Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/2017

LBI ehf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) og Svafa Grönfeldt (Ragnar Halldór Hall hrl.)
gegn
Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni (enginn), Halldóri Jóni Kristjánssyni (enginn), Kjartani Gunnarssyni (enginn), Andra Sveinssyni (enginn), Þorgeiri Baldurssyni (enginn), Jóni Þorsteini Oddleifssyni (enginn), Allianz Global Corporate & Specialty AG, Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Brit Insurance Ltd., Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, John Leon Gilbart, Joseph Elmaleh, Julian Michael West, Kelvin Underwriting Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Norman Thomas Rea, Novae Corporate Underwriting Ltd., QBE International Insurance Ltd., QBE Corporate Ltd., Richard Michael Hodgson Read, SCOR Underwriting Ltd. og Sorbietrees Underwriting Ltd. (Viðar Lúðvíksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L ehf. á hendur sóknaraðilanum SG og öðrum nafngreindum varnaraðilum var frestað til tiltekins tíma. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ljóst væri að L ehf. og SG leituðu ekki með kærum sínum úrlausnar um að ákvörðun héraðsdóms yrði með öllu felld úr gildi. Á hinn bóginn yrði hvorki ráðið af dómkröfum þeirra né málatilbúnaði að öðru leyti hvort málskot þeirra hefði að markmiði að fresturinn yrði lengdur eða styttur, en ófært væri að ákveða með dómi án nánari tilgreiningar „hæfilegan frest til að ljúka gagnaöflun í málinu“ svo sem krafist var. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar hvort fyrir sitt leyti með kærum 10. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2017, þar sem máli sóknaraðilans LBI ehf. á hendur sóknaraðilanum Svöfu Grönfeldt og varnaraðilum var frestað til 18. september 2017. Ætla verður að sóknaraðilar telji að kæruheimild sé að finna í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess bæði „að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að lagt verði fyrir héraðsdómara að ákveða aðilum hæfilegan frest til að ljúka gagnaöflun í málinu.“ Þá krefjast þau kærumálskostnaðar óskipt úr hendi þeirra „sem kunna að taka til varna í kærumáli þessu“.

Varnaraðilarnir Allianz Global Corporate & Specialty AG, Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Brit Insurance Ltd., Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, John Leon Gilbart, Joseph Elmaleh, Julian Michael West, Kelvin Underwriting Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Norman Thomas Rea, Novae Corporate Underwriting Ltd., QBE International Insurance Ltd., QBE Corporate Ltd., Richard Michael Hodgson Read, SCOR Underwriting Ltd. og Sorbietrees Underwriting Ltd. krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Sigurjón Þorvaldur Árnason, Halldór Jón Kristjánsson, Kjartan Gunnarsson, Andri Sveinsson, Þorgeir Baldursson og Jón Þorsteinn Oddleifsson hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að fresta máli sóknaraðilans LBI ehf. gegn öðrum málsaðilum til þinghalds, sem háð yrði 18. september 2017 klukkan 13.15.  Af fyrrgreindum dómkröfum sóknaraðila er ljóst að þau leita ekki með kærum sínum úrlausnar um að ákvörðun héraðsdóms um að fresta málinu verði með öllu felld úr gildi. Hvorki verður á hinn bóginn ráðið af þessum dómkröfum né málatilbúnaði sóknaraðila að öðru leyti hvort málskot þeirra hafi að markmiði að fresturinn, sem ákveðinn var, verði lengdur eða hann styttur, en ófært er að ákveða með dómi án nánari tilgreiningar „hæfilegan frest til að ljúka gagnaöflun í málinu“. Þegar af þessum sökum er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá Hæstarétti.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kærumálskostnað.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 27. júní 2017

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17., 18. og 23. janúar 2012. Stefnandi er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór J. Kristjánsson, sagður óstaðsettur í hús í Kanada, Kjartan Gunnarsson, Starhaga 4, Reykjavík, Andri Sveinsson, sagður óstaðsettur í hús í Englandi, Þorgeir Baldursson, Stórahjalla 5, Kópavogi, Svafa Grönfeldt, sögð óstaðsett í hús í Bandaríkjunum og Jón Þorsteinn Oddleifsson, Krossakri 6, Garðabæ. Þá er stefnt Brit Insurance Ltd., 55 Bishopsgate, London, Stóra-Bretlandi og 24 öðrum nafngreindum vátryggjendum með lögheimili í Bretlandi og Þýskalandi.

Við fyrirtöku málsins 6. júní sl. var af hálfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. óskað eftir frestun málsins í því skyni að leggja fram beiðni um afhendingu gagna í þágu matsgerðar sem unnið er að að beiðni þessara stefndu. Af hálfu stefndu Svöfu var af þessu tilefni ítrekuð krafa sem sett hafði verið fram í þinghaldi 16. desember sl. um að synjað yrði um frekari fresti í málinu og aðalmeðferð ákveðin. Af hálfu stefnanda, stefnda Sigurjóns, stefnda Halldórs og stefnda Jóns var tekið undir kröfuna. Í þinghaldi 27. júní sl. var aðilum gefinn kostur á munnlegum athugasemdum um fyrirliggjandi ágreining um frestun málsins. Við þá fyrirtöku ítrekuðu framangreindir aðilar mótmæli sín við frekari frestun málsins og kröfu um að aðalmeðferð málsins yrði ákveðin, þó þannig að ef í þinghaldinu yrði fallist á framlagningu tiltekinna gagna af hálfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. yrði, áður en kæmi að aðalmeðferð, veittur stuttur frestur til að taka afstöðu til gagnanna. Af hálfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. var þess hins vegar krafist að veittur yrði frestur í málinu þar til matsgerð dómkvaddra matsmanna lægi fyrir, en ella yrði málinu frestað um sinn. Ágreiningur aðila var tekinn til úrskurðar að loknum munnlegum athugasemdum lögmanna aðila og í sama þinghaldi kveðinn upp úrskurður án skriflegra forsendna samkvæmt heimild í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 8. gr. laga nr. 78/2015. Er þessi skriflegi úrskurður saminn 10. júní 2017, vegna kæru úrskurðarins til Hæstaréttar Íslands, sem barst dóminum þann dag.

Niðurstaða

Með dómi Hæstaréttar Íslands 13. mars sl. í máli nr. 43/2017 var felldur úr gildi úrskurður dómsins, þar sem Landsbankanum hf. var gert skylt að veita dómkvöddum matsmönnum, Jóhanni Unnsteinssyni löggiltum endurskoðanda og Margréti Pétursdóttur löggiltum endurskoðanda, aðgang að tilteknum gögnum og upplýsingum í þágu mats sem heimilað var með úrskurði 14. mars 2014 og staðfestur var með dómi Hæstaréttar 29. apríl þess árs. Fyrir liggur að matsmenn hafa talið téð gögn og upplýsingar nauðsynlegar til að ljúka matinu. Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., sem óskuðu eftir matinu, hafa lýst því yfir fyrir dóminum að þeir hyggist nú leggja fram, í ljósi forsendna hæstaréttardómsins 13. mars sl., nýja beiðni um afhendingu gagna, nú á grundvelli 67. til 69. gr. laga nr. 91/1991, í því skyni að matsmenn fái afhent þau gögn og þær upplýsingar sem þeir telja nauðsynlegar til þess að ljúka matsstörfum. Matsmenn hafi hins vegar enn ekki tilgreint um hvaða gögn sé að ræða en von sé á slíkum upplýsingum frá matsmönnum innan fáeinna vikna.

Dómari hefur ítrekað beint þeim tilmælum til stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl, sem matsbeiðenda, sbr. síðast bókun í þinghaldi 16. nóvember 2016, að hraða téðu mati eftir því sem kostur væri og vísað til þess að rúm heimild aðila til öflunar matsgerðar væri háð þeirri forsendu að hin umbeðna sönnunarfærsla leiddi ekki til slíkra tafa á meðferð máls að brotið væri gegn rétti annarra aðila til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Dómari hefur einnig minnt á að í fyrrgreindum úrskurði dómsins 14. mars 2014 komi fram að eðli málsins samkvæmt hljóti matsgerð að takmarkast við þau svör sem unnt er að veita við matsspurningum á grundvelli gagna sem tiltæk eru matsmönnum. Verði engin skylda lögð á matsmenn að afla sjálfir gagna umfram það sem þeir telja eðlilegt eða mögulegt. Kunni því við ákveðnar aðstæður að vera óhjákvæmilegt að ljúka mati án þess að allra hugsanlegra gagna hafi verið aflað auk þess sem niðurstaða matsmanna geti einnig orðið sú að ekki sé unnt að svara tilteknum matsspurningum. Með vísan til 3. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 hefur dómari sömuleiðis beint því til stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. að leggja fram tímaáætlun dómkvaddra matsmanna, eða áætlun sem unnin hafi verið í samráði við þá, um hvernig hægt verði að ljúka matsstörfum sem allra fyrst. Samkvæmt framangreindu getur aldrei komið til álita að fresta málinu ótiltekið, eða þar til matsgerð liggur endanlega fyrir, svo sem stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. hafa gert kröfu um.

Svo sem áður greinir var með áðurgreindum dómi Hæstaréttar 13. mars sl. felldur úr gildi úrskurður dómsins, þar sem fallist var á skyldu Landsbankans hf. til að veita matsmönnum aðgang að tilteknum gögnum og upplýsingum í þágu matsstarfanna. Með vísan til 2. mgr. 102. laga nr. 91/1991, ber við þessar aðstæður að veita stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl., sem matsbeiðendum, hæfilegan frest til þess að leggja fram nýja beiðni um afhendingu gagna og ljúka þar með endanlega gagnaöflun í þágu matsmálsins. Er frestun málsins við þessar aðstæður í samræmi við forræði aðila á sakarefninu og jafnræði aðila einkamáls. Verður slík frestun, til ákveðins tíma, því ekki talin óhæfileg eða andstæð þeim grundvallarréttindum annarra málsaðila sem áður ræðir. Þá liggur fyrir að í þinghaldi 6. júní sl. voru lagðar fram matsgerðir af hálfu annarra aðila sem stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. eiga rétt á að fá að taka afstöðu til innan sanngjarns frests samkvæmt fyrrgreindum meginreglum réttarfars og langri venju við meðferð einkamála í héraði. Að lokum er fram komið að stefnandi hefur áskilið sér rétt til þess að bregðast við áskorun stefndu Andra og Kjartans um framlagningu gagna og hafa þessir aðila því ekki að fullu lokið gagnaöflun. Er málinu því frestað af öllum framangreindum ástæðum til þess tíma sem fram kemur í úrskurðarorði.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er frestað til þinghalds 18. september nk. kl. 13.15 í dómhúsinu við Lækjartorg, dómsal 401.