Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/2005
Lykilorð
- Björgunarlaun
- Matsgerð
- Sjóveð
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 26. janúar 2006. |
|
Nr. 252/2005. |
Langanes hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) gegn Íslenskum kúfiski ehf. (Ólafur Haraldsson hrl.) |
Björgunarlaun. Matsgerð. Sjóveð. Dráttarvextir.
Skipið F, sem var í eigu og útgerð Í ehf., varð vélarvana og kom B, skip í eigu L hf., því til aðstoðar. Aðilar deildu um ákvörðun björgunarlauna. Ekki var fallist á mótmæli Í við því að matsgerð sem L aflaði eftir uppkvaðningu héraðsdóms hefði þýðingu fyrir málið. Talið var að F hafi þegar verið statt í yfirvofandi hættu þegar skelplógsbarki skipsins fór í skrúfuna og það varð vélarvana um 1,2 mílu frá landi, og að hættan hafi síðan aukist að mun, þegar stjórnborðsakkerið slitnaði frá skipinu og skipið rak enn nær landi. Var samkvæmt þessu fallist á með L að við ákvörðun björgunarlauna skyldi fara eftir ákvæðum 1. mgr. 168. gr. siglingalaga og að 2. mgr. greinarinnar kæmi ekki til álita við þá ákvörðun. Aðila greindi ekki á um að skipverjar B hafi brugðist skjótt við hjálparbeiðni F og undirbúið aðgerðir sínar vel, sem og að björgunin hafi heppnast eins og best varð á kosið. Var fjárhæð björgunarlauna ákvörðuð með hliðsjón af þessu, sem og verðmæti F. Þá var staðfestur sjóveðréttur í F til tryggingar dæmdum fjárhæðum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 72.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. nóvember 2003 til greiðsludags, allt að frádregnum 8.700.000 krónum sem greiddar voru 8. september 2004. Jafnframt krefst hann þess að staðfestur verði sjóveðréttur áfrýjanda í skipi stefnda, Fossá ÞH 362, til tryggingar dæmdum fjárhæðum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hefur verið stefnt til réttargæslu. Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur fyrir Hæstarétti.
Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi, Langanes hf., er eigandi og gerir út Björgu Jónsdóttur ÞH 321 og stefndi, Íslenskur kúfiskur ehf., á og gerir út Fossá ÞH 362.
Áfrýjandi telur sig geta höfðað mál þetta án aðildar áhafnar Bjargar Jónsdóttur ÞH 321 og vísar um það til 4. mgr. 170 gr. c. og til hliðsjónar 170. gr. f. siglingalaga nr. 34/1985, sbr 9. gr. laga nr. 133/1998. Stefndi hefur fyrir sitt leyti ekki gert athugasemdir við þetta. Er fallist á þessi sjónarmið áfrýjanda, sbr. fordæmi Hæstaréttar sem að þessu lúta.
I.
Að beiðni áfrýjanda voru 27. maí 2005 dómkvaddir í Héraðsdómi Reykjavíkur matsmennirnir Daníel Gísli Friðriksson skipatæknifræðingur og Bárður Hafsteinsson skipaverkfræðingur til að láta í té mat á eftirtöldum atriðum:
,,Hvaða sjónarmið búi að baki hönnun akkera á skipum og hvort þau séu hönnuð eða gefin út fyrir að geta virkað sem „björgunartæki“ við aðstæður eins og þær sem Fossá ÞH lenti í þann 7.10.2003.
Hvað leið langur tími frá því að fyrra akkeri var kastað þar til akkerisvírinn slitnaði?
Að matsmenn lýsi styrk og eiginleikum akkerisvíra Fossár ÞH og leggi mat á það hverjar líkur hafi verið til þess að seinni akkerisvírinn hefði brostið, m.a. hvaða áhrif 2 klst. lengri bið eftir hjálp hefði haft á líkur þess að akkerisvírinn brysti.
Að matsmenn meti og lýsi áhrifum þess ef seinni akkerisvír hefði brostið og skelplóg skipsins hefði verið kastað. Er þess óskað að matsmenn leggi mat á og lýsi líklegri þróun atvika í því tilfelli, s.s. líkur á því að skelplógurinn næði festu, líkur til þess að skipið hefði snúist og hver áhrif slíkur snúningur hefði haft á sjófærni þess eða rekkraft, hvort líklegt hafi verið að festingar í plógnum hefðu haldið við þessar aðstæður o.s.frv.
Að matsmenn leggi mat á það hvort skipið hefði getað legið fyrir skelplógnum og þá hve lengi.
Að matsmenn leggi mat á það hvort og hve lengi skipið Fossá ÞH hefði verið að reka á land miðað við að það hefði slitnað upp og rekið án þess að hafa akkeri eða skelplóginn úti, miðað við upplýsingar um áætlað sjólag og vindátt á björgunarstaðnum, á tímabilinu frá kl. 20:00 til 24:00, reiknað fyrir hverja heila klukkustund á tímabilinu, þ.e. fyrir kl. 20, 21, 22, 23 og 24.“
Matsmenn skiluðu matsgerð ásamt ýmsum fylgigögnum, sem þeir kváðust hafa nýtt við matið, 15. september 2005. Í matsgerðinni gera þeir grein fyrir aðferðum sínum, þar á meðal við að áætla styrk akkerisvíra Fossár ÞH 362 og átak sem á þá lagðist meðan þeir héldu skipinu. Notuðust þeir meðal annars við samtímaupplýsingar um staðsetningu og feril Fossár ÞH 362 á sjónum frá því skipið varð vélarvana um kl. 18.30 hinn 7. október 2003 og þar til Björg Jónsdóttir ÞH 321 tók það í tog um kl. 23 um kvöldið, upplýsingar um vindhraða og vindstefnu á næstu veðurathugunarstöð á sama tímabili, sjávardýpt á staðnum og hönnun og fyrirkomulag akkerisfestinga sem og skelplógs um borð í Fossá ÞH 362. Í lokakafla matsgerðarinnar eru niðurstöður matsmanna dregnar saman á eftirfarandi hátt:
,,Það eru mjög miklar líkur á því að BB akkerisvír skipsins hefði brostið innan nokkurra mínútna, ef skipinu hefði ekki verið bjargað á þessum tíma.
Ef skelplógurinn hefði náð botnfestu, sem ógerningur er að segja til um, þá hefði skipið getað legið fyrir honum í einhvern tíma, ef allt hefði verið lokað vatnsþétt um borð, eða þar til að tógið hafi náð að nuddast það mikið að það hefði minnkað brotþol tógsins nægjanlega til að það hefur brostið.
Hversu langan tíma þetta hefði tekið, er ekki hægt að segja til um.
Með hliðsjón af framangreindum útreikningum er það okkar mat, að m/s Fossá ÞH var í mjög alvarlegri hættu að reka upp í fjöru er umrætt atvik átti sér stað.“
Matsmenn komu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur 21. september 2005, staðfestu matsgerð sína og svöruðu spurningum málsaðila um efni hennar.
II.
Stefndi hefur mótmælt því, að fyrrgreind matsgerð hafi þýðingu fyrir málið. Fullt tilefni hafi verið fyrir áfrýjanda að afla hennar strax og varnir stefnda voru komnar fram í héraði, þar sem þá hafi legið fyrir að ágreiningur væri með aðilum um þau atriði sem metin hafi verið. Óeðlilegt sé að afla matsgerðar eftir að dómur sé kveðinn upp í héraði. Þar hafi tveir sérfróðir meðdómendur setið í dómi, sem tekið hafi afstöðu til þeirra sérfræðilegu álitaefna sem áfrýjandi óskaði mats á eftir að héraðsdómur var kveðinn upp og þeim því ekki gefist færi á að fjalla um matsgerðina og taka afstöðu til hennar. Mótmælir stefndi því að til matsgerðarinnar verði litið við úrlausn málsins.
Áfrýjandi telur á hinn bóginn, að sér hafi ekki gefist tilefni til að óska dómkvaðningar matsmanna fyrr en eftir að héraðsdómur gekk. Í forsendum hans hafi falist úrlausnir um sönnunaratriði áfrýjanda í óhag, sem hann hafi talið stefnda bera sönnunarbyrði um, það er að segja um að skip stefnda hefði getað komist af án utanaðkomandi hjálpar við þær aðstæður sem það var komið í. Þá hafi meðdómendur í héraði ekki haft sérfræðiþekkingu til að geta tekið þá afstöðu um þessi efni sem þar hafi komið fram, en þeir séu báðir menntaðir sem stýrimenn.
Í matsgerðinni er meðal annars gefið sérfræðilegt álit á atriðum sem skipta máli við mat á þeirri hættu sem Fossá ÞH 362 var statt í, þegar Björg Jónsdóttir ÞH 321 veitti henni þá aðstoð sem málið greinir, en aðila greinir á um hvort telja beri að þessi hætta hafi verið yfirvofandi í skilningi 2. mgr. 168. gr. siglingalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 133/1998. Engin lagaákvæði meina málsaðila að færa fram fyrir Hæstarétti ný sönnunargögn sem snerta málsástæður sem byggt hefur verið á í héraðsdómi. Kemur til athugunar Hæstaréttar, hvort og þá að hvaða leyti umrætt mat skiptir máli, þegar leyst er úr þessum ágreiningi málsaðila.
III.
Í málinu liggur fyrir að Fossá ÞH 362 var aðeins 1,2 sjómílu frá landi, þegar skelplógsbarkinn fór í skrúfuna og skipið varð vélarvana. Vindur var 10-15 metrar á sekúndu og stóð að landi og allmikill öldugangur. Er það mat dómsins að skipið hafi þegar verið statt í yfirvofandi hættu þegar þetta gerðist á þessum stað og við þessar aðstæður, og að hættan hafi síðan aukist að mun, þegar stjórnborðsakkerið slitnaði frá skipinu um kl. 20. Er óumdeilt að skipið hafi þá rekið um 0,4 sjómílur í átt til lands þegar bakborðsakkerið náði að stöðva rek þess, þannig að það var þá statt aðeins 0,8 sjómílur frá landi. Engin vissa liggur fyrir í málinu um að bakborðsakkerið hefði náð að halda skipinu áfram og heldur ekki að skelplógurinn hefði getað náð nægilegri festu til að halda skipinu, þó að skipverjar hafi verið búnir að festa hann við polla og verið tilbúnir að sleppa honum fyrir borð ef festingin í síðara akkerið hefði gefið sig. Samkvæmt þessu er fallist á það með áfrýjanda, að við ákvörðun björgunarlauna skuli fara eftir ákvæðum 1. mgr. 168 gr. siglingalaga og að 2. mgr. greinarinnar komi ekki til álita við þá ákvörðun.
IV.
Aðila greinir ekki á um, að skipverjar Bjargar Jónsdóttur ÞH 321 brugðust skjótt við hjálparbeiðni frá stefnda og undirbjuggu aðgerðir sínar vel meðan á siglingunni að Fossá ÞH 362 stóð. Vinnubrögð þeirra á staðnum voru markviss, tóku stuttan tíma og heppnuðust eins og best verður á kosið. Þá lögðu þeir skip sitt í nokkra hættu einkum er þeir unnu að því að koma dráttartógi milli skipanna svo skammt undan landi og við þau veðurskilyrði sem á staðnum voru. Þegar litið er til þessara atriða og einnig höfð hliðsjón af verðmæti Fossár ÞH 362, sem aðilar eru sammála um að hafi numið 290.000.000 krónum, þykja björgunarlaun áfrýjanda hæfilega ákveðin 30.000.000 krónur. Frá þeirri fjárhæð dragast 8.700.000 krónur, sem réttargæslustefndi greiddi áfrýjanda 8. september 2004.
Rétt er með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 að krafa áfrýjanda beri dráttarvexti frá því málið var höfðað 24. maí 2004 en þá var fullreynt að ekki næðist samkomulag um fjárhæð björgunarlauna.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til þess kostnaðar sem áfrýjandi hafði af öflun fyrrgreindrar matsgerðar 1.498.000 krónur.
Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga verður staðfestur sjóveðréttur í Fossá ÞH 362 til tryggingar dæmdum fjárhæðum.
Dómsorð:
Stefndi, Íslenskur kúfiskur ehf., greiði áfrýjanda, Langanesi hf., 30.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. maí 2004 til greiðsludags, allt að frádreginni 8.700.000 króna innborgun 8. september 2004.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 3.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Staðfestur er sjóveðréttur í Fossá ÞH 362 til tryggingar dæmdum fjárhæðum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2005.
I
Mál þetta var höfðað 24. maí 2004 og dómtekið 3. mars 2005. Stefnandi er Langanes hf., kt. 601076-0209, Skólagerði 6, Húsavík, en stefndi er Íslenskur kúfiskur ehf, kt. 510496-2219, Eyrarvegi 16, Þórshöfn. Réttargæslustefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru svohljóðandi: Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 72.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. nóvember 2003 til greiðsludags, allt að frádregnum 8.700.000 krónum sem greiddust inn á kröfuna 8. september 2004 og dragist frá kröfunni miðað við stöðu hennar á greiðsludegi. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað og að staðfestur verði sjóveðréttur stefnanda í skipi stefnda, Fossá ÞH-362, skipaskrárnúmer 2404, til tryggingar á dæmdum fjárhæðum.
Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst hann þess að dómkröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda og gerir réttargæslustefndi engar kröfur í málinu.
II
Málavextir eru þeir að þann 7. október 2003 var skipið Fossá ÞH-362 að veiðum á Eiðisvík í Bakkaflóa. Um kl. 18:30 er skipstjórinn var að hífa plóg upp í gálga varð það óhapp að barki, sem notaður er til að sprauta sjó ofan í plóginn, fór undir skipið og flækist í skrúfunni. Drapst við það á vél skipsins og ekki reyndist mögulegt að endurræsa hana. Var stjórnborðsakkeri þá látið falla. Skipið var þá statt um 1,2 sjómílur frá landi.
Kemur fram hjá stefnda að skipstjóri Fossár hafi haft samband við Geir ÞH og beðið um aðstoð. Hann hafi síðan haft samband við útgerðina og tilkynnt um stöðuna. Útgerðin hafði svo samband við Sjóbjörgunarmiðstöðina til að kanna hvort önnur skip væru styttra frá.
Kemur fram hjá stefnanda að útgerðin hafi ennfremur haft samband við Jón Axelsson skipstjóra á Júpiter ÞH, sem var við bryggju í Þórshöfn og áhöfnin í fríi. Hafi nefndur Jón haft samband við skipstjóra Bjargar Jónsdóttur ÞH um kl. 19:35 og óskað eftir því að hann héldi til bjargar Fossánni. Björg Jónsdóttir var þá stödd um 35 sjómílur frá Eiðisvík út af Langanesi á leiðinni á síldarmiðin við Glettingsnes og snéri skipstjóri skipinu þegar við og hélt til bjargar Fossá, en stuttu síðar kl. 19:38 kom ósk til skipstjóra Bjargar Jónsdóttur frá Sjóbjörgunarmiðstöðinni um hjálp.
Stjórnborðsakkeri Fossár slitnaði um kl. 20:00 og var bakborðsakkeri látið falla um 10 mínútum síðar. Var skipið þá statt um 1,0 sjómílu frá landi og vindur SA 10-15 m/s. Í framhaldinu fól skipstjórinn áhöfninni að skera barkann lausan frá plógnum. Átti að slaka plógnum í sjó til að halda skipinu ef bakborðsakkerið slitnaði. Á það reyndi hins vegar ekki þar sem akkerið hélt.
Björg Jónsdóttir kom á vettvang um kl. 22:30. Vindur hafði þá snúist í N 10-15 m/s. Er óumdeilt að björgunaraðgerðir höfðu verið vel undirbúnar um borð í Björgu Jónsdóttur. Til að koma Fossá í tog köstuðu björgunarmenn línu á milli skipanna en skipstjóri Bjargar Jónsdóttur sigldi skipinu í hring um Fossá og hélt afturenda skipsins í línu við framenda Fossár. Tókst í fyrstu tilraun að koma línu milli skipanna og var Fossá komin í tog um kl. 23:00. Var ákveðið að fara til hafnar á Seyðisfirði og var þangað komið kl. 11:30 næsta dag þann 8. október.
Að beiðni stefnda voru haldin sjópróf 15. október 2003 í Héraðsdómi Austur-lands.
Ekki hefur tekist samkomulag með aðilum um greiðslu björgunarlauna en réttargæslustefndi hefur greitt stefnanda björgunarlaun að fjárhæð 8.700.000 krónur en stefnandi telur þá greiðslu ekki fullnægjandi.
III
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að samkvæmt 167. gr. og 168. gr. siglingalaga nr. 34/1985, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 133/1998, beri stefnanda björgunarlaun úr hendi stefnda vegna björgunar á skipi stefnda, Fossá ÞH-362, skipaskrárnúmer. 2404, þann 7. október 2003.
Kveðst stefnandi byggja á því að skip stefnda hafi verið statt í yfirvofandi hættu samkvæmt ákvæðum VIII. kafla siglingalaga nr. 34/1985 um björgun. Með lögum nr. 133/1998 um breytingu á VIII. kafla siglingalaga nr. 34/1985 hafi ákvæðum siglingalaga verið breytt nokkuð, meðal annars til samræmis við alþjóðasamning um björgun sem samþykktur hafi verið í London 1989. Hafi með lagabreytingunni verið lögð aukin áhersla á að björgunarlaun skuli ákveðin þannig að þau hvetji til björgunar, sbr. nýmæli í 1. mgr. 168. gr. siglingalaga.
Björgunarlaun taki mið af verðmæti þess sem bjargað sé og greiðist aðeins ef árangur verði af björgun, þ.e. byggja á svokallaðri “no-cure, no-pay” reglu. Í reglunni felist að ef björgun takist skuli björgunarmanni launað fyrir björgunina með fjárhæð sem svari til hlutfalls af verðmæti þess bjargaða. Björgunarlaun séu háð mati hverju sinni og skuli ákveðinn frá 0-100% af verðmæti þess sem bjargað sé, sbr. 1. mgr. 167. gr. Við mat á björgunarlaunum skuli byggt á þeim sjónarmiðum sem upp séu talin í a-j liðum 1. mgr. 168. gr. siglingalaga, en stefnandi telur eftirfarandi eiga við um þau sjónarmið sem þar séu nefnd:
a) Verðmæti þess sem bjargað var:
Fossá ÞH sé nýtt skip sem smíðað hafi verið fyrir stefnda í Kína árið 2000 og sérútbúið til skelveiða. Skipið hafi verið skráð í skipaskrá 19. desember 2000 og hafi því verið innan við 3ja ára, er stefnandi bjargaði því. Við mat á verðmæti skipsins verði því að telja rétt að miða við byggingarverð þess. Verðlagning skipsins og búnaðar þess af Fjárhæðanefnd fiskiskipa eigi að gefa rétta mynd af kostnaði útgerðarinnar við byggingu skipsins og kaupum á búnaði um borð, en frumverð þessa búnaðar sé 306.114.000 krónur og afskrifað verð sé 289.360.000 krónur. Verðmæti afla, 28 tonn, og annars búnaðar eða verðmæta um borð, s.s. olía, rekstrarvörur og aðrar birgðir um borð, eigur skipverja o.fl., séu ekki talin með í verðlagningu fjárhæðanefndar. Þrátt fyrir það hafi stefnandi talið hóflegt að miða verðmæti þess bjargaða við 290.000.000 krónur í kröfum sínum á hendur réttargæslustefnda og hafi réttargæslustefndi fallist á það mat.
b) Verklagni og atorku sem björgunarmenn beittu við björgun skips, annars lausafjár og mannslífa:
Stefnandi byggi á því að verðlauna verði sérstaklega verklagni og atorku björgunarmanna og eigi þessir þættir að hafa áhrif til hækkunar á björgunar-launum. Áhöfn Bjargar Jónsdóttur hafi undirbúið björgunina af kostgæfni á meðan skipið hafi verið á leið á björgunarstað og farið yfir það hvernig staðið skyldi að björgun með áhöfn Fossár. Hafi áhöfn Bjargar Jónsdóttur skipulagt og lagt til nauðsynlegt efni og þekkingu til þess að hægt væri að taka Fossá ÞH í tog. Þá hafi áhöfnin unnið mjög skipulega og nákvæmlega saman, sem hafi tryggt að björgunin gengi hratt og vel fyrir sig og hafi Fossá verið komið í tog 30 mínútum eftir að Björg Jónsdóttir kom að skipinu.
c) Verklagni og atorka björgunarmanna við að koma í veg fyrir eða draga úr umhverfistjóni:
Þetta ákvæði kveður stefnandi ekki eiga við með beinum hætti. Ekki hafi verið hætta á umhverfistjóni nema ef komið hefði til þess að skipið hefði strandað, en þá hefði verið hætta á umhverfistjóni vegna þeirrar olíu sem í skipinu var og af flaki skipsins.
d) Að hve miklu leyti björgunin tókst:
Björgunin hafi tekist 100% og án þess að nokkuð tjón yrði á skipi stefnda eða búnaði þess og hafi skipið ekki verið frá veiðum vegna þessa atviks. Fyrir slíka björgun beri að verðlauna sérstaklega og aukalega.
e) Eðli og umfang hættunnar:
Stefnandi telur að eðli og umfang þeirrar hættu, sem að skipi stefnda hafi stafað við þær aðstæður sem voru vegna veðurhæðar og vindstefnu, hafi verið mikið. Í því sambandi sé nægilegt að vísa til þess að vegna veðurs og sjógangs hafði annað akkeri Fossár slitnað frá því og við það hafi skipið rekið nær landi á hraða sem svari til 1 sm/klst. Skipið hafi þá verið statt um 1,2 sjómílur frá landi. Rek þess hafi ekki stöðvast fyrr en tæplega 0,8 sjómílur frá strönd Eiðisvíkur, er seinna akkeri skipsins hafi náð festu. Hafi veður haldið áfram að vera válynd eftir að seinna akkerið hafi náð festu og samkvæmt veðurspá hafi vindátt átt að snúast er liði á kvöldið og vind að herða enn frekar. Það hafi einnig orðið raunin og hafi veðurhæðin náð hámarki á milli kl. 23 og 24 eða skömmu eftir að áhöfn Bjargar Jónsdóttur hafi bjargað skipinu og hafði þá snúist úr 108° í 39° og síðan snúist í 300° seinna um nóttina, sbr. yfirlit úr veðurmælingum á Fonti. Þessar áttir vísi allar að landi, en óvíst sé hvaða áhrif snúningur úr 108° í 300° hefði haft á festu akkeris eða hvort vírinn sem hélt seinna akkerinu hefði þolað aukið álag með vaxandi veðurhæð og breyttu átaki. Hvort seinna akkeri skipsins hefði haldið sé ekki gott að vita en víst sé, með vísan til þess að það hafi verið eins útbúið og það fyrra, að líkur hafi verið til þess að það hefði einnig gefið sig, enda mikið álag á því. Í þessu sambandi sé nauðsynlegt að hafa í huga að akkeri séu ekki björgunartæki eða hönnuð til að halda skipum í vondum veðrum.
Þá telur stefnandi ekki hægt að byggja á því að skelplógurinn hefði haldið skipinu ef seinna akkerið hefði slitnað frá því, annars vegar þar sem það sé ekki útbúið til þess en einnig þar sem hann sé aðeins 9 tonn en skipið sjálft 444 brúttótonn. Af framlögðum kortum úr siglingartækjum Fossár megi sjá að skipið hafi verið nálægt landi og ljóst að eftir því sem það færðist nær landi hefði sjógangur aukist vegna áhrifa grynningar, sem hefði gert möguleika akkeris eða plógsins til að halda skipinu litla, enda mætti hvoru tveggja sín lítils við slíkar aðstæður. Telur stefnandi að björgun skipsins hefði ekki þolað frekari bið og að hver klukkustund hafi skipt miklu máli, meðal annars vegna brothættu á seinni akkerisvírnum.
f) Hve langan tíma björgunaraðgerðir tóku ásamt útgjöldum og tjóni því sem björgunarmenn urðu fyrir:
Beinn kostnaður stefnanda af björgun sé annars vegar vegna reksturs skipsins, olía o.fl. og hins vegar slit á togvírum vegna dráttar á skipinu. Ekki sé um það að ræða að áhöfn séu greidd laun fyrir vinnu við björgun en áhöfnin fái hlutdeild í björgunarlaunum samkvæmt 170. gr. c siglingalaga. Björgunin hafi hafist kl: 19:30 þann 7. október 2003 er skip stefnanda hafi verið á leið á síldarmiðin við Glettingsnes, en lokið daginn eftir kl. 11:30 er björgunarmenn höfðu lagt skipi stefnda að bryggju í Seyðisfjarðarhöfn. Skip stefnanda hafi ekki verið komið á síldarmiðin fyrr en eftir kl. 17:00 þann 8. október 2003. Skip stefnanda og áhöfn þess hafi misst af síldveiðum aðfararnótt 8. október. Stefnandi hafi ekki reynt að áætla sérstaklega olíunotkun eða annan beinan kostnað af rekstri skipsins við björgunina en vísi til útreiknings LÍU og Sambands íslenskra tryggingafélaga um þóknun og kostnað við drátt á skipum sem ekki séu í hættu. Telji stefnandi að liðir 2 og 3 í samkomulaginu, þ.e. tonnagjaldið og tímagjaldið endurspegli kostnað af keyrslu skips og drætti á öðru skipi. Í þessu tilfelli væri tonnagjald 1.817 krónur * 249,3 brl.= 452.978 krónur og tímagjaldið 36.339 krónur í lausakeyrslu og 54.509 krónur með skip í drætti fyrir hverja klst. (tölur miðist við verðlag í október 2003). Ef miðað sé við að skipið hafi verið frá 19:30 til 16:30 í keyrslu vegna björgunar-innar, (seinna tímamarkið miði við að þá hafi skipið verið á svipuðum slóðum á leið á miðin og er því var snúið við), þar af með Fossá í drætti frá 22:30 til 11:30, sé eru þóknun vegna þessa þáttar 999.329 krónur (8*36.339+13*54.509), samtals megi því ætla að útlagður kostnaður stefnanda af björguninni hafi numið um 1.452.307 krónur með sliti á togvírum.
g) Hve skjótt hjálpin var veitt.
Skipstjóri Bjargar Jónsdóttur ÞH hafi umsvifalaust orðið við beiðni um hjálp og snúið skipinu til aðstoðar og hafi keyrt það af fullu afli til að komast sem allra fyrst til hjálpar. Skip stefnanda hafi verið um 35 sjómílur frá Fossá er það hafi snúið til hjálpar en ekkert annað skip hafi verið innan við 50 sjómílna frá Fossá er það hafi þurft á björgun að halda, eftir því sem skipstjóra Bjargar Jónsdóttur hafi verið sagt er til hans var leitað um björgun. Það sé því ljóst að annað skip hefði orðið um 2 klst seinna á ferðinni til bjargar. Óvíst sé að seinna akkeri Fossár hefði haldið þann tíma. Beri að meta fyrrgreint til hækkunar á björgunarlaunum.
h) Áhættu björgunarmanna að vera skaðabótaskyldir gagnvart þriðja manni og annarrar hættu sem björgunarmönnum eða eignum þeirra var stofnað í.
Varðandi þetta atriði kveðst stefnandi byggja á því að áhætta björgunarmanna á því að vera skaðabótaskyldir gagnvart þriðja aðila hafi ekki verið fyrir hendi, en að björgunarmönnum og skipi stefnanda hafi verið hætta búin við björgunina. Hafi hættan falist í því annars vegar að halda skipinu mjög nærri Fossánni meðan verið var að kasta línu á milli, en hætta hafi verið á því að skipin rækjust saman. Hins vegar hafi verið hætta fólgin í því að slaka togvír aftur með skipi stefnanda á meðan skrúfa skipsins hafi verið keyrð sem og hætta á því að skrúfa skipsins færi í akkerisfestar Fossár þar sem þær hafi legið fram undan skipinu og við hlið skips stefnanda. Í þessu sambandi þurfi að hafa í huga aðstæður við björgunina, þ.e. veðurhæð, sjógang og svarta myrkur. Hafi aðilar ekki haft aðra lýsingu en ljós-kastara skipanna og því hafi sjónsvið verið þröngt og erfitt að fylgjast með togvírunum í sjó.
Ákvæði i og j liða 1. mgr. 168. gr. varði aðeins tilvik þar sem björgun sé framkvæmd af aðila sem hafi björgun að atvinnu og því eigi þau ákvæði ekki við í tilfelli stefnanda. Þegar allt ofangreint sé haft í huga ásamt eðli björgunarlauna séu sanngjörn og eðlileg björgunarlaun til handa stefnanda og áhöfn skipsins 25% af verðmæti þess bjargaða eða 72.500.000 krónur.
Í þessu sambandi bendir stefnandi enn fremur á að ef til þess hefði komið að skip stefnda hefði strandað í Eiðisvík þá hefði líklegt tjón ekki aðeins numið verðmæti þess, heldur hefði einnig orðið að stofna til mikils kostnaðar við að fjarlægja brakið og koma í veg fyrir umhverfistjón sem olía og önnur efni um borð hefðu geta valdið.
Varðandi aðild málsins þá byggir stefnandi á því að samkvæmt. 4. mgr. 170. gr. c. siglingalaga, sbr. 9. gr. laga nr. 133/1998, fari útgerðarmaður með fyrirsvar við innheimtu á björgunarlaunum, móttaki þau og beri ábyrgð á skiptingu þeirra milli áhafnar, sbr. einnig 170. gr. f. siglingalaga.
Samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 beri krafa stefnanda um björgunarlaun dráttarvexti mánuði frá dagsetningu kröfubréfs 25. október 2003.
Málskostnaðarkröfu sína styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Stefndi kveður að óumdeilt sé að stefnandi eigi rétt á björgunarlaunum frá stefnda vegna veittrar aðstoðar við Fossá í umrætt sinn, sbr. 167. og 168. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Stefndi telur hins vegar að með greiðslu sinni á 8.700.000 krónum til stefnanda, hafi björgunarlaun verið greidd að fullu og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Þá kveðst stefndi að mestu leyti vera sammála stefnanda um hvaða sjónarmið beri að leggja til grundvallar mati á björgunarlaunum, sbr. 168. gr. siglingalaga. Eftirfarandi athugasemdir séu þó gerðar:
Stefndi kveðst vera ósammála því að líta beri til a-liðar 1. mgr. 168. gr. siglingalaga við mat á björgunarlaunum, sbr. 2. mgr. 168. gr. siglingalaga, þar sem ekki hafi verið hætta á að skipið ræki á land eða hlekktist á innan þess tíma sem auðvelt hafi verið að fá hjálp. Því til stuðnings skuli bent á að bakborðsakkeri hafi enn haldið þegar björgunin fór fram. Þá hafi áhöfnin verið viðbúin að slaka plógnum í sjó ef akkerið gæfi sig. Telur stefndi að plógurinn hefði haldið skipinu, sbr. til dæmis framburði skipstjóra og stýrimanns Fossár við sjópróf. Þá liggi fyrir að vindáttin hafði breyst og hefði skipið því rekið frá landi en ekki að landi jafnvel þótt akkerið hefði slitnað og plógurinn ekki haldið skipinu. Þá liggi enn fremur fyrir að skipstjóri Fossár hafi ekki talið skipið vera í verulegri hættu og hafi sjálfur ekki sett neinar björgunaraðgerðir í gang. Þá hafi auðveldlega verið hægt að fá aðstoð frá Geir ÞH sem hafi verið í rúmlega 3 klst. fjarlægð.
Telji dómurinn að líta beri til a-liðar 1. mgr. 168. gr. siglingalaga við mat á björgunarlaunum, sé óumdeilt að verðmæti hins bjargaða hafi verið 290.000.000 krónur.
Stefndi kveðst vera ósammála stefnanda um að eðli og umfang þeirrar hættu, sem að skipi stefnda hafi stafað, hafi verið mikil, sbr. það sem að framan er rakið.
Stefndi kveður óumdeilt að Björg Jónsdóttir hafi brugðist fljótt við beiðni um hjálp og hafi verið komin til Fossár um þremur tímum síðar. Hins vegar sé því mótmælt að annað skip hefði orðið um 2 klst. seinna á ferðinni til aðstoðar. Því til stuðnings vísist til framburðar skipstjóra Fossár þar sem fram komi að það hefði tekið Geir ÞH rúma 3 tíma að koma Fossá til aðstoðar.
Stefndi kveðst byggja á því að björgunarmenn hafi ekki þurft að leggja sig í teljandi hættu við björgunina. Því til stuðnings vísist meðal annars til þess að í fyrstu tilraun hafi tekist að koma línu yfir, en bilið á milli skipanna hafi þá verið 30 metrar. Mögulegt hafi verið að hafa bilið svo mikið vegna hæðarmunar á skipunum og hagstæðrar vindáttar á björgunarstað. Ekki hafi Björg Jónsdóttir því þurft að hætta sér mjög nærri Fossá til að koma línu yfir.
Stefndi kveðst vera sammála stefnanda um að c-, i- og j-liður 1. mgr. 168. gr. siglingalaga eigi ekki við í málinu. Þá sé óumdeilt að björgunin hafi tekist í alla staði vel vegna góðs samstarfs áhafna Fossár og Bjargar Jónsdóttur auk verklagni og atorku björgunarmanna við björgunina. Loks sé ekki deilt um hversu langan tíma björgunar-aðgerðir hafi tekið eða hver útlagður kostnaður stefnanda af björguninni hafi verið.
Varðandi mat á vægi hvers liðar 1. mgr. 168. gr. siglingalaga tekur stefndi fram að uppröðun málsgreinarinnar feli ekki í sér neina forgangsröðun. Þannig eigi a-liðurinn ekki að vega þyngra en aðrir liðir við ákvörðun björgunarlauna. Raunar eigi a-liðurinn að vega minna við ákvörðun björgunarlauna í því máli sem hér sé til úrlausnar þar sem lítil hætta hafi verið samfara björguninni.
Stefndi byggi á því að hvatinn til björgunar, sbr. vísireglu 1. málsl. 1. mgr. 168. gr. siglingalaga, ráðist aðallega af því hvort björgun sé talin borga sig, þ.e. hvort björgunarlaunin séu nógu há miðað við þá hættu, tíma og fyrirhöfn sem björgun krefjist, auk útgjalda og tjóns sem björgunarmenn kunni að verða fyrir. Ekki verði séð að við það mat skipti sérstöku máli hvert er verðmæti þess skips sem bjarga skuli. Hafi stefnandi raunar tekið undir þetta í bréfi sínu til réttargæslustefnda 25. október 2003 þar sem hann bendi á að dregið hafi úr mun á ákvörðun björgunarlauna eftir því hvort skip sé í yfirvofandi hættu eða ekki. Að lokum sé til hliðsjónar bent á 3. mgr. 165. gr. siglingalaga i.f. þar sem fram komi að samningi um upphæð björgunarlauna megi víkja til hliðar eða breyta ef krafan sé ekki í eðlilegu samræmi við umfang vinnu að björgun.
Með vísan til ofangreinds, telji stefndi að hlutfall björgunarlauna af verðmæti hins bjargaða hljóti og eigi almennt að fara lækkandi eftir því sem verðmætið sé meira. Óumdeilt sé að verðmæti hins bjargaða í máli þessu hafi verið 290.000.000 krónur. Greiðsla stefnda á björgunarlaunum til stefnanda hafi numið 8.700.000 krónum eða 3% af verðmæti hins bjargaða. Sé það hlutfall í fullu samræmi við það sem tíðkast hafi við ákvörðun björgunarlauna á grundvelli 1. mgr. 168. gr. siglingalaga með vísan til venju og dómafordæma.
Mótmælir stefndi því harðlega að sanngjarnt og eðlilegt sé að miða björgunarlaun við 25% af verðmæti þess bjargaða, eins og stefnandi geri enda sé sú viðmiðun fjarri því sem almennt tíðkist við ákvörðun björgunarlauna. Hafi stefnandi ekki með nokkru móti sýnt fram að aðstæður í þessu máli séu svo sérstakar að þær réttlæti verulegt frávik frá venjubundinni framkvæmd.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu sé þess krafist að kröfur stefnanda um björgunarlaun verði lækkaðar verulega. Kveðst stefndi byggja á því að krafa stefnanda um björgunarlaun sé alltof há og ekki í samræmi við það sem almennt tíðkist. Um þetta vísist til þeirra röksemda sem að framan séu raktar til stuðnings aðalkröfu, eftir því sem við geti átt. Þá mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta. Um lagarök vísar stefndi einkum til siglingalaga nr. 34/1985 og um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Eins og rakið hefur verið er ekki deilt um það í máli þessu að stefnandi eigi rétt á björgunarlaunum frá stefnda vegna veittrar aðstoðar við björgun Fossár ÞH, sbr. 167. og 168. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Ágreiningur lýtur að fjárhæð launanna og er stefndi ósammála því að við mat á fjárhæð björgunarlauna beri að líta til a-liðar 1. mgr. 168. gr. siglingalaga.
Í 1. mgr. 167. gr. siglingalaga segir að björgunarmaður eigi rétt til björgunarlauna beri björgunaraðgerðir árangur. Þá segir að, að frátöldum vaxta- og málskostnaði megi ekki ákvarða björgunarlaun hærri en sem nemi verðmæti þess sem bjargað var. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að björgunarlaun skuli ákvarða með það í huga að hvetja til björgunar. Síðan eru talin upp í stafliðum a-j hvers skuli gætt við ákvörðunina:
a. verðmætis sem bjargað er,
b. verklagni þeirrar og atorku sem björgunarmenn beittu við björgun skips, annars lausafjár og mannslífa,
c. verklagni og atorku björgunarmanna við að koma í veg fyrir eða draga úr umhverfistjóni,
d. að hve miklu leyti björgunin tókst,
e. eðlis og umfangs hættunnar,
f. hve langan tíma björgunaraðgerðir tóku ásamt útgjöldum og tjóni því sem björgunarmenn urðu fyrir,
g. hve skjótt hjálpin var veitt,
h. áhættu björgunarmanna að verða skaðabótaskyldir gagnvart þriðja manni og annarrar hættu sem björgunarmönnum eða eigum þeirra var stofnað í,
i. að björgunarskip eða annar búnaður var notaður eða var til reiðu við framkvæmd björgunarinnar,
j. umfangs björgunarviðbúnaðar, afkastagetu og verðmætis búnaðar björgunarmanna.
Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að ef skip það sem bjargað var hafi ekki verið statt í yfirvofandi hættu en þó ekki getað komist til hafnar fyrir eigin vélarafli skuli þá atriða b-j liða einkum gætt við ákvörðun björgunarlauna.
Stefnandi byggir á því að líta skuli til a-liðar 1. mgr. 168. gr. siglingalaga við mat á björgunarlaunum og telur eðlilegt að miða við að björgunarlaun séu 25% af verðmæti skipsins. Ekki er deilt um verðmæti þess sem bjargað var en eins og rakið hefur verið telur stefndi að ekki sé fullnægt skilyrðum framangreinds ákvæðis í 2. mgr. 168. gr. um að skipið hafi verið statt í yfirvofandi hættu og því eigi ekki við mat á björgunarlaunum að horfa til verðmætis þess sem bjargað var sbr. fyrrgreindan a-lið ákvæðisins.
Samkvæmt gögnum málsins létu skipverjar stjórnborðsakkeri falla strax og ljóst var að ekki væri hægt að beita skrúfu skipsins. Akkerið hélt í um það bil eina og hálfa klukkustund þótt vír hafi verið ákaflega stuttur, eða um 20-30 faðmar samkvæmt „plotter” útskrift á dómskjali 16. Eftir að akkerisvír hafði brostið var bakborðsakkerið látið falla. Þá var slakað út mun lengri vír, sennilega allt að 50 föðmum samkvæmt fyrrgreindu dómskjali nr. 16. Það akkeri hélt allan tímann eða þar til skipið hafði verið tekið í tog af Björgu Jónsdóttur ÞH.
Til öryggis höfðu skipverjar gert kláran skelplóg til að leggjast fyrir, ef bakborðs-akkerið héldi ekki. Plógurinn var um 9 tonn að þyngd, sem er margföld þyngd akkerisins. Ekki kom til þess að nota þyrfti plóginn en telja má fullvíst miðað við aðstæður að skipið hefði getað legið fyrir plógnum ef akkerisvír hefði brostið.
Eins og fram kemur í endurriti vegna sjóprófs sem fram fór 15. október 2003 í Héraðsdómi Austurlands og á yfirliti frá Veðurstofu Íslands frá veðurstöðinni Fonti breyttist vindátt meðan skipið lá fyrir akkeri, úr SA-lægri átt, í N-læga átt, þannig að minnkandi líkur voru á að skipið ræki upp, ef akkeri og skelplógur hefðu ekki haldið. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það mat dómsins að skipið hafi ekki verið í yfirvofandi hættu umrætt sinn og verður því við ákvörðun björgunarlauna að líta til annarra liða en a-liðar 1. mgr. 168. gr. siglingalaga sbr. 2. mgr. ákvæðisins.
Aðilar eru sammála um að c-, i- og j-liðir 1. mgr. 168. gr. siglingalaga eigi ekki við í málinu. Er enn fremur óumdeilt að björgunin hafi í alla staði tekist vel vegna góðs samstarfs áhafna beggja skipanna auk verklagni og atorku björgunarmanna við björgunina. Þá er ekki deilt um hversu langan tíma björgunaraðgerðir tóku eða hver útlagður kostnaður stefnanda var af björguninni.
Þá er það mat dómsins að skipstjóri Bjargar Jónsdóttur hafi ekki lagt skip og skipshöfn í hættu við að koma vír yfir í Fossá, þótt hann hafi farið inn fyrir skipið. Fossá var að vísu aðeins um 0,8 sjómílur frá landi, en á um 20 metra dýpi. Skipstjóri Bjargar Jónsdóttur gerði aðeins það sem telja má góða sjómennsku.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykja björgunarlaun þau, að fjárhæð 8.700.000 krónur, sem stefnandi hefur þegar fengið greidd, vera hæfileg og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Bjarni Björnsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Ólafur Haraldsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Pálma Hlöðverssyni og Vilbergi Magna Óskarssyni stýrimönnum.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Íslenskur kúfiskur ehf. er sýknaður af öllum kröfum stefnanda Langanesi hf.
Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.