreikningur 2012 staðfesti, og eigið fé verið neikvætt um  22.213.458 kr. í lok þess árs. Það sé vandséð af hverju stefndu hafi dregið gjaldþrotaskiptabeiðni félagsins til baka 10 dögum eftir að hún var lögð fram, nema í þeim tilgangi að koma eignum undan til að greiða kröfur félaga í eigu stefndu sjálfra á hendur Graníthúsinu ehf. Stefndu beri þannig sönnunarbyrðina fyrir því að félagið hafi orðið greiðslufært á þessum 10 dögum sem liðu frá því að gjaldþrotaskiptabeiðnin var lögð fram og þar til hún var dregin til baka, en ekkert í málinu sýni að félagið hafi þá eða síðar verið greiðslufært.  

Stefnandi telur að með því að stefndu hafi ráðstafað öllum eignum út úr félaginu með umræddum kaupsamningum hafi Graníthúsið ehf. verið gert að eignalausu félagi, án þess að skeytt væri um hagsmuni stefnanda eða annarra lánardrottna þess en ekkert reiðufé hafi komið fyrir hið selda. Með samningunum hafi rekstrargrundvellinum verið kippt undan félaginu í því skyni að tryggja greiðslur á skuldum Graníthússins ehf. við félög í eigu stefndu, Viðhalds og nýsmíði ehf. og Magna ehf.

Þá hafi skuldir þær sem kaupandi, Best Buy ehf., yfirtók og greiddi verið gamlar skuldir sem hafi komið fram í ársreikningum félagsins. Félög í eigu stefndu, Viðhald og nýsmíði ehf. og Magni ehf., hafi þannig fengið uppgerðar löngu gjaldfallnar skuldir sínar umfram aðra kröfuhafa Graníthússins ehf. og skekkt með því það jafnræði sem ríkja eigi á milli kröfuhafa, þ.m.t. stefnanda. Þá liggi ekkert fyrir um hvernig skuld Graníthússins ehf. við Viðhald og nýsmíði ehf. og Magna ehf. hafi orðið til og því mögulegt að hún sé ekki á rökum reist. Stefnandi telur því líkur til þess að eina markmið með greiðslu á skuldunum hafi verið að koma eignum undan gjaldþrotaskiptum þegar legið hafi fyrir að skylt hafi verið að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta.

Kaupsamningurinn frá 30. nóvember 2012 hafi einnig leitt til þess að yfirdráttur Graníthússins ehf. hafi verið gerður upp, en stefndu hafi þar verið í persónulegum ábyrgðum. Með greiðslu yfirdráttarins hafi stefndu því losnað úr ábyrgð á kostnað annarra kröfuhafa. Hinn umþrætti kaupsamningur hafi sannanlega leitt til þess að eignir Graníthússins ehf. hafi ekki verið til fullnustu kröfuhöfum og að endurgjald það sem gefið var hafi leitt til þess að félög í eigu stefndu, sem hafi verið kröfuhafar í þrotabúið, hafi fengið kröfur sínar greiddar að því marki sem kveðið sé á um í samningnum umfram aðra kröfuhafa. Ráðstafanir þessar feli í sér brot á jafnræði kröfuhafa og séu stefndu saknæmar, enda bendi ekkert til þess að nauðsynlegt hafi verið að greiða þessar upphæðir á þessum tíma, meðan ekkert hafi verið greitt til annarra almennra kröfuhafa. 

Kaupsamningarnir hafi auk þess verið óheimilir þar sem ekki hafi verið leitað eftir undirritun Heiðars, þótt það hafi verið nauðsynlegt þar sem undirritun bæði varamanns og stjórnarmanns hafi þurft til að rita firmað samkvæmt samþykktum félagsins. Telur stefnandi að sala á öllu eigum félagsins og rekstri falli sannanlega þar undir. Með því hafi stefndu sannanlega brotið samþykktir félagsins og ákvæði hlutafélagalaga, stefnanda til tjóns. Vegna þessa beri að beita ströngu sakarmati.

Stefnandi telur þannig að stefndu hafi verið skylt að gefa Graníthúsið ehf. upp til gjaldþrotaskipta að minnsta kosti áður en umþrættir kaupsamningar eru sagðir gerðir og þeir hafi því brotið með saknæmum hætti gegn 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 138/1994. Með því að ráðstafa eignum Graníthússins ehf. með kaupsamningunum, eins og hag þess var komið, hafi stefndu, með saknæmum og ólögmætum hætti, stofnað hagsmunum stefnanda og annarra lánardrottna Graníthússins ehf. í verulega hættu. Stefndu hafi þannig vanrækt að gefa Graníthúsið ehf. upp til gjaldþrotaskipta þegar þeim hafi verið það skylt samkvæmt fyrrnefndum lagaákvæðum og vegna þessarar vanrækslu stefndu hafi stefnandi farið á mis við fullnustu kröfu sinnar. Stefndu séu því skaðabótaskyldir vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir af þessum sökum, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994. Stefnandi hafi farið á mis við fullnustu kröfu sinnar, en eignir í þrotabúi Graníthússins ehf. séu óverulegar og dugi ekki til að greiða skiptakostnaðinn. 

Stefnandi telur að sameiginlegur bótagrundvöllur sé fyrir hendi gagnvart báðum stefndu þar sem þeir hafi staðið einhuga að þeirri ákvörðun að gefa Graníthúsið ehf. ekki upp til gjaldþrotaskipta og báðir staðið að umþrættum kaupsamningum, sbr. undirritun beggja stefndu á báða kaupsamningana. Þá hafi báðir stefndu notið góðs af þeim aðgerðum sem þeir hafi báðir staðið fyrir, vegna eignarhalds þeirra á þeim félögum sem fengu sínar kröfur greiddar.

Stefnandi telur að hreinn ásetningur hafi staðið að baki því vanrækslubroti stefndu að gefa Graníthúsið ehf. ekki upp til gjaldþrotaskipta og koma þannig eignum undan með kaupsamningunum, til að greiða kröfur félaga í eigu stefndu sjálfra á hendur Graníthúsinu ehf. í trássi við hagsmuni stefnanda og annarra lánardrottna félagsins. Stefndu hafi hvorki tekið ákvarðanir með hagsmuni Graníthússins ehf. að leiðarljósi né kröfuhafa eða hluthafa þess. Stefndu hafi verið að fylgja fram sínum eigin persónulegum hagsmunum.

Stefnandi telur öll skilyrði 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt til að fella bótaábyrgð á stefndu. Stefndu sem fyrirsvarsmenn Graníthússins ehf. hafi ákveðnum skyldum að gegna gagnvart félaginu sjálfu, kröfuhöfum og hluthöfum þess. Þá kröfu verði að gera til stefndu að þeir hafi í meginatriðum vitneskju um rekstur félagsins og mikils háttar ráðstafanir. Þannig verði þeir að vera meðvitaðir um hvaða kröfum sé beint að félaginu og hvenær gjalddagi krafnanna sé. Auk þess beri þeim að hafa yfirsýn yfir eignir félagsins og hvaða möguleika félagið eigi til að koma þeim í verð, sem og vera meðvitaðir um tekjumöguleika félagsins, en félagið hafi virst vera komið í verulega greiðsluörðugleika í lok árs 2012, sem hafi í raun staðið yfir allt frá árinu 2011.

Stefndu hafi metið það sjálfir á grundvelli vitneskju sinnar um rekstur félagsins að Graníthúsið ehf. gæti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína og talið að ekki yrði séð fram á að greiðsluörðuleikar myndu líða hjá innan skamms, sbr. gjaldþrotaskiptabeiðnina frá 9. nóvember 2012. Þá hafi steðjað að félaginu m.a. verulegar gjaldfallnar kröfur af hálfu hins opinbera, sem hefðu getað leitt til lokunar á rekstri þess. Hins vegar hafi stefndu dregið beiðnina til baka án þess að aðstæður hefðu breyst. Ekkert sé fram komið í málinu um að félagið hafi getað orðið sér úti um fé með aflahæfi sínu eða getað gengið á eignir sínar eða tekið fé að láni til þess að geta staðið í fullum skilum við alla lánardrottna á gjalddaga á því 10 daga tímabili sem leið frá því að gjaldþrotaskiptabeiðnin var lögð fram og þar til hún var afturkölluð. Stefndu beri sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða.

Þá bendir stefnandi jafnframt á að þegar meintur kaupsamningur hafi verið gerður 30. nóvember 2012 hafi stefnandi þegar verið búinn að stefna Graníthúsinu ehf. til greiðslu á mjög hárri skuld og ljóst að ef krafan næði fram að ganga gæti Graníthúsið ehf. vart greitt þá skuld, sem svo hafi orðið raunin og leitt að lokum til þess að stefnandi krafðist þess að Graníthúsið ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi telur auk þess að þegar skuldir félags séu meiri en eignir, eins og ársreikningar Graníthússins ehf. fyrir bæði árin 2011 og 2012 sýni, sé eðlileg ályktun að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta, enda hafi rekstur félagsins ekki staðið undir rekstrarkostnaði þess samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum og að mati stefndu sjálfra.  

Samkvæmt framangreindu hafi stefndu verið ljóst eða að minnsta kosti mátt vera ljóst, þegar kaupsamningarnir eru sagðir gerðir, að Graníthúsið ehf. gæti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína á gjalddaga vegna fjárhagslegrar stöðu félagsins. Þannig hafi verið fyrirsjáanlegt, að minnsta kosti á þeim tíma þegar kaupsamningar eru sagðir gerðir, að greiðsluörðuleikar félagsins myndu ekki líða hjá innan skamms tíma. Þá telur stefnandi jafnframt að raunar strax í lok árs 2011 hafi átt að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta þar sem útistandandi kröfur á félagið hafi samtals numið um 27.000.000 kr. og margar þeirra komnar á gjalddaga, sbr. lista yfir skráða ógreidda reikninga á hendur Graníthúsinu ehf. ásamt gjalddaga hvers reiknings. Þá hafi yfirdráttarheimild félagsins, sem hafi verið hækkuð haustið 2011 í 6.500.000 kr., verið fullnýtt og meira en það. 

Stefnandi kveður að stefndu hafi ekki getað framvísað bókhaldi ársins 2013 og því óljóst hvernig rekstri Graníthússins ehf. hafi verið háttað á þeim tíma. Á því beri stefndu ábyrgð sem fyrirsvarsmenn félagsins. Stefnandi telur að ekkert í rekstri félagsins á þeim tíma hafi létt af skyldum stefndu til að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta en það styðjist einnig við fjárhæð kröfulýsinga í búið. Megi leiða að því líkur að stefndu hafi verið fullkunnugt um það í nóvember 2012, þegar gjaldþrotaskiptabeiðni var lögð fram af þeirra hálfu, að staða félagsins væri í raun mun verri en fram kom í beiðninni, sbr. niðurstöðu ársreiknings fyrir árið 2012. Stefndu hafi hlotið að vera kunnugt á þessu tímamarki hver raunveruleg staða félagsins var, eða a.m.k. hafi þeim átt að vera hún kunnug. Geti stefndu ekki skotið sér undan þeim skyldum sem á þeim hvíla í þessu efni.

Stefnandi telur að stefndu hafi í raun skotið eignum og viðskiptavild félagsins undan því og komið í annað félag sem nú reki granítverksmiðju á sama stað og Graníthúsið ehf., undir nafninu Granítsteinar, en engin greiðsla hafi komið fyrir viðskiptavildina að því er séð verði. Það sé ófært að nýtt félag hafi getað hafið rekstur undir nýrri kennitölu án þess að greiða krónu fyrir, en rekstrartekjur félagsins hafi verið tæpar 100 milljónir króna. Í málinu liggi fyrir gögn sem sýni að Granítsteinar hafi þegar á árinu 2013 hafið rekstur á þeim verkstað sem Graníthúsið ehf. var áður með rekstur. Þá virðist sem Granítsteinar ehf. sé í raun rekið af hálfu stefndu, en þeir sitji þar í stjórn og séu skráðir m.a. fyrir léni félagsins. Telur stefnandi að stefndu hafi í raun flutt rekstur Graníthússins ehf. yfir í nýtt félag án þess að greiðsla kæmi fyrir.

Þá verði ekki annað séð en að allur lager Graníthússins ehf. hafi í raun gengið til kaupanda, án þess að greitt hafi verið fyrir raunverð, en samkvæmt ársreikningi 2012 hafi birgðir verið sagðar 15.763.229 kr. í árslok. Einungis óverulegar birgðir hafi fundist í gámi sem skiptastjóri seldi fyrir tæpar tvær milljónir króna. Engar skýringar liggi fyrir um hvað hafi orðið af þessum birgðum en á því beri stefndu fulla ábyrgð. Áður hafi stefndu selt f.h. félagsins birgðir fyrir 7.600.000 kr. ef marka megi kaupsamninginn. Samkvæmt því hafi birgðir í lok árs 2012 numið a.m.k. 23.363.229 kr. þegar horft sé til birgðastöðu samkvæmt ársreikningi þess árs að teknu tilliti til þess sem selt hafi verið undir lok þess árs.

Viðskiptakröfur og aðrar skammtímakröfur hafi verið sagðar 13.271.910 kr., en ekki hafi fengist upplýsingar um stöðu þeirra og gegn hverjum þær hafi verið, meðan ekkert bókhald sé til staðar. Þá hafi verið dulin eign í tækjum félagsins en bókfært verð þeirra í árslok 2011 hafi verið 1.668.028 kr., en söluverð þeirra verið 16.000.000 kr. samkvæmt kaupsamningi, sem stefnandi telur í lægri kantinum. Söluhagnaður eigna, sbr. ársreikning 2012, hafi því verið 14.331.972 kr. Verði ekki annað séð en að heildareignir félagsins hafi samkvæmt því verið 50.967.111 kr. í árslok 2012. Skuldir félagsins í árslok 2012 hafi samkvæmt ársreikningi numið 51.729.200 kr. Viðskiptaskuldir hafi þá vaxið úr 6.101.821 kr. í 18.688.326 kr. en engar skýringar hafi verið gefnar á því hverju þetta sæti eða á færslu vaxtagjalda í rekstrarreikning, en einu vaxtaberandi skuldir félagsins hafi verið við Landsbanka Íslands hf. og numið mun lægri fjárhæðum þegar horft sé til vaxtagjalda áranna á undan.

Stefnandi byggir á því að ef stefndu hefðu ekki dregið til baka gjaldþrotaskipta­beiðni félagsins hefðu lánardrottnar líklega fengið fullnustu krafna sinna, þar sem líklegt sé að mun hærra söluverð hefði fengist fyrir tæki og lager, hefði það verið selt ásamt rekstri félagsins, en eins og áður sagði virðist ekki hafa verið greidd ein króna fyrir reksturinn sjálfan. Á því beri stefndu ábyrgð gagnvart stefnanda og öðrum kröfuhöfum svo og gagnvart hluthöfum, en tjón þeirra sé algert. Sönnunarbyrði um annað beri stefndu, þ.e. að sú vanræksla þeirra hafi ekki verið þeim saknæm. Vegna þeirra aðgerða stefndu að selja eigur félagsins nokkru síðar sé sakarmatið strangt en til sömu niðurstöðu leiði sú staðreynd að stefndu hafi haft persónulega hagsmuni af þessum ráðstöfunum auk þeirra nánu tengsla sem séu á milli stefndu og félaga sem eru tengd þeim svo og kaupanda. Teljist þau nátengd í skilningi gjaldþrotaréttar.

Stefnandi byggir á því að stefndu hafi báðum saman eða í sitthvoru lagi borið sú skylda sem kveðið sé á um í 64. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi Guðni hafi verið eini stjórnarmaður félagsins og því á hans borði að sinna skyldu þessari samkvæmt skýrum ákvæðum einkahlutafélagalaga, einkum 44. gr., sbr. 80. gr., sömu laga. Þá skyldu hafi einnig stefndi Brynjar borið samkvæmt sömu lagaákvæðum.

Ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 hafi að geyma svokallaða sakarlíkindareglu og því þurfi stefndu að sýna fram á að vanræksla þeirra að gefa Graníthúsið ehf. ekki upp til gjaldþrotaskipta hafi ekki verið þeim saknæm. Stefnandi telur vandséð að sú sönnun hafi tekist.

Þá byggir stefnandi kröfu sína einnig á almennu skaðabótareglunni sem leiði til sömu niðurstöðu, vegna vanrækslu stefndu og bótaskyldrar háttsemi þeirra við að gæta ekki hagsmuna kröfuhafa félagsins og hluthafa.

Stefnandi byggir enn fremur á 108. gr. laga nr. 138/1994, þar sem kveðið sé á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar beri bótaábyrgð gagnvart hluthöfum eða öðrum sem verði fyrir tjóni vegna brota á ákvæðum laganna, en stefnandi telur að stefndu hafi með framferði sínu brotið m.a. gegn 80. gr. laganna svo og 51. gr., sbr. umfjöllun hér að framan. Brotið felist í því að hafa ekki gefið félagið upp til gjaldþrotaskipta þegar þeim hafi verið það skylt og háttsemi stefndu við sölu á eignum félagsins hafi brotið gegn 51. gr. laganna, þar sem stærstum hluta söluandvirðisins hafi verið ráðstafað til greiðslu á skuldum við félög í þeirra eigu og gert það að verkum að ekki hafi verið neinar eiginlegar eignir eftir í félaginu eða ekki fengist upplýsingar um afdrif annarra eigna. Á því beri báðir stefndu ábyrgð samkvæmt skýru ákvæði í einkahlutafélagalögum og samkvæmt almennum bótareglum. Þá hafi stefndu brotið ákvæði laga nr. 145/1994 um bókhald með því að færa ekki og varðveita bókhald Graníthússins ehf. ásamt því að gera ársreikninga og með þeirri háttsemi sinni gert stefnanda ófært að greina rekstur félagsins og athafnir stefndu á árinu 2013. Leiði það með öðru til þess að sönnunarbyrði um gjaldfærni félagsins og önnur þau atvik, sem stefnandi byggir á, hvíli á stefndu.

Stefnandi krefst dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni og byggir á því tímamarki sem sé tilgreint í dómi þeim sem krafa þessi er byggð á, enda teljast vextirnir hluti af tjóni stefnanda.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991, einkum 2. mgr. 64. gr. um skyldu félagsstjórnar til að afhenda bú félags til gjaldþrotaskipta og skaðabótaábyrgð stjórnenda af því tilefni. Þá er vísað til 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994, sbr. 1. mgr. 80. gr. sömu laga, og annarra ákvæða laga nr. 138/1994, eftir því sem þau eigi við í málinu, og laga nr. 145/1994. Einnig er vísað til almennu skaðabótareglunnar og þess að strangt sakarmat gildi um saknæmi. Krafa um vexti er studd við ákvæði laga nr. 38/2001. Þá er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um málskostnað.

III.

                Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Stefndu telja ljóst að Héraðsdómur Reykjaness hafi þegar fjallað um og fallist á dómkröfu málsins gegn Graníthúsinu ehf. Stefndu eigi því ekki aðild að þessu máli og leiði sá aðildarskortur til sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi geti ekki endurtekið fengið dæmda kröfu sína á hendur mismunandi aðilum, og auðgast í samræmi við það.

Stefndu telja jafnframt að stefnandi sé ekki réttur aðili að máli þessu byggðu á skaðabótaákvæðum laga um einkahlutafélög. Verði talið að stefndu hafi valdið Graníthúsinu ehf. tjóni sem stjórnendur sé það á færi þrotabús Graníthússins ehf. að höfða mál til heimtu skaðabóta úr hendi þeirra á grundvelli bótaákvæða laga um einkahlutafélög en ekki stefnanda. Samkvæmt dómafordæmum þyrfti stefnandi að sýna fram á að hann hefði orðið fyrir sérstöku tjóni, vegna meintrar saknæmrar háttsemi, umfram aðra kröfuhafa Graníthússins ehf. Engu slíku sé haldið fram af stefnanda.

Þá telja stefndu að með því að fallast á kröfu stefnanda yrði jafnræði kröfuhafa raskað og einum kröfuhafa umfram aðra gefið færi á að hagnast á greiðslu vegna meints tjóns félagsins. Slíkt færi þvert gegn markmiðum ákvæða hlutafélagalaga og gjaldþrotaskiptalaga.

Mál þetta sé ekki höfðað í nafni þrotabúsins né heldur fyrir umboð þess eða framsal neinnar meintrar kröfu frá þrotabúinu né heldur sé neinu slíku haldið fram í stefnu. Séu augljósir hagsmunir stefnanda af því að koma í veg fyrir slíka málshöfðun þrotabúsins gegn stjórnendum, þar sem þá yrði fjallað um bótaskylda háttsemi fyrirsvarsmanns stefnanda, Heiðars, við stjórn og rekstur Graníthússins ehf.

Af öllum framangreindum rökum leiði að sýkna beri stefndu á grundvelli 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Verði ekki fallist á kröfu stefndu um sýknu vegna aðildarskorts byggja stefndu á því að engin skilyrði bótaábyrgðar þeirra séu uppfyllt, hvorki á grundvelli almennu skaðabótareglunnar né á grundvelli sérstakra bótaákvæða, þ.m.t. 108. gr. laga um einkahlutafélög.

Stefndu halda því fram að þeir hafi á engan hátt viðhaft saknæma háttsemi í störfum sínum sem stjórnendur Graníthússins ehf. Þá telja stefndu að orsakatengsl skorti milli hinnar meintu saknæmu háttsemi og meints tjóns stefnanda. Enn fremur hafi meint tjón ekki enn komið fram, enda sé skiptum á þrotabúi Graníthússins ekki lokið. Það sé því með öllu óljóst hversu mikið af lýstri kröfu stefnanda komi til með að greiðast við gjaldþrotaskiptin. Þá telja stefndu sök Heiðars, fyrirsvarsmanns og eiganda stefnanda, þá þegar leiða til sýknu stefndu af kröfum stefnanda.

Stefndu byggja á því að ósannað sé að þrotabú Graníthússins ehf. sé nær eignalaust og að fjármunir sem fengist hafa við sölu á birgðum nægi ekki til að greiða skiptakostnað. Stefndu telja þetta ósannað og að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir þessari staðhæfingu. Stefndu vísa í þessu sambandi til þess að skiptum sé enn ólokið og riftunarmál til meðferðar fyrir dómi.

Stefndu vísa á bug efasemdum stefnanda um réttmæti umræddra kaupsamninga við Best buy ehf., þ.m.t. dagsetningar þeirra, sem röngum og ósönnuðum. Sönnunarbyrði hvað þetta varðar hvíli á stefnanda.

Þá mótmæla stefndu þeirri fullyrðingu stefnanda að stefndu hafi brotið samþykktir Graníthússins ehf. og halda því fram að þessi fullyrðing sé ekki nánar útskýrð í stefnu málsins.

Einnig telja stefndu að stefnandi hafi á engan hátt útskýrt í hverju meint tjón hans felst eða þá á hvaða lagagrundvelli stefnandi telur sér kleift að sækja meint tjón hluthafa félagsins á hendur stefndu, í nafni Graníthallarinnar, en stefnandi byggi ekki á því að hann hafi orðið fyrir svokölluðu sértæku eða einstaklingsbundnu tjóni sem annar kröfuhafi félagsins í skilningi 108. gr. laga um einkahlutafélög. Ætti fullyrðing stefnanda við rök að styðjast yrði að telja að Heiðar væri með sama hætti ábyrgur og stefndu, og í raun ábyrgur umfram stefndu, vegna starfa sinna sem stjórnarmaður í félaginu og framkvæmdastjóri. 

Þá sé umfjöllun í stefnu um leigusamning við Best Buy ehf. um afnot tækja, sem þá þegar hafi verið seld, afar óskýr og óljóst hverju byggt sé á. Stefndu segja að slíkur samningur hafi verið fullkomlega heimill og að stefnandi beri sönnunarbyrðina um annað. Hvað varðar fullyrðingar stefnanda um meinta ábyrgð stefndu um tilvist bókhalds er á því byggt að ábyrgðin hvíli ekki síður á Heiðari, sem hafi einnig verið hluthafi og stjórnandi félagsins á því tímabili sem meint brot eiga að hafa átt sér stað, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög.

Stefndu telja óljóst af stefnu hvaða aðili stefnandi telur hafa verið „samverkamann“ í meintu undanskoti eigna en þessar aðdróttanir í stefnu séu rangar og ósannaðar. Stefndu telja einnig fullyrðingar stefnanda um meinta skyldu stefndu til að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta í nóvember 2012 um margt óljósar og einkennilegar og stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hið meinta tjón hafi myndast. Stefndu kveða að það hafi verið að áeggjan lögmanns Heiðars, sem einnig sé lögmaður stefnanda, að tekin hafi verið ákvörðun um að halda rekstrinum áfram og afturkalla téða beiðni um gjaldþrotaskipti.

Um meinta skyldu stefndu að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta í nóvember 2012 segja stefndu að þar með bæri Heiðar, fyrirsvarsmaður og eigandi stefnanda, einnig slíka skyldu sem stjórnarmaður og hluthafi félagsins. Slík skylda hvíli ekki lögum samkvæmt á framkvæmdastjóra og ætti að sýkna stefnda Brynjar af þeim ástæðum.

Hvað varðar umfjöllun stefnanda um lagerstöðu félagsins og birgðatalningar byggja stefndu á því að Heiðar hafi séð um lager félagsins og ætti því að vera fyllilega ljós lagerstaða félagsins á hverjum tíma. Stefndu beri því ekki sök á skorti á lager eða öðru er varði framangreindar ráðstafanir. Þá sé þessi málsástæða stefnanda haldlaus í því ljósi að hún byggist enn og aftur á óljósri tilgreiningu meintrar saknæmrar háttsemi stefndu, án þess að greint sé á milli þeirra og án þess að greint sé á milli þáttar Heiðars hvað þetta varðar.

Þeirri fullyrðingu í stefnu er mótmælt að nýtt félag stefndu, Granítsteinar ehf., hafi nýtt birgðir ársins 2013 í rekstri sínum, stefndu til tekna. Þessi fullyrðing sé óútskýrð og henni sé alfarið mótmælt sem rangri og ósannaðri og óljóst sé hvernig þessi fullyrðing tengist máli þessu. Stefndu hafi ekki ráðstafað neinum eignum Graníthússins til Granítsteina, þvert á við það hvernig Heiðar hafi m.a. tekið viðskiptamenn frá Graníthúsinu og sölsað undir sig vefsíðu félagsins, í nafni stefnanda.

Stefndu telja ósannað að sú staðreynd að Graníthúsið ehf. hafi ekki verið gefið upp til skipta á þeim tímapunkti sem kaupsamningur var gerður 30. nóvember 2012 hafi valdið meintu tjóni stefnanda. Stefndu árétta að Heiðar hafi verið meirihluta­eigandi hlutafjár í Graníthúsinu ehf. og á tímabili verið stjórnarmaður og því hafi sú skylda ekki síður hvílt á honum. Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda sjálfs hvað þetta varðar þurfi stefnandi að sanna að ef félagið hefði verið gefið upp til gjaldþrotaskipta á þessum tímapunkti þá hefði stefnandi fengið kröfur sínar greiddar, sem hann beinir nú að stefndu, og meint tjón sitt bætt. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á það.

Stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu stefnanda að þeir beri sönnunarbyrði fyrir því að félagið hafi orðið greiðslufært á þeim 10 dögum sem liðu frá framlagningu gjaldþrotaskiptabeiðni og til afturköllunar hennar. Málatilbúnaður stefnanda sé með þeim hætti að hann beri sjálfur sönnunarbyrðina fyrir því að hann hefði fengið kröfu sína greidda að fullu hefði gjaldþrotaskiptabeiðnin ekki verið afturkölluð.

Hugleiðingum stefnanda um réttmæti krafna Viðhalds og nýsmíði á hendur Graníthúsinu er vísað á bug sem röngum og ósönnuðum. Stefndu telja umfjöllun um þetta atriði í stefnu einkennilega í ljósi þess að lýst krafa stefnanda sjálfs í þrotabú Graníthússins nemi rúmlega 19 milljónum króna og sé a.m.k. að hluta til orðin til áður en stefnandi hafi orðið til.

Þá byggja stefndu á því að orsakatengsl skorti milli meintrar vanrækslu stefndu og meints tjóns stefnanda. Meint tjón stefnanda sé heldur ekki sennileg afleiðing af hinni meintu vanrækslu. Þá hafi stefnandi enga tilraun gert til að rökstyðja hvernig stefndu beri bótaábyrgð með þessum hætti umfram Heiðar, sem sé nátengdur stefnanda, og hvers vegna stefndu ættu að bera ábyrgð á tjónsvaldandi háttsemi Heiðars í rekstri Graníthússins. Í kjölfar gjaldþrotaskiptabeiðni stefndu hafi lögmaður Heiðars, sem einnig er lögmaður stefnanda, óskað eftir að sú beiðni yrði afturkölluð og rekstri félagsins haldið áfram. Þá sé í engu rökstutt í stefnu hvernig afturköllun á gjaldþrotaskiptabeiðninni frýi Heiðar sjálfan sömu ábyrgð og hann byggir nú á gagnvart stefndu, þ.e. hvernig Heiðar frýi sig frá ábyrgð á því að hafa ekki sjálfur sem stjórnandi félagsins gefið það upp til gjaldþrotaskipta á þeim tímapunkti sem hann nú heldur fram að stjórnendum hafi verið það skylt.

Fullyrðingum stefnanda um meint undanskot eigna og að stefndu hafi ætlað að greiða kröfur félaga í þeirra eigu á hendur Graníthúsinu er mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Sömuleiðis fullyrðingum um að stefndu hafi við stjórn félagsins verið að gæta persónulegra hagsmuna við ákvörðunartöku um málefni félagsins. Markmiðið hafi verið að halda lífi í rekstrinum með endurskipulagningu og gera tilraun til sátta við Heiðar. Það hafi einnig verið ástæða þess að lögmaður Heiðars hafi óskað eftir að beiðnin yrði dregin til baka.

Hvað varðar þá málsástæðu stefnanda að stefndu hafi ákveðnum skyldum að gegna, sem fyrirsvarsmenn félagsins, gagnvart félaginu sjálfu, kröfuhöfum og hluthöfum þess, árétta stefndu að þessar sömu skyldur hafi hvílt á Heiðari og gera hefði átt sömu kröfur til hans og stefndu, bæði sem stjórnanda og hluthafa félagsins. Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni megi fyrst og fremst rekja það til háttsemi Heiðars sjálfs.

Að lokum byggja stefndu á því að bótagrundvöllur máls stefnanda samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög, sbr. 134. gr. laga um hlutafélög, geti ekki leitt til þess að fallist verði á kröfur stefnanda, sbr. fyrri umfjöllun um vanreifun á aðild, skort á lögvörðum hagsmunum og sýknu á grundvelli aðildarskorts.

Eftir ákvæðum 1. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög séu stjórnarmenn og framkvæmdastjórar einkahlutafélags skyldir til að bæta félaginu það tjón sem þeir hafi valdið félaginu í störfum sínum. Samkvæmt skýru orðalagi umrædds ákvæðis sé það félagið sem geti öðlast skaðabótakröfu á hendur umræddum aðilum, ekki ótengdur þriðji aðili líkt og stefnandi. Til að félagið gæti haft uppi slíka skaðabótakröfu hefði hluthafafundur þurft að taka ákvörðun um slíka málshöfðun gegn stjórnendum þess, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga. Engin slík ákvörðun hluthafafundar liggi fyrir. 

Fyrirsvarsmaður stefnanda geti ekki nú, löngu síðar og í gegnum félag sem enga aðild eigi að rekstri Graníthússins, krafist skaðabóta af stefndu með vísan til umrædds ákvæðis laga um einkahlutafélög. Þetta styðji sýknukröfu stefndu á grundvelli aðildarskorts. Stefnandi hafi aldrei verið hluthafi Graníthússins ehf. og honum sé ókleift að byggja á því að hann teljist til „annars aðila“ samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög. Í málatilbúnaði stefnanda sé raunar ekkert útskýrð tilvísun hans til 108. gr. laga um einkahlutafélög. Því er mótmælt að ákvæðið geti samkvæmt orðalagi sínu tekið til mögulegra kröfuhafa félags, enda sé í ákvæðinu látið hjá líða að geta kröfuhafa sérstaklega.

Jafnvel þótt fallist yrði á að réttarsamband stefnanda og Graníthússins ehf. hafi verið með þeim hætti að stefnandi gæti talist til annars aðila samkvæmt 2. mgr. 1. mgr. 108. gr. sé deginum ljósara að bótaréttur stefnanda takmarkist við einstaklingsbundið tjón vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi sem rekja megi til brota fyrirsvarsmanna félagsins á einkahlutafélagalögum eða samþykktum félagsins, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 29. október 2009 í máli nr. 228/2009.

Skaðabótaábyrgð gagnvart einstökum hluthöfum eða eftir atvikum öðrum aðilum skv. 2. ml. 1. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög komi með öðrum orðum aldrei til greina nema um sé að ræða einstaklingsbundið tjón sem rekja megi til ólögmætrar og saknæmrar háttsemi stjórnenda félags, enda sé meginreglan sú að skaðabótakrafan tilheyri félaginu, sem komi fram fyrir hönd hluthafa og beri lögum samkvæmt að gæta hagsmuna annarra sem hag hafa af rekstri félagsins.

Verði fallist á það með stefnanda að tjón hans sé einstaklingsbundið og réttarsamband hans við Graníthúsið ehf. hafi verið þess eðlis að honum sé samkvæmt 108. gr. laga um einkahlutafélög heimilt að krefja einstaka stjórnendur þess milliliðalaust um skaðabætur, byggja stefndu á því að hvorki skilyrði 108. gr. né almennu sakarreglunnar séu uppfyllt. Stefnandi hafi með engu móti fært sönnur á með hvaða hætti háttsemi stefndu hafi falið í sér brot á einkahlutafélagalögum eða samþykktum félagsins né útskýrt í hverju meint ólögmæt háttsemi hvors stefndu um sig felist eða hvernig þeir geti orðið sameiginlega ábyrgir umfram Heiðar, fyrirsvarsmann og eiganda stefnanda, sem að lögum hafi sjálfum borið að hafa eftirlit með rekstrinum. Skaðabótaskylda stefndu takmarkist við brot á einkahlutafélaga­lögum og samþykktum félagsins eftir skýru orðalagi 2. ml. 1. mgr. 108. gr. Af þeim sökum byggja stefndu á því að ólögmæti háttsemi stefndu sé ekki sannað. Að auki sé óútskýrt í stefnu hvernig háttsemi stefndu feli í sér brot á gjaldþrotaskiptalögum og bókhaldslögum. Önnur meint brot stefndu á lögum um einkahlutafélög og lögum um hlutafélög eða samþykktum félagsins séu einnig óútskýrð og þar með hin meinta ólögmæta háttsemi sem á að hafa leitt til tjóns stefnanda.

Stefndu telja að saknæmi háttseminnar sé með öllu ósönnuð og kveða að mikið þurfi til að koma til að tiltekin athöfn verði metin stjórnarmanni í einkahlutafélagi til sakar, enda gangi víðtækar bótareglur á hendur stjórnendum slíkra félaga gegn meginreglu félagaréttarins um takmarkaða ábyrgð.

Þá byggja stefndu á því að orsakatengsl og sennileg afleiðing milli háttsemi þeirra og meints tjóns sé alfarið vanreifuð í stefnu. Í stefnunni sé gerð krafa um skaðabætur sem samsvari því að stefnandi hefði fengið kröfu sína gagnvart Graníthúsinu að fullu greidda. Í hrópandi ósamræmi við þetta sé það að víða sé vikið að því í stefnunni að eignir félagsins hefðu aldrei nægt til greiðslu allra skulda þess, eigið fé félagsins hafi verið neikvætt um fleiri milljónir og í raun hafi staða félagsins verið með þeim hætti að stjórnendum þess hafi borið skylda til að gefa það upp til gjaldþrotaskipta. Af framangreindu megi ljóst vera að lítið sem ekkert samhengi sé milli dómkrafna, málsástæðna og atvika og því fari fjarri að stefnanda hafi tekist sönnun um orsakatengsl milli háttsemi stefndu og meints tjóns sem sé með öllu ósannað, bæði er varðar tilvist og umfang.

Að lokum telja stefndu að „hvítþvottur“ stefnanda á háttsemi Heiðars, fyrirsvarsmanns stefnanda, og ábyrgð hans sem stjórnarmanns, framkvæmdastjóra og hluthafa, leiði sjálfkrafa til þess að stefndu í máli þessu verði sýknaðir, enda á engan hátt útskýrt með hvaða hætti þeir hafi valdið Graníthúsinu tjóni með háttsemi sinni umfram Heiðar sjálfan eða af hverju stefnandi telur Heiðar engar skyldur hafa borið til að takmarka tjón sitt og stefnanda.

Stefndu kveða að reikningar þeir sem gefnir voru út vegna verktöku og Graníthúsið ehf. var dæmt til að greiða hafi verið útgefnir 31. mars 2011 og 19. ágúst 2011. Dómur í máli E-1149/2013 sé á hendur Graníthúsinu ehf. en ekki stefndu og geti sá dómur ekki legið til grundvallar meintri bótaskyldu stefndu. Þegar af þeirri ástæðu séu allar meintar bótakröfur stefnanda á hendur stefndu fyrndar, enda verði að byggja á dagsetningum reikninga að frágengnum umræddum dómi sem varði ekki stefndu og rýfur ekki fyrningu meintra krafna á hendur stefndu. Fyrningarfrestur umrædds dóms sé meintum kröfum stefnanda á hendur stefnu þannig óviðkomandi. Af öllu framangreindu leiðir að skilyrði laga um einkahlutafélög og laga um hlutafélög, um skaðabótaábyrgð stjórnenda og almennu skaðabótareglunnar, sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á, séu í engu uppfyllt og beri þar af leiðandi að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

Um lagarök vísa stefndu til almennu skaðabótareglunnar og þeirra skilyrða sem fram komi samkvæmt skilgreiningu hennar sem og ákvæða laga um einkahlutafélög og laga um hlutafélög varðandi skaðabótaábyrgð stjórnenda. Einnig  vísa stefndu til þeirra ríku krafna sem gerðar séu svo stjórnendur hlutafélaga teljist persónulega skaðabótaskyldir.

Hvað varðar málskostnaðarkröfu er vísað til 1. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en vegna greiðslu virðisaukaskatts er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV.

                Eins og rakið hefur verið krefst stefnandi þess að viðurkennd verði bótaskylda stefndu vegna saknæmrar háttsemi stefndu við stjórn Graníthússins ehf. Stefnandi byggir á því að stefndu hafi fellt á sig bótaábyrgð samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og almennu skaðabótareglunni.

                Stefndu krefjast sýknu vegna aðildarskorts stefnanda þar sem honum sé ekki heimilt samkvæmt 108. gr. laga nr. 138/1994 að höfða málið og að þrotabúið hefði sjálft þurft að höfða málið eða eftir heimild skiptastjóra, sbr. 130. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 138/1994 á stefnandi sjálfstæðan rétt til að leita réttar síns gagnvart stefnda Guðna, sem var stjórnarmaður Graníthússins ehf., og stefnda Brynjari, sem var framkvæmdastjóri, vegna tjóns sem þeir kunna að hafa valdið stefnanda í störfum sínum. Stefnandi á lögvarða hagsmuni af því að leita annarra leiða til að fá kröfu sinni fullnægt en að lýsa kröfu á hendur þrotabúi Graníthússins, eins og með skaðabótum úr hendi stefndu. Stefnandi getur því höfðað mál þetta og þarf ekki til þess heimild skiptastjóra. Þá er málsgrundvöllur stefnanda í máli því sem hér er til úrlausnar annar en í máli stefnanda gegn Graníthúsinu ehf. og málið er ekki á milli sömu aðila. Er því hafnað að sýkna beri stefndu vegna aðildarskorts.  

Samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 16. gr. laga nr. 95/2010, er skuldara, sem er bókhaldsskyldur, skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar svo er orðið ástatt fyrir honum að hann geti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma. Láti þeir sem bærir eru um að taka ákvörðun um að leita gjaldþrotaskipta á búi slíks skuldara, sem ekki er einstaklingur, það hjá líða bera þeir skaðabótaábyrgð gagnvart lánardrottnum skuldarans að því leyti sem þeir fara af þessum sökum á mis við fullnustu krafna sinna, enda sýni þeir ekki fram á að sú vanræksla hafi ekki verið þeim saknæm. Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 138/1994 er jafnframt kveðið á um skyldu félagsstjórnar til að afhenda bú félags til gjaldþrotaskipta, eftir því sem mælt er fyrir um í ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 hefur að geyma svokallaða sakarlíkindareglu og það eru því stefndu sem þurfa að sýna fram á að sú vanræksla að gefa Graníthúsið ehf. ekki upp til gjaldþrotaskipta sé þeim ekki saknæm.

Þegar litið er til ársreiknings Graníthússins ehf. fyrir árið 2011, um tap á árinu, og til taps sem kemur fram í ársreikningi 2012, og þess að lögð var fram beiðni fyrir Héraðsdómi Reykjaness 9. nóvember 2012 um gjaldþrotaskipti á Graníthúsinu ehf., á grundvelli þess að félagið gæti ekki staðið í skilum við lánardrottna sína og sá ekki fram á að greiðsluörðugleikar myndu líða hjá innan skamms, verður að telja að félagið hafi verið ógjaldfært og skylt hafi verið að gefa búið upp til gjaldþrotaskipta. Beiðnin um gjaldþrotaskipti frá 9. nóvember var hins vegar afturkölluð 18. sama mánaðar þrátt fyrir að fjárhagsstaða félagsins hefði ekki breyst til betri vegar. Stefndu hafa ekki sýnt fram á að réttlætanlegt hafi verið að afturkalla beiðnina og að aðstæður hafi verið þannig að ekki hafi verið lengur fyrir hendi skylda til að gefa búið upp til gjaldþrotaskipta. Stefndu vanræktu þannig skyldu til að gefa bú Graníthússins ehf. upp til gjaldþrotaskipta, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 138/1994, áður en hinn umdeildi kaupsamningur var gerður 30. nóvember 2012. Með samningnum var hluta af rekstri Graníthússins ehf. ráðstafað til Best buy ehf. án þess að peningagreiðsla kæmi fyrir og stefndu losnuðu úr persónulegum ábyrgðum fyrir veðskuld við Landsbankann hf. og yfirdráttar­skuld. Því var jafnframt þannig komið fyrir að teknar voru yfir skuldir við félög í eigu stefndu, Viðhald og nýsmíði ehf. og Magna ehf. Með þessu stofnuðu stefndu með saknæmum og ólögmætum hætti hagsmunum stefnanda og eftir atvikum annarra skuldheimtumanna í hættu og brutu jafnframt gegn 51. gr. laga nr. 138/1994, en þar segir að þeir sem hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félags megi ekki gera nokkrar ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.

Samkvæmt framansögðu hafa stefndu bakað sér bótabyrgð gagnvart stefnanda samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991, 108. gr. laga nr. 138/1994 og almennu skaðabótareglunni, stefndi Guðni sem stjórnarmaður og stefndi Brynjar sem framkvæmdastjóri á þeim tíma sem hér skiptir máli. Fyrirsvarsmaður stefnanda, Heiðar, var ekki í stjórn Graníthússins ehf. eða kom að rekstri félagsins á þeim tíma sem hér skiptir máli og geta stefndu því ekki byggt sýknukröfu sína á eigin sök stefnanda. Óvissa er um hugsanlega úthlutun upp í kröfu sóknaraðila við gjaldþrotaskiptin á búi Graníthússins og verður bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda viðurkennd með þeim hætti sem greinir í dómsorði. 

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn, með hliðsjón af umfangi málsins, 1.500.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefndu, Guðna Freys Sigurðssonar og Brynjars Guðmundssonar, vegna tjóns sem stefnandi, Graníthöllin ehf., kann að hafa beðið vegna þess að Graníthúsið ehf. var ekki gefið upp til gjaldþrotaskipta og kaupsamningar 30. nóvember 2012 og 12. júní 2013 voru gerðir. 

Stefndu greiði stefnanda óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað.