Hæstiréttur íslands
Mál nr. 475/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 22. október 2002. |
|
Nr. 475/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Sigurður Kári Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.
X hóf afplánun refsidóms eftir að hann kærði úrskurð héraðsdóms um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi til Hæstaréttar. X hafði því ekki lengur réttarhagsmuni af því að fá leyst úr kæru sinni. Var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. nóvember nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili gerir engar kröfur fyrir Hæstarétti.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2002 var varnaraðila gert að sæta fangelsi í sex ár. Tók hann sér lögboðinn frest til að ákveða hvort hann áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar. Með úrskurði héraðsdóms sama dag var varnaraðila gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til hann hefði tekið ákvörðun um áfrýjun dómsins, en þó ekki lengur en þar til áfrýjunarfrestur yrði liðinn 16. október 2002. Þann dag krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi. Þegar héraðsdómari tók þá kröfu fyrir lýsti varnaraðili því yfir að hann hygðist áfrýja áðurnefndum dómi til Hæstaréttar. Á þessum grundvelli kvað héraðsdómari upp hinn kærða úrskurð.
Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt bréf ríkissaksóknara 17. október 2002, þar sem kemur fram að tilkynning varnaraðila um áfrýjun héraðsdómsins hafi borist embættinu sama dag, en áfrýjunarfrestur runnið út deginum áður. Hafi dómurinn verið áritaður um að honum yrði ekki að því er varnaraðila varðaði áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu ákæruvalds og hann sendur Fangelsismálastofnun ríkisins til fullnustu. Þá liggur fyrir að varnaraðili hefur hafið afplánun samkvæmt dóminum. Samkvæmt þessu hefur varnaraðili ekki lengur réttarhagsmuni af því að fá leyst úr kæru sinni. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur gert kröfu um að X verði úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 29. janúar nk. kl. 16.00
Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt.
Í greinargerð fulltrúi lögreglustjóra segir að 18. september sl. hafi X verið dæmdur í 6 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir auðgunarbrot, skalafals og fleira. Hafi hann tekið sér frest til að kveða á um áfrýjun dómsins. Sama daga hafi hann verið úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til hann tæki ákvörðun um áfrýjun dómsins en þó eigi lengur en til dagsins í dag, sbr. 106. gr. nefndra laga en í dag hafi hann óskað eftir áfrýjun málsins til Hæstaréttar. Hann hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 23. apríl sl. á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. nefndra laga. Á gæsluvarðhaldstímanum hafi verið 6 sinnum úrskurðað um gæsluvarðhald dómfellda og hafi hann alltaf kært úrskurði Héraðsdóms til Hæstaréttar. Sé að öðru leiti vísað til forsendna þessa embættis fyrir kröfugerð í dómi 18. september sl. og forsendna úrskurðar héraðsdómsins, sem kveðinn hafi verið upp sama dag og staðfestur með dómi Hæstaréttar 23. sama mánaðar.
Dómþoli fékk reynslulausn hinn 29. júní 2001 er hann átti óafplánaða 2040 daga af 17 ára dómi. Hann mun enga sem litla launaða vinnu hafa stundað eftir að hann fékk reynslulausn og fór að eigin sögn að “detta í það” í nóvember. Á þeim tíma sem afbrotin voru framin var hann í neyslu áfengis og fíkniefna og kveðst sjálfur hafa verið illa áttaður. Með dómi þeim sem kveðinn var upp 18. fyrra mánaðar er reynslulausnin tekin upp og óafplánuð refsing og refsing fyrir þau brot, sem sakfellt er fyrir, dæmd í einu lagi. Var hann sakfelldur fyrir fjölmörg brot sem varða veruleg verðmæti, en meðal þeirra eru allmörg auðgunarbrot. Dómþoli hefur lengi átt við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða og hefur hann játað að flest brotin hafi verið framin til að fjármagna fíkniefnakaup. Lýsti hann eindregnum ásetningi sínum í dóminum til að takast á við fíkniefnavanda sinn og láta af afbrotum. Einnig liggur fyrir að meðferðarstofnunin Byrgið hefur samþykkt að taka á móti dómþola í meðferð.
Þessi sömu rök hafa áður komið til úrlausnar dómsins og Hæstaréttar. Hefur ekki þótt tryggt með vísan til ferils dómþola og málsgagna að hann muni láta af neyslu og afbrotum verði hann látinn laus á meðan málum hans er ekki lokið, þrátt fyrir góðan ásetning hans þar um. Dómþoli hefur lýst því yfir að hann hafi áfrýjað til Hæstaréttar. Þykja því eiga við sömu rök og áður fyrir því að dómþoli sæti áfram gæsluvarðhaldi. Af þessum ástæðum er fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald dómþola samkvæmt c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 106. gr. sömu laga, sé fullnægt. Er krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómþoli, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. nóvember nk. kl. 16.00