Hæstiréttur íslands

Mál nr. 639/2010

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
Vali Hermannssyni (Helgi Birgisson hrl.) og Y (Sigmundur Hannesson hrl.)

Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka


Ávana- og fíkniefni. Upptaka.

V og Y voru sakfelldir fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, með því að hafa staðið að umfangsmikilli ræktun á kannabisplöntum í sölu- og dreifingarskyni og haft í vörslum sínum 493 kannabisplöntur, 2.806,9 g af kannabislaufum og 10,98 g af hassi. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en refsing beggja var ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Sakarferill ákærðu, hvors um sig, auk umfangs og eðlis brotsins voru ekki talin gefa tilefni til þess að skilorðsbinda refsingu þeirra.   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Eggert Óskarsson héraðsdómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2010 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms. 

Ákærði, Valur Hermannsson, krefst þess að refsing hans verði milduð.

Ákærði, Y, krefst þess að refsing hans verði milduð.

Eftir að dómur gekk í héraði gekkst ákærði Y undir tvær lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var ákærða Y skipaður nýr verjandi, Sigmundur Hannesson hæstaréttarlögmaður, í stað Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns. Hafði hinn síðarnefndi þá skilað til Hæstaréttar greinargerð fyrir hönd ákærða.

Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu fundnir sekir um brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með því að hafa, eins og þar segir nánar, staðið að umfangsmikilli ræktun á kannabisplöntum í sölu- og dreifingarskyni. Brot ákærðu varðar við 2. gr., sbr. 4. gr., 5. gr. og 6. gr. laganna. Í héraðsdómi eru rakin þau atriði sem helst skulu hafa áhrif á refsingu ákærðu. Með vísan til þess verður refsing hvors ákærðu um sig ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Þá er fallist á með héraðsdómi að sakarferill ákærðu hvors um sig, umfang og eðli brotsins gefi ekki tilefni til að skilorðsbinda refsingu ákærðu. Ákvæði héraðsdóms um upptöku eru ekki til endurskoðunar og standa þau óröskuð sem og ákvæði um sakarkostnað.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður kostnaður við áfrýjun felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærðu, Valur Hermannsson og Y, sæti hvor um sig fangelsi í 14 mánuði.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Helga Birgissonar 251.000 krónur, Sveins Andra Sveinssonar 125.500 krónur og Sigmundar Hannessonar 188.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. október 2010.

Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 28. maí sl. á hendur Vali Hermannssyni, kt. 021084-3019, Blásölum 14, Kópavogi, Y, kt. […], […] og X 

„fyrir stórfellt brot á lögum um ávana- og fíkniefni

með því að hafa í ágúst 2008 sett upp mjög stóra ræktunaraðstöðu fyrir allt að 500 kannabisplöntur í útihúsi við [...] í [...], [...] og hafa staðið að ólögmætri ræktun á kannabisplöntum allt fram til 23. mars 2009 er lögregla fann ræktunaraðstöðuna við húsleit og fyrir að hafa umrætt sinn haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 493 kannabisplöntur sem samtals vógu 68.313,7 gr, 2.706.9 gr af kannabislaufum og 10,98 g af hassi sem lögregla fann við áðurnefnda húsleit.  

Telst brot ákærðu varða við 2. gr. og 4. gr. a., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og að ákærðu verði gert að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá 15457) sem hald var lagt á, sbr 6. mgr. 5. gr. laga um ávana og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.  Jafnframt er sbr. 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, krafist upptöku á eftirtöldum munum sem notaðir höfðu verið eða ætlaðir voru til ólögmætrar ræktunar kannabisjurta og meðferðar fíknefna og uppsetningar á búnaði til ræktunar fíkniefna, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins:

1.       9 x 20 ltr brúsa af Voeding gróðurvökva

2.       6 x 10 ltr brúsa af Atazyne gróðurvökva

3.       2 x 5 ltr brúsa af Wortel gróðurvökva

4.       2 x 1 ltr brúsa af Ataclean gróðurvökva

5.       1 x 1 ltr brúsa af GHE gróðurvökva

6.       1 brúsa af silicate vökva

7.       8 stk plaströr 5,90 metrar að lengd, hvert

8.       32 stk götuð plaströr 3,71 metrar að lengd, hvert

9.       31 stk plaströr 1,39 metrar að lengd, hvert

10.    12 stk Gatvita hitalampar

11.    1 stór kassi af svörtum plastpottum (um 3000 stykki)

12.     3 stk Flotec FP7KV vatnsdælur

13.    1 stk Top 2 Pedrollo vatnsdælu

14.    2 stk SN-001155 viftur

15.    1 stk Bomann vifta

16.    1 stk Bosch Aquatak dæla

17.    um 10,4 metrar af 6 tommu plastbarka

18.    2 klaufhamrar

19.    1 stk Kaz blásari

20.    1 stk Kassel blásari

21.    36 metra af garðyrkjuslöngum

22.    heimatilbúin rafmagnstafla

23.    1 stk hvítur rafmagnsofn

24.    4 pakkar af grænu rótarneti

25.    1 kassi af rafmagnssnúrum og tengjum

26.    6 slöngubútar

27.    3 stk gráir blásarar með börkum

Þá er þess ennfremur krafist að ákærða Vali verði gert að sæta upptöku á ætluðum hagnaði af fíkniefnasölu, kr. 11.895.000,- og 7.265 evrum að frádregnum kr. 3.747.454,- sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.“

Mál þetta var þingfest 24. júní sl. og kom ákærði Valur þá fyrir dóm ásamt Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hrl., en lögmaðurinn hafði áður verið skipaður verjandi ákærða vegna málsins og fengið afhent gögn þess.  Ákærði Valur játaði sök samkvæmt ákæru og samþykkti upptöku á fíkniefnum, en mótmælti kröfu um upptöku á fjármunum.  Ákærði X kom fyrir dóminn 26. ágúst sl. ásamt Bjarna Haukssyni hrl. og óskaði eftir skipun hans sem verjanda og var lögmaðurinn skipaður til starfans í þinghaldinu.  Ákærði neitaði sök.  Ákærði Y kom fyrir dóminn 9. september sl., óskaði eftir að Brynjar Níelsson hrl. yrði skipaður verjandi sinn og var það gert.  Ákærði Y játaði sök í þinghaldinu og mótmælir ekki kröfu um upptöku á fíkniefnum og búnaði.  Enginn verjenda ákærðu óskaði eftir að leggja fram greinargerð.

Aðalmeðferð málsins fór fram 17. september 2010 og var málið tekið til dóms að henni lokinni.

Verjandi ákærða Vals krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að dæmd fangelsisrefsing verði bundin skilorði.  Þá krefst verjandinn þess að ákærði verði sýknaður af kröfu um upptöku á fjármunum.  Loks krefst verjandi jafnframt hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða Y krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði dæmd skilorðsbundin, auk hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða X krefst þess aðallega að ákæru verði vísað frá vegna ákærða X, en til vara að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds í málinu og til þrautavara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði að öllu leyti bundin skilorði.  Hann krefst þess jafnframt að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði í öllum tilvikum og þar með talin hæfileg málsvarnarlaun.

Málavextir.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu er upphaf máls þessa að rekja til þess að lögreglunni á Selfossi bárust upplýsingar um að hugsanleg framleiðsla fíkniefna í [...] tengdist tiltekinni bifreið, en bifreiðin var skráð á [...] ákærða Vals, en lögregla hafði fengið um það upplýsingar að ákærði Valur tengdist nokkrum ræktunarmálum í Reykjavík.  Þá var lögreglu kunnugt um að ákærði Y hefði verið handtekinn vegna fíkniefnamáls, ásamt ákærða Val, en ákærði Y væri [...] bóndans á [...] í [...], A.  Bifreiðin hefði sést í förum í [...] að koma frá [...]. 

Hafi lögregla farið að ræða við A á [...] 25. mars 2009 og hafi hann strax kannast við bifreiðina og að hún hefði komið þar, en þá hefðu komið á henni ákærðu Valur og Y.  Þeir hefðu farið í skemmu sem A hefði leigt til ákærðu Y og X.  Hafi A strax kvaðst átta sig á komu lögreglumannanna og í beinu framhaldi af þeim orðum vísað lögreglu á aðstöðu sem ákærðu X og Y hafi haft á leigu hjá honum frá því síðla sumars 2008.  A hafi ekki kvaðst vita hvað væri þar inni, en teldi það ekki vera lögum samkvæmt.  Hafi A vísað lögreglu á vélageymslu og lokað rými þar inn af og hafi þar verið mikið af kannabisplöntum.  Kemur fram í frumskýrslu að A hafi tjáð lögreglu á vettvangi að ákærðu Y og X hafi komið að máli við hann fyrir nokkru síðan og hafi þeir sagst ætla að sinna þar einhverskonar smíðaverkefni fyrir C, en ákærði Y ynni þar.  Nokkru síðar hafi ákærði Valur komið þarna og hafi ákærði Y sagt að hann væri smiður og myndi aðstoða við smíðina.  Þetta hafi verið síðsumars 2008.

Við leit lögreglu í umræddri vélageymslu fundust 496 kannabisplöntur, alls 68.313,7 g, 2.706,9 g af kannabislaufum og 10,98 g af hassi.  Var lagt hald á kannabisplönturnar og fíkniefnin.  Var ein plantnanna send rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði til greiningar og var plantan græn og blómstrandi.  Vóg plantan 841,4 g við komu á rannsóknarstofuna, en eftir þurrkun 187,6 g.  Magn tetrahýdrókannabínóls í plöntunni mældist 78mg/g eftir þurrkun, sem samsvarar 17mg/g fyrir þurrkun skv. matsgerð rannsóknarstofunnar.

Við rannsókn málsins var gerð leit í bankahólfi ákærða Vals og fundust þar í íslenskum seðlum kr. 11.827.000 og 7.265 evrur í seðlum.  Var lagt hald á féð.  Þá fundust við leit á heimili ákærða Vals 68.000 kr. í íslenskri mynt.  Var jafnframt lagt hald á það.

Ákærði Valur gaf tvívegis framburðarskýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins.  Í fyrri skýrslu kannaðist ákærði Valur við að hann ætti aðild að málinu.  Kvað hann ræktunina hafa hafist haustið 2008 en þá hafi þeir hafist handa við að útbúa aðstöðuna.  [...] hafi orðið fyrir valinu þar sem A ætti heima þar.  Þá er bókað eftir ákærða „Þá var X einnig með okkur í þessu. En engir aðrir.“  Það sem þurft hafi til hafi þeir keypt í versluninni [...] og lamparnir hafi verið keyptir í versluninni [...] og líklega hafi meðákærði Y keypt þá.  Kvaðst ákærði Valur sjálfur hafa lagt til fræ.  Þeir hafi séð um ræktunina hann sjálfur og meðákærðu Y og X, þeir hafi sjálfir séð um uppskeru en neitaði að svara hve oft hafi verið uppskorið, en þeir hafi þrír átt að fá það sem fengist út úr ræktuninni.  Í sömu skýrslu er haft eftir ákærða að það hafi verið farið að styttast í fyrstu uppskeru.  Þeir hafi átt að greiða eitthvað fyrir aðstöðuna en meðákærði Y hafi séð um að semja um það við A, en A hafi ekkert vitað hvað hafi verið í gangi.  Allir þrír ákærðu hafi verið með lykil að húsnæðinu og engir aðrir.  Síðast hafi ákærði komið á vettvang um mánuði fyrir handtöku en þá hafi þeir komið þrír saman, ákærði sjálfur og meðákærðu Y og X, en ákærða minnti að þeir hefðu farið á bifreið meðákærða X.  Allir hafi þeir haft kunnáttu á þessu sviði.  Kvað ákærði að þeir ættu saman þrír allan búnað sem lagt var hald á.  Þá kom fram hjá ákærða að hann hafi verið duglegur að vinna og leggja fyrir en þó hafi fé hans verið á þrotum. 

Aftur gaf ákærði Valur skýrslu hjá lögreglu, en þá var honum kynnt að lögregla hefði lagt hald á framangreint fé í bankahólfi hans.  Kvað hann D eiga a.m.k. 5 milljónir af því fé, en hitt væri fé sem ákærði hefði sankað að sér gegnum árin með alls kyns braski, fjárhættuspilum og fleiru. Ákærði þverneitaði því að féð tengdist umræddri kannabisræktun á nokkurn handa máta.  Þá tók ákærði fram í skýrslunni að hlutur meðákærða X væri mjög lítill og mikið minni en hlutdeild hans sjálfs og meðákærða Y.

Ákærði Y var einu sinni yfirheyrður af lögreglu undir rannsókn málsins.  Kom fram hjá honum að hann væri saklaus af því að eiga ræktunina en hann hefði komið að því að setja upp búnaðinn og leigja húsnæðið og hann hafi vitað til hvers hafi átt að nota húsnæðið.  Kvaðst síðast hafa komið að [...] tveimur til þremur vikum fyrir skýrslutökuna, en þá hafi hann verið að leika sér á fjórhjóli og hafi jafnframt kíkt á ræktunina.  Meðákærði X hafi nokkrum sinnum komið að [...] þá um veturinn.  Ákærði Y bar að hann hafði fengið lánaða skemmuna og hana hafi átt að nota til ræktunarinnar.  Ákærði kannaðist við að hafa nokkrum sinnum komið í húsið sem ræktunin var í og séð plönturnar, en vildi ekki tjá sig um hverjir aðrir hefðu þá verið þar.  Ákærði bar að hann hefði komið á sendibíl með timbur sem notað var við að koma upp aðstöðunni, en annað myndi hann ekki hver hefði komið með.  Ákærði hafi svo komið að því með meðákærðu Val og X að bera inn það sem notað var til að setja upp ræktunina og hann hafi jafnframt komið að því að setja upp búnaðinn.  Hann hafi gert sér grein fyrir hvað átti að gera þarna, en hann hafi verið beðinn um að aðstoða við þetta.  Ákærði neitaði að hafa keypt lampana sem hefðu verið notaðir við ræktunina.  Ákærði bar að ekki hefði verið rætt um skiptingu ágóða af ræktuninni en að hann hefði átt að fá einhverja peninga út úr henni, en það hafi ekki orðið ennþá.  Ákærði bar að hann hefði hvorki séð uppskeru úr ræktuninni né vissi til þess að tekin hefði verið uppskera úr ræktuninni.  Ákærði bar að hann hefði nokkrum sinnum vökvað plönturnar en að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um verkaskiptingu.  Engan kostnað kvaðst ákærði hafa lagt í ræktunina nema ef vera skyldi eldsneytiskostnað við að flytja aðföngin að [...].  Um aðild meðákærðu Vals og X vildi ákærði Y ekki tjá sig við lögreglu.

Af ákærða X var tekin ein framburðarskýrsla undir rannsókn málsins.  Ákærði kannaðist ekkert við ræktun á kannabisplöntum.  Hann hefði komið þangað þar sem A ætti staðinn og hefði hann stundum farið þangað til að leika sér á fjórhjóli í fjörunni þar.  Síðast hefði ákærði komið að [...] í ágúst 2008 og þá í þeim tilgangi að fara á fjórhjól eða „krossara“.  Kvaðst ákærði vita hver væri meðákærði Valur, en hann væri ekki vinur sinn.  Aðspurður kannaðist ákærði við að hafa hjálpað meðákærðu að bera timbur í skemmu þegar hann hefði verið að [...] í ágúst 2008 í framangreindri heimsókn sinni til að aka fjórhjóli, en sá hafi ekki verið tilgangur heimsóknar sinnar og hann hafi ekki haft hugmynd um til hvers timbrið væri ætlað.  Ákærði kvaðst vera á skilorði og vildi ekki koma nálægt neinu í þessa veru.  Ákærði neitaði því að hann hefði falast eftir að fá húsnæðið leigt eða falast eftir áframhaldandi leigu.

Undir rannsókn málsins voru teknar vitnaskýrslur af A, [...], og D.  Hjá vitninu A kom fram að ákærði Y hefði lýst á huga á því síðla sumars 2008 að fá, ásamt ákærða X, leigt hjá vitninu húsnæði.  Hafi ákærði Y sagt þá ætla að smíða þar fyrir C.  Þeir hafi komið um haustið nokkrum sinnum, m.a. með timbur og verkfæri, en hann hafi ekki mikið hitt þá.  Vitnið bar að hafa fengið að vita að ákærði Valur væri með þeim í þessu líka.  Vitnið Daría bar að hún og ákærði Valur hefðu átt peningana sem hald var lagt á í bankahólfinu, en hennar hluti hefði verið fimm milljónir og megnið af því hefði verið tryggingafé vegna slyss.  Þau hafi viljað geyma peningana sína í bankahólfi vegna vantrausts á bönkum eftir fall bankanna haustið 2008.  Um tilurð þeirra peninga sem tilheyrðu ákærða Val bar vitnið að ákærði Valur hefði unnið mjög mikið, m.a. við hellulagnir og þ.u.l. og ýmsa verktakavinnu, m.a. hefði hann átt gröfu, en mikið af tekjum ákærða vegna þessa  hefði verið „svart“. 

Við rannsóknina fór fram könnun á fjármálum ákærðu.  Við þá könnun kom í ljós að eyðsla ákærða Vals væri talsvert umfram uppgefnar tekjur, en flestir reikninga hans væru þó jákvæðir eða a.m.k. ekki neikvæðir.  Var meðal annars aflað gagna frá félagsmálayfirvöldum í Reykjavík um lágmarksframfærslukostnað.  D voru endurgreiddar af hinu haldlagða fé kr. 3.747.454 þar sem sýnt þótti að þeir fjármunir væru vegna greiðslu slysabóta.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði Valur Hermannsson játaði fyrir dómi að hafa staðið að ræktun kannabisplantna og vörslum á þeim og öðrum fíkniefnum eins og lýst er í ákærunni.  Upptökukröfu vegna áhalda  og muna sem notaðir hefðu verið kvaðst ákærði ekki mótmæla.  Ákærði mótmælti kröfu ákæruvalds um upptöku á peningum.  Féð væri ekki afrakstur fíkniefnasölu heldur hefði ákærði verið að vinna mikið og sú vinna hefði verið „svört“ og með því móti hefði ákærði aflað mikilla tekna á löngum tíma.  Hafi hann lagt fyrir lengi vel.  Þá hefði hann líka stundað fjárhættuspil og væri almennt mjög fégráðugur maður.  Ákærði kvaðst hafa unnið sjálfstætt sem verktaki, í jarðvegsvinnu, hellulögnum o. fl., m.a. með gröfu.  Þá hefði ákærði líka unnið að hluta sem launamaður hjá E og fengið verk gegnum hann og raunar unnið líka fyrir hann persónulega sem verktaki.  Hefði ákærði líka tekið að sér ýmis önnur verk, s.s. húsamálun og annað viðhald á húsum, t.a.m. þakrennuviðgerðir.  Þá hefði ákærði mokað snjó á vetrum.  Almenna verktakastarfsemi kvaðst ákærði hafa byrjað haustið 2005 með því að mála hús á [...] í Reykjavík og fyrir það hefði hann fengið 700.000 kr.  Hefði ákærði tekið hvað sem er að sér.  Hefði ákærði fengið greitt frá tugum þúsunda upp í mörg hundruð þúsund krónur fyrir mörg verk.  Hefði verið mikil gósentíð og nóg að gera, svo að ákærði hafi ekki komist yfir öll verk sem hann hefði getað fengið.  Hefði ákærði unnið mikinn fjölda verka fyrir mörg hundruð manns og fengið mikið greitt.  Nefndi ákærði nokkur dæmi um verk sem hann hefði unnið en nefndi ekki nákvæmar staðsetningar.  Erfitt hefði verið að biðja fólk að staðfesta þetta þar sem verkin hefðu verið unnin „svart“.  Kvaðst ákærði hafa unnið við garðavinnu frá 16 ára aldri en hafa farið að vinna sjálfstætt upp úr tvítugu og gert það langt fram eftir árinu 2008, eða allt fram að fjármálahruni því sem varð haustið 2008.  Ákærði kvaðst hafa verið með strák eða stráka með sér í vinnu.  Eftir það hafi ekki verið neitt að gera.  Ekki kvaðst ákærði hafa haldið neina ársreikninga eða neitt slíkt, enda hefði hann ekkert kunnað fyrir sér í fyrirtækjarekstri að því leyti.  Kvaðst ákærði hafa verið í „góðum málum“ fjárhagslega frá u.þ.b. 2005 en þá hafi hann virkilega farið að safna peningum.  Ekki kvað ákærði að til væru nein gögn um allt það fé sem ákærði hefði aflað með framangreindum hætti. Ákærði kvaðst hafa aflað sér verkfæra og verið með auglýsingu í Fréttablaðinu reglulega.  Fjárins í bankahólfinu kvaðst ákærði hafa aflað allt frá árinu 2005 og langt fram eftir árinu 2008.  Ákærði skýrði svo frá að hann væri í sambúð og ættu þau kona hans von á barni innan tveggja vikna.  Hafi hann ekkert brotið af sér frá því að umrædd kannabisræktun var stöðvuð.  Ákærði kvaðst reka innflutningsfyrirtæki og verslun með gróðurvörur.  Ákærði bar að D hefði átt um 5 milljónir af fénu sem hald hafi verið lagt á.  Þeir peningar hafi verið tilkomnir með vinnu og tryggingabótum vegna slyss.  Þau hafi ekki treyst bönkunum eftir fall þeirra haustið 2008 og því talið öruggara að geyma fé í bankahólfi en á reikningi.  Bankahólfið hefði hann tekið á leigu í ársbyrjun 2006 að hann minnti.  Ákærði kvaðst ekki hafa vitað neitt um það að innistæðueigendur á Íslandi hefðu átt að fá greiddar allar bankainnistæður sínar eftir svonefnt „bankahrun“.  Um þátt meðákærðu í ræktuninni vísaði ákærði til framburðar síns hjá lögreglu, en tók þó sérstaklega fram að meðákærði X hefði eiginlega ekkert komið að málinu og hans hlutur væri sama og enginn.  Enginn hefði nokkurn tíma haft nokkrar tekjur af plöntum sem lagt var hald á í málinu.

Ákærði Y gaf skýrslu fyrir dómi og játaði sakargiftir að fullu eins og þeim er lýst í ákærunni.  Kvað hann meðákærða Val vera æskufélaga sinn.  Kvað hann hugmyndina að ræktuninni hafa verið sameiginlega.  Ákærði kvaðst þekkja meðákærða X og þeir hefðu verið vinir í nokkur ár og lékju saman fótbolta.  Kvað ákærði að þáttur meðákærða X væri „eiginlega enginn“.  Hann hafi ekkert komið nálægt þessu og engar skýringar hefði hann á því hvers vegna meðákærði X væri flæktur í málið.  Meðákærði X hafi hjálpað til við að bera spýtur inn í bíl eða út úr bíl á vettvangi ræktunarinnar þegar verið var að koma upp aðstöðunni, áður en nokkur ræktun hófst, en ákærði kvaðst ekki hafa sagt honum neitt um fyrirhugaða ræktun.  Meðákærði X hafi ekki hjálpað neitt við þetta að öðru leyti.  Ekki taldi ákærði að meðákærði X hefði komið í rýmið þegar ræktunin var hafin. Ákærði X hafi engan þátt átt í þessu.   Ákærði kvaðst sjálfur hafa útvegað húsnæðið. Ákærði og meðákærði Valur hafi hjálpast að við að smíða og koma upp aðstöðunni og koma ræktuninni í gang.  Báðir hafi þeir gefið áburð og vökvað plönturnar.  Ekki hefði verið um fræ að ræða heldur afklippur og græðlinga, en meðákærði Valur hafi útvegað það.  Ákærði kvaðst vera í vinnu, en hann væri ekki í sambúð. Ekki kvaðst ákærði hafa haft tekjur af þessu og hefði ekki selt fíkniefni.  Ákærði kannaðist við að meðákærði X hefði komið með sér að [...] í eitt eða tvö skipti til að leika sér á mótorhjóli.  Ákærði kvaðst hafa staðið að brotinu í þeim tilgangi að græða sem mest fé til að koma sér upp fjármagni til að stofna löglegt fyrirtæki.  Hafi þetta átt að gerast bara einu sinni til tvisvar á sem stystum tíma í sínum huga. Byrjunin hafi verið 4-5 mánuðum áður en lögreglan komst í spilið.

Ákærði X gaf skýrslu fyrir dóminum og neitaði sakargiftum með öllu.  Ekki kvaðst ákærði skilja hvers vegna hann hefði flækst í málið.  Ákærði kvaðst vera vinur meðákærða Y síðan í grunnskóla og meðákærði Valur væri kunningi þeirra.  Ákærði kvaðst hafa farið að [...] ásamt meðákærða Y til að leika sér á fjórhjóli á ströndinni.  Eitt kvöldið hafi Valur verið á staðnum og þá hafi ákærði hjálpað báðum meðákærðu við að bera inn timbur.  Ekki hafi ákærði neitt vitað til hvers timbrið væri eða hvað ætti að gera þarna, en meðákærðu hafi beðið sig um að hjálpa sér við að bera timbrið inn í skemmuna.  Þeir hafi borið timbrið inn í skemmuna þar sem voru húsbílar og vagnar, að dyrum sem ganga að annarri skemmu en þangað inn hafi ákærði ekki komið, hvorki þá né nokkurn tíma síðar.  Ákærði kvaðst aldrei hafa séð umræddar kannabisplöntur.  Kom fram hjá ákærða að hann væri í vinnu og hefði verið á umræddum tíma.  Ekki kvaðst ákærði hafa neitt að athuga við upptökukröfu í ákæru, enda varðaði krafan hann ekki og hann gæti ekki tjáð sig neitt um hana.   

Vitnið Rúnar Þór Steingrímsson rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi gegnum síma og skýrði frá því að hafa komið að [...] og hitt þar fyrir A sem hafi vísað lögreglu á skemmu þar sem hafi verið kannabisræktun.  Minnti vitnið að A hafi sagt að ákærðu Y og X hafi leigt af sér skemmuna.  Hald hafi verið lagt á plönturnar og þær sendar tæknideild lögreglu í Reykjavík.  Heima hjá ákærða Val hafi fundist bankahólfslykill og ákærði Valur hafi opnað fyrir lögreglu bankahólfið og í því hafi verið peningar sem hafi verið lagt hald á.  Lögregla hafi farið yfir upplýsingar um tekjur frá skattyfirvöldum og bankareikninga.  Þá hafi lögregla fengið almennar upplýsingar um almennan lágmarksframfærslukostnað frá félagsmálayfirvöldum í Reykjavík. Ákærði Valur hafi borið að D ætti hluta fjárins og sjálfur hafi hann kvaðst hafa unnið í fjárhættuspilum og nurlað saman fé í gegnum tíðina.  D hafi talað um að hann hafi unnið „svarta vinnu“, en ekki mundi vitnið hvort ákærði hefði sjálfur borið um það.  Fengnar hafi verið upplýsingar frá tryggingafélögum vegna framburðar um að féð væri slysabætur og það hafi komið í ljós að hún hafi fengið slysabætur frá tveimur tryggingafélögum einhverjum árum á undan.  Haldi hafi verið aflétt og henni hafi verið endurgreitt það í samræmi við þær tölur. Ekki kvað vitnið liggja fyrir sönnunargögn um að sala fíkniefna hafi farið fram vegna framleiðslunnar á [...].

Vitnið A kom fyrir dóm og kvaðst vilja gefa skýrslu þótt honum væri það ekki skylt.  Vitnið skýrði frá því að hann hefði leigt [...]ákærða Y, húsnæðið og raunar hafi hann líka verið meðvitaður um að ákærði Valur kæmi að því líka en þeir væru æskuvinir. Hafi ákærði Y talað um að skapa sér aukatekjur við smíðar þar sem hann væri í vaktavinnu.  Kvaðst vitnið hafa verið fjarverandi meira og minna vegna eigin vinnu, en ákærði Y hafi talað við sig í júlí 2008 um að fá skemmuna leigða.  Upp úr því hafi þeir komið þangað eitthvað að dunda. Ákærði X hafi komið einu sinni með hinum um miðjan dag og þá hafi þeir verið eitthvað að bauka en verið stutt við.  Fyrst um sumarið hafi fyrst og fremst verið hreinsað út úr húsnæðinu. Í september hafi þeir komið með timbur og stál sem þeir hafi dregið að sér, ekki mundi vitnið hvort ákærði X hafi verið með í því, eða hvort þann dag hefðu þeir líka verið að leika sér á fjórhjólum eða skellinöðrum einhverskonar, en einhvern tíma hefðu þeir verið að leika sér á „krossara“.  Þeir hafi verið búnir að setja upp langt trévinnuborð en lítið annað hafi gerst.  Vitnið hafi verið mikið fjarverandi fram til loka nóvember 2008. 

Vitnið E kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að ákærði Valur hafi starfað hjá sér við malbikunarfyrirtæki á árunum 2005-2007 m.a. við að safna upplýsingum um ástand gatna og þ.u.l. Ákærði hafi starfað hjá sér sem launamaður.  Ákærði hafi verið að vinna hjá öðrum verktaka en óskað eftir vinnu hjá sér.  Kvað vitnið sér hafa verið kunnugt að ákærði hafi verið með sjálfstæðan rekstur og verið m.a. með gröfu.  Hafi vitnið fengið ákærða til að vinna m.a. í sínum eigin garði, en vitnið hafi vitað til þess að ákærði Valur hafi unnið mikið sjálfstætt á þessum tíma og hafi vitnið raunar vísað á ákærða um ýmis verk. Ekki vissi vitnið hvernig hefði verið greitt fyrir þau verk.  Kvaðst vitnið hafa greitt ákærða „svart“ fyrir þá vinnu sem ákærði hafi unnið fyrir hann prívat og með reiðufé en enginn reikningur hafi verið gefinn út, en það hafi hentað báðum vel.  Vitnið kvaðst hafa verið í ágætu sambandi við ákærða Val og hann hafi beðið sig um að bera vitni fyrir dóminum.  Vitnið kvaðst muna til þess að ákærði hafi verið með smágröfu en mundi ekki glögglega eftir frekari tækjabúnaði. 

Vitnið D kom fyrir dóminn og kvaðst vildi gefa skýrslu þó sér væri það óskylt.  Hún skýrði svo frá að hún hafi átt tæpar 5 milljónir króna í bankahólfi því sem að framan er lýst og um getið.  Það fé hafi fyrst og fremst verið tilkomið vegna bóta sem hún hafi fengið vegna tveggja bílslysa sem hún hafi lent í með stuttu millibili, en hún hafi slasast talsvert.  Hafi hún fengið greiddar rúmar 3 milljónir í bætur vegna slysanna, en auk þess hafi verið upp undir 2 milljónir sem hún hafi lagt fyrir með vinnu. Hafi bæturnar verið greiddar á árinu 2007 og lagðar inn á reikning.  Hún hafi tekið út af reikningnum af og til.  Hafi hún verið að safna peningum til að geta lokið háskólanámi sínu án þess að þurfa að taka námslán. Eftir fall bankanna haustið 2008 hafi hún ekki treyst bönkunum og því ekki vilja geyma fé sitt á bankareikningum heldur talið öruggara að geyma féð í bankahólfinu hjá ákærða Val, [...].  Hún hafi látið ákærða hafa peningana til að setja þá í bankahólfið. Ekki mundi vitnið nákvæmlega hve lengi ákærði hefði verið með bankahólfið [...].  Ákærði hafi starfað „svart“ [...], en hann hafi þó ekki farið að vinna mikið fannst henni fyrr en árið 2007, en þá hafi hann farið að vinna mjög mikið og unnið „svart“.  Hafi ákærði unnið með gröfunni og fengið stráka til að hjálpa sér.  Ekki vissi vitnið nákvæmlega hvernig verk var um að ræða en nefndi þó hellulagnir.  Taldi vitnið að ákærði hefði verið með mjög góðar tekjur á árunum 2007 og 2008.  Megnið af afrakstrinum hafi farið í bankahólfið [...]. Ekki vissi vitnið fyrir hverja hefði verið unnið en greiðslur hefðu verið „svartar“.  Vitnið taldi þó að ekki hefðu allar tekjur ákærða verið „svartar“, en ekki gat hún sagt til um hve stór hluti tekna hans væri eða hefði verið „svartur“.  Vitnið kvaðst hafa séð launaseðla hjá ákærða.  Ekki vissi vitnið til þess að ákærði hefði nokkurn tíma verið með tekjur af fíkniefnasölu, en nokkur kostnaður hafi hins vegar farið í að setja upp aðstöðuna til ræktunarinnar. Vitnið kvaðst hafa haft launatekjur sem rekstrarstjóri hjá [...] og svo hafi hún verið verslunarstjóri eitt sumar og svo hafi hún unnið hjá [...]. [...]  Hafi hún tekið bæturnar smám saman út af reikningum og sett í bankahólfið og eytt að einhverju leyti. Vitnið gat ekki gert fulla grein fyrir mismun á tekjum samkvæmt skattframtali og innlögnum á reikning sinn annars vegar og eyðslu skv. korta- og bankayfirlitum hins vegar.  

Vitnið Elís Kjartansson lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að lögregla hafi fengið upplýsingar um hugsanlega stórfellda ræktun fíkniefna í [...].  Eftirgrennslan beindi grun að [...] og fljótlega hafi lögregla farið þangað.  Hafi A tekið á móti þeim og opnað þeim leið í skemmu þar sem hafi verið mikið af kannabisplöntum  A hafi upplýst að fyrir þessu stæðu [Y] og félagar hans. Ekki mundi vitnið hvort nöfn voru þá nefnd og þá hvaða nöfn.  Vitnið taldi fráleitt að plönturnar hafi verið hugsaðar til einkaneyslu.

Vitnið Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að hafa hitt A á [...] strax á vettvangi.  Ekki hafi þetta virst koma A á óvart, en hann hafi vísað lögreglu á plönturnar.  Vitnið minnti að A hafi sagt frá því að [Y], ásamt ákærðu Val og X væru með húsnæðið til afnota.  Lokað hafi verið inn í rýmið þar sem kannabisplönturnar voru og það þannig sérskilið frá öðrum hlutum skemmunnar.  

Vitnið Elín Jóhannsdóttir lögreglumaður kom fyrir dóminn og skýrði frá því að hafa komið að [...] þegar lögregla kom þangað og fann umrædda ræktun.  A á [...] hafi vísað beint á ræktunina. Ekki gat vitnið svarað því hverja A hafi nefnt sem fyrirsvarsmenn ræktunarinnar, en samskipti við hann hafi einkum verið á hendi Elís Kjartanssonar og Sveins Kristjáns Rúnarssonar.

Niðurstaða.

Krafa verjanda X um frávísun ákæru vegna ákærða kom fram undir aðalmeðferð og verður fjallað um hana hér án sérstaks úrskurðar.

Frávísunarkrafan byggir annars vegar á því að rannsókn málsins hafi verið ábótavant og hins vegar á því að verknaðarlýsing í ákæru sé ófullkomin og ekki í samræmi við rannsóknargögn.

Í 53. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 kemur fram að það skuli vera markmið lögreglurannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að taka ákvörðun um saksókn og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi.  Það er mat dómsins að almennt sé áskilnaði ákvæðisins fullnægt í máli þessu og að rannsókn málsins hafi náð því markmiði að upplýsa málið nægilega til að ákvörðun um saksókn yrði tekin gagnvart hverjum og einum sakborninga.  Það breytir þó ekki því að rannsókn á verkaskiptingu og ætluðum þætti ákærða X er ekki eins rækileg og ákjósanlegt hefði verið, einkum með hliðsjón af því að hann neitaði sakargiftum hjá lögreglu.  Rétt hefði verið að rannsaka betur ætlaðan þátt hans.

Verjandi hefur auk þessa byggt frávísunarkröfu sína á því að verknaðarlýsing í ákæru sé ófullkomin og ekki í samræmi við gögn málsins. 

Verknaðarlýsing í ákæru er á þann veg að hún byggir ljóslega á því að ákærðu hafi unnið allt verkið í sameiningu og ekki haft með sér sérstaka verkaskiptingu, en ekki verður séð að ákæru sé áfátt miðað við að ákæra byggi á þessu.  Líkt og um fyrri röksemdir verjanda ákærða X um frávísun má segja að rannsókn málsins hefði mátt vera fyllri hvað varðar þátttöku hvers og eins hinna þriggja ákærðu.  Ekki verður þó talið að málsvörn ákærða X hafi orðið áfátt af þessum sökum, en sönnunarfærsla fer fram fyrir dómi. 

Með hliðsjón af því hvernig málið er vaxið þykja ekki vera næg efni til að vísa málinu frá af þessum sökum.   

Ákærði X hefur frá upphafi staðfastlega neitað öllum áburði um þátttöku í framangreindum brotum.  Hann hefur skýrt frá því að hann hafi hjálpað við að bera timbur, sem hann hafi ekki vitað neitt um hvað átti að nota, og að hann hafi komið að [...] til að leika sér á mótorhjóli eða fjórhjóli þar í fjörunni, en æskuvinur hans, ákærði Y, [...] að [...].  Við lögreglurannsókn málsins kom fram óljós framburður vitnisins JA um að ákærði X hafi verið með á leigu, ásamt ákærða Y, þá aðstöðu sem kannabisplönturnar voru ræktaðar í.  Ekki bar hann þó um aðild eða þátttöku ákærða X í framangreindum brotum.  Fyrir dómi bar vitnið aðeins að hann hefði leigt syni sínum, ákærða Y, umrætt húsnæði, en bar ekki um að ákærði X hafi jafnframt verið leigutaki.  Hann bar jafnframt að ákærði X hafi komið a.m.k. einu sinni austur að [...] á þessum tíma, en það er í samræmi við framburð ákærða X sjálfs um að hann hafi komið að [...] í þeim tilgangi að leika sér á fjórhjóli eða torfærumótorhjóli þar í fjörunni.

Ákærði Valur bar um það í upphafi lögreglurannsóknarinnar að þeir allir þrír ákærðu hefðu staðið að umræddri ræktun og engir aðrir.  Ekki lýsti hann þó neinum sérstökum athöfnum eða aðgerða ákærða X í því sambandi, en sagði að þeir hafi séð um uppskeru og séð um ræktunina.  Í síðari framburðarskýrslu sinni hjá lögreglu bar ákærði Valur að hlutur ákærða X væri mjög lítill.  Fyrir dómi bar ákærði Valur svo að ákærði X hafi eiginlega ekkert komið að málinu og hans hlutur væri sama og enginn.

Ákærði Y skýrði frá því hjá lögreglu að ákærði X hafi nokkrum sinnum komið að [...] um veturinn 2008-2009 og að hann hafi hjálpað við að bera inn það sem notað var við uppsetningu ræktunarinnar, eða „þetta drasl“ svo vitnað sé orðrétt til framburðarskýrslunnar.  Að öðru leyti tjáði hann sig ekki um meintan þátt ákærða X í framburði sínum hjá lögreglu.  Fyrir dómi skýrði ákærði Y svo frá að þáttur ákærða X væri „eiginlega enginn“ og að hann hafi ekkert komið nálægt þessu, að frátöldu því að bera inn spýtur þegar verið var að koma upp aðstöðunni áður en nokkur ræktun hófst en ákærða X hafi ekkert verið sagt um það hvað stæði fyrir dyrum.  Hann bar jafnframt að ákærði X hafi komið að [...] einu sinni til tvisvar um veturinn til að leika sér á mótorhjóli, en hann hafi ekki komið í það húsnæði sem ræktunin var í og hafi ekki séð umræddar plöntur.

Það er mat dómsins, að virtum ofangreindum framburðum, einkum þeim framburðum sem gefnir hafa verið fyrir dóminum, að ákæruvaldinu hafi ekki tekist sönnun þess að ákærði X hafi gerst sekur um neitt það sem honum er gefið að sök í ákærunni, en líta ber jafnframt til þess að meðal rannsóknargagna málsins er ekkert sem rennir stoðum undir þátttöku ákærða X í brotunum.  Ber því að sýkna ákærða X af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Ákærðu Valur og Y hafa báðir játað það undanbragðalaust að hafa gerst sekir um það sem þeim er gefið að sök.  Hafa þeir báðir lýst nokkuð sinni þátttöku í brotunum.  Þykir játning þeirra vera í samræmi við önnur gögn málsins og hefur ekkert það komið fram sem dregið geti úr trúverðugleika játningar þeirra og framburðar um þetta  Þykir vera sannað að þeir hafi gerst sekir um þau brot sem þeim eru gefin að sök í ákærunni og varðar við þau refsiákvæði sem vísað er til, að undanskildu því að réttara hefði verið að vísa til 4. gr. en til 4. gr. a. í lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sem þykir þó ekki koma að sök.  Hafa báðir ákærðu Valur og Y þannig unnið sér til refsingar.

Ákærði Valur hefur samfelldan sakaferil frá árinu 2003.  Það ár var hann tvívegis sektaður, annars vegar um 250.000 kr. vegna fíkniefnabrots og hins vegar um 70.000 kr. vegna ölvunaraksturs.  Árið 2004 hlaut ákærði 30 daga fangelsisrefsingu fyrir hegningarlagabrot og 100.000 kr. sekt fyrir fíkniefnabrot.  Enn hlaut ákærði 49.000 kr. sektarrefsingu fyrir fíkniefnabrot á árinu 2005 og á árinu 2006 voru ákærða þrívegis gerðar sektarrefsingar samtals kr. 665.000 fyrir fíkniefnabrot og umferðarlagabrot.  Á árinu 2007 var ákærði dæmdur í 75.000 kr. sekt fyrir líkamsárás, og gekkst undir tvær lögreglustjórasáttir, 110.000 kr. sekt fyrir umferðarlagabrot og 28.000 kr. fyrir fíkniefnabrot.  Á árinu 2008 var ákærði dæmdur til að greiða 260.000 kr. sekt fyrir of hraðan akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk þess sem hann gekkst það ár undir 28.000 kr. sektargreiðslu með lögreglustjórasátt fyrir fíkniefnabrot.  Þann 27. október 2009 gekkst ákærði undir tvær lögreglustjórasáttir, annars vegar 128.000 kr. sekt fyrir fíkniefnabrot og umferðarlagabrot og hins vegar 38.000 kr. sekt fyrir fíkniefnabrot.  Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi þann 2. desember 2009 fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptingarakstur.  Ber með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að ákveða ákærða hegningarauka nú vegna þriggja síðustu refsinga.

Ákærði Y hefur sex sinnum gengist undir lögreglustjórasáttir.  Fyrst árið 2002, 80.000 kr. sekt fyrir ölvunarakstur, tvívegis á árinu 2003, annars vegar 28.000 kr. sekt fyrir fíkniefnabrot og hins vegar 60.000 kr. sekt fyrir sviptingarakstur, einu sinni árið 2005, kr. 50.000 fyrir of hraðan akstur og tvisvar á árinu 2008, fyrst 19. ágúst, 28.000 kr. fyrir fíkniefnabrot og svo 28. nóvember, 140.000 kr. fyrir of hraðan akstur.

Ákærðu Valur og Y hafa báðir játað brot sín hreinskilnislega og undanbragðalaust.  Brot þeirra eru stórfelld og skipulögð, en þeir þurftu að útvega sér húsnæði og leggja í kostnað og fyrirhöfn til að koma fram brotum sínum sem voru framin á alllöngum tíma.  Verður ekki annað ráðið en að brotin hafi verið framin í hagnaðarskyni, eins og raunar kom berlega fram í framburði ákærða Y.  Engan greinarmun er unnt að gera á þátttöku þeirra í brotinu og hefur ekkert annað komið fram en að þeir hafi staðið saman að brotinu í öllum meginatriðum.  Nokkuð er um liðið, eða um eitt og hálft ár, síðan lögregla stöðvaði ræktunina og lagði hald á plönturnar.  Þá frömdu þeir brot sitt í sameiningu, en það ber að jafnaði að taka til þyngingar á refsingu, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þykir hæfileg refsing beggja ákærðu vera ákveðin fangelsi í 20 mánuði fyrir hvorn um sig og þykja ekki standa rök til þess að skilorðsbinda refsingu að neinu leyti og er þá litið til umfangs brotsins og einbeitts brotavilja ákærðu, sem frömdu brot sitt í hagnaðarskyni.  Þá þykir sakaferill ákærðu, einkum þó ákærða Vals, ekki gefa tilefni til þess að binda refsingar ákærðu skilorði.

Í ákæru er krafist upptöku á þar tilgreindum fjármunum sem ætluðum hagnaði af fíkniefnasölu.  Ákærði Valur, sem upptökukrafan beinist að, hefur mótmælt upptökukröfunni.  Á þeim tíma sem brotið var framið og allt til þess að lögregla stöðvaði ræktunina og lagði hald á plönturnar þann 23. mars 2009 var ákvæði 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 óbreytt og var þá heimilt að gera upptækan ávinning sem aflað hefði verið með broti og enginn ætti löglegt tilkall til.  Samskonar ákvæði eru og voru í 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. reglugerðar nr. 233/2001.  Sambærilegt ákvæði er nú í 69. gr. almennra hegningarlaga, en fleiri ákvæði hafa nú komið til með rýmri heimildum til upptöku og tóku þau gildi eftir að brotið var framið.  Með hliðsjón af meginreglunni um bann við afturvirkni refsilaga verður niðurstaða um upptökukröfuna byggð á lögum eins og þau voru þegar brotið var framið og verður ekki litið til síðar til kominna ákvæða.

Ekki er í málinu ákært fyrir sölu á fíkniefnum og liggur ekkert fyrir um að ákærðu hafi fengið uppskeru af plöntunum, þó svo kunni að vera.  Hafa þannig ekki verið færðar neinar sönnur á að hagnaður hafi orðið af brotinu, þó svo að það hafi almennt verið til þess fallið að skila miklum ávinningi.  Þó svo að skýringar ákærða á tilurð fjárins kunni að virðast ótrúverðugar og lúti meira og minna allar að skattundanskotum og fjárhættuspilum, þá breytir það ekki því að engar sönnur hafa verið færðar á það að ávinningur hafi orðið af brotinu eða að fjárins hafi að öðru leyti verið aflað með fíkniefnasölu.  Er því óhjákvæmilegt að sýkna ákærða Val af kröfu ákæruvaldsins um að tilgreindir peningar verði gerðir upptækir.

Ákærðu hafa ekki mótmælt kröfu ákæruvaldsins um upptöku fíkniefna og búnaðar og ber að fallast á hana skv. tilvitnuðum ákvæðum eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærðu Valur og Y hafa verið sakfelldir skv. ákæru og ber að dæma þá til greiðslu sakarkostnaðar sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Ber þó að taka tillit til þess að ákærði Valur er sýknaður af kröfu um upptöku framangreindra haldlagðra peninga.  Við rannsókn málsins féll til kostnaður að fjárhæð kr. 139.961, sem er annars vegar kostnaður vegna rannsóknar og efnagreiningar á fíkniefnum, en hins vegar vegna ljósritunar og fjölritunar gagna.  Ber að dæma ákærðu Val og Y til greiðslu hans in solidum sbr. 2. mgr. 219. gr. laganna.  Þá ber að dæma ákærðu Val og Y til greiðslu málsvarnarlauna skipaðra verjenda sinna. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Vals, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., ákveðast kr. 300.000, en af því greiði ákærði Valur kr. 250.000 en kr. 50.000 greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Brynjars Níelssonar hrl., ákveðast kr. 250.000 og ber ákærða Y að greiða alla fjárhæðina. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Bjarna Haukssonar hrl., kr. 250.000, greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun eru öll ákveðin að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður flutti málið af hálfu ákæruvalds.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Kröfu ákærða, X, um frávísun er hafnað.

Ákærði, X, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Ákærði, Valur Hermannsson, skal vera sýkn af kröfu ákæruvalds um upptöku á kr. 11.895.000,- og 7.265 evrum að frádregnum kr. 3.747.454,- sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði, Valur Hermannsson, sæti fangelsi í 20 mánuði.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 20 mánuði.

Upptækar til eyðingar skulu 493 kannabisplöntur, 2.706.9 g af kannabislaufum og 10,98 g af hassi, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 15457.

Ákærðu Valur og Y sæti upptöku á eftirtöldum munum sem notaðir höfðu verið eða ætlaðir voru til ólögmætrar ræktunar kannabisjurta og meðferðar fíkniefna og uppsetningar á búnaði til ræktunar fíkniefna, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins:

1.       9 x 20 ltr brúsa af Voeding gróðurvökva

2.       6 x 10 ltr brúsa af Atazyne gróðurvökva

3.       2 x 5 ltr brúsa af Wortel gróðurvökva

4.       2 x 1 ltr brúsa af Ataclean gróðurvökva

5.       1 x 1 ltr brúsa af GHE gróðurvökva

6.       1 brúsa af silicate vökva

7.       8 plaströr 5,90 metrar að lengd, hvert

8.       32 götuð plaströr 3,71 metrar að lengd, hvert

9.       31 plaströr 1,39 metrar að lengd, hvert

10.    12 Gatvita hitalampar

11.    1 stór kassi af svörtum plastpottum

12.     3 Flotec FP7KV vatnsdælur

13.    1 Top 2 Pedrollo vatnsdælu

14.    2 SN-001155 viftur

15.    1 Bomann vifta

16.    1 Bosch Aquatak dæla

17.    10,4 metrar af 6 tommu plastbarka

18.    2 klaufhamrar

19.    1 Kaz blásari

20.    1 Kassel blásari

21.    36 metra af garðyrkjuslöngum

22.    heimatilbúin rafmagnstafla

23.    1 hvítur rafmagnsofn

24.    4 pakkar af grænu rótarneti

25.    1 kassi af rafmagnssnúrum og tengjum

26.    6 slöngubútar

27.    3 gráir blásarar með börkum

Ákærðu Valur og Y greiði in solidum kr. 139.961 í sakarkostnað, og auk þess ákærði Valur kr. 250.000 af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., sem ákveðast alls kr. 300.000 og greiðast kr. 50.000 úr ríkissjóði, og ákærði Y málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Brynjars Níelssonar hrl., kr. 250.000.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Bjarna Haukssonar hrl., kr. 250.000, greiðist úr ríkissjóði.