Hæstiréttur íslands

Mál nr. 424/2016

Svanhildur Guðlaugsdóttir (Ragnar Aðalsteinsson hrl., Sigurður Örn Hilmarsson hdl. 4. prófmál)
gegn
Landsbankanum hf. (Stefán Geir Þórisson hrl., Halldór Reynir Halldórsson hdl. 4.prófmál)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Verðbréfaviðskipti
  • Stofnfé
  • Ógilding samnings
  • Málsgrundvöllur

Reifun

S höfðaði mál gegn L hf. til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir þegar stofnfé, sem hún keypti í Sparisjóði Vestmannaeyja árið 2007 en var breytt í hlut í L hf. árið 2015, reyndist verðminna en hún hefði mátt gera ráð fyrir. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þær hömlur sem hefðu verið á viðskiptum með stofnfjárhluti í sparisjóðnum samkvæmt samþykktum hans leiddu til þess að umrædd kaup hefðu ekki verið viðskipti með fjármálagerning, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, og ekki fallið undir gildissvið laganna eins og því væri lýst í 1. gr. þeirra. Sparisjóðurinn hefði starfað á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og hefðu ákvæði þeirra meðal annars gilt um skyldur hans, sbr. einkum 19. gr., en af henni leiddi að sjóðnum hefði borið við kynningu á stofnfjáraukningunni og sölu stofnfjárins að fara að í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Með hliðsjón af tilkynningum Sparisjóðs Vestmannaeyja til S í aðdraganda kaupanna og atvikum málsins að öðru leyti var talið að S hefði ekki fært sönnur að því að tjón hennar yrði rakið til þess að stofnfjárhluturinn hefði við kaupin ekki svarað til þeirra kosta sem hún hefði mátt gera ráð fyrir, sbr. 21. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, eða að önnur atvik sem L hf. bæri ábyrgð á hefðu orsakað tjón hennar. Var L hf. því sýknað af kröfum S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júní 2016. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 4.479.340 krónur, en til vara 3.820.952 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júní 2015 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi kveðst hafa verið eigandi stofnfjár í Sparisjóði Vestmannaeyja frá árinu 1991, en þá mun hafa verið fjölgað í hópi stofnfjáreigenda. Hún hafi þá, og þegar atvik málsins gerðust, haft litla reynslu af fjárfestingum, verðbréfa- og lánsviðskiptum. Í skýrslu fyrir dómi upplýsti áfrýjandi að hún ræki eldsneytis- og matsölu í Vestmannaeyjum og væri umboðsmaður fyrir fyrirtækið N1 hf.

Sparisjóður Vestmannaeyja sendi stofnfjáreigendum í sjóðnum bréf 26. júlí 2007. Í upphafi þess sagði að stjórn sparisjóðsins hefði spurnir af því að haft hafi verið samband við einhverja stofnfjáreigendur í honum í því skyni að falast eftir stofnfé þeirra. Jafnframt sagði að stjórnin hefði um nokkurt skeið unnið að stefnumótun varðandi ,,framtíðarsýn“ sjóðsins. Meðal hugmynda væri að auka verulega stofnfé sparisjóðsins og myndu þáverandi stofnfjáreigendur hafa forkaupsrétt að aukningunni. Þá sagði: ,,Stjórnin hefur ákveðið að halda fund stofnfjáreigenda í Sparisjóðnum í haust eins og s.l. ár og kynna þar m.a. árshlutauppgjör og þá stefnumótunarvinnu sem nú er unnið að.“ Annað bréf var sent stofnfjáreigendum 25. september sama ár þar sem fram kom að stjórn sjóðsins væri samdóma um að styrkja þyrfti hann sem allra fyrst til þess að hann yrði betur í stakk búinn til að takast á við þær breytingar sem framundan væru. Þá sagði í bréfinu að til að efla og styrkja sparisjóðinn í harðnandi samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði hefði stjórnin ,,samþykkt að leggja til við fund stofnfjáreigenda sem boðaður hefur verið þriðjudaginn 9. október nk. að heimild verði veitt til þess að auka stofnfé“ um allt að 1.000.000.000 krónur.  Tekið var fram að ef tillagan yrði samþykkt hygðist stjórnin nýta hluta þeirrar heimildar ,,allt að 350 milljónir króna fyrir næstu áramót.“

Á fundi stofnfjáreigenda sem haldinn var framangreindan dag mættu 52 þeirra en að auki höfðu 13 veitt öðrum umboð til að taka þátt í fundinum fyrir sína hönd. Var því mætt fyrir 65 af 70 stofnfjáreigendum. Á fundinum var kynnt uppgjör sparisjóðsins vegna fyrri helmings ársins 2007. Samkvæmt því sem sagði í fundargerð kom þar meðal annars fram að hagnaður tímabilsins væri 273.160.793 krónur og að eigið fé sjóðsins 30. júní 2007 hefði verið 1.511.401.867 krónur. Bókað var að engar fyrirspurnir eða umræður hefðu orðið um uppgjörið. Á fundinum var því næst fjallað um og síðar samþykkt tillaga meirihluta stjórnar um heimild til að auka stofnfé sparisjóðsins á þann hátt sem að framan greinir. Áfrýjandi, sem mætti á fundinn, kveðst hafa greitt tillögunni atkvæði sitt.

Sparisjóðurinn leitaði til Fjármálaeftirlitsins 11. október 2007 og lýsti þeirri skoðun sinni að fyrirhugað útboð á stofnfé sjóðsins væri undanþegið lýsingu samkvæmt þágildandi lögum nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Fjármálaeftirlitið staðfesti þessa afstöðu 26. sama mánaðar. Sparisjóðurinn tilkynnti stofnfjáreigendum þar á meðal áfrýjanda 7. nóvember sama ár að stjórn hans hefði ákveðið að nýta þá heimild sem henni hefði verið veitt til hækkunar stofnfjár um 350.000.000 krónur. Stofnfjáreigendur ættu forgangsrétt til þess að skrá sig fyrir hlutum og væri áskriftartíminn frá 14. nóvember til 5. desember 2007. Áfrýjandi ætti, eins og aðrir stofnfjáreigendur, rétt á því að skrá sig fyrir stofnfé að nafnverði 5.000.000 krónur. Ef einhverjir stofnfjáreigendur nýttu ekki rétt sinn myndi réttur annarra stofnfjáreigenda aukast hlutfallslega sem því næmi. Enginn gæti þó eignast meira en 5% af heildarstofnfé sjóðsins. Eindagi kaupverðs yrði 14. desember 2007. Með bréfinu fylgdi eyðublað fyrir umsókn um stofnfé sem áfrýjandi fyllti út. Merkti hún þar við í reit til merkis um að hún óskaði eftir hámarksrétti til kaupa á stofnfé. Fyrir liggur að allir 70 stofnfjáreigendur í sparisjóðnum nýttu að fullu rétt sinn til kaupa. Áfrýjandi tók lán að fjárhæð 5.150.000 krónur hjá Glitni banka hf. til greiðslu stofnfjárins. Af því tilefni gaf hún út skuldabréf til bankans 12. desember 2007 að tilgreindri fjárhæð og ritaði eiginmaður hennar á skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Hún setti einnig ,,stofnfjárbréf“ sín að handveði til bankans til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Áfrýjandi fékk arð af stofnfjáreign sinni, 707.700 krónur, 2. maí 2008 vegna rekstrarársins 2007. Um frekari arðgreiðslur var á hinn bóginn ekki að ræða.

Staða Sparisjóðs Vestmannaeyja versnaði verulega í kjölfar fjármálaáfalla haustið 2008 og var leitast við að endurskipuleggja fjárhag hans í framhaldi af því. Stofnfé mun hafa verið lækkað 21. júní 2010 úr 357.000.000 krónum í 100.000.000 krónur og svo hækkað aftur í 996.589.000 krónur, án þess að áfrýjandi eða aðrir stofnfjáreigendur hafi notið forkaupsréttar. Fjármálaeftirlitið ákvað 29. mars 2015, að beiðni stjórnar sparisjóðsins, að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar í sjóðnum og að stefndi skyldi sama dag taka yfir rekstur, eignir og skuldbindingar sjóðsins. Taldist sparisjóðnum slitið þennan dag. Yfirtakan skyldi gerð í samræmi við samkomulag hans  og stefnda frá deginum áður, en þá var stofnfé sjóðsins metið með nánar tilgreindum hætti. Það skyldi þó endanlega ákveðið með mati endurskoðunarfyrirtækis og upphaflegt mat leiðrétt til samræmis við það. Stofnfjárhlutur áfrýjanda var endanlega metinn á 476.590 krónur sem breytt var í hluti í stefnda.

Áfrýjandi ásamt fleiri stofnfjáreigendum í sparisjóðnum leitaði til lögmanna til þess að athuga réttarstöðu sína. Á árinu 2012 og næstu árum þar á eftir rituðu lögmenn á þeirra vegum nokkur bréf til sjóðsins og Fjármálaeftirlitsins til að afla upplýsinga og skýringa.

II

Áfrýjandi höfðaði málið 24. júní 2015 til ,,innheimtu skaðabóta“. Í héraðsdómsstefnu segir að málið sé reist á því að saknæm og ólögmæt háttsemi starfsmanna Sparisjóðs Vestmannaeyja sem og galli á hinum keyptu stofnfjárbréfum hafi valdið því að hún hafi orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni sem stefndi beri ábyrgð á. Aðalkrafa hennar nemi þeim afborgunum, vöxtum og öðrum kostnaði sem hún hafi greitt af láni því sem hún tók hjá Glitni banka hf. vegna stofnfjárkaupanna, að frádregnu metnu virði hluta hennar í stefnda, sem hún fékk við yfirtökuna, og þeirri arðgreiðslu sem hún fékk í maí 2008. Miðar hún þessar fjárhæðir ekki við allan stofnfjárhlut sinn, heldur þann hluta sem við bættist í desember 2007. Varakrafan er miðuð við að áfrýjanda verði bætt tjón sem svarar til kaupverðs stofnfjárhluta hennar að frádregnu matsvirði hlutarins í stefnda og þeirrar arðgreiðslu sem hún naut.

Til stuðnings kröfu sinni teflir árýjandi fram málsástæðum sem lúta í fyrsta lagi að því að fulltrúar Sparisjóðs Vestmannaeyja hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Þeir hafi haft milligöngu um að hún hafi aukið hlut sinn og sagt að um væri að ræða trausta og áhættulausa fjárfestingu sem í versta falli gæti leitt til þess að stofnfjárhlutur hennar tapaðist. Áfrýjandi kveðst vera áhættufælin og grandvör að eðlisfari. Það hefði verið forsenda af hennar hálfu að hún bæri enga persónulega ábyrgð vegna kaupa á stofnfénu. Hún kveður að um hafi verið að ræða verðbréfaviðskipti og útboð stofnfjárins hafi fallið undir 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Á sparisjóðnum hafi hvílt skyldur samkvæmt þeim lögum. Hún kveðst myndu hafa talist almennur fjárfestir samkvæmt 11. tölulið 1. mgr. 2. gr. sömu laga en dregur í efa að sparisjóðurinn hafi sinnt þeirri lagaskyldu að flokka hana svo sem boðið var í 21. gr. laganna. Hún byggir í þessu sambandi á því að sparisjóðurinn hafi brotið gegn hinni almennu reglu 5. gr. nefndra laga um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Starfsmenn sparisjóðsins hafi einnig brotið gegn fyrirmælum 1. mgr. 14. gr. laganna um að veita greinargóðar upplýsingar um þá fjárfestingu sem um ræddi og þá áhættu sem í því hafi falist fyrir áfrýjanda að velja hana. Sparisjóðurinn hafi ekki aflað sér upplýsinga um þekkingu og reynslu áfrýjanda til þess að geta metið hvort fjárfestingin hentaði henni, svo sem skylt var samkvæmt 16. gr. laga nr. 108/2007. Í stað þess hafi sjóðurinn lagt áherslu á að þátttaka í stofnfjáraukningunni væri áhættulaus. Á stefnda hvíli að sanna að þessum lögbundnu skyldum hafi verið sinnt en það hafi hann ekki gert. Áfrýjandi byggir einnig á því að sparisjóðurinn hafi starfað á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sjóðurinn hafi með háttsemi sinni brotið gegn reglu 19. gr. þeirra laga um að viðhafa heilbrigða viðskiptahætti við stofnfjáraukninguna. Þá hafi fyrirmæli laganna og samþykkta sjóðsins um útgáfu stofnfjárbréfa, form þeirra og efni verið brotin í veigamiklum atriðum. Áfrýjandi bendir á að sparisjóðurinn hafi ekki gefið út stofnbréf vegna þess stofnfjár sem hún skráði sig fyrir, hvorki rafrænt né með árituðu stofnfjárskírteini. Telur hún að það leiði til þess, samkvæmt lögjöfnun frá ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög, að sparisjóðurinn og stefndi geti ekki borið fyrir sig áskriftina. Áfrýjandi telur að meta verði háttsemi sparisjóðsins með hliðsjón af því að hann hafi í ríkum mæli brotið lögbundnar skyldur um upplýsingagjöf og vandaða fjármálaþjónustu í aðdraganda stofnfjáraukningarinnar. Eigi þessi atriði hvert fyrir sig og sameiginlega að leiða til skaðabótaábyrgðar stefnda.

Í öðru lagi vísar áfrýjandi til reglna um bæði rangar og brostnar forsendur sem legið hafi til grundvallar þátttöku hennar í stofnfjáraukningunni og brot Sparisjóðs Vestamannaeyja á lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Hún hafi talið að til þess kæmi ekki að hún yrði persónulega ábyrg fyrir skuldbindingum og arðgreiðslur af stofnfjáreign hennar myndu duga til þess að greiða afborganir og vexti af skuldabréfinu. Hún kveður þessi atriði renna enn frekari stoðum undir skaðabótaábyrgð stefnda.

Í þriðja lagi vísar áfrýjandi til ,,ógildanleika“ og ósanngirni en í stefnu segir að hún krefjist þó ,,ekki ógildingar á kaupsamningi um stofnfjárkaup eða lánsamningi hjá Glitni, en byggir þess í stað á ógildanleika og ósanngirni þeirra sem málsástæðum fyrir skaðabótakröfu sinni. Þessi ógildanleiki og ósanngirni stafar af og sýnir enn fremur fram á hina ólögmætu og saknæmu háttsemi stefnda.“ Þau atriði sem renni stoðum undir ógildingu séu að Sparisjóður Vestmannaeyja hafi beitt ólögmætri nauðung, sbr. 29. gr. laga nr. 7/1936, í viðleitni sinni til að þvinga áfrýjanda til að auka stofnfé sitt. Jafnframt hafi sjóðurinn svikið loforð, sbr. 30. gr. sömu laga, um að hún myndi ekki bera persónulega áhættu af fjárfestingu sinni. Þá eigi 33. og 36. gr. laganna við og vísar áfrýjandi í því sambandi til þeirra atriða sem áður greinir, en einnig til þess að atvik sem síðar hafi komið til hafi leitt til þess að í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hafi endurskipulagning fjárhags sparisjóðsins verið nauðsynleg sem rýrt hafi stórlega verðmæti stofnfjárins.

Í fjórða lagi vísar áfrýjandi til ákvæða laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og þess að stofnfjárhlutur hennar hafi verið gallaður vegna þess að hann hafi ekki haft þá eiginleika sem sparisjóðurinn hafi lofað að hann hefði. Eigi hún rétt til skaðabóta samkvæmt 40. gr. laganna. Beri stefndi hlutlæga ábyrgð á beinu tjóni hennar en einnig á óbeinu tjóni hennar þar sem allt tjónið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna sjóðsins.

Í fimmta lagi tekur áfrýjandi fram að skilyrðum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu sé fullnægt.

Loks vísar áfrýjandi til reglna um sérfræðiábyrgð sem hún telur gilda og eigi að leiða til enn strangara sakarmats þegar skaðabótaábyrgð stefnda sé metin.

III

Stefndi telur enga þörf hafa verið á útboðslýsingu vegna stofnfjáraukningarinnar. Áfrýjandi hafi sjálf stutt að stofnfé Sparisjóðs Vestmannaeyja hafi verið aukið og greitt tillögu um það atkvæði sitt á fundi stofnfjáreigenda að aflokinni kynningu á hálfsársuppgjöri fyrir sjóðinn. Allir 70 stofnfjáreigendurnir hafi nýtt sér að fullu rétt sinn til að auka við stofnfé sitt. Stefndi mótmælir því að sparisjóðsstjórinn eða aðrir fulltrúar sjóðsins hafi hvatt áfrýjanda eða latt til þátttöku í stofnfjáraukningunni. Öllum stofnfjáreigendum hafi verið frjálst að ákveða sjálfir hvort þeir tækju þátt í aukningunni. Sparisjóðurinn hafi ekki staðið fyrir neinni ráðgjöf í því efni. Arðgreiðslur séu ekki ákveðnar fyrirfram, hvað þá til margra ára í senn. Þær séu ákveðnar á aðalfundi hverju sinni. Engin fjárfesting sé áhættulaus og hafi áfrýjanda verið það ljóst. Stefndi geti enga ábyrgð borið á samskiptum áfrýjanda við Glitni banka hf. og eftirfarandi samningi hennar um lán frá bankanum og sjálfskuldarábyrgð maka hennar á láninu.

Stefndi hafnar því að sparisjóðurinn hafi í aðdraganda stofnfjáraukningarinnar brotið gegn lögum nr. 108/2007 eða reglugerð nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Hann hafnar því einnig að vanhöld á útgáfu stofnfjárbréfa geti varðað hann skaðabótaskyldu. Slík skylda verði heldur ekki reist á væntingum eða hugrenningum áfrýjanda um að hún myndi ekki þurfa að bera persónulega ábyrgð á skuldbindingum sem hún stofnaði til vegna kaupa á stofnfé. Þá geti sjónarmið að baki ógildingarreglum laga nr. 7/1936 ekki átt við í málinu. Tómlæti áfrýjanda leiði einnig til þess að hún geti ekki haft uppi kröfu um skaðabætur átta árum eftir að viðskiptin áttu sér stað.

Stefndi mótmælir einnig að stofnfjárhlutur sá sem áfrýjandi skráði sig fyrir hafi verið gallaður í skilningi laga nr. 50/2000 og að hún geti reist rétt til skaðabóta á 40. gr. þeirra laga. Hann kveður allar staðhæfingar sem áfrýjandi reisi kröfu sína á ósannaðar. Hvort sem áfrýjandi hafi þegið ráðgjöf eða ekki um að rétt væri að auka stofnfjárhlut sinn geti síðar til komin lækkun stofnfjárins ekki leitt til skaðabótaábyrgðar.

Þá mótmælir stefndi því að orsakatengsl séu milli lántöku áfrýjanda hjá Glitni banka hf. og ætlaðs tjóns sem hún krefst bóta fyrir í málinu.

Hvað sem öðru líði sé ætluð krafa áfrýjanda niður fallin fyrir fyrningu, hvort sem við eigi lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda eða lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

IV

Svo sem áður greinir höfðaði áfrýjandi mál þetta til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hún hafi orðið fyrir þegar stofnfé, sem hún keypti í Sparisjóði Vestmannaeyja, reyndist verðminna en hún hafi mátt gera ráð fyrir. Áfrýjandi hefur ekki rift samningi um kaupin, en við yfirtöku stefnda á eignum og skuldbindingum sparisjóðsins eignaðist hún hlut í stefnda í stað stofnfjárins. Í stefnu áréttar hún að ekki sé heldur krafist ógildingar á samningnum. Þótt málatilbúnaður áfrýjanda sé ekki glöggur og hún tefli öðrum þræði fram röksemdum sem miða við að krafa hennar sé um skaðabætur utan samninga, verður að leggja til grundvallar að krafan sé um skaðabætur innan samninga, sem hún styður jafnframt rökum um saknæmi og ólögmæti, meðal annars til stuðnings ætluðum rétti sínum til skaðabóta fyrir óbeint tjón. Hið sama á við um sjónarmið sem tengjast röngum og brostnum forsendum svo og þau sem búa að baki ógildingarreglum laga nr. 7/1936. Verður einnig að skýra tilvísun áfrýjanda til reglna um sérfræðiábyrgð svo að eins og málið sé vaxið styðji þær að ríkar kröfur beri að gera til sparisjóðsins um fagleg vinnubrögð við stofnfjáraukninguna og sölu stofnfjár. Verður því leyst úr málinu á þeim grundvelli að krafist sé skaðabóta vegna vanefnda sparisjóðsins á samningi um kaupin, enda getur áfrýjandi ekki lagt þann grundvöll að máli sínu að bæði sé miðað við að hún geti átt rétt til skaðabóta utan samninga og innan.

Með samningi sínum við Sparisjóð Vestmannaeyja nýtti áfrýjandi forgangsrétt sinn sem stofnfjáreigandi til þess að kaupa það viðbótarstofnfé, sem hún átti rétt til. Aðrir stofnfjáreigendur sem voru í sömu stöðu og hún nýttu sér líka allir sama rétt. Í 9. gr. samþykkta sparisjóðsins, eins og þær voru eftir breytingar sem gerðar voru á fundi stofnfjáreigenda 9. október 2007, sagði: ,,Sala eða annað framsal stofnfjárhlutar í Sparisjóðnum er óheimil nema með samþykki sparisjóðsstjórnar“. Þessar takmarkanir á ráðstöfunarrétti stofnfjárhluta voru í samræmi við 1. mgr. 64. gr. laga nr. 161/2002 eins og ákvæðið var á þessum tíma. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skyldi sparisjóðurinn, ef stjórnin synjaði um samþykki fyrir sölu stofnfjárhlutar, innleysa hlutinn eftir reglum 65. gr. laganna.

Þær hömlur sem voru á viðskiptum með stofnfjárhluti í Sparisjóði Vestmannaeyja leiddu til þess að kaup áfrýjanda á stofnfé í desember 2007 voru ekki viðskipti með fjármálagerning, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, og falla ekki undir gildissvið laganna eins og því er lýst í 1. gr. þeirra. Sparisjóðurinn starfaði á grundvelli laga nr. 161/2002 og giltu ákvæði þeirra meðal annars um skyldur hans, sbr. einkum 19. gr., en af henni leiddi að sjóðnum bar við kynningu á stofnfjáraukningunni og sölu stofnfjárins að fara að í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

Áfrýjandi hafði átt stofnfé í Sparisjóði Vestmannaeyja lengi þegar henni var kynnt 26. júlí 2007 að áform væru uppi sem gætu leitt til þess að stofnfé sparisjóðsins yrði aukið og hvaða ástæður lægju til þess. Tveimur mánuðum síðar var henni tilkynnt bréflega að boðað væri til fundar stofnfjáreigenda sem fram skyldi fara 9. október sama ár og að þar yrði lögð fram tillaga um aukningu stofnfjár. Af báðum bréfunum verður sú ályktun dregin að á þessum tíma hafi verið óvissa um stöðu sparisjóða og samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði færi harðnandi. Á fundinum var reikningsuppgjör sparisjóðsins fyrir fyrri hluta ársins kynnt. Áfrýjandi heldur því ekki fram að upplýsingar í reikningsuppgjörinu hafi verið rangar eða ófullnægjandi um rekstur eða efnahag sparisjóðsins. Hún hefur heldur ekki fært sönnur að því að hún hafi verið beitt þrýstingi af hálfu sparisjóðsins til að auka stofnfé sitt eða að sjónarmið að baki öðrum ógildingarreglum laga nr. 7/1936 geti átt hér við. Henni hlaut að vera ljóst að hún gæti ekki reist kaupin á þeirri forsendu að alltaf yrði slíkur arður af rekstri sparisjóðsins að hlutdeild hennar í arðinum myndi nægja til þess að greiða niður þær fjárskuldbindingar sem hún stofnaði til vegna kaupanna. Áfrýjanda hlaut einnig að vera ljóst að arður yrði ekki greiddur nema samkvæmt ákvörðun aðalfundar sparisjóðsins hverju sinni og þá í samræmi við afkomu undanfarandi rekstrarárs. Henni hlaut því að vera ljóst að til þess gæti komið að hún þyrfti að greiða skuld sína vegna stofnfjárkaupanna óháð arðgreiðslum, enda ósannað að sparisjóðurinn hafi gefið henni tilefni til að ætla að hún myndi ekki bera persónulega ábyrgð á skuldinni.

Mat á því hvort stofnfjárhluturinn hafi haft þá eiginleika sem áfrýjandi gat gert kröfu til verður að miða við það tímamark þegar kaupin áttu sér stað í desember 2007, sbr. 21. gr. laga nr. 50/2000, enda ósannað að sparisjóðurinn hafi ábyrgst einhverja eiginleika hlutarins til frambúðar eða orsakir þess að verðmæti hlutarins féll haustið 2008 hafi verið vegna vanefnda sjóðsins. Verður því slegið föstu að eiginleikar stofnfjárhlutarins hafi við kaupin svarað til væntinga, sem áfrýjandi mátti gera til hans, enda var greiddur umtalsverður arður til hennar vegna rekstrarársins 2007.

Samkvæmt framansögðu hefur áfrýjandi ekki fært sönnur að því að tjón hennar verði rakið til þess að stofnfjárhluturinn hafi við kaupin ekki svarað til þeirra kosta sem hún mátti gera ráð fyrir eða að önnur atvik sem stefndi beri ábyrgð á hafi orsakað tjón hennar. Á það bæði við um aðal- og varakröfu hennar. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Svanhildur Guðlaugsdóttir, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2016.

I.

Mál þetta var höfðað 24. júní 2015 og dómtekið 17. mars 2016.

                Stefnandi er Svanhildur Guðlaugsdóttir, til heimilis að Áshamri 41, Vestamannaeyjum, en stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 4.479.340 krónur, auk dráttárvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi greiði stefnanda 3.820.952 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar.

                                                                                     II.

Með ákvörðun Fjármáleftirlitsins, dags. 29. mars 2015, var Sparisjóður Vestmannaeyja (SPV), sameinaður stefnda. Frá þeim tíma tók stefndi við rekstri, eignum og skuldbindingum SPV samkvæmt samkomulagi milli stjórnar sparisjóðsins og stefnda, um yfirtöku stefnda á SPV, dags. 28. mars 2015. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var Sparisjóði Vestmannaeyja slitið frá og með 29. mars 2015.

                Stefnandi máls þessa var á meðal 70 stofnfjáreigenda SPV þegar stofnfjárhækkun í SPV fór fram haustið 2007. Greiddi stefnandi atkvæði með stofnfjárhækkuninni á fundi sem haldinn var 9. október 2007.

                Samkvæmt bréfi SPV til stefnanda, dags. 7. nóvember 2007, um Áskrift að hækkun stofnfjár í Sparisjóði Vestmannaeyja, ákvað stjórn SPV á stjórnarfundi þann 6. nóvember s.á. að nýta heimild frá stofnfjáreigendafundi þann 9. október s.á., til hækkunar stofnfjár. Fram kemur í bréfinu að stofnfjáreigendur, sem séu 70 talsins, eigi forgangsrétt til að skrá sig fyrir hækkuninni. Þá kemur þar einnig fram að Fjármálaeftirlitið hafi veitt undanþágu frá gerð útboðslýsingar með því skilyrði að allt útboðið gangi til forgangsréttarhafa. Stofnfjáreigendur séu engu að síður hvattir til að kynna sér ársreikning SPV og önnur gögn áður en þeir taki ákvörðun um áskrift er liggi fyrir hjá skrifstofustjóra og sparisjóðsstjóra SPV. Í sama bréfi segir að bréfin verði gefin út með rafrænni skráningu hjá Verðbréfaskráningu Íslands, fyrir þá hluti er séu til sölu í útboðinu auk eldri hluta. Enn fremur er í bréfinu mælt fyrir um aukinn rétt til stofnfjárkaupa ákveði einhverjir að nýta ekki rétt sinn. Um lán í tengslum við stofnfjárkaupin segir í bréfinu að verði eftir því leitað eigi stofnfjáreigendur kost á láni hjá SPV fyrir kaupum á stofnfjárbréfum í útboðinu og að lánakjör séu í samræmi við útlánareglur SPV. Þeir sem þess óski, snúi sér til sparisjóðsstjóra, skrifstofustjóra eða forstöðumanns verðbréfasviðs.

                Þann 28. nóvember 2007 ritaði stefnandi undir umsókn um áskrift að stofnfé SPV. Kemur fram í umsókn hennar að hún skrái sig fyrir hámarkshlut 5.000.000 króna, auk þess sem hún kjósi að nýta sér viðbótarrétt (hámarksrétt) sem myndaðist ef einhver stofnfjáreigandi kýs að nýta sér ekki rétt sinn til stofnfjáraukningar. Í umsókninni kemur fram að frestur til að skrá sig fyrir nýju stofnfé renni út þann 5. desember 2007 kl. 16:00 og að eindagi kaupverðs úthlutaðra stofnfjárhluta sé 14. desember 2007.

                Til þess að greiða fyrir stofnfjárhækkun sína, tók stefnandi þann 12. desember 2007, lán hjá Glitni banka hf. að fjárhæð 5.150.000 krónur. Ritaði stefnandi undir skuldabréf til Glitnis banka hf., þar sem eiginmaður hennar skrifaði undir sem sjálfskuldarábyrgðaraðili.               

                Allir stofnfjáreigendurnir 70 tóku þátt og keyptu sínar 5.000.000 króna hver. Áttu stofnfjáreigendur þannig allir jafnan hlut bæði fyrir og eftir stofnfjáraukninguna. 

                Eftirtaldir aðilar gáfu skýrslu fyrir dóminum: Svanhildur Guðlaugsdóttir, Kristín Sigurðardóttir, Garðar Arason, Kristján Gunnar Eggertsson, Stefán Sigurjónsson, Gísli Gunnar Geirsson, Óskar Ólafur Elísson, Þór Ísfeld Vilhjálmsson og Arnar Sigurmundsson.

                                                                                     III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

1) Röng og villandi ráðgjöf

Stefnandi telur að starfsmenn SPV hafi haft milligöngu um að stefnandi tæki þátt í stofnfjáraukningu í SPV haustið 2007, sem hafi falist í því að ráðleggja stefnanda að fjárfesta í SPV með lántöku, sem hafi leitt til tjóns stefnanda. Stefnanda hafi verið talin trú um að um væri að ræða trausta fjárfestingu. Það hafi verið forsenda stefnanda fyrir kaupunum og lántökunni að hún bæri enga persónulega ábyrgð á skuldbindingunum. Henni hafi verið sagt að arðgreiðslurnar dygðu til afborgana og að bréfin sjálf stæðu til tryggingar. Hefði hún fengið réttar upplýsingar frá SPV hefði hún aldrei tekið þátt í stofnfjáraukningunni. Telur stefnandi ljóst að helsta markmið SPV með stofnfjáraukningunni hafi verið að verja SPV og um leið stjórn hans og aðra starfsmenn fyrir óvinveittri yfirtöku. Stefnandi kveðst hafa litla sem enga reynslu á sviði verðbréfaviðskipta og hafi því treyst ráðleggingum stjórnar og starfsmanna SPV. Aðstöðumunur hennar gagnvart SPV hafi því verið verulegur.

                Stefnandi telur einnig að þar sem SPV hafi leitað eftir undanþágu frá útgáfu útboðslýsingar hjá FME á grundvelli 50. gr. þágildandi laga nr. 108/2007, hafi stjórn og starfsmenn stefnda talið stofnfjáraukninguna til verðbréfaviðskipta og því hafi gilt um hana lög nr. 108/2007. Telur stefnandi að umsjón SPV með útboðinu hafi fallið undir 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna. Því hafi verið um verðbréfaviðskipti að ræða þegar stefnandi skráði sig fyrir stofnfjárhlutunum. Af þessu leiði enn fremur að ákvæði um fjárfestavernd, samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2004/39/EB, um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID tilskipunin), sem hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 108/2007, hafi gilt um viðskipti stefnanda og SPV.

                Stefnandi kveðst hafa verið almennur fjárfestir samkvæmt 11. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007. Einnig telur stefnandi að SPV hafi brotið gegn vísireglu 5. gr. laganna og gegn 14. gr. laganna með því að veita stefnanda ekki greinargóðar upplýsingar um þjónustu sína og meðal annars þá áhættu sem fylgi fjárfestingum. SPV hafi borið að sjá til þess að stefnanda væri aðeins boðnar vörur sem hentuðu þekkingu hennar og bar einnig að tryggja að allar upplýsingar til hennar uppfylltu skilyrði reglugerðar nr. 995/2007, um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Þá hafi SPV brotið gegn 16. gr. laganna með því að SPV aflaði sér engra upplýsinga um þekkingu og reynslu stefnanda til þess að meta hvort viðkomandi tegund verðbréfaviðskipta hentaði stefnanda. Samkvæmt ákvæðum 15. og 16. gr. laganna hafi SPV borið að framkvæma áreiðanleikakönnun á stefnanda.

                Stefnandi telur einnig að um starfsemi SPV hafi gilt lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. SPV hafi með háttsemi sinni brotið gegn 19. gr. laganna um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Þá hafi ákvæði 62. gr., sbr. 66. og 67. gr. sömu laga einnig verið brotin og 7. gr. samþykkta SPV, er hafi að geyma sömu reglu og fram komi í 62. gr. um að stofnfjárbréf skuli gefin út fyrir skráðum stofnfjárhlutum. Það stofnfé sem stefnandi skráði sig fyrir árið 2007 hafi aldrei verið gefið út, hvorki með rafrænum hætti né með útgáfu áritaðs stofnskírteinis. Um afleiðingar þessa vísar stefnandi til 10. og 39. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög þar sem hvorki hafi verið kveðið á um slíkt í samþykktum SPV né lögum um fjármálafyrirtæki. Bendir stefnandi á að hlutafélag geti ekki borið fyrir sig áskrift um hlutakaup ef reglum laganna um áskrift nýrra hluta hafi ekki verið fylgt eftir.

                Stefnandi telur auk þess að stefndi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 3.–5. þætti reglugerðar nr. 995/2007.

                Telur stefnandi að fyrrgreind brot starfsmanna, sem tíunduð eru hér að framan, leiði hvert um sig og einnig samantekið til skaðabótaábyrgðar stefnda á tjóni stefnanda. Hvíli sönnunarbyrði á stefnda um hvort fyrrgreind lög og reglur hafi verið uppfyllt.

                2) Rangar og brostnar forsendur

Stefnandi telur að þær röngu og brostnu forsendur sem lágu til grundvallar stofnfjárhækkuninni og lántöku hennar hjá Glitni banka hf., sem og brot stefnda á ákvæðum laga nr. 7/1936 um samningsveð, umboð og ógilda samninga leiði einnig til skaðabótaskyldu stefnda á tjóni stefnanda. Telur stefnandi að sú málsástæða hennar sé tilkomin vegna þess að starfsmenn SPV hafi ráðlagt stefnanda og tjáð henni að stofnfjárhækkunin og lántaka í því sambandi teldust örugg viðskipti. Forsendur stefnanda hafi verið þær að hún bæri enga persónulega ábyrgð á skuldbindingunum og ráðleggingum starfsmanna SPV um að arðgreiðslur bréfanna dygðu til afborgana af láninu. Telur stefnandi að samningur hennar um kaup á stofnfé hafi í raun verið ógildur samkvæmt meginreglu samningaréttar um rangar og brostnar forsendur.

                3) Ógildanleiki og ósanngirni

                Stefnandi kveðst ekki krefjast ógildingar á kaupsamningi um stofnfjárkaupin eða lánssamningi hjá Glitni banka hf., en byggi þess í stað á ógildanleika og ósanngirni þeirra sem málsástæðum fyrir skaðabótakröfu sinni. Vísar stefnandi í því sambandi til 29. gr. laga nr. 7/1936 um minni háttar nauðung. Henni hafi verið talin trú um að stofnfjáreign hennar skertist tæki hún ekki þátt auk þess sem stofnfjáraukningin væri áhættulaus. Að auki hafi stjórn SPV virt að vettugi skyldur sínar samkvæmt þágildandi 2. mgr. 66. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt ákvæðinu hafi SPV borið skylda til að leggja ónýtta heimild til endurmats stofnfjár við kaupverð stofnfjárhlutarins sem hafi myndast við aukninguna. Hefði þetta verið gert hefðu eldri stofnfjáreigendur ekki þurft að þola þynningu á verðmæti eldri stofnfjárhlutanna eins og raunin hafi orðið. Þá vísar stefnandi til 30. gr. laga nr. 7/1936 um svik. Loforð SPV hafi legið fyrir um áskilda kosti um að stefnandi bæri enga persónulega áhættu af fjárfestingunni umfram andvirði stofnfjárbréfanna og að arðgreiðslur þeirra myndu nægja til að greiða niður höfuðstól og vexti lánsins sem stefnandi tók. Stefnandi vísar einnig til 33. gr. sömu laga, enda hafi verið óheiðarlegt af stefnda að bera samninginn fyrir sig. Þá vísar stefnandi til 36. gr. laganna. Stefnandi hafi enga sérþekkingu haft á fjármálamörkuðum og hafi því átt að njóta verndar sem almennur fjárfestir samkvæmt lögum um fjárfestavernd. Starfsmenn SPV hafi á hinn bóginn verið sérfræðingar á sínu sviði. Telur stefnandi að Hæstiréttur hafi oft staðfest að röng ráðgjöf starfsmanna fjármálafyrirtækja leiði til þess að ósanngjarnt sé talið að bera samning fyrir sig. Þá hafi atvik sem síðar komu til orðið þess valdandi að hagur stefnanda versnaði umtalsvert. Að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu í lok ársins 2008 hafi stofnfjáreigendur haldið eftir 9,96% hlut, Seðlabanki Íslands hafi farið með 55,3% stofnfjárins og nýir stofnfjáreigendur 34,8%. Telur stefnandi að skilyrðum sakarreglunnar um saknæma og ólögmæta háttsemi SPV sé því fullnægt.

4) Galli

Stefnandi telur að þar sem komið hafi í ljós að stofnfjárbréfin hafi skort þá eiginleika sem hún hafi mátt vænta, hafi þau verið haldin galla, og að hún eigi því með vísan til 40. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 rétt á skaðabótum. Beri stefndi hlutlæga bótaábyrgð á tjóni stefnanda og einnig á óbeinu tjóni hennar, þ.e. tjóni sem hún hafi orðið fyrir vegna afborgana af þeim lánaskuldbindingum sem stofnað hafi verið til vegna kaupa á bréfunum. Vísar stefnandi hér einnig til 69. gr. síðastnefndra laga.

                Um orsakatengsl og sennilega afleiðingu

Stefnandi telur að vegna háttsemi SPV í tengslum við stofnfjáraukninguna hafi stefnandi fengið ranga og villandi ráðgjöf, um að hún bæri ekki persónulega ábyrgð á láni sem hún tók samkvæmt ráðleggingum starfsmanna SPV, heldur kæmu arðgreiðslur til með að standa undir kostnaði hennar. Orsakatengslin séu því skýr og stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna kaupa á stofnfjárbréfunum og lántökunni. Hefði hún fengið fullnægjandi ráðgjöf hefði hún ekki orðið fyrir tjóni. Verði orsakatengsl hennar ekki talin nægjanleg þá telur hún að tjón hennar nemi þeirri fjárhæð sem hún greiddi fyrir stofnfjárbréfin að frádregnu virði þeirra í dag og greiddri arðgreiðslu, sbr. varakröfu.

                Um sérfræðiábyrgð stefnda

                Stefnandi telur skaðabótaábyrgð stefnda byggða á sakarreglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð. SPV hafi verið sérfræðingur á sviði fjármálaþjónustu og beri sérfræðiábyrgð á tjóni stefnanda.

                Um tjón stefnanda

                Um tjón samkvæmt aðalkröfu tekur stefnandi fram að hún hafi skrifað undir skuldabréf í Glitni banka hf. í kjölfar hinnar villandi ráðgjafar um fjármögnun á stofnfjárhækkuninni. Stefnandi hafi nú greitt af láninu langt umfram það sem henni hafi verið fært að greiða með arðgreiðslum. Nemi tjón hennar þeim afborgunum og vöxtum auk annars kostnaðar sem hún hafi þurft að greiða vegna skuldabréfsins að frádregnu núverandi virði bréfanna sem hún hafi keypt fyrir lánsfjárhæðina og arðgreiðslum.

                Verði ekki fallist á tjón stefnanda, samkvæmt aðalkröfu, krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna þess tjóns sem hún hafi orðið fyrir með greiðslu kaupverðs stofnfjárbréfanna að frádregnu andvirði bréfanna í dag og þeirra arðgreiðslna sem hafi verið inntar af hendi.        

                Stefnandi lýsir í stefnu aðdraganda að málsókn sinni. Kemur þar m.a. fram að í kjölfar bankahrunsins 2008 hafi verið ráðist í fjárhagslega endurskipulagningu á SPV sem hefði haft veruleg áhrif á stofnfjáreignina með tilheyrandi tjóni fyrir stefnanda. Þann 21. júní 2010 hafi stofnfé sjóðsins lækkað úr 357 milljónum króna í 100 milljónir króna. Í kjölfar lækkunarinnar hafi stofnféð verið hækkað á nýjan leik án þess að stefndi og aðrir stofnfjárhafar hafi notið forkaupsréttar. Eftir aðalfund SPV þann 31. mars 2011 hafi útistandandi skuldir stefnda verið 996.589.000 krónur að nafnverði. Tekur stefnandi fram að á sama tíma hafi lán hennar sem hún tók hjá Glitni hf. til kaupa á hlutabréfunum hækkað mikið sem hafi orðið til þess að því hafi verið skilmálabreytt hinn 10. janúar 2011. Í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum 117, 118 og 199/2011 þar sem staðfest hafi verið að stofnfjáreigendum í Byr sparisjóði hafi verið veitt villandi ráðgjöf sem rekja mætti til ónákvæmrar upplýsingagjafar Glitnis hf. er því lýst að með bréfi, dags. þann 14. janúar 2014 til Sparisjóðs Vestmannaeyja, hafi einn stofnfjáreigenda krafist greiðslu úr hendi SPV, og að þeirri kröfu hafi verið hafnað með bréfi lögmanns SPV, dags. 17. febrúar 2014. Er tekið fram að óvissa hafi lengi ríkt um virði stofnfjárbréfanna. Eftir samruna SPV við Landsbankann þann 29. mars 2015 hafi virði bréfanna að lokum legið fyrir. Af þeim sökum hafi stefnanda ekki verið kleift að höfða mál þetta, enda tjón hennar ekki legið fyrir fyrr en eftir framangreinda atburði.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi telur að í fullyrðingum stefnanda felist grundvallarmisskilningur um eðli þátttöku stefnanda og hlutverk SPV vegna stofnfjáraukningarinnar. SPV hafi ekki veitt neina fjárfestingarráðgjöf, heldur hafi hver stofnfjáreigandi tekið sjálfstæða ákvörðun um þátttöku á sínum eigin forsendum. Sérhver stofnfjáreigandi hafi haft fullkomið frelsi um það hvort hann tæki þátt í aukningunni, en SPV hafi ekki staðið fyrir ráðgjöf um fjárfestinguna. Skjöl málsins bendi ekki heldur til þess að SPV hafi veitt ráðgjöf um fjárfestingarkostinn. Þá hafi ekki verið unnin nein útboðslýsing, þar sem FME hafi veitt undanþágu frá því enda gengi allt útboðið til forgangsréttarhafanna sem það einmitt gerði. Þá hafi bréf sem send voru stofnfjáreigendum, dags. 25. september 2007 og 7. nóvember 2007, ekki að geyma óeðlilega hvatningu eða hæpna ráðgjöf í tengslum við stofnfjáraukninguna. Auk þess höfðu ekki verið gerðar neinar áætlanir um arðgreiðslur sjóðsins, enda séu þær ekki ákveðnar fyrir fram, hvað þá að þeim yrði jafnað til skuldbindandi loforða um framtíðina. Engin fjárfesting sé áhættulaus og stefnandi hafi fjárfest á eigin forsendum. Telur stefndi fráleitt að fólk geti fjárfest í verðbréfum án áhættu. Stefnanda hafi mátt vera það ljóst að ákvörðun um þátttöku í stofnfjáraukningunni hafi falið í sér áhættutöku. Stefndi geti ekki orðið skaðabótaskyldur vegna þess að stefnandi hafi ákveðið að taka þátt í að auka stofnfé sparisjóðsins í heimabæ sínum.

                Stefndi telur skaðabótaskilyrðum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu ófullnægt. Virði stofnbréfa stefnanda sé að finna í efnahagslegum og rekstrarlegum forsendum, en ekki í því hvað fólk hafi sagt við stefnanda.

                Þá telur stefndi að ekkert liggi fyrir um að SPV hafi brotið gegn fyrirmælum laga um verðbréfaviðskipti, annarrar löggjafar, reglugerðar nr. 995/2007 eða þeirra tilskipana sem stefnandi vísi til, þannig að varði skaðabótaskyldu stefnda. SPV hafi ekki haft neinu hlutverki að gegna varðandi stofnfjáraukninguna á grundvelli fyrrgreindra reglna. Hafi stefnandi mögulega átt rétt á skaðabótum á hendur einhverjum fyrir samruna stefnda og SPV þá hafi sá réttur ekki yfirfærst til stefnda í máli þessu.

                Stefndi telur að vanhöld á því að gefa stofnbréfin út varði ekki skaðabótaskyldu. Auk þess hafi SPV aldrei gefið út stofnbréf nema í formi stofnfjármiða. Á grundvelli heimildar í samþykktum SPV frá október 2007 hafi verið hafin vinna við útgáfu stofnfjárbréfa með rafrænum hætti í verðbréfamiðstöð. Þeirri vinnu hafi ekki verið lokið þegar fjármálakerfið hrundi hér á landi.

                Stefndi tekur fram að stefnandi hafi tekið ákvörðun um að fjárfesta í stofnfjárbréfum á eigin forsendum og geti ekki gert SPV eða stefnda ábyrga fyrir því hvaða mat hún lagði á spjall sem hún hafi átt við fólk um fjárfestingarkostinn. Auk þess liggi engin gögn fyrir um rangar eða ófullnægjandi ráðleggingar starfsmanna eða stjórnarmanna SPV til stefnanda eða þess efnis að ábyrgðarleysi hennar hafi verið forsenda hennar fyrir þátttöku í stofnfjáraukningunni og lántökunni.

                Stefndi tekur fram að engir útreikningar liggi að baki þeirri staðhæfingu stefnanda að 86% skerðing yrði á stofnfjárhluta stofnfjáreigenda ef þeir tækju ekki þátt í aukningunni. Stefndi áréttar að allir hafi haft val um hvort þeir tækju þátt í aukningunni eða ekki. Þá liggi ekkert fyrir um að SPV hafi virt að vettugi lagaskyldur sínar samkvæmt þágildandi 2. mgr. 66. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en ákvæðið var svohljóðandi: Það verð sem nýr stofnfjáreigandi skal greiða fyrir hlut, skal vera nafnverð hans að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 67. gr. SPV hafi nýtt sér heimildir laga til endurmats stofnfjár og telur að allar heimildir til endurmats hafi verið fullnýttar þegar stofnfjáraukningin var samþykkt í október 2007. Innborgað stofnfé vegna stofnfjáraukningarinnar árið 2007 hafi verið nafnverð, en eldra stofnfé hefði verið endurmetið að fullu. Allir stofnfjáreigendur hafi tekið þátt í aukningunni og því hafi engir nýir bæst við hópinn vegna aukningar. Hvað sem öðru líði verði skaðabótaskylda ekki reist á þessu atriði. Þá sé mótmælt allri umræðu stefnanda um samningalögin. Stefnandi hafi hvorki verið beitt nauðung né svikum. Stefnandi hafi auk þess ekki uppi ógildingarkröfur í málinu og því séu málsástæður hennar byggðar á ákvæðum samningalaga óskiljanlegar. Stefnandi hafi setið við sama borð og aðrir 69 stofnfjáreigendur og hafi ekki hreyft neinum andmælum við því hvernig staðið var að aukningunni á sínum tíma. Tómlæti hennar geri það að verkum að hún geti ekki haft uppi skaðabótakröfur nú átta árum síðar vegna þeirra reglna sem hafi gilt um aukninguna.

                Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda þess efnis að stofnféð hafi verið haldið galla með vísan til hlutverks SPV vegna þátttöku stefnanda í stofnfjáraukningunni. Það að fjárfesting stefnanda hafi súrnað þegar fór að halla undan fæti í rekstri SPV leiði á engan hátt til þess að stofnfé teljist haldið galla þannig að varði skaðabótaskyldu. Því fari fjarri að gallahugtak laga um lausafjárkaup geti átt við um stofnféð. Þá telur stefndi að sá málatilbúnaður stefnanda að leggja ekki fram neina sönnun fyrir því sem allur málatilbúnaður hennar er reistur á veki upp spurningar um frávísun málsins frá dómi að sjálfsdáðum. Þá beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir öllum fullyrðingum um hlutverk SPV við stofnfjáraukninguna, eða að starfsmenn SPV hafi veitt rangar eða villandi upplýsingar, viðhaft nauðung eða svik eða beitt stefnanda öðrum þeim rangindum sem tilgreind eru í stefnunni.

                Jafnvel þótt rétt reyndist að starfsmenn SPV hafi í samtölum við stefnanda talið þátttöku í stofnfjáraukningunni góðan kost og jafnvel haldið að henni væntingum sínum um að bréfin myndu hækka í verði, leiði það ekki til þess að hún geti mörgum árum síðar endurkrafið stefnda um lán sem hún tók hjá allt annarri fjármálastofnun til að standa straum af fjárfestingunni. Allra síst sé það mögulegt í formi skaðabótakröfu af því tagi sem stefnandi hafi uppi. Hvað sem því líði sé ekki unnt að líta svo á að allar ráðleggingar um kaup á hlutabréfum, stofnfjárbréfum eða öðrum slíkum bréfum, sem síðar lækki í verði, sem óhjákvæmilega leiðir til taps fyrir kaupandann, sé röng eða gölluð ráðgjöf. Slíkt geti ekki eitt og sér leitt til þess að sá er ráðin veitti verði skaðabótaskyldur gagnvart þeim er kaus að fylgja ráðunum. Það felist í eðli ráðgjafar um kaup á fjármálagerningum að um sé að ræða spá um þróun verðmætis þeirra sem enginn viti hvort muni standast. Það að gengi slíkra gerninga hækki ekki í samræmi við spá ráðgjafans, leiði því ekki eitt og sér til þess að ráðin teljist gölluð eða röng.

                Stefndi telur að ekki sé unnt að beina skaðabótakröfu gegn honum vegna meintrar saknæmrar háttsemi sem starfsmenn eða stjórnarmenn SPV eigi að hafa sýnt af sér, enda geti bankinn ekki borið ábyrgð því sem fram kunni að hafa komið í almennu spjalli starfsmanna eða eftir atvikum stjórnarmanna SPV við stefnanda. Slík ábyrgð verði aldrei færð yfir á stefnda. Telji stefnandi sig eiga skaðabótakröfu á hendur starfsmönnum eða stjórnarmönnum beri henni að sækja þá kröfu á hendur þeim, enda sé hún stefnda óviðkomandi þar sem hann beri ekki húsbóndaábyrgð eða annars konar ábyrgð á fyrrum starfsmönnum eða stjórnarmönnum SPV.

                Stefndi telur að orsakatengsl milli þess að stefnandi tók lán hjá Glitni og meints tjóns hennar séu ekki til staðar. Aðalkröfu stefnanda er þ.a.l. mótmælt. Stefndi geti ekki þurft að bæta stefnanda fjárhæð sem nemi því sem hún telji sig hafa tapað vegna ákvörðunar um að taka lán. Aðili geti ekki ákveðið að taka lán til að fjárfesta og krafið síðan meintan bótaskyldan aðila um tjón er nemi afborgunum, vöxtum og öðrum kostnaði af lántökunni. Stefnandi verði sjálf að bera ábyrgð á lántöku sinni og þær fjárhæðir sem hún hefur þannig greitt eru ekki sennileg afleiðing meintrar bótaskyldrar háttsemi starfsmanna eða stjórnarmanna SPV. Fjárhæð bæði aðal- og varakröfu stefnanda sé því mótmælt enda liggi ekki fyrir nægileg reifun eða sönnun á meintu fjártjóni stefnanda í skjölum málsins.

                Þá mótmælir stefndi öllum kröfum stefnanda á þeim grundvelli að þær séu fallnar niður fyrir fyrningu. Samkvæmt 9. gr. fyrningarlaganna nr. 150/2007 fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Verði litið svo á að kröfur stefnanda séu á grundvelli einhvers konar samningssambands hennar og SPV fyrnast kröfur um skaðabætur innan samninga eftir almennum reglum sem fram koma í 2. og 3. gr. laganna á fjórum árum frá gjalddaga. Sami fyrningarfrestur átti við samkvæmt eldri fyrningarlögum nr. 14/1905 um skaðabótakröfur innan samninga sbr. m.a. 3. gr. laganna. Skaðabótakröfur af því tagi sem stefnandi geri fyrnist þannig á fjórum árum, en fyrningarfrestur var rofinn með birtingu stefnunnar í málinu hinn 24. júní 2015. Allar kröfur stefnanda séu þannig löngu fyrndar hvort sem þær teljist hafa stofnast í gildistíð eldri fyrningarlaga nr. 14/1905 eða núgildandi fyrningarlaga nr. 150/2007.

                Loks er vaxtakröfum stefnanda mómælt, einkum dráttarvaxtakröfum hennar. Hvað sem öðru líður getur ekki verið rétt að láta stefnda greiða dráttarvexti frá þingfestingardegi málsins. Vaxtakröfum sem eru eldri en fjögurra ára er mótmælt þar sem þær eru fyrndar.

                                                                                     IV.

                                                                              Niðurstaða

Stefnandi byggir málsókn sína einkum á því að stefndi hafi sýnt af sér bótaskylt atferli með því að ráðleggja henni að kaupa stofnfjárbréf í Sparisjóði Vestamannaeyja (SPV) með lántöku sem hún tók hjá Glitni banka hf., sem síðan hafi leitt til tjóns fyrir hana. Það hafi verið forsenda hennar fyrir kaupunum að hún bæri ekki persónulega ábyrgð á þeim, að arðgreiðslurnar dygðu til afborgana og að bréfin sjálf stæðu til tryggingar skuldbindingunum. Tjón stefnanda samkvæmt aðalkröfu er miðað við allar afborganir og vexti auk annars kostnaðar vegna skuldabréfsins að frádregnu núverandi virði stofnfjárbréfanna. Varakrafan er miðuð við kaupverð stofnfjárbréfanna að frádregnu virði bréfanna í dag og arðgreiðslum, en annarra málsástæðna hefur áður verið getið.

                Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda og krefst sýknu. Af hálfu stefnda er krafa um sýknu m.a. byggð á þeirri málsástæðu að krafa stefnanda sé fyrnd hvort sem litið sé til eldri eða yngri fyrningarlaga.

                Í máli þessu krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna tjóns sem hún telur sig hafa orðið fyrir vegna kaupa sinna á stofnfjárbréfum í SPV samkvæmt umsókn hennar um áskrift að stofnfé sparisjóðsins, dags. 28. nóvember 2007. Er óumdeilt að stefnandi hafi greitt fyrir stofnfjárbréfin með láni sem hún tók hjá Glitni banka hf., 12. desember s.á. og að eindagi kaupverðs úthlutaðra stofnfjárhluta hafi verið 14. desember s.á.

                Miðað við lagaskilareglu 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda telur dómurinn að lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda gildi um kaup stefnanda á hinum umþrættu stofnfjárbréfum.

                Samkvæmt stefnu er málatilbúnaður grundvallaður á reglum um skaðabætur innan samninga. Reisir stefnandi bótakröfu sína á „kaupsamningi um stofnfjárkaupin“ og vísar í því sambandi m.a. til meginreglna kröfuréttar, samningaréttar og skaðabótaréttar. Málatibúnaður stefnanda við munnlegan flutning málsins stangast því á við stefnu, en við munnlegan flutning málsins var því haldið fram að um væri að ræða kröfu um skaðabætur utan samninga. Er sú málsástæða stefnanda of seint fram komin og kemur hún því ekki til frekari skoðunar.

                Í stefnu er gerð grein fyrir aðdraganda að málsókn stefnanda. Kemur þar m.a. fram að í kjölfar bankahrunsins 2008 hafi verið ráðist í fjárhagslega endurskipulagningu á SPV sem hefði haft veruleg áhrif á stofnfjáreignina með tilheyrandi tjóni fyrir stefnanda. Þann 21. júní 2010 hafi stofnfé sjóðsins lækkað úr 357 milljónum króna í 100 milljónir króna. Í kjölfar lækkunarinnar hafi stofnféð verið hækkað á nýjan leik án þess að stefnandi og aðrir stofnfjárhafar hafi notið forkaupsréttar. Eftir aðalfund SPV þann 31. mars 2011 hafi útistandandi skuldir SPV verið 996.589.000 krónur að nafnverði.

                Fyrningarfrestur kröfu sem byggist á samningum er fjögur ár, sbr. 1. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að krafa stefnanda teljist skaðabótakrafa innan samninga. Fyrnist því meint krafa stefnanda á fjórum árum. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, telst fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Forsendur kaupa stefnanda á stofnfjárbréfunum hafa áður verið raktar. Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda var ráðist í fjárhagslega
endurskipulagningu á SPV í kjölfar bankahrunsins sem þá þegar hafði
neikvæð og veruleg áhrif til tjóns fyrir stefnanda miðað við málflutning
hennar sjálfrar. Óumdeilt er að þann 21. júní 2010 var stofnfé
sparisjóðsins lækkað verulega eða úr 357 milljónum króna í 100 milljónir.
Þykir augljóst að gjalddagi skaðabótakröfu stefnanda, eins og henni er lýst
í stefnu, hafi í síðasta lagi verið fyrrgreindur dagur enda augljóst að eftir það var engin von til þess að fyrrgreindar forsendur stefnanda gætu staðist. Er það því niðurstaða dómsins að krafa stefnanda hafi verið fallin niður fyrir fyrningu þegar stefna í málinu var birt stefnda þann 24. júní 2015. Verður stefndi, Landsbankinn hf. í máli þessu þegar af þeirri ástæðu sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Svanhildar Guðlaugsdóttur.

                Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda 700.000 krónur í málskostnað.

                Fanney Hrund Hilmarsdóttir hdl. flutti málið fyrir stefnanda.

                Stefán Geir Þórisson hrl. flutti málið fyrir stefnda.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                                DÓMSORÐ:

                Stefndi, Landsbankinn hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Svanhildar Guðlaugsdóttur.

                Stefnanda ber að greiða stefnda 700.000 krónur í málskostnað.