Hæstiréttur íslands

Mál nr. 133/2015


Lykilorð

  • Höfundarréttur


                                     

Fimmtudaginn 15. október 2015.

Nr. 133/2015.

Gunnar Stefánsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar

(Ástráður Haraldsson hrl.)

Höfundarréttur.

G höfðaði mál á hendur S og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu S vegna óheimillar og endurgjaldslausrar notkunar hans á gagnagrunni úr bókhaldsforriti G við innheimtu S á höfundarréttargjöldum. Einnig krafðist G miskabóta. Taldi G sig eiga höfundarrétt að umræddum gagnagrunni á grundvelli ákvæða höfundalaga nr. 73/1972. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af þeim gögnum sem lögð hefðu verið fram í málinu og G kvað sýna efnisatriði í gagnagrunninum yrði ekki ráðið hvort hann uppfyllti skilyrði til þess að geta talist gagnagrunnur sem nyti verndar af höfundarrétti í skilningi 4. mgr. 6. gr. höfundalaga og hefði G ekki leitað matsgerðar dómkvadds manns eða annarra gagna til að axla þá sönnunarbyrði sem hann bæri fyrir því. Var S því sýknað af kröfum G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. febrúar 2015. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna óheimillar og endurgjaldslausrar notkunar hans á gagnagrunni úr bókhaldsforriti áfrýjanda við innheimtu stefnda á höfundarréttargjöldum. Einnig krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. janúar 2010 til 17. janúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í héraðsdómi réð áfrýjandi sig til starfa hjá stefnda árið 1978 og vann hjá honum til 2012. Fólst starf áfrýjanda í því að innheimta höfundarréttargjöld til stefnda. Stefndi innheimti jafnframt gjöld fyrir Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda og annaðist áfrýjandi einnig þá innheimtu. Fram til ársins 1986 fór um störf áfrýjanda í þágu stefnda eftir munnlegum samningi, en 23. október það ár og 31. maí 1987 gerðu þeir skriflega samninga um þetta efni. Með samningi 20. nóvember 1992 var áfrýjandi ráðinn í stöðu markaðs- og innheimtustjóra hjá stefnda og átti áfrýjandi að heyra í því starfi beint undir framkvæmdastjóra stefnda. Samkvæmt samningnum fékk áfrýjandi greidda tiltekna fjárhæð í föst mánaðarlaun fyrir að stýra innheimtunni auk þess sem hann fékk í sinn hlut tiltekið hlutfall af þeim gjöldum sem hann innheimti, svo sem verið hafði allt frá því að hann hóf störf hjá stefnda, en áfrýjandi átti á hinn bóginn að bera allan kostnað af þeirri innheimtu. Stefndi skyldi greiða lífeyrissjóðsiðgjöld og launatengd gjöld af föstum mánaðarlaunum áfrýjanda. Þá var kveðið á um að áfrýjandi ætti að öðru leyti að njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og opinberir starfsmenn.

Aðilar gerðu 24. ágúst 2010 með sér starfslokasamning, þar sem kveðið var á um að áfrýjandi myndi starfa frá 1. september það ár til 30. apríl 2011 sem ráðgefandi markaðs- og innheimtustjóri og halda óbreyttum mánaðarlaunum þann tíma. Voru verkefni hans skilgreind þannig að hann myndi setja eftirmann sinn inn í starfið og vera honum til aðstoðar eftir því sem þörf krefði. Þá myndi áfrýjandi, án sérstaks endurgjalds, setja eftirmann sinn inn í innheimtu þegar stefndi tæki hana í sínar hendur. Í samningnum var og kveðið á um að þrátt fyrir að áfrýjandi léti af störfum sem markaðs- og innheimtustjóri myndi hann sjá um innheimtu höfundarréttargjalda fyrir stefnda og Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda utan höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands eystra til 31. desember 2012, en sú innheimta myndi færast til stefnda 1. janúar 2013. Þá sagði jafnframt að áfrýjandi skyldi á gildistíma samningsins fá í sinn hlut tiltekið hlutfall af höfundarréttargjöldum, sem hann innheimti, en í samningnum var þess ekki getið að áfrýjandi ætti rétt á greiðslu fyrir notkun á gagnagrunni úr bókhaldsforriti við innheimtu stefnda á höfundarréttargjöldum.

II

Í málinu liggja fyrir innheimtuskilagreinar áfrýjanda fyrir árin 2010, 2011 og 2012, en þar koma fram nöfn gjaldenda og fjárhæð greiðslna. Þá eru í málinu gögn, sem áfrýjandi mun hafa sent stefnda í rafrænum búningi 1. september 2010 og 5. september 2012 og hafa að geyma ítarlegri upplýsingar um innheimtuna og þá gjaldendur, sem stefndi tók við innheimtu hjá við starfslok áfrýjanda. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda felst gagnagrunnurinn, sem hann telur til höfundarréttar yfir, í því gagnasafni sem hér um ræðir. Öðrum gögnum um bókhaldsforrit það og gagnagrunn, sem dómkröfur áfrýjanda snúa að, er ekki til að dreifa í málinu.

Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 1. gr. laga nr. 60/2000, telst gagnagrunnur, sem höfundarréttur er veittur fyrir með 3. mgr. sömu lagagreinar, vera safn sjálfstæðra verka, upplýsinga eða annarra efnisatriða sem komið er fyrir með skipulegum eða kerfisbundnum hætti og eru aðgengileg með rafrænum hætti eða öðrum aðferðum. Stefndi hefur andmælt að þessum skilyrðum sé fullnægt til þess að áfrýjandi geti notið höfundarréttar yfir þeim gagnagrunni úr bókhaldsforriti, sem málið varðar. Af fyrrgreindum gögnum, sem áfrýjandi kveður sýna efnisatriði í gagnagrunninum, verður ekki ráðið hvort hann fullnægi þeim skilyrðum, sem sett eru í 4. mgr. 6. gr. höfundalaga, og hefur áfrýjandi ekki leitað matsgerðar dómkvadds manns eða annarra gagna til að axla þá sönnunarbyrði, sem hann ber fyrir því. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2014.

                Mál þetta höfðaði Gunnar Stefánsson, Lundi 1, Kópavogi, með stefnu birtri 12. desember 2013 á hendur Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), Laufásvegi 40, Reykjavík.  Málið var dómtekið 11. nóvember sl. 

                Stefnandi gerir þessar kröfur:

                Að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart stefnanda vegna óheimillar og endurgjaldslausrar notkunar hans á gagnagrunni úr bókhaldsforriti stefnanda við innheimtu  á höfundarréttargjöldum. 

                Að stefndi verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. janúar 2010 til 17. janúar 2014 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

                Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. 

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar. 

                Stefndi, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, eru höfundarréttar­samtök sem gæta hagsmuna innlendra og erlendra rétthafa tónverka.  Stefndi nýtur viðurkenningar samkvæmt 23. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. auglýsingu nr. 215/1996.  Hefur stefndi rétt til almennrar innheimtu gjalda fyrir flutningsrétt.  Gjald­skrá stefnda er gefin út sem reglur menntamálaráðuneytisins nr. 101/1993 og er hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.  SFH eru innheimtusamtök tónlistarflytjenda og hljómplötuframleiðenda, sem voru stofnuð samkvæmt heimild í 47. gr. höfundalaga.  Stefndi innheimtir gjöld fyrir SFH samhliða sinni eigin innheimtu. 

                Fé því sem stefndi innheimtir er úthlutað til rétthafa hér á landi og erlendis í samræmi við skýrslur um tónlistarnotkun. 

                Stefnandi hóf að vinna fyrir stefnda við innheimtur á árinu 1978 og starfaði við það sleitulaust fram á árið 2012.  Í byrjun var hann ráðinn með munnlegum samningi, en gengið var frá skriflegum samningi á árinu 1986.  Stefnandi sá um uppgjör við gjaldendur og hafði að talsverðu leyti frjálsar hendur við störf sín.  Hann gekk frá skilagrein einu sinni á ári, en innheimt fé var lagt inn á reikning hjá Póstgíróstofunni framan af.  Þóknun stefnanda var 25% af innheimtu fé, en hann greiddi allan kostnað sjálfur. 

                Stefnandi kveðst frá byrjun hafa talið innheimtuþóknun sína fram til skatts sem verktakagreiðslur.  Í kjölfar athugunar skattyfirvalda og kröfu þeirra um að stefnandi greiddi söluskatt af innheimtuþóknun sinni var uppgjörsaðferð breytt frá og með árinu 1990.  Hafi þá verið gengið svo frá greiðslum til stefnanda að þær voru skráðar í gegnum launakerfi stefnda.  Stefnandi segir að þrátt fyrir þetta hafi eðli innheimtunnar ekki breyst.  Hafi verið gripið til þessa ráðs þar sem framkvæmdastjóri stefnda hafi ekki viljað greiða söluskatt til viðbótar innheimtuþóknun stefnanda.  Með þessu fyrir­komulagi hafi hann haft stöðu launamanns gagnvart skattyfirvöldum. 

                Á árinu 1992 varð breyting á stöðu stefnanda gagnvart stefnda.  Hann var ráðinn í stöðu sem hét markaðs- og innheimtustjóri.  Í því starfi stýrði hann og sá um innheimtu höfundarréttargjalda fyrir stefnda á höfuðborgarsvæðinu, með nokkrum undantekningum, undir yfirstjórn framkvæmdastjóra.  Fékk hann föst mánaðarlaun sem voru tiltölulega lág.  Innheimtu utan höfuðborgarsvæðisins hélt stefnandi áfram á sama hátt og áður og fékk áfram tiltekið hlutfall af innheimtu fé í þóknun.  Greiðslur til stefnanda voru áfram afgreiddar eins og launagreiðslur með frádráttarliðum í gegnum launakerfi stefnda. 

                Í skriflegum starfssamningi, dags. 20. nóvember 1992, er fjallað bæði um vinnu þá sem fólst í hinu nýja starfi stefnanda, og innheimtu þá sem hann hafði haft með höndum og sinnti áfram.  Í málatilbúnaði stefnanda er byggt á því að eldri samningurinn, dags. 23. október 1986, gilti áfram um þann þátt við hlið nýja samningsins.  Í skýrslu sinni lýsti Eiríkur Tómasson, sem var framkvæmdastjóri stefnda á árinu 1992, þeirri skoðun sinni að samningurinn frá 1992 hefði komið að öllu leyti í stað samningsins frá 1986. 

                Í stefnu segir að stefnandi hafi á árinu 1984 sótt nám í forritun og hannað í framhaldi af því sérstakt bókhaldsforrit til þess að halda utan um þá aðila sem greiddu gjöld til stefnda og SFH og reikningagerð.  Þetta hafi hann gert á eigin kostnað.  Hann hafi tekið forritið í notkun 1985 og unnið stöðugt að endurbótum á því fram til þess að hann hætti störfum hjá stefnda. 

                Á þessum tíma hafi orðið til stór gagnagrunnur í bókhaldsforritinu með ítarlegum upplýsingum um greiðendur gjaldanna, sem hafi gert starfið auðveldara og skilvirkara.  Forritið og gagnagrunnurinn séu afrakstur mikillar vinnu stefnanda við þróun og útfærslur gagnagrunnsins og mikils kostnaðar við að afla ítarlegra upplýsinga um notendur tónlistar á þeim svæðum sem stefnandi aflaði upplýsinga um, færa upplýsingarnar í gagnagrunninn og viðhalda þeim þar.  Bókhaldsforritið sé skrifað upp úr gagnagrunnsforritinu „Database“. Unnt sé að keyra upplýsingar úr for­ritinu í ýmiss konar formi, m.a. í formi excel-skjala. 

                Stefnandi kveðst hafa selt stefnda afnotarétt af hluta forritsins árið 1991, til þess að hann gæti sjálfur útbúið gagnagrunn um þá viðskiptamenn sem hann innheimti hjá og sent þeim reikninga byggða á sínum gagnagrunni.  Stefndi hafi notað forritið um árabil uns hann fjárfesti í öðru viðskiptamannaforriti. 

                Í aðilaskýrslu sinni lýsti stefnandi forriti þessu og gagnagrunni nánar.  Í gagna­grunninum væri mikið magn upplýsinga, um viðskiptamenn og hvernig reikninga eigi að senda út.  Þá væru í honum athugasemdir um viðskiptavini, hvernig ætti að stíla reikning, stærð staðar og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar væru til að reikna gjaldið.  Þá hefðu verið upplýsingar í gagnagrunninum um hvernig ætti að reikna SFH-gjaldið. 

                Í janúar 2010 óskaði stefnandi eftir því að hætta störfum.  Hófust þá viðræður aðila um skil stefnanda á upplýsingum úr gagnagrunninum.  Stefnandi kveðst hafa óskað eftir því að fá greitt fyrir upplýsingarnar sem voru geymdar í gagnagrunninum.  Stefndi taldi þær hins vegar vera sína eign.  Deildu aðilar um þetta nokkuð lengi og kom til ýmissa árekstra milli þeirra vegna þessa.  Þarf ekki að rekja öll þau atvik í dóminum.  Loks gerðu aðilar með sér starfslokasamning, dags. 24. ágúst 2010, og lét stefnandi af störfum í áföngum í framhaldi af því.  Þann 1. september 2010 afhenti stefnandi stefnda upplýsingar um þær verslanir á höfuðborgarsvæðinu sem hann inn­heimti höfundarréttargjald af.  Upplýsingar um aðila á landsbyggðinni sem hann inn­heimti hjá afhenti stefnandi í september 2012. 

                Í starfslokasamningnum er ekki vikið einu orði að gagnagrunninum eða öðrum gögnum í vörslu stefnanda.  Stefnandi segir að því hafi vísvitandi verið frestað að ljúka þeim ágreiningi, en hann hafi enn verið til staðar.  Stefnandi skrifaði stefnda bréf, dags. 25. september 2012, þar sem hann ítrekar að hann telji sig eiga „rétt til þóknunar fyrir upplýsingarnar“.  Í bréfinu sagði jafnframt að skrá sú um greiðendur á landsbyggðinni sem hann hefði afhent stefnda í byrjun september væri röng og ónot­hæf.  Yrði leiðrétt skrá ekki afhent fyrr en samið hefði verið um greiðslu.  Nokkrum dögum síðar afhenti stefndi þó leiðrétta skrá, en ítrekaði kröfu um greiðslu. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir kröfur sínar aðallega á því að bæði bókhaldsforritið og gagnagrunnur þess teljist höfundarverk í skilningi höfundalaga nr. 73/1972 með síðari breytingum og að hann njóti höfundarverndar samkvæmt ákvæðum laganna.  Vísar hann til 4. mgr. 1. gr., 1. mgr., sbr. 3. og 4. mgr. 6. gr., sbr. 1.gr. laganna.  Heimild stefnda til að nota gagnagrunninn hafi verið bundin því skilyrði að hann greiddi fyrir afnotin.  Byggir stefnandi aðallega á því, að um gagnagrunninn fari eftir 3. og 4. mgr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna að því leyti að samsetning og niðurröðun gagnagrunnsins fullnægi almennum skilyrðum fyrir höfundarréttarvernd.  Hann hafi að geyma mikið magn upplýsinga og sé árangur verulegra fjárfestinga sem stefnandi hafi kostað.  Teljist hann óumdeilanlega gagnagrunnur í skilningi laganna.  Þá sé fullnægt skil­yrðum sem talin séu í 6. gr. laganna, þetta sé ekki handahófskennt samansafn, heldur sé gagnagrunnurinn árangur sjálfstæðrar, andlegrar starfsemi.  Þetta eigi ekki einungis við um framsetningu upplýsinganna, heldur einnig hvaða gagna hafi verið aflað um gjaldendur og í hvaða formi þau hafi verið skráð ásamt viðbótarupplýsingum.  Hönnun og uppsetning gagnagrunnsins sé höfundarverk stefnanda.  Sú vinna sem stefnandi hafi sinnt síðan 1978 sé krefjandi og skapandi, unnin í þeirri viðleitni, að finna stefnda nýja tekjustofna.  Vegna þessa verði að telja að stefnandi njóti höfundar­réttar yfir gagnagrunninum.  Stefnandi eigi höfundarréttinn þar sem hann, hvorki sem launamaður verktaki, hafi verið ráðinn til að útbúa gagnagrunn fyrir samtökin sbr. 42.gr. b. höfundalaga sbr. 11.gr. laga nr. 57/1992. 

                Jafnframt byggir stefnandi á því að um gagnagrunninn gildi 50. gr. höfunda­laga, sbr. 10. gr. laga nr. 60/2000, vegna umfangs hans og kostnaðar við gerð hans og öflunar upplýsinga.  Meðhöndlun stefnda brjóti í bága við einkarétt stefnanda til eintakagerðar eða birtingar hans.  Þessari hagnýtingu gagnagrunnsins lýsi stefndi sjálfur í ársskýrslum sínum fyrir árin 2010, 2011 og 2012.  Bæði útgáfa reikninga á grundvelli gagnagrunnsins og innleiðing hans í sölukerfi brjóti gegn einkarétti stefnanda. 

                Stefnandi segir að réttur sinn sé réttur framleiðanda gagnagrunns samhliða rétti höfundar, sbr. lokamálslið 3. mgr. 6. gr. höfundalaga.  Þá sé verndin enn í gildi, sbr. 6. mgr. 63. gr. höfundalaga og 15. gr. laga nr. 60/2000. 

                Til vara kveðst stefnandi byggja á því að hann sé eigandi gagnagrunnsins og eigi samkvæmt almennum reglum eigna- og kröfuréttar ekki að þurfa að þola nýtingu stefnda á honum endurgjaldslaust. 

                Stefnandi áréttar að hann hafi á öllum stigum áskilið sér endugjald fyrir réttindi sín.  Stefndi hafi notfært sér gagnagrunninn um nokkurra ára skeið við inn­heimtu sína, án þess að greiða fyrir notin. 

                Stefnandi krefst miskabóta samkvæmt 3. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 12.gr. laga nr. 93/2010.  Krefst hann 2.000.000 króna í bætur.  Kveðst hann þá hafa hliðsjón af framgöngu stefnda gagnvart áralangri viðleitni stefnanda við að tryggja starfsemi og rekstur stefnda, bæði fyrir og eftir starfslok, auk þess sem hann hafi boðið sættir. 

                Stefnandi vísar til áðurgreindra ákvæða höfundalaga.  Um heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfu vísar hann til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi hannað sérstakt bókhaldsforrit eins og hann haldi fram.  Slíkt forrit hafi hann aldrei fengið í hendur.  Upplýsingar þær sem stefnandi hafi lagt fram sé einfaldur listi með nöfnum greiðenda og fjárhæð greiðslna.  Þá hafi hann afhent skilagreinar þar sem fram komi ítarlegri upplýsingar en á hinum árlegu innheimtuskilagreinum.  Þar komi fram nöfn fyrirsvarsmanna, heimilisföng og kennitölur. Auk þess séu þar upplýsingar um afdrif rekstrareininga og fyrri innheimtu hjá aðilum sem hættir séu rekstri. 

                Stefndi segir að skilagreinar sem stefndi hafi lagt fram séu ekki bókhaldsforrit.  Um sé að ræða einfalda lista úr töflureikninum excel.  Stefndi kveðst hafa notað bókhaldskerfið Navision til að halda utan um alla innheimtu eftir að stefnandi hætti störfum.  Hann hafi aldrei fengið í hendur eða hagnýtt sér tölvuforrit úr eigu eða fórum stefnanda.  Kveðst hann raunar telja að ekki hafi verið til að dreifa forriti sem gæti verið háð höfundarrétti samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972. 

                Stefndi telur að kerfisbundin skráning stefnanda á upplýsingum sé ekki gagna­grunur í skilningi 6. gr. höfundalaga, sbr. og 50. gr.  Skilyrðum 4. mgr. 6. gr. sé ekki fullnægt.  Einföld skilagrein innheimtumanns til atvinnurekanda síns feli ekki í sér frumlega sköpun eða sjálfstæða fjárfestingu. 

                Þá telur stefndi að hann eigandi umrædds gagnagrunns, en ekki stefnandi.  Hann hafi tekið á sig alla fjárhagslega áhættu við gerð hans, en ekkert fjárframleg hafi komið frá stefnanda og hann ekki borið neina áhættu.  Í það minnsta kveðst stefndi vera framleiðandi gagnagrunnsins. 

                Stefndi byggir á því að stefnandi hafi verið starfsmaður hans.  Þótt hluti launa hans hafi verið árangurstengdur hafi samband aðila haft öll megineinkenni venjulegs ráðningarsamnings.  Stefnandi hafi haft fastan viðverutíma á skrifstofunni einu sinni í viku.  Þá hafi stefndi greitt lífeyrissjóðsiðgjald og skilað staðgreiðslu og launatengdum gjöldum af öllum launum stefnanda.  Stefnandi hafi unnið á ábyrgð stefnda, gefið út reikninga í nafni stefnda og greiðslur hafi runnið inn á reikning á nafni stefnda.  Stefnandi geti ekki átt eignarrétt að afrakstri þeirrar vinnu sem honum hafi verið greitt fyrir að sinna. 

                Stefndi segir það meginreglu í vinnurétti að vinnuveitandi eignist afrakstur vinnu starfsmanna sinna.  Skrár, töflur og eyðublöð njóti sem slík ekki höfundarréttar­verndar, meira þurfi að koma til, sbr. 50. gr. höfundalaga.  Excel-skrá stefnanda hafi eingöngu verið upptalning viðskiptavina. 

                Þótt talið yrði að stefnandi hafi skapað verk þá hafi það verið starfsskylda hans að safna þessum upplýsingum saman í þeim tilgangi að unnt væri að innheimta höfundarréttargjöld.  Því liggi það í hlutarins eðli að hann hafi ekki eignast þessar upplýsingar.  Upplýsingar þær sem hann afhenti hafi ekki verið annað en skilagrein í þágu stefnda, unnin í samræmi við vinnuskyldur stefnanda.  Því sé honum heimil notkun þeirra án endurgjalds til stefnanda. 

                Stefndi vísar til starfslokasamnings aðila.  Þar komi fram að stefnandi muni, án sérstaks endurgjalds, setja eftirmann sinn inn í innheimtu utan höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands eystra þegar hún færðist til stefnda.  Eftir undirritun þessa samnings með ákvæði um að ekki skuli greitt fyrir yfirfærslu innheimtunnar, geti stefnandi ekki farið fram á greiðslu.  Þá felist í starfslokasamningi að samningssambandi sé slitið, nema annað sé tekið fram. 

                Yrði fallist á að stefnandi hafi átt rétt til greiðslu, byggir stefndi á því að hann hafi glatast fyrir tómlæti. 

                Stefndi mótmælir því að rætt hafi verið um greiðslu fyrir upplýsingarnar við gerð starfslokasamningsins.  Þá hafi stefnandi ekki gert neinn fyrirvara þegar hann afhenti gögnin. 

                Stefndi mótmælir miskabótakröfu.  Engar forsendur séu til að dæma stefnanda slíkar bætur.  Stefndi hafi í engu misgert við stefnanda. 

                Stefnandi vísar til almennra reglna höfundarréttar og vinnuréttar og til höfundalaga nr. 73/1972. 

                Niðurstaða

                Stefnandi var lengst af fastur starfsmaður stefnda.  Hann hafði með höndum starf sem var unnið á starfsstöð stefnda og voru honum greidd föst laun sem ekki voru árangurstengd.  Auk þessa sinnti hann innheimtu höfundarréttargjalda á tilteknum landsvæðum, þar sem honum var greitt tiltekið hlutfall af innheimtu fé.  Greiðslan var ekki greidd í formi verktakagreiðslu, heldur voru honum reiknuð laun og launatengd gjöld af þeirri fjárhæð sem honum bar í heild, auk þess sem útlagður kostnaður var dreginn frá.  Skilaði stefndi staðgreiðslu opinberra gjalda og launatengdum gjöldum af þessum hluta greiðslna til stefnanda á sama hátt og af launum starfsmanna.  Aðilar deila um það hvort stefnandi hafi verið verktaki eða launþegi við þetta verkefni. 

                Verkefni stefnanda voru skýrgreind í samningum aðila frá 1986 og 1992.  Í samningnum frá 1986 er fjallað um innheimtu STEF-gjalda á tilteknum landsvæðum.  Í 2. gr. segir að stefnandi skuli sinna innheimtunni af kostgæfni „... og fylgjast með samkomuhaldi og opinberum flutningi tónlistar á ofangreindum svæðum, t.d. með því að ...“  Í samningnum frá 1992 er ekki viðlíka skilgreining, en þar kemur fram að vinnutími er óreglulegur og að stefnandi vinni að hluta til um kvöld og helgar. 

                Samkvæmt þessu átti stefnandi að afla upplýsinga um flutning tónlistar á ýmsum stöðum, þannig að unnt væri að krefja þá um greiðslu, sem með réttu ættu að standa skil á gjaldi fyrir flutning tónlistar.  Kom þetta einnig skýrt fram í aðilaskýrslu stefnanda fyrir dóminum.  Skil hans á skrám um þessa aðila og nauðsynlegum upplýsingum fyrir innheimtuna voru því hluti af því verki sem hann tók að sér og fékk greitt fyrir.  Þarf ekki að leysa úr því hvort réttur höfundar eða annars rétthafa samkvæmt lögum nr. 73/1972 geti hafa stofnast yfir þessum skrám.  Þótt svo væri gæti stefnandi ekki krafið stefnda um þóknun fyrir notkun þeirra sem höfundur, hvort sem hann hefur unnið þær sem verktaki eða starfsmaður.  Þá eru þessar skrár eign stefnda eins og annar afrakstur vinnu. 

                Þar sem stefnandi á ekki nein réttindi samkvæmt höfundalögum yfir um­ræddum gögnum verður stefndi sýknaður af kröfum hans, bæði um viðurkenningu bótaskyldu vegna óheimillar notkunar og miskabótakröfu.  Notkun gagnanna var stefnda heimil. 

                Eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Gunnars Stefánssonar.

                Málskostnaður fellur niður.